Hæstiréttur íslands
Mál nr. 592/2011
Lykilorð
- Umboðssvik
|
|
Fimmtudaginn 23. febrúar 2012. |
|
Nr. 592/2011. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Agnari
Bent Brynjólfssyni (Óskar Sigurðsson hrl.) (Ásgeir Jónsson hrl. f.h. brotaþola) |
Umboðssvik.
A var gefið að sök að hafa framið umboðssvik
með því að hafa ítrekað misnotað aðstöðu sína sem verslunarstjóri B ehf. og án
heimildar komið því til leiðar að C ehf. fékk afhentar vörur frá versluninni án
þess að staðgreiða þær. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að þrátt fyrir að A hafi
verið kunnugt um að B ehf. hefði hafnað því að C ehf. væri í
reikningsviðskiptum hjá félaginu hafi A tekið þá ákvörðun að afhenda félaginu
vörur án þess að þær væru staðgreiddar og reynt að leyna því með því að skrá
vöruúttektirnar á nafn annars aðila. Hafi A hlotið að vera ljóst að með
háttsemi sinni væri veruleg hætta á því að hagsmunir B ehf. væru fyrir borð
bornir. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu A en við
ákvörðun refsingar var litið til þess dráttar sem varð á rannsókn málsins. Þá var
skaðabótakröfu B ehf. vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara refsilækkunar og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en að þessu frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.
B ehf. krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiða sér 6.508.140 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.312.181 krónu frá 31. janúar 2007 til 6. febrúar sama ár, af 5.067.883 krónum frá þeim degi til 9. maí sama ár, af 5.583.216 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 6.508.140 krónum frá þeim degi til 20. október 2011, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá krefst hann staðfestingar á ákvörðun héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök umboðssvik með því að hafa árinu 2007 ítrekað misnotað aðstöðu sína sem verslunarstjóri B ehf. og án heimildar komið því til leiðar að fyrirtækið C ehf. fékk afhentar vörur frá versluninni án þess að staðgreiða þær. Þetta hafi farið í bága við lánareglur B ehf. en vörur að fjárhæð 6.508.140 krónur hafi ekki fengist greiddar hjá fyrirtækinu.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að B ehf. hafði hafnað því að hafa fyrirtækið C ehf. í reikningsviðskiptum. Kom fram í framburði ákærða fyrir dómi að hann kannaðist við þetta en hann hefði hins vegar ekki vitað að félagið væri í fjárhagserfiðleikum þar sem það hefði haft næg verkefni. Þá kom fram hjá honum að hann kannaðist ekki við að hafa sjálfur afgreitt vörur til félagsins en vefengdi ekki að það hefði verið gert með sinni heimild. Einnig sagði ákærði að hann myndi sjá um að innheimta söluandvirði varanna. Ástæður þess að úttektirnar voru færðar yfir á nafn D, starfsmanns C ehf., sagði ákærði vera þá að „við höfum bara verið að kaupa okkur tíma til að ná að innheimta vörurnar. Það var farið að dragast greiðslur og menn vissu af því og höfðum áhyggjur af því að þarna væri eitthvað ekki nógu gott í gangi og þá var bara verið að kaupa sér tíma.“
Gögn málsins bera með sér að haldið var utan um úttektir C ehf. í svokölluðu tilboðskerfi en það kerfi hafði ekki þann tilgang. Voru vöruúttektir C ehf. færðar í þetta tilboðskerfi, á nafn fyrrgreinds starfsmanns þess félags, en skráningin í tilboðskerfið leiddi til þess að vörurnar voru ekki skráðar út af lager í birgðabókhaldi. Vitnið F framkvæmdastjóri verslunarsviðs B ehf. bar fyrir dómi að þessi notkun á tilboðskerfinu væri stranglega bönnuð og ákærða hefði verið það kunnugt. Vitnið H rekstrarstjóri verslunarsviðs B ehf. bar fyrir dómi að þessi notkun ákærða á tilboðskerfinu væri eina tilvikið af þessu tagi sem hann vissi um. Þá kom fram hjá honum að óheimilt hefði verið að afgreiða vörur af svonefndum biðreikningum eða verslunarstjórareikningum ef reikningsviðskiptum hefði verið hafnað. Vitnin I starfsmaður B ehf. og J sölumaður félagsins báru fyrir dómi að ákærði hefði haft frumkvæði að þessum viðskiptaháttum. Þá bar vitnið K starfsmaður B ehf. svo fyrir dómi að henni hefði verið kunnugt um að skuld C ehf. hefði verið geymd í tilboðskerfinu samkvæmt fyrirmælum ákærða. Þegar greiðsla hefði borist frá C ehf. hefði það sem greitt var fyrir verið fært úr tilboðskerfinu af nafni D og yfir á staðgreiðslureikning í nafni C ehf.
Af því sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að ákærða var kunnugt um að B ehf. hafði hafnað því að C ehf. væri í reikningsviðskiptum hjá félaginu. Þrátt fyrir þá vitneskju sína tók ákærði ákvörðun um að heimila að félagið tæki út vörur án þess að þær væru staðgreiddar. Jafnframt liggur fyrir að ákærði reyndi að leyna þessu með því að búa svo um hnútana að vöruúttektir félagsins voru skráðar á nafn annars aðila í svokallað tilboðskerfi þannig að það kom ekki í ljós fyrr en við birgðatalningu að vörur hefðu verið afhentar með þessu móti.
II
Í málinu liggur frammi fjöldi yfirlita yfir vöruúttektir C ehf. sem skráðar eru í nefnt tilboðskerfi á nafn D og voru félaginu gerðir reikningar vegna úttekta samtals að fjárhæð 8.658.716 krónur sem það greiddi. Telur ákæruvaldið að ógreiddar úttektir nemi 6.508.140 krónum, sem sundurliðast þannig: 31. janúar 2007 að fjárhæð 1.312.181 króna, 6. febrúar 2007 að fjárhæð 3.755.702 krónur, 9. maí 2007 að fjárhæð 515.333 krónur, og 31. maí 2007 að fjárhæð 924.924 krónur.
Gögn málsins um framangreindar úttektir og reikningar þeir sem C ehf. hefur þegar greitt eru um margt óljósir og verður ekki útilokað að í einhverjum tilvikum kunni vöruliðir á yfirlitum yfir þær vörur sem taldar eru ógreiddar að finnast á þeim reikningum sem félagið hefur þegar greitt. Þá liggja fyrir í málinu yfirlit úr tilboðskerfi vegna vöruúttekta að fjárhæð 2.844.748 krónur, sem samkvæmt málsgögnum eru að baki tveimur reikningum er C ehf. hefur greitt, en yfirlitin eru ekki fyllilega í samræmi við þá reikninga sem samtals eru að fjárhæð 2.754.996 krónur. Enda þótt ekki sé í málinu byggt á þeim úttektum sem þegar hafa verið greiddar eru gögn þessi ekki til þess fallin að upplýsa málið.
Ákærði hefur teflt fram þeirri vörn að ekkert liggi fyrir um afhendingu þeirra vara sem tilgreindar eru í ákæru. Í skýrslu hjá lögreglu 27. febrúar 2009 var ákærði spurður út í vöruúttekt að fjárhæð 3.755.702 krónur og svaraði hann því til að honum fyndist trúlegt að þessar vörur hafi verið afhentar þar sem þarna virðist hafa verið um margar úttektir að ræða. Fyrir dómi sagði ákærði varðandi þessa úttekt: „Ég held að það sé nú útilokað að þetta sé tekið út í einu lagi, ég held það hljóti að benda til þess að það sé tekið út þá í einhverjum portionum.“ Gat ákærði ekki útskýrt úttekt að fjárhæð 1.312.181 krónu en benti á að þar kæmi ekki fram að um úttekt væri að ræða. Varðandi úttektir að fjárhæð 515.333 krónur og 924.924 krónur taldi hann að þessar vörur hefðu ekki verið afhentar. Vitnið D bar fyrir dómi að þær úttektir sem að framan greinir hefðu allar verið teknar út og notaðar í þágu C ehf.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið er sannað að fyrirtækinu C ehf. voru, fyrir tilstilli ákærða, afhentar vörur fyrir umtalsverðar fjárhæðir þótt ekki liggi fyrir svo óyggjandi sé hversu stór hluti þeirra er enn ógreiddur. Allan vafa að þessu leyti verður að virða ákærða í hag.
III
Brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir var framið á árinu 2007. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en um fjórum árum síðar. Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess verulega dráttar sem varð á rannsókn málsins en á honum hafa ekki verið gefnar viðhlítandi skýringar. Samkvæmt þessu og að öllu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fullnustu hennar skal frestað og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til þess sem að framan er rakið um þær úttektir sem ákæra byggir á er skaðabótakrafa B ehf. ekki sett fram með því móti að unnt sé að taka hana til greina. Verður kröfunni því vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærða verður gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Agnar Bent
Brynjólfsson, sæti fangelsi í 3 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað
og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði
almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Einkaréttarkröfu B ehf. er
vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um
sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming
áfrýjunarkostnaðar málsins 428.738 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs
verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 20. október 2011.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að
lokinni aðalmeðferð 25. ágúst sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara
dagsettri 4. maí 2011 á hendur ákærða, Agnari Bent Brynjólfssyni, kt. [...], til heimilis að [...], [...],
„fyrir umboðssvik, með því að hafa á árinu 2007, ítrekað misnotað
aðstöðu sína sem verslunarstjóri B, [...], ...[], og án heimildar komið því til
leiðar að C ehf. fékk afhentar vörur frá versluninni án þess að staðgreiða þær,
sem var andstætt lánareglum B hf., en vörur að fjárhæð kr. 6.508.140 hafa ekki
fengist greiddar úr hendi C ehf.
Telst þetta varða við 249 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu
alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu B ehf. (áður B hf.), kennitala [...], er þess krafist að
ákærði verði dæmdur til greiðslu
skaðabóta að fjárhæð kr. 6.508.140, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti
og verðtryggingu nr. 38/2001, af kr. 1.312.181 frá 31. janúar 2007 til 6.
febrúar 2007, af kr. 5.067.883 frá þeim degi til 9. maí 2007, af kr. 5.583.216
(svo)frá þeim degi til þess dags er liðinn var mánuður frá því að krafan var
kynnt ákærða, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr., sbr. 9.
gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði greiði B ehf.
málskostnað að skaðlausu.“
Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum
ákæruvaldsins í máli þessu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði
krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi og þá krefst verjandi hans
málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málavextir.
Með bréfi til efnahagsbrotadeildar
ríkislögreglustjóra dagsettu 7. janúar 2008 var komið á framfæri kæru B hf. á
hendur ákærða vegna óheimilla úttekta í verslun B að [...] á [...],
en talið var að úttektunum hafi verið leynt vísvitandi. Var talið að um væri að
ræða úttektir á vörum samtals að fjárhæð 6.508.140 krónur. Segir í kærubréfinu
að síðastliðið sumar hafi komið í ljós að fyrirtækið C ehf., kt. [...],
hefði fengið að taka út vörur í versluninni með vitund og samþykki ákærða, sem
þá var verslunarstjóri. Hafi þetta verið gert þrátt fyrir að viðskiptaráðgjöf B
hafi bannað lánsviðskipti við fyrirtækið. Í kjölfarið hafi C ehf. greitt kröfur
vegna úttekta þannig að 18. maí 2007 hafi verið greiddur reikningur að fjárhæð
2.946.700 krónur og 22. júní sama ár
hafi verið greiddir þrír reikningar að fjárhæð 2.947.020 krónur, 1.784.673
krónur og 970.323 krónur og hafi heildargreiðslur því numið 8.658.716 krónum.
Að baki tveimur síðasttöldu reikningunum hafi verið útskrift úr tilboðskerfi B
á hendur D, kt. [...], samtals að fjárhæð 2.844.748 krónur en úttektirnar hafi
verið færðar að mestu leyti á C ehf. samkvæmt tveimur síðastgreindu
reikningunum. Ákærði hafi aðspurður talið að ekki væri um frekari skuldir að
ræða hjá C ehf. og í framhaldi af þessu var gerður starfslokasamningur við
ákærða sem sagði upp störfum 31. ágúst sama ár. Í kærubréfinu kemur fram að við
vörutalningu í versluninni þann 20. október sama ár hafi komið í ljós óeðlileg
vörurýrnun eða vöruvöntun. Hafi E vörustjóri hjá B á [...] upplýst að skráðar hafi verið vöruúttektir í tilboðskerfi B
á nokkra aðila og við leit hafi komið í ljós að mest hafi verið skráð á nafn
fyrrgreinds D en hann mun vera fyrrum starfsmaður C ehf. Í kærubréfinu segir að
tilboðskerfinu sé alls ekki ætlað að halda utan um vörur sem afhentar séu úr
verslunum B, því sé eingöngu ætlað að halda utan um tilboð sem gerð séu og
leitað hafi verið eftir af ýmsum aðilum. Vörur sem skráðar séu í tilboðskerfið
skráist ekki út úr birgðabókhaldi eða lager B og taldi kærandi að með því að
skrá úttektir í tilboðskerfið hafi alvarlegt brot verið framið, enda líti
þannig út sem vörurnar hafi ekki verið afhentar út úr verslun. Hafi afhendingu
á vöru sem hagnýtt hafi verið af C ehf. þannig verið leynt með tvennum hætti,
annars vegar með því að halda utan um úttektirnar í tilboðskerfinu og hins
vegar með því að skrá úttektirnar á
kennitölu annars aðila. Í tölvupóstbréfi F, framkvæmdastjóra verslunarsviðs B,
til verslunarstjóra hjá B dags. 6. nóvember 2006, hafi verið áréttað að
óheimilt væri að afgreiða vörur úr verslun án þess að þær væru skráðar og að
brot gegn því varðaði fyrirvaralausri brottvikningu úr starfi. Fram kemur í
kærubréfinu að ákærði hafi komið á fund lögmanns B, framkvæmdastjóra
verslunarsviðs og rekstrarstjóra verslunarsviðs 1. nóvember 2007. Kvað ákærði
engar líkur á því að vörur hafi farið óútskrifaðar á C ehf. eða aðila tengda
því fyrirtæki og þá kvaðst hann ekki vita hver hefði fært vörur í tilboðskerfi
á D sem hefðu farið til C ehf. Hann hafi haldið að C ehf. hafi klárað sín mál
með því að greiða um 8,6 milljónir og hafi ákærði viðurkennt að hafa leyft þær
úttektir. Áðurgreindur D mun hafa komið
á fund B-manna 2. nóvember 2007 og hafi hann þá sagt allar úttektir sem fundist
hefðu á hans nafni í tilboðskerfinu hafa verið fyrir C ehf. og hafi varan verið
notuð í nýbyggingar á vegum þess fyrirtækis. Hafi mest af vörunum verið teknar
út á árinu 2007 en hann grunaði að eftir uppgjör C ehf. við B í júní 2007 hafi
enn verið til eldri skuld sem sett hafi verið yfir á nafn hans. D kvað G,
eiganda C ehf., hafa komið að máli við sig skömmu eftir uppgjörið og spurt
hvort hann hafi viljað gera sér þann greiða að vöruúttektir C ehf. yrðu settar
til skamms tíma á hans nafn hjá B. Eftir þetta hefði ákærði hringt í sig og
spurt hvort það væri í lagi að setja úttektir C ehf. á nafn Ds.
Hafi D látið til leiðast þar sem ákærði hefði óttast um starf sitt hjá B. Hafi
megnið af vörunum verið notað í húsbyggingar í [...] á vegum C ehf. Hafi D margoft rætt við ákærða um stöðuna á
úttektunum og hvenær þær yrðu greiddar en ákærði hafi reynt að koma sér út úr
þessu með því að G til að ganga frá greiðslu.
Kærandi taldi að ógreiddar úttektir
fyrir C ehf. á nafni D væru samkvæmt eftirtöldum útskriftum úr tilboðskerfi B:
31. janúar 2007, 1.312.181 króna, 6. febrúar sama ár, 3.755.702 krónur, 9. maí
sama ár 515.333 krónur og 31. maí sama ár, 924.924 krónur, eða samtals 6.508.140
krónur.
Lögð hefur verið fram í máli þessu
starfslýsing verslunarstjóra og kemur fram í gr. 3.1.1. að verslunarstjóri beri
ábyrgð á að öllum vinnuferlum sé framfylgt og lokið. Þá kemur fram í gr. 11.6.
að fyrirtæki og einstaklingar geti komist í mánaðarleg reikningsviðskipti hjá B.
Skuli viðskiptavinir sem óski eftir að komast í slík reikningsviðskipti snúa
sér til viðskiptaráðgjafar B eða til verslunarstjóra sem einnig taki við slíkum
umsóknum.
Framburður ákærða og
vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að
hann kannaðist við að hafa vitað af umræddum viðskiptum, þ.e. að hafa notað
ákveðna biðreikninga og verslunarstjórareikninga en menn hefðu fengið ákveðna
fyrirgreiðslu þar til fokheldisvottorð fékkst og menn fengu greiðslur og gætu
gert upp skuldir sínar við B. Hann kvaðst hafa verið verslunarstjóri og hafa
haldið utan um reksturinn, hann hafi séð um mannahald og verið æðstráðandi á
staðnum. Hann kannaðist við að hafa kynnt sér starfslýsingu en tók fram að hann
hefði haft mjög lítið með fjármál fyrirtækisins að gera. Hann kvaðst hafa tekið
við umsóknum en svokölluð viðskiptaráðgjöf hafi tekið ákvörðun um
reikningsviðskipti, það hafi ekki verið í verkahring verslunarstjóra. Hann kvað
tilboðskerfið ekki hafa verið notað sem afgreiðslukerfi en ef tilboði hafi
verið tekið hafi varan verið færð í reikning hjá viðkomandi aðila eða
staðgreidd. Hann kvað verslunarstjórareikning hafa verið notaðan utan
skrifstofutíma þegar ekki hafi verið hægt að ná í viðskiptaráðgjöfina. Hafi mönnum
þá verið gefið tækifæri til að taka út vöru og síðan hefði verið gengið frá
málinu þegar næðist í starfsmenn hjá viðskiptaráðgjöfinni. Ákærði taldi
fullvíst að þessi háttur hefði verið hafður á áður en hann hóf störf hjá
fyrirtækinu. Hann taldi menn hafa haft ákveðið svigrúm en menn hefðu afgreitt
vörur sem þeir teldu að þeir gætu fengið greiddar á einhverjum tímapunkti. Hann
kvað engan einn mann hafa haldið utan um þetta, allar færslur hafi verið
aðgengilegar í tölvukerfinu. Hann kvað sölumenn nokkrum sinnum hafa leitað til
sín þegar greiðsla hafi ekki borist frá viðskiptavinum. Ákærði kvað C ehf. ekki
hafa verið í reikningsviðskiptum hjá B, því hafi verið synjað þar sem þeir hafi
ekki getað sett nægar tryggingar. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að fyrirtækið
væri í fjárhagserfiðleikum en það hafi fengið nóg af lóðum og hafi haft næg
verkefni. Hann kvaðst hafa tvívegis innheimt greiðslur hjá fyrirsvarsmanni C
ehf. Hann kannaðist ekki við að hafa afgreitt vörur til þessa fyrirtækis og
hafi hann ekki komið að þessu öðru vísi en að starfsmenn B hafi vitað að ákærði
hafi vitað af úttektunum. Hann kvað starfsemina hafa snúist um að auka veltu B,
enda hafi fyrirtækið átt í harðri samkeppni. Ákærði kannaðist við að hafa gefið
heimild til þess að halda mætti áfram að afgreiða C ehf., hann myndi sjá um að
innheimta hjá þeim. Hann kvaðst hafa fengið staðfestingu hjá [...]banka að fyrirtækið væri með
framkvæmdir í [...] og væri
beðið eftir fokheldisvottorði. Ákærði kannaðist við að úttektir hafi verið
færðar á nafn D og hafi skýringin verið sú að greiðslur hefðu dregist og hefðu
þeir verið að kaupa sér tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa haft fulla yfirsýn yfir
skuld fyrirtækisins en ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en að skuldin
yrði greidd. Hann kvaðst ekki hafa hagnast sjálfur á þessum viðskiptum. Hann
kvað þennan hátt hafa verið hafðan á með önnur fyrirtæki en þau hefðu ekki
fengið fyrirgreiðslu í bönkum fyrr en fokheldisvottorð hafi legið fyrir. Hefði
verið lokað fyrir viðskiptin hefði fokheldisvottorð ekki fengist og þar af
leiðandi hefði engin greiðsla fengist.
Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði verið framkvæmdastjóri verslunarsvið hjá B og yfirmaður ákærða þegar
mál þetta kom upp. Hann kvað verslunarstjóra hafa sent inn reikningsumsóknir
til viðskiptaráðgjafar sem hafi metið hvort reikningsviðskipti yrðu heimiluð.
Hann kvað verslunarstjóra hafa til umráða reikninga sem þeir hafi getað notað
til lánsviðskipta utan skrifstofutíma. Hafi þetta eingöngu verið hugsað sem
bráðabirgðaúrræði. Hann kannaðist ekki við að svokallað tilboðskerfi hefði
verið notað nema í því tilviki sem hér um ræðir. Hann kvað þessa aðferð
stranglega bannaða og hafi ákærða verið kunnugt um það. Hann hafi sent tvo
tölvupósta, í október og nóvember 2006 þar sem sérstaklega hafi verið áréttað
að algjörlega óheimilt væri að afhenda vörur út úr húsi án þess að þær væru
skráðar. Tilboðskerfið hafi aðeins verið hugsað til að gera verðtilboð, ekki
til þess að halda utan um viðskipti. Hann kvað C ehf. ekki hafa verið í
reikningsviðskiptum, því hafi verið hafnað. Hann kvað sér fyrst hafa orðið
kunnugt um viðskiptin við fyrirtækið um vorið 2007 þegar í ljós kom að því
hefði verið lánað í gegnum verslunarstjórareikning. Vitnið kvað verslunarstjóra
ekki heimilt að nota verslunarstjórareikninginn til lánsviðskipta við þá sem
viðskiptaráðgjöf hafði ekki heimilað í reikningsviðskipti.
Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði verið rekstrarstjóri verslunarsviðs hjá B. Um vorið 2007 hefðu komið
í ljós ógreiddar nótur á bak við á fyrirtækið C ehf. Hefði ákærði gengið í að
innheimta kröfuna á hendur fyrirtækinu og hefðu fengist greiddar um 8,6
milljónir. Hafi þá verið farið stranglega yfir það að þetta væri bannað. Eftir
að vörutalning hafi farið fram um haustið hafi komið fram óeðlilega mikill
mismunur og hafi þá komið í ljós að vörur fyrir rúmar 6 milljónir hefðu verið
afhentar C ehf. úr tilboðskerfinu en á nafni D. Hefði starfsfólk borið að
ákærði hefði heimilað þessar úttektir og á fundi með ákærða hafi hann í fyrstu
ekki viljað kannast við þetta en sagt að hann skyldi reyna að fá þetta greitt.
Hann kvað þetta eina tilvikið sem hann hafi vitað um að tilboðskerfið hafi
verið notað með þessum hætti hjá B. Hann kvað þetta engan veginn í samræmi við
lánareglur B. Ákærða hafi verið fullkunnugt um að viðskiptaráðgjöf hefði hafnað
því að hafa C ehf. í reikningsviðskiptum. Hann kvað verslunarstjórareikning
hafa verið á ábyrgð verslunarstjóra og hugsaðan til að lána smærri upphæðir
utan skrifstofutíma en ekki hefði verið heimilt að lána þeim fyrirtækjum sem
ekki hefðu fengið samþykkt reikningsviðskipti.
Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði starfað fyrir C ehf. og m.a. hafi hann sótt efni í B. Hann kvað sér
ekki hafa verið kunnugt um að fyrirtækið væri ekki í reikningsviðskiptum hjá B.
Fyrst hafi allar vörur verið staðgreiddar en síðar hafi verið um
reikningsviðskipti að ræða. Eftir að fyrirtækið hafi lent í greiðsluerfiðleikum
hafi ákærði spurt hvort hann mætti flytja viðskiptin yfir á nafn vitnisins þar
til fyrirsvarsmaður C ehf. greiddi reikningana. Vitnið kvaðst ekki hafa gefið
leyfi fyrir þessu en ekki bannað það heldur. Eftir þetta hafi vitnið gefið upp
sína kennitölu þegar það tók út vörur en úttektirnar hafi verið í þágu C ehf.
Hann kvað það hafa komið fyrir að fyrirtækinu hafi verið neitað um úttekt en þá
hafi verið haft samband við ákærða sem hafi heimilað úttektir.
Vitnið I skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hafi verið staddur á skrifstofu B þegar ákærði hafi kynnt hann fyrir G,
fyrirsvarsmanni C ehf. Hann hafi staðgreitt vörur í fyrstu en síðar hafi það
gerst að vörur hafi verið settar í tilboðskerfið, þær hafi verið afhentar en
ekki hafi verið greitt fyrir þær. Vitninu hafi verið sagt að hann væri að bíða
eftir fokheldisvottorði og myndi hann greiða þegar það kæmi. Vitnið staðfesti
að þessi háttur hefði verið hafður á um fleiri viðskiptavini og kvað vitnið
ákærða hafa haft frumkvæði að þessum viðskiptaháttum.
Vitnið J skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði verið sölumaður hjá B og hefði að frumkvæði ákærða verið sett upp
reikningsviðskiptakerfi fyrir C ehf. með þeim hætti að tilboðskerfið hélt utan
um það. Hann kvað þetta hafa verið gert með fleiri fyrirtæki en alltaf með
samþykki ákærða.
Vitnið K skýrði svo frá fyrir dómi að
hún hafi unnið á skrifstofu B og hafi henni verið kunnugt um að skuld C ehf.
hafi verið geymd í tilboðskerfinu. Ákærði hafi gefið fyrirmæli um að hafa
þennan hátt á og hafi þetta verið gert með fleiri fyrirtæki en ekki hafi verið
um eins háar fjárhæðir að ræða. Hún vissi ekki til þess að tilboðskerfið hafi
verið notað með þessum hætti áður en ákærði hóf störf hjá B. Hún kvaðst hafa
vitað að C ehf. hafi ekki verið í reikningsviðskiptum hjá B þar sem fyrirtækið
hafi verið á vanskilaskrá. Hún hélt að ákærða hafi verið kunnugt um þessar reglur.
Vitnið E skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði unnið að talningu árið 2007 og hafi þá komið mikið misræmi í ljós.
Hann kvaðst þá hafa látið vita af því að vörur hefðu verið afhentar en settar á
biðreikning eða tilboðsreikning hjá C ehf.
Vitnið L skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hafi tekið við af ákærða sem verslunarstjóri hjá B og hafi E komið til
hans og bent honum á nótur eða tilboð sem legið hafi á bak við tölvukerfið eða
í tilboðskerfi sem flutt hafi verið á nafn D frá C ehf., greinilega í þeim
tilgangi að hylja slóðina. Hann kvað þessum viðskiptaháttum ekki hafa verið
haldið áfram eftir að hann hóf störf hjá B.
Vitnið M skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði verið aðstoðarverslunarstjóri á umræddum tíma. Hann kvaðst lítið
geta borið um málsatvik og kvað sér ekki hafa verið kunnugt um tilboðskerfið.
Hann kvaðst hafa talið að C ehf. hefði verið í reikningsviðskiptum.
Vitnið N skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði hætt störfum hjá B í júní 2006. Hann
mundi eftir því að starfsmaður C hafi á laugardegi ætlað að taka út vöru
en reikningurinn hafi verið lokaður. Hafi hann haft samband við ákærða sem hafi
sagt að ekki mætti afhenda vöru án þess að hún væri staðgreidd. Hann vissi ekki
til þess að tilboðskerfið hefði verið notað á þessum tíma.
Vitnið O skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði á umræddum tíma verið starfsmaður B. Hann kannaðist við að hafa
afgreitt pöntun frá C ehf. og hafi varan verið greidd nokkrum dögum síðar.
Niðurstaða.
Ákærða er gefið að sök að hafa framið umboðssvik með því að hafa á árinu
2007 ítrekað misnotað aðstöðu sína sem verslunarstjóri B og án heimildar komið
því til leiðar að fyrirtækið C ehf. fékk afhentar vörur frá versluninni án þess
að staðgreiða þær. Er þessi háttsemi ákærða talin hafa verið andstæð lánareglum
B og er í ákæru talið að vörur að fjárhæð um sex og hálf milljón króna hafi
ekki fengist greiddar frá fyrirtækinu.
Ákærði kannaðist við að hafa vitað af umræddum viðskiptum, þ.e. að hafa
notað ákveðna biðreikninga og verslunarstjórareikninga. Hefðu viðskiptavinir
sem stóðu í byggingaframkvæmdum fengið ákveðna fyrirgreiðslu hjá B þar til
fokheldisvottorð fékkst, en það mun hafa verið skilyrði frekari fjármögnunar
framkvæmda og gerðu menn að því vottorði fengnu upp skuldir sínar við B. Ákærði kannaðist við að hafa kynnt sér
starfslýsingu en tók fram að hann hefði haft mjög lítið með fjármál
fyrirtækisins að gera. Hann kvaðst hafa tekið við umsóknum en svokölluð
viðskiptaráðgjöf hafi tekið ákvörðun um reikningsviðskipti, það hafi ekki verið
í verkahring verslunarstjóra. Hann kvað tilboðskerfið ekki hafa verið notað sem
afgreiðslukerfi en ef tilboði hafi verið tekið hafi varan verið færð í reikning
hjá viðkomandi aðila eða staðgreidd. Hann kvað verslunarstjórareikning hafa
verið notaðan utan skrifstofutíma þegar ekki hafi verið hægt að ná í
viðskiptaráðgjöfina. Hafi mönnum þá verið gefið tækifæri til að taka út vöru og
síðan hefði verið gengið frá málinu þegar næðist í starfsmenn hjá
viðskiptaráðgjöfinni. Ákærði kannaðist við að C ehf. hafi ekki verið í
reikningsviðskiptum hjá B, því hafi verið synjað þar sem þeir hafi ekki getað
sett nægar tryggingar. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að fyrirtækið væri
í fjárhagserfiðleikum en það hafi fengið nóg af lóðum og hafi haft næg
verkefni. Hann kannaðist ekki við að hafa afgreitt vörur til þessa fyrirtækis
en kvaðst hafa vitað af úttektunum. Hann kvað starfsemina hafa snúist um að
auka veltu B, enda hafi fyrirtækið átt í harðri samkeppni. Ákærði kannaðist við
að hafa gefið heimild til þess að halda mætti áfram að afgreiða C ehf., hann
myndi sjá um að innheimta hjá þeim. Hann kvaðst hafa fengið staðfestingu hjá [...]banka að fyrirtækið væri með
framkvæmdir í [...] og væri
beðið eftir fokheldisvottorði. Ákærði kannaðist við að úttektir hafi verið
færðar á nafn D og hafi skýringin verið sú að greiðslur hefðu dregist og hefðu
þeir verið að kaupa sér tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa haft fulla yfirsýn yfir
skuld fyrirtækisins en ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en að skuldin
yrði greidd. Hann kvaðst ekki hafa hagnast sjálfur á þessum viðskiptum. Hann
kvað þennan hátt hafa verið hafðan á með önnur fyrirtæki en þau hefðu ekki
fengið fyrirgreiðslu í bönkum fyrr en fokheldisvottorð hafi legið fyrir. Hefði
verið lokað fyrir viðskiptin hefði fokheldisvottorð ekki fengist og þar af
leiðandi hefði engin greiðsla fengist.
Vitnið F sem var framkvæmdastjóri
verslunarsvið hjá B skýrði svo frá fyrir dómi að verslunarstjórar hafi sent inn
reikningsumsóknir til viðskiptaráðgjafar sem hafi metið hvort
reikningsviðskipti yrðu heimiluð. Hann kvað verslunarstjóra hafa til umráða
reikninga sem þeir hafi getað notað til lánsviðskipta utan skrifstofutíma. Hafi
þetta eingöngu verið hugsað sem bráðabirgðaúrræði. Hann kannaðist ekki við að
svokallað tilboðskerfi hefði verið notað nema í því tilviki sem hér um ræðir.
Hann kvað þessa aðferð stranglega bannaða og hafi ákærða verið kunnugt um það.
Hann hafi sent tvo tölvupósta, í október og nóvember 2006 þar sem sérstaklega
hafi verið áréttað að algjörlega óheimilt væri að afhenda vörur út úr húsi án
þess að þær væru skráðar. Tilboðskerfið hafi aðeins verið hugsað til að gera
verðtilboð, ekki til þess að halda utan um viðskipti. Hann kvað C ehf. ekki
hafa verið í reikningsviðskiptum, því hafi verið hafnað. Hann kvað sér fyrst
hafa orðið kunnugt um viðskiptin við fyrirtækið um vorið 2007 þegar í ljós kom
að því hefði verið lánað í gegnum verslunarstjórareikning. Vitnið kvað
verslunarstjóra ekki heimilt að nota verslunarstjórareikninginn til
lánsviðskipta við þá sem viðskiptaráðgjöf hafði ekki heimilað í
reikningsviðskipti.
Vitnið H sem var rekstrarstjóri
verslunarsviðs hjá B skýrði svo frá fyrir dómi að um vorið 2007 hefðu komið í
ljós ógreiddar nótur á bak við á
fyrirtækið C ehf. Hefði ákærði gengið í að innheimta kröfuna á hendur
fyrirtækinu og hefðu fengist greiddar um 8,6 milljónir króna. Hafi þá verið
farið stranglega yfir það að þetta væri bannað. Eftir að vörutalning hafi farið
fram um haustið hafi komið fram óeðlilega mikill mismunur og hafi þá komið í
ljós að vörur fyrir rúmar 6 milljónir hefðu verið afhentar C ehf. úr
tilboðskerfinu en á nafni D. Hefði starfsfólk borið að ákærði hefði heimilað
þessar úttektir og á fundi með ákærða hafi hann í fyrstu ekki viljað kannast
við þetta en sagt að hann skyldi reyna að fá þetta greitt. Hann kvað þetta eina
tilvikið sem hann hafi vitað um að tilboðskerfið hafi verið notað með þessum
hætti hjá B. Hann kvað þetta engan veginn í samræmi við lánareglur B. Ákærða
hafi verið fullkunnugt um að viðskiptaráðgjöf hefði hafnað því að hafa C ehf. í
reikningsviðskiptum. Hann kvað verslunarstjórareikning hafa verið á ábyrgð
verslunarstjóra og hugsaðan til að lána smærri upphæðir utan skrifstofutíma en
ekki hefði verið heimilt að lána þeim fyrirtækjum sem ekki hefðu fengið
samþykkt reikningsviðskipti.
Vitnið D kvaðst hafa starfað fyrir C
ehf. og m.a. hafi hann sótt efni í B. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um
að fyrirtækið væri ekki í reikningsviðskiptum hjá B. Fyrst hafi allar vörur
verið staðgreiddar en síðar hafi verið um reikningsviðskipti að ræða. Eftir að
fyrirtækið hafi lent í greiðsluerfiðleikum hafi ákærði spurt hvort hann mætti
flytja viðskiptin yfir á nafn vitnisins þar til fyrirsvarsmaður C ehf. greiddi
reikningana. Vitnið kvaðst ekki hafa gefið leyfi fyrir þessu en ekki bannað það
heldur. Eftir þetta hafi vitnið gefið upp sína kennitölu þegar það tók út vörur
en úttektirnar hafi verið í þágu C ehf. Hann kvað það hafa komið fyrir að
fyrirtækinu hafi verið neitað um úttekt en þá hafi verið haft samband við
ákærða sem hafi heimilað úttektir.
Vitnið I, starfsmaður B, skýrði svo
frá fyrir dómi að fyrirsvarsmaður C ehf. hafi staðgreitt vörur í fyrstu en
síðar hafi það gerst að vörur hafi verið settar í tilboðskerfið, þær hafi verið
afhentar en ekki hafi verið greitt fyrir þær. Vitninu hafi verið sagt að hann
væri að bíða eftir fokheldisvottorði og myndi hann greiða þegar það kæmi.
Vitnið staðfesti að þessi háttur hefði verið hafður á um fleiri viðskiptavini
og kvað vitnið ákærða hafa haft frumkvæði að þessum viðskiptaháttum.
Vitnið J skýrði svo frá fyrir dómi að
hann hefði verið sölumaður hjá B og hefði að frumkvæði ákærða verið sett upp
reikningsviðskiptakerfi fyrir C ehf. með þeim hætti að tilboðskerfið hélt utan
um það. Hann kvað þetta hafa verið gert með fleiri fyrirtæki en alltaf með
samþykki ákærða.
Vitnið K skýrði svo frá fyrir dómi að
hún hafi unnið á skrifstofu B og hafi henni verið kunnugt um að skuld C ehf.
hafi verið geymd í tilboðskerfinu samkvæmt fyrirmælum ákærða.
Samkvæmt framansögðu verður að telja
fullsannað að ákærða hafi verið kunnugt um að af hálfu fyrirsvarsmanna B hafði
því verið hafnað að hafa fyrirtækið C ehf. í reikningsviðskiptum. Er fram komið
í málinu að ástæða þess hafi verið sú að fyrirtækið hafi ekki getað sett nægar
tryggingar fyrir slíkum viðskiptaháttum. Hlaut ákærða því að hafa verið ljóst
að af þessum sökum var honum óheimilt að afhenda umræddu fyrirtæki vörur án
þess að þær væru staðgreiddar. Ákærði gegndi störfum verslunarstjóra og var því
í aðstöðu til þess að koma því til leiðar þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli að
fyrirtækið fékk afhentar vörur frá B án þess að staðgreiða þær. Það gerði
ákærði með því að skrá vörurnar í svokallað tilboðskerfi en það leiddi til þess
að vörurnar voru ekki skráðar út af lager í birgðabókhaldi og því gátu
stjórnendur fyrirtækisins ekki séð fyrr en við birgðatalningu að vörurnar hefðu
verið afhentar. Þá gerði ákærði sér far um að leyna því að vörur hefðu verið
afhentar fyrirtækinu C ehf. með því að skrá þær á nafn og kennitölu D,
starfsmanns þess fyrirtækis. Ákærða hlaut að vera ljóst að veruleg hætta væri á
því að fyrirtækið C ehf. væri ekki í stakk búið til þess að greiða fyrir
vöruúttektir sínar og hefur hann því með háttsemi sinni misnotað aðstöðu sína
sem verslunarstjóri hjá B með því að afhenda umræddu fyrirtæki vörur eins og
nánar er rakið í ákæru. Hefur ákærði því gerst sekur um brot gegn 249. gr.
almennra hegningarlaga og hefur hann unnið sér til refsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur
hann ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í
8 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún niður falla að
liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr.
almennra hegningarlaga.
Bótakrafa sem fyrir liggur í máli
þessu er byggð á úttektum fyrir C ehf. á D sem fundust í tilboðskerfi B og er
þannig sundurliðuð að úttekt 31. janúar 2007 er talin nema 1.312.181 krónu,
úttekt 6. febrúar sama ár er talin nema 3.755.702 krónum, úttekt 9. maí sama ár
er talin nema 515.333 krónum og úttekt 31. maí sama ár er talin nema 924.924
krónum, eða samtals 6.508.140 krónum.
Vísað er til almennu skaðabótareglunnar og að því er vexti varðar er vísað til
1. mgr. 8. gr. laga nr., 9. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafist er
málskostnaðar með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Að mati dómsins
er bótakrafan nægum gögnum studd og verður hún tekin til greina eins og í
dómsorði greinir. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. síðastgreindra laga ákveðst
málskostnaður lögmanns brotaþola 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti
sem ákærða ber að greiða.
Með vísan til 1. mgr.
218. gr., sbr. 217. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða
til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda ákærða, Gríms
Hergeirssonar hdl., 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá verður
ákærða gert að greiða kostnað og þóknun vegna vitna samkvæmt yfirliti sækjanda,
samtals 164.626 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og
sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.
Dómsorð:
Ákærði, Agnar Bent Brynjólfsson, sæti
fangelsi í 8 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún niður
falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð
57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan
sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda ákærða, Gríms Hergeirssonar hdl.,
439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk kostnaðar og þóknunar vegna
vitna 164.626 krónur.
Ákærði greiði B ehf. (áður B hf.), kennitala [...], skaðabætur
að fjárhæð 6.508.140 krónur, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001, af 1.312.181 krónu frá 31. janúar 2007 til 6.
febrúar 2007, af 5.067.883 krónum frá þeim degi til 9. maí 2007, af 5.583.216
krónum (svo) frá þeim degi til dómsuppsögu, en frá þeim degi með dráttarvöxtum
skv. 1. mgr. 6.gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags og 300.000 krónur í
málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.