Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2005
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Hegningarauki
- Samverknaður
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 373/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Vilhjálmi Vilhjálmssyni og (Hilmar Ingimundarson hrl.) Friðriki Þór Bjarnasyni(Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Hegningarauki. Samverknaður.
V og F voru, ásamt fleirum, ákærðir fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á 1000 töflum með ávana- og fíkniefninu MDA-klóríð og 131,63 g af kókaíni, ætluðu til söludreifingar hér á landi, með því að hafa lagt fram fé til kaupanna. Báðir ákærðu kröfðust mildunar á refsingu og að hún yrði skilorðsbundin í heild eða að hluta. Þá neitaði V að hafa komið að innflutningi á umræddu magni af kókaíni og krafðist sýknu af þeim hluta ákærunnar. Hins vegar þótti sannað að hann hafi einnig gerst sekur um þá háttsemi. Við mat á refsingu ákærðu var meðal annars litið til þess að auk þess að fjármagna fíkniefnakaupin hugðust þeir koma megninu af efnunum í sölu. V átti að baki nokkurn sakarferil og þótti hæfileg refsing hans tveggja ára fangelsi en refsing F átján mánaða fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. ágúst 2005 að ósk ákærðu og í samræmi við yfirlýsingar þeirra um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærðu.
Ákærði Vilhjálmur krefst þess að hann verði sýknaður af þeim sakargiftum að hafa staðið að innflutningi á 131,63 grömmum af kókaíni til söludreifingar hér á landi samkvæmt 4. tölulið ákæru, sbr. 2. tölulið. Að öðru leyti krefst hann mildunar á refsingu og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Ákærði Friðrik Þór krefst mildunar á refsingu og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði Vilhjálmur hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst er í upphafskafla ákæru og 4. tölulið hennar.
Fram er komið í málinu að ákærðu hugðust hvor um sig selja megnið af þeim 500 MDA-klóríð töflum, sem komu í hlut hvors þeirra. Brot ákærða Vilhjálms var framið áður en hann var dæmdur fyrir líkamsárás 10. mars 2004 í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár. Hann rauf því ekki skilorð þess dóms með því broti sem hér er til meðferðar. Verður refsing hans nú ákveðin í einu lagi með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. og 78. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar ákærða Friðriks Þórs ber sérstaklega að taka tillit til þess að hann var ungur að árum er hann framdi brotið, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá verkar til þyngingar refsingar beggja ákærðu að þeir frömdu verknaðinn í félagi við fleiri menn, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um refsingu ákærðu.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er varðar ákærðu verða staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða sakarkostnað í héraði eins og segir í dómsorði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun. Málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu, Vilhjálms Vilhjálmssonar og Friðriks Þórs Bjarnasonar, skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna skulu vera óröskuð.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, samtals 1.220.786 krónur, þó þannig að þeir greiði þar af óskipt kostnað fyrir Hæstarétti vegna ágripsgerðar, 44.148 krónur, og óskipt í félagi við aðra meðákærðu í héraði kostnað vegna matsgerðar Háskóla Íslands, 130.838 krónur.
Ákærði Vilhjálmur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 572.700 krónur og ákærði Friðrik málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 473.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. maí sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 30. desember 2004 á hendur ákærðu A, kennitala [ ], [ ], Keflavík, B, kennitala [ ], [ ], Keflavík, C, kennitala [ ], [ ], Akureyri, Friðriki Þór Bjarnasyni, kennitala 090983-5989, Efstaleiti 42, Keflavík, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, kennitala 230977-5779, Fífumóa 1b, Njarðvík, D, kennitala [ ], [ ], Njarðvík og E, kennitala [ ], [ ], Akureyri,
fyrir fíkniefnabrot, framin í ágóðaskyni í ársbyrjun 2004 er ákærðu A, B, Friðrik Þór, Vilhjálmur og C stóðu saman að innflutningi á 1000 töflum með ávana- og fíkniefninu tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð) og 131,63 g af kókaíni, ætluðu til söludreifingar hér á landi, ákærða D tók á móti sendingu er hún taldi innihalda umrædd fíkniefni og fyrir peningaþvætti á sama tíma er ákærða E tók við ávinningi af fíkniefnabroti ákærða C, allt eins og nánar greinir hér á eftir:
1. Ákærða A er gefið að sök:
Að hafa ásamt meðákærða B lagt á ráðin um innflutning á fíkniefnum, fengið meðákærða C til að fara til Hollands í lok janúar og hafa þar milligöngu um kaup ákærða B á efnunum, sbr. töluliði 2 og 3. Fíkniefnin voru með samþykki ákærða send honum í pósti og sótti meðákærða D, samkvæmt umboði frá ákærða, sendingu er hann taldi innihalda fíkniefnin, en lögregla hafði þá lagt hald á þau, í afgreiðslu Íslandspósts í Keflavík hinn 5. febrúar, sbr. tölulið 5. Átti ákærði að fá í sinn hlut um 30 g af kókaíni.
2. Ákærða B er gefið að sök:
Að hafa ásamt meðákærða A lagt á ráðin um innflutning á fíkniefnunum og fengið meðákærðu Friðrik Þór og Vilhjálm til að fjármagna kaup á efnunum, sbr. töluliði 1 og 4. Fór ákærði ásamt meðákærða C til Hollands þar sem ákærði, fyrir milligöngu C, festi kaup á fíkniefnunum af ónafngreindum manni, sbr. tölulið 3, og sendi í pósti til landsins. Hinn 5. febrúar sótti ákærði sendinguna, sem hann taldi innihalda fíkniefnin, á heimili meðákærðu D að [ ], Keflavík, sbr. tölulið 5, og fór með sendinguna á heimili meðákærðu Friðriks Þórs og Vilhjálms að Fífumóa 1b, Keflavík en varð þess þá var að efnin höfðu verið fjarlægð úr sendingunni. Átti ákærði að fá í sinn hlut um 100 g af kókaíni.
3. Ákærða C er gefið að sök:
Að hafa haft milligöngu um kaup meðákærða B á fíkniefnunum í Hollandi sem ákærði vissi að flytja átti inn til Íslands og selja. Fór ákærði að beiðni meðákærða A ásamt meðákærða B til Hollands í lok janúar og kom honum þar í samband við ónafngreindan mann í Rotterdam sem útvegaði fíkniefnin, sbr. töluliði 1 og 2. Fékk ákærði afhentar um 2000 evrur frá hinum ónafngreinda manni fyrir milligöngu sína.
4. Ákærðu Friðriki Þór og Vilhjámi er gefið að sök:
Að hafa lagt fram fé til kaupa á fíkniefnunum ytra, sbr. tölulið 2. Áttu ákærðu að fá í sinn hlut 1000 töflur sem innihéldu ávana- og fíkniefnið tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð) sem þeir hugðust skipta til helminga.
5. Ákærðu D er gefið að sök:
Að hafa hinn 5. febrúar, í afgreiðslu Íslandspósts í Keflavík, móttekið sendingu sem ákærða taldi innihalda fíkniefnin og farið með hana á heimili sitt að [ ] í Keflavík þar sem ákærði B sótti sendinguna síðar sama dag, sbr. töluliði 1 og 2.
6. Ákærðu E er gefið að sök:
Að hafa móttekið kr. 90.000 af meðákærða C sem hún vissi að var ávinningur af framangreindu fíkniefnabroti hans, sbr. ákærulið 3, en umrædd fjárhæð var lögð inn á bankareikning hennar nr. [ ] hinn 30. janúar.
Heimfærsla refsiákvæða:
Háttsemi ákærðu A, B, C, Friðriks Þórs, Vilhjálms og D þykir varða við 173. gr.a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar þátt ákærðu D. Háttsemi ákærðu E þykir varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10/1997 og nr. 32/2001.
Dómkröfur:
a. Að ákærðu verði dæmd til refsingar.
b. Að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14 . gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002:
1000 töflur með ávana- og fíkniefninu tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð) og 131,63 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á þann 2. febrúar 2004.
4,74 g af amfetamíni sem fundust við leit þann 5. febrúar 2004 í bifreið ákærða A.
0,01 g af kókaíni og 0,42 g af tóbaksblönduðu kannabis sem fundust við leit sama dag á heimili B.
2,39 g af amfetamíni sem fundust við leit sama dag á heimili ákærða Vilhjálms.
c. Að eftirtalin ólöglega flutt inn eða seld lyf sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins hinn 5. febrúar 2004 verði gerð upptæk samkvæmt 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga, sbr. lög nr. 55/1995 og 83/2004 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.
8,40 ml af vökva og 78,5 töflur sem innihala karlkynshormónalyf með anabólískri verkun og fundust við leit heimili (sic.) ákærða B.
1,5 ml ambúla og 181 tafla sem innihalda sama lyf og fundust við leit á heimili ákærða Friðriks Þórs.
d. Að ákærðu C og E verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á krónum 90.000 in solidum og að auki verði ákærði C gert að sæta upptöku á kr. 82.000, sem er ávinningur ákærðu af brotum samkvæmt 3. og 6. tölulið.
Ákærði A krefst sýknu af ákæru að því er varðar innflutning á 1000 töflum með ávana- og fíkniefninu tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð) en að öðru leyti vægustu refsingar er lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin.
Ákærði B krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald ákærða 6.-7. febrúar 2004.
Ákærði C krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.
Ákærði Friðrik Þór krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin.
Ákærði Vilhjálmur Vilhjálmsson krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin og að til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða 6.-8 febrúar 2004.
Ákærða D krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin.
Ákærð E krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.
Verjendur ákærðu krefjast málsvarnarlauna, verjandi ákærðu E úr ríkissjóði.
I.
Er lögreglunni í Keflavík bárust um það upplýsingar þann 28. janúar 2004 að ákærði B hefði farið í stutta ferð til Hollands og að grunur væri um að með honum í ferð væru ákærðu C og E var ákveðið að kanna tilgang ferðarinnar þar sem B var þekktur af neyslu fíkniefna og grunaður um sölu slíkra efna. Lögreglan hafði einnig af því spurnir að ákærði B væri í sambandi við ákærðu D og að hann hefði oft sést með ákærða A, sem hefði verið orðaður við neyslu og sölu fíkniefna.
Mánudaginn 3. febrúar fann Tollgæslan í Reykjavík böggul sem hafði verið sendur frá Rotterdam í Hollandi og var viðtakandi hans skráður Kastalinn, A, Hafnargötu 30, 230 Keflavík. Við skoðun á innihaldi böggulsins kom í ljós að í honum voru m.a. átta vaxkerti sem höfðu verið holuð að innan og þar hafði verið komið fyrir fíkniefnum þeim er mál þetta varðar. Lögregla lét fjarlægja fíkniefnin úr kerturnum og setja í stað þeirra eftirlíkingu fíkniefna í þau kerti sem nothæf voru. Gengið var frá bögglinum sem skráður var að nýju í færslukerfi Íslandspósts. Farið var með böggulinn á pósthúsið í Keflavík þar sem ákveðið var að geyma pakkann þar til hann yrði sóttur. Var tilkynning um pakkann síðan send til Kastalans. Í framhaldi af þessu aflaði lögregla sér dómsúrskurða til símahlerana. Með símahlustun komst lögreglan á snoðir um að ákærðu A, B og D áttu von á sendingu frá útlöndum eftir að ákærði B hafði verið í Hollandi. Þá kom í ljós við eftirgrennslan og símahlustun að ákærða D sótti umræddan böggul á pósthúsið í Keflavík og ók um götur bæjarins áður en hún fór með hann á heimili sitt að [...] í Keflavík. Þangað kom ákærði B, sótti böggulinn og fór með hann á heimili ákærða Vilhjálms. Í kjölfar þessa voru ákærðu A, Steinunn kona hans, ákærða D, ákærðu B, Vilhjálmur og Friðrik Þór öll handtekin og leit gerð á heimilum ákærðu og í bifreiðum. Haft var samband við lögregluna á Húsavík sem handtók ákærðu C og E.
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að um var að ræða 131,63 g af kókaíni og 1000 e-töflur.
II.
Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði var falin rannsókn á efnissýnum úr framangreindri sendingu.
Í matsgerð varðandi ætlað kókaín segir: “Sýnið var ljósleitt duft, 3,59 g að þyngd. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum fannst að efnið innihélt kókaín, fenasetín, benzokaín og sykrualkóhól. Efnapróf bentu til þess að kókaínið væri að mestu í formi kókainklóríðs. Magn kókainbasa í sýninu var 26%, sem samsvarar 29% af kókaínklóríði”.
Í matsgerð varðandi ætlaðar e-töflur segir: “Sýnið er 10 hvítar, yrjóttar töflur, um 8,1 mm í þvermál og meðalþungi töflu reyndist 0.2186 g. Á annarri hlið þeirra var mynd af Jóakim önd og deiliskora á hinni hliðinni. Heildarþyngd sýnis var 2,1863 g. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum fannst að töflurnar innihéldu tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð) og voru 38 mg í hverri töflu (samsvarar 32 mg af tenamfetamínbasa). Tenamfetamín er ávana- og fíkniefni og er á lista yfir efni, sem óheimil eru á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Efnið er náskylt MDMA að gerð og verkun”.
Svava Þórðardóttir lyfjafræðingur staðfesti báðar matsgerðirnar fyrir dómi. Í framburði hennar kom fram að umrædd fíkniefni væru fremur veik. Magn kókaínbasa í kókaínsýninu hefði verið 26% en í 40 sýnum sem komu til rannsóknar á síðasta ári hefði magn kókaínbsa verið að meðaltali 41%. Sterkasta efni hefði verið með 76% kókaínbasa en það veikasta 5,4%. Hún kvað efnið MDA vera náskylt efninu MDMA. Ekki sé um að ræða sömu efni en þó muni litlu í byggingu þeirra. Þetta séu áþekk efni sem valdi sambærilegum áhrifum. Hún kvað MDMA vera örvandi efni en MDA örvandi efni með hugsanlegum ofskynjunaráhrifum. Hún kvað bæði efnin náskyld amfetamíni. MDA hafi sömu og meiri áhrif en MDMA. Styrkleiki efnanna sé mældur með mgr. í töflu. Mælingar á MDMA á síðasta ári hafi sýnt styrkleika á bilinu 33-76 mgr. í töflu af tenamfetramínbasa. Töflur þær sem rannsakaðar voru vegna málsins hafi því verið við neðri mörkin.
III.
Ákærði A viðurkenndi við þingfestingu málsins að hafa komið á sambandi milli meðákærða B og C í því skyni að kókaín yrði flutt inn til landsins og hafi hann átt að fá í sinn hlut 30 g af kókaíni. Hafi hann ætlað að selja helminginn og hafa 150.000 krónur út úr því en nota sjálfur hinn helminginn. Að öðru leyti hafi hann ekki komið að málinu. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa kynnst meðákærða B í gegnum meðákærðu D. Á einhverjum tímapunkti hefði komið upp umræða milli þeirra um innflutning fíkniefna. Hann hefði haft samband við meðákærða C og beðið hann um að hafa milligöngu um innflutning fíkniefna. Hann hefði samþykkt það. Á þessum tíma hefði verið rætt um kaup á 100 g af kókaíni og hefði meðákærði B ætlað að sjá um að útvega fé til kaupanna. Sjálfur hefði hann ekki lagt krónu í þetta og aldrei vitað hver lagði fram fé til kaupanna. Hann kvaðst þó hafa greitt flugfargjaldið fyrir ákærðu C og konu hans ákærðu E frá Húsavík til Reykjavíkur. Hann hefði hitt meðákærðu B og C á heimili sínu kvöldið áður en þeir héldu utan og hefði þá komið í ljós að auk kókaíns yrðu keyptar e-töflur. Þetta kvöld hefði ákærði C lýst því yfir að frá og með þeirri stundu tæki hann stjórn hlutanna í sínar hendur. Ákærði C hefði átt að fá 1.000.000 krónur í sinn hlut, sem yrði greitt ef dæmið gengi upp. Ákærði B hefði greitt ferðakostnað sinn og meðákærðu C og E.
Ákærði kvaðst ekki hafa haft önnur samskipti við meðákærðu meðan þau voru í Hollandi en þau, að daginn sem þau héldu heim, hefði hann haft samband við þau og verið upplýstur um árangur ferðarinnar. Hefði þá verið ákveðið á síðustu stundu að fíkniefnin yrðu send í pósti og pakkinn stílaður á blómabúð hans. Hann hefði ekki vitað nákvæmlega hvað var í pakkanumum fyrr en pakkinn var kominn heim Hann hefði ekki treyst sér til að ná í pakkann sjálfur en fengið ákærðu D til þess.
Ákærði kvað í byrjun aðeins hafa verið rætt um innflutning á kókaíni sem hann átti að fá skerf af. Hugmyndin um kaup á e-töflum hefði ekki verið frá honum komin. Þá hefði hann ekkert vitað um eða þekkt til fjármögnunaraðilanna.
Aðspurður kvað hann ákærða C ekki hafa lagt neina peninga í þetta dæmi en hann hefði átt að fá 1.000.000 krónur fyrir sinn hlut. Hann hefði farið fram á það. Hlutverk C hefði verið að fara út og kaupa fíkniefnin, þ.e. koma B í samband menn úti vegna kaupa á fíkniefnum.
Ákærði kvaðst hafa verið í neyslu á þessum tíma, bæði notað læknadóp og amfetamín. Hann væri nú búinn að taka á sínum málum og hefði hann farið í meðferð.
Ákærði B játaði afdráttarlaust sök við þingfestingu málsins. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði aðdraganda ferðarinnar til Hollands og fíkniefnakaupunum. Hann hefði kynnst ákærða A í gegnum ákærðu D. Í viðræðum þeirra hefði ákærði A vakið máls á þeim möguleika að kaupa ódýr fíkniefni í Hollandi, flytja þau á öruggan hátt til Íslands og hagnast verulega. Ákærði kvaðst hafa látið til leiðast og hefði hann tekið að sér að útvega fé til kaupanna og til að greiða ferðakostnað hans og meðákærðu C og E sem áttu að fara með honum til Hollands, en meðákærði A hefði fengið ákærða C til að hafa samband við fíkniefnasala í Hollandi og til að fara utan með ákærða og hafa milligöngu um kaupin. Í fyrstu hefði ætlunin verið að kaupa kókaín og hefði hann fengið lán fyrir þeim kaupum hjá ákærða Vilhjálmi að fjárhæð krónur 360.000. Ákærði Vilhjámur hefði hins vegar sett það skilyrði fyrir lánveitingunni að keyptar yrðu 1000 e-töflur fyrir hann í þessari ferð. Hann hefði látið ákærða hafa 400.000 krónur til viðbótar vegna þeirra kaupa. Hann hefði fengið þessa peninga í evrum og íslenskum krónum. Kvöldið fyrir ferðina hefðu ákærði, A og C hist heima hjá A og hefði ákærði þá skýrt A frá því að auk kókaínsins yrði að kaupa e-töflur fyrir þann aðila er lagði fram fé til fíkniefnakaupanna. Það hefði verið sett sem skilyrði fyrir fjármögnuninni. A hefði samþykkt það. Þarna hefði og verið rætt um að ákærði C fengi 1.000.000 krónur fyrir sinn þátt í fíkniefnakaupunum.
Ákærði kvað þau hafa gist heima hjá vinkonu ákærðu E eftir komuna til Rotterdam. Næstu daga hefði hann farið á kaffihús og hitt væntanlega fíkniefnasala fyrir milligöngu meðákærða C. Daginn sem þau héldu heim hefðu þeir C farið heim til fíkniefnasalans og þar hefðu viðskiptin farið fram og hann fengið kókaínið og e-töflurnar afhent og hann greitt andvirði þeirra, sem hann minnti að hafi numið um 650.000 krónum. Farið hefði verið með fíkniefnin heim til vinkonu E þar sem ákærði og meðákærði C pökkuðu þeim inn í kerti, sem voru holuð að innan. Þennan dag hefði meðákærði A ákveðið að pakkinn með fíkniefnunum yrði sendur í pósti og stílaður á blómabúðina.
Ákærði kvað biðina hér heima eftir pakkanum hafa verið langa og hefði hún tekið á taugarnar. Eftir að tilkynnig barst blómabúðinni um sendinguna hefði ákærði A sent ákærðu D til að sækja pakkann. Hann hefði sótt pakkann heim til hennar og farið með hann heim til ákærðu Vilhjálms og Friðriks Þórs þar sem pakkinn hefði verið opnaður. Þá hefði komið í ljós að tvö kerti vantaði og að skipt hafði verið um innihald í þeim kertum sem í pakkanum voru. Hann hefði þá áttað sig á því að um “böst” væri að ræða. Í kjölfar þessa hefðu ákærðu verið handtekin.
Ákærði kvað meðákærða A hafa átt að fá 30 g af kókaíni í sinn hlut en sjálfur hefði hann átt að fá um 100 grömm af kókaíni, sem hann hefði ætlað að selja að hluta. Hann kvaðst ekki hafa vitað um styrk þeirra efna er hann keypti ytra.
Ákærði C neitaði sök við þingfestingu málsins að öðru leyti en því að hann viðurkenndi að hafa sagt ákærða A af hverjum hann gæti keypt fíkniefni í Hollandi, eða gömlum kunningja hans frá því að hann bjó sjálfur í Hollandi. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá að ákærði A hefði farið að tala við hann um útvegun fíkniefna í fyrsta sinn er þeir hittust, er A sótti hann út á flugvöll. Hefði ákærði A þá beðið hann um að útvega sér símanúmer hjá einhverjum í Hollandi sem gæti útvegað fíkniefni.
Ákærði kvað ákærða A hafa haft samband við sig og beðið hann að fara til Hollands þar sem hann vantaði fíkniefni. Hann hefði þá ákveðið að fara þangað í skemmtiferð með konu sinni þar sem hann átti enga vini á Íslandi. A hefði lánað þeim fyrir farinu frá Húsavík til Amsterdam og til baka. Ákærði kvaðst ekki hafa farið fram á þóknun að fjárhæð 1.000.000 krónum fyrir ferðina. Honum hefði á hinn bóginn verið boðin sú fjárhæð. Sjálfur hefði hann ætlað að fá lán hjá vini sínum K í Hollandi. Ákærði kvaðst hafa hringt í K áður en þau héldu utan og beðið hann að útvega A 100 g af kókaíni og 1000 e-töflur. Er út var komið hefðu hann og ákærði B hitt K á kaffihúsi í Rotterdam og þar hefði B rætt við hann á ensku. Hann hefði verið viðstaddur. Þar hafi B verið með peninga vegna fíkniefnakaupanna en K með fíkniefnin. Þeir hefðu farið heim til K og þar hefðu kaupin farið fram að honum ásjáandi. K hefði sagt honum eftir á að B hefði greitt honum 8000 evrur fyrir efnin. Ákærði kvaðst hafa verið í fjárhagserfiðleikum og hefði K því lánað honum 2000 evrur í seðlum. Það hefði ekki verið hluti þess fjár er B greiddi K fyrir fíkniefnin.
Ákærði kvað fíkniefnin hafa verið sett inn í kerti sem pakkað hafi verið utan um og hefði hann verið viðstaddur á pósthúsinuu í Rotterdam þegar pakkinn var póstlagður.
Ákærði kvaðst vera fæddur í Marokkó og væri hann hagfræðingur að mennt. Hann hefðii búið á Íslandi í 2 ár og starfaði nú hjá Brimi á Akureyri. Hann og eiginkona hans, ákærða E, ættu eitt barn og annað á leiðinni.
Ákærði Friðrik Þór játaði brot sitt afdráttarlaust við þingfestingu málsins. Hann skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að hann hefði leigt íbúð með ákærða Vilhjálmi. Ákærði B hefði beðið ákærða Vilhjálm að útvega peninga vegna fíkniefnakaupa. Hefðu þeir Vilhjálmur ákveðið að verða við því gegn því að fyrir þá yrðu keyptar 1000 e-töflur. Hann hefði vitað að flytja átti inn fíkniefni en að öðru leyti hefði hann lítið vitað um málið og engin samskipti átt við ákærða B. Þeir ákærðu Vilhjálmur hefðu hvor um sig útvegað 400.000 krónur sem B hefði verið afhent. Ákærði kvaðst hafi ætlað að selja sinn hlut á 800.000 krónur.
Ákærði kvaðst hafa verið í neyslu á umræddum tíma. Hann hefði hins vegar farið í meðferð og væri ekki í neyslu í dag. Hann væri nú í sambúð og búinn að festa kaup á íbúð.
Ákærði Vilhjálmur Vilhjálmsson játaði afdráttarlaust sök við þingfestingu málsins.
Við aðalmeðferð málsins skýrði hann svo frá að ákærði B hefði komið að máli við hann og beðið hann að útvega peninga og hefði hann gert sér grein fyrir því að B ætlaði að flytja inn fíkniefni. Hann hefði þá ákveðið í samráði við ákærða Friðrik Þór að fá 800.000 krónur lánaðar og setja það skilyrði fyrir láninu til ákærða B að keyptar yrðu 1000 e-pillur fyrir þá Friðrik Þór. Þeir hefðu átt að fá 500 e-töflur hvor í sinn hlut sem þeir hugðust selja á 1000 krónur stykkið í heildsölu. Þeim hefði tekist að útvega 800.000 krónur sem ákærða B hefði verið afhent. Ákærði B hefði komið með pakka heim til þeirra Friðriks Þórs og eftir að pakkinn hafði verið opnaður hefði komið í ljós að ekki var allt með felldu. Hefði innihaldi pakkans þá verið fleygt.
Ákærði kvaðst hafa farið út í þetta vegna skulda. Hann hefði lent í vinnuslysi árið 2000 og verið óvinnufær síðan.
Ákærða D játaði brot sitt afdráttarlaust við þingfestingu málsins. Hún skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að ákærði A hefði beðið hana að sækja pakka á pósthúsið í Keflavík. Hún hefði vitað að í pakkanum voru fíkniefni, en hvorki hve mikið né hvaða efni. Hún hefði fengið pakkann afhentan gegn umboði frá ákærða A, farið með hann heim til sín og þangað hefði ákærði B sótt pakkann.
Ákærða kvaðst hafa verið í óreglu á umræddum tíma en hún hefði farið í meðferð og gangi vel í dag. Hún búi ein með 5 ára gömlu barni sínu.
Ákærða E neitaði sök við þingfestingu málsins. Hún skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að hún hefði haldið að peningarnir, sem ákærði C lét hana hafa, væri lán. Hún hefði sagt annað hjá lögreglu vegna þrýstings sem lögregla beitti hana. Hún kvað ákærða C hafa sagt henni að ákærði A hefði beðið hann að hringja út og útvega fíkniefni. Þau C hefðu þá ákveðið að fara út í frí og hefði A sagst ætla að lána þeim fyrir farinu. Hún hefði vitað eftir á um fíkniefnaviðskiptin. Hún kvaðst lítið vita um samskipti ákærða C og K úti í Rotterdam, en K væri gamall vinur C. Hún hefði orðið viðskila við C í ferðinni á mánudeginum, en þeir C og B hefðu sagt henni að kaupin á fíkniefnunum hefðu átt sé stað umræddan mánudag. Þá hefði C verið kominn með 2000 evrur sem hann fékk hjá vini sínum K.
Aðspurð kvaðst ákærða hafa vitað að kaupa átti kókaín og e-pillur í ferðinni. Það hefði A sagt, en hann hefði verið upphafsmaður alls þessa. Hann hefði sífellt verið að hringja í C enda hefði þetta aldrei gerst nema vegna þrýstings A. Hún kvað peningum þeim sem C fékk að láni hafa verið skipt er heim var komið og hefðu skuldir verið greiddar og mismunurinn lagður inn á sameiginlegan reikning þeirra C.
Ákærða kvaðst aldrei hafa komið nálægt fíkniefnum. Þá hefði aldrei verið rætt um að peningarnir sem C var með tengdust fíkniefnum. Hún kvaðst eiga eitt barn með C og annað á leiðinni.
IV.
Með skýlausri játningu ákærða A, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tl. ákæru að því er innflutning á 131,63 g af kókaíni varðar.
Eins og að framan er rakið var ætlun ákærðu A og B einvörðungu sú í fyrstu, að kaupa kókaín og flytja inn til söludreifingar. Við fjármögnun kaupanna, sem ákærði B annaðist, kom hins vegar fram það skilyrði af hálfu ákærðu Vilhjálms og Friðriks Þórs, sem útveguðu fé til kaupanna, að keyptar yrðu fyrir þá og fluttar inn 1000 e-töflur. Ákærði A skýrði frá því fyrir dóminum að það hefði fyrst komið í ljós kvöldið áður en meðákærðu héldu utan að auk kókaíns yrðu keyptar e-töflur. Þá hefði dæmið verið breytt og allt annað efni komið inn í þetta og í miklu meira magni. Talað hefði verið um extacy en ekki hefði verið alveg á hreinu hvað fengist fyrir þá fjármuni sem búið var að afla. Þá hefði hann ekki vitað nákvæmlega um peningahliðina en talið að 500.000 til 700.000 króna hefði verið aflað. Hugmyndin að kaupum á e-töflunum hefði ekki komið frá honum og hann hefði ekki þekkt þá aðila sem lögðu fé til kaupanna. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hve mikið var keypt af fíkniefnum fyrr en meðákærðu voru komin heim frá Hollandi. Ákærði greindi þó frá því fyrir dóminum að hann hefði verið upplýstur um árangur ferðarinnar er hann hafði samband við meðákærðu og ákvað að fíkniefnin yrðu send í pósti til blómabúðar hans Kastalans. Hann ítrekaði þó að hann hefði ekki vitað nákvæmlega um innihald pakkans fyrr en pakkinn hafði borist til Íslands.
Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu þann 7. febrúar 2004 var eftirfarandi haft eftir honum: ²Aðspurður kveðst mætti hafa tekið þátt í viðræðum við C, E og B þar sem þau voru stödd á Heiðarvegi 23, þáverandi heimili mætta, áður en þau fóru út og þá hafi verið rætt við C hvað hann ætti að fá í sinn hlut fyrir að koma á þessum samböndum í Hollandi. Mætti kveður C þá hafa farið fram á að fá í sinn hlut kr. 1.000.000.- fyrir hans þátt í þessu máli. Aðspurður kveður mætti á þessari stundu málavexti hafa tekið nýja stefnu því á þessari stundu hafi verið búið að ákv. að það átti að kaupa ætti (sic.) 100 grömm af kókaíni og eitthvað af amfetamíni og 500 e-töflur. Aðspurður kveður mætti C hafa vitað það að það ætti að kaupa e-töflur og kókaín og því hafi hann reiknað út söluverðið á Íslandi og þ.l. hafi C farið fram á kr. 1.000.000.- fyrir aðkomu sína að þessu máli” Þá var eftirfarandi einnig haft eftir ákærða: “Aðspurður kveðst mætti hafa frétt af því að þegar B, C og E kom (sic.) heim að búið var að kaupa 130 grömm af kókíni (sic.) og 1000 stk. e-töflur. Aðspurður kveðst mætti hafa vitað til þess að fíkniefnunum hafði verið komið fyrir í vaxkertum og öðrum gjafavörum og síðan sett í kassa”. Þá var einnig haft eftir ákærða:”Aðspurður kveðst mætti ekki hafa átt neinn hluti (sic.) í þeim E-töflum sem fluttar voru inn í umrætt sinn og að B hafi heldur ekki átt neitt í þeim. Mætti kveður þá tvo fjármögnunaraðila þessara viðskipta hafa átt að fá E-töflurnar og að það hafi verið þeirra hlutur fyrir þeirra framlag og með þeim hætti hafi B fengið fjármagnið hjá þeim”.
Ákærði B skýrði svo frá fyrir dóminum, að hann hefði sagt ákærða A frá því að hann gæti ekki fengið peninga lánaða nema “gaurarnir” fengju að vera með í pakkanum og fengju sínar e-töflur. A hefði svarað því til að það væri ekkert mál.
Ákærði C bar fyrir dóminum að ákærði A hefði beðið hann að hafa milligöngu um útvegun 100 g af kókaíni og 1000 e-töflur kvöldið áður en hann hélt til Hollands. Hann hefði því hringt í vin sinn K og beðið hann um að útvega þessi efni.
Ákærðu Friðrik Þór og Vilhjálmur hafa báðir borið fyrir dóminum að skilyrði þeirra fyrir fjámögnun fíkniefnanna hafi verið skýr. Fyrir þá hafi átt að kaupa 1000 e-töflur.
Í framburði ákærða A fyrir dóminum kom fram, að um leið og upplýst hafði verið á fundinum heima hjá honum, kvöldið fyrir umrædda ferð, að auk kókaíns yrðu keyptar e-töflur, hefði ákærði C þegar í stað reiknað út söluverðmæti efnanna á Íslandi og á grundvelli þeirra útreikninga áskilið sér 1.000.000 krónur fyrir sinn atbeina að kaupunum.
Með vísan til alls þess sem rakið er hér að framan telst að mati dómsins komin fram lögfull sönnun, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála, fyrir því að ákærði A hafi átt fulla aðild að innflutningi á þeim 1000 e-töflum sem reyndust vera í umræddri sendingu og breytir í því sambandi engu þótt hann hafi ekkert átt að fá í sinn hlut af þessum hluta fíkniefnanna. Telst því sannað að hann hafi einnig gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tl. ákæru að því er varðar varðar kaup og innflutning á 1000 töflum sem innihéldu ávana- og fíkniefnið tenamfetamínklóríð (MDA-klóríð). Er því ekki fallist á sýknukröfu hans af þeim hluta fíkniefnakaupanna.
Háttsemi ákærða er réttilega fært til 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974.
Með skýlausri játningu ákærða B, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tl. ákæru. Háttsemi ákærða er réttilega færð til 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974.
Ákærði C hefur viðurkennt fyrir dóminum að hafa tekið að sér að hafa símasamband við vin sinn K í Rotterdam og biðja hann um að útvega 100 g af kókaíni og 1000 e-töflur. Ákærði kvað ferð þeirra meðákærðu E til Hollands ekki hafa verið vegna fíkniefnaviðskipta en hann viðurkennir á hinn bóginn að hafa komið meðákærða B í samband við vin sinn K sem seldi B fíkniefni. Kvaðst hann hafa verið viðstaddur er þau kaup fóru fram. Hann kannaðist ekki við að hafa aðstoðað ákærða B við pökkun efnanna en hann hefði þó vitað hvernig efnunum var pakkað inn. Ákærði þvertók fyrir að hafa farið fram á 1.000.000 krónur fyrir sína milligöngu en kvað sér þó hafa verið boðin sú fjárhæð. Þá neitaði hann því að þær 2000 evrur sem hann fékk hjá K tengdust fíkniefnakaupunum og að um lán hafi verið að ræða.
Með vísan til framanritaðs, sem þykir samrýmast gögnum málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru um annað en að hafa fengið 2000 evrur frá ónafngreindum manni fyrir milligöngu sína. Að mati dómsins þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að færa nægar sönnur fyrir því ákæruatriði gegn neitun ákærða. Ber því að sýkna hann af þeirri háttsemi.
Með skýlausri játningu ákærðu og Friðriks Þórs og Vilhjálms, sem samrýmist gögnum málsins, þykir sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í tl. 4 í ákæru. Háttsemi ákærðu er réttilega færð til 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974.
Með skýlausri játningu ákærðu D, sem samrýmist gögnum málsins, þykir sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi, sem henni er gefin að sök í tl. 5 í ákæru. Ákærða kvaðst hafa vitað að ólögleg fíkniefni væru í pakka þeim er hún sótti fyrir meðákærða A en ekki í hve miklu magni eða hvaða fíkniefni þetta væru. Hún lét sér það í léttu rúmi liggja. Háttsemi ákærðu er réttilega færð til 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða E hefur neitað sök fyrir dómi. Ákærði C hefur verið sýknaður af því að hafa fengið umræddar 2000 evrur fyrir milligöngu sína í fíkniefnaviðskiptunum. Er þegar af þeirri ástæðu ekki grundvöllur fyrir sakfellingu ákærðu og ber því að sýkna hana af kröfu ákæruvalds.
IV.
Eins og að framan getur í vætti Svövu Þórðardóttur kveður hún efnið MDA vera náskylt efninu MDMA. Þetta séu áþekk efni sem valdi sambærilegum áhrifum. MDMA sé örvandi efni en MDA örvandi efni með hugsanlegum ofskynjunaráhrifum. Dómurinn telur að þessu áliti vitnisins hafi ekki verið hnekkt. Við ákvörðun refsinga verður tekið mið af því að keypt var og flutt til landsins í hagnaðarskyni umtalsvert magn hættulegra fíkniefna. Þá ber að taka tillit til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.
Ákærði A var dæmdur í skilorðsbundið 3ja mánaða fangelsi árið 1995 fyrir þjófnað, 10 mánaða fangelsi þar af 7 mánuði skilorðsbundna árið 1996 fyrir skjalafals, hilmingu og þjófnað og 1 mánaðar skilorðsbundið fangelsi sama ár fyrir fjársvik. Árið 2002 gekkst hann undir sátt hjá sýslumanninum á Akureyri vegna umferðarlagabrots. Var honum gert að greiða 70.000 króna sekt og hann sviptur ökurétti í 12 mánuði. Loks var ákærði með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. apríl 2003 dæmdur í 8 mánaða fangelsi skiliorðsbundið í 4 ár fyrir þjófnað. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð þess dóms. Verður refsing ákærða vegna umræddra brota ákveðin í einu lagi, sbr. 60 gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa til hliðsjónar að hann var einn upphafsmanna fíkniefnainnflutningsins og skipulagði hann, en á móti kemur að hann átti einungis að fá lítinn hluta fíkniefnanna í sinn hlut. Í ljósi þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 21 mánuð, sem engin efni eru til að binda skilorði. Refsingunni til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti við rannsókn máls þessa í 2 daga.
Ákærði B gekkst sjö sinnum undir lögreglustjórasáttir frá árinu 1995 til 2003 vegna umferðarlagabrota, fíkniefnabrota og einu sinni vegna nytjatöku bifreiðar. Var honum gert að greiða sektir og hann fjórum sinnum sviptur ökurétti. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. mars 2003 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut ákærði dóm 29. mars 2003 fyrir umferðarlagabrot og var hann dæmdur til að greiða 200.000 króna sekt og sviptur ökurétti í 3 ár. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð dómsins frá 10. mars 2003. Verður refsing ákærða vegna umræddra brota ákveðin í einu lagi, sbr. 60 gr. og 77. gr.og 78. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Ákærði játaði brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár, sem engin efni eru til að binda skilorði. Refsingunni til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti við rannsókn máls þessa í 2 daga.
Ákærði C hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánaði, sem engin efni eru til að binda skilorði. Refsingunni til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti við rannsókn máls þessa í 2 daga.
Ákærði Friðrik Þór hefur ekki áður sætt refsingu er hér skipti máli. Hann játaði brot sitt hreinskilnislega. Við mat á refsingu ákærða verður til þess að líta að auk þess að fjármagna fíkniefnakaupin hugðist hann koma megninu af fíknefnunum í sölu í hagnaðarskyni. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem engin efni eru til að skilorðsbinda. Refsingunni til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti við rannsókn máls þessa í 3 daga.
Ákærði Vilhjálmur gekkst fjórum sinnum undir lögreglustjórasáttir á árunum 1995 til 1999 vegna umferðarlagabrota og var honum gert að greiða sektir og hann tvívegis sviptur ökurétti. Árið 2000 var hann dæmdur til að greiða sekt vegna hegningarlagabrots. Þann 10. mars var hann í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218 gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð dómsins frá 10. mars 2003. Verður refsing ákærða vegna umræddra brota ákveðin í einu lagi, sbr. 60 gr. og 77. gr.og 78. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Ákærði játaði brot sitt hreinskilnislega. Við mat á refsingu ákærða verður til þess að líta að auk þess að fjármagna fíkniefnakaupin hugðist hann koma megninu af fíknefnunum í sölu í hagnaðarskyni. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár, sem engin efni eru til að binda skilorði. Refsingunni til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti við rannsókn máls þessa í 3 daga.
Ákærða D hefur ekki áður sætt refsingu. Brot ákærðu fólst í því að sækja pakka sem hún vissi að hafði fíkniefni að geyma. Hún vissi hvorki um magn né tegund þeirra fíkniefna sem voru í pakkanum, en aflaði sér ekki upplýsinga um það og lét sér það í léttu rúmi liggja. Að öðru leyti kom ákærða ekkert að málinu. Ákærða játaði brot sitt hreinskilnislega. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að ákveða að fresta skuli fullnustu refsingar ákærðu og að refsingin falli niður að liðnum 3 árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Að kröfu ákæruvaldsins og með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14 . gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, ber að gera upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem getið er um í um í dómkröfukafla ákæru, kröfulið b, undirliðum 1-4, sem lögregla lagði hald á 2. febrúar, 4. febrúar og 5. febrúar 2004.
Að kröfu ákæruvaldsins og með vísan til 4. mgr. 488. gr. lyfjalaga, sbr. lög nr. 55/1995 og 83/2004 og 2. mgr. 68 gr. lyfsölulaga, ber að gera upptæk til ríkissjóðs þau ólöglega flutt inn eða seld lyf sem getið er um í dómkröfukafla ákæru, kröfulið c, undirliðum 1-2, sem lögregla lagði hald á 5. febrúar 2004.
Með vísan til þess að ákærði C hefur verið sýknaður af þeirri háttsemi að hafa fgengið 2000 evrur frá ónafngreindum manni fyrir milligöngu sína og að ákærða E hefur verið sýknuð af ákæru fyrir peningaþvætti, ber að hafna kröfu ákæruvaldsins um upptöku á samtals 172.000 krónum.
Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað sem hér greinir: Ákærða A til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur, ákærða B til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 350.000 krónur að teknu tilliti til réttargæslustarfa verjandans við rannsókn málsins, ákærða C til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 200.000 krónur, ákærða Friðrik Þór til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 200.000 krónur, ákærða Vilhjálm til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 280.000 krónur að teknu tilliti til réttargæslustarfa verjandans við rannsókn málsins og ákærðu D til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur.
Í málinu hefur verið gerð grein fyrir kostnaði vegna rannsóknar á fíkniefnum þeim er málið varðar og nemur hann 130.838 krónum. Ekki hefur verið gerð grein fyrir öðrum sakarkostnaði sem ákærðu beri að greiða. Ber samkvæmt 168. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 81/2005, sem öðluðust gildi 9. þ.m. að dæma ofangreind ákærðu til að greiða þá fjárhæð óskipt.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu E, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Finnbogi H. Alexandersson, Gunnar Aðalsteinsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Er dómurinn fjölskipaður með vísan til heimildar í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Dómsuppsaga dróst vegna embættisanna dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði A sæti fangelsi í 21 mánuð, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 2 daga.
Ákærði B sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 2 daga.
Ákærði C sæti fangelsi í 12 mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 2 daga.
Ákærði Friðrik Þór Bjarnason sæti fangelsi í 18 mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 3 daga.
Ákærði Vilhjálmur Vilhjálmsson sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans í 3 daga.
Ákærða D sæti fangelsi í 6 mánuði, en fullnustu refsingar hennar skal frestað og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða E er sýkn af kröfum ákæruvalds.
Upptæk eru gerð þau fíkniefni sem í ákæru greinir og lögregla lagði hald á 2. febrúar, 4. febrúar og 5. febrúar 2004.
Upptæk eru gerð þau ólöglega flutt inn eða seld lyf sem í ákæru greinir og lögregla lagði hald á 5. febrúar 2004.
Ákærðu C og E eru sýknuð af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á samtals 172.000 krónum.
Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur. Ákærði B greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur. Ákærði C greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Ákærði Friðrik Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Ákærði Vilhjálmur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 280.000 krónur. Ákærða D greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur. Annan sakarkostnað að fjárhæð 130.838 krónur greiði ofangreind ákærðu óskipt.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu E, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.