Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Afhending gagna
- Skjal
- Sératkvæði
|
Miðvikudaginn 16. maí 2012. |
|
|
Nr. 325/2012. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hörður Felix Harðarson hrl.) Y (Gestur Jónsson hrl.) Z og (Ragnar Halldór Hall hrl.) Þ (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Afhending gagna. Skjöl. Sératkvæði.
Kröfu X, Y, Z og Þ, um að tiltekið dómskjal í máli ákæruvaldsins gegn þeim yrði fellt úr skjölum málsins, var vísað frá Hæstarétti þar sem ákvörðun héraðsdóms um að hafna þeirri kröfu sætir ekki kæru til réttarins. Sömu aðilar kröfðust þess einnig að þeim yrði afhent eintak svonefndrar atburðaskrár um tengingar milli símtala eða sambærileg gögn og afrit allra tölvubréfa sem fóru um netföng þeirra og hald var lagt á undir rannsókn málsins, en þeim kröfum var vísað frá dómi í héraði. Hæstiréttur lagði fyrir héraðsdóm að taka kröfurnar til efnisúrlausnar og leysa þannig úr ágreiningi málsaðila, sbr. 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með tveimur kærum 7. maí 2012 sem bárust Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að dómskjal 11, í máli ákæruvaldsins gegn þeim verði fellt úr skjölum málsins og vísað frá dómi kröfu varnaraðila um að þeim yrði afhent eintak svonefndar atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn sem hafa að geyma yfirlit um símtöl sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu, og kröfu þeirra um að afrit allra tölvubréfa sem fóru um netföng varnaraðila og embætti sérstaks saksóknara lagði hald á undir rannsókn málsins. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til c., p. og t. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreindar kröfur þeirra teknar til greina.
Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi, aðallega að vísað verði frá héraðsdómi kröfu varnaraðila um að dómskjal 11 verði fellt út úr skjölum málsins en til vara að niðurstaða hins kærða úrskurðar um þetta verði staðfest. Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess aðallega að vísað verði frá Hæstarétti kröfu varnaraðila um afhendingu atburðaskrár (log-skrár) en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar um þennan þátt en að því frágengnu að kröfu varnaraðila um þetta verði hafnað. Í þriðja lagi krefst sóknaraðili þess aðallega að vísað verði frá Hæstarétti kröfu varnaraðila um að fá afhent afrit allra tölvubréfa sem fóru um netföng þeirra og haldlögð voru af embætti sérstaks saksóknara, en til vara að úrskurður héraðsdóms um þetta verði staðfestur en að því frágengnu að kröfu varnaraðila um þetta verði hafnað.
I
Við þingfestingu máls sóknaraðila á hendur varnaraðilum 7. mars 2012 var bókað að lögð væru fram auk ákæru skjöl undir töluliðum 2 til 12. Dómskjal 11 er tilgreint sem ,,Greinargerð skv. 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008“. Sóknaraðili kveður lögmenn, sem gegni verjendastörfum fyrir varnaraðila, hafa fengið skjölin í hendur tveimur vikum fyrir þingfestingu málsins. Af hálfu varnaraðila er tekið fram, að skjöl málsins séu slík að umfangi að efni þeirra sé á tæplega 7000 síðum. Hafi þeir ekki átt þess nokkurn kost að kynna sér efni þeirra fyrir þingfestingu málsins. Að auki hafi þeim ekki verið skipaðir verjendur fyrr en við þingfestinguna. Varnaraðilar lögðu fram bókun í þinghaldi 29. mars 2012 þar sem krafist var úrskurðar um heimild ákæruvalds til að leggja fram dómskjal 11. Með annarri bókun sem lögð var fram 27. apríl 2012 voru kröfur varnaraðila tilgreindar nánar.
Eins og áður greinir var dómskjal 11 lagt fram við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Krafa varnaraðila er að dómskjal þetta verði fellt úr skjölum málsins. Úrlausn héraðsdóms um að hafna þessari kröfu sætir ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 og verður kröfu sóknaraðila um endurskoðun á úrskurði héraðsdóms að þessu leyti því vísað frá Hæstarétti.
II
Varnaraðilar krefjast sem fyrr greinir afhendingar svonefndar atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn sem hafa að geyma yfirlit um símtöl sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu. Gagna þessara var aflað á rannsóknarstigi málsins. Þá krefjast þeir afhendingar afrita allra tölvubréfa sem fóru um netföng þeirra og embætti sérstaks saksóknara lagði hald á undir rannsókn málsins. Í héraðsdómi kemur fram að gögnin séu í báðum tilvikum aðgengileg fyrir varnaraðila hjá lögreglu þar sem þeir geti kynnt sér efni þeirra og tekið afstöðu til þess, hvort rétt sé að þau verði lögð fram í málinu. Komi þá fyrst til álita hvort gögnin, öll eða einhver hluti þeirra, verði lögð fram í dómsmálinu, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Héraðsdómur vísaði kröfum varnaraðila um afhendingu gagnanna frá dómi.
Sóknaraðili synjaði kröfum varnaraðila um afhendingu tilgreindra gagna, en lýsti yfir því að þeim stæði til boða að kynna sér efni gagnanna hjá lögreglu með þeim hætti sem lýst er í hinum kærða úrskurði. Varnaraðilar hafa ekki fallist á það boð heldur kusu að bera kröfu um afhendingu undir úrskurð dómara. Dómara bar við svo búið að taka efnislega afstöðu til krafna varnaraðila, sbr. 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008, og leysa þannig úr ágreiningi málsaðila. Verður hinn kærði úrskurður því úr gildi felldur að því er varðar þessa þætti og lagt fyrir héraðsdómara að taka efnislega afstöðu til þessara krafna varnaraðila.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfu varnaraðila, X, Y, Z og Þ um að dómskjal 11, í máli ákæruvaldsins gegn þeim verði fellt úr skjölum málsins.
Lagt er fyrir héraðsdóm að taka til efnisúrlausnar kröfu varnaraðila um að þeim verði afhent eintak svonefndrar atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn sem hafa að geyma yfirlit um símtöl sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu, og kröfu þeirra um afhendingu afrits allra tölvubréfa sem fóru um netföng varnaraðila og embætti sérstaks saksóknara lagði hald á undir rannsókn málsins.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili meðal annars fram við þingfestingu málsins 7. mars 2012 skýrslu sem gerð hafði verið um rannsóknina á hendur varnaraðilum og sögð var styðjast við 56. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrsla þessi er ítarleg og hefur bæði að geyma efni sem kveðið er á um í 56. gr. laga nr. 88/2008 en einnig skriflegan málflutning fyrir refsikröfum sóknaraðila fyrir dómi. Þegar málið var tekið fyrir 29. mars 2012 gerðu varnaraðilar kröfu um að dómurinn úrskurðaði um heimild sóknaraðila til að leggja skjalið fram og fylgdu henni eftir með annarri bókun 27. apríl 2012, þar sem fram kom krafa þeirra um að „skjalið verði fellt úr skjölum málsins.“
Samkvæmt 2. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 skiptir ekki máli hvenær yfirlýsingar, mótmæli og sönnunargögn koma fram undir rekstri máls. Framangreind krafa varnaraðila laut að heimild sóknaraðila til að leggja umrætt skjal fram í dómi, þó að skjalið hefði í sjálfu sér þegar verið lagt fram. Getur það haft efnislega þýðingu fyrir varnir sakaðs manns að mega gera kröfur sem lúta að framlagningu ákæruvalds á skjölum fyrir dómi og standa engin efni til þess að takmarka þann rétt við að krafa sé gerð um leið og skjal er lagt fram, enda getur verið útilokað fyrir ákærða að átta sig á því strax hvort efni séu til að mótmæla framlagningu skjals. Í því máli sem hér er til meðferðar vísa varnaraðilar meðal annars til þess að með skjalinu sé brotið gegn þeirri meginreglu réttarfars í sakamálum að málflutningur ákæruvalds, umfram það sem fram kemur í ákæruskjali samkvæmt d. lið 152. gr. laga nr. 88/2008, skuli vera munnlegur nema sérstök ákvörðun sé tekin um annað, sbr. um það 3. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um kröfu varnaraðila varðaði að mínum dómi ágreining um „heimild til að leggja fram sönnunargagn“ svo sem það er orðað í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Við túlkun á réttarfarsreglum laganna verður að hafa í huga þá efnislegu þýðingu sem reglurnar hafa fyrir rekstur máls. Þröng túlkun meirihlutans á þessari kæruheimild getur eftir atvikum leitt til þess að meðferð málsins gegn varnaraðilum fyrir héraðsdómi verði andstæð lögum án þess að þeim hafi gefist kostur á að krefjast sérstaklega endurskoðunar Hæstaréttar á ákvörðun héraðsdóms um hana. Gæti þetta leitt til þess að meðferðin yrði síðar talin haldin annmörkum sem varnaraðilar þyrftu ekki að sæta. Tel ég röksemdir sem að þessu lúta standa gegn hinni þröngu túlkun meirihlutans og njóti varnaraðilar heimildar samkvæmt ákvæðinu til að kæra þennan þátt úrskurðarins til Hæstaréttar. Er Hæstarétti því að mínum dómi skylt að taka efnislega afstöðu til kröfunnar. Þar sem meirihluti dómara hefur komist að annarri niðurstöðu um þetta og vísað þessari kröfu frá Hæstarétti standa ekki efni til að ég taki slíka efnislega afstöðu.
Ég er sammála meirihlutanum um það sem segir í II. kafla atkvæðis hans um að fella hinn kærða úrskurð úr gildi um frávísun á þar greindum kröfum varnaraðila.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012.
Með ákæru, dagsettri 16. febrúar sl., höfðaði sérstakur saksóknari, samkvæmt lögum nr. 135, 2008, sakamál á hendur ákærðu fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og fyrir brot gegn 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108, 2007. Gögn málsins eru mikil að vöxtum, rúmar 6000 blaðsíður af margvíslegum skjölum, þ. á m. skýrslum um yfirheyrslur sakborninga og vitna, afriti tölvuskeyta og m. fl. Meðal gagnanna er að finna 127 blaðsíðna hefti með titlinum „Greinargerð rannsakenda í máli [...], samanber 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008“, sem lögð var fram þegar málið var þingfest. Skýrsla þessi er ítarlegt yfirlit um lögreglurannsóknina með athugasemdum rannsakenda um sönnunargögnin en einnig um ýmisleg lagaatriði. Þá er komið fram í málinu að saksóknaraembættið hefur í vörslum sínum rafræn gögn af ýmsu tagi, sem hald var lagt á í þágu lögreglurannsóknarinnar en ekki voru lögð fram með ákærunni, svo sem atburðaskrár (log-skrár) um símtöl sem hleruð hafa verið, upptökur af þeim, svo og mikið magn tölvuskeyta.
Ákærðu í málinu hafa krafist þess:
1. Að úrskurðað verði um heimild ákæruvaldsins til þess að leggja fram meint sönnunargagn, greinargerð rannsakenda á dómskjali nr. 11. Þess er jafnframt krafist að skjalið verði fellt úr skjölum málsins.
2. Að úrskurðað verði að þeim skuli afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur þau gögn, sem kunna að hafa orðið til við rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara og hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu.
3. Að ákærðu verði afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákæruvaldið hefur krafist þess aðallega að kröfum þessum verði vísað frá dómi en til vara að þeim verði synjað. Voru kröfur þessar var teknar til úrskurðar hinn 27. apríl sl., að loknum munnlegum málflutningi.
Um 1:
Ákærðu byggja á því að 56. gr. sakamálalaganna, sem vísað er til í titli skjalsins, sé í þeim kafla laganna sem hafi að geyma almennar reglur um rannsókn. Verði hvorki ráðið af þessu ákvæði laganna né öðrum ákvæðum þeirra að ráð sé fyrir því gert að greinargerð rannsakenda sé lögð fram sem sönnunargagn fyrir dómi. Þá sé ljóst að greinargerðin sé annað og meira en samantekt rannsóknaraðgerða og framburða vitna. Í greinargerðinni, 127 síðum með 644 neðanmálsgreinum, sé málatilbúnaður ákæruvaldsins settur fram í ítarlegu skrifuðu máli. Beri framsetningin þess skýr merki að ekki sé gætt jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Að mati ákærðu samrýmist framlagning þessarar greinargerðar hvorki ákvæði 152. gr. laga um meðferð sakamála né meginreglu um jafnræði aðila fyrir dómi.
Af hálfu ákæruvalds er skírskotað til þess að umrædd skýrsla, sem unnin hafi verið á rannsóknarstigi í samræmi við 1. mgr. 56. gr. skml., hafi þegar verið lögð fram og ákærðu hafi engar athugasemdir við framlagningu hennar við þingfestingu málsins og hefðu þeir þó fengið hana í hendur með öðrum gögnum málsins tveimur vikum fyrir þingfestingu. Verði því að skilja kröfu ákærðu svo krafist sé úrskurðar um að synjað verði afturvirkt um framlagningu skjalsins. Ákæruvaldið líti svo á að ekki sé unnt að afturkalla þannig framlagningu skjals og er um þetta vísað til dóms hæstaréttar Íslands í máli nr. 180/2002 þar sem tekið hafi verið á því í einkamáli hvort „viðbót við greinargerð stefnda“, sem lögð var fram í héraði, bæri að „vísa frá dómi“. Hæstiréttur hafi í dómi sínum sagt að í lögum um meðferð einkamála væri hvergi ráðgert að skjali, sem lagt hefði verið fram á dómþingi, yrði „vísað frá dómi“ þótt dómari teldi á síðari stigum að rétt hefði verið að neita aðila um að fá að leggja það fram. Í þessum dómi felist leiðbeining um það að dómari geti ekki á afturvirkan hátt synjað um framlagningu gagna, enda standi engin lagaheimild til þess. Álíti ákærðu þá vankanta vera á skjali, sem ákærandi hefur lagt fram, að varði sönnunargildi þess geti þeir sem endranær vikið að því í greinargerð sinni, lagt fram sérstaka bókun um það eða fjallað um það í málflutningi. Þá sé á það að líta, að ef ákærðu gætu krafist þess að sönnunargögn sem þeir teldu ekki hafa sönnunargildi yrðu afturkölluð, gerðu dómarar fátt annað en að úrskurða um slík álitaefni. Sýni reynslan að sakborningar hafi iðulega athugasemdir fram að færa við sönnunargildi framlagðra gagna.
Ákæranda sé með 2. mgr. 134. gr. sakamálalaga veitt mikið svigrúm til þess að meta hvaða gögn skuli lögð fram enda sé þar sagt að hann leggi fram þau gögn sem sönnunargildi hafi að hans mati. Verður að ætla að það skuli að öllu jöfnu ákæruvaldið eitt meta. Það sé síðan dómarans að meta sönnunargildi þeirra skjala sem ákærandi leggur fram, sbr. 137. gr. skml. Þá sé tilgangurinn með 1. mgr. 56. gr. skml. sá að lögregla taki saman skýrslu um rannsókn sína svo að saksóknari geti með hjálp hennar lagt mat á fyrirliggjandi gögn og þar með tekið ákvörðun um hvort gefa skuli út ákæru í málinu eða ekki. Skjöl sem rannsakendur töldu hafa sönnunargildi um rannsókn sína í málinu hafi verið hátt á sjöunda þúsund, málsatvik séu torskilin og sakarefnin flókin. Til þess að uppfylla skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 56. gr. hlutu rannsóknarmenn að þurfa að taka saman mun víðfeðmari og ítarlegri skýrslu um rannsóknin sína heldur en tíðkist t.d. í líkamsárásarmálum, þar sem sakarefnið er einfalt. Að sama skapi geti skýrslan verið sönnunargagn um rannsókn málsins hjá lögreglu og þar með haft sönnunargildi fyrir dómi. Séu fjölmörg dæmi um það í flóknum málum að rannsókn lögreglu sé gagnrýnd sérstaklega af verjendum og því full ástæða til þess að gerð sé ítarlega grein fyrir henni og niðurstöðum hennar í skýrslu rannsakenda.
Loks vísi ákæruvaldið því alfarið á bug að ekki sé fjallað jafnt um atriði sem horfa til sýknu og sektar í skýrslu rannsakenda. Nægi í því sambandi að benda á yfirgripsmikla kafla í skýrslunni um málsvarnir hjá lögreglu. Þá sé því mótmælt að með skýrslunni sé jafnræði aðila fyrir borð borið. Þvert á móti sé með framlagningu hennar stuðlað að því að ákærðu og dómari málsins geti með sama hætti og ákærandi lagt mat á rannsóknina og niðurstöður hennar.
Niðurstaða
Skilja verður kröfugerð ákærðu í þessum lið á þann veg að fyrri málsliður hennar sé hluti af þeim síðari og að hún snúi að því einu að dómskjal nr. 11, þ. e. margnefnd „greinargerð rannsakenda í máli [...], samanber 56. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008“ „verði fellt úr skjölum málsins“.
Umrætt skjal var lagt fram í málinu sem skýrsla rannsakenda um rannsókn þess samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð sakamála. Innihald slíkrar skýrslu og umfang hlýtur að vera á valdi þess sem hana gerir. Skýrsla þessi er ítarlegt yfirlit um lögreglurannsóknina með fjölmörgum athugasemdum rannsakenda um sönnunargögnin en einnig um ýmisleg lagaatriði. Enda þótt skýrsla þessi geti sjálf ekki beinlínis talist sönnunargagn um sakarefni málsins verður að líta á hana sem inngang eða lykil að hinu mikla safni sönnunargagna sem ákæruvaldið hefur lagt fram í málinu og telja hana því vera hluta af því. Var það því háð mati ákæruvaldsins hvort hún var lögð fram í málinu eða ekki, sbr. 1. og 2. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála. Þess er ennfremur að gæta að ákærðu eiga þess allan kost að koma að athugasemdum um efni skýrslunnar við málsmeðferðina. Loks er á það að líta að í lögum um meðferð sakamála er ekki að finna heimild til þess að fella úr gögnum máls skýrslur eða gögn sem lögð hafa verið fram í því á dómþingi. Ber að synja kröfu ákærðu um að umrædd greinargerð á dómskjali nr. 11 verði felld úr skjölum málsins.
Um 2:
Í bókun ákærðu segir að af hálfu ákæruvaldsins hafi verið upplýst að símahlustun hafi verið beitt gagnvart ákærðu öllum við rannsókn málsins. Hafi endurrit símtala sem ákæruvaldið telji hafa sönnunargildi í málinu hafa verið lögð fram í því. Ákæruvaldið hafi hins vegar neitað að afhenda yfirlit yfir þau símtöl sem hleruð voru og jafnframt synjað beiðni ákærðu um að þeir fái afhent öll þau gögn sem aflað var á grundvelli úrskurða um hlustanir. Með þessari synjun sé jafnræði aðila við meðferð málsins raskað, enda séu takmarkanir á aðgangi ákærðu að gögnum máls bundnar að lögum við meðferð málsins á rannsóknarstigi.
Ákæruvaldið bendir á það að rannsókn málsins sé lokið, ákæra hafi verið gefin út og dómsmeðferð hafin. Á þessu stigi máls verði þess ekki krafist að ákæruvaldið afhendi ákærðu gögn úr rannsókn þess hjá lögreglu. Hins vegar geti ákærðu krafist þess að tiltekin gögn verði lögð fram í málinu og meti dómari þá hvort umrædd gögn geti haft sönnunargildi í málinu, sbr. 3. mgr. 110 gr. skml., og beini hann því til ákæruvalds að afla þeirra og leggja fram telji hann ástæðu til, sbr. 2. mgr. 110. gr. skml. Beri því að vísa frá kröfu ákærðu um „rétt til afrita af öllum gögnum sem aflað var á grundvelli úrskurða um hlustanir“. Við rannsókn málsins hjá lögreglu hafi verið aflað svokallaðra „símagagna“, sbr. 80. og 81. gr. skml., í krafti úrskurða héraðsdóms þar að lútandi. Hafi í þeim verið markaðar heimildir lögreglu til símhlustana í hverju tilviki. Sá hluti þeirra símagagna, sem aflað var á grundvelli fyrrgreindra úrskurða og talinn var hafa sönnunargildi, hafi verið gerður að rannsóknargögnum í málinu og þau lögð fram í málinu, sbr. 134. gr. skml. Þ. á m. séu rafrænar „atburðaskrár“ (log-skrár) um tengingu milli símtala. Ákærðu eigi ekki rétt á að fá slík gögn afhent, sbr. t.d. Hrd. nr. 205/2012 og 497/2009. Hins vegar geti þeir fengið aðstöðu hjá saksóknaraembættinu til þess að kynna sér skrár þessar í húsakynnum embættis sérstaks saksóknara. Sé með þessari framkvæmd í raun gengið lengra en gert er ráð fyrir í lögum en jafnframt sé hér um að ræða bestu lausnina til að bregðast við kröfum ákærðu.
Niðurstaða
Gögn þau, sem ákærðu krefjast að fá afhent, hafa ekki verið lögð fram í málinu. Þeirra mun aftur á móti hafa verið aflað í þágu lögreglurannsóknarinnar í því. Munu þau vera aðgengileg fyrir ákærðu hjá lögreglu og eiga þeir að geta kynnt sér þar hvort þau hafi, að þeirra mati, þýðingu fyrir málið og hvort rétt sé að þau verði lögð fram, svo og endurrit símtalanna sem um ræðir. Kemur þá fyrst til álita hvort gögn þessi, öll eða einhver hluti þeirra, verði lögð fram í dómsmálinu, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála. Samkvæmt þessu ber að vísa frá dómi kröfu ákærðu um það að úrskurðað verði að þeim skuli afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn, sem hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu.
Um 3:
Í þriðja lagi krefjast ákærðu þess að fá afhent afrit af tölvuskeytum sem ekki hafa verið lögð fram í málinu en fóru um þeirra eigið netfang og voru meðal rannsóknargagna. Þeim hafi verið synjað um að fá afrit þessara gagna. Telja ákærðu að þessi afstaða ákæruvaldsins raski jafnræði aðila við meðferð málsins, enda séu takmarkanir á aðgangi ákærðu að gögnum máls bundnar að lögum við meðferð þess á rannsóknarstigi.
Ákæruvaldið ítrekar það sem haldið var fram um lið 2, að ákærðu geti ekki á þessu stigi máls krafist þess að umrædd gögn verði afhent þeim, heldur geti krafa þeirra einungis snúið að því að gögnin verði lögð fram. Þá sé þeim skilningi ákærðu mótmælt að öll haldlögð gögn verði sjálfkrafa rannsóknargögn í máli. Hið rétta sé að rannsakendur fari yfir haldlögð gögn og í framhaldi af því séu gögn gerð að rannsóknargögnum sem þyki hafa sönnunargildi í máli. Í þessu máli hafi verið lagt hald á gífurlegt magn tölvuskeyta. Leitað hafi var í þeim með þar til gerðu leitarforriti og eingöngu prentað út það sem talið var hafa sönnunargildi og það svo orðið að rannsóknargögnum í málinu. Tölvuskeytin sem ákærðu vilji fá afhent séu rafræn gögn og gildir því það sama um þau og rafræn símagögn sem krafist er í þessu máli, að ákærðu eiga ekki rétt á að fá þau afhent frekar en símagögnin, sbr. t.d. Hrd. nr. 205/2012 og Hrd. 497/2009. Hafi hverjum ákærðu verið boðið að fá að skoða eigið pósthólf og skeytin í því hjá embætti sérstaks saksóknara en þeim hafi hins vegar verið neitað um að fá þessi gögn afhent, enda sé um að ræða rafræn gögn og einnig vegna þess að bankaleynd kunni að taka til þeirra upplýsinga sem þar komi fram. Þá séu umrædd gögn í eigu bankans en ekki ákærðu. Ákæruvaldið gangi eins langt og unnt sé til þess að koma til móts við kröfur ákærðu. Þannig fái þeir aðstöðu til að kynna sér efni tölvuskeytanna og geti í framhaldinu farið fram á það að tiltekin skeyti verði prentuð út og lögð fram í málinu.
Niðurstaða
Þau rafrænu gögn þau, sem ákærðu krefjast að fá afhent, tölvupósthólf og innihald þeirra, hafa ekki verið lögð fram í málinu en þeirra mun aftur á móti hafa verið aflað í þágu lögreglurannsóknarinnar í því. Munu þau vera aðgengileg fyrir ákærðu hjá lögreglu og þar eiga þeir að geta kynnt sér hvort þau hafi, að þeirra mati, þýðingu fyrir málið og hvort rétt sé að þau verði lögð fram. Kemur þá fyrst til álita hvort gögn þessi, öll eða einhver hluti þeirra, verði lögð fram í dómsmálinu, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála. Samkvæmt þessu ber að vísa frá dómi kröfu ákærðu um það að úrskurðað verði að þeir fái afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu ákærðu í máli þessu um það að greinargerð rannsakenda á dómskjali nr. 11. verði felld úr skjölum málsins.
Vísað er frá dómi kröfu ákærðu um það að þeim verði afhent eintak atburðaskrár (log-skrár) um tengingar milli símtala eða önnur sambærileg gögn, sem hafa að geyma yfirlit yfir símtöl, sem hleruð voru með heimild í dómsúrskurðum í málinu.
Vísað er frá dómi kröfu ákærðu um það að þeir fái afhent afrit allra tölvupósta, sem fóru um netföng þeirra og saksóknaraembættið lagði hald á við rannsókn málsins.