Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2013


Lykilorð

  • Skilasvik
  • Veðsetning


                                                                                                                          

Fimmtudaginn 10. október 2013.

Nr. 170/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Jóni Snorra Snorrasyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Skilasvik. Veðsetning.

J, eigandi og framkvæmdastjóri A ehf., var sakfelldur fyrir skilasvik, með því að hafa veðsett hlutafé í S ehf., sem var í eigu A ehf., þrátt fyrir að hafa með öðrum veðsamningi, undirgengist kvöð um að hlutirnir yrðu hvorki veðsettir né seldir. Var refsing J ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 6 mánuðir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Ákærði var eigandi einkahlutafélagsins Agli en það félag átti 33,33% hlutafjár í einkahlutafélaginu Sigurplast. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni þeirra tveggja handveðssamninga sem ákærði gerði á árinu 2008, annars vegar við SPRON Verðbréf hf. 14. júlí og hins vegar við Sparisjóð Mýrasýslu 21. október. Með fyrri samningnum setti ákærði SPRON Verðbréfum hf. að handveði hlutafjáreign sína í Agla ehf., og með seinni samningnum setti Agli ehf. Sparisjóði Mýrasýslu að veði hlutafjáreign Agla ehf. í Sigurplasti ehf., en ákærði var stjórnarmaður og prókúruhafi fyrrgreinda félagsins. Af gögnum málsins verður ráðið að Sparisjóður Mýrasýslu hækkaði yfirdráttarheimild Sigurplasts ehf. á reikningi félagsins í sparisjóðnum í kjölfar veðsetningarinnar 21. október 2008. Með því að setja Sparisjóði Mýrasýslu umrætt sinn að veði hlutafjáreign Agla ehf. í Sigurplasti ehf. braut ákærði gegn þeirri kvöð í veðsamningnum 14. júlí 2008 við SPRON Verðbréf hf. að halda eignarhluta Agla ehf. í Sigurplasti ehf. óveðsettum á gildistíma fyrri veðsamningsins og gerðist þannig brotlegur við 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Breytir engu þar um sú vörn ákærða að tjón hafi ekki hlotist af háttsemi hans, enda ljóst að í henni fólst veruleg fjártjónsáhætta. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jón Snorri Snorrason, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 270.849 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2013.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri  15. janúar sl. á hendur ákærða Jóni Snorra Snorrasyni, kt. [...], Suðurhlíð 38c, Reykjavík „fyrir skilasvik með því að hafa 21. október 2008 sem eigandi og framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Agli, kt. 711001-2710, veðsett Sparisjóði Mýrasýslu, kt. 610269-5409, 33,33% af heildarhlutafé einkahlutafélagsins Sigurplasts, kt. 620107-1740, sem var í eigu Agla ehf., þrátt fyrir að hafa með veðsamningi, dags. 14. júlí 2008, undirgengist kvöð um að hvorki veðsetja né selja hluti Agla ehf. í Sigurplasti ehf. en með veðsamningnum voru allir hlutir í Agla ehf. settir SPRON Verðbréfum hf., kt. 670505-1970, að veði. Veðsetningin 21. október 2008, sem var liður í frekari lánafyrirgreiðslu Sparisjóðs Mýrarsýslu til Sigurplasts ehf., var með öllu óheimil enda gat ákærða ekki dulist að sú ráðstöfun samrýmdist ekki réttindum SPRON Verðbréfa hf. samkvæmt veðsamningnum frá 14. júlí 2008.

Telst þetta varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málavextir

Upphaf máls þessa er svohljóðandi kæra Arion-banka til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 2. september 2010, á hendur ákærða: „Kæra þessi er send út þar sem Arion banki hf. telur að ofangreindur aðili hafi stundað refsivert athæfi. Málavextir eru þeir að með handveðssamningi dags. 21.10.2008 setti Agli ehf., kt. 711001-2710 (veðsali) Sparisjóði Mýrasýslu (nú Arion banki hf.) (veðhafi) að handveði hluti að nafnverði 166,67 í Sigurplast ehf., kt. 620107-1740 til tryggingar öllum skuldum sem Sigurplast ehf. kynni að skulda eða ábyrgjast veðhafa.

Í skilmálum handveðssamningsins má finna eftirfarandi skilmála:  Veðsali lýsir því yfir að hlutir þeir sem settir eru að handveði með yfirlýsingu þessari, eru að öllu leyti kvaðalaus eign veðsala og á þeim hvíla engin veðbönd eða fyrirvarar um eignarrétt veðsala eða annarra.

Arion banki hf. hefur verið upplýstur um það að þann 14.07.2008 hafi Jón Snorri Snorrason, kt. [...] og SPRON-verðbréf hf., kt. 670705-1970 gert með sér veðsamning þar sem Jón Snorri Snorrason setti SPRON-verðbréf hf. að handveði alla hluti í Agli ehf. að nafnverði kr. 500.000,-.

Í umræddum veðsamningi má finna eftirfarandi skilmála:

Jafnframt ábyrgist veðsali að eignir Agli ehf. í Sigurplasti ehf., kt. 620107-1740, Völuteigi 17-19, Mosfellsbæ, séu með öllu óveðsettir og verði það á meðan samningur þessi er í gildi. Veðsali ábyrgist einnig að hlutir Agli ehf. í Sigurplasti ehf. verði ekki seldir á meðan samningur þessi er í gildi.

Ljóst er að síðastnefndur skilmáli samrýmist ekki þeim réttindum sem Arion banki hf. á í handveðsettum hlutum Agli ehf. í Sigurplast ehf. Jafnframt er ljóst að veðhafa voru veittar rangar upplýsingar við gerð handveðssamningsins dags. 21.10.2008, gegn betri vitund veðsala.

Jón Snorri Snorrason er í stjórnarformaður í Sigurplast ehf. og stjórnarmaður í Agli ehf. Telur bankinn að athæfi hans varði við 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Vegna þessa óskar Arion banki hf. eftir því að tekin verði skýrsla af Jóni Snorra, gefin verði út opinber ákæra á hendur honum og honum refsað lögum samkvæmt.“

Meðal gagna málsins er veðsamningur, dagsettur 14. júlí 2008 og undirritaður af ákærða, þar sem hann veðsetur SPRON-verðbréfum hf. alla hluti sína í Agla ehf., að nafnverði 500.000 krónur.  Segir þar að veðið sé sett til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslum ákærða við SPRON-verðbréf hf. vegna framvirkra samninga hans við það félag.  Þá er í samningnum sú kvöð að veðsala sé óheimilt að veðsetja eða framselja veðsetta hluti nema að fengnu skriflegu samþykki veðhafans.  Jafnframt ábyrgist veðsali að eignir Agla hf. í félaginu Sigurplasti ehf. séu með öllu óveðsettar og verði það meðan samningurinn gildi og ennfremur að þær verði ekki seldar á samningstímanum. 

Í málinu er jafnframt handveðssamningur um hluti í einkahlutafélagi samkvæmt 22. gr. laga um samningsveð nr. 75, 1997.  Samkvæmt honum veðsetur Agli hf. Sparisjóði Mýrasýslu 33,33% af hlutafé Agla hf. í Sigurplasti ehf., að nafnverði 166,67 krónur til tryggingar á skuldum Sigurplasts ehf. við sparisjóðinn.  Samkvæmt samningnum höfðu hinir veðsettu hlutir ekki verið gefnir út og því ekki í vörslu veðhafa.  Þá segir að veðsali lýsi því yfir að hinir veðsettu hlutir séu að öllu leyti kvaðalaus eign veðsala og á þeim hvíli engin veðbönd eða fyrirvarar um eignarrétt veðsala eða annarra.  Undir samning þennan ritaði ákærði fyrir hönd Agla ehf.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 28. nóvember 2011.  Er í skýrslu, sem málinu fylgir, haft eftir ákærða að ekki hefði verið um tvíveðsetningu að ræða þar sem annars vegar hefði verið um að ræða veðsetningu hans eigin hlutabréfa í Agla, en á hinn bóginn veðsetningu á hlutabréfaeign Agla í Sigurplasti.  Samkvæmt því hefðu hlutabréf í Agla ekki verið veðsett Sparisjóði Mýrasýslu.  Tilefni síðari veðsetningarinnar hefði verið það að Sparisjóður Mýrasýslu hefði gert kröfu til þess að bætt yrði við þau veð sem sjóðurinn hafði hjá Agla.  Hefði hann gert SPRON-verðbréfum hf. grein fyrir þessari kröfu Sparisjóðs Mýrasýslu og hefðu SPRON-verðbréf hf. gefið heimild til veðsetningarinnar.  Þá er haft eftir honum að hann hefði verið í persónulegum viðskiptum við SPRON-verðbréf hf. og veðsett þeim allar sínar eignir, bæði fasteignir og lausafé.  Hefði þetta verið langt umfram skuldir hans þá.  Af þeirri ástæðu og vegna þess einnig að veðsetningin átti að standa einungis í þrjá mánuði hefðu SPRON-verðbréf hf. heimilað þessa veðsetningu á hlut Agla í Sigurplasti.  Þannig hefði hann verið í góðri trú um þennan gerning og gat þess einnig að menn í SPRON-verðbréfum hf. og Sparisjóði Mýrarsýslu hefðu vitað um stöðuna.  Hefði hann verið í símasambandi við A hjá SPRON-verðbréfum varðandi þetta og hjá Sparisjóði Mýrasýslu við B.  Hefðu SPRON-verðbréf hf. ekki veitt skriflegt samþykki fyrir þessari veðsetningu.  Ekki hefði orðið tjón af þessari veðsetningu þar sem Arion-banki hefði síðar eignast bæði félögin.  Hefði bankinn gert Sigurplast gjaldþrota og við það hefðu hlutabréfin í félaginu orðið verðlaus og jafnframt hefði Agli orðið verðlaus.  Loks er í skýrslunni haft eftir ákærða að Sparisjóður Mýrarsýslu hefði átt iðnaðarveð í öllu sem tengdist verksmiðju Sigurplasts sem þeir hefðu getað gengið að hvenær sem var.  Handveðið hefði því ekki haft neitt raunverulegt gildi, nema sem aukið veð í bókum sparisjóðsins.  Sjálfur hefði hann ekki haft neinn ávinning af veðsetningunni til Sparisjóðs Mýrasýslu.

Aðalmeðferð málsins

   Ákærði, sem neitar sök, kveður veðsamninginn við SPRON-verðbréf hf. 14. júlí 2008 hafa verið lítinn hluta af persónulegum viðskiptum hans við þann banka.  Kveðst hann hafa veitt bankanum veð í öllum eignum sínum, svo sem bréfum og fasteignum.  Hafi þessi tiltekna veðsetning verið komin til vegna þess að reglur bankans um tryggingar umfram skuldastöðu, sem höfðu verið 1,15 (15% veð umfram skuldir), breyttust á þann veg að nú krafðist bankinn þess að tryggingahlutfallið yrði 1,25.  Hafi þessi breyting ekki verið vegna aukinnar fyrirgreiðslu bankans til hans heldur hafi hún verið til þess að mæta þeirri fyrirgreiðslu sem þegar var.  Hafi hann átt gott samstarf við SPRON-verðbréf hf. og því verið sjálfsagt mál að auka veðin við þá.  Ákærði segir eignir Agla á þessum tíma hafa verið verðbréf, hlutabréf, peningar og fjölmargt fleira.  Af þessu hafi hlutabréfin í Sigurplasti verið að nafnverði 167.000 krónur og vegið mest af eignum Agla.  Um síðari veðsetninguna segir ákærði að Sparisjóður Mýrasýslu hafi óskað eftir handveðsetningunni, til frekari tryggingar á hefðbundinni rekstrarfyrirgreiðslu en einnig hafi verið haft í huga langt lán sem félagið gæti fengið til viðbótar, en af því hafi þó aldrei orðið.  Hafi hann upplýst menn þar á bæ um það að kvaðir væru á veðandlaginu og hann myndi kanna hvort SPRON-verðbréf hf. myndi samþykkja að gefa eftir veðið.  Þá hafi hann haft samband við SPRON, síðla í september 2008, að hann minnir, og kannað hjá þeim hvort þeir vildu aflétta veðinu sem þeir áttu í hlutunum í Agla vegna þess að Sparisjóður Mýrasýslu um handveðsetningu.  Hafi hann rætt við A um þetta.  Hafa verði í huga að þetta hafi verið hálfum mánuði fyrir bankahrunið.  Hafi A, sem ákærði segist hafa ætíð átt góð samskipti við, athugað veðsetninguna og þá sagt að í fljótu bragði gæti þetta eflaust komið til greina.  Kveðst ákærði hafa litið á þessi orð hans sem „vilyrði“ um það að þeir myndu aflétta veðinu eða að „þetta gæti verið möguleiki“.  Kannast hann við að hafa í framhaldi af þessu gengið frá veðsamningnum við Sparisjóð Mýrasýslu.  Þegar svo á það reyndi eftir hrunið hvort SPRON-verðbréf hf. aflétti veðinu hafi komið á daginn að bankinn gaf ekki eftir nein veð.  Kveðst ákærði hafa tilkynnt Sparisjóði Mýrasýslu um þetta og sparisjóðurinn þá sagt að umrædd veðsetning, sem hafi verið með því skilyrði að veði SPRON yrði aflétt, kæmi ekki til.  Hafi þessi handveðssamningur því aldrei orðið virkur.  Ákærði segir Sigurplast hafa verið í sinni eigu að 1/3 hluta, 1/3 í eigu fyrirtækis sem heiti Grænamýri og í þriðjungseigu dótturfélags Sparisjóðs Mýrasýslu.  Hafi hver eigendanna átt mann í stjórn félagsins, B sparisjóðsstjóra.  Þannig hafi sparisjóðurinn verið vel upplýstur um stöðu og rekstur þess.  Að því er varðar viðbótarfjármögnunina frá Sparisjóði Mýrasýslu, sem komið hafði til tals, segir ákærði aðspurður, að fyrir hefði legið að hún yrði veitt á móti sérstakri tryggingu, viðbótarveði.  Þannig hafi handveðsetningin komið til.   

Ákærði segir Arion-banka hafa svo yfirtekið Sparisjóð Mýrasýslu og upp úr því hafi bankinn knúið Sigurplast í þrot.  Bankinn hafi óskað eftir því þeir C, framkvæmdastjóri Sigurplasts, afsöluðu sér hlutum sínum í Sigurplasti gegn einnar krónu greiðslu, en uppkast að þeim samningi hafi nú verið lagt fram í dómsmálinu.  Af þessu sjáist að bankinn hafi litið svo á að hann hefði ekki, þrátt fyrir gerninginn, gilt handveð í hlutunum í Sigurplasti þar sem SPRON-verðbréf hf. hefðu ekki samþykkt veðsetninguna skriflega. 

 A, sem var útlánastjóri hjá SPRON-verðbréfum hf. á þeim tíma sem máli skiptir, hefur greint frá því að ákærði hafi átt viðskipti á þessum tíma við SPRON-verðbréf hf. um verðbréfakaup og framvirka samninga um þau.  Séu þetta fremur áhættusöm viðskipti og tryggi bankinn hlut sinn með því að kaupa strax bréfin sem hin framvirku viðskipti snúist um og jafnframt sé kaupandanum gert að leggja fram viðbótartryggingu.  Hann segir samning ákærða við SPRON-verðbréf hf. hafa verið gerðan eftir að fór að harðna á verðbréfamarkaðinum frá því í júlí 2007 að gengi á bréfum fór lækkandi.  Hafi þá upphafist veðköll, þ.e. að bankinn fór að krefjast betri veða hjá viðskiptavinum sínum.  Hafi samningurinn við ákærða um aukna veðtryggingu verið gerður í framhaldi af slíku veðkalli.  Hann segir ákærða ekki hafa fengið heimild til þess að veðsetja Sparisjóði Mýrasýslu hlut í Sigurplasti og ekki reka minni til þess að ákærði hafi farið fram á það.  Hefði slíkt samþykki fráleitt verið veitt á þessum tíma þegar eignir ákærða fóru þverrandi.  Þá tekur hann fram að ef til slíks ætti að koma hefði farið af stað heilmikil skjalagerð.  Undir vitnið er borið það sem haft er eftir því í lögregluskýrslu að það hafi ekki munað nákvæmlega eftir því hvað hefði gerst varðandi viðskiptin við ákærða.  Segir vitnið það vera rétt haft eftir.  A segir að hann hefði aldrei haft heimild til þess að veita ákærða samþykki af þessu tagi og myndi hann vafalaust muna ef hann hefði veitt ákærða það. 

D var starfsmaður SPRON-verðbréfa hf., sem sá um áhættustýringu á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Hann segir að samningur ákærða við SPRON-verðbréf hf. hafa verið gerðan í sambandi við veðkall sem gert hafi verið í framhaldi af verðfalli á hlutabréfum frá því um mitt ár 2007.  Ákærði hafi, vegna þessa, staðið frammi fyrir því að samningum við hann „lokað og þeir gerðir upp“ eða þá að leggja fram frekari veð.  Hann kveðst hafa athugað hvernig staða ákærða var fyrir veðkallið og séð að hún hafi verið 1,08 og þannig vantað tæpar 15 milljónir á að veðin væru fullnægjandi, þ.e. tryggingarhlutfallið 1,15.  Hann segist ekki kannast við það að ákærði hafi haft munnlega heimild til þess að veðsetja hlut sinn í Sigurplasti.  Sé slíkt fráleitt, enda hafi markaðurinn verið á niðurleið og veðsamningurinn auk þess skriflegur.  Hann segir verulegt tap hafa orðið á samningnum við ákærða.  Þá segir hann viðskipti af þessu tagi vera mjög áhættusöm.  Menn leggi lítið undir en geti þar á móti ýmist hagnast vel eða tapað miklu, allt eftir gengi bréfanna.  Bankinn verji sig gegn tapi með því að kaupa bréfin á markaði þegar samningurinn er gerður og til viðbótar er krafist minnst 15% hærri tryggingar. 

B, sem hafði með að gera fyrirtækjaviðskipti hjá Sparisjóði Mýrasýslu [...], hefur skýrt frá því að sparisjóðurinn hafi átt í fjárhagserfiðleikum á þessum tíma og  Sigurplast hafi þá þurft á aukinni fyrirgreiðslu að halda.  Hafi framkvæmdastjóra Sigurplasts verið gerð grein fyrir því að þeir gætu ekki komið til hjálpar nema þeir fengju allar tiltækar tryggingar á móti, þ.e. veð í hlutabréfunum.  Hafi ákærði orðið við því og yfirdráttarheimild til félagsins verið hækkuð um 10½ milljón þegar veðsetningin var orðin að veruleika.  Hafi aldrei leikið neinn vafi á þessu í samskiptunum við framkvæmdastjórann.  Kveðst hann muna að ákærði sagt hlutabréfin í Agla ehf. vera veðsett SPRON-verðbréfum hf. en hlutabréfin í Sigurplasti væru veðbandalaus.  Sé þetta atriði enda feitletrað í samningi ákærða og sparisjóðsins.  Hafi þetta verið ákvörðunarástæða fyrir sparisjóðinn þar eð bréfin í Sigurplasti væru honum gagnslaus ella.  Vitnið kannast ekki við það að ákærði hafi fyrst sagt þeim í sparisjóðinum að hann hefði fengið vilyrði fyrir því að SPRON-verðbréf hf. myndi fella niður veð í bréfunum í Agla en síðar tilkynnt þeim að SPRON-verðbréf hf. hefðu breytt um afstöðu í þessu atriði.  Undir ákærða er borið það sem eftir honum var haft hjá lögreglu í mars 2012 að hann myndi ekki til þess að ákærði hefði sagt bréfin vera veðbandalaus.  Kveðst vitnið hafa kynnt sér þetta betur eftir að hann gaf skýrsluna hjá lögreglu og rifjað þetta upp.  B kveðst hafa setið í stjórn Sigurplasts fyrir sparisjóðinn og því þekkt málefni félagsins.  Hann segir ákærða hafa verið gerð grein fyrir því að frekari fyrirgreiðsla en þessi 10½ milljón yrði ekki veitt nema gegn enn frekari tryggingu. 

E var framkvæmdastjóri Sigurplasts á þeim tíma sem um ræðir.  Hann kveðst hafa óskað eftir fjármögnun fyrir félagið við sparisjóðinn vegna aukinna umsvifa þess.  Hafi þetta gengið vel og þeir tvöfaldað veltuna á árinu 2007.  Sparisjóðurinn hafi hins vegar verið kominn í erfiðleika en þeir knúið á um langtíma-fjármögnun en ekki haft erindi vegna erfiðleika sparisjóðsins.  Kveðst hann hafa synjað þeim um frekari tryggingar og það gengið um hríð.  Um haustið hafi hann beðið sparisjóðinn um að hlaupa undir bagga með þeim vegna jólavertíðarinnar, sem hafi byrjað hjá Sigurplasti með kaupum á hráefni og aðföngum í september-október og endað í verslunum fyrir jólin.  Hafi sparisjóðurinn þá beðið um frekari tryggingar vegna þessara viðskipta en ekki getað veitt nema takmarkaða fyrirgreiðslu.  Raunveruleg þörf Sigurplasts hafi hins vegar verið 120 milljónir.  Hann segir þá ákærða hafa verið saman í ráðum um það frá því um sumarið og fram á haust að veita sparisjóðnum ekki veð fyrir rekstrarfjármögnun.  Um ástæður fyrir því að bréfin voru veðsett segir vitnið að ákærði hafi sagt sparisjóðinn sífellt vera biðja um tryggingar og hann verið í vandræðum með að fá veðinu aflétt hjá SPRON-verðbréfum hf. og hefði hann látið Sparisjóð Mýrasýslu vita um það.  Eftir að bankahrunið var orðið hafi starfsmaður sparisjóðsins látið þá vita að ef þeir ekki settu bréfin að handveði fengju þeir ekki afborgunarfrest á skuldinni við sparisjóðinn fram á árið 2009, eins og búið var að gefa ádrátt um.  Vitnið segir umræddan 10½ milljónar króna yfirdrátt ekki hafa tengst þessu. 

Niðurstaða    

Ákærði veðsetti SPRON-verðbréfum hf., 14. júlí 2008, alla hluti sína í Agla ehf.  Samkvæmt skriflegum samningi um veðsetninguna var veðsala óheimilt að veðsetja eða framselja veðsetta hluti nema að fengnu skriflegu samþykki veðhafans.  Þá ábyrgðist veðsali að eignir Agla hf. í félaginu Sigurplasti ehf. væru með öllu óveðsettar og yrðu það meðan samningurinn gilti og loks að þær yrðu ekki seldar á samningstímanum.  Þá liggur það einnig fyrir að ákærði veðsetti, 21. október 2008, Sparisjóði Mýrasýslu 33,33% af hlutafé Agla hf. í Sigurplasti ehf.  Samkvæmt þeim veðsamningi lýsti veðsali því yfir að hinir veðsettu hlutir í Sigurplasti ehf. væru að öllu leyti kvaðalaus eign veðsala og á þeim hvíldu engin veðbönd eða fyrirvarar um eignarrétt veðsala eða annarra.  Er ljóst af þessu að síðari gerningur ákærða gat ekki samrýmst þeim veðréttindum sem SPRON-verðbréf hf. höfðu eignast yfir hlutum ákærða í Agla hf. 

Ákærði hefur sagst hafa í símtali, áður en hann veðsetti hlutina í Sigurplasti, beðið A, útlánastjóra um leyfi SPRON-verðbréfa hf. til þess að veðsetja hlutina í Sigurplasti.  Framburður ákærða verður skilinn svo að hann hafi talið sig þá hafa fengið vilyrði A fyrir slíku samþykki eða að hann hafnaði því ekki að af því gæti orðið.  A kannast ekki við að ákærði hafi farið fram á þetta og segir fráleitt að slíkt samþykki hefði verið veitt þar sem eignir ákærða fóru rýrnandi.  D, sá starfsmaður SPRON-verðbréfa hf. sem sá um áhættustýringu, kannast ekki við það að ákærði hafi fengið munnlega heimild til þess að veðsetja hlutinn í Sigurplasti og hefði slíkt verið fráleitt, enda hafi verðbréfamarkaðurinn verið á niðurleið og veðsamningurinn auk þess skriflegur.  Verður að telja framburð ákærða um svar A í símtalinu vera í sjálfu sér ótrúverðugan, eins og á stóð.  Þá styðst hann ekki við neitt í málinu og kannast A enda ekki við þetta símtal.  Ber að hafna framburði ákærða að þessu leyti, en jafnvel þótt væri ekki hnekkt gat ákærði ekki með réttu litið svo á að í símtalinu fælist gilt leyfi SPRON-verðbréfa hf. til þess að víkja frá skriflegum veðsamningi bankans og ákærða og veðsetja öðrum hluti Agla hf. í Sigurplasti. 

Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga skal þeim refsa fyrir skilasvik, sem selur, veðsetur, tekur undir sig eða ráðstafar á annan hátt fjármunum sínum, sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir, að verknaðurinn verður ekki samrýmdur réttindum hans.  Með veðsamningnum við Sparisjóð Mýrasýslu gerðist ákærði þannig sekur um skilasvik og braut gegn veðrétti SPRON-verðbréfa hf. í hlutum ákærða í Agla hf. 

Refsing og sakarkostnaður

Refsing ákærða þykir  hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.  Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveðjur upp úrskurð þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Jón Snorri Snorrason, sæti fangelsi í 6 mánuði.  Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði verjanda sínum, Karli Georg Sigurbjörnssyni hrl. 250.000 krónur í málsvarnarlaun.