Hæstiréttur íslands
Mál nr. 678/2013
Lykilorð
- Lögbann
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn
20. mars 2014. |
|
Nr.
678/2013. |
Friðjón Björgvin Gunnarsson og Gegn einokun ehf. (Vilhjálmur
Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn Skakkaturni ehf. (Sigurður G.
Guðjónsson hrl.) |
Lögbann. Aðildarskortur.
S ehf. höfðaði mál gegn F og G ehf. til staðfestingar á
lögbanni við því að F og G ehf. byðu til kaups og seldu hér á landi vörur
framleiddar af A Inc. Í dómi Hæstaréttar kom fram að
S ehf. ætti ekki þann lögvarða rétt sem hann teldi F og G ehf. hafa brotið gegn
heldur A Inc. og var ekki talið að aðild S ehf. að
málinu yrði leidd af svokölluðum dreifingaraðilasamningi milli S ehf. og A Inc. Voru F og G ehf. því sýknuð af kröfum S ehf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason
og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. október 2013. Þeir krefjast aðallega
sýknu af kröfu stefnda. Til vara er þess krafist að lögbann sem sýslumaðurinn í
Reykjavík lagði 25. janúar 2013 við því að áfrýjendur bjóði til kaups og selji
hér á landi vörur framleiddar af Apple Inc., sem bera
skráð alþjóðlegt vörumerki Apple Inc. með alþjóðlega
skráningarnúmerinu 851679, verði fellt úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar í
héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandinn Gegn einokun ehf. hét 1949 ehf. er hinn áfrýjaði dómur
gekk.
Stefndi er viðurkenndur dreifingaraðili fyrir Apple vörur á Íslandi
samkvæmt svokölluðum dreifingaraðilasamningi sem undirritaður var 21. júní og
15. júlí 2011 við Apple Sales International,
en það fyrirtæki er í samningnum nefnt ,,Apple“. Stefndi reisir aðild sína að
málinu á samningi þessum. Í grein 2.5. hans segir í íslenskri þýðingu að stefndi
kaupi og endurselji í eigin nafni og á eigin kostnað sem óháður verktaki og
,,skal ekki hafa neitt vald ... til að skuldbinda Apple eða gera ráð fyrir eða skapa
skuldbindingu eða ábyrgð ... fyrir hönd Apple eða í nafni Apple eða
dótturfyrirtækja Apple.“ Í grein 3.5. er mælt fyrir um að stefndi skuli
tilkynna Apple tafarlaust um alla ... galla á vörunum, öll brot á réttindum
Apple samkvæmt notendaleyfum fyrir vörurnar eða allar kröfur eða málarekstur
... varðandi vörurnar“ og í grein 3.7 að stefndi skuli tafarlaust tilkynna
Apple allan innflutning eða grun um innflutning á Apple vöru sem Apple hafi
ekki heimilað sölu á eða markaðssetningu á svæðinu. Í grein 7.2.1. segir að dreifingaraðili
viðurkenni að hann hafi ekki greitt neina þóknun fyrir notkun merkja Apple,
höfundarrétt, einkaleyfisrétt eða annan hugverkarétt og að ekkert í samningnum
veiti stefnda nokkurn rétt, réttindi eða hagsmuni, lagalega eða rétthafalega í
þeim. Þá segir í grein 7.4. að stefndi skuldbindi sig til að kappkosta að
vernda hugverkarétt Apple og vinna með Apple án kostnaðar fyrir fyrirtækið til
að vernda hugverkarétt þess.
Mál þetta er höfðað til staðfestingar á lögbanni sem Sýslumaðurinn í Reykjavík
lagði 25. janúar 2013 við því að áfrýjendur byðu til kaups og seldu hér á landi
vörur framleiddar af Apple Inc. Stefndi á ekki þann
lögvarða rétt sem hann telur áfrýjanda hafa brotið gegn, heldur Apple Inc. Bandaríkjunum og verður aðild hans að málinu ekki
leidd af framangreindum samningi. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna
áfrýjendur af kröfu stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum
málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í
dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Friðjón Björgvin Gunnarsson og Gegn einokun ehf., eru sýknir af
kröfu stefnda, Skakkaturns ehf.
Stefndi greiði áfrýjendum hvorum um sig samtals 500.000 krónur í
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2013.
Mál
þetta, sem var dómtekið 2. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
af Skakkaturninum ehf., Laugavegi 182, Reykjavík á
hendur 1949 ehf. og Friðjóni Gunnari
Björgvinssyni, Hrísríma 5, Reykjavík, með réttarstefnu dagsettri 1. febrúar
2013.
Stefnandi
krefst þess að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn
25. janúar 2013 við því að stefndu, 1949 ehf. og Friðjón Björgvin Gunnarsson,
bjóði til kaups og selji hér á landi vörur framleiddar af Apple Inc., sem bera skráð alþjóðlegt vörumerki Apple Inc., með alþjóðlega skráningarnúmerinu 851679.
Þá
krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sameiginlega (in solidum) hæfilegt endurgjald,
fyrir hagnýtingu alþjóðlegs vörumerkis Apple Inc.,
með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr.
38/2001 frá 7. mars 2013 til greiðsludags.
Þá
er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum
stefnanda. Til vara er þess krafist að synjað verði um staðfestingu á lögbanni
sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði, 25. janúar 2013, við sölu stefndu á vörum
Apple Inc. hér á landi, og að lögbannið verði fellt
úr gildi.
Stefndu gera þá kröfu að dómkrafa stefnanda, þess
efnis að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til þess að greiða stefnanda hæfilegt
endurgjald fyrir hagnýtingu á vörumerkinu Apple Inc.,
verði vísað frá dómi.
Þá er krafist málskostnaðar.
I
Apple er skráð alþjóðlegt vörumerki með
skráningarnúmerinu MP-851679, er nær til Apple vara.
Það eru meðal annars borðtölvur, fartölvur, símar, hugbúnaður og ýmiss konar
lausafjármunir og hugbúnaður.
Stefnandi kveðst vera viðurkenndur
dreifingaraðili fyrir vöru frá Apple Inc. Infinite Loop, Cupertino, CA. 95014, Bandaríkjunum
og telur að dreifing hans á Apple vörum lúti ströngum skilmálum. Stefnandi
kveðst þó sætta sig við að Apple fái öðrum aðila á Íslandi dreifingarrétt að
Apple vöru. Hann þurfi líka að sætta sig við, að aðrir viðurkenndir
dreifingaraðilar innan EES-ríkja geri samning við endursöluaðila hér á landi
samkvæmt þeim reglum sem Apple setji dreifingaraðilum sínum. Stefnandi heldur
því fram að frá öðrum en þessum aðilum þurfi hann hins vegar ekki að sæta
samkeppni um sölu á Apple vöru á Íslandi.
Á síðasta ári hóf stefndi, 1949 ehf., sölu á
Apple vörum á heimasíðunni buy.is undir slagorðinu
,,Veldu samkeppni og verslaðu Apple hjá Buy.is.“ Á
heimasíðu buy.is var notað skráð vörumerki Apple og
Apple borðtölvur, Apple fartölvur, Airport, ipadmini, ipad 4 kynslóða með Retina, skjáir og fleira boðið til kaups. Lénið buy.is er skráð á stefnda, Friðjón Björgvin Gunnarsson.
Fyrir jólin 2012 kom út fjórblöðungur þar sem
vísað var til buy.is/1949 ehf. og Apple vara boðin
til kaups m.a. undir slagorðunum ,,lægra verð fyrir þig“ og ,,ódýra eplabúðin
þín“. Um var að ræða MacBook Pro
13,3, IPhone 5 í þremur mismunandi gerðum, ipadmini, iPad (4) Retina, iMac 21,5“ og iMac 27“, MacBook Pro 15“ Retina, iPod Nano, Apple TV, Mac Mini, iPod
Touch og fleiri vörur.
Viðskiptin fóru þannig fram að buy.is var ekki seljandi þeirrar vöru sem auglýst var á
heimasíðunni og í fjórblöðungnum, heldur voru vörureikningar gefnir út í nafni
stefnda, 1949 ehf. Þá var þess óskað í tölvupóstum frá stefnda, Friðjóni
Björgvini Gunnarssyni, að andvirði seldrar vöru yrði greitt í Bandaríkjadölum
inn á reikning félagsins China 4You Limited, sem stefndi, Friðjón Björgvin Gunnarsson, á í Hong Kong.
Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 11.
desember 2012 krafðist stefnandi þess að sýslumaður legði lögbann við því að
stefndu byðu til kaups og seldu hér á landi vöru framleidda af Apple sem bæru
skráð alþjóðlegt vörumerki Apple. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst hinn 25.
janúar sl. á lögbannskröfuna og lagði lögbann við því að stefndu byðu til kaups
og seldu hér á landi vörur framleiddar af Apple Inc.,
sem bera skráð alþjóðlegt vörumerki félagsins númer 851679.
Með vísan til framangreinds og 36. gr. laga um
kyrrsetningu og lögbann nr. 31/1991 gaf Héraðsdómur Reykjavíkur út réttarstefnu
til staðfestingar lögbannsins
II
Stefnandi kveðst allt frá desember 2008 vera
viðurkenndur dreifingaraðili fyrir vöru frá Apple Inc.
Infinite Loop, Cupertino, CA. 95014,
Bandaríkjunum, hér eftir Apple, sbr. dreifingarsamning við Apple Sales International, Hollyhill Industrial Estate, Hollyhill, Cork, Írlandi, sem undirritaður var 21. júní og 15. júlí
2011. Apple sé skráð alþjóðlegt vörumerki með skráningarnúmerinu MP-851679, þar sem tilfærðar séu vörur, sem
vörumerkjaréttur félagsins nær til. Apple vörur séu m.a. borðtölvur, fartölvur,
símar, hugbúnaður og ýmis konar lausafjármunir og hugbúnaður.
Stefnandi kveður að hugtakið vara, sem hann sé
viðurkenndur dreifingaraðili fyrir á Íslandi, sé skilgreint í 1. kafla
samningsins ,,Definations and
Interpretation“ 21. mgr. ,,Products“
í áðurgreindum samningi stefnanda við Apple Sales International. Samningurinn hafi leyst af hólmi
dreifingarsamning milli sömu aðila, sem undirritaður hafði verið 12. desember
2008 í Reykjavík og 18. desember sama ár í Cork á
Írlandi. Samkvæmt samningum þessum sé Apple vara hvers kyns vélabúnaður,
hugbúnaður og þjónusta, sem dreifingaraðili má kaupa af Apple hverju sinni
(einnig vörur þriðja aðila) sem Apple ákveður.
Stefnandi tekur fram að allur innflutningur og
dreifing hans á Apple vöru samkvæmt dreifingarsamningnum lúti ströngum
skilmálum. Stefnandi megi ekki dreifa Apple vöru til aðila utan þess svæðis,
sem dreifingarsamningurinn tekur til, sbr. gr. 2.3, nema viðsemjandi hans,
endursöluaðilinn, sé innan annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Dreifingaraðilum,
eins og stefnandi sé, ber jafnframt að gæta fagmennsku og vandvirkni í
viðskiptum sínum og framkomu og viðhalda mikilli ánægju viðskiptavina í samræmi
við viðmið Apple. Rík áhersla sé lögð á það í dreifingarsamningum Apple að
dreifingaraðilar og endursöluaðilar þeirra fari að lögum í starfsemi sinni og
virði m.a. neytendalög, skatta- og gjaldeyriseftirlit, sbr. m.a. gr. 3.6.1.
Stefnandi sætti sig við að Apple fái öðrum aðila á Íslandi dreifingarrétt að
Apple vöru. Stefnandi þarf líka að sætta sig við að aðrir viðurkenndir
dreifingaraðilar innan EES-ríkja geri samning við endursöluaðila hér á landi
samkvæmt þeim reglum sem Apple setur dreifingaraðilum sínum. Frá öðrum en
þessum aðilum þarf stefnandi hins vegar ekki að sæta samkeppni um sölu á Apple vöru
á Íslandi.
Stefnandi heldur því fram að hvorugur stefndi
hafi gert dreifingarsamning við Apple, þ.e. móðurfélagið bandaríska eða nokkurt
dótturfélag þess, um sölu á Apple vöru hér á landi. Þá hafi stefndu ekki gert
endursölusamning við neinn viðurkenndan dreifingaraðila Apple innan Evrópska
efnahagssvæðisins um endursölu á Apple vöru hér á landi. Stefndu hafi því enga
heimild til að nota skráð vörumerki Apple eða bjóða vöru, sem ber vörumerki
Apple til kaups hér á landi.
Stefnandi byggi málssókn sína á því að hann sé
skuldbundinn Apple samkvæmt gr. 7.4 í dreifingarsamningnum til að gera allar
nauðsynlegar ráðstafanir á eigin kostnað hér á landi til að vernda
vörumerkjarétt Apple. Stefnandi sé því skuldbundinn gagnvart Apple til að
hindra að vörumerki Apple sé notað í tengslum við sölu á Apple vöru hér á landi
af aðilum, sem hafa enga heimild til að dreifa eða endurselja Apple vöru og eru
því ekki á neinn hátt skuldbundnir gagnvart Apple beint eða óbeint til að virða
þá skilmála sem gilda um sölu á Apple vöru.
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi með
saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn vörumerkjarétti Apple, þegar þeir
notuðu skráð vörumerki Apple í heimildarleysi við sölustarfsemi á vefsíðunni buy.is og í fjórblöðungi, þar sem boðnar vöru til kaups
Apple vörur í nafni Buy.is/1949 ehf.
Sala stefndu á Apple vöru á buy.is
hafi einnig falið í sér gróf brot á íslenskri löggjöf, sem sé andstætt
hagsmunum Apple, sem gerir þá kröfu til allra þeirra aðila, sem fá heimild til
að dreifa eða endurselja Apple vöru, að þeir virði alla löggjöf þess svæðis sem
salan fer fram á. Stefndi, 1949 ehf., gefi út vörureikninga í sínu nafni í
íslenskum krónum en forsvarsmaður stefnda, stefndi Friðjón Björgvin Gunnarsson,
geri síðan kröfu til þess að andvirði hins selda sé greitt í Bandaríkjadölum
inn á bankareikning í nafni félags, sem hann eigi í Hong
Kong.
Þá liggi fyrir að stefndi, Friðjón Björgvin
Gunnarsson, forsvarsmaður stefnda 1949 ehf., hafi á umliðnum árum leikið þann
leik að breyta í sífellu um söluaðila þeirrar raftækja, sem selt hafa vöru á buy.is. Af framlögðum gögnum megi sjá að stefndi, Friðjón
Björgvin Gunnarsson, forsvarsmaður stefnda, 1949 ehf., hafi verið í forsvari
fyrir í það minnsta þrettán fyrirtækjum hér á landi og hafi mörg þeirra reynst
eignalaus og sum verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Stefnandi telur að við markaðssetningu á Apple
vöru hafi stefndu gefið villandi og beinlíns rangar upplýsingar um verð á Apple
vöru hér á landi, þar sem þeir hafa selt í smásölu Apple vöru á verði, sem vart
hrökkvi fyrir innkaupsverði hennar. Stefnda, 1949 ehf., sé þetta mögulegt, þar
sem stefndi sé eitt fjölmargra fyrirtækja, sem stefndi, Friðjón Björgvin
Gunnarsson, hafi stofnað á umliðnum árum til að annast innflutning og sölu
rafvöru ýmiss konar, m.a. frá Apple. Þegar komið hafi að gjalddaga opinberra
gjalda vegna atvinnustarfsemi þessarar, svo sem greiðslu tolla, hafi stefndi,
Friðjón Björgvin Gunnarsson, stofnað nýtt félag um söluna og látið eldri félög
sigla í gjaldþrot. Ætluð samkeppni stefndu við stefnanda í sölu á Apple vörum
hafi því verið andstæð ákvæðum V. kafla laga nr. 57/2005 um eftirlit með
viðskiptaháttum og markaðssetningu og feli auk þess í sér brot gegn þeirri
meginskyldu aðila sem versla með Apple vöru að virða lög og reglur þess lands
sem salan fari fram í og skila þeim sköttum og gjöldum sem falla á eða tengjast
viðskiptunum.
Stefndi, Friðjón Björgvin Gunnarsson, hafi látið
hafa það eftir sér að ekkert sé athugavert við að skipta um kennitölur á þeim
rekstri sem hann stundi, eins og glöggt má sjá af frétt sem birtist á
vefmiðlinum dv.is hinn 8. janúar 2013. Þar komi fram
að hann telji ekkert athugavert við svokallað kennitöluflakk. Í fréttinni komi
einnig fram að starfsemi netverslunarinnar buy.is
hafi skipulega verið flutt milli kennitalna á undanförnum árum til þess að
losna við aðflutningsgjöld af þeim raftækjum sem boðin eru til kaups í
vefversluninni. Þá komi einnig fram að ýmis félög sem tengjast stefnda,
Friðjóni Björgvini Gunnarssyni, skuldi um 50 milljónir króna í opinber gjöld.
Hjá nokkrum þeirra hafi verið gert árangurslaust fjárnám vegna opinberra gjalda
eins og framlögð gögn sýni.
Með kennitöluflakki hafi stefndi, Friðjón
Björgvin Gunnarsson, og þau félög sem hann hafi verið í forsvari fyrir komist
hjá því að skila bróðurparti þeirra gjalda sem íslenska ríkið leggur á
innflutta Apple vöru. Þá hafi verið látið að því liggja í auglýsingu að verð
Apple vöru hjá samkeppnisaðilum hans sé óeðlilegt. Viðskipti með Apple vöru,
þar sem brot séu framin af ásetningi á lögum þess lands, þar sem viðskiptin
fara fram, séu andstæð hagsmunum Apple og til þess fallin að grafa undan
starfsemi þeirra aðila sem Apple hefur samið við og lagt þá skyldu á að fara að
lögum og vernda vörumerkjarétt Apple. Stefnandi hafi því, sem viðurkenndur
dreifingaraðili Apple, ríka lögvarða hagsmuni af því að sölustarfsemi stefndu á
Apple vöru verði stöðvuð og lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á
hinn 25. janúar 2013 verði staðfest. Viðskiptasaga stefnda, Friðjóns Björgvins
Gunnarssonar, sýni að nauðsynlegt var að stöðva sölu Apple vöru af hálfu
stefnda með lögbanni.
Stefnandi geri kröfu til þess að honum verði, sem
vörslumanni hagsmuna vörumerkja Apple samkvæmt dreifingarsamningi, dæmt
hæfilegt endurgjald vegna hinnar ólögmætu hagnýtingar stefnda á skráðu
vörumerki Apple úr hendi stefndu sameiginlega (in solidum).
Um lagarök fyrir lögbannskröfunni vísar stefnandi
41. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997 sbr. og til 1. mgr. 24. gr. laga um
kyrrsetningu og lögbann nr. 31/1990. Varðandi endurgjaldskröfuna er vísað til
1. mgr. 43. gr. sömu laga. Þá er vísað til laga nr. 57/2005 um eftirlit með
viðskiptaháttum og markaðssetningu. Krafa um málskostnað er byggð á 129. sbr.
130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
III
Sýknukrafa stefndu byggist á aðildarskorti
sóknarmegin í málinu. Stefnandi sé ekki skráður eigandi vörumerkisins Apple Inc., heldur Apple Inc., 1 Infinite Loop, Cupertino, CA 95014,
Bandaríkjunum. Varnir byggðar á aðildarskorti sóknarmegin leiða til sýknu, sbr.
2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sýknukrafa stefndu hvað
varðar dómkröfu stefnanda um hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu á vörumerkinu
Apple Inc., byggist á því að krafan sé með öllu
órökstudd, en stefnandi færir engin rök fyrir því í stefnu hvers vegna stefndu
eigi að greiða honum endurgjald fyrir hina meintu hagnýtingu eða hver fjárhæð
þess eigi að vera.
Stefndu mótmæla málatilbúnaði stefnanda sem röngum
og ósönnuðum. Stefndu mótmæla sérstaklega öllum ávirðingum í stefnu þess efnis
að stefndu hafi gerst sekir um gróf lögbrot, kennitöluflakk og ósiðlega
viðskiptahætti. Stefnandi byggi á framangreindum ávirðingum sem málsástæðum í
málinu. Vandséð sé hvaða erindi þessar málsástæður stefnanda eiga inn í málið,
en málsástæðukafli stefnanda sé fátæklegur að öðru leyti. Svo fátæklegur sé
hann að hann kann að fara gegn e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála og varða frávísun málsins í heild án kröfu (ex offico).
Stefndu mótmæla því að hafa með saknæmum og
ólögmætum hætti brotið gegn vörumerkjarétti Apple Inc.
Það eina sem stefndu hafi sér til sakar unnið sé að bjóða Apple vörur á
hagstæðri kjörum en stefnandi hefur boðið vegna hárrar álagningar stefnanda.
Það að auglýsa og selja Apple vörur, sem stefndu séu komnir að með lögmætum
hætti, í gegnum hagstæð vörukaup á EES-svæðinu, feli ekki í sér brot gegn
vörumerkjarétti stefnanda eða öllu heldur Apple Inc.
Stefndu vísa í þessu sambandi til 2. mgr. 6. gr.
laga nr. 45/1997 um vörumerki, en þar segir að hafi
eigandi vörumerkis markaðssett vöru eða þjónustu sem nýtur vörumerkjaréttar eða
heimilað slíkt innan Evrópska efnahagssvæðisins geti hann nú ekki, síðar,
hindrað notkun, sölu, leigu, innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu
vörunnar eða þjónustunnar á því svæði. Dreifingarsamningar þeir er stefnandi
byggir á skapi honum engan rétt að því marki sem þeir eru í andstöðu við
framangreint lagaákvæði. Þegar af þessum ástæðum beri að hafna kröfu stefnanda
um staðfestingu á lögbanni og fella lögbannið úr gildi.
Krafist er frávísunar á þeirri dómkröfu stefnanda,
að stefndu verði sameiginlega (in solidum)
dæmdir til þess að greiða stefnanda hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu á
vörumerkinu Apple Inc. Krafan sé ekki rökstudd í
stefnu og því uppfylli málatilbúnaður stefnanda hvað þá kröfu varðar ekki
skilyrði d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Því beri að vísa kröfunni frá dómi.
Krafa stefndu um málskostnað byggir á 129. og 130.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Lögbann
það, sem krafist er staðfestingar á var lagt á af sýslumanninum í Reykjavík
hinn 25. janúar 2013. Réttarstefna til staðfestingar á lögbanninu var gefin út
1. febrúar 2013. Því er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um
kyrrsetningu og lögbann fyrir þessari málshöfðun.
Samkvæmt 1. mgr.
24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann má leggja lögbann við
byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða
stofnunar, ef gerðarþoli sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni
brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Í málinu liggur fyrir að stefndi, 1949 ehf.,
hóf að selja Appel vörur á heimasíðu sinni buy.is og var skráð vörumerki Appel
notað. Boðnar voru til kaups Apple borðtölvur,
Apple fartölvur, Iphone 4s og Iphone
5, Airport, ipadmini, ipad 4 kynslóða með Retina, skjáir
og fleira.
Aðalkrafa stefnanda lýtur að því að staðfest verði
lögbann sem sýslumaðurinn lagði við því að stefndu byðu til kaups og seldu hér
á landi vörur framleiddar af Apple Inc., sem bera
skráð alþjóðlegt vörumerki Apple Inc., með alþjóðlega
skráningarnúmerinu 851679.
Fyrir liggur
staðfesting Einkaleyfastofu þar sem fram kemur að Appel
Inc, í Kaliforníu í Bandaríkjunum, sé eigandi
skráningarnúmersins MP-851679. Ekki er getið um
umboðsmann hér á landi. Þá liggja fyrir dreifingarsamningar, dags. 21. júní
2011 og 12. desember 2008, milli Appel Sales International, sem staðsett
er á Írlandi, og stefnanda. Ekki er tilefni til að vefengja heimild Appel Sales International
á Írlandi til að gera dreifingarsamninga við stefnanda um dreifingu á vörum hér
landi, er bera vörumerkið Appel.
Í
dreifingarsamningi stefnanda frá 21. júní 2011 kemur fram að stefnandi sé
dreifingaraðili á Íslandi fyrir vélbúnað, hugbúnað og þjónustuvörur sem hann
kaupir af Appel, eða þriðja aðila, hverju sinni. Ekki
verður séð að stefnandi hafi einkarétt til dreifingar á Appel
vörum hér heldur getur Appel Sales
International gert dreifingarsamninga við aðra aðila
um dreifingu á vörunum hér á landi. Ekki liggur fyrir í málinu að stefndu hafi
gert slíkan samning né hafi dreifingarrétt á Appel
vörum hér á landi. Þá hefur ekki verið með sannanlegum hætti sýnt fram á að
vörur stefndu sé fengnar á EES svæðinu svo sem hann heldur fram.
Samkvæmt gr. 7.4
í dreifingasamningi stefnanda frá 21. júní 2011 skuldbindur stefnandi sig
gagnvart Appel að gæta hagsmuna þeirra við verndun
hugverkaréttarins hér á landi, þeim að kostnaðarlausu. Því verður að líta svo á
að stefnandi hafi heimild til að grípa inní er aðili, sem ekki hefur gert
samning við Appel, selur hér Appel
vörur. Þegar af þessari ástæðu er krafa stefnanda um staðfestingu á lögbanninu
tekið til greina.
Stefndu
byggja á 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, sem var breytt með lögum
nr. 117/2009. Í ákvæðinu segir að hafi eigandi vörumerkis markaðssett vöru eða
þjónustu sem nýtur vörumerkjaréttar, eða heimilað slíkt innan Evrópska
efnahagssvæðisins, geti hann nú ekki, síðar, hindrað notkun, sölu, leigu,
innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu vörunnar eða þjónustunnar á
því svæði. Lagabreyting þessi var talin nauðsynleg svo ákvæðið samræmdist 1.
mgr. 7. gr. vörumerkjatilskipunar 89/104/EBE. Í athugasemdum með frumvarpinu
sem varð að lögum nr. 117/2009 kemur fram að túlka beri ákvæðið þannig að
svæðisbundin tæming gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Með því fá rétthafar
vörumerkja auknar heimildir til þess að stjórna markaðssetningu og koma í veg
fyrir notkun sem fer í bága við vörumerkjarétt þeirra, t.d. samhliða
innflutningi. Því verða heimildir rétthafa vörumerkis víðtækari en þær voru,
væri um alþjóðlega tæmingu að ræða. Af þessari lagatúlkun leiðir að hafna beri
því að stefndu geti byggt rétt sinn á þessu lagaákvæði.
Með
vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að staðfesta
beri lögbann það sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 25. janúar 2013 við
því að stefndu, 1949 ehf. og Friðjón Björgvin Gunnarsson, bjóði til kaups og
selji hér á landi vörur framleiddar af Apple Inc.,
sem bera skráð alþjóðlegt vörumerki Apple Inc., með
alþjóðlega skráningarnúmerinu 851679.
Í
öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til að greiða
hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu alþjóðlegs vörumerkis Apple Inc. ásamt dráttarvöxtum. Krafan byggist á 1. mgr. 43. gr.
sömu laga en þar segir að þeim sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn vörumerkjarétti
sé skylt að greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis og
skaðabætur fyrir annað tjón sem af broti hans hefur hlotist. Í málinu er ekki
krafist skaðabóta. Að mati dómsins er krafa þessi um hæfilegt endurgjald fyrir
hagnýtingu vörumerkisins vanreifuð af hálfu stefnanda og verulega skortir á að
fullnægt sé skilyrðum d- og e-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála. Er kröfu
þessari því vísað frá dómi.
Með
vísan til 130. gr. laga nr. 19/1991 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað
svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún
Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Staðfest
er lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 25. janúar 2013 við því að
stefndu, 1949 ehf. og Friðjón Björgvin Gunnarsson, bjóði til kaups og selji hér
á landi vörur framleiddar af Apple Inc., sem bera
skráð alþjóðlegt vörumerki Apple Inc., með alþjóðlega
skráningarnúmerinu 851679.
Kröfu
stefnanda um hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu alþjóðlegs vörumerkis Apple Inc. er vísað frá dómi.
Stefndu,
1949 ehf. og Friðjón Gunnar Björgvinsson greiða stefnanda, Skakkaurninum
ehf., 900.000 kr. í málskostnað.