Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2000


Lykilorð

  • Ríkisstarfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Áminning
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2000.

Nr. 105/2000:

Þuríður Gísladóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Fjölbrautarskóla Vesturlands

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

                                              

Ríkisstarfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Áminning. Skaðabætur.

Þ var ráðin í starf framhaldsskólakennara hjá F með ráðningarsamningi 14. ágúst 1997. Var ráðning hennar bundin við tímabilið 1. ágúst 1997 til 31. júlí 1998. Ágreiningslaust var, að Þ hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Jafnframt var óumdeilt að um starfs- og ráðningarkjör Þ skyldi fara að lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með bréfi til Þ 28. nóvember 1997 tilkynnti skólameistari henni að ráðningar­samningnum yrði rift frá og með 1. desember 1997, með starfslokum þegar skólastarfi á haustönn lyki. Ljóst var talið, að ástæður uppsagnarinnar hefðu verið þær, að skólameistari teldi Þ ekki valda starfi sínu. Með því að Hæstiréttur taldi uppsögnina samkvæmt þessu falla undir 21. gr. laga nr. 70/1996, bar áfrýjanda samkvæmt skýru ákvæði 44. gr. sömu laga, að veita Þ skriflega áminningu áður en til uppsagnar kæmi, og gefa henni kost á að bæta ráð sitt. Ekki var á það fallist með F, að 44. gr. laganna ætti ekki við þegar um tímabundna ráðningarsamninga er að ræða. Uppsögnin var því talin ólögmæt og voru Þ dæmdar bætur úr hendi F fyrir fjártjón.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2000 og krefst greiðslu úr hendi stefnda, að fjárhæð 1.339.230 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 1998 til greiðsludags. Jafnframt krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi ráðin í starf framhaldsskólakennara hjá stefnda með ráðningarsamningi 14. ágúst 1997. Var ráðning hennar bundin við tímabilið 1. ágúst 1997 til 31. júlí 1998. Samkvæmt samningnum, sem gerður var á staðlað eyðublað stefnda, skyldi uppsagnarfrestur vera einn mánuður, en ágreiningslaust er með aðilum að áfrýjandi hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ekki kom fram að samið væri um sérstakan reynslutíma.

Með bréfi til áfrýjanda 28. nóvember 1997 tilkynnti skólameistari stefnda henni að hann teldi sig knúinn til að rifta ráðningarsamningi hennar frá og með 1. desember 1997 með starfslokum, þegar skólastarfi á haustönn lyki. Í bréfinu vísaði skólameistari til fundar síns og aðstoðarskólameistara með áfrýjanda fjórum dögum fyrr, þar sem hann hefði tjáð henni að hann treysti sér ekki til að hafa hana við kennslu við skólann á komandi vorönn. Henni hefði ekki tekist að skapa það traust hjá nemendum, sem nauðsynlegt væri. Þá var vísað til undirskrifta 70 nemenda, sem lýst höfðu óánægju með kennslu áfrýjanda. Jafnframt kemur fram að skólameistara sé ljóst, að áfrýjandi hafi lagt á sig mikla vinnu við undirbúning kennslunnar og sinnt starfi sínu af dugnaði og samviskusemi, en það hafi ekki dugað til að skapa nauðsynlegt traust í samskiptum við nemendur, sem sé forsenda árangursríks skólastarfs.

Í greinargerð, sem skólameistari ritaði 14. maí 1999, sagði meðal annars að nokkur samskiptahæfni væri forsenda þess að geta kennt. Frá því væri mjög langur vegur að áfrýjandi hafi haft þá lágmarkssamskiptahæfni, sem þurfi til kennslu í framhaldsskóla. Þetta hafi verið sár niðurstaða hans eftir kynni hans af henni á haustönn 1997. Hafi verið borin von að hún gæti kennt áfram við skólann eftir að afskipti skólayfirvalda af kennslu hennar báru engan árangur og undirskriftarlistar nemenda höfðu komið fram.

Áfrýjanda voru greidd föst laun til loka febrúar 1998 og yfirvinna til 15. janúar sama ár.

II.

Óumdeilt er að um starfs- og ráðningarkjör áfrýjanda skyldi fara að lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðningarsamningur hennar var í samræmi við 2. mgr. 41. gr. laganna, sem heimilar að starfsmenn séu ráðnir tímabundið.

Í 43. gr. laga nr. 70/1996 er forstöðumanni stofnunar heimilað að segja starfsmanni upp störfum eftir því, sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Í 1. mgr. 44. gr. laganna segir, að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt, áður en honum er sagt upp störfum, ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna, sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar, áður en hún tekur gildi.

Í 21. gr. starfsmannalaganna eru greindar þær ástæður, er leiða skulu til skriflegrar áminningar. Þar eru meðal annars nefndar ástæður á borð við óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns, vankunnáttu, óvandvirkni og að hafa „ekki náð fullnægjandi árangri í starfi“. Áður en til áminningar kemur skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum þessum kemur fram, að undir orðalag greinarinnar geti til dæmis fallið að þær væntingar, sem gerðar hafi verið til starfsmanns við ráðningu, hafi ekki verið uppfylltar, enda hafi honum verið slíkar væntingar ljósar eða mátt vera þær ljósar, eða að starfsmaður teljist að öðru leyti ekki uppfylla þær kröfur, sem gerðar séu til starfsins án þess að um vanrækslu eða óvandvirkni sé að ræða. Sem dæmi um hið síðastgreinda megi nefna ef starfsmaður virðist ekki valda því starfi, sem hann er ráðinn til að gegna.

Óumdeilt er í málinu að áfrýjanda var sagt upp störfum hinn 28. nóvember 1997 án þess að hún hefði verið áminnt í skilningi 21. gr. starfsmannalaga. Af því, sem áður er rakið, verður að telja ljóst, að af hálfu skólameistara hafi ástæður uppsagnar áfrýjanda verið þær, að hann teldi hana ekki valda starfi sínu. Er óhjákvæmilegt að líta svo á í ljósi þess, sem áður er sagt um 21. gr. laganna, að uppsögnin hafi átt rætur að rekja til ástæðna, sem þar eru greindar. Samkvæmt skýru ákvæði 44. gr. þeirra bar þá að veita áfrýjanda skriflega áminningu, áður en til uppsagnar kæmi, og gefa henni kost á að bæta ráð sitt. Ekki verður fallist á það með stefnda, að ákvæði þetta eigi ekki við, þegar um tímabundna ráðningarsamninga er að ræða, enda sér þess hvergi stoð í lögunum eða lögskýringargögnum. Ber meðal annars að líta til þess að tímabundin ráðning getur varað samfellt í allt að tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að uppsögn áfrýjanda úr starfi hjá stefnda 28. nóvember 1997 hafi verið ólögmæt og leiði til bótaábyrgðar hins síðarnefnda.

III.

Áfrýjandi krefst 839.230 króna í bætur vegna fjártjóns og 500.000 króna í miskabætur, eða samtals 1.339.230 króna.  Krafa hennar um bætur fyrir fjártjón miðast í fyrsta lagi við missi fastra launa frá 1. mars til 31. júlí 1998, sem nema 647.910 krónum. Þá krefst hún 9/12 hluta orlofsuppbótar fyrir störf frá 1. ágúst 1997 til 30. apríl 1998, 6.600 króna. Einnig fyrir missi yfirvinnu á vorönn, samtals 87.968 króna. Er þar um að ræða kennsluyfirvinnu í 12.41 klst., áætluð út frá tíma á haustönn, heimayfirvinnu í 27,2 klst., áætluð 80% miðað við haustönn og loks yfirvinna á prófatíma í 25,76 klst., áætluð 80% miðað við haustönn. Er einnig gerð krafa um 11,59% orlof á þessa yfirvinnu, eða samtals 10.195 krónur. Að lokum er krafist bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, 11,5% af 752.678 krónum, eða 86.557 króna.

Við ákvörðun bóta til áfrýjanda ber að líta til ofangreindra kröfuliða. Fyrir liggur hver föst laun hennar áttu að vera út ráðningartímann. Hins vegar er óvíst að henni hefði verið ætlað sama kennslumagn á vorönn og á haustönn og verður að meta bótakröfu tengda yfirvinnu í því ljósi. Fyrir liggur að áfrýjanda höfðu á haustönn verið greidd orlofslaun á yfirvinnu, er námu 11,59%. Þá er óumdeilt að framlag vinnuveitanda í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nemur 11,5% af heildarlaunum. Að öllu þessu athuguðu þykir rétt að ákveða bætur hennar fyrir fjártjón 620.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þess að áfrýjandi hlaut atvinnleysisbætur á tímabilinu 1. mars til 31. júlí 1998, að fjárhæð 200.837 krónur, en ágreiningslaust er með aðilum að sú fjárhæð komi til frádráttar.

Ekki þykir í ljós leitt að fyrir hendi séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum til að dæma stefnda til greiðslu miskabóta. Verður hann því sýknaður af þeirri kröfu áfrýjanda.

Rétt þykir að stefndi greiði dráttarvexti af framangreindri fjárhæð frá 1. apríl 1998 til greiðsludags.

Dæma ber stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Fjölbrautarskóli Vesturlands, greiði áfrýjanda, Þuríði Gísladóttur, 620.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. apríl 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember s.l. er höfðað með stefnu út gefinni 25. mars s.l. og birtri 29. mars s.l.

Stefnandi er Þuríður Gísladóttir, kt. 111060-5259, Akraseli 17, Reykjavík.

Stefndi er Fjölbrautaskóli Vesturlands, kt. 681178-0239, Vogabraut 5, Akranesi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.339.230 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 1998 til greiðslu­dags og málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dóms­ins.  Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður lát­inn niður falla.

 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með ráðningarsamningi 14. ágúst 1997 var stefnandi ráðin í stöðu framhaldsskólakennara hjá stefnda.  Var um tímabundna ráðningu að ræða og var upphafsdagur ráðningar 1. ágúst 1997 og lokadagur 31. júlí 1998.  Samkvæmt ákvæð­um ráðningarsamningsins er uppsagnarfrestur tímabundins ráðningarsamnings einn mánuður en ekki er ágreiningur með aðilum um að stefnandi átti í raun rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Stefnandi hóf kennslustörf í raungreinadeild í fullu starfi á haustönn 1997 og segir í greinargerð stefnda að hún hafi sinnt kennslustörfum sínum af dugnaði og samviskusemi og lagt á sig mikla vinnu við undirbúning kennsl­unn­ar.  Fljótlega mun þó hafa farið að bera á því að nemendur stefnanda kvörtuðu undan henni og á fundi skólameistara og aðstoðarskólameistara með stefnanda 24. nóvem­ber 1997 var henni tjáð að þess væri óskað að hún segði upp starfi sínu.  Stefn­andi varð ekki við þeim tilmælum og beindi daginn eftir kæru til mennta­mála­ráðu­neytis vegna brottvikningar úr starfi.  Í bréfi dagsettu 28. nóvember sama ár gerði skóla­meistari nánari grein fyrir ástæðum þess að hann treysti sér ekki til að hafa stefn­anda lengur við kennslu.  Taldi hann stefnanda ekki hafa tekist að skapa það traust hjá nem­endum sem er nauðsynleg forsenda árangursríks skólastarfs og þá var því lýst að bor­ist hafi yfir 70 undirskriftir frá nemendum stefnanda þar sem lýst var yfir óánægju með kennsluna.  Var  ráðningarsamningi hennar rift frá og með 1. desember sama ár, en starfslok skyldu vera þegar haustönn 1997 lyki.  Stefnanda voru greidd laun til febrú­arloka 1998 og yfirvinna til 15. janúar sama ár.

Í málinu hafa verið lagðar fram greinargerðir Þóris Ólafssonar, skólameistara og Birnu Gunnlaugsdóttur, aðstoðarskólameistara og hafa þau komið fyrir dóm og stað­fest þær.  Í greinargerð skólameistara er því lýst að fljótlega hafi farið að bera á kvört­un­um vegna kennslu stefnanda.  Hafi kennarar deildarinnar reynt að leiðbeina henni við kennsluna og aðstoða hana við að ná tökum á samskiptum við nemendur.  Þegar þetta skilaði ekki árangri fól hann aðstoðarskólameistara að ræða við stefnanda.  Ekki hafi linnt kvörtunum yfir kennslu stefnanda og upp úr miðri önn hafi verið ljóst að málið var komið á mjög viðkvæmt stig.  Borist hafi listi með nöfnum 73 nemenda þar sem segir að nemendur vilji koma á framfæri óánægju með kennslu stefnanda, þar sem kennsl­an sé ófullnægjandi og kröfur óraunhæfar.  Taldi skólameistari að það væri borin von að stefnandi gæti kennt áfram við skólann eftir að afskipti skólayfirvalda af kennslu hennar báru engan árangur. 

Í greinargerð aðstoðarskólameistara er lýst helstu kvörtunum nemenda yfir kennslu hennar.  Í fyrsta lagi var námsmat yfir önnina í ósamræmi við kennsluáætlun og fékkst stefnandi ekki til að ræða á hvaða hátt námsmatið hefði breyst frá áætlun eða hvernig það myndi breytast.  Þá var kennsla stefnanda ekki talin gagnvirk og þótti dauf.  Í kennslustundum skrifaði stefnandi  töluvert af texta námsbókarinnar orðrétt upp á töflu, eða allt að þriðjung hans.  Þá virtust spurningar frá nemendum ekki vel þegnar og nemendum fannst erfitt að búa sig undir skyndipróf því þeir vissu ekki til hvers væri ætlast af þeim.  Þá væri ómögulegt að gera sér grein fyrir hvað væru aðal­at­riði og hvað aukaatriði í huga stefnanda.  Þá töldu nemendur ekki samræmi í eink­unna­gjöf stefnanda.  Aðstoðarskólameistari sagðist hafa reynt að leiðbeina stefnanda og lagði til breytingar á kennsluaðferðum en í ljós hafi komið að kennsluaðferðir stefn­anda breyttust ekkert.

 

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi verið ráðin til kennslustarfa frá 1. ágúst 1997 til 31. júlí 1998.  Samkvæmt ráðningarsamningi hennar fari um réttindi hennar og skyldur eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna rík­is­ins.  Engin skilyrði hafi verið til að rifta ráðningarsamningi hennar.  Ekki sé hægt að líta á riftunartilkynningu skólameistara öðru vísi en sem uppsögn, þótt orðið upp­sögn komi þar hvergi fyrir.  Stefnandi telur að með orðalagi í bréfinu sé aug­ljós­lega reynt að sniðganga réttindi starfsmanns samkvæmt ákvæðum 21. gr., sbr. 44. gr. áð­urgreindra laga.  Andmælaréttur hennar hafi verið virtur að vettugi, henni hafi ekki verið veitt áminning eða gefinn kostur á að bæta ráð sitt.  Um leið hafi 13. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 verið virt að vettugi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.  Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hún hafi mátt treysta því að fá að gegna starfi sínu til loka ráðn­ing­artímans þar til einhverjar sérstakar ástæður kæmu til er ýmist snertu hana sjálfa eða starf hennar á þann veg, að annað hvort 43. gr. eða 44. gr. laga nr. 70/1996 yrði beitt um uppsögn hennar.

Stefnandi segist hafa orðið fyrir beinu fjártjóni vegnar uppsagnarinnar  Henni hafi ekki gefist kostur á öðru starfi til loka skólaársins og telur hún stefnda bera bótaábyrgð gagn­vart henni samkvæmt almennum reglum íslensks skaðabótaréttar.  Stefnandi sund­urliðar kröfu sína þannig að föst laun frá 1. mars til 31. júlí 1998 nema kr. 647.910, orlofsuppbót kr. 6.600, yfirvinna kr. 87.968, orlof á yfirvinnu kr. 10.195 og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda kr. 86.557.  Þá krefst stefnandi miskabóta sam­kvæmt 26. gr. skaðabótalaga vegna uppsagnarinnar að fjárhæð kr. 500.000 og segir að­ferð skólameistara stefnanda við að binda enda á ráðningu hennar sérlega meiðandi fyrir hana og að mati stefnanda fól hún í sér meingerð gegn persónu hennar. 

Stefnandi vísar til III. kafla vaxtalaga til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni og segir upp­hafstíma dráttarvaxta miðaðan við þann dag er hin bótaskylda athöfn átti sér stað, en á þeim degi hafi verið unnt að reikna út tjón hennar með nægilegri nákvæmni.  Stefn­andi vísar um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að segja upp ráðningarsamningi stefn­anda á þann hátt sem gert var.  Samkvæmt ákvæðum samningsins sjálfs sé upp­sögn á tímabundnum samningi heimil og rétturinn gagnkvæmur.  Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 sé heimilt að segja upp tímabundnum samningi af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi.  Í 1. mgr. 43. gr. sömu laga sé kveðið á um það, að forstöðumaður stofnunar hafi rétt til að segja upp starfsmanni eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi.  Samkvæmt skýrum samningsákvæðum og laga­heimildum var stefnda því heimilt að víkja stefnanda úr starfi og þurfti ekki að veita henni áminningu eins og ráð sé fyrir gert í 44. gr., sbr. ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996.

Stefndi mómælir því að ákvæði 21. gr. og 44. gr. sömu laga eigi við um uppsögn stefn­anda.  Samskipti við nemendur voru veikleiki stefnanda og var uppsögnin því ekki vegna ávirðinga í starfi og fellur utan 21. gr. laganna.

Stefndi mótmælir kröfugerð stefnanda sem of hárri og miskabótakröfu er mót­mælt sem órökstuddri, án lagagrundvallar og dómafordæma.  Verði stefndi talinn bóta­skyldur beri einungis að miða við föst laun stefnanda frá 1. mars 1998 án orlofs, yfir­vinnu og tapaðra lífeyrisréttinda.  Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu sem órök­studdri.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að starfið hjá stefnda hafi verið fyrsta kennslustarfið sem hún tókst á hendur.  Hún kvað kennsluna ekki hafa gengið hnökralaust fyrir sig og þá kvaðst hún hafa skráð það niður sem gekk vel og illa og reynt að bæta úr.

Þórir Ólafsson, skólameistari stefnda, kt. 020550-7169, staðfesti ofangreinda grein­argerð sína fyrir dómi og skýrði svo frá að borist hafi beinskeyttar kvartanir frá nem­endum og var megininntak þeirra hið sama.  Hann kvaðst hafa vitað að stefnandi hafi nýlega aflað sér kennsluréttinda og sagði hann stefnanda hafa lagt sig fram í starfi og gert allt sem í hennar valdi stóð til að sinna starfi sínu. 

Birna Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi aðstoðarskólameistari, kt. 230761-4859, stað­festi greinargerð sína fyrir dómi og skýrði svo frá að fyrst hafi farið að bera á kvört­un­um vegna kennsluhátta stefnanda í októbermánuði.  Hafi verið um ýmiss konar sam­skipta­vandamál að ræða og t.d. fengu nemendur ekki svör frá stefnanda við ein­föld­um spurningum sem vörðuðu námsefnið.

 

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnda hafi verið heimilt að segja upp tímabundinni ráðningu stefnanda og hvort uppsögnin baki stefnda bóta­ábyrgð gagnvart stefnanda.

Í máli þessu hefur verið lagður fram ráðningarsamningur sem gerður var á milli aðila á grundvelli 42. gr. laga nr. 70/1996 og var um tímabundna ráðningu að ræða er standa skyldi frá 1. ágúst 1997 til 31. júlí 1998.  Í samningi þessum er ákvæði þess efnis að uppsagnarfrestur tímabundins ráðningarsamnings sé einn mánuður og miðist upp­sögn við mánaðamót. Skulu þessi ákvæði um uppsagnarfrest eiga við nema um annað sé samið í kjarasamningi.  Þá segir í samningnum að um réttindi og skyldur starfs­manns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Eins og áður er rakið var, þrátt fyrir ákvæði samningsins um eins mánaðar uppsagnarfrest, miðað við að stefnandi ætti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í 42. gr. laga nr. 70/1996 segir að gerður skuli skriflegur ráðningarsamningur milli for­stöðumanns stofnunar og stafsmanns þar sem meðal annars komi fram ráðn­ing­ar­kjör.  Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sömu laga skulu starfsmenn ríkisins ráðnir til starfa ótíma­bundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti og skal sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi.  Í 2. mgr. 41. gr. lag­anna segir að heimilt sé að ráða starfsmann til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma.  Tímabundin ráðning skuli þó aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár.  Samkvæmt 43. gr. laganna hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi.  Ef uppsögn á rætur að rekja til þeirra ávirðinga er í 21. gr. laganna greinir er samkvæmt 44. gr. laganna skylt að veita starfsmanni áminn­ingu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ákvæði 21. gr. laga nr. 70/1996 hafi ekki átt við um stefnanda, samskipti hennar við nemendur hafi verið veikleiki hennar og þar sem ekki hafi tekist að leiðrétta þau hafi málalyktir orðið þær sem raun bar vitni.  Af þeim sökum fari um uppsögn stefnanda eftir ákvæðum 2. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. lag­anna.  Það er álit dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram að um upp­sögn hennar skyldi fara eftir ákvæðum 44. gr. laganna.  Ber að hafa í huga að stefnandi hafði nýlega aflað sér kennsluréttinda og var um frumraun hennar á því sviði að ræða.  Þykir stefnda því hafa verið heimilt eins og á stóð að nýta sér skýr ákvæði ráðn­ing­ar­samn­ingsins um uppsögn hans.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að aðferð skóla­meist­ara stefnda við að binda enda á ráðningu stefnanda hafi verið með þeim hætti að stefn­andi eigi rétt á miskabótum. 

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Fjölbrautaskóli Vesturlands, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þuríðar Gísladóttur í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.