Hæstiréttur íslands

Mál nr. 596/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Verjandi


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2006.

Nr. 596/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(enginn)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Verjandi.

Úrskurður héraðsdóms um að ekki væru efni til að skipa X verjanda á grundvelli 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þrátt fyrir ósk hans um það, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrði skipaður verjandi við rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að skipa honum verjanda á rannsóknarstigi málsins.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Í tilvikum þar sem dómara er ekki skylt samkvæmt 34. gr. laga nr. 19/1991 að skipa sakborningi verjanda á rannsóknarstigi, ber honum engu að síður að meta með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna, samkvæmt 35. gr. sömu laga, hvort verða skuli við ósk sakbornings um skipun verjanda á þessu stigi. Héraðsdómari hefur metið það svo að ekki séu efni til að skipa varnaraðila verjanda þrátt fyrir ósk hans um það. Í ljósi eðlis þess brots, sem varnaraðili er grunaður um, og aðstæðna að öðru leyti þykir ekki tilefni til að hnekkja því mati. Ákvæði c. liðar 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu breyta ekki þessari niðurstöðu.

Það athugast að varnaraðili nýtur heimildar til að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta réttar síns við rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 19/1991, auk þess sem hann á rétt á að fá skipaðan verjanda ef til málshöfðunar kemur, sbr. b. lið 1. mgr. 34. gr. sömu laga. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2006.

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 30. október 2006, var þess beiðst að Hilmar Ingimundarson hrl. yrði skipaður verjandi X, [kt.], á grundvelli 35. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna rannsóknar máls nr. 012-2005-3010. Með bréfi dómsins 2. þessa mánaðar var ofangreindri beiðni hafnað. Þar segir að samkvæmt 35. gr. laga nr. 19/1991 sé það háð mati dómara hverju sinni, með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna, hvort hann verður við beiðni sakbornings um skipun verjanda. Verði ráðið af fyrirliggjandi gögnum að um sé að ræða brot sem teljast verði minni háttar og með vísan til þess sé það mat dómsins að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði til skipunar verjanda í málinu. Var beiðninni því hafnað.

Hilmar Ingimundarson hrl. hefur krafist þess með bréfi, dagsettu 6. nóvember 2006, að hann verði skipaður verjandi X í umræddu máli. Um lagagrundvöll fyrir kröfunni vísar lögmaðurinn til c. liðar 3. tölul. mannréttindasáttmála Evrópu og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 395/1997 þar sem ótvírætt komi fram að sakborningur eigi rétt á verjanda á öllum stigum máls. Um sé að ræða mannréttindi sakbornings sem ekki verði af honum tekin. Í niðurlagi bréfsins segir að verði ekki orðið við kröfunni sé þess krafist að úrskurðað verði um það af hálfu dómsins.

Sakborningur er í máli þessu kærður fyrir að hafa ekið bifreiðinni [...] á 112 km hraða á klukkustnd þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km á klukkustund og að hafa ekið bifreiðinni með þokuljósum. Sakborningur var yfirheyrður af lögreglu 10. október síðastliðinn að viðstöddum Hilmari Ingimundarsyni hrl. og neitaði hann sök. Í skýrslu um yfirheyrsluna er bókað að sakborningur óski eftir að lögmaðurinn verði skipaður verjandi hans í málinu.

Í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var hérlendis með lögum nr. 62/1994, er að finna ákvæði um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Samkvæmt 3. mgr. c. liðar ákvæðisins á hver sá sem borin er sökum um refsiverða háttsemi rétt á að fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigi vali. Ákvæði þetta á því einungis við um meðferð sakamáls fyrir dómi en ekki rannsókn hjá lögreglu.

Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu segir það eitt að kynna skuli sakborningi að hann eigi rétt á að hafa réttargæslumann eða verjanda sér til stuðnings eða aðstoðar við yfirheyrslu og á öllum stigum málsins og skuli spyrja sakborning hvern hann vilji fá tilnefndan sem réttargæslumanna eða skipaðan sem verjanda eftir því sem við á. Reglugerðin var sett með heimild í 3. mgr. 19. gr., 1. mgr. 32. gr., 6. mgr. 69. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 236/1996.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 19/1991 er dómara skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda ef þess hefur verið krafist að hann verði settur í gæsluvarðhald og ef opinbert mál hefur verið höfðað á hendur honum. Þá er skylt samkvæmt 2. mgr. að skipa ákærða verjanda ef fram fer aðalmeðferð í máli og í 3. mgr., sbr. 1. gr. laga nr. 94/2000, er lögð sú skylda á herðar dómara að skipa manni verjanda ef þess er krafist að hann sæti nálgunarbanni. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr., eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 36/1999, er dómara heimilt endranær að skipa sakborningi verjanda við rannsókn máls áður en til málshöfðunar kemur ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að lagt sé til að við 1. mgr. 35. gr. laga um meðferð opinberra mála bætist orðin „ef ástæða er til þess að mati dómara með tilliti til eðlis brots og allra aðstæðna“. Sé þetta gert að gefnu tilefni til að taka af öll tvímæli um það að dómara sé heimilt, en ekki skylt, að fallast á ósk sakbornings um að honum skuli skipaður verjandi á rannsóknarstigi, nema í því tilviki að þess hafi verið krafist að hann verði settur í gæsluvarðhald, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 34. gr. laganna. Beri dómara því aðeins að verða við slíkri ósk að hann telji sakborningi nauðsynlegt að njóta aðstoðar verjanda svo að hann fái gætt hagsmuna sinna vegna eðlis brots þess sem um er að ræða og allra annarra aðstæðna.

Það er mat dómsins að um sé að ræða ræða kæru um brot sem teljast verði minni háttar. Sakborningur hefur þegar verið yfirheyrður að viðstöddum verjanda og verður að líta svo á að honum hafi í verki þegar verið tilefndur verjandi af hálfu lögreglu til að gæta hagsmuna sinna við lögreglurannsókn málsins. Eðli brotsins og aðstæðum að öðru leyti er því þannig háttað að ekki þykja efni til skipunar verjanda í því. Kröfu sakbornings um skipun verjanda er því hafnað. Rétt er að taka fram að sakborningur á rétt á að honum verði skipaður verjandi komi til höfðunar máls á hendur honum, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Kröfu X um að honum verði skipaður verjandi á rannsóknarstigi máls þessa er hafnað.