Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Vanreifun


Föstudaginn 17. apríl 2015.

Nr. 267/2015.

Kaupþing hf.

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Ágústi Guðmundssyni

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Vanreifun.

Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var máli K hf. gegn Á vísað frá dómi þar sem ekki yrði séð hvernig 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem krafa K hf. um greiðslu úr hendi Á var byggð á, gæti átt við þær aðstæður sem málið væri sprottið af. Þá hefði skaðabótakrafa K hf. á hendur Á einnig verið vanreifuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur framangreind varakrafa hans því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðila, Ágústi Guðmundssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar, 19. febrúar 2015, um þá kröfu stefnda að kröfum stefn­anda verði vísað frá dómi, er höfðað af Kaupþingi hf., kt. [...], Borg­ar­túni 26, Reykjavík, með stefnu birtri 22. maí 2014 á hendur Ágústi Guð­munds­syni, kt. [...], til heimilis að 113, 2 Fulham Road, London SW1X 7DU, Bret­landi.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 30.798.584 kr. með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 4. júlí 2011 til greiðsludags.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 25.029.116 kr. með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. júní 2010 til greiðsludags.

                Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 22.153.790 kr. með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. júní 2010 til greiðsludags.

                Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, auk virðis­auka­skatts af málflutnings­þóknun.

                Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

                Hann krefst til vara sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.

                Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að kröfu stefnda um vísun málsins frá dómi verði hafnað.

                Hann krefst þess að málskostnaður vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.

Málsatvik

                Stefnandi var og hét Kaupþing banki hf. Sá banki sætir nú slitameðferð og heitir Kaupþing. Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaup­þings banka, vék félagsstjórn í heild þegar í stað frá störfum og skipaði bank­anum skila­nefnd í sam­ræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 128/2008. Bankinn fékk heimild til greiðslu­stöðv­unar 24. nóvem­ber 2008 og honum var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 í sam­ræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölu­lið bráða­birgða­ákvæðis II við þau lög.

                Júlíus Jónasson var starfsmaður í einkabankaþjónustu Kaupþings banka hf. Hann tók að láni hjá bankanum, 29. ágúst 2007, fjárhæð í erlendum myntum sem sam­svar­aði 25 milljónum króna, til þess að kaupa 21.000 hluti í bank­anum. Lánstími skyldi vera þrjú ár og skyldi lánið greitt upp 1. sept­em­ber 2010. Samhliða láns­samn­ingum gaf Júlíus út yfir­lýs­ingu þar sem hann setti bank­anum að handveði hlutabréf sín í honum, þar með talið þau sem hann keypti fyrir láns­fjár­hæðina svo og hlutabréf sín í Bakka­vör Group hf. Í yfir­lýs­ing­unni var bank­anum veitt heimild til að krefj­ast frek­ari trygg­inga vegna skuld­bind­ingar Júlí­usar við bank­ann ef mark­aðs­verð­mæti hinna veð­settu hluta­bréfa lækkuðu.

                Vegna lækkunar á verði hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., sem og Bakkavör Group hf., nýtti Kaupþing banki hf. sér heimildina í handveðsyfirlýsingunni og krafði Júlíus frekari trygginga vegna skulda hans við bankann. Í kjölfar þessa, 25. apríl 2008, setti stefndi, Ágúst Guðmundsson, bankanum að handveði hlutdeildarskírteini sín í ríkis­verð­bréfa­sjóði KAUP GBM, samtals 1.599,3207 einingar, til tryggingar öllum skuldum Júlíusar við bankann.

                Í handveðs­yfirlýsingu stefnda, nr. 66240, var kveðið á um að handveðið væri sett til trygg­ingar skilvísum og skaðlausum greiðslum allra skulda og fjár­skuld­bind­inga Júlí­usar við bankann, sem þegar hafði stofnast til eða myndu síðar stofnast. Í sam­ræmi við þessa yfirlýsingu tók bankinn hlutdeildarskírteini stefnda í sínar vörslur.

                Kaupþing banki hf. lýsti því skriflega yfir við Júlíus, 25. september 2008, að ákveðið hefði verið að krefja hann ekki um persónulega ábyrgð hans vegna kaupa á hluta­bréfum í Kaupþingi. Ábyrgð hans takmarkaðist því við þau hluta­bréf sem sett höfðu verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum hans.

                Eins og fyrr greinir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hlutahafafundar Kaupþings banka, 9. október 2008, vék félagsstjórn í heild þegar í stað frá störfum og skip­aði bank­anum skila­nefnd í samræmi við lög nr. 161/2002. Með ákvörðun Fjár­mála­eftir­lits­ins, 21. október 2008, um ráð­stöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banki hf.) var tilteknum eignum Kaup­þings, þar með talið fast­eignum, lausafé, eign­ar­hlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum ráðstafað til Arion banka hf.

                Í samræmi við þetta var lánssamningur bankans og Júlíusar Jónassonar fram­seldur Arion banka hf., en þá einungis með veði í hlutabréfum Júlíusar í Kaupþingi banka sem voru með öllu verðlaus eftir fall hans skömmu áður. Ekkert endurgjald kom fyrir kröf­una úr hendi Arion banka hf. Hið sama gilti um handveð stefnda, veðið flutt­ist sjálf­krafa í vörslur Arion banka hf. með fyrrnefndri ákvörðun Fjár­mála­eftir­lits­ins.

                Stefnandi tekur fram að af áður nefndri yfirlýsingu stjórnar Kaupþings banka hf. hafi leitt að handveð stefnda samkvæmt veðsamningi nr. 66240 féll niður, þegar ekki var lengur til nein krafa á hendur Júlíusi Jónassyni persónulega sem handveðið var sett til að tryggja skil­vísar greiðslur á. Þar sem slík persónuleg krafa á Júlíus, til greiðslu skuldbindinga hans til hluta­bréfa­kaupa, hafi ekki lengur verið til, hafi skulda­bréf samkvæmt fyrrnefndum láns­samn­ingi nr. 6001, frá 29. ágúst 2007, verið áritað upp­greitt 29. maí 2009 og í kjöl­farið afhent Júlíusi. Í framhaldi af því var hand­veð stefnda fellt niður í kerfum Arion banka, 4. júlí 2011, og afhent stefnda sem veð­sala.

                Eins og áður segir skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur Kaupþingi banka slita­stjórn, 25. maí 2009, á grund­velli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki en áður hafði bankanum verið veitt heim­ild til greiðslu­stöðvunar.

                Stefnandi bendir á að í 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, sé kveðið á um að sé ekki sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti o.fl. sam­kvæmt lögum nr. 21/1991. Fyrir liggi að eignir stefnanda nægi ekki til að efna skuld­bind­ingar hans að fullu. Í ljósi þessa sé stefnanda heimilt að krefjast riftunar ráð­staf­ana Kaupþings banka hf. eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrota­manns í skiln­ingi greindra laga. Frestsdagur í skilningi laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti sé 15. nóv­em­ber 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

                Þar sem stefnandi hafi talið eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar Júlíusar Jón­as­sonar, samkvæmt áðurgreindum lánssamningi, riftanlega ráðstöfun hafi hann, 17. maí 2010, með vísan til 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti rift þeirri ráð­stöfun. Júlíus hafi samhliða riftun verið krafinn um greiðslu á upp­greiðslu­verð­mæti láns­samn­ings­ins 25. sept­ember 2008, 34.978.679 kr., auk áfallinna vaxta. Í kjöl­farið hafi stefnandi og Júlíus ræðst við og lántakanum verið gefinn kostur á að greiða skuld sína við stefnanda eða leggja fram viðeigandi tryggingar og semja um greiðslu­kjör. Þar sem samkomulag hafi ekki náðst um uppgjör hafi stefn­andi, 23. júní 2010, höfðað mál á hendur Júlí­usi Jónassyni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til rift­unar á þeirri ráð­stöfun Kaup­þings banka hf., 25. september 2008, að fella niður per­sónu­lega ábyrgð Júlí­usar á greiðslu láns­samn­ings, dags. 29. ágúst 2007, ásamt síðari breyt­ingum. Þess var einnig krafist að Júlíus greiddi aðallega 34.978.679 kr. en til vara 28.317.604 kr. auk drátt­ar­vaxta og málskostnaðar. Fjárhæð varakröfu hafi tekið mið af end­ur­útreikn­ingi á stöðu láns­samn­ings Júlíusar miðað við 25. september 2008.

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2012, í máli nr. E-6875/2010, var rift þeirri ráðstöfun Kaupþings banka hf., 25. september 2008, að fella niður per­sónu­lega ábyrgð Júlíusar Jónassonar á áðurnefndum lánssamningi hans við bank­ann, dagsettum 29. ágúst 2007. Júlíus var enn fremur dæmdur til að greiða stefn­anda 28.317.604 kr. ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 25. júní 2010 til greiðsludags. Dómþoli, Júlíus, áfrýj­aði þessari niðurstöðu en felldi málið niður áður en það var flutt fyrir Hæsta­rétti.

                Eftir að ljóst var að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 18. desember 2012, stæði óhagg­aður gekk stefnandi að Júlíusi og krafði hann um greiðslu. Aðeins fékkst lítill hluti kröfunnar greiddur, eða 2.000.000 kr. Eftir þá greiðslu var fjár­hags­staða Júlíusar þannig að hann er ógjaldfær í skilningi 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Eftirstöðvar dómkröfunnar frá 18. desember 2012 eru því enn ógreiddar.

                Stefnandi vísar til þess að fyrir hafi legið bindandi dómur þar sem niður­fell­ingu Kaupþings banka á persónulegri ábyrgð Júlíusar Jónassonar var rift. Við það hafi stofn­ast krafa stefn­anda, sem leiði rétt sinn frá bankanum, á hendur stefnda samkvæmt 147. gr. laga nr. 21/1991 og fari um kröf­una eftir ákvæðum 142. gr. og 143. gr. sömu laga. Stefnandi hafi ekki náð að inn­heimta nema lítinn hluta kröfunnar á hendur Júlíusi enda sé hann ógjaldfær. Stefn­andi hafi því orðið fyrir tjóni vegna þess að hand­veð­setn­ing stefnda féll niður. Stefnda beri því að greiða stefnanda bætur eftir fyrirmælum 142. og 143. gr. laga nr. 21/1991. Stefn­andi hafi beint kröfu sinni að stefnda og krafist greiðslu, með greiðslu­áskorun dag­settri 7. febrúar 2014. Með tölvupósti lögmanns stefn­anda, 19. febrúar 2014, hafi verið boðuð viðbrögð stefnda við greiðslu­áskorun stefn­anda fyrir lok febrúar 2014. Engin viðbrögð hafa hins vegar borist. Stefnanda sé því nauð­ugur sá einn kostur að höfða þetta mál til að innheimta kröfu sína.

                Stefndi telur að til viðbótar við málavaxtalýsingu stefnanda verði að koma fram að stefnandi hafi gefið út stefnu á hendur stefnda 26. júní 2012 þar sem hann krafð­ist staðfestingar á riftun þeirrar ráðstöfunar Kaupþings banka, 25. september 2008, að fella niður persónulega ábyrgð lántaka Júlíusar Jónas­sonar á láni til hluta­bréfa­kaupa, sem hafði það í för með sér að réttur stefnanda til að leita fulln­ustu fyrir kröfum sínum í handveði stefnanda samkvæmt veðsamningi nr. 66240 féll niður. Stefn­andi hafi jafnframt krafð­ist þess að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefn­anda 22.153.790 kr. með drátt­ar­vöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, frá 25. sept­em­ber 2008 til greiðslu­dags. Í stefnunni sé vísað til þess að „þegar Kaupþing banki hf. ákvað 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð Júlíusar á greiðslu ofangreinds láns­samnings“ hafi það leitt til þess að „hin veð­tryggða krafa á hendur Júlíusi sam­kvæmt lánssamningi var ekki lengur til staðar“. Þar með „gat stefn­andi ekki leitað fulln­ustu fyrir kröfunni í veði sem stefndi hafði lagt fram til trygg­ingar“. Stefnan hafi verið þing­fest 13. september 2012, en málinu var hins vegar vísað frá dómi án kröfu (ex officio).

                Í greinargerð stefnanda í Hæstaréttarmáli nr. 378/2013, Júlíus Jónasson gegn Kaup­þingi banka hf., sé meðal annars vísað til þess að handveðið hafi fallið „sjálf­krafa niður við yfirlýsingu stjórnar [...] þann 25. september 2008“. Jafnframt segi að það leiði „af eðli handveðsins að það getur ekki staðið óhaggað til tryggingar á skil­vísum greiðslum, þegar skuld sú sem það á að tryggja hefur verið felld niður“. Loks vísi stefn­andi til þess að hann eigi val um það hvern hann krefji um greiðslu á skuld­bind­ingu eigi fleiri en einn aðili að standa skil á henni.

                Í stefnu þessa máls sé vísað til þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að handveðsetning stefnanda féll niður. Upphafstími dráttarvaxta sé ekki lengur 25. sept­em­ber 2008, heldur 4. júlí 2011 í aðalkröfu, með vísan til þess að á þeim degi hafi veð­and­lagið verið fellt niður í bókhaldi Arion banka hf. og afhent stefnanda. Vara­krafan sé miðuð við dagsetninguna 29. maí 2009, með vísan til þess að þá hafi skulda­bréf aðal­skuld­arans verið áritað uppgreitt og afhent honum. Þrautavarakrafan sé miðuð við þann tíma þegar persónuleg ábyrgð á lánssamningi hafi verið felld niður, 25. september 2008, en upphafstími dráttarvaxta sé hins vegar 25. júní 2010.

Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir því að fallast eigi á fjárkröfur hans

                Þar sem stefndi byggir kröfu sína um frávísun meðal annars á því að kröfur stefn­anda séu vanreifaðar þykir rétt að greina málsástæður hans fyrir fjárkröfunni nokkuð ítarlega.

                Stefnandi byggir á því að þar sem þeirri ráðstöfun, sem felldi handveð stefnda niður, hafi verið rift beri stefnda að standa stefnanda skil á andvirði handveðsins sam­kvæmt 142. og 143. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Óumdeilt sé að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 18. desember 2012, í máli nr. E-6875/2012 hafi verið rift þeirri ákvörðun Kaupþings hf., 25. september 2008, að fella niður persónulega ábyrgð Júlíusar Jónassonar á greiðslu lánssamnings nr. 6001, sem hann undirritaði 29. ágúst 2007. Með þessu hafi verið rift þeim gjörningi að per­sónu­leg ábyrgð Júlíusar á skuldbréfi við bankann, frá 29. ágúst 2007, hafi fallið niður 25. september 2008 sem leiddi til þess að bréfið var áritað uppgreitt 29. maí 2009, hand­veð­setning stefnda felld niður og veðandlagið, hlutdeildarskírteini í ríkis­verð­bréfa­sjóði KAUP GBM, afhent honum 4. júlí 2011.

                Niðurfelling persónulegrar ábyrgðar Júlíusar Jónassonar, sem hafi nú verið rift, hafi verið forsenda þess að handveðsetning stefnda féll niður þegar Kaupþing hf. átti ekki lengur neina kröfu á hendur Júlíusi sem handveðið átti að tryggja skilvísar greiðslur á. Af þessu leiði að þeim gjörningum sem leiddu til niðurfellingar á hand­veð­setn­ingu hafi nú verið rift.

                Í ljósi framangreinds eigi stefnandi nú kröfu á hendur stefnda samkvæmt reglum 147. gr. laga nr. 21/1991, sbr. ákvæði 142. og 143. gr. laganna. Stefndi hafi hvorki orðið við áskorun um að greiða skuld sína né leggja fram tryggingu að nýju.

                Stefnandi telji stefnda hafa verið nákominn Kaupþingi banka þar sem stefndi hafi um árabil verið einn aðalleikandinn í flóknum leikfléttum í íslensku viðskiptalífi, þar sem hann hafi verið umfangsmikill eigandi, stjórnandi og fjár­festir, gjarnan tengdur við félag sitt og bróður síns, Bakkavör Group. Í gegnum félaga­sam­steypur sínar hafi stefndi ráðið yfir nánast helmingi hluta í Exista hf., en það félag hafi verið stærsti hluthafinn í stefnanda. Exista hf. hafi átt 39,6% hluta­fjár í Bakka­vör auk þess sem Bakkabræður Holding B.V. hafi átt 45% í Exista hf. Því til við­bótar hafi bræð­urnir Lýður Guðmundsson og stefndi setið í stjórnum þessara félaga. Exista hf. hafi verið stærsti hlutahafi í Kaupþingi banka með um fimmtungs­hlut og ávallt haft að minnsta kosti einn mann í stjórn bankans. Þannig hafi stefndi haft veru­leg stjórn­un­ar­tengsl við bankann. Fjármálaeftirlitið hafi talið framan­greinda aðila, Bakka­vör Group og Exista hf., fjárhagslega tengda í skilningi 2. gr. reglna nr. 216/2007 um stórar áhættu­skuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Í þessu ljósi verði að telja ótví­rætt að stefndi sé nákominn stefnanda í skilningi 4., 5., og 6. tölu­liðar 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Stefnandi telji jafnframt að stefndi hafi aldrei getað verið í góðri trú. Með vísan til 2. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991 og þess sem að framan greini um tengsl stefn­anda og stefnda, sé krafa stefnanda á hendur stefnda óháð grand­semi hans. Verði ekki fallist á framangreindan rökstuðning fyrir tengslum stefnda og stefn­anda sé allt að einu ljóst að stefndi hafi alltaf verið grandsamur um þær aðstæður sem riftun fyrr­nefndrar niðurfellingar á persónulegri ábyrgð Júlíusar Jónassonar byggðist á. Stefn­andi vísar til þess sem framan greinir um náin stjórnunar- og fjárhagsleg tengsl stefnda og Kaup­þings banka. Stefnda hafi af þessum sökum hlotið að vera ljóst á hverju hin rift­an­lega ráð­stöfun byggðist. Óveðursský hefðu hrannast upp á fjár­mála­mörk­uðum á árinu 2008. Það hafi valdið miklum erfiðleikum í rekstri bæði félaga stefnda sem og Kaupþings banka, sem stefndi var í nánum tengslum við eins og áður greini. Þessi atvik hafi leitt til þess að Kaupþing banki, sem og fyrirtæki stefnda, hafi orðið greiðslu­þrota á einn eða annan hátt.

                Enn fremur verði að horfa til þess að sá tími sem grandsemi stefnda miðist við sé þegar hann losnaði undan tryggingunni sem slíkri. Veðsetningin sem slík hafi fallið niður þegar handveðið var afhent stefnda sem veðsala, 4. júlí 2011. Þar sem veð­samn­ing­ur­inn hafi kveðið á um að veðið stæði til tryggingar skilvísum greiðslum á öllum skuld­bind­ingum Júlíusar Jónassonar við stefnanda, hafi það ekki verið fyrr en að stefndi fékk veðandlagið afhent sem hann losnaði undan skuldbindingu sinni.

                Á þeim tíma hafi stefnda ekki getað dulist þær ástæður sem riftunarkrafan byggð­ist á. Félag hans Bakkavör Group hafi farið í gegnum algera endur­skipu­lagn­ingu, Exista hf. orðið gjaldþrota og Kaupþingi banka skipuð slitastjórn. Þá þegar hafi fallið dómar um sama sakarefni, þar sem fallist hafi verið á riftunarkröfur stefnanda. Því sé hafið yfir allan vafa að stefndi hafi verið grandsamur um þær ástæður sem riftunar­krafan byggð­ist á þegar hann losnaði undan skuldbindingu sinni, í skilningi 1. mgr. 147. gr. laga nr. 21/1991.

                Krafa stefnanda sé um endurgreiðslu sem samsvari þeirri auðgun sem stefndi hafi notið vegna niðurfellingar veðsins. Stefnandi byggi kröfu sína um endurgreiðslu úr hendi stefnda á 142. gr. laga nr. 21/1991 eins og áður segi. Hann byggi á því að auðgun stefnda svari til verðmætis tryggingar­andlagsins þegar stefndi losnaði undan skuld­bindingu sinni og persónuleg ábyrgð Júlíusar Jónassonar var felld niður. Hefði ekki komið til þess hefði stefnandi átt gilt handveð til tryggingar hinni per­sónu­legu ábyrgð Júlíusar, sem unnt væri að ganga að. Tjón stefnanda svari jafnframt til auðg­unar stefnda.

                Ekki þykir þörf á að tíunda þau rök sem stefndi færir fyrir fjárhæð og gjald­daga í aðal-, vara- og þrautavarakröfum sínum.

                Verði ekki fallist á það sem að framan greini um endurgreiðsluskyldu stefnda, byggi stefnandi á því að hann eigi skaðabótakröfu á stefnda, sömu upphæðar og áður greinir á hendur stefnda vegna ólögmætrar og óréttmætrar auðgunar hans af niður­fell­ingu handveðsetningarinnar. Skaðabótakrafan byggist á þeim atvikum og máls­ástæðum sem að framan sé lýst að breyttu breytanda. Óumdeilt sé að stefndi hafi notið hags af rift­an­legri ráðstöfun, enda hefði handveðsetning hans annars aldrei fallið niður. Nefnd ráð­stöfun hafi bæði verið saknæm og ólögmæt í skilningi skaða­bóta­réttar. Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð stefnda. Hann vísar enn fremur til ólög­festra réttarreglna um óréttmæta auðgun, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 19. júní 2003 í máli nr. 39/2003.

                Stefnandi byggir á því að hann sé réttur aðili að lögum til að sækja þessa kröfu úr hendi stefnda, sbr. meðal annars 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og dóm Hæstaréttar, 10. maí 2012, í máli nr. 518/2011. Enda þótt láns­samn­ingur Júlíusar hafi verið framseldur Nýja Kaupþingi banka hf. með ofan­greindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sé ljóst að þetta mál lúti að endurheimt verð­mæta sem Kaup­þing banki hf. hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Arion banka hf. Stefn­andi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi hygg­ist end­ur­heimta með þessari málshöfðun. Stefnandi byggi á því að lánssamningur Júlí­usar og handveð stefnda hafi, 25. september 2008, verið eign stefnanda. Þann sama dag hafi verð­mæti hans verið rýrt með því að fella hvort tveggja niður. Sú staðreynd, að kröfu­rétt­indin, sem veð­inu hafi verið ætlað að tryggja, hafi verið flutt til Nýja Kaup­þings banka hf. með ákvörðun Fjármála­eftirlitsins, 21. október 2008, breyti ekki neinu í þessum efnum, enda hafi verðmætin þegar verið gefin eftir. Þessu til stuðn­ings bendir stefn­andi á að lánssamningur Júlíusar og kröfuréttindi tengd þeim samn­ingi hafi verið framseld Arion-banka hf. án þess að nokkuð hefði fengist upp í kröf­una.

                Stefnandi byggir kröfur sínar á 147., sbr. 142. og 143. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti og lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breyt­ingum. Enn fremur vísar hann til laga nr. 75/1997 um samningsveð, einkum 22. gr. lag­anna. Krafa hans um dráttarvexti, byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, einkum 129. og 130. gr. Vegna virðisaukaskatts af málflutn­ings­þóknun vísar hann til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísast til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, með síðari breytingum, þar sem segi að mál sem slita­stjórn höfði á grund­velli þess ákvæðis skuli þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjár­mála­fyrir­tæki var tekið til slita, 3. mgr. 32. gr., 1. mgr. 35. gr., 40. gr., 41. gr., og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991. Skaðabótakrafa hans styðst við almennar reglur skaða­bóta- og gjald­þrota­réttar sem og almennar ólögfestar reglur um óréttmæta auðgun.

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir því að málinu verði vísað frá dómi

                Stefndi styður þá kröfu sína að málinu verði vísað frá dómi fyrst með því að stefn­andi reyni, með kröfu­gerð sinni, að komast fram hjá þeim málshöfðunarfresti sem kveðið sé á um í riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með kröfunni reyni hann að komast út fyrir þau tímamörk sem sett séu um slíkar ráð­staf­anir. Í stefnu segi að málið sé höfðað á grundvelli 147. gr. laga nr. 21/1991 sbr. 142. og 143. gr. sömu laga. Samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 hefjist máls­höfð­un­ar­frestur vegna riftunarkröfu við lok kröfu­lýs­ing­ar­frests. Sam­kvæmt 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 146/2011, sé frestur fjár­mála­fyrirtækja til að höfða riftunarmál 30 mánuðir. Kröfulýsingarfresti hafi lokið 30. desem­ber 2009. Sam­kvæmt lögum hafi því borið að höfða mál eigi síðar en 30. júní 2012. Þetta mál sé hins vegar ekki höfðað fyrr en með birtingu stefnu, 22. maí 2014, tæpum 54 mánuðum eftir að kröfu­lýs­ing­ar­fresti lauk, eða tæpum 24 mánuðum eftir að frestur til að höfða málið leið undir lok. Máls­höfð­un­ar­frestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 sé því liðinn fyrir löngu. Af þessum ástæðum beri að vísa málinu frá dómi, að minnsta kosti þeim hluta sem byggi á riftunarreglum gjaldþrotalaga.

                Stefndi byggi frávísunarkröfuna jafnframt á því að kröfur stefnanda miði að því að ná fram sömu niðurstöðu og hefði komið út úr riftunarmáli hefðu máls­höfð­un­ar­frestir ekki verið liðnir. Stefndi vísar hér til stefnu sem stefnandi hafi fyrirhugað að þing­festa 13. september 2012, þar sem byggt var á riftunarreglum gjaldþrotalaga eins og í þessu máli. Stefndi vísar til þess að riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga séu lög­mæltar skaðabótareglur, sem gangi framar ólögfestri sakarreglu íslensks skaða­bóta­réttar, en þeirri reglu verði aðeins beitt um tilvik sem lögfestar skaðabótareglur taki ekki til. Ákvæði um málshöfðunarfresti sé óhjákvæmilegur hluti af þeim reglum sem ekki sé hægt að komast fram hjá. Þess vegna beri að vísa málinu frá dómi.

                Stefndi byggi á því að riftunarreglur gjaldþrotalaga verði að sæta einhverjum skyn­sam­legum takmörkunum, meðal annars út frá almennu viðskiptaöryggi. Riftunar­reglur gjald­þrota­laga séu hlutlægar. Í því felist að viðsemjandi eða rétthafi verði að hlíta riftun þótt gjaldþrot hafi alls ekki verið fyrirsjáanlegt þegar umrædd ráðstöfun fór fram. Stefndi sé ábyrgðaraðili á því láni sem málið sé sprottið af vegna handveðs sem hann veitti æsku­vini sínum án endurgjalds. Málshöfðunarfrestir gagnvart aðalskuldara séu 30 mánuðir. Með því að fallast á að kröfur stefnanda verði teknar til efnislegrar með­ferðar á hendur stefnda sé í raun samþykkt að málshöfðunarfrestir gagnvart ábyrgð­ar­aðilum séu rýmri en málshöfðunarfrestir á hendur aðalskuldara. Slík niður­staða fái ekki stað­ist og gangi þvert gegn þeim jafnræðissjónarmiðum sem riftunar­reglum sé ætlað að tryggja.

                Stefndi byggi frávísunarkröfu sína á því að hann eigi ekki að þurfa að sæta því að höfðað sé riftunarmál á hendur aðalskuldara, án þess að honum sé gefinn kostur á að taka til varna í því máli. Niðurstaðan eigi síðan allt að einu að leiða til þess að hann eigi að þola endurgreiðslukröfur á grundvelli þeirrar riftunar sem honum var ekki gefið tækifæri til að eiga aðild að.

                Stefndi byggi frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé van­reif­aður, óskýr og auk þess felist í honum misræmi sem geri stefnda erfitt að taka til varna í málinu. Sem dæmi um þetta megi nefna að á einum stað í stefnu sé vísað til þess að með niðurfellingu á persónulegri ábyrgð aðalskuldarans 25. september 2008, hafi hand­veð­setn­ing stefnda fallið niður. Á öðrum stað í stefnu sé hins vegar vísað til þess að „Veð­setn­ingin sem slík féll niður þá er handveðið var afhent stefnda sem veð­sala 4. júlí 2011“. Hafi veðsetningin sem slík – hvað sem það þýði – að mati stefn­anda ekki verið fallin niður fyrr en 4. júlí 2011, hafi það áhrif á þær varnir sem stefndi tefli fram í málinu, t.d. að því er varðar tjón, aðild og framsal til nýja bank­ans.

                Stefndi byggi á því að vísa eigi frá skaðabótakröfu og kröfu um óréttmæta auðgun vegna vanreifunar. Ekki sé nein tilraun gerð til þess að lýsa því hvernig skil­yrði um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu uppfyllt varðandi skaða­bóta­kröf­una. Ekki sé heldur reynt að rökstyðja að hvaða leyti ólögfest sjónarmið um órétt­mæta auðgun gætu átt við í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn kröfu stefnda um frávísun

                Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum stefnda fyrir frávísun. Stefndi byggi kröfu sína um frávísun á þremur meginástæðum. Hann vísi fyrst til þess að máls­höfð­un­ar­frestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi verið lið­inn þegar málið var höfðað. Í annan stað byggi hann á því að til þess að ábyrgðar­skuld­bind­ing hans á grundvelli handveðsetningar geti raknað við að nýju, sbr. 147. gr. laga nr. 21/1991, hefði þurft að veita stefnda aðild að riftunarmáli sem var höfðað og dæmt á hendur skuldaranum Júlíusi Jónassyni. Í þriðja lagi byggi stefndi á því að kröfur stefnanda séu vanreifaðar.

                Stefndi hafi gefið út handveðsyfirlýsingu þar sem hann setji Kaupþingi banka að handveði hlutdeildarskírteini sín í ríkis­verð­bréfa­sjóði til tryggingar skil­vísum og skað­lausum greiðslum öllum skuldbindingum Júlíusar við stefn­anda. Ástæða þessa hafi verið verðlækkanir á hlutabréfum sem Júlíus átti og hafi sett bank­anum að veði til trygg­ingar greiðslu lána og stefnandi hafi því krafist aukinna trygg­inga af honum.

                Í september 2008 hafi Kaupþing lýst yfir því að hann myndi ekki krefja Júlíus persónu­lega um greiðslu þeirra lána sem honum voru veitt til að kaupa hlutabréf í bank­anum. Þessum gerningi bankans hafi verið rift með bréfi slitastjórnar, 17. maí 2010, og hafi riftunin verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 18. desember 2012. Ekki hafi verið fært að innheimta alla skuldina hjá Júlíusi þar sem hann hafi reynst ógreiðslufær eftir að hann hafði greitt hluta skuldarinnar.

                Því leiði sjálfkrafa af 147. gr. laga nr. 21/1991 að ábyrgð stefnda samkvæmt hand­veðs­yfirlýsingu rakni við þegar niðurfelling á persónulegri ábyrgð Júlíusar hafi verið rift, 17. maí 2010. Þar sem ekki hafi tekist að innheimta kröfu á hendur Júlíusi nema að litlu leyti, sökum ógjaldfærni, eigi stefnandi kröfu á hendur stefnda um greiðslu þess sem sé ógreitt af kröfunni á hendur Júlíusi, á grund­velli ábyrgð­ar­skuld­bind­ingar stefnda.

                Þegar hafi átt að innheimta handveð stefnda hafi komið í ljós að það hefði verið afhent honum, 4. júní 2011. Þá leiði af ákvæðum 147. gr. laga nr. 21/1991 að stefn­andi eigi þá kröfu á stefnda sem nemi andvirði veðsetningar sem hægt sé að ganga að til fulln­ustu kröfunnar.

                Stefnandi telur málsástæðu stefnda um málshöfðunarfrestinn byggða á mis­skiln­ingi um eðli þessa máls. Þetta sé ekki riftunarmál samkvæmt lögum nr. 21/1991. Í þessu máli sé inn­heimt skuldbinding stefnda samkvæmt ábyrgðar­yfir­lýs­ingu hans. Máls­höfð­un­ar­frestur 148. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um dómsmál sem sé höfðað til að ná fram riftun. Það hafi verið gert í máli á hendur Júlíusi Jónassyni. Máls­höfð­un­ar­frestur 148. gr. eigi við um það mál. Í því hafi verið fall­ist á riftun á niðurfellingu persónu­legrar ábyrgðar hans á greiðslu þeirra lána sem hann tók hjá stefnanda til hluta­bréfa­kaupa.

                Stefnandi telur tilvísun stefnda til 148. gr. laga nr. 21/1991 ekki eiga við sakar­efni þessa máls. Í þessu máli sé ekki krafist riftunar á gerningi. Þvert á móti sé krafist greiðslu á grundvelli ábyrgðarskuldbindingar stefnda sem hafi raknað við samkvæmt 147. gr. laga nr. 21/1991, þegar rift var niðurfellingu Kaupþings banka á hinni pers­ónu­legu ábyrgð Júlíusar á greiðslu láns sem bankinn veitti honum.

                Þetta dómsmál hefði aldrei verið nauðsynlegt hefði stefnda ekki ranglega verið afhent það handveð sem hann hafði sett bankanum að veði til tryggingar greiðslu láns Júlíusar.

                Þar sem þetta mál sé ekki riftunarmál samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 eigi máls­höfðunar­frestur samkvæmt 148. gr. laganna ekki við. Riftunin hafi þegar farið fram gagnvart aðalskuldara. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar byggist ábyrgð­ar­skuldbinding á þeirri greiðsluskyldu sem sé í réttarsambandi aðalskuldara og kröfu­hafa. Máls­ástæða sem byggist á málshöfðunarfresti laga nr. 21/1991 geti ekki leitt til frá­vís­unar málsins.

                Sú málsástæða stefnda að hann hafi átt að fá að taka til varna í riftunarmáli á hendur aðalskuldara, Júlíusi Jónassyni, sé haldlaus og röng. Við aðstæður sem þessar sé fyrir hendi tvenns ­konar réttarsamband. Ann­ars vegar réttarsamband kröfuhafa og aðal­skuldara og hins vegar sjálf­stætt réttar­sam­band ábyrgðarmanns og kröfu­hafa sem veiti ábyrgðarmanni heim­ild til end­ur­kröfu á aðalskuldara, komi til greiðslu ábyrgð­ar­manns. Það sé eðli ábyrgð­ar­skuld­bind­inga í kröfurétti að á slíka ábyrgð reyni fyrst þegar aðalskuldari standi ekki við greiðsluskyldu sína.

                Aldrei hefði reynt á handveðsetningu stefnda hefði aðalskuldari, Júlíus Jónas­son greitt kröfuna. Það hafi því ekki verið nein réttarfarsleg nauðsyn á aðild stefnda að mál­inu á hendur Júlíusi þar sem krafist var riftunar á niðurfellingu Kaup­þings banka á greiðslu­skyldu hans.

                Ábyrgð stefnda ráðist af því hver afdrif skuldarinnar verði. Hann sé ekki aðili að réttarsambandi stefnanda og aðalskuldara. Þessi málsástæða stefnda sé til­hæfu­laus og röng. Dómsmálið hafi varðað riftun yfirlýsingar sem var beint að Júlíusi og kröfu um endurgreiðslu á hendur honum en hafi ekki varðað ábyrgð stefnda samkvæmt þeirri yfirlýsingu sem hann gaf. Stefndi hafi því ekki átt að eiga aðild að því máli.

                Í þriðja lagi beri stefndi því við að ákveðnir þættir í stefnu séu vanreifaðir án þess að það sé ítarlega rökstutt í greinargerð.

                Greiðsluskylda stefnda vegna handveðs sem hann veitti Kaupþingi banka vegna allra skulda Júlí­usar Jónassonar við bankann, hafi fallið niður þegar persónuleg ábyrgð Júlí­usar á greiðslu lánanna var felld niður 25. september 2008. Handveðið hafi alltaf verið fyrir hendi. Þegar niðurfellingu greiðsluskyldu Júlíusar hafi verið rift hafi greiðslu­skylda sam­kvæmt ábyrgð­ar­yfirlýsingu stefnda raknað við.

                Það hafi ekki verið fyrr en þegar handveðið hafi verið afhent stefnda sjálfum að handveðið hafi fallið niður. Um leið og það hafi gerst hafi stofnast krafa stefnanda á hendur stefnda eftir reglum 147. gr. laga nr. 21/1991. Tilraunum stefnda til þess að snúa út úr þessu í atvika­lýsingu sé hafnað.

                Vegna skaðabótakröfu stefnanda og kröfu um endurgreiðslu á grundvelli órétt­mætrar auðgunar liggi fyrir að stefndi hafi haft hag af hinni riftanlegu ráð­stöfun. Honum hafi verið afhent handveðið ranglega. Honum hafi verið afhent það í stað þess að handveðið rynni til stefnanda til greiðslu á skuld­bind­ingum Júlíusar Jónassonar. Auðgun stefnda liggi fyrir og sé nákvæmlega lýst í stefnu. Þar sé því jafnframt lýst hvernig stefndi hafi aldrei getað verið í góðri trú um niðurfellingu veðs­ins, sakir tengsla, þekk­ingar og stöðu sinnar.

                Auðgunin hafi verið ólögmæt af því að hún skerti réttmæta eign stefnanda. Í stefnu sé tilgreint að stefnda hafi hlotið að vera ljóst á þessum tíma, þegar hann tók við veð­and­lag­inu, gegn betri vitund um rétt stefnanda, að hann hefði bakað sér skaða­bótaábyrgð gagnvart stefnanda.

                Lýsing í stefnu á þessum atriðum sé glögg. Stefnda geti ekki dulist að skilyrði um orsaka­tengsl milli háttsemi hans og tjóns stefnanda sé upp­fyllt svo og skilyrðið um senni­lega afleiðingu. Hefði handveðið verið til staðar, hefði stefnandi fengið greiðslu upp í kröfu sína. Flókn­ara sé þetta ekki.

                Þær málsástæður sem stefndi færi fyrir frávísun málsins séu rangar og hald­lausar og því beri að hafna þeim.

Niðurstaða

                Stefnandi, Kaupþing, krefst þess að stefndi, Ágúst Guðmundsson, greiði sér til­tekna fjárhæð. Að baki því liggja þau atvik að Júlíus Jónasson, starfsmaður Kaup­þings banka, fékk í ágúst 2007 lánað fé hjá bankanum til þess að kaupa hlutabréf í bank­anum sem voru tryggð með veði bankans í bréfunum. Þegar hlutabréfin lækkuðu í verði kall­aði bankinn eftir frekari tryggingum frá lántakanum. Stefndi, sem er vinur lán­taka, lagði vegna þessarar kröfu bankans fram, í apríl 2008, handveð til trygg­ingar öllum skuldum Júlíusar við bankann. Síðla í september sama ár lýsti bankinn yfir því við lán­tak­ann að persónuleg ábyrgð hans á greiðslu lánsins væri felld niður en bankinn hélt áfram veði í hlutabréfunum. Um viku síðar skipaði Fjár­mála­eftir­litið bankanum skila­nefnd. Vegna yfirlýsingar bankans í september 2008 var lán­tak­anum Júlíusi, í lok maí 2009, afhent skuldabréfið, áritað um að það væri uppgreitt. All­nokkru síðar, í júlí 2011, var handveð stefnda fellt niður og afhent honum. Við slita­með­ferð Kaup­þings banka var rift þeirri yfirlýsingu Kaupþings banka að Júlíus væri laus undan persónu­legri skyldu til þess að greiða bankanum lánið. Riftunin var síðar staðfest með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur. Kröfu sína á hendur stefnda byggir stefn­andi á því að við rift­un­ina hafi réttarsamband stefnanda, sem leiðir rétt sinn frá bank­anum, og stefnda raknað við.

                Þessa málsástæðu byggir stefnandi á 147. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi telur að vísa beri málinu frá dómi. Það beri í fyrsta lagi að gera þar sem stefnandi höfði málið of seint en hann sé bundinn af málshöfðunarfresti 148. gr. laga nr. 21/1991.

                Ákvæði 147. gr. laga nr. 21/1991 hljóðar svo:

Ef þriðji maður hefur sett tryggingu eða gengið í ábyrgð fyrir skuldum þrota­manns en losnað frá skuldbindingu sinni vegna riftanlegrar greiðslu eða fulln­ustu­gerðar á þrotabúið kröfu á þriðja mann eftir reglunum í 142. og 143. gr., sbr. 145. gr., ef þriðji maður vissi eða mátti vita um aðstæðurnar sem riftunar­krafa byggist á þegar hann losnaði frá skuldbindingu sinni. Þrotabúið getur krafist veðtryggingar á ný ef unnt er að setja hana.

                Dómurinn fær ekki séð hvernig þetta lagaákvæði getur átt við þær aðstæður sem þetta mál er sprottið af. Þrotamaður í þessu máli er stefnandi, Kaupþing hf., sem er fyrrum Kaupþing banki í slitameðferð. Lagaákvæðið á við um þær aðstæður þegar þriðji maður losnar undan skuldbindingu sem hann hafði gengist undir vegna skuldar þrota­manns­ins. Þar sem þess er hvergi getið og ekki byggt á því að stefndi hafi sett trygg­ingu fyrir skuldum Kaupþings banka verður ekki séð að ákvæðið geti átt við um atvik þessa máls.

                Stefnandi byggir á því að réttarsamband stefnda og stefnanda hafi raknað við þegar rift var þeirri yfirlýsingu Kaupþings banka að Júlíus Jónasson væri laus undan persónu­legri greiðsluskyldu sinni á því láni sem hann hafði tekið hjá bankanum. Þar sem því hefur verið hafnað að stefnandi geti byggt endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna þeirra atvika á 147. gr. laga nr. 21/1991 þarf ekki að taka afstöðu til þeirrar máls­ástæðu stefnda að máls­höfð­unar­frestur laganna hafi verið liðinn.

                Stefnandi byggir næst á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna þessara atvika.

                Fallist er á það með stefnda að stefnandi hafi ekki reifað þennan grundvöll máls­ins nægjanlega en ekki er gerð nein grein fyrir því hverjar eru þær saknæmu og ólög­mætu athafnir stefnda sem hafa valdið stefnanda því tjóni sem þetta mál er sprottið af.

                Jafnframt er málsástæða stefnanda um óréttmæta auðgun stefnda verulega van­reifuð þótt á henni virðist byggt.

                Þar sem dómurinn hefur hafnað því að stefnandi geti byggt kröfu sína á hendur stefnda í þessu máli á 147. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur van­reif­aðan þann grundvöll málsins að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni á saknæman og ólög­mætan hátt svo og málsástæðu hans um óréttmæta auðgun verður að vísa þessu máli frá dómi.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Þessu máli stefnanda, Kaupþings hf., á hendur stefnda, Ágústi Guðmundssyni, er vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.