Hæstiréttur íslands

Mál nr. 452/2009


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Riftun


Fimmtudaginn 20. maí 2010.

Nr. 452/2009.

Byggingafélag námsmanna ses

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Friðriki Guðmundssyni

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Ráðningarsamningur. Riftun.

Síðla árs 2007 hóf stjórn B athugun á ýmsum ráðstöfunum F, sem gegndi á þeim tíma starfi framkvæmdastjóra félagsins, og tveggja annarra aðila. Í framhaldinu var endurskoðunarfirma  fengið til  að gera úttekt á rekstri og fjárhag félagsins. Með tilkynningu stjórnar B 21. desember 2007 var F tímabundið leystur frá störfum. Í kjölfarið eða þann 28. febrúar 2008 lýsti B yfir riftun á ráðningarsamningi F vegna fjölda ætlaðra brota á starfsskyldum.  Í málinu var deilt um réttmæti riftunarinnar. B hafði greitt F laun til loka febrúar 2008, en F krafðist þess meðal annars að B greiddi sér laun til 31. desember 2008,  í samræmi við ráðningarsamning aðila sem kvað á um 12 mánaða uppsagnarfrest. Talið var að ráðningarsamningi  F hefði ekki verið slitið er hann var leystur tímabundið undan störfum þann 21. desember 2007. Það hefði ekki gerst fyrr en með yfirlýsingu um riftun 28. febrúar 2008. Við mat á því hvort B bæri að greiða F laun, frá því að ráðningarsamningi aðila var rift  þar til 31. desember 2008, yrði að leggja mat á lögmæti riftunarinnar og hvort hún hefði falið í sér verulega vanefnd af hálfu F. Talið var að F hefði með tiltekinni háttsemi brotið gegn starfsskyldum sínum hjá B með þeim hætti að nokkur tilgreind brot fælu í sér verulega vanefnd á ráðningarsamningi aðila. Var B þegar af þeirri ástæðu sýknað af kröfu F, en hann hafði fengið greidd full laun þar til riftunin tók gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2009. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnda en til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu af viðurkenningarkröfu stefnda og að kröfur stefnda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

   Stefndi var ráðinn framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna frá 1. mars 2001 og gegndi því starfi samfellt þar til ráðningarsamningi hans var slitið af áfrýjanda, en deilt er um þau ráðningarslit í málinu. Byggingafélagi námsmanna, sem upphaflega var almennt félag, var breytt 28. febrúar 2007 í sjálfseignarstofnun samkvæmt lögum nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Starfar áfrýjandi á grundvelli þeirra laga. Starfssviði stefnda sem framkvæmdastjóra var lýst svo í 2. gr. ráðningarsamnings hans: ,,1. Sinna daglegum rekstri félagsins. 2. Umsjón með rekstri nemendagarða félagsins ... sér einnig um fjármögnun félagsins eftir því sem ákveðið er af fulltrúafundi og stjórn. 3. Umsjón með bókhaldi í samvinnu við bókara og endurskoðanda. 4. Umsjón með starfsmannahaldi á hverjum tíma í samræmi við ákvarðanir stjórnar. ... 6. Umsjón með uppbyggingu og gerð útboðsgagna og áætlana um framkvæmdir á nýbyggingum félagsins. Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með byggingareftirliti meðan á framkvæmdum stendur, uppgjör á verksamningum og annað það sem tengist byggingum í samráði við stjórn. ... 8. Öll önnur dagleg afgreiðsla sem til fellur og vinna að þeim málefnum sem stjórn félagsins felur framkvæmdastjóra.“ Í 8. gr. samningsins er ákvæði um starfslok, en greinin hljóðar svo: ,,Framkvæmdastjóri skal halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok komi til uppsagnar af hálfu BN. Segi framkvæmdastjóri starfi sínu lausu skal hann halda fullum launum og hlunnindum í þann tíma sem hér er tilgreindur: ... Uppsögn eftir 1. mars 2007 – 12 mánuðir. Réttindi þau sem hér greinir eru óháð því hvort hann ræðst til annarra starfa á því tímabili sem réttindi ná til.“ Í 9. gr. segir að um starfskjör framkvæmdastjóra að öðru leyti fari ,,eftir landslögum.“ Gerðar voru breytingar á ráðningarsamningi stefnda 28. júlí 2006 og lutu þær í fyrsta lagi að ákvörðun launa hans, í öðru lagi að því að mælt var fyrir um að réttindi hans og skyldur, svo og launahækkanir, skyldu fara eftir kjarasamningi ,,VR“ og í þriðja lagi var gerð breyting á svonefndum bifreiðastyrk, sem hann naut.

Af gögnum málsins kemur fram að meiri hluti stjórnar áfrýjanda hóf athugun á ýmsum ráðstöfunum stefnda, formanns stjórnar áfrýjanda og sviðsstjóra rekstrarsviðs félagsins síðla árs 2007. Var  lögmannsstofa fengin til aðstoðar við þá athugun. Reikningur vegna starfa lögmannsstofunnar mun hafa borist skrifstofu áfrýjanda fyrir mistök í desember 2007. Í framhaldi af því sagði formaður stjórnar af sér og var skrifleg tilkynning hans um það lögð fram á stjórnarfundi 21. desember 2007. Á þessum stjórnarfundi var samþykkt tillaga um að fá endurskoðunarfirmað KPMG hf. til þess að gera úttekt á rekstri og fjárhag áfrýjanda. Jafnframt var samþykkt tillaga um að stefndi yrði ,,tímabundið leystur frá störfum í ljósi úttektar KPMG“. Þá var samþykkt að bróðir stefnda, sem starfaði sem sviðsstjóri rekstrarsviðs áfrýjanda, yrði einnig tímabundið leystur frá störfum ,,í ljósi skyldleika hans við“ stefnda og þeirrar úttektar sem áður er getið að stóð fyrir dyrum. Stefnda var sama dag afhent skrifleg tilkynning stjórnar um að hún hefði samþykkt að fela KPMG hf. að framkvæma innri endurskoðun á rekstri áfrýjanda. Í tilkynningunni segir einnig: ,,Meðan sú endurskoðun fer fram var einnig einróma samþykkt af stjórn BN að veita þér ... tímabundna lausn frá störfum. Ekki er því óskað starfskrafta þinna á meðan að rannsókn stendur yfir ... Ákvörðun stjórnar tekur gildi samstundis og mun standa þar til frekari ákvörðun varðandi málefni félagsins og stöðu þína sem framkvæmdastjóra BN verður tekin.“ Stefnda var gert að afhenda áfrýjanda lykla að skrifstofu áfrýjanda og greiðslu- og kreditkort sem hann hafði starfs síns vegna.

Stefndi ritaði bréf til áfrýjanda 11. janúar 2008 og lýsti þeirri skoðun sinni að honum hefði verið sagt upp með framangreindri tilkynningu. Áfrýjandi óskaði 11. febrúar 2008 eftir fundi með stefnda til að ræða ,,ýmis rekstrarleg atriði sem varða framkvæmdastjórn hans“ en þessi atriði voru tíunduð nánar í bréfinu. Ekki varð af fundi, en stefndi svaraði bréfinu 15. sama mánaðar og skýrði af sinni hálfu þau atriði sem áfrýjandi hafði áður óskað eftir að ræða við hann. Áfrýjandi sendi stefnda bréf 28. febrúar 2008 og lýsti yfir riftun á ráðningarsamningi hans vegna fjölmargra ætlaðra brota á starfsskyldum. Riftunin skyldi taka gildi þá þegar.

Óumdeilt er að áfrýjandi greiddi stefnda laun til loka febrúar 2008. Í máli þessu er deilt um réttmæti framangreindrar riftunar og miðar stefndi kröfu sína við að áfrýjanda beri að efna sínar skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum til 31. desember 2008, en þá hafi verið liðnir tólf mánuðir frá næstu mánaðarmótum eftir þau slit á ráðningarsamningi, sem stefndi telur að hafi orðið 21. desember 2007.

II

Tilkynning sú, sem reist var á samþykkt stjórnar áfrýjanda, og hann sendi stefnda 21. desember 2007, fól í sér að stefndi var leystur undan vinnuskyldu á meðan svonefnd innri endurskoðun færi fram á rekstri áfrýjanda, en með henni var ráðningarsamningi hans ekki slitið, hvorki með uppsögn né riftun. Það var gert með yfirlýsingu um riftun 28. febrúar 2008. Ákvæði 8. gr. ráðningarsamnings stefnda, sem tekið er upp að framan, á samkvæmt orðum sínum og efni aðeins við ef ráðningarsamningi er slitið með uppsögn. Réttindi þau, sem stefndi krefst í máli þessu, ráðast af því hvort riftun áfrýjanda á ráðningarsamningnum við hann var lögmæt eða ekki. Við mat á því verður að taka til úrlausnar, hvort riftunarástæðurnar feli í sér verulega vanefnd stefnda á ráðningarsamningnum.

Stefndi var framkvæmdastjóri áfrýjanda. Auk ákvæða í ráðningarsamningi giltu meðal annars um stöðu hans og heimildir til ráðstafana í nafni áfrýjanda ákvæði IV. kafla laga nr. 33/1999. Samkvæmt 21. gr. laganna má stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli stofnunarinnar og hans eða um samningsgerð milli stofnunarinnar og þriðja manns ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni stofnunarinnar. Er framkvæmdastjóra skylt að upplýsa um slík atvik. Þá er í 25. gr. laganna mælt fyrir um að stjórn sjálfseignarstofnunar fari með málefni hennar og skuli annast um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Ef framkvæmdastjóri sé ráðinn skuli hann og stjórn fara með stjórn stofnunarinnar. Framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur stofnunarinnar og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin gefur. Daglegur rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir geti framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi stofnunarinnar, en þá skuli stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Þá segir að framkvæmdastjóri skuli sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna stofnunarinnar sé með tryggilegum hætti. Framangreind ákvæði laga nr. 33/1999 eiga sér fyrirmynd í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Af athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 33/1999 má álykta að skýra beri ákvæðin með sama hætti og hin tilgreindu lagaákvæði. Sömu efnisreglur um starfssvið og starfsskyldur framkvæmdastjóra verða taldar hafa gilt um réttarstöðu stefnda áður en áfrýjanda var breytt í sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur.

Mat á því hvaða ráðstafanir falli undir daglegan rekstur og teljist ekki óvenjulegar eða mikilsháttar hefur í dómum Hæstaréttar verið talið ráðast í hverju tilviki af tilgangi félags, umfangi rekstrarins og efnahagsstöðu þess, sbr. til dæmis dóm réttarins í máli nr. 678/2008. Í  2. gr. núgildandi samþykkta fyrir áfrýjanda segir, að sjálfseignarstofnunin sé sett á stofn í almannaþágu og til almannaheilla. Tilgangur hennar sé að eiga og annast kaup eða byggingu á húsnæði til útleigu á hagstæðum kjörum fyrir námsmenn og að annast rekstur ,,slíkra fasteigna.“

III

Eins og áður greinir tiltók áfrýjandi í bréfinu 28. febrúar 2008, þar sem lýst var yfir riftun á ráðningarsamningi stefnda, ástæður þeirrar ráðstöfunar. Hann hefur með öðrum gögnum málsins leitast við að renna frekari stoðum undir riftunarástæðurnar. Verður hver þeirra tekin til athugunar.

i. Í bréfinu kemur fram að stjórnin telur stefnda hafa brotið starfsskyldur sínar við gerð verksamninga um uppkaup eigna, niðurrif þeirra og byggingarframkvæmdir á lóðunum Einholti 6 og 8 og Þverholti 17 og 19 til 21.

Á fundi í stjórn áfrýjanda 1. mars 2006 var bókað að stjórnin samþykkti að gera ,,kaupsamning við Þórhalla Einarsson um uppkaup, niðurrif og uppbyggingu stúdentagarða, söluíbúða og atvinnuhúsnæðis á byggingareitunum Einholt/Þverholt ca., 21.050 m2 skv. auglýstri deiliskiplagstillögu að fjárhæð kr. 6.990.000.000.- sjá fylgiskjal fundarins. Stjórn ... samþykkti fjármögnunartilboð Landsbanka Íslands. ... Uppkaup 2.200 millj. króna ... Stjórn ... veitti einnig framkvæmdastjóra ... fullt og ótakmarkað umboð félagsins til að undirrita öll nauðsynleg skjöl og samninga er varða fjárfestingu ... á eftirfarandi eignum ... Svo og til að inna af hendi greiðslur vegna þessa ef með þarf. Umboð þetta er jafngilt og undirritaðir stjórnarmenn hafi sjálfir gert það.“

Í bréfi áfrýjanda um riftun ráðningarsamnings er því haldið fram að lóðarverð 2.200.000.000 krónur hafi ekki verið hluti samningsverðsins eins og stefndi hafi fullyrt heldur komið því til viðbótar. Af samningsdrögum, sem áfrýjandi viðurkennir að legið hafi fyrir stjórninni þegar framangreind samþykkt var gerð, verður ráðið að bæði hafi verið gert ráð fyrir uppkaupum á eignum fyrir síðast greinda fjárhæð svo og að ,,kaupverð nýframkvæmda“ væri 6.900.000.000 krónur. Var þessi riftunarástæða því ekki á rökum reist.

Áfrýjandi heldur því fram að brot stefnda hafi jafnframt falist í að hann hafi ekki leitað samþykkis stjórnar á þeirri breytingu sem fólst í að áfrýjandi varð ekki aðili að endanlegum samningi um niðurrif og uppbyggingu á lóðunum, sem undirritaður var 20. mars 2006, heldur hafi aðild verið hagað svo að einkahlutafélagið Nýholt gerði samning við verktakann, Þverás ehf., en ætlunin hafi verið sú að áfrýjandi keypti alla hluti í Nýholti ehf. Til þessa hafi stefndi ekki haft heimild. Þá hafi ,,kaupverð nýframkvæmda“ í þeim samningi sem stefndi undirritaði fyrir hönd áfrýjanda verið 7.980.677.787 krónur eða um einum milljarði hærri en stjórn hafði samþykkt. Loks hafi stefndi ekki gætt hagsmuna áfrýjanda er hann samþykkti að verktrygging vegna samningsins, sem var 10% af síðast nefndri fjárhæð, fælist eingöngu í ábyrgð Þveráss ehf. og fyrirsvarsmanns félagsins en ekki ábyrgðaryfirlýsingu fjármálastofnunar.

Stefndi kveðst hafa haft umboð til þess að gera alla fjármálagerninga sem tengdust kaupum og nýframkvæmdum á lóðunum. Skýrir hann breytta aðild að samningnum á þann veg að það hafi verið í þágu áfrýjanda, en einnig falið í sér skattalegt hagræði fyrir viðsemjanda hans. Ætlunin hafi verið að slíta Nýholti ehf. og láta svo eignir félagsins renna inn í áfrýjanda. Hann skýrir hækkun á ,,kaupverði nýframkvæmda“ með breyttum forsendum samningsins einkum auknu byggingarmagni og það hafi alltaf tíðkast hjá félaginu, án athugasemda frá stjórn, að haga verktryggingum eins og gert var í þessu tilviki og lýst hefur verið. Hann hefur einnig bent á að þetta málefni hafi verið til umfjöllunar á að minnsta kosti 60 stjórnarfundum hjá áfrýjanda frá árinu 2005 og stjórninni hafi mátt vera full kunnugt um aðdraganda og framkvæmd samningsins.

Fundargerðir stjórnar áfrýjanda bera ekki með sér að stefndi hafi aflað heimildar hennar til þess að breyta aðild að samningnum frá því sem lagt var til grundvallar í samþykkt stjórnarinnar. Þá liggur ekki fyrir að hann hafi gert stjórn grein fyrir þeirri hækkun sem varð á ,,kaupverði nýframkvæmda“. Samningur sá sem stefndi undirritaði kveður heldur ekki á um meira byggingarmagn en áðurnefnd drög, sem lágu fyrir stjórninni er samþykktin var gerð. Á hinn bóginn eru ákvæði um verktryggingu sambærileg í drögunum sem lágu fyrir stjórn og í endanlegum samningi.

Með undirritun samnings þar sem aðild var hagað með öðrum hætti en stjórn hafði lagt til grundvallar og samningsfjárhæð hafði hækkað umtalsvert fór stefndi verulega út fyrir umboð það sem stjórnin hafði veitt honum. Hefur hann ekki fært fram haldbær rök fyrir því að þetta hafi verið honum heimilt. Braut hann með þessu starfsskyldur sínar. Á hitt er að líta að af fundargerð stjórnar áfrýjanda 28. júní 2006 má ráða að stjórnarmönnum sé kunnugt um hina breyttu samningsaðild og að áfrýjanda sé ætlað að leysa til sín eignir Nýholts ehf.

ii. Áfrýjandi reisir riftun sína einnig á því að stefndi hafi verið stofnandi og eigandi einkahlutafélagsins FH Ráðgjöf. Hafi þetta félag unnið ráðgjafarstörf fyrir Þverás ehf. og Þórtak ehf. sem bæði voru undir stjórn Þórhalla Einarssonar og voru aðalverktakar annars vegar að framkvæmdum á byggingarreitunum við Einholt og Þverholt og hins vegar við framkvæmdir á vegum áfrýjanda við Klausturstíg og Kapellustíg í Grafarholti. Hafi þessi félög verið stærstu viðskiptamenn áfrýjanda. Meðeigandi stefnda að félaginu hafi verið Sigurður Guðmundsson bróðir hans, sem hafi verið sviðsstjóri rekstrarsviðs áfrýjanda. Auk þessa hafi stefndi samið við Þórtak ehf. um kaup á sumarbústað af félaginu.

Stefndi hafnar því að eignaraðild hans að FH Ráðgjöf ehf. feli í sér brot á ráðningarsamningi hans eða öðrum skyldum við áfrýjanda. Í samningi hans sé hvergi að finna bann við að hann eigi hlut í öðrum félögum. FH Ráðgjöf ehf. hafi ekki átt nein viðskipti við áfrýjanda og ekki tekið þátt í neinni starfsemi sem skarast hafi við hagsmuni áfrýjanda. Um kaup stefnda á sumarbústað hefur hann upplýst að hann hafi látið byggja sumarbústað, en fengið Þórhalla Einarsson til þess að vera byggingastjóri við verkið. Hafi smiðir, sem ekki tengdust Þórhalla, annast smíðina.

Stefndi hefur ekki neitað því að hafa átt FH Ráðgjöf ehf. ásamt bróður sínum og að félagið hafi sinnt verkefnum fyrir Þverás ehf. og Þórtak ehf. á þeim tíma sem þessi tvö félög voru aðalverktakar samkvæmt verksamningi við áfrýjanda um viðamiklar framkvæmdir. Stefndi hefur ekki upplýst um umfang viðskiptanna og ekki orðið við áskorun áfrýjanda sem lögð var fram í héraðsdómi 25. ágúst 2008 um að leggja fram gögn um þau. Í skýrslu Þórhalla Einarssonar fyrirsvarsmanns félaganna fyrir dómi kvað hann þau hafa átt við skipti við FH Ráðgjöf ehf. líklega um þriggja ára skeið. Kvaðst hann ekki muna umfang viðskiptanna, en taldi að það hafi verið ,,einhverjar milljónir“ á ári.

Fallist er á með áfrýjanda að vegna þeirra hagsmuna sem stefndi hafði vegna FH Ráðgjafar ehf. og viðskiptanna við Þverás ehf. og Þórtak ehf. hafi honum borið að upplýsa stjórn áfrýjanda um þessa hagsmuni sína áður en hann gætti hagsmuna áfrýjanda í verksamningum við þessi félög, sbr. 21. gr. laga nr. 33/1999. Þetta gerði stefndi ekki og er ómótmælt fullyrðingu áfrýjanda um að stjórn hans hafi fyrst verið um þetta kunnugt í árslok 2007. Var um að ræða alvarlegt brot stefnda á ráðningarsamningi hans.

iii. Áfrýjandi byggði riftun einnig á því að stefndi hafi hvatt áfrýjanda til þess að selja fasteign félagsins að Laugavegi 66-68, Reykjavík, þar sem borist hefði hagstætt tilboð í eignina. Hafi stefndi ekki upplýst hver tilboðsgjafi hafi verið. Fallist hafi verið á tilboðið og í framhaldi af því hafi stefndi, fyrir hönd áfrýjanda, gert leigusamning við tilboðsgjafa sem hafi verið áfrýjanda mjög óhagstæður. Stefndi hafi aldrei upplýst stjórn áfrýjanda um leiguverðið og forsendur þess.

Stefndi kveður stjórn áfrýjanda hafa átt að vera kunnugt um forsendur og tildrög sölunnar svo og leigusamninginn. Hafi stjórnin sjálf ákveðið að selja fasteignina eftir að ljóst varð að samningaviðræður um kaup félagsins á bakhúsi ásamt byggingarrétti við fasteignina gengu ekki eftir. Tilboðsfjárhæð hafi verið mjög há, auk þess sem staðgreiðsla hafi verið boðin, og hafi stjórnin ákveðið að taka tilboðinu og falið formanni stjórnar að annast frágang á sölunni. Þá hefði komið í ljós að Þórtak ehf. hafi verið tilboðsgjafi. Stefndi kveður svo leigusamning hafa verið sendan frá fasteignasölunni til sín. Honum hafi þótt leiguverðið hátt og freistað þess að fá það lækkað en ekki tekist. Hafi hann látið við það sitja enda hafi áfrýjandi þá einungis ætlað að vera skamman tíma í fasteigninni og sex mánaða uppsagnarfrestur hafi verið á leigusamningnum.

Fyrir liggur að stjórn áfrýjanda samþykkti tilboð ónafngreinds aðila í fasteignina á fundi 18. janúar 2006 og fól formanni frágang málsins. Fundargerð ber ekki með sér að stefndi hafi fengið umboð til þess að ganga frá leigusamningi. Því er ómótmælt að stefndi hafi ekki borið leigusamninginn undir stjórn félagsins. Áfrýjandi hefur lagt fram matsgerð dómkvadds manns 12. desember 2008. Þar telur matsmaður hæfilega leigu fyrir fasteignina 1. febrúar 2006, að teknu tillit til skilmála leigusamningsins, hafa verið 657.450 krónur á mánuði. Umsamið leiguverð var 1.025.000 krónur á mánuði.

Fallist er á með áfrýjanda að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar með samþykki framangreinds leigusamnings án þess að afla samþykkis stjórnar. Var ráðstöfun þessi ekki innan þess sem telja má daglegan rekstur, auk þess að vera óvenjuleg vegna hins háa leiguverðs.

iv. Áfrýjandi reisti riftun sína einnig á því að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar með því að gefa bókara félagsins fyrirmæli um að greiddir skyldu ,,ófaglegir reikningar“. Nefnir hann sem dæmi einn slíkan frá Þverási ehf. að fjárhæð 339.417.609 krónur sem að auki hafi verið greiddur 11 dögum fyrir eindaga hans. Hafi áfrýjandi orðið fyrir tjóni vegna þessa þar sem hann hafi sjálfur þurft að bera fjármagnskostnað vegna þeirrar upphæðar, sem greidd var, í 11 daga.

Stefndi heldur því fram að hann hafi greitt reikninga í samræmi við greiðsluákvæði samninga sem við áttu hverju sinni. Hefur hann skýrt greiðslu þess reiknings er áfrýjandi nefnir sérstaklega.

Í 3. mgr. 11. gr. verksamnings þess, sem er grundvöllur að greiðslu reikningsins, segir að reikninga skuli greiða ,,innan þriggja vikna frá því“ að greiðslu er krafist. Staðhæfingum áfrýjanda um að með greiðslu reikningsins á framangreindum tíma hafi stefndi brotið starfsskyldur sínar er hafnað.

v. Áfrýjandi reisti riftun sína einnig á því að honum hafi orðið ljóst í árslok 2007 að stefndi hafi átt þriðjungs hlut í einkahlutafélaginu GG Innflutningur, en eiginkona formanns stjórnar og eiginkona annars stjórnarmanns hafi hvor um sig átt þriðjung. Þetta félag hafi átt umfangsmikil viðskipti við áfrýjanda en einnig við Þverás ehf. og Þórtak ehf., stærstu viðskiptavini áfrýjanda. Hafi stefndi aldrei gert stjórn félagsins grein fyrir aðild sinni að félaginu og heldur ekki þeim hagsmunum sem hann hafði af framangreindum viðskiptum.

Stefndi bar í skýrslu fyrir dómi að hann hafi í ársbyrjun 2006 tekið tilboði formanns stjórnar áfrýjanda um að kaupa þriðjungs hlut í GG Innflutningi ehf. Hann hafi átt hlutinn fram í janúar 2008 er formaður stjórnar hafi leyst til sín hlut hans. Félagið hafi engin viðskipti átt við Þverás ehf., en umtalsverð viðskipti við Þórtak ehf. Hann kveður sér ekki hafa verið kunnugt um að Þórtak keypti húsbúnað af GG Innflutningi ehf. á árinu 2006 fyrir um 50.000.000 krónur.

Stefndi hefur viðurkennt að hafa átt þriðjung í framangreindu einkahlutafélagi, sem átti í umfangsmiklum viðskiptum við Þórtak ehf. annan af tveimur stærstu viðskiptavinum áfrýjanda. Hann hefur ekki orðið við áskorun um að leggja fram gögn um þessi viðskipti. Hann hefur ekki andmælt því hann hafi aldrei gert stjórn áfrýjanda grein fyrir eignaraðild sinni að félaginu og samningum þess við Þórtak ehf. Fullyrðingar hans um að honum hafi ekki verið kunnugt um viðskiptin á árinu 2006 eru ótrúverðugar. Með þessari háttsemi sinni gerðist stefndi brotlegur við starfsskyldur sínar, sbr. 21. gr. laga nr. 33/1999, með þeim hætti að til verulegra vanefnda telst.

Ekki liggur fyrir að GG Innflutningur ehf. hafi átt viðskipti við áfrýjanda eftir að stefndi eignaðist hlut sinn í félaginu.

vi. Áfrýjandi reisti riftun einnig á því að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar með því að heimila Þverási ehf. endurgjaldslaus afnot af húsnæði í Þverholti 21, eftir kaup áfrýjanda á því.

Stefndi hafnar þessu og kveður áfrýjanda hafa keypt húsnæðið til niðurrifts og hafa samkvæmt verksamningi átt að fá fullbyggða nemendagarða á lóðinni. Dregist hafi að hefja framkvæmdir af ástæðum sem áfrýjandi bar ábyrgð á gagnvart verktakanum, Þverási ehf. Telur stefndi áfrýjanda ekki hafa átt húsnæðið.

Hvað sem líður eignarhaldi á húsnæði því, sem um ræðir, hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar með því að hafa ekki krafið Þverás ehf. um leigugreiðslur fyrir afnotin.

vii. Áfrýjandi byggði einnig á því að stefndi beri ábyrgð á að fjárhagsleg staða áfrýjanda hafi verið slík að til gjaldþrotaskipta hefði komið ef ekki hefði verið brugðist við af hálfu stjórnar. Telur áfrýjandi að um sé að kenna ófaglegum vinnubrögðum stefnda og röngum upplýsingum frá honum til stjórnar félagsins.

Áfrýjandi hefur í riftunaryfirlýsingu sinni vísað til ótilgreindra viðskiptaákvarðana stefnda, sem eiga að hafa leitt til þessarar stöðu. Verður þegar af þeirri ástæðu hafnað að sannað sé að stefndi hafi með óskilgreindum viðskiptaákvörðunum og röngum upplýsingum brotið gegn starfsskyldum sínum.

viii. Riftun áfrýjanda var einnig reist á því að stefndi hefði samið við stjórn áfrýjanda um sölu á hlut hans í einkahlutafélaginu Gufu og að söluverð ætti að miðast við að gengi hluta væri 1.0. Hafi ritari stjórnar bókað það í fundargerð. Þegar stefndi hafi á hinn bóginn lagt fundargerðina fyrir næsta stjórnarfund hafi verið ,,búið að breyta genginu í 1.1“. Hafi kaupin miðast við það gengi.

Um kaup áfrýjanda á hlut stefnda í Gufu ehf. er fjallað á tveimur stjórnarfundum áfrýjanda. Bera fundargerðir beggja fundanna, sem undirritaðar eru af stjórnarmönnum, með sér að hlutur stefnda skyldi keyptur á genginu 1.1. Eru fullyrðingar áfrýjanda um að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar við sölu hlutanna því ósannaðar.

ix. Þá var riftun áfrýjanda einnig reist á því að stefndi hefði brotið starfsskyldur sínar með því að gera bróður sinn, sem starfaði sem sviðsstjóri rekstrarsviðs, að staðgengli sínum og að sjá til þess að honum yrðu greidd laun framkvæmdastjóra í fjarveru stefnda. Hafi stefndi enga heimild haft til þess. Auk þess hafi stefndi samið um launahækkun bróður síns. Loks hafi stefndi, án vitundar stjórnar, gert nýjan ráðningarsamning við bróður sinn, sem falið hafi í sér verulegar launahækkanir án vitundar stjórnar.

Stefndi kveður skipurit áfrýjanda frá 2005 bera með sér að rekstrarstjóri sé staðgengill framkvæmdastjóra. Í ráðningarsamningi áfrýjanda og sviðsstjóra rekstrarsviðs, sem formaður stjórnar gerði fyrir hönd áfrýjanda, kemur fram í 1. gr. að sviðsstjórinn sé staðgengill framkvæmdastjóra. Ber stefndi ekki ábyrgð á gerð þessa ráðningarsamnings eða efni hans þótt hann riti nafn sitt sem vottur á samninginn. Verður því hafnað að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar á þann hátt sem áfrýjandi heldur hér fram. Verður heldur ekki talið að í því felist brot á starfsskyldum af hálfu stefnda þótt sviðsstjóri rekstrarsviðs fengi greidd sömu laun og framkvæmdastjóri á meðan hann gegndi því starfi sem staðgengill.

x. Þá var riftun áfrýjanda einnig reist á því að stefndi hefði á árinu 2007 látið greiða sér líkamsræktarstyrk 236.800 krónur án vitundar stjórnar.

Stefndi kveður það hafa tíðkast í mörg ár að áfrýjandi greiddi fyrir líkamsrækt starfsmanna gegn framvísun fullgilds reiknings og hafi árið 2007 ekki verið undantekning í þeim efnum. Kveður stefndi greiðslur fyrir líkamsrækt starfsmanna algengar og að ákvarðanir um það séu á valdsviði framkvæmastjóra.

Upplýst er í málinu að frá 1. júlí 2006 hafi ákvæði kjarasamnings VR gilt um önnur starfskjör stefnda en tilgreind voru í ráðningarsamningi hans og viðauka með honum, sem undirritaður var 28. sama mánaðar. Þá liggur fyrir að í janúar og október 2007 voru greiddar vegna líkamsræktar stefnda 71.200 krónur og 110.400 krónur. Því er ekki haldið fram af hálfu stefnda að greiðslur þessar eigi sér stoð í ákvæði framangreinds kjarasamnings. Stefndi hefur heldur ekki borið greiðslur þessar undir stjórn áfrýjanda svo sem rétt hefði verið þar sem hann átti sjálfur í hlut og greiðslurnar voru umfram þau starfskjör sem hann hafði samið um. Verður fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi með þessu brotið starfsskyldur sínar gagnvart áfrýjanda.

xi. Áfrýjandi reisti riftun sína einnig á því að stefndi hefði ásamt bróður sínum, sviðsstjóra rekstrarsviðs, látið áfrýjanda greiða ferð þeirra til Noregs og uppihald þar án þess að stjórn áfrýjanda hefði áður verið upplýst um ferðina. Heldur áfrýjandi því fram að kostnaður við ferðina hafi verið 800.000 krónur.

Stefndi dregur í efa að ferðakostnaður hafi verið svo hár sem áfrýjandi heldur fram. Hann kveður aðeins tilgreindan ferðakostnað og kostnað við uppihald hafa verið greiddan og hafi það verið í samræmi við það sem venjulegt var hjá áfrýjanda. Hann kveður ferðina hafa verið farna af starfsnauðsynjum. Nefnir hann fjórar aðrar ferðir sem farnar hafi verið af sömu ástæðu á árinu 2007.

Þótt eðlilegt hefði verið að stefndi bæri það undir stjórn, hvort slík ferð skyldi farin, verður í ljósi framangreinds ekki talið að hann hafi farið út fyrir starfssvið sitt samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 33/1999 með því að taka ákvörðun um ferð þessa. Er því hafnað að í þessari háttsemi hafi falist brot á starfsskyldum hans.

xii. Þá var riftun áfrýjanda einnig reist á því að stefndi hafi látið félagið greiða fánastöng  sem færð hafi verið á kostnað við verkframkvæmdir við Klausturstíg og Kapellustíg. Kveður áfrýjandi að samkvæmt ákvæðum verksamnings um framkvæmdir á þessum lóðum hafi verktaki átt að annast kaup og uppsetningu fánastangar af tilgreindri stærð og gerð.

Stefndi kveður áfrýjanda alltaf hafa sett upp fánastöng við nemendagarða sína og flaggað fána félagsins. Hafi sú fánastöng, sem um ræðir, verið keypt í því skyni að hún yrði sett upp á lóð félagsins við Klausturstíg og Kapellustíg.

Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að kaup stefnda á fánastöng í framangreindu skyni hafi falið í sér brot á starfsskyldum hans.

xiii. Áfrýjandi reisti riftun sína einnig á því að stefndi hefði 1. júní 2007 keypt á kostnað áfrýjanda þvottavél og þurrkara og látið bróður sinn, sviðsstjóra rekstarsviðs, samþykkja að áfrýjandi greiddi fyrir þessi tæki. Tæki þessi finnist á hinn bóginn ekki í vörslum áfrýjanda.

Stefndi hefur viðurkennt að tæki þessi hafi hann sjálfur í vörslum sínum, en hann hafi gert ráð fyrir því að kaupverðið, 210.000 krónur, yrði skuldfært á reiknings sinn hjá áfrýjanda. Hann hafi þó ekki gert neinar ráðstafanir til þess að svo yrði fyrr en eftir að hann lét af störfum hjá áfrýjanda.

Fallist er á með áfrýjanda að stefndi hafi brotið starfsskyldur sínar með framangreindri háttsemi.

xiv. Áfrýjandi reisti riftun sína einnig á því að stefndi og formaður stjórnar hefðu í apríl 2007 skipulagt og boðið starfsfólki í hálendisferð, sem kostað hafi 800.000 krónur. Auk þess hafi meðal annars Þórhalla Einarssyni, fyrirsvarsmanni tveggja stærstu viðskiptavina áfrýjanda, verið boðið í ferðina ásamt fleirum. Hafi stjórn félagsins ekki tekið ákvörðun um ferðina en ekki sett sig á móti því að hún yrði farin enda talið að stefndi sjálfur ásamt formanni stjórnar myndi greiða ferðakostnaðinn.

Stefndi kveður ferð þessa hafa verið farna samkvæmt ákvörðun stjórnar áfrýjanda. Ferðin hafi verið farin í boði hennar.

Ekki er um það deilt að hálendisferð þessi var farin að tillögu formanns stjórnar áfrýjanda og að stjórn hafi verið kunnugt um hana. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að þátttaka stefnda í ferðinni og undirbúningi hennar hafi verið brot á starfsskyldum hans.

xv. Loks hefur áfrýjandi reist riftun sína á því að stefndi hafi ítrekað ráðið son sinn til sumarstarfa hjá áfrýjanda og látið greiða laun hans fyrirfram. Hafi fyrirframgreiðslur numið verulegum fjárhæðum. Hafi stefndi ekki borið ráðningu sonar síns undir stjórn. Þá tilgreinir áfrýjandi einnig aðrar mannaráðningar stefnda, sem hann telur að séu gagnrýnisverðar vegna tengsla mannanna við fjölskyldu stefnda eða vini.

Stefndi kveðst hafa rætt við tvo tilgreinda stjórnarmenn áfrýjanda vegna ráðningar þeirra manna sem áfrýjandi tilgreinir. Hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þessar ráðningar.

Ein af starfsskyldum stefnda var að hafa umsjón með starfsmannahaldi. Er ómótmælt að hann hafi haft með höndum ráðningar almennra starfsmanna. Áfrýjandi heldur því ekki fram að sonur stefnda hafi ekki unnið fyrir þeim launum, sem honum voru greidd fyrirfram. Þótt rétt hefði verið af hálfu stefnda að bera ráðningar náinna skyldmenna sinna hjá áfrýjanda undir stjórn, sbr. 21. gr. laga nr. 33/1999, verður hér ekki talið að framangreindar ráðningar teljist brot hans á starfsskyldum hans.

IV

Áfrýjandi hefur, eftir að hann lýsti yfir riftun, leitast við að renna frekari stoðum undir lögmæti riftunarinnar með því að tilgreina fleiri dæmi um brot stefnda á starfsskyldum sínum. Ástæður þessar lágu ekki riftunaryfirlýsingu til grundvallar þegar hún var gefin. Koma þær, eins og mál þetta liggur fyrir, ekki til athugunar við mat á lögmæti hennar.

Brot stefnda á starfsskyldum sínum, sem tilgreind eru í liðum i., ii., v. og xiii. að framan fela hvert um sig í sér verulega vanefnd hans á ráðningarsamningnum við áfrýjanda. Var áfrýjanda rétt að rifta ráðningarsamningnum þegar af þeirri ástæðu. Stefndi hefur fengið greidd full laun þar til riftunin tók gildi 28. febrúar 2008.

Með vísan til þessa verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Byggingafélag námsmanna ses, er sýkn af kröfum stefnda, Friðriks Guðmundssonar.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.200.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2009.

Mál þetta var höfðað 19. maí 2008 og dómtekið 22. f.m.

Stefnandi er Friðrik Guðmundsson, Aðalþingi 4, Kópavogi.

Stefndi er Byggingafélag námsmanna ses., Laugavegi 66-68, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.287.180 krónur með dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.643.590 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 3.287.180 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunningi, svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðn­ingar­samningi hans við stefnda, frá 1. maí 2008 til 31. desember s.á. að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur og beri sú fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. maí 2008 til greiðsludags.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti vegna þóknunar lögmanns síns.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

1

Stefndi er sjálfseignarstofnun og starfar á grundvelli laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.  Stefnandi varð framkvæmdastjóri forvera stefnda, Byggingafélags námsmanna, 1. mars 2001 en rekstrarformi þess félags var breytt í sjálfseignarstofnun 28. febrúar 2007 og yfirtók hún öll réttindi og skyldur eldra félagsins gagnvart stefnanda og öðrum.  Skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda 16. mars 2005 og lítilsháttar breyting var gerð á honum með ákvörðun stjórnar félagsins 28. júlí 2006.

Með svohljóðandi bréfi stjórnar stefnda, sem stefnandi móttök 21. desember 2007, var honum tilkynnt tímabundin lausn frá störfum:

„Á stjórnarfundi BN, þann 21. desember 2007, sem haldinn var á skrifstofu BN að Laugavegi 66, Reykjavík, var einróma samþykkt tillaga um að fela KPMG endurskoðunarskrifstofu að framkvæma innri endurskoðun á rekstri BN.  Meðan að sú endurskoðun fer fram var einnig einróma samþykkt af stjórn BN að veita þér, Friðriki Guðmundssyni, kt. 040455-2139, framkvæmdastjóra BN, tímabundna lausn frá störfum.  Ekki er því óskað starfskrafta þinna meðan að ofangreind rannsókn stendur yfir og ber þér að afhenda stjórn félagsins lykla að skrifstofu, kredit- og debetkort og önnur gögn sem þú kannt að hafa í fórum þínum.  Jafnframt mun stjórn félagsins tilkynna lánastofnunum, hluta­félagaskrá og öðrum nauðsynlegum stofnunum að pró­kúru­umboð og framkvæmdarstjórnarvald þitt er ekki lengur tímabundið í gildi.  Er þér óheimilt að koma fram í nafni félagsins, gera samninga, samkomulög eða ráðstafa hagsmunum félagsins á nokkurn hátt á meðan tímabundin lausn frá störum er í gildi.  Ákvörðun stjórnar tekur gildi samstundis og mun standa þar til frekari ákvörðun varðandi málefni félagsins og stöðu þína sem framkvæmdastjóri BN verður tekin. “

Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf 11. janúar 2008 þar sem segir að stefnandi telji uppsögnina tilefnislausa og að hún vegi gróflega að starfsheiðri hans.

Stjórn stefnda sendi stefnanda bréf, dags. 28. febrúar 2008, sem hefur að yfirskrift Riftun á ráðningarsamningi.  Þar er í upphafi vísað til þess að ástæða hinnar tímabundnu lausnar stefnanda frá störfum hafi verið rökstuddur grunur um fjármála­óreiðu innan félagsins og hafi KPMG endurskoðun hf. verið falin innri endurskoðun á bókhaldi þess ásamt því að stjórn félagsins hafi falið LOGOS lögmannsþjónustu að fara yfir samninga og löggerninga sem gerðir hafi verið í nafni stefnda síðastliðin ár.  Ofangreindar úttektir hafi farið fram og drög verið kynnt stjórn félagsins á stjórnarfundi 29. janúar 2008.  Alvarlegar athugasemdir hafi komið í ljós við yfirferð á bókhaldi, samningsgögnum og tengdum gjörningum og eru þær raktar í bréfinu en í lok þess segir að vegna alvarlegra og vítaverðra brota í starfi sé ráðningarsamningi við stefnanda rift og taki riftunin gildi þegar í stað.  Félagið telji sig ekki skuldbundið til þess að greiða honum frekari laun eða tengd gjöld.  Þá segir að þess sé krafist að stefnandi láti þegar af hendi umráð lykla og bifreiðar sem félagið hafi greitt af svo og farsíma og fartölvu í eigu félagsins.

Stefndi greiddi stefnanda laun fram til loka febrúar 2008.

2

Kröfugerð stefnanda er reist á 8. gr. starfssamnings stefnanda frá 1. október 2006 um starfslok þar sem segir:  „Framkvæmdastjóri skal halda fullum launum og hlunnindum í 12 mánuði eftir starfslok komi til uppsagnar af hálfu BN.“  Þar er einnig kveðið á um eftirfarandi:  „Segi framkvæmdastjóri starfi sínu lausu skal hann halda fullum launum og hlunnindum í þann tíma sem hér er tilgreindur:  Uppsögn eftir undirritun samnings – 4 mánuðir.  Uppsögn eftir 1. mars 2007 – 8 mánuðir.  Uppsögn eftir 1. sept. 2007 – 12 mánuðir.  Réttindi þau sem hér greinir um eru óháð því hvort hann ræðst til annarra starfa á því tímabili sem réttindi ná til.“  Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið leystur frá störfum í desember 2007 og eigi því rétt til launa og  annarra hlunninda, sem ráðningarsamningnum fylgi, til 31. desember 2008.

Stefnandi kveður aldrei, áður en atvik máls þessa urðu, hafa verið fundið að störfum sínum fyrir stefnda eða neinu sem því tengdist af hálfu stjórnar stofnunarinnar eða forvera hennar.  Í stefnu segir að stefndi hafi með bréfi um riftun ráðningar­samnings aðila sett fram í löngu máli alls kyns ávirðingar sem svokallaðan rökstuðn­ing fyrir riftuninni.  Stefnandi telur þennan málatilbúnað gersamlega haldlausan og honum hafi ekki verið kynnt neitt af efni skjala sem sögð séu hafa verið tekin saman um málefni félagsins eftir að hann lét þar af störfum.

Töluleg sundurliðun fyrstu dómkröfu stefnanda er þannig:  Mánaðarlaun 1.211.304 krónur.  Orlof 12.07 % 146.204 krónur.  Töpuð lífeyrisréttindi 12% 145.357 krónur.  Bifreiðahlunnindi 140.725 krónur.  Samtals 1.643.590 krónur.

Launakrafa stefnanda tekur til mánaðanna mars og apríl 2008, sem áttu að greiðast 1. apríl  og 1. maí s. á.  og tekur dráttarvaxtakrafa stefnanda mið af því.  Um orlofslaun vísar stefnandi til starfssamnings síns við stefnda, þar sem orlofprósenta hans sé tilgreind 12,07 sem svari til 28 virkra orlofsdaga, og til ákvæða orlofslaga nr. 30/1987 en samkvæmt 8. gr. þeirra skuli greiða starfsmanni áunnin orlofslaun sé ráðningarsambandi slitið.  Kröfuliður vegna tapaðra 12% lífeyrisréttinda er skýrður sem 6% mótframlag stefnda til lífeyrissjóðs og 6% mótframlag til séreignar­lífeyrissjóðs. Kröfuliður vegna bifreiðahlunninda er skýrður með því að stefndi hafi krafist þess af stefnanda að hann skilaði bifreið, sem hann hafi haft til einkanota og nota í starfi sínu sem framkvæmdastjóri stefnda, og hafi hann orðið við þeirri kröfu.

Um aðra dómkröfu stefnanda segir í stefnu að kröfuliðir, sem hana varði, séu hinir sömu og tilgreindir séu í fyrstu dómkröfunni.  Kröfurnar séu ekki gjaldfallnar (þ.e. við útgáfu stefnu) en í ljósi afstöðu stefnda sé ljóst að hann muni ekki greiða þær án undangengins dóms.  Um heimild til öflunar viðurkenningardóms vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

Um lagagrundvöll fyrir þriðju dómkröfu sinni – um miskabætur – vísar stefnandi til b-liðs 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Á því er byggt að uppsögnin hafi verið framkvæmd með afar meiðandi hætti, á síðasta vinnudegi fyrir jól og án þess að stefnandi fengi á nokkur átt að tjá sig um ástæður hennar áður en hún var látin koma til framkvæmdar.  Jafnframt hafi þess verið getið að uppsögnin yrði tilkynnt lánastofnunum, hlutafélagaskrá og öðrum „nauðsynlegum“ stofnunum.  Allt hafi þetta verið algerlega ástæðulaust að mati stefnanda og eingöngu gert til að lítillækka hann í augum fjölskyldu hans, samstarfsmanna og annarra sem málið varðaði.

3

Af hálfu stefnda er byggt á því að honum hafi verið heimilt að lögum að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum hjá félaginu og án bóta í ljósi grófra brota hans á skyldum gagnvart stefnda.  Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda enda hafi brottvikning stefnanda verið lögleg. 

Sýknukrafa stefnda byggist einnig á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins og honum beri að draga úr tjóni sínu.  Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. ráðningarsamningsins komi ekki til greina að viðurkenna kröfu stefnanda um óskert laun og hlunnindi í tólf mánuði óháð því hvort stefnandi hverfi til annarra starfa og hafi þar tekjur á sama tíma.  Verði talið að brot stefnanda á starfsskyldum séu ekki svo veruleg að þau hafi heimilað fyrirvaralausa brottvikningu beri að líta til eigin sakar hans við mat á ætluðum bótarétti og víkja fyrrgreindu samningsákvæði til hliðar enda hafi ekki verið markmið samningsaðila að stefnanda yrðu greidd óskert laun í tólf mánuði í þeim tilvikum er stefnandi hefði gerst sekur um brot á starfsskyldum sínum.  Er þess krafist að fyrrgreindu samningsákvæði verði vikið til hliðar með vísun til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. 

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega með vísun til fyrrgreindra röksemda.

Stefndi krefst sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda og vísar til sömu röksemda og fyrr greinir.  Þá krefst stefndi þess til vara að hann verði sýknaður  svo stöddu af þeirri kröfu. 

Stefndi mótmælir fjárhæð fyrstu dómkröfu stefnanda og bendir á að mánaðarlaun stefnanda ásamt bifreiðahlunnindum hafi verið 1.321.000 krónur.  Kröfum um orlof á uppsagnarfresti og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda í upp­sagnar­fresti er mótmælt og eigi þær sér ekki stoð í ráðningarsamningi eða lögum.  Þá er mótmælt kröfu um upphafstíma dráttarvaxta og þess krafist, verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti, að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögudegi.

Af hálfu stefnda er miskabótakröfu stefnanda mótmælt.  Uppsögn stefnanda hafi verið réttmæt og stefnandi eigi sjálfur alla sök á ætlaðri vanlíðan sinni.  Þá er því mótmælt að 26. gr. laga nr. 50/1993 sé stoð fyrir kröfu stefnanda og sé ósannað að fyrir hendi séu skilyrði um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda.  Verði fallist á kröfu um greiðslu miskabóta er þess krafist að hún verði lækkuð verulega.

Af hálfu stefnda er því lýst yfir að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefnanda og muni hann höfða mál á hendur stefnanda til greiðslu skaðabóta vegna þess.  Háttsemi stefnanda kunni að varða hann refsingu og stefndi hafi kært hana til lögreglu.  Í greinargerð stefnda er áskilinn réttur til að leggja fram í málinu niður­stöður þeirrar rannsóknar en það hefur ekki verið gert.

4

Starfslok stefnanda hjá stefnda urðu vegna fyrirvaralausrar uppsagnar, - riftunar ráðningarsamnings - , af hálfu stjórnar stefnda.  Hér að framan, í 2. kafla dómsins, er tilgreint orðrétt efni 8. greinar samningsins sem kröfugerð stefnanda er reist á.  Samningsákvæðið veitir stefnanda skýlausan rétt vegna starfsloka og verður ekki jafnað til hefðbundinna ákvæða starfssamninga um gagnkvæman uppsagnarfrest þar sem stefnandi skal, án nokkurs fyrirvara að því er tekur til ástæðna þess að til uppsagnar komi af hálfu stefnda eða greiðslna frá öðrum aðilum, halda fullum launum og hlunnindum í tólf mánuði eftir starfslok vegna uppsagnar stefnda.  Í málinu er hins vegar ekki deilt um lögmæti þess að til uppsagnar kom af hálfu stjórnar stefnda.  Samkvæmt þessu er ekki efni til þess að í dóminum verði tekin afstaða til ávirðinga sem stefnandi er borinn af hálfu stefnda eða að þær séu tíundaðar og ekki verður fallist á sýknukröfu stefnda sem byggist á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna riftunar ráðningarsamningsins.  Umfram skýrt orðalag tilvitnaðs samnings­ákvæðis er ekkert fram komið um markmið samningsaðila og er ekki fallist á að sýkna beri stefnda eða lækka kröfur stefnanda með vísun til þeirra eða á grundvelli ákvæða 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að fallast beri að meginefni á fyrstu kröfu stefnanda.  Af framlögðum launaseðlum er ljóst að krafan er réttilega gerð um laun og hlunnindi að því undanskildu að ekki verður að fullu fallist á kröfuliðinn “Töpuð lífeyrisréttindi 12% 145.357 krónur“ þar sem mótframlag atvinnurekanda til lífeyrissjóðs var 8% og til séreignasjóðs 2% af mánaðarlaunum eða samtals 10%.  Kröfuliðurinn lækkar því í 121.130 krónur.  Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda á grundvelli fyrstu kröfu hans 3.238.726 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Öll hin sömu rök dómsins, sem hér hafa verið færð fram, sbr. einnig 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 svo og að engin rök verða fundin fyrir því að sýkna beri stefnda að svo stöddu, leiða til þeirrar niðurstöðu að fallast beri á aðra dómkröfu stefnanda, þ.e. viðurkenningarkröfu hans.

Eigi er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur úr hendi stefnda, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans af hálfu stefnda.  Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af þriðju dómkröfu stefnanda.

Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 500.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Byggingafélag námsmanna ses., greiði stefnanda, Friðriki Guð­mundssyni, 3.238.726 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.619.363 krónum frá 1. apríl 2008 til 1. maí s.á. og af 3.238.726 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Viðurkennd er skylda stefnda til að greiða stefnanda laun, orlofslaun og bifreiðahlunnindi, svo og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, allt samkvæmt ráðn­ingar­samningi hans við stefnda, frá 1. maí 2008 til 31. desember s.á. að viðbættum dráttarvöxtum frá gjalddaga hverrar greiðslu til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.