Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Tryggingarbréf
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 285/2002. |
Sparisjóður Vestfirðinga(Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Eyjólfi Þór Jónssyni (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Tryggingarbréf.
E gaf út tryggingarbréf til SV þar sem hann setti nánar tilgreinda lausafjármuni að veði til tryggingar skuldum sínum við SV allt að fjárhæð 500.000 krónur. Talið var að SV gæti ekki á grundvelli tryggingarbréfsins krafist nauðungarsölu á umræddum lausafjármunum, vegna yfirdráttar E á ávísanareikningi hans hjá SV, þar sem krafa SV væri ekki nægilega tilgreind í bréfinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. maí 2002, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 13. apríl sama árs um að hafna beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu á nánar tilgreindum lausafjármunum varnaraðila. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og honum gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. maí 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 14. maí, barst dómnum með bréfi Guðmundar Kristjánssonar hrl., dags. 19. apríl 2002.
Sóknaraðili málsins er Sparisjóður Vestfirðinga (áður Sparisjóður Önundarfjarðar), Ránargötu 1, 425 Flateyri. Varnaraðili er Eyjólfur Þór Jónsson kt. 050756-5489, Miðbraut 10, Hrísey og til réttargæslu sýslumaðurinn á Akureyri kt.490169-4749, Hafnarstræti 107, Akureyri.
Kröfur sóknaraðila eru þær að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri um að hafna nauðungarsölubeiðni hans verði felld úr gildi og umrædd beiðni tekin til greina. Þá krefst hann þess að sýslumaðurinn á Akureyri greiði honum málskostnað.
Ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila, Eyjólfs Þórs. Af hálfu sýslumanns eru ekki hafðar uppi sjálfstæðar kröfur, en vísað er til bréfs sýslumannsins á Akureyri dags. 13. apríl 2002, varðandi afstöðu hans í málinu.
Málavextir eru þeir að með tryggingarbréfi, útgefnu þann 2. október 2000, veitti varnaraðili, Eyjólfur Þór Jónsson, sóknaraðila Sparisjóði Önundarfjarðar veð í rafstöð og rafsuðu af gerðinni Mosa TS SC/EL ásamt tilheyrandi tækjum, til tryggingar skuldum sínum við Sparisjóðinn. Samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfsins var veðinu ætlað að standa til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem varnaraðili þá eða síðar, á hvaða tíma sem er, kynni að skulda eða ábyrgjast sóknaraðila, hvort sem væru víxilskuldir, yfirdráttur á tékkareikningi, skuldabréfalán, afurðalán, hvers konar veittar ábyrgðir, erlend endurlán eða hvers konar aðrar skuldir hans við sóknaraðila, allt að fjárhæð kr. 500.000,- . Þann 28. nóvember 2001 nam heimildarlaus yfirdráttur á tékkareikningi varnaraðila skv. reikningsyfirliti Sparisjóðsins kr. 7.085.536,53. Sóknaraðili beindi greiðsluáskorun til varnaraðila dags. 8. janúar 2002 þar sem tilkynnt var um gjaldfellingu yfirdráttar. Greiðslu var krafist innan 15 daga, og áréttað að ella yrði nauðungarsölu krafist án frekari tilkynninga. Þann 20. febrúar 2002, barst svo sýslumanninum á Akureyri beiðni sóknaraðila, Sparisjóðs Vestfirðinga, dags. 12. s.m., um nauðungarsölu á fyrrnefndri rafstöð og rafsuðu ásamt tilheyrandi tækjum.
Með bréfi sýslumanns, dags. 13. apríl 2002, var beiðni sóknaraðila hafnað með vísan til 2. mgr 13. gr sbr. 2.tl. 1. mgr 6. gr laga nr. 90/1991, þar sem tryggingabréfið sem beiðnin byggði á, fullnægði ekki skilyrði um nægilega tilgreiningu skuldar þeirra sem það skyldi tryggja.
Með bréfi Guðmundar Kristjánssonar hrl., dags. 19. apríl 2002, skaut hann ákvörðun sýslumanns til úrlausnar héraðsdóms Norðurlands eystra með vísan til 73.gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Þar gerði hann þá kröfu fyrir hönd sóknaraðila, Sparisjóðs Vestfirðinga, að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns og honum gert að taka umrædda beiðni til greina. Jafnframt gerði hann kröfu um fullan málskostnað skv. 129.-131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 úr hendi sýslumannsins.
Álit dómsins:
Í 2. tl 1. mgr 6. nauðungarsölulaga nr. 90/1991 er að finna heimild til að krefjast nauðungarsölu á eign til fullnustu kröfu skv. þinglýstum samningi um veðrétt í henni fyrir tiltekinni peningakröfu, ef berum orðum er tekið fram í samningnum, að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Heimild þessi felur í sér sérstakt hagræði fyrir kröfuhafa, en til þess að þessu úrræði verði beitt, eru gerðar ríkar kröfur til skýrleika viðkomandi nauðungarsöluheimildar. Til að tryggingabréf fullnægi þessum áskilnaði, verður það að veita veðrétt í eign fyrir ákveðinni peningakröfu sem lýst er í tryggingabréfinu þó önnur skilríki séu fyrir kröfunni.
Tryggingabréf það sem um ræðir í máli þessu, fullnægir að mati dómsins ekki ofangreindum skilyrðum. Bréfið felur í sér svokallað allsherjarveð, þar sem kröfuhafa, Sparisjóði Önundafjarðar, er veittur veðréttur fyrir margs konar kröfum sínum á hendur varnaraðila, Eyjólfi Þór Jónssyni, án sérstakrar afmörkunar á hverri kröfu fyrir sig. Samkvæmt ummælum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna er það skilyrði áréttað að tryggingabréfið sem slíkt þurfi að taka af tvímæli um fyrir hverri skuld sé verið að veita þessa heimild. Jafnframt kemur þar fram að slík allsherjarveð uppfylli ekki kröfur ákvæðis 2. tl. 1. mgr 6. gr. laga nr. 90/1991 um nægjanlega tilgreiningu þeirrar peningakröfu sem viðkomandi veði er ætlað að tryggja.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ákvörðun sýslumanns um að hafna nauðungarsölubeiðni sóknaraðila staðfest.
Sýslumaðurinn á Akureyri, er ekki aðili að máli þessu. Krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi hans á þannig ekki við lagarök að styðjast og ber að hafna henni af þeim sökum.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri
Á L Y K T A R O R Ð:
Ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, dags. 13. apríl 2002, um að hafna beiðni Sparisjóðs Vestfirðinga um nauðungarsölu á rafstöð og rafsuðu af gerðinni Mosa TS SC/EL ásamt tilheyrandi tækjum, í eigu varnaraðila Eyjólfs Þórs Jónssonar, er staðfest.
Kröfu sóknaraðila um málskostnað er hafnað.