Hæstiréttur íslands
Mál nr. 569/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 2. nóvember 2011. |
|
Nr. 569/2011. |
A (Þórður Bogason hrl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista B, son A, utan heimilis hennar í 12 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila, B, verði vistaður utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 14. júní 2011. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að áðurnefndur sonur hennar verði afhentur sér „á heimili þeirra að [...] í Reykjavík.“ Þá krefst hún „endurskoðunar á ákvörðun málflutningsþóknunar“ lögmanns síns í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 22. september sl. að lokinni aðalmeðferð barst Héraðsdómi Reykjavíkur 12. ágúst sl. með kröfu sóknaraðila, dagsettri 12. ágúst 2011.
Sóknaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur en varnaraðili A, [...], Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði, að drengurinn, B, kt. [...], sem lýtur forsjár móður sinnar, A, verði vistaður utan heimilis móður, í tólf mánuði alls, frá 14. júní 2011 til 14. júní 2012, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II
Málavextir eru þeir, að með úrskurði sóknaraðila 14. júní sl., var ákveðið að B yrði vistaður utan heimili í allt að tvo mánuði frá og með úrskurðardegi að telja samkvæmt heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Drengurinn er nú vistaður á heimili föðurömmu sem sótt hefur um og fengið leyfi Barnaverndarstofu til að vista drenginn. Hinn 29. júní 2011 skrifaði varnaraðili og sambýlismaður hennar undir áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001. Hinn 15. júlí 2011 skrifaði varnaraðili svo undir samning um umgengni.
Mál þetta varðar dreng á tólfta aldursári, B, sem búið hefur hjá móður sinni frá fæðingu. Varnaraðili á tvö börn, B, 12 ára og C, 13 ára. Síðustu misseri hefur B þó mikið verið í umsjá móður- og föðurömmu, en barnaverndaryfirvöld hafa haft miklar áhyggjur af aðbúnaði hans á heimili varnaraðila og versnandi líðan hans í umsjá hennar og slæmri stöðu í skóla.
Sóknaraðili vísar til forsögu málsins og kveður að ekki hafi náðst samvinna við varnaraðila um að bæta aðstæður drengsins en hún hafi ekki talið sig þurfa á aðstoð að halda og því jafnan hafnað samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Af þeim sökum hafi reynst örðugt að bæta aðstæður drengsins og líðan hans. Á heimili varnaraðila búi einnig systir drengsins, C fædd 1998, og sambýlismaður varnaraðila, D. Faðir barnanna, E, lést árið 2002, en varnaraðili og hann hafi nokkru áður slitið samvistum. Varnaraðili hafi verið í sambúð með D frá árinu 2000 og hafi hann tekið þátt í uppeldi C og B frá þeim tíma. D fari ekki með forsjá barnanna, þar sem hann og varnaraðili séu ekki í skráðri sambúð, sbr. 3. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fjölskyldan hafi oft flust búferlum í gegnum tíðina og hafi drengurinn t.a.m. verið í átta grunnskólum frá því að hann hóf skólagöngu sína í [...] árið 2005. Starfsfólk skóla og barnaverndar-yfirvalda hafi í gegnum tíðina lýst yfir áhyggjum af aðbúnaði, umhirðu og vaxandi vanlíðan drengsins. Mál drengsins hafi verið til umfjöllunar hjá Barnavernd Reykjavíkur alls þrisvar sinnum frá árinu 2002. Málefni drengsins, B, hafi í fyrsta sinn borist til Barnaverndar Reykjavíkur í febrúar 2002, þegar tilkynning hafi borist um bágar aðstæður hans og systur hans í umsjá varnaraðila, en fjölskyldan hafi flutt heim frá [...] til Íslands í aprílmánuði árið 2001. Fleiri tilkynningar hafi borist í kjölfarið frá leikskóla drengsins og fyrrum sambýliskonu föður drengsins. Fjölskyldan hafi á ný flutt til [...] um miðbik árs 2003. Árið 2005 hafi Barnavernd Reykjavíkur borist tilkynning frá sveitarfélaginu [...] í [...], dagsett 16. nóvember, þar sem fram hafi komið að fjölskyldan væri flutt aftur til Íslands. Hafi þar verið lýst yfir verulegum áhyggjum af líðan og aðbúnaði drengsins og upplýst að hann hefði lítið sótt skóla í [...]. Hefðu tilraunir þarlendra barnaverndaryfirvalda, til að ná fram breytingum á aðstæðum hans, ekki borið árangur. Við könnun starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur á málinu hafi komið í ljós að fjölskyldan hafi flutt í [...], en þar hafi fjölskyldan búið í eitt ár og hafi umrædd tilkynning verið framsend þangað. Tvær tilkynningar hafi borist í málinu í febrúarmánuði árið 2008 og í framhaldinu hafi verið ákveðið að hefja könnun máls samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðili hafi ekki sinnt ítrekuðum boðunum starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur vegna könnunarinnar og hafi á engan hátt verið til samvinnu um hana. Starfsmenn [...]skóla hafi lýst yfir miklum áhyggjum af aðstæðum barnanna og þá sérstaklega B, hann væri lítill og léttur, alltaf þreyttur og tannhirðu og þrifnaði væri mjög ábótavant hjá honum og svo virtist sem hann sæi um sig sjálfur að því er varðaði mat og skólagöngu. Tilkynning hafi borist frá [...]skóla 17. apríl 2008, þar sem fram hafi komið að drengurinn hefði verið með fjólublátt hár en nú væri hann hárlaus, systir hans hefði mætt í skólann útötuð í tómatsósu og sagst hafa fengið hamborgara í morgunmat. Jafnframt hafi hún verið með brunablett á hendinni. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi farið í skólann sama dag og hitt drenginn, þar sem hann hafi legið fram á borð sitt, orkulaus og þreyttur. Fram hafi komið að drengurinn ætti að vera á lyfjum vegna athyglisbrests en varnaraðili ekki sinnt því að koma með lyf í skólann og því væri hann ávallt lyfjalaus. Samkvæmt framlagðri skýrslu hafi B sagst að mestu sjá um sig sjálfur með aðstoð systur sinnar, en varnaraðili sinnti honum sjaldnast þar sem hún væri svo lasin. Í framhaldinu hafi verið farið á heimili varnaraðila en varnaraðili hafnað allri frekari samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Frá og með 17. apríl 2008 hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur ítrekað reynt að ná samvinnu við varnaraðila til að bæta aðstæður barnanna, án árangurs, og hafi það verið mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að börnin byggju við óviðunandi aðstæður og því hafi, hinn 23. apríl 2008, neyðarráðstöfun verið beitt, samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og börnin tekin úr umsjón varnaraðila og vistuð á Vistheimili barna. Varnaraðila og sambýlismanni hennar hafi verið kynnt sú ákvörðun samdægurs á heimili þeirra, og kveður sóknaraðili að á heimilinu hafi verið mikill óþrifnaður og óreiða, auk þess sem á heimilinu hafi verið fjöldi dýra, m.a. tík með hvolpa, nokkrir kettir og mýs í búri. Varnaraðili hafi mætt í viðtal hjá Barnavernd Reykjavíkur 28. apríl 2008, þar sem hún hafi lýst því yfir að hún væri fullfær um að annast drenginn og honum væri best komið hjá henni. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 5. maí 2008, þar sem legið hafi fyrir tillögur um stuðningsaðgerðir og eftirlit á heimilinu. Varnaraðili hafi talið lítið athugavert við aðbúnað barnanna á heimilinu, en þó verið tilbúin að samþykkja tillögur um eftirlit og stuðning ef börnin kæmu heim. Fram hafi komið á fundinum að fjölskyldan myndi missa leiguhúsnæði hinn 15. maí 2008 og óvissa væri hvert þau myndu flytja. Hafi því verið ákveðið að fresta umfjöllun um málið fram að fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 13. maí 2008 og úrskurðað að börnin skyldu dvelja á Vistheimili barna fram að þeim tíma. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 13. maí 2008, þar sem ákveðið hafi verið að gera áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í samvinnu við varnaraðila og sambýlismann hennar, þar sem m.a. yrði kveðið á um að þau tækju á móti starfsmanni Greiningar og ráðgjafar og gengust undir forsjárhæfnismat og yrðu til fullrar samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Hafi börnin farið aftur á heimilið í framhaldinu. Varnaraðili hafi komið til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur hinn 4. júní 2008 og hafi þar komið fram að börnin myndu dvelja hjá móður- og föðurömmu um sumarið þar sem verið væri að vinna í húsnæðismálum fjölskyldunnar. Upplýsingar um að drengurinn væri eftirbátur jafnaldra sinna í líkamlegum þroska hafi borist frá læknum á árinu 2008. Einnig hafi komið fram í sálfræðimati, sem gert hafi verið sama ár, að hann gæti átt við skólatengda erfiðleika að etja og væri með frávik í málþroska. Væru auk þess vísbendingar um tilfinningalega erfiðleika og hafi verið mælt með áframhaldandi greiningu og ráðgjöf fyrir drenginn. Óboðað eftirlit hafi verið með heimilinu um sumarið en drengurinn hafi að mestu dvalist hjá ættingjum það sumar. Mál drengsins hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur í september 2008 og lagt hafi verið til að meðferðaráætlun yrði endurnýjuð þangað til að forsjárhæfnismati væri lokið. Hafi varnaraðili og sambýlismaður hennar skrifað undir meðferðaráætlun í kjölfarið hinn 30. september 2008. Drengurinn hafi svo hafið nám í [...]skóla um haustið. Í kjölfar lokaskýrslu starfsmanna Greiningar og ráðgjafar frá 2. desember 2008, og forsjár-hæfnismats, sem borist hafi 16. sama mánaðar, þar sem fram hafi m.a. komið að varnaraðili og sambýlismaður hennar þyrftu hvatningu og leiðbeiningar til að vinna úr erfiðri reynslu, auka úthald og laga samskipti við barnaverndaryfirvöld, hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hinn 19. febrúar 2009, að lagt yrði til að varnaraðila yrði tilkynnt að málið væri í þeim farvegi að ekki þyrfti að leggja það fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Hafi varnaraðili og sambýlismaður hennar skrifað undir meðferðaráætlun 13. mars 2009.
Hinn 22. apríl 2009 hafi borist tilkynning undir nafnleynd, þar sem fram hafi komið áhyggjur af umönnun drengsins í umsjá varnaraðila og grunur um neyslu inni á heimilinu. Hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur rætt við varnaraðila og sambýlismann hennar í kjölfarið en þau hafi sagt þetta ekki eiga við rök að styðjast. Hinn 5. maí sama ár hafi varnaraðili tilkynnt að drengurinn hefði orðið fyrir ofbeldi í [...]skóla, bæði af hálfu kennara og skólastjóra. Á fundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur með Menntasviði Reykjavíkur í tilefni tilkynningarinnar hafi verið ákveðið að drengurinn færi í könnunarviðtal í Barnahúsi. Ítrekað hafi verið reynt að ná í varnaraðila allt sumarið 2009 og ekki náðst í hann fyrr en 26. ágúst s.á. Hafi drengurinn því ekki farið í viðtal í Barnahúsi fyrr en í september það ár og hafi skýrsla þaðan borist 18. september 2009. Komi þar fram að frásögn hans hefði verið óljós og óskýr, það ofbeldi sem hann hafi sagt frá væri ótrúverðugt og breytingum háð og talsvert ósamræmi væri í frásögn hans. Haustið 2009 hafi fjölskyldan flutt í [...] og hafi drengurinn farið í [...]skóla. Samkvæmt bókun meðferðarfundar starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 29. október 2009, hafi verið ákveðið að upplýsingar varðandi meint ofbeldi í [...]skóla yrðu sendar Menntasviði en að því búnu yrði málinu lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hinn 30. nóvember 2009 hafi afskiptum Barnaverndar Reykjavíkur af varnaraðila á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002, verið formlega hætt. Hinn 12. júlí 2010 hafi borist tilkynning undir nafnleynd þar sem fram hafi komið grunur um að varnaraðili og sambýlismaður hennar misnotuðu vímuefni og að drengnum og systur hans væri ekki sinnt sem skyldi. Væru þau bæði illa hirt og skítug og hafi tilkynnandi sagt vita til þess að sambýlismaður varnaraðila beitti drenginn harðræði. Í kjölfarið hafi ítrekað verið reynt að ná í varnaraðila allt fram í miðjan nóvember 2010, án árangurs. Hafi málinu þá verið lokað hjá Barnavernd Reykjavíkur án frekari afskipta. Í marsmánuði 2010 hafi komið fram í greinargerð frá A-teymi BUGL á LSH að vitsmunaþroski drengsins væri í neðri mörkum meðallags, hann væri með slakan vinnuhraða og vinnsluminni. Almennur skilningur væri undir meðallagi, einnig væri félagsleg hæfni og innsæi hans slakt. Helstu ástæður þess hafi verið taldar tíðir búferlaflutningar og skólaskipti sem gert hefðu drengnum erfitt að aðlagast og eignast vini. Hinn 23. nóvember 2010 hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft samband við bakvakt Barnaverndar Reykjavíkur eftir að drengurinn hafi fundist illa til reika í verslun. Hafi hann verið grátandi í horni verslunarinnar án skófatnaðar eða yfirhafnar. Hafi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur rætt við drenginn á staðnum og hafi drengurinn sagst óttast stjúpföður sinn sem rassskellti hann. Drengurinn hafi verið með líkamlegar kvartanir og hafi verið farið var með hann á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss, þar sem áverkar hans hafi verið kannaðir. Við komuna þangað hafi hann verið mjög svangur og sagst hafa borðað lítið fyrr um daginn. Hafi hann greint frá því að stjúpfaðir hans rassskellti hann alltaf fastar og fastar. Í kjölfarið hafi starfmenn Barnaverndar Reykjavíkur farið á heimili varnaraðila og hafi þar verið mikil óreiða og þung reykingalykt. Hafi sambýlismaður varnaraðila viðurkennt að hafa rassskellt drenginn og hafi varnaraðili sagst hafa sett hann fram á gang vegna óhlýðni. Hafi varnaraðili farið með starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur á Landspítala-háskólasjúkrahús og hafi drengurinn farið heim síðar um kvöldið. Frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi hafi borist tilkynning um þennan atburð 23. nóvember 2010.
Sóknaraðili kveður B hafa hafið nám í [...]skóla í nóvember 2010 vegna mikilla og langvarandi hegðunarvanda í heimaskóla og hinn 2. desember 2010 hafi borist tilkynning frá [...]skóla um að námsleg staða drengsins væri mjög veik og háði úthalds- og getuleysi honum mikið í námi og stutt væri í mótþróa. Hefði hann auk þess beitt starfsmenn skólans ofbeldi og sakað þá um að leggja á sig hendur. Hafi drengurinn einnig neitað að fara heim eftir skóla og lýst því yfir að honum liði oft illa heima hjá sér og væri hræddur við stjúpföður sinn. Áhyggjur hafi verið af næringu drengsins þar sem hann neitaði oftast að borða morgun- og hádegismat í skólanum og erfitt væri að ná samband við heimilið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ljóst hafi þótt að drengurinn ætti við fjölþættan vanda að stríða, hvað varðar hegðun og líðan, og miklar áhyggjur væru af stöðu drengsins. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi farið á fund í [...]skóla ásamt starfsmönnum BUGL og varnaraðila í desember 2010 og hafi varnaraðili þar skrifað undir könnun máls. Hafi komið fram hjá fagaðilum á BUGL að drengurinn væri greindur með ADD og skoraði hátt á kvíða- og þunglyndiskvarða þó að hann næði ekki greiningarskilmerkjum. Hafi varnaraðila og sambýlismanni hennar verið boðin aðstoð vettvangsteymis frá BUGL sem þau hafi afþakkað.
Málefni drengsins hafi farið í könnun hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur í kjölfarið og óskað hafi verið eftir upplýsingum. Frá Þjónustumiðstöð [...] hafi hinn 7. janúar 2011 borist upplýsingar þess efnis að varnaraðili sækti fjárhagslega þjónustu og hefði fengið samþykktar undanþágur vegna sálfræðiaðstoðar og sótt sex viðtöl hjá sálfræðingi, fengið húsbúnaðarstyrk og ætti samþykktan tannlæknastyrk sem ekki hefði verið nýttur. Frá lækni hafi borist þær upplýsingar hinn 28. desember 2010 að eftirfylgnitímum, sem vera hafi átt á árinu 2006 og síðar vegna lítils vaxtar drengsins, hafi ekki verið sinnt af varnaraðila. Fram hafi komið að drengurinn hefði farið í mat hjá öðrum lækni í júní 2008, að beiðni starfsmanna sóknaraðila, og áætlað hafi verið eftirlit sumarið 2010, en ekki orðið af því vegna afstöðu varnaraðila.
Hinn 19. janúar 2011 hafi borist upplýsingar frá BUGL, en fyrsta koma drengsins þangað hafi verið í mars 2010. Hafi drengurinn greint frá því að hann ætti ekki skilið að lifa, ætti skilið að deyja og hefði talað um það í skóla og heima fyrir. Ætti hann það til að meiða sig þegar hann reiddist og að einnig væri mikið um líkamlegar kvartanir. Hafi verið haldnir 6 skólafundir vegna erfiðleika hans í skóla. Á þrjá þessara funda hafi varnaraðili ekki mætt eða afboðaði sig á síðustu stundu. Varnaraðili hafi samþykkt lyfjameðferð fyrir drenginn, en hún hafi staðið stutt yfir þar sem varnaraðili hafi stöðvað hana vegna óæskilegra aukaverkana. Hafi varnaraðila tvívegis verið boðin þjónusta vettvangsteymis BUGL en hún verið afþökkuð í bæði skiptin. Hafi komið fram að erfiðlega hefði gengið að ná sambandi við varnaraðila en hún mætti ekki í boðuð viðtöl og erfitt væri að ná í hana. Frá [...]skóla hafi borist þær upplýsingar 10. janúar 2011 að drengurinn væri ekki glaður, virkaði hræddur, dapur og virtist oft líða illa. Hafi hann talað um að stjúpfaðir sinn öskraði mikið á sig og beitti sig ofbeldi. Komið hafi fyrir að hann vildi ekki fara heim eftir skóla því honum liði illa heima hjá sér. Drengurinn talaði um mjög ljóta hluti og byggi til sögur þar sem hann lýsti skelfilegum atburðum. Væri drengurinn einnig oft í óhreinum fötum og illa lyktandi og væri ekki búinn að borða þegar hann kæmi í skólann og fengist illa til að borða í skólanum. Hann mætti þó ágætlega í skólann og kæmi með nauðsynleg gögn en hefði ekki komið með íþróttaföt þegar það hafi þurft. Hafi drengurinn talað um að hann spilaði tölvuleiki þar sem væri mikið ofbeldi og blóð. Námsleg staða hans væri slök og væri hann talsvert á eftir jafnöldrum sínum í námi. Erfitt hefði reynst að ná í varnaraðila og kostað margar tilraunir í hvert skipti þó samskipti við hana hefðu verið ágæt þegar það að lokum hefði tekist.
Í upplýsingum frá [...]skóla, dagsettum 11. janúar 2011, hafi komið fram að drengurinn hefði sýnt skýr merki um vanlíðan. Væri hann vel hirtur og alltaf með nesti en langt á eftir jafnöldrum sínum námslega. Kæmi hann oft seint í skólann og inn úr frímínútum. Samskipti við aðra nemendur væru að nokkru leyti eðlileg en um leið og kröfur væru gerðar til hans yrði öll hegðun óviðeigandi miðað við aðstæður. Kennarar voru sagðir í mjög góðu sambandi við varnaraðila og föðurömmu. Hefði varnaraðili ítrekað komið á fundi í skólann og sótt hann þegar farið hafi verið fram á það. Hefði drengurinn fengið mikinn stuðning í skólanum sem ekki hafði nýst honum.
Frá [...]skóla hafi borist tilkynning, dagsett 3. febrúar 2011, um að 31. janúar 2011 hefði drengurinn neitað að fara heim í lok skóladags. Hefði þurft að standa yfir honum til að hann færi í skó og yfirhöfn. Drengurinn hefði falið sig í runnum á skólalóð í stað þess að fara í skólabílinn sem hafi farið án hans. Hringt hafi verið í varnaraðila kl. 13:30 og hún beðin um að sækja drenginn. Hann hafi þó ekki verið sóttur fyrr en tæpum tveimur klukkustundum síðar þrátt fyrir ítrekanir starfsmanna skólans. Þennan dag hafi drengurinn enn fremur mætt vopnaður hnífi í skólann. Hinn 21. janúar sama ár hafi varnaraðili verið 45 mínútur að sækja drenginn og hafi starfsmenn skólans þurft að halda honum á meðan vegna ofbeldis gagnvart starfsmönnum skólans. Hafi skólinn líst yfir miklum áhyggjum af stöðu og líðan drengsins og talið að aðstoð þyrfti á heimilið ætti drengnum að farnast vel.
Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi rætt við drenginn í skóla hans hinn 10. febrúar 2011 og hafi hann greint frá því að stjúpfaðir sinn væri stundum reiður og beitti sig ofbeldi. Óspurður hafi drengurinn sagt að sér liði vel heima og allir væru góðir við sig og hafi hann greint frá áhyggjum sínum af því að vera tekinn frá varnaraðila þar sem það hefði gerst einu sinni þegar hann var yngri. Hafi komið fram að hann færi stundum inn í skáp þegar hann væri hræddur og gréti þar en hann hafi sagt varnaraðila passa sig og hjálpa ef hann væri hræddur.
Mál drengsins hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hinn 1. mars 2011, þar sem lýst hafi verið áhyggjum af drengnum og því að hann hefði greint frá ofbeldi af hendi sambýlismanns varnaraðila. Lagt hafi verið til að úrræðið „Greiningar og ráðgjafar heim“ færi inn á heimilið og sálfræðilegur stuðningur yrði fenginn fyrir drenginn auk þess sem fylgst yrði með honum í gegnum skóla og hjá BUGL. Lagt hafi verið upp með það í meðferðaráætlun að varnaraðili og sambýlismaður hennar myndu einnig fá stuðning og starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur yrði í sambandi við þá ættingja drengsins sem hefðu verið honum stuðningur í gegnum tíðina.
Varnaraðili hafi verið boðuð til viðtals hinn 17. mars 2011 til þess að greina henni frá framgöngu málsins. Hún hafi ekki mætt en afboðaði sig. Hinn 31. mars hafi verið haldinn fundur í [...]skóla með starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur og varnaraðila og hafi þar komið fram að betur gengi hjá drengnum en töluverðar áhyggjur væru enn af honum. Væri hann ekki lengur hræddur við að fara heim og væri hættur að ræða um ofbeldi af hálfu stjúpföður. Eftir fundinn hafi verið rætt við varnaraðila um meðferðaráætlun, sem hún hafi sagt vilja bera undir sambýlismann sinn. Hafi varnaraðili sagt vita til þess að sambýlismaður sinn vildi ekki fá stuðning inn á heimilið og hún óttaðist að hleypa stuðningi inn á heimili sitt vegna fyrri sögu. Ákveðinn hafi verið nýr viðtalstími fyrir varnaraðila hinn 5. apríl. Varnaraðili hafi ekki mætt en haft samband sama dag og sagst ekki treysta sér þar sem hún væri á sýklalyfjum. Hafi henni verið gefinn nýr viðtalstími hinn 12. apríl 2011. Í það viðtal hafi varnaraðili ekki heldur mætt en hafi síðar greint frá því að hún og sambýlismaður hennar væru ekki tilbúin að þiggja stuðning inn á heimilið heldur gætu starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fylgst með drengnum í gegnum [...]skóla og BUGL.
Málið hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hinn 28. apríl 2011 og lagt til að óskað yrði eftir samvinnu við varnaraðila og sambýlismann hennar um gerð meðferðaráætlunar. Einnig að sambýlismaður varnaraðila myndi nýta sér úrræðið „Karlar til ábyrgðar“ og að drengurinn fengi sálfræðiaðstoð. Skoðað yrði hvort hægt væri að koma á stuðningi við drenginn af hálfu fjölskyldu varnaraðila. Einnig yrði athugað með stuðning fyrir varnaraðila auk þess sem „Greining og ráðgjöf heim“ kæmi að málinu. Næðist ekki samvinna um þetta hafi verið ákveðið að málið yrði lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Varnaraðili hafi komið til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur hinn 17. maí síðastliðinn og verið þar kynnt bókunin frá 28. apríl s.á. Varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um annað en að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur gætu fylgst með drengnum í gegnum skóla og fagaðila og hafi varnaraðili ekki skrifað undir áætlun um meðferð máls í samræmi við 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hafi henni þá verið greint frá því að málið yrði lagt fyrir fund sóknaraðila hið fyrsta og gerð sú tillaga að drengurinn yrði vistaður utan heimilis varnaraðila í eitt ár og hún ætti rétt á lögmannsaðstoð.
Hinn 25. maí síðastliðinn hafi borist tilkynning frá [...]skóla þar sem ítrekaðar hafi verið áhyggjur starfsmanna skólans af drengnum. Hafi hann um nokkurt skeið staðið sig vel í skólanum en væri áfram skítugur og illa til hafður. Hefði hann sjálfur kvartað undan þessu og óskað eftir því að fá föt lánuð þar sem hann væri illa lyktandi. Drengurinn hafi einnig misst dag úr skóla án skýringa og hefði starfsmaður skólans þá haft samband við varnaraðila og hafi hún tjáð starfsmanninum að drengurinn hefði átt að fara til læknis þann morgun. Þangað hafi hann þó ekki farið, þar sem varnaraðili hefði ekki vaknað. Kom einnig fram í tilkynningunni að hinn 19. sama mánaðar hefði drengurinn mætt illa fyrir kallaður í skólann og reynt að skemma skólagögn og skaða starfsmenn skólans. Hafi hann einnig reynt að skaða sjálfan sig, klórað sig í andliti og á höndum og rifið upp gömul sár. Hafi hann slegið höfði sínu í gólf og veggi og sagst vilja enda líf sitt. Væru miklar áhyggjur meðal starfsmanna skólans af næringarástandi og vanlíðan drengsins. Hinn 26. maí 2011 hafi málið verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, þar sem m.a. hafi verið bókað að engin samvinna hefði náðst við varnaraðila og sambýlismann hennar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Nauðsynlegt væri að bregðast við vanda drengsins, sem virtist bara fara vaxandi og ljóst væri að engar stuðningsaðgerðir við varnaraðila hefðu skilað árangri. Væri lagt til að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í allt að eitt ár. Hafi ekki verið talið viðunandi annað en að bregðast við vaxandi vanda hans. Varnaraðila hafi verið kynnt bókun meðferðarfundarins og væntanleg fyrirtaka málsins á fundi sóknaraðila. Varnaraðila hafi verið boðið til viðtals hinn 31. maí sl., en hún ekki mætt en hringt og afboðaði komu sína. Hafi varnaraðili óskað eftir því að framvegis yrði haft samband við lögmann hennar, sem hún hefði þó ekki enn útvegað sér. Hafi verið ákveðið að bókun um málið, ásamt bréfi um fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, yrði send varnaraðila sem myndi koma því áleiðis til lögmanns síns. Rætt hafi verið við varnaraðila um að drengurinn ætti rétt á talsmanni og hafi varnaraðili ekki viljað samþykkja að leyfa einhverjum að ræða við drenginn. Hún myndi fyrst vilja ræða það við lögmann sinn og leita ráða hjá honum. Hafi varnaraðili ekki viljað vera til samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur og næði það einnig til drengsins.
Málið hafi verið tekið fyrir á fundi sóknaraðila hinn 14. júní 2011. Varnaraðili hafi ekki mætt á fundinn en fram hafi komið hjá starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur að varnaraðili hefði haft samband fyrr um morguninn og ekki getað mætt þar sem hún væri ekki komin með lögmann og væri ekki búin að sækja greinargerðina. Hafi varnaraðili verið hvött til þess að mæta þrátt fyrir að hafa ekki leitað sér aðstoðar lögmanns en hún engu að síður ekki mætt.
Varnaraðili hefur greint svo frá að hún hafi lokið grunnskólaprófi og síðar hafið nám í [...]skóla en hætt því fljótlega þar sem hún hafi ekki haft stuðning til þess að stunda námið. Þá hafi hún ekki starfað lengi á almennum vinnumarkaði vegna örorku sinnar. Tekjur varnaraðila grundvallist á örorkubótum og félagslegri aðstoð og styrkjum frá sveitarfélagi.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu sóknaraðila að neytt sé vímuefna inni á heimilinu. Hvorki liggi nokkuð fyrir í gögnum málsins sem sanni slíkar fullyrðingar né beri sakavottorð varnaraðila slíkt með sér. Einnig mótmælir varnaraðili lýsingum í greinargerð sóknaraðila er varða heimili hennar enda beri vitnisburður Sæmundar Hafsteinssonar sálfræðings, sem framkvæmt hafi forsjárhæfnismat á varnaraðila og sambýlismanni hennar, vott um annað.
Jafnframt mótmælir varnaraðili því sérstaklega, sem fram komi í gögnum frá sóknaraðila, að hún hafi ekki sinnt skóla drengsins og t.d. ekki mætt á fundi. Þvert á móti hafi hún lagt sig fram um slíkt og gögn málsins sýni og að samskipti skóla við móður hafi verið mjög góð.
Varnaraðili kveður barnæsku sína hafa einkennst öðru fremur af erfiðleikum og rótleysi. Barnaverndarafskipti hafi hafist snemma í lífi hennar. Hún hafi verið tekin af foreldrum sínum fjögurra ára og sett í fóstur hjá ættingjum. Þá hafi hún þvælst um tíma á milli frændfólks, verið send í sveit og loks endað á upptökuheimili við [...] í [...] og síðar á unglingaheimili í [...]. Varnaraðili hafi því óhjákvæmilega mótast af fortíð sinni og sú mótun hafi áhrif á núverandi barnaverndarmál. Varnaraðili sé bæði reið og afar tortryggin í garð yfirvalda, sérstaklega barnaverndaryfirvalda. Erfiðleika í samskiptum við sóknaraðila megi því að hluta rekja til fortíðarinnar og fyrri samskipta við starfsmenn Barnaverndar þær F og G, sem m.a. hafi komið að máli B.
Varnaraðili kveðst hafa verið óvinnufær meira og minna frá árinu 2005 eftir að hún hafi farið í aðgerð [...] vegna [...]. Árið 2000 hafi hún farið í [...] sem hafi skilið eftir sig afar veikbyggðan [...]. Ekki hafi tekist að greina sjúkdóm hennar nákvæmlega, en hann leggist á [...]. Hún hafi þjáðst af krónískum verkjum í [...] eftir aðgerðina 2005 og ekki treyst sér til að vinna. Vegna verkja eigi varnaraðili erfitt með gang, setu í bifreið og eigi einnig í erfiðleikum með að stunda húsverk. Verkir hafi verið í [...]. Samkvæmt læknisvottorði hafi varnaraðili einnig verið með einkenni þunglyndis lengi. Hún sé í sálfræðimeðferð til sjálfstyrkingar vegna kvíða sem rekja megi til bágborinnar félagslegrar stöðu og verkjaástands sem hafi gert hana óvinnufæra.
Varnaraðili kveður B hafa verið léttbura við fæðingu og hann hafi alla tíð verið smávaxinn og fíngerður eftir aldri. B hafi stækkað og þroskast eðlilega fram til 6 mánaða aldurs. Þá hafi farið að draga úr vexti hans en það hafi ekki verið talið óeðlilegt í ungbarnaeftirliti, en á þeim tíma hafi þau verið búsett í [...]. B hafi alla tíð verið lítill miðað við aldur og því sé honum iðulega tekið sem yngra barni. Áhyggjur og grundvöllur tilkynninga til Barnaverndar hafi meðal annars byggst á áhyggjum skólayfirvalda vegna þess að drengurinn virtist borða lítið og sé lítill og léttur. Frá árinu 2006 hafi varnaraðili farið með drenginn til sérfræðings í efnaskiptasjúkdómum en hálfsystir varnaraðila hafi m.a. verið í hormónasprautum á Landspítalanum frá 12 ára aldri. Þá séu þekkt skjaldkirtilsvandamál (thyroidea patologia) í fjölskyldunni. Í bréfi Jóns R. Kristinssonar, barnalæknis hjá Barnaspítala Hringsins, til Barnaverndar, dagsettu 15. júlí 2008, komi fram að drengurinn sé smávaxinn en ekki vannæringarlegur. Þá sé góð holdfylling í útlimum, lærvöðvum, handleggjum og rasskinnum. Enn fremur sé það mat næringarráðgjafans, Önnu Eddu Ásgeirsdóttur, að drengurinn sleppi ekki úr máltíðum, en sé mjög matgrannur. Þá hafi blóð- og þvagprufur ekkert óeðlilegt leitt í ljós og engin merki hafi verið um vannæringu. Í læknabréfi, dagsettu 28. desember 2010, komi fram það mat Kolbeins Guðmundssonar, sérfræðings í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum að B sé „hinn hraustlegasti strákur þó hann sé smávaxinn“. Þá komi einnig fram í umræddu læknabréfi að drengurinn hafi ekki klínísk merki um blóðleysi (anemia) eða næringarskort (malabsorbtion). Þá komi enn fremur fram að drengurinn samsvari sér fullkomlega í hæð og þyngd þó beinaldur hans sé seinkaður. Varnaraðili kveðst ítrekað hafa bent starfsmönnum Barnaverndar á að drengurinn sé mjög matgrannur og hafi t.a.m. illa fengist til að borða morgunmat, en það sé breytingum háð, t.d. ef hann fái skerf af fastari fæðu að borða á morgnana heldur en morgunkorn. Það sé því ljóst af framansögðu að þær áhyggjur að drengurinn virðist borða lítið og sé lítill og léttur miðað við aldur sé ekki að rekja til vanrækslu foreldra á að fæða drenginn heldur megi rekja ástand hans til líkamlegra kvilla sem sterkar líkur bendi til að séu til staðar í fjölskyldunni.
Þegar B hafi verið í 3. bekk í [...]skóla hafi hann verið metinn af H skólasálfræðingi með athyglisbrest án ofvirkni. Fyrsta koma B á göngudeild BUGL hafi verið hinn 11. mars 2010, til greiningar og meðferðar. Eftir það hafi verið haldnir 6 skólafundir vegna erfiðleika hans í skóla. B hafi m.a. verið settur á rítalín vorið 2008 en sé núna að taka inn Concerta (18 mg), daglega. Lyfið sé oftast notað við athyglisbresti með ofvirkni í börnum, en þar sem það auki einbeitingu og athygli geti það auðveldað ofvirkum börnum nám og samskipti við aðra. Lyfið dragi hins vegar úr matarlyst og valdi oft þyngdartapi. Þetta geti haft áhrif á vöxt barna sem taki lyfið lengi.
Varnaraðili viðurkennir að búferlaflutningar fjölskyldunnar hafi verið talsverðir á síðustu árum. Megi það m.a. rekja til þess að hvorki varnaraðili né sambýlismaður hennar séu langskólagengin og hafi þau því iðulega leitað nýrra tækifæra til að auka tekjumöguleika sína svo þau geti uppfyllt þarfir barna sinna. Varnaraðili og sambýlismaður hennar séu háð útdeilingu á félagslegu húsnæði vegna afar bágs efnahags þeirra. Fullyrðingar starfsmanna Barnaverndar um óþrifnað á heimilinu byggi að mati varnaraðila á getgátum og vísar varnaraðili hér m.a. til skýrslu sálfræðings, þar sem fram komi að heimili þeirra sé hreint og snyrtilegt og það sama eigi við um herbergi drengsins auk þess sem það sé vel útbúið leikföngum. Fjölskyldan hafi áður haldið nokkuð af dýrum inni á heimilinu en hafi, m.a. að beiðni Barnaverndar, séð sig tilneydd að losa sig við þau. Nú haldi þau hund á heimilinuauk tveggja katta.
III
Á fundi sínum 14. júní sl. mat sóknaraðili það sem svo að aðbúnaður drengsins og umönnun á heimili væri óviðunandi og væru verulegar áhyggjur af líðan hans og þroska við óbreyttar aðstæður. Sóknaraðila þætti fullreynt að svo stöddu að ná samvinnu við varnaraðila um stuðningsaðgerðir á heimilinu í ljósi afstöðu varnaraðila til sóknaraðila og forsögu málsins. Að mati sóknaraðila séu augljós merki þess að aðbúnaður og aðstæður á heimili varnaraðila hefðu haft verulega neikvæð áhrif á drenginn, auk þess sem líkamlegri umhirðu B og skólasókn hans væri verulega ábótavant í umsjá varnaraðila. Sóknaraðili taldi að ekki væri unnt að una við óbreytt ástand og áliti því ekki annað fært en að vista B tímabundið utan heimilis á meðan reynt væri að bæta uppeldisaðstæður á heimili hans. Þar sem varnaraðili hefði ekki fengist til að samþykkja vistun drengsins utan heimilis og þar sem talið væri nauðsynlegt að vistun drengsins stæði lengur en í þá tvo mánuði sem sóknaraðili hefði heimild til að úrskurða um, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga 80/2002, var borgarlögmanni falið að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gera kröfu um vistun drengsins til 14. júní 2012, en það er sá tími sem sóknaraðili hafi talið að væri lágmarkstími sem þyrfti í ljósi forsögu málsins til að unnt væri að gera varanlegar breytingar á uppeldisaðstæðum B. Þá var starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur jafnframt falið að hefja könnun á aðstæðum C, systur B sbr. 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Drengurinn er nú vistaður á heimili föðurömmu sem sótt hefur um og fengið leyfi Barnaverndarstofu til að vista drenginn. Varnaraðili og sambýlismaður hennar samþykktu, og skrifuðu undir, áætlun um meðferð máls, samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, hinn 29. júní 2011 og hinn 15. júlí sl. skrifaði varnaraðili svo undir samning um umgengni.
Að mati sóknaraðila hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart varnaraðila og unnt hafi verið hverju sinni. Hafi öll tæk stuðningsúrræði verið reynd en ekki megnað að skapa drengnum þær aðstæður sem tryggi honum möguleika á þeim viðunandi uppeldisaðstæðum sem hann eigi skýlausan rétt á. Sóknaraðili telur stuðningsaðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta aðstæður drengsins í umsjá varnaraðila. Andleg vanlíðan, hegðunarvandi og tilfinningalegt ójafnvægi drengsins hafi farið vaxandi og telji sóknaraðili ekki annað fært en að vista drenginn utan heimilis með það að markmiði að gefa varnaraðila tækifæri til að bæta uppeldishæfni sína og veita drengnum viðunandi uppeldisaðstæður. Sóknaraðili telur enn fremur fullreynt að gera jákvæðar breytingar í þeim efnum á meðan drengurinn sé í umsjá varnaraðila. Þá sé mikilvægt að gefa hlutlausum fagaðilum tækifæri til að meta orsakir hegðunarvandkvæða drengsins og andlegrar vanlíðunar hans. Einungis með þeim hætti sé unnt að fá greiningu á drengnum og veita honum þá aðstoð sem hann þarfnist. B eigi rétt á viðeigandi umönnun og vernd í samræmi við aldur sinn og þroska, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðila beri að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum við drenginn, samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Jafnframt hvíli á varnaraðila sú ábyrgð að gæta velfarnaðar sonar síns í hvívetna og búa honum viðunandi uppeldisaðstæður. Sóknaraðili álítur grundvallarforsendu fyrir því að forsjárhæfni varnaraðila verði viðunandi, að hún þiggi stuðningsúrræði handa drengnum og sjálfri sér og skapi fullnægjandi aðstæður á heimili sínu. Afar brýnir hagsmunir drengsins mæli með því að honum verði komið fyrir í vistun utan heimilis til tólf mánaða, sem sé sá lágmarkstími sem ætla megi að þurfi til að leggja mat á möguleika varnaraðila til að annast drenginn og veita honum þá umönnun og uppeldi sem hann eigi skilyrðislausan rétt á. Þá verði sá tími jafnframt notaður til að bæta ástand B, bæði varðandi erfiða hegðun drengsins og tilfinningaójafnvægi hans. Það sé mat sóknaraðila að aðstæður drengsins þurfi að taka breytingum. Stöðva þurfi þann óróleika og þær ótryggu aðstæður sem drengurinn hafi búið við hjá varnaraðila. Ekkert bendi til þess að varnaraðili ráði við þá ábyrgð sem fylgi því að ala önn fyrir drengnum og veita honum það öryggi og uppeldi sem æskilegt og nauðsynlegt sé, enda virðist varnaraðila algerlega skorta innsýn í vanda drengsins. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa innsæi í þarfir drengsins og að uppeldisaðstæður hans séu með öllu óviðunandi í umsjá varnaraðila. Þá hafi þær ekki breyst þrátt fyrir stuðning, enda hafi varnaraðili ítrekað afþakkað stuðningsúrræði eða ekki megnað að nýta sér þau, þar sem hún sé í algerri afneitun gagnvart þeim hegðunarvanda sem drengurinn glími við og þeirri miklu vanlíðan sem hann þjáist af. Drengurinn þurfi að búa við aga og stöðugleika svo að unnt sé að rannsaka betur líðan hans og stöðu og hvaða ástæður liggi að baki þeim alvarlega vanda sem drengurinn glími við. Það sé mat sóknaraðila að hagsmunum B sé best borgið með því að hann dvelji utan heimilis varnaraðila á meðan varnaraðili verði studd til að bæta aðstæður á heimili sínu og uppeldishæfni sína. Ljóst sé að B hafi mikla þörf fyrir öryggi og festu í sínu lífi og að eins og aðstæðum varnaraðila sé háttað í dag sé hún ekki fær um að veita honum þann stöðugleika sem hann þarfnist.
Ljóst sé að varnaraðili sé í dag óhæf til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart syni sínum sökum afneitunar á alvarlegum vanda drengsins og skorti á raunverulegum vilja til að aðstoða hann í erfiðleikum sínum. Með hliðsjón af úrskurði sóknaraðila frá 14. júní 2011 og atvikum málsins að öðru leyti er nauðsynlegt að drengurinn verði vistaður utan heimilis sóknaraðila í tólf mánuði eða til 14. júní 2012, samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
IV
Varnaraðili kveðst ávallt hafa lagt sig fram um að veita börnum sínum ástúð og umhyggju, gott heimili og aga í uppeldi. Niðurstöður úr forsjárhæfnismati gefi til kynna að varnaraðili og stjúpfaðir hafa næga greind og skilning til þess að sinna þörfum barnanna. Varnaraðili hefur verið í sambúð með D frá árinu 2000 og hafi hann tekið virkan þátt í uppeldi barnanna og kalla börnin hann „pabba“.
B greindur með ofvirkni og athyglisbrest og sé eftirbátur jafnaldra sinna bæði í þroska og námi. Hann sé smágerður drengur, komi vel fyrir, sé kurteis og hjálpsamur og duglegur að koma fyrir sig orði. Þá sé hann ágætlega öruggur með sig og vísbendingar um tilfinningalega erfiðleika komi ekki fram. C, systur B, gangi vel í skóla og séu systkinin afar samrýnd.
Börn varnaraðila séu í miklum og góðum samskiptum við ömmur sínar og hafa síðastliðin sumur dvalið hjá föðurömmu sinni á [...].
Afskipti sóknaraðila að málinu megi rekja til þess að drengurinn sé eftirbátur jafnaldra sinna í líkamlegum þroska og fram hafi komið að hann eigi við námserfiðleika að etja. Varnaraðili telur rétt að málið snúi að stöðu B, en ekki hennar. Málið snúist ekki um forsjárhæfni hennar heldur stöðu og hagi drengsins og hvort það sé honum fyrir bestu að vistast utan heimilis gegn vilja varnaraðila, með vísan til þvingunarúrræða barnaverndarlaga. Þá verði að taka afstöðu til þess hvort slíkt þvingunarúrræði hafi verið hið eina sem barnaverndaryfirvöldum hafi verið mögulegt að beita til að ná markmiðum sínum varðandi drenginn, sbr. dóm Hæstaréttar frá 25. mars 2010, mál nr. 169/2010.
Varnaraðili mótmælir málsástæðum sóknaraðila um að aðbúnaði drengsins á heimili varnaraðila sé ábótavant og að versnandi líðan hans í umsjá hennar og slæmri stöðu í skóla megi rekja til vanrækslu af hennar hálfu. Varnaraðili eigi ekki við vímuefnavanda að stríða. Sú málsástæða eða það mat sóknaraðila byggi á getgátum einum og hafi aldrei fengist staðfest. Enn fremur hafi fullyrðingar starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur varðandi það að drengurinn búi við ofbeldi á heimili, aldrei fengist staðfestar og sé þeim alfarið mótmælt. Niðurstöður persónuleikaprófa í forsjárhæfnismati styðji hvorugt framangreint. Í fyrirliggjandi forsjárhæfnismati komi ekkert fram sem bendi til skilningsleysis á daglegum þörfum drengsins fyrir umhirðu, vernd og leiðsögn. Stundum hafi lífið reynst fjölskyldunni erfitt vegna tíðra flutninga, veikinda og fjárhagslegra erfiðleika, en ekki verði annað séð en að varnaraðili og börn hennar uni sér vel saman og hún hafi yfirleitt nægan skilning og vilja til að sinna þörfum þeirra.
Varnaraðili hafnar því að hún hafi ekki sýnt samstarfsvilja, eins og sóknaraðili haldi fram og bendir á að hún hafi sýnt samstarfsvilja með því að samþykkja vistun dóttur sinnar, utan heimilis í tvo mánuði, á grundvelli 24. gr. barnaverndarlaga. Þá hafi varnaraðili og sambýlismaður hennar undirritað meðferðaráætlun, dagsetta 8. júlí 2011, þar sem fallist hafi verið á einhliða tillögur Barnaverndar um úrræði til handa drengnum og foreldrum. Hafi hún og sambýlismaður hennar m.a. fallist á að gangast undir nýtt forsjárhæfnismat og hafi nú beðið eftir því frá undirritun meðferðaráætlunar að sálfræðingur setji sig í samband við þau.
Varnaraðili byggir kröfu sína í málinu jafnframt á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt við málsmeðferðina með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 38. gr. barnaverndarlaga. Byggir varnaraðili kröfu sína á þeirri meginreglu barnaverndarlaga sem komi skýrt fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Varnaraðili byggir þannig á því að ekki hafi verið þörf á úrskurði, heldur hafi markmiði sóknaraðila varðandi hagsmuni drengsins, B, verið hægt að ná með vægara úrræði og samkomulagi við varnaraðila. Sóknaraðili hefði t.a.m. náð því lögmælta markmiði sínu að tryggja öryggi barnsins á heimilinu með öflugu eftirliti, s.s. boðuðum og óboðuðum heimsóknum á heimilið og með því að styrkja sóknaraðila og sambýlismann hennar í uppeldishlutverkinu með fræðslu og beinum stuðningi. Þá telji varnaraðili, með vísan til framangreinds, að skilyrði b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga geti ekki talist vera fyrir hendi þar sem ekki hafi verið reynd önnur og vægari úrræði í stöðunni, svo sem greini í 24., sbr. 23. og 26. gr. barnaverndarlaga. Þá sé einnig byggt á þeirri meginreglu barnaverndarlaga að íþyngjandi ráðstafanir eigi ekki að standa lengur en þörf krefji hverju sinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga, en drengurinn hafi áður verið úrskurðaður í vistun utan heimilis í tvo mánuði frá 14. júní að telja á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. gr. barnaverndarlaga.
Varnaraðili hafi ýmsar athugasemdir og mótmæli við meðferð máls B hjá sóknaraðila. Telur varnaraðili það t.a.m. mjög alvarlegt að starfsmenn sóknaraðila hafi ekki haldið trúnað við hana, sem og starfsmenn í skóla B. Vísar varnaraðili hér m.a. til beiðni skólahjúkrunarfræðings við [...]skóla sem óskað hafi eftir því að drengurinn fari til barnalæknis og tilkynningar skólahjúkrunarfræðings við [...]skóla, dagsettri 27. mars 2008, sem lýst hafi áhyggjum sínum af heilsufari drengsins. Ljóst sé að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi leitað sérstaklega eftir neikvæðum þáttum er varði drenginn, sem sjá megi svo út frá svörum frá lækni drengsins sem hafi skoðað hann. Varnaraðili meti það svo að skilja megi bréf Kolbeins Guðmundssonar, sérfræðings í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, til Barnaverndar Reykjavíkur, að ástæðuna fyrir því að drengurinn sé svo lítill og léttur miðað við aldur megi rekja til annarra þátta en vanrækslu tengda mataræði. Hafi læknirinn m.a. boðið þeim hjúkrunarfræðingi sem tilkynnt hafi til Barnaverndar um vanrækslu móður, að hafa samband við sig væri eitthvað óljóst er varðaði líkamlega byggingu og heilsu drengsins. Til stuðnings framangreindri málsástæðu vísar varnaraðili til úrskurðar sóknaraðila frá 14. júní sl. og bókunar af meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur, dagsettri 1. mars 2011. Hafi sóknaraðili þar dregið fram upplýsingar úr læknabréfi Jóns. R. Kristinssonar og fært yfir í neikvæða mynd þegar bréf læknisins beri vott um að drengurinn sé hinn hraustlegasti þrátt fyrir að beinaldur hans hafi verið 6,6 ár en drengurinn þá verið 8,7 ára.
Varnaraðili kveðst líta svo á að fullyrðingar sóknaraðila, sem ekki séu studdar nægjanlegum gögnum, geti því ekki réttlætt þá ákvörðun sóknaraðila að vista drenginn B utan heimilis. B sé greindur með ADD og hafi m.a. verið á lyfjum vegna þessa. Varnaraðila þyki sonur sinn ekki sýna eins erfiða hegðun heima fyrir og í skóla. B taki inn 18 mg af Concerta, daglega, og ljóst sé að lyfin séu honum nauðsynleg, þar sem námsleg staða hans hafi batnað og hann fáist til að sitja við námið. Drengurinn hafi þörf fyrir virkt stuðningsúrræði, sérkennslu og jafnvel aðkomu persónulegs ráðgjafa. Niðurstöður forsjárhæfnismats bendi eindregið til þess að varnaraðili hafi nægan skilning til þess að mæta þörfum sonar síns og að ekkert komi fram sem bendi til skilningsleysis á daglegum þörfum drengsins fyrir umhirðu, verndar og leiðsagnar. Þá séu hvorki gögn né mat fyrir hendi á því að heimili varnaraðila sé ósnyrtilegt og óhreint. Ítrekar varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að sú fullyrðing að drengnum sé best komið fyrir í vistun utan heimilis, fjarri móður sinni, föður og systur, sé studd nægjanlegum gögnum sem réttlæti svo íþyngjandi ákvörðun.
Byggir varnaraðili á því að óþarflega íþyngjandi úrræði hafi verið beitt, en mögulegt hafi verið að ná markmiðum sóknaraðila með öðru og vægara móti, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Með vísan til nýfallins dóms Hæstaréttar í máli nr. 169/2010, sé ljóst að ef barnaverndaryfirvöld ætli sér að beita svo íþyngjandi úrræði sem vistun utan heimilis er, án samþykkis forsjáraðila, verði slíkt úrræði að vera hið eina sem tækt sé til að ná þeim markmiðum sem yfirvöld hafi sett sér varðandi umrætt barn. Hvort þær aðstæður séu fyrir hendi í þessu máli sé fullkomlega órökstutt af hálfu sóknaraðila.
Sóknaraðili haldi því fram að erfiðlega hafi reynst að ná samvinnu við móður, hins vegar hafi móðir verið lituð af erfiðleikum í samskiptum við sömu starfsmenn sóknaraðila og hafi séð um málefni hennar í æsku. Barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum og öllum ákvörðunum gæta samræmis og jafnræðis með vísan til 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá hafi varnaraðili upplifað tillögur að lausnum og úrræðum sóknaraðila sem algjörlega einhliða og að lítið hefði verið hlustað á hana sem móður og forsjáraðila með börnum sínum. Enn fremur hafi tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur um líkamlegt ofbeldi ekki varðað drenginn heldur hafi tilkynning m.a. snúið að sígarettubruna á hönd systur hans sem gæti átt sér eðlilegar skýringar. Þá komi fram í bókun sóknaraðila frá 30. apríl 2008 og 13. maí 2008, að „aflað yrði upplýsinga frá læknum varðandi heilsufar móður“. Hvergi í framlögðum gögnum sóknaraðila liggi fyrir upplýsingar um að svo hafi verið gert. Þess í stað kjósi sóknaraðili að líta á veikindi varnaraðila sem svo að hún sé ófús til samvinnu. Þá sé engar skýringar að finna á því hvers vegna upplýsinganna hafi ekki verið aflað. Það sé því mat varnaraðila að jafnræðis hafi heldur ekki verið gætt við meðferð máls B og varnaraðila, með vísan til meginreglu stjórnsýslulaga um jafnræði, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Með vísan til 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga skuli taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til og ávallt skuli gefa barni sem náð hafi 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. B hafi verið skipaður talsmaður, sbr. 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, sem tekið hafi viðtal við hann 14. júlí 2011. Hins vegar sé ekkert í gögnum sóknaraðila sem bendi til þess að drengnum hafi verið skipaður talsmaður áður en gripið var til ráðstafana skv. 25., 27. og 28. gr. barnaverndarlaga. Veltir varnaraðili því fyrir sér hvort sóknaraðili hafi ekki talið þörf á að skipa barninu talsmann á fyrri stigum eða hvort hér sé komin enn ein sönnun þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt við meðferð þessa máls. Enn fremur sé það alveg ótækt, að mati varnaraðila, að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur sé sá aðili sem ræði við drenginn um afstöðu hans til málsins. Það sé alls ekki hægt að leggja slík samtöl til grundvallar í málinu um vilja barnsins og hefði sóknaraðili átt að leggja það til að óháður sálfræðingur ræddi við drenginn. Varnaraðili telji að sjónarmið drengsins hafi ekki fengið að koma nægjanlega skýrt fram í málinu og málið því unnið með ófullnægjandi hætti að þessu leyti.
Eitt megininntak réttarins til fjölskyldulífs sé að fjölskyldan fái að vera saman án afskipta og verði ekki aðskilin gegn vilja þeirra sem henni tilheyri. Talið sé að friðhelgi einkalífs fjölskyldu varnaraðila, sem varið sé af 71. gr. stjórnarskrárinnar, heimili því aðeins skerðingu þess réttar að velferð barns krefjist þess, en við mat á því verði að gæta meðalhófs og er því litið til málsmeðferðarinnar á fyrri stigum og hvort gætt hafi verið réttar þess foreldris sem takmörkunin beinist að til að koma þar að sjónarmiðum sínum, leitað hafi verið álits sérfræðinga um málið og afstöðu barnsins með hliðsjón af 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Sóknaraðila beri að sýna fram á að sérstaklega ríkar ástæður séu fyrir því að vista B utan heimilis, þannig að önnur vægari úrræði hafi ekki dugað til að ná sama markmiði. Fjarvera barns geti valdið foreldri umtalsverðum þjáningum. Ákvarðanir sóknaraðila eigi ekki að mæla fyrir um íþyngjandi tímabundnar aðgerðir nema fullreynt sé að ekki muni takast að breyta aðstæðum eða grípa til ráðstafana til að gera varnaraðila kleift að annast börn sín. Mál drengsins hafa verið til umfjöllunar alls þrisvar sinnum frá árinu 2002. Tilkynningar og athuganir starfsmanna Barnaverndar hafi verið með nokkurra mánaða millibili. Í gögnum málsins og viðtölum komi fram að afskipti sóknaraðila af fjölskyldunni hafi verið nokkuð íþyngjandi og orðið til þess að börnin séu farin að óttast að verða tekin frá varnaraðila. Hafi drengurinn m.a. greint frá „áhyggjum sínum um að verða tekinn af mömmu sinni þar sem það hafi gerst einu sinni þegar hann var yngri“. Þannig virðist drengurinn tengja afskipti sóknaraðila af honum og fjölskyldu hans við þá afleiðingu að hann verði því næst tekinn frá þeim. Það sé mat varnaraðila að markmið sóknaraðila hafi alla tíð frá upphafi verið að rjúfa böndin á milli varnaraðila og barna hennar, fremur en að veita varnaraðila og veikum syni hennar raunverulega þann stuðning sem þau þurfi á að halda. Renni það stoðum undir þá fullyrðingu varnaraðila að meðalhófs hafi ekki verið gætt við meðferð máls sonar hennar.
Rúmir 18 mánuðir skilji að B og systur hans, C. Þau séu afskaplega samrýnd og hann sæki mikinn stuðning í systur sína. Hafi varnaraðili m.a. sagt frá því að C „þyki vænst allra um B bróður sinn, og honum þyki vænst um hana“. Eitt megininntak réttarins til fjölskyldulífs sé, að fjölskyldan fái að vera saman án afskipta og verði ekki aðskilin gegn vilja þeirra, sem henni tilheyra. Mannréttindanefnd Evrópu hafi staðfest að réttur manns til tilfinningalegs sambands við aðrar manneskjur sé órjúfanlegur þáttur í einkalífi hans, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af því leiði að löggjöf aðildarríkja, sem hafi áhrif á möguleika manna til þess að stofna til eða viðhalda slíkum samböndum, takmarki rétt til einkalífs og þurfi því að uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. Í 8 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins komi fram að barn eigi rétt til þess að viðhalda því, sem auðkenni það sem einstakling og sé þar m.a. vísað til fjölskyldutengsla. Með hliðsjón af framangreindu sé hér um að ræða verulega hagsmuni, sem geti haft áhrif á líf og hagi B og systur hans til frambúðar. Það séu ríkir hagsmunir barnsins sjálfs að viðhalda fjölskyldutengslum við systkini sín.
Í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barninu séu fyrir bestu. Einnig beri að hafa í huga það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi, að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns, sbr. 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Eins og atvikum sé háttað verði að telja að B sé fyrir bestu að dvelja hjá móður sinni og stjúpföður undir öflugu eftirliti sóknaraðila og að með því móti sé stuðlað að stöðugleika í uppvexti hans.
Varnaraðili byggir málskostnaðarkröfu sína á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Um lagarök vísar varnaraðili til barnaverndarlaga, nr. 80/2002, stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1994 og laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.
V
Í gögnum málsins kemur fram að barnaverndarafskipti hafa verið af málefnum sonar vararaðila frá árinu 2002, eða frá þeim tíma sem þau bjuggu í [...], m.a. vegna aðbúnaðar, umhirðu og líðan drengsins. Varnaraðili og börn hennar hafa oft flutt búferlum gegnum tíðina og hefur drengurinn stundað nám í átta skólum á skólagöngu sinni. Þá benda gögn málsins til þess að vanlíðan drengsins og námserfiðleikar hafi aukist til muna.
Frá árinu 2008 hafa málefni drengsins verið til könnunar og meðferðar samfleytt hjá Barnavernd Reykjavíkur, en erfiðlega hefur gengið að fá varnaraðila til samvinnu um viðtöl og stuðning. Hefur varnaraðili m.a. gefið þá skýringu að hún hafi slæma reynslu af barnaverndaryfirvöldum allt frá því að hún var sjálf barn. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að bæta aðstæður drengsins eins og lýst hefur verið hér að framan er það mat sóknaraðila að ekki hafi tekist að bæta aðstæður hans með viðunandi hætti.
Markmið barnaverndarlaga er meðal annars að tryggja að börn sem búa við óviðunandi uppeldisaðstæður fái nauðsynlega aðstoð, sbr. 2. gr. laganna. Í lögunum eru fyrirmæli um að sóknaraðila beri að grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt því sem lýst er í lögunum þegar aðstæður barns eru óviðunandi eða líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin vegna vanrækslu foreldris, vanhæfni eða framferðis þess.
Í úrskurði sóknaraðila frá 14. júní sl. er vísað til þess að fjöldi tilkynninga hafi borist sóknaraðila vega skorts á viðhlítandi umönnun drengsins af hálfu varnaraðila. Þar kemur enn fremur fram að drengurinn og systir hans voru vistuð gegn vilja varnaraðila á vistheimili barna í skamman tíma vorið 2008, þar sem ekki hafði tekist að fá móður til samvinnu um að bæta uppeldisaðstæður og skólasókn barnanna. Í kjölfarið hafi varnaraðili og stjúpfaðir verið til samvinnu í stuttan tíma en stuðningur sóknaraðila hafi skilað litlum sem engum árangri. Í framlagðri matgerð Sæmundar Hafsteinssonar sálfræðings, um forsjárhæfni varnaraðila, sem dagsett er 12. desember 2008, og gerð var í framhaldi af vistun barna varnaraðila á vistheimili barna, kemur fram að sóknaraðili sé bæði reið og afar tortryggin í garð yfirvalda, sérstaklega barnaverndaryfirvalda. Telur hann tortryggni hennar stundum ná út yfir öll raunsæismörk án þess þó að hægt sé að tala beinlínis um ranghugmyndir.
Ástæða sóknaraðila fyrir því að nauðsynlegt sé að vista drenginn utan heimilis er studd þeim rökum að aðbúnaður hans og umönnun á heimili hans sé óviðunandi og sóknaraðili hafi verulegar áhyggjur af líðan hans og þroska við óbreyttar aðstæður. Þyki fullreynt að svo stöddu að ná samvinnu við varnaraðila um stuðningsaðgerðir í ljósi afstöðu hennar til sóknaraðila og forsögu málsins. Virðist varnaraðili hvorki vilja né hafa getu til að takast á við vanda drengsins sem sé orðinn alvarlegur. Þjóni það hagsmunum drengsins best að vistast utan heimilis í eitt ár á meðan reynt sé til þrautar að ná samvinnu við varnaraðila um að bæta uppeldisaðstæður drengsins á heimili auk þess sem honum verði veittur stuðningur meðan á vistun stendur til að bæta líðan sína.
Með vísan til þess sem fyrir liggur í málinu verður að telja að ekki sé unnt að tryggja uppeldisskilyrði drengsins, sem býr við vanlíðan og vanrækslu, á annan hátt en þann sem gert hefur verið með því að vista hann utan heimilis á meðan sóknaraðili freistar þess að bæta aðstæður drengsins og líðan hans og fá varnaraðila til þess að þiggja stuðning með það að markmiði að bæta uppeldisaðstæður drengsins. Margvísleg og ítarleg gögn liggja frammi í málinu sem byggt er á við mat á því hvort lagaskilyrði eru fyrir því að beita framangreindu úrræði. Er því ekki fallist á að rannsóknarregla eða meðalhófsregla hafi verið brotnar af hálfu sóknaraðila við meðferð málsins eða brotin hafi verið 11. gr. stjórnsýslulaga. Réttur varnaraðila til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu er takmarkaður af þeim rétti sem börn njóta en ef hagsmunir barns og foreldris rekast á verða hagsmunir foreldris að víkja fyrir hagsmunum barnsins. Úrskurður sóknaraðila frá 14. júní sl. er byggður á gögnum málsins. Verður ekki fallist á þær röksemdir varnaraðila að andmælaréttur hafi verið brotinn gagnvart henni þegar ákveðið var með úrskurðinum að vista drenginn utan heimilis. Þá liggur fyrir að drengnum var við meðferð málsins skipaður talsmaður.
Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins liggur fyrir að úrræði samkvæmt 23.- 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið reynd og þykir sýnt fram á bæði með framlögðum gögnum sem og skýrslum fyrir dómi að úrræði í samvinnu við varnaraðila hafa ekki skilað viðhlítandi árangri, enda hefur hún verið treg til að þiggja aðstoð sóknaraðila.
Að öllu framangreindu virtu ber að fallast á að skilyrði séu til þess samkvæmt b-lið 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., barnaverndarlaga að vista drenginn utan heimilis varnaraðila í tólf mánuði frá 14. júní 2011 til 14. júní 2012.
Varnaraðili fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðherra, dagsettu 8. ágúst 2011.
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Vigdísar Óskar Sveinsdóttur, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur án virðisaukaskatts.
Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Aðalsteini Sigfússyni og Guðfinnu Eydal sálfræðingum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á kröfu sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, um að drengurinn B, verði vistaður utan heimilis varnaraðila, A, í tólf mánuði, frá 14. júní 2011 til 14. júní 2012
Gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Vigdísar Óskar Sveinsdóttur hdl., 700.000 krónur.