Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-136
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Jarðhiti
- Túlkun samnings
- Ógilding samnings
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 20. apríl 2019 leita Anna Lára Pálsdóttir, Árni Pálsson, Guðrún Laufey Magnúsdóttir, Jóhanna Ósk Pálsdóttir, Jón Helgason, Kristinn Helgason, Logi Helgason, Ragnheiður Pálsdóttir og Þorbjörn Helgi Pálsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. sama mánaðar í málinu nr. 565/2018: Jón Helgason, Kristinn Helgason, Logi Helgason, Guðrún Laufey Magnúsdóttir, Þorbjörn Helgi Pálsson, Anna Lára Pálsdóttir, Ragnheiður Pálsdóttir, Jóhanna Ósk Pálsdóttir og Árni Pálsson gegn Orkuveitu Reykjavíkur og Veitum ohf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Orkuveita Reykjavíkur og Veitur ohf. leggjast gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að túlkun á samningi frá árinu 1998 milli þáverandi eigenda jarðarinnar Kaldárholts í Rangárþingi ytra og Hitaveitu Rangæinga um einkarétt þess síðarnefnda til að bora eftir heitu vatni og virkja og nýta allan jarðhita í landi jarðarinnar, en gagnaðilar munu hafa tekið yfir réttindi þeirrar hitaveitu. Í málinu krefjast leyfisbeiðendur sem eigendur jarðarinnar þess aðallega að viðurkennt verði að framangreindur einkaréttur gagnaðila hafi verið tímabundinn til 25 ára og að greiða beri fyrir alla nýtingu umfram 5.256 rúmmetra af heitu vatni á ári. Til vara krefjast leyfisbeiðendur þess að ákvæðum samningsins um þessi atriði verði vikið til hliðar og þeim breytt á nánar tiltekinn veg á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að virtu samhengi og orðalagi samningsins og með hliðsjón af framburði vitna um atvik í aðdraganda þess að hann var gerður sýknaði héraðsdómur gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með áðurnefndum dómi.
Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni þeirra, nánar tiltekið eignarrétt þeirra að jarðhitaréttindum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur þar sem ekki hafi verið litið til þess að samningurinn kveði á um forsendur samningsaðila við gerð hans, auk þess sem rétturinn hafi litið framhjá framburði þriggja fyrrverandi stjórnarmanna í Hitaveitu Rangæinga sem hafi borið fyrir héraðsdómi og Landsrétti að samningurinn hafi verið tímabundinn. Í öllu falli telja leyfisbeiðendur það bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu gagnaðila að bera fyrir sig umrædd samningsákvæði.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitaefni á sviði eignar- og samningaréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.