Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Þorgils Þorgilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins komu varnaraðili og Y að [...] í [...] síðdegis 7. júní 2017 í félagi við þrjá karla og eina konu. Eftir að brotaþoli hafði hent kústi í aðra þeirra bifreiða, sem komumenn voru á, sótti hann járnrör og fór að bifreiðunum. Stigu þá varnaraðili og Y út og gengu að brotaþola. Tók Y járnrörið af brotaþola, en við það féll hinn síðarnefndi í jörðina. Hélt varnaraðili honum þar í hálstaki í margar mínútur og sló hann ítrekað í andlitið. Var brotaþoli úrskurður látinn klukkan 19.14 um kvöldið.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu krufningar leiddi þvinguð frambeygð staða brotaþola í langan tíma til mikillar minnkunar öndunargetu, sem að lokum leiddi til stöðutengdrar köfnunar og láts hans. Sagði í niðurstöðunni að við þessar kringumstæður væri hægt að líta á hálstakið sem aðalþáttinn „í því sem leiddi til láts“ brotaþola.

Að framansögðu virtu er varnaraðili undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem að lögum geta varðað 10 ára fangelsi. Þá er brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...] til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí nk. kl 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú meint manndráp þeirra X og Y sem gefið sé að sök að hafa að kvöldi miðvikudagsins 7. júní sl., í félagi, ráðist með ofbeldi á A með þeim afleiðingum að A hafi látið lífið.

          Í frumskýrslu lögreglu komi fram að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] laust eftir kvöldmat þann 7. júní sl. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá hvar A lá á bakinu í götunni skammt frá heimili sínu. Brotaþoli hafi verið meðvitundarlaus, blóðugur og blár í andliti. Við hlið brotaþola hafi annars vegar staðið Y sem hafi verið að tala í símann og hinsvegar X sem virst hafi vera með tilburði til endurlífgunar. Hafi lögregla og í framhaldi sjúkraflutningsmenn tekið við endurlífgun brotaþola en í kjölfarið hafi þeir Y og X verið handteknir, grunaðir um stórfellda líkamsárás á brotaþola. Brotaþoli hafi í framhaldi verið fluttur á slysadeild þar sem hann hafi verið úrskurðaður látinn. Fjórir aðilar til viðbótar hafi einnig verið handteknir skammt frá vettvangi í tengslum við málið. Þann 8. júní hafi verið  krafist gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna yfir þeim X og Y auk fjórmenninganna. Hafi X og Y sætt gæsluvarðhaldi síðan þá en fjórmenningarnir hafi verið losaðir úr gæsluvarðhaldi 15. júní sl.

          Lögregla hafi síðustu tvær vikur rætt við fjölda aðila vegna málsins. Samkvæmt framburði þeirra aðila hafi kærðu í félagi við fjórmenningana komið á tveimur bílum að heimili brotaþola umrætt sinn. Sé því lýst að brotaþoli hafi komið út af heimili sínu til að ræða við fólkið og til átaka hafi komið milli brotaþola og fólksins sem hafi endað með því að brotaþoli hafi sótt kúst inn í hesthús og hent í annan bílinn sem fólkið hafi komið á. Kærðu og fjórmenningarnir hafi þá farið í bifreiðarnar og keyrt aðeins í burtu frá brotaþola. Brotaþoli hafi í framhaldi sótt járnrör sem hann hafi hlaupið í átt að bifreiðum fólksins með og þá hafi kærðu báðir gengið til móts við brotaþola. Y hafi tekið rörið af brotaþola svo hann fell í jörðina og í framhaldi hafi X haldið honum á maganum í jörðinni, slegið hann ítrekað í andlitið og haldið honum í hálstaki sem samkvæmt lýsingu vitna hafi varað í umtalsverðan tíma. Á meðan X hafi slegið og haldið brotaþola í tökum hafi Y staðið hjá og að mati vitnis, sem fylgdist með skammt frá, hvatt X áfram. Sama vitni hafi lýst því að þegar vitnið hafi kallað til kærðu að láta af hegðun sinni hafi hvorugur þeirra brugðist við því og atlagan gegn brotaþola haldið áfram þar til ljóst hafi verið að hann hefði misst meðvitund. Sé því lýst af vitnum að svo hafi virst sem kærðu væru að mynda brotaþola í kjölfar átakanna og hringja einhver símtöl. Vitni hafi síðan lýst því að skömmu áður en lögregla hafi komið á vettvang hafi kærðu sýnt tilburði til endurlífgunar á brotaþola með því að blása í nokkur skipti í brotaþola og ýtt á bringu hans með annarri hendi.

          Meðal gagna málsins liggi fyrir nokkur símtöl við neyðarlínuna þar sem tilkynnt sé um átök og ástand brotaþola umrætt sinn. Séu báðir kærðu meðal þeirra sem hringi í neyðarlínuna. Í símtali X við neyðarlínuna tilkynni hann um að þörf sé á sjúkrabifreið að [...] vegna manns sem hafi verið keyrt á. Eftir samtalið við starfsmann neyðarlínunnar megi heyra hvar X leggi símann frá sér og byrji að hreyta ókvæðisorðum í brotaþola.

          Þá liggi fyrir snapchat upptökur bæði úr símum Y og X og megi þar sjá að báðir hafi þeir tekið upp myndband af brotaþola þar sem sjá megi hann liggja hreyfingarlausan, blóðugan og bláan í framan. Heyra megi á upptökunum að kærðu tali á niðrandi hátt til brotaþola og sömuleiðis heyrist Y segja að svona fari fyrir þeim sem ráðist að sér.

          Kærðu neiti báðir sök og kannist ekki við hafa veist að brotaþola með ofbeldi líkt og vitni hafa lýst. Kærðu lýsi því að hafa komið að heimili brotaþola til þess að sækja þangað garðverkfæri sem hafi verið eign kærða X. Brotaþoli hafi hinsvegar að ástæðulausi ráðist að þeim vopnaður kústskafti og skemmt bifreiðar þeirra og í framhaldi hafi hann veist að þeim með járnröri sem kærðu hafi séð sig knúna til að stöðva brotaþola með. Í framhaldi hafi þeir haldið brotaþola í tökum þar til þeim hafi verið ljóst að brotaþoli væri meðvitundarlaus en þá hafi þeir hafið endurlífgun á honum þar til lögreglan hafi komið á vettvang.

                Samkvæmt bráðabrigðarniðurstöðu krufningar og upplýsingum frá réttarmeinafræðingnum sem hafi krufið brotaþola verði andlát brotaþola rakið til nokkurra samverkandi þátta en ljóst sé að þvinguð frambeygð staða brotaþola í hálstaki í langan tíma leiddi til mikillar minnkunar á öndunargetu sem að lokum leiddi til köfnunar brotaþola. Megi því líta á hálstakið sem vitni lýsi að kærði X hafi haldið brotaþola í sem aðalþáttinn í andláti hans.

                Kærðu neiti báðir sök en ljóst sé að framburður þeirra sé ekki til samræmis við upptökur og myndbönd sem séu meðal rannsóknargagna og framburð vitna í málinu. Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um að hafa, í félagi við Y, veist að brotaþola með ítrekuðum höggum og haldið honum í hálstaki þar til hann hafi misst meðvitund og látist í kjölfarið. Brot kærða sé talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu. Að mati lögreglustjóra sé um að ræða tilefnislausa og fólskulega líkamsárás sem leitt hafi til dauða brotaþola. Af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

                Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

                Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um alvarlegt brot sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi. Hafa þau gögn sem lögregla hefur aflað frá því kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 8. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna frekar styrkt grun um að kærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

                Með vísan til þess sem fram kemur í kröfu lögreglunnar, sem og eðli og alvarleika þess brots sem kærði er sakaður um er á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að mati dómsins eru þannig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi áfram eins og í úrskurðarorði greinir. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.  Að öllu framangreindu virtu verður krafa lögreglustjórans því tekin til greina eins og hún er fram sett.

                 Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærði,  X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí nk. kl 16:00.