Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2009


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. október 2009.

Nr. 112/2009.

Húsasmiðjan hf.

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Stafnáss ehf.

(Árni Ármann Árnason hdl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun.

Fallist var á kröfu þb. S ehf. um að rifta greiðslu félagsins að fjárhæð 10.000.000 krónur, til H hf., á grundvelli 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2009. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ekki er ágreiningur milli málsaðila um að fyrirsvarsmönnum áfrýjanda hafi, nokkru áður en greiðslan var innt af hendi 14. mars 2008, verið orðið kunnugt um að árangurslaust fjárnám hafði verið gert hjá Stafnási ehf. 7. janúar sama ár. Þá liggur fyrir að skuld hafði safnast upp á viðskiptareikningi félagsins hjá áfrýjanda. Hann var af þeim sökum hættur að leyfa félaginu úttektir í reikning og voru öll viðskipti ársins 2008 gegn staðgreiðslu. Af þessu sem og öðrum upplýsingum sem fram koma í málsgögnum er ljóst að greiðsluerfiðleikar Stafnáss ehf. hlutu að hafa verið áfrýjanda  kunnir þegar greiðslan var innt af hendi. Þá er komið fram í málinu að framkvæmdastjóri Stafnáss ehf. og eiginkona hans voru í persónulegri ábyrgð fyrir skuldinni við áfrýjanda og voru þau tilgreind með félaginu sem skuldarar að kröfu áfrýjanda í sáttinni 23. janúar 2008, sem getið er í héraðsdómi, og rituðu nöfn sín undir hana.

Ekki er vafi á að Stafnás ehf. var ógjaldfær þegar greiðslan til áfrýjanda átti sér stað 14. mars 2008, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 22. apríl 2008 samkvæmt gjaldþrotabeiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. febrúar sama ár. Af því sem að framan var rakið verður ráðið að greiðslan var áfrýjanda á ótilhlýðilegan hátt til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa svo sem það er orðað í 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og áfrýjanda mátti vera þetta ljóst. Jafnframt verður talið að öðrum skilyrðum lagaákvæðisins fyrir riftun greiðslunnar sé fullnægt. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort áfrýjanda hafi mátt vera ljóst að komin var fram krafa um gjaldþrotaskipti, þegar greiðslan átti sér stað, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991.

Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest. Áfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Rift er greiðslu Stafnáss ehf. að fjárhæð 10.000.000 krónur til áfrýjanda, Húsasmiðjunnar hf., sem innt var af hendi 14. mars 2008.

Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Stafnáss ehf., 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. júní 2008 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. desember sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Stafnáss ehf., Skúlagötu 30, Reykjavík á hendur Húsasmiðjunni hf., Holtavegi 10, Reykjavík, með stefnu birtri  14. ágúst  2008.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.                    Að rift verði með dómi greiðslu á 10.000.000 kr. sem fram fór hinn 14. mars síðastliðinn með greiðslu inn á reikning Legis, lögfræðistofu félagsins.

2.                    2.  Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.000.000 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. júní 2008 til greiðsludags. 

3.                    Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. 

Málavextir

Hinn 7. janúar 2008 var gert árangurslaust fjárnám hjá Stafnási ehf.

Hinn 6. febrúar 2008 (frestdagur) barst beiðni um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta.

Hinn 14. mars 2008 voru 10.000.000 kr. greiddar af Stafnási ehf. til lögfræðistofunnar Legis ehf. vegna Húsasmiðjunnar.

Hinn 22. apríl 2008 var bú Stafnáss ehf., tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og Árni Ármann Árnason hdl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar tók þrotabúið yfir öll fjárhagsleg réttindi Stafnáss ehf., sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Innköllun til kröfuhafa var birt í Lögbirtingablaði 28. apríl 2008.

Hinn 22. maí 2008, rifti skiptastjóri greiðslunni, m.a. með vísan til 139. greinar laga 21/1991 og krafðist endurgreiðslu, en stefndi hefur ekki orðið við þeirri beiðni.

Málsástæður og lagarök stefnanda

 Riftunarkrafan er einkum byggð á 139. gr. laga nr. 21/1991 þar sem riftun er heimiluð ef greitt er eftir frestdag nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, eða nauðsynlegt hafi verið að greiða til að forðast tjón, eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.

Krafa stefnda, sem er tilkomin vegna gamalla vanskila og greidd var eftir 6. febrúar 2008 (frestdag), er riftanleg skv. umræddri lagagrein. Engar líkur eru á því að krafan hefði greiðst úr þrotabúinu sem almenn krafa. Kröfulýsingaskráin ber með sér að kröfur í búið hljóða upp á rúma 3,4 milljarða og þar af er 2.256.762.495 kr. lýst sem veðkröfu eða forgangskröfu. Eignir búsins eru yfirveðsettar og því var ekki einu sinni tekin afstaða til almennra krafna, enda ljóst að ekkert fæst til greiðslu upp í þær. Stefndi skoðaði vanskilaskrá félagsins þrisvar sinnum á tímabilinu 28. febrúar til 6. mars 2008. Félagið vissi því vel að Stafnás ehf. hafði lýst yfir eignaleysi hjá sýslumanni í byrjun janúar og að fleiri kröfuhafar voru með ógreiddar kröfur á hendur félaginu. Stefnda var því fullkunnugt um eignaleysi félagsins og mátti vita að komin væri fram beiðni um gjaldþrotaskipti þess.

Stefndi reisir einnig kröfu sína um riftun sjálfstætt á því að umrædd greiðsla sé riftanleg á grundvelli 141. gr. l. nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri grein má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

Gert var árangurslaust fjárnám hjá félaginu rúmum tveimur mánuðum áður en greiðslan var innt af hendi og því alveg ljóst að félagið var ógjaldfært. Þá eru engar líkur á því að krafan hefði greiðst úr þrotabúinu sem almenn krafa auk þess sem stefnda var fullkunnugt um fjárhagsstöðu Stafnáss ehf., en hvort tveggja hefur verið rökstutt ítarlega hér að framan.

Um lagarök vegna 1. tl. dómkrafna um riftun á greiðslu  er vísað til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, aðallega 139. gr. en einnig á 141. gr. laganna.  Krafa um fjárgreiðslu skv. 2. tölulið dómkrafna er reist á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 einkum 142. gr. þeirra laga. Kröfur sínar um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, en upphafsdagur dráttarvaxta styðst við 3. mgr. 5. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðst við 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um fyrirsvar skiptastjóra vísar stefnandi til XIX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi telur að skilyrði 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 varðandi grandsemi stefnda séu ekki fyrir hendi og beri því að sýkna stefnda. Er kröfum stefnanda byggðum á grandsemi stefnda mótmælt sem ósönnuðum.

Stefndi telur ljóst að stefnandi var með rekstur á hendi allt fram til þess dags er úrskurður um töku búsins til gjaldþrotaskipta var kveðinn upp. Kemur þetta fram á bréfi Friðriks H. Guðmundssonar.

Það var fyrst með innköllun skiptastjóra, sem birt var í Lögbirtingi þann 28. apríl 2008, að fram kemur að frestdagur við skiptin hafi verið hinn 6. febrúar 2008.  Félagið var úrskurðað gjaldþrota hinn  22. apríl 2008.  Greiðsla sú sem innt var af hendi til  umboðsmanns stefnda hinn 14. mars 2008, er því gerð einum og hálfum mánuði áður en innköllun var birt.

Stefndi bendir á að upplýsingar liggi hvergi fyrir um þá lögaðila eða einstaklinga, sem krafist hefur verið gjaldþrotaskipta á. Stefndi fékk greiðslu þá, sem krafa stefnanda byggist á, greidda löngu fyrir töku félagsins til gjaldþrotaskipta. Þá fyrst, þegar búið er að úrskurða um gjaldþrotaskipti, liggja fyrir skráðar upplýsingar um töku búsins til gjaldþrotaskipta.

Sú staðhæfing stefnanda að stefndi hafi vitað um það, að krafa um gjaldþrotaskipti hafi verið fram komin, er því röng og algerlega ósönnuð.

Í 1. mgr. 139. laga 21/1991, er sá áskilnaður gerður, að sá sem greiðslu naut, hafi vitað að fram hafi komið beiðni um töku búsins til gjaldþrotaskipta.  Fræðimenn hafa skýrt þessa grein þannig, að hafi félag fengið greiðslustöðvun, séu líkur á að kröfuhafar séu grandsamir, vegna þess að aðstoðarmanni við greiðslustöðvun beri að senda kröfuhöfum bréf og tilkynna um greiðslustöðvun. Má því álykta af þessari lögskýringu, að gera þurfi strangar kröfur þegar metið er hvort kröfuhafi hafi mátt vita að búið var að leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti.

Þar sem engar opinberar skráðar upplýsingar liggja fyrir varðandi slík mál, er með engu móti  hægt að gera þá kröfu að kröfuhafar afli sér upplýsinga af þessu tagi þegar greiðsla er innt af hendi. Það yrði óframkvæmanlegt í nútíma viðskiptaumhverfi, ef gerð yrði sú krafa að kröfuhöfum yrði gert skylt að afla slíkra upplýsinga. Þessar upplýsingar fást eingöngu með því að senda sérstaka fyrirspurn þessu að lútandi, til þess héraðsdóms sem um málið fjallar.

Lögskýringar fræðimanna benda til þess að eitthvað skjallegt verði að liggja fyrir svo kröfu um grandsemi sé fullnægt og þá þannig að sérstakt bréf hafi verið sent kröfuhöfum, eins og tilkynning um fram komna greiðslustöðvun.

Hefði umboðsmaður stefnda vitað af því að komin var fram krafa um gjaldþrotaskipti, er ljóst að greiðslunni hefði  verið hafnað.

Umboðsmaður stefnda, Legis ehf., hafði innheimtu kröfunnar á hendi, og var  grandlaus þegar greiðslan var innt af hendi. Að baki kröfunni voru persónuábyrgðir aðila  sem skráðir voru fyrir eignum.                Ljóst er að umboðsmaður stefnda hefði ekki frestað innheimtuaðgerðum á hendur þessum aðilum og fellt niður, hefði hann verið grandsamur um það að komin var fram krafa um gjaldþrotaskipti, og greiðslan því hugsanlega riftanleg með vísan til laga um gjaldþrotaskipti.

Engin rök eða skynsemi hefði verið hjá umboðsmanni stefnda að taka við greiðslunni  hefði hann verið grandsamur og vitað um framkomna gjaldþrotabeiðni.   Þvert á móti hefði umboðsmaður stefnda neitað að taka við greiðslunni, og haldið innheimtuaðgerðum áfram á hendur ábyrgðaraðilum með það að markmiði að tryggja kröfu umbjóðanda síns.

Rök stefnanda fyrir grandsemi stefnda byggjast einvörðungu á því að starfsmenn  stefnda hafi skoðað vanskilaskrá félagsins 3 sinnum á tímabilinu frá 28. febrúar  til 6. mars 2008, og að þar hafi komið fram að félagið hafi lýst yfir eignaleysi í byrjun janúar og að fleiri kröfuhafar væru með ógreiddar kröfur á hendur félaginu eins og segir í stefnu.  Á þessum rökum einum byggir stefnandi kröfu sínar, þ.e. að starfsmenn stefnda sem flettu upp í vanskilskrá, hafi þar með mátt  vita að komin hafi verið fram beiðni um gjaldþrotaskipti á hendur félaginu, og þar með hafi umboðsmaður stefnda átt að vera grandsamur um framkomna gjaldþrotabeiðni. Þessari túlkun stefnanda er mótmælt.

Áréttað er að það voru ekki starfsmenn stefnda sem móttóku hina umþrættu greiðslu, heldur umboðsmaður stefnda.

Stefnandi var í miklum staðgreiðsluviðskiptum við stefnda á þeim tíma sem uppflettingar fóru fram. Um 94 starfsmenn stefnanda hafa aðgang að vanskilaskrá Creditinfo, og er því eðlilegt að starfsmenn hafi verið að fletta upp upplýsingum um félagið í tengslum við staðgreiðsluviðskipti þess.

Það er vinnuregla hjá stefnda að þegar um staðgreiðsluviðskipti er að ræða með ávísunum, þá eiga starfsmenn stefnda að kanna vanskilaskrá. Greitt var með ávísunum, og því ljóst að full ástæða var fyrir starfsmenn að kanna vanskilaskrá.  Hver ástæðan var fyrir því að þessar uppflettingar fóru yfirhöfuð fram er alls ósannað, og gæti verið um hreina forvitni að ræða af hálfu starfsmanna stefnda. Framlagt yfirlit sem stefnandi leggur fram, sannar með engum hætti þá fullyrðingu hans að stefnda hafi verið kunnugt um fram komna gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur félaginu.

Ljóst er að umboðsmaður stefnda, Legis ehf., fletti ekki upp í vanskilaskrá til að afla upplýsinga um stefnanda og því fullljóst að honum var ekki og mátti ekki vera kunnugt um það að krafa um gjaldþrotaskipti var fram komin þegar greiðslan átti sér stað. Rök stefnanda um grandsemi stefnda eru því óraunhæf, og þeim mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Stefnandi virðist einnig byggja kröfur sínar á skýrslutöku af forsvarsmönnum félagsins þess efnis að þeir hafi bent á að greiðslan hafi verið óeðlileg. Þessu hefur verið mótmælt með bréfi dags. 17. september 2008 til skiptastjóra. Stefndi mótmælir því einnig að skýrslutaka forsvarsmanna stefnanda geti verið sönnunarþáttur við mat á grandsemi stefnda. Mál þetta snýst um grandsemi stefnda, en ekki hvort um óeðlilega greiðslu hafi verið að ræða.

Þá er ljóst að stefnandi var í fullum rekstri í apríl 2008 og voru ýmsir reikningar greiddir til ýmissa kröfuhafa, þ.m.t. til stefnda í þessu máli hinn 14. mars 2008.

Greiðslan til stefnda var einungis smávægilegur hluti af öllum þeim greiðslum sem inntar voru af hendi til ýmissa kröfuhafa, enda umfang starfssemi stefnanda mikið. Af framlagðri kröfuskrá í búið má ráða að lýstar kröfur nema þremur og hálfum milljarði.

Hvað varðar riftunarkröfu stefnanda á grundvelli 141. greinar laga 21/1991, þá er þeirri kröfu mótmælt. Skilyrði fyrir beitingu greinarinnar er m.a. að sá sem hafði hag af greiðslunni hafi mátt vita af ógjaldfærni þrotamanns. Er það stefnanda að sanna að svo hafi verið.

Umboðsmaður stefnda tók við greiðslunni, grandlaus. Tilvísun stefnanda þess efnis að stefndi hafi flett upp í vanskilaskrá Creditinfo, getur ekki talist sönnun á grandsemi stefnda með vísan til fyrri raka þar að lútandi.

Þá er ekki séð að greiðslan hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra. Ljóst er að stefnandi greiddi fleiri kröfuhöfum eftir frestdag en stefnda einum, og er ljóst að stórar upphæðir, tugir eða hundruða milljóna, voru inntar af hendi frá frestdegi til loka starfsemi félagsins.

Ef stefnandi er einungis að krefjast riftunar á greiðslum sem ábyrgðir voru að baki, þá er ljóst að stefndi fer villur vegar með því að beina kröfum sínum að stefnda. Sé það staðreyndin, þá er stefnandi að beina kröfum sínum að röngum aðila. Stefnanda ber þá að beina riftunarkröfum sínum að þeim aðila sem greiðslunnar naut í raun, þ.e. þeim aðila sem var í persónulegri ábyrgð fyrir skuldinni, og var þá í raun að greiða upp ábyrgðarskuld sína, en ekki skuld stefnanda.

Málskostnaðarkrafan byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi krefst riftunar og á endurgreiðslu á 10.000.000 kr. sem Stafnás ehf. greiddi lögmanni stefnda hinn 14. mars 2008. Greiðslan er tilkomin vegna réttarsáttar sem er undirrituð 23. janúar 2008 og lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. febrúar 2008.  Krafan  var upphaflega að fjárhæð 26.357.154 kr. og bar vexti frá 1. desember 2007. Er sáttin var gerð höfðu 15.000.000 kr. þegar verið greiddar inn á kröfuna. Þá átti að greiða 5.000.000 kr. hinn 31. janúar 2008 og aftur hinn 28. febrúar 2008.  Eftirstöðvar skyldu síðan greiðast 31. mars 2008.  Krafa þessi var vegna eldri vanskila Stafnáss ehf.,  en á árinu 2008 var eingöngu um staðgreiðsluviðskipti að ræða.

Samkvæmt 139. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar ef greitt er eftir frestdag.  Ágreiningslaust er í málinu að frestdagur var 6. febrúar 2008, en 10.000.000 kr. greiðslan fór fram 14. mars 2008.

Kemur þá til álita hvort hin sérstöku undanþáguskilyrði 1. mgr. 139. gr. séu uppfyllt. Þau ber að skýra þröngt og sönnunarbyrðin um það að þau séu til staðar hvíla á stefndu. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi einungis á því að hann hafi verið grandlaus og því sé ekki lagaheimild fyrir riftun. Hinar undantekningarnar samkvæmt ákvæðinu koma því ekki til skoðunar. Varðandi grandsemina segir í 1. mgr. 139. gr. „... eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.“ Hér er fyrst til þess að líta að samkvæmt orðanna hljóðan er það sá er naut greiðslunnar sem hvorki vissi né mátti vita um kröfuna um gjaldþrotaskiptin. Líta verður svo á að það sé stefndi sem naut greiðslunnar með því að hann er kröfueigandi. Því er það grandsemi/grandleysi hans sem skiptir máli.

Þá er að líta til þess hvort hann vissi eða mátti vita um gjaldþrotaskiptakröfuna. Fyrir liggur í málinu, að velta Stafnáss ehf. hjá stefnda var mjög mikil árin 2006 og 2007 eða rúmar 143 millj. króna. Stefnda var kunnugt um greiðsluerfiðleika Stafnáss ehf., þar sem hann var í vanskilum við stefnda og öll viðskiptin á árinu 2008 voru staðgreiðsluviðskipti. Framkvæmdastjóri viðskiptareikningadeildar stefnda hefur staðfest að hann hafi vitað um að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá Stafnási ehf. Þá liggur ennfremur fyrir að lögmannsstofa stefnda vissi einnig um hið árangurslausa fjárnám, en það var gert 7. janúar 2008.  Í ljósi þessarar vitneskju og þess, að lokað hafði verið á lánsviðskipti Stafnáss hjá stefnda, þá bar starfsmönnum stefnda að kanna frekar hvort til staðar væri beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða hvort leitað hefði verið nauðasamninga, eða krafa um gjaldþrotaskipti væri komin fram. Slíkt á ekki að vera örðugt fyrir stefnda, sbr. fyrirmæli í 9. gr. gjaldþrotalaga. Stefndi er því ekki grandlaus í skilningi 139. gr. gjaldþrotalaga heldur mátti hann vita um það að krafa um gjaldþrotaskipti væri komin fram. Málsástæður stefnda byggðar á því að skynsemin styðji grandleysi hans og jafnræðis hafi ekki verið gætt af skiptastjóra eru haldslausar.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að lagaheimild sé fyrir riftun þeirri er stefnandi fer fram á í máli þessu. Því beri að taka kröfur hans til greina. Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo getur í dómsorði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Árni Ármann Árnason hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Smári Hilmarsson hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Rift er greiðslu að fjárhæð 10.000.000 kr. sem fram fór hinn 14. mars 2008. Stefndi greiði stefnanda 10.000.000 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. júní 2008 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 kr. í málskostnað.