Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2015


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Kröfugerð


                                     

Fimmtudaginn 24. september 2015.

Nr. 204/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Aroni Leó Jóhannssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

(Tómas Jónsson hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Kröfugerð.

A var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið B hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum meðal annars að hann hlaut innkýldar framtennur og brotna tönn í efri gómi. Var refsing A ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga. Þá var A gert að greiða B 400.000 krónur í miskabætur auk bóta fyrir útlagðan sjúkrakostnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 5.828.012 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  af 3.177.895 krónum frá 25. ágúst 2013 til 19. apríl 2014 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá síðastgreindum degi til uppsögu dóms í málinu, en með sömu dráttarvöxtum af heildarfjárhæð kröfunnar frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og refsingu ákærða.

Um einkaréttarkröfu brotaþola er þess að gæta að fyrir héraðsdómi krafðist hann annars vegar miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur og hins vegar bóta vegna fjártjóns, sem næmi samtals 2.720.045 krónum, auk málskostnaðar. Síðastnefnda fjárhæð sundurliðaði brotaþoli þannig að áfallinn sjúkrakostnaður sinn í þremur liðum væri 145.195 krónur, en áætlaður sjúkrakostnaður í framtíðinni, sem greindur var í tvo liði, væri 2.574.850 krónur. Þá krafðist brotaþoli vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af kröfu um miskabætur frá 25. ágúst 2013 til uppsögu dóms í málinu, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga upp frá því til greiðsludags. Af kröfu um bætur fyrir fjártjón var á hinn bóginn ekki krafist vaxta. Við þessa kröfugerð getur brotaþoli ekki aukið fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, hvorki að því er varðar höfuðstól kröfu sinnar né vexti. Þá er þess að gæta að í hinum áfrýjaða dómi var vísað frá fyrrnefndum tveimur kröfuliðum brotaþola um bætur vegna áætlaðs sjúkrakostnaðar í framtíðinni, að fjárhæð samtals 2.574.850 krónur, en efnislega var tekin afstaða til hinna þriggja liðanna í kröfu hans um bætur fyrir fjártjón, svo og kröfuliðar vegna miskabóta. Samkvæmt 3. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ekki leitað fyrir Hæstarétti endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um einkaréttarkröfu nema að því leyti, sem dómur hefur verið felldur á hana að efni til. Að öllu framangreindu virtu getur brotaþoli því ekki komið hér að frekari kröfum en um bætur fyrir miska að fjárhæð 2.500.000 krónur og bætur fyrir fjártjón að fjárhæð 145.195 krónur, svo og um vexti af fyrrgreindu fjárhæðinni eins og hann krafðist í héraði, en að auki kröfu um málskostnað á báðum dómstigum.

Fyrrgreind krafa brotaþola um miskabætur er ekki reist á mati á varanlegum miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, heldur á ákvæði 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu staðfest með vísan til forsendna hans, þar á meðal um vexti og málskostnað. Ákærða verður gert að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði segir.  

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Aron Leó Jóhannsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 543.843 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Ákærði greiði B 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014.

                Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 4. mars 2014, á hendur:

                ,,Aroni Leó Jóhannssyni, kt. [...]

   [...], [...] og

                   X, kt. [...]

                   [...], [...],

fyrir líkamsárás í félagi, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. ágúst 2013 í Lækjargötu, Reykjavík, veist að brotaþola, B, kt. [...], með því að slá hann ítrekað í andlitið, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgna efri og neðri vör, sprungu í neðri vör, innkýldar framtennur í efri gómi og brotna tönn nr. 2 í efri gómi.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Daði Bjarnason hdl. f.h. B kt. [...], kröfu um miskabætur úr hendi ákærðu, að fjárhæð 2.500.000 kr., auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 25. ágúst 2013 til dómsuppsögudags. Dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, er krafist frá dómsuppsögu til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

Verjandi ákærða Arons Leós krefst aðallega sýknu. Til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu en til vara að ákærða verði ekki gerð refsing eða að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið en til þrautavara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara lækkunar. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar kom B, blóðugur í framan, að máli við lögreglumenn sem voru á eftirlitsferð í Lækjargötu á þessum tíma. Greindi B frá því að tveir menn, X og Aron, hefðu ráðist á sig og að Aron hefði byrjað árásina. Í skýrslunni segir að erfitt hafi verið að fá heilsteypta frásögn B sökum ástands hans. En í skýrslunni segir að svo virðist sem framtennur hafi verið lausar. Sjúkrabifreið flutti B á slysadeild.

Hinn 26. ágúst 2013 kærði B atburðinn sem í ákæru greinir. Hann lýsti samskiptum sínum og ákærðu í miðbænum á þessum tíma. Að því kom að Aron Leó kýldi hann í andlitið, fyrst einu sinni og reif svo í hann og urðu þá einhver átök milli þeirra en síðan hafi Aron kýlt hann fast með krepptum hnefa í andlitið og kvaðst hann þá hafa fundið tennur losna auk þess sem blæða tók úr munni hans. Hann kvað Aron hafa bakkað frá sér og sagt X að kýla sig sem hann gerði. Hann kvaðst viss um að Aron hefði valdið honum mestu tjóni og brotið í sér tennur.

                Ákærði Aron Leó lýsti samskiptum þeirra B í skýrslutöku hjá lögreglunni 7. nóvember 2013. Kvaðst hann hafa beðið B um að biðjast afsökunar á tilteknum ummælum en sem B neitaði og ýtti við Aroni sem ýtti á móti. Hann kvað B hafa komið fast upp að sér og tekið í fatnað sinn og reynt að ýta sér aftur á bak. Hann hefði spyrnt á móti og við það rákust höfuð þeirra B saman. Hann kvaðst telja að B hefði hlotið einhver meiðsl við þetta en sjálfur kvaðst Aron hafa fengið blæðandi sár á ennið. Það hefði ekki verið ásetningur hans að skalla B, höfuð þeirra hefðu rekist saman fyrir slysni.

                Ákærði X gaf skýrslu hjá lögreglunni 20. nóvember 2013 þar sem hann lýsti samskiptunum við B á þessum tíma. Hann kvað ósætti og ýtingar hafa átt sér stað milli Arons og B svo höfuð þeirra rákust saman. X lýsti því að er samskiptum Arons og B lauk hefði B komið að sér með kafthátt og verið ógnandi í framkomu. Leiddi það til þess að X kvaðst hafa kýlt B eitt högg í andlitið þar sem hann óttaðist að B ætlaði að kýla sig.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði Aron Leó neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á ferð í miðbænum á þeim tíma sem í ákæru greinir og heyrði B segja eitthvað niðrandi við sig. Hann kvaðst ekki hafa skilið hvers vegna B gerði þetta en ákærði þekkti B ekki. Ákærði gekk þá til B og spurði um skýringar. B sagði ákærða þá að koma sér í burtu en ákærði hefði þá heimtað afsökunarbeiðni frá B og gekk á eftir henni en B hefði enn sagt ákærða að koma sér í burtu. Er ákærði fór ekki reif B í hann og ætlaði að færa hann í burtu. Ákærði spyrnti þá á móti B sem hélt í hann með báðum höndum en þá skullu höfuð þeirra saman. Það hafi ekki verið ásetningur sinn að reka höfuðið í B. Hann kvaðst við höfuðhöggið hafa hlotið sár á enni við hárrótina og vísaði hann á ljósmyndir sem sýna áverkann á enni hans en B sé mun hærri en ákærði. Hann kvaðst hafa séð blæða úr munni B eftir þetta. B hefði þá rifið í jakka ákærða sem þá ýtti B frá. Í þessu hafi ókunnugur maður komið að og leitt ákærða afsíðis til að ræða við hann. Eftir það fór hann í burtu með vini sínum. Hann hefði ekki veist að B og aldrei slegið hann og hefði ekki séð meðákærða gera það en meðákærði átti ekki þátt í átökunum eða stimpingum milli þeirra ákærða og B.

Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst hafa gengið Lækjargötuna á þessum tíma ásamt Aroni og öðrum pilti er einhver kallaði á Aron og viðhafði eitthvað niðrandi um hann. Þeir gengu þá að piltinum og spurðu hvað gengið að honum og hvers vegna hann væri að þessu. Leiddi þetta til einhverra stimpinga milli ákærða Arons og B og skyndilega skullu höfuð þeirra saman svo báðir urðu blóðugir eftir. Blætt hafi úr enni Arons og úr munni B. Það hafi einhver komið að og stöðvað atburðarásina og leitt meðákærða afsíðis. Ákærði kvaðst hafa, ásamt tveimur félögum sínum, gengið að B sem þá gekk blóðugur í framan að ákærða ásamt vinum sínum og uppnefndi ákærða. Ákærða fannst eins og B ætlaði að ráðast á sig og sló hann þá frá sér í varnarskyni og lenti höggið á vanga B. Ákærði hefði farið í burtu eftir þetta. Ákærðu hafi ekki veist að B í félagi og slegið hann ítrekað í andlitið eins og lýst er ákæru. Hann sá meðákærða ekki slá B og er ákærði sló til B hafi samskiptum B og meðákærða verið lokið og meðákærði kominn afsíðis.

                Vitnið B kvaðst hafa verið staddur við Lækjargötu á þessum tíma ásamt vinum sínum er ákærðu komu gangandi að þeim og hafi verið með leiðindi en hann kvaðst þekkja X. Engin samskipti höfðu átt sér stað milli þeirra áður. Eftir þetta urðu leiðindi á milli þeirra eins og hann bar og ákærði Aron gekk fast upp að sér svo mjög stutt var á milli andlita þeirra. Aron hafi síðan tekið utan um sig og B tekið utan um Aron og reynt að ýta honum frá en þá rifnaði jakki Arons. Eftir þetta hafi hann fengið hnefahögg í andlitið frá Aroni svo tennur hans brotnuðu við höggið. Hann kvaðst hafa sagt Aroni margoft áður en þetta gerðist að hann vildi engin leiðindi og að hann vildi ekki berjast við hann en Aron hefði samt haldið áfram eins og rakið var. Aron tók í hann og reyndi B að ýta honum í burtu áður en höggið kom. Spurður um það hvort mögulegt sé að höfuð þeirra Arons hefðu rekist saman og í munn B kvaðst hann telja það mjög ólíklegt en honum var greint frá framburði Arons um þetta. Eftir hnefahöggið hafi Aron farið afsíðis og X þá komið að og kýlt hann. Hann kvað ólíklegt að X hefði upplifað sig sem ógnandi eins og X bar fyrir dóminum. B kvað höggið sem X sló ekki hafa verið fast. Engir áverkar hafi hlotist við það. Hann hafi verið sleginn þrisvar sinnum í þessari atburðarás. Ákærðu hafi hlaupið í burtu eftir þetta er lögreglan kom. Hann lýsti verkjum og óþægindum vegna áverkanna sem hann hlaut og andlegri líðan sinni. Þá lýsti hann tannviðgerðum sem hann hefur gengist undir.

                Vitnið C kvað þá B hafa verið í Lækjargötu á þessum tíma er ákærðu komu að með leiðindi en enginn aðdragandi var að þessu. Aron talaði eitthvað við B sem reyndi að fá hann til að hætta. Það næsta sem C vissi var er Aron reif í B og kýldi hann hnefahögg í andlitið. Spurður um það hvort hugsanlegt væri að Aron hefði óvart skallað B í andlitið kvað hann það hugsanlegt en hann hefði séð blæða úr enni Arons eftir þessi samskipti og staðfesti það að klæðnaður Arons þetta kvöld hefði verið eins og sjáist á ljósmynd meðal ganga málsins. Hann kvaðst ekki hafa séð höfuð þeirra Arons og B skella saman fyrir slysni. Hann kvaðst hafa séð Aron slá B í andlitið. Eftir þetta hafi þeir Aron og B slegist. Er einhver náði í lögregluna hlupu ákærðu í burtu en áður hefði X sparkað í andlit B. Hann sá X ekki slá B.

                Vitnið D kvaðst hafa verið í för með ákærðu og E á þessum tíma. B hefði kallað að Aroni „heldurðu að þú sért nettur“? Aron hefði þá snúið sér að B og spurt hvort hann væri að tala við sig. D kvaðst síðan hafa séð illindi milli ákærða Arons og B og þeir skollið saman. Hann kvað B hafa tekið í jakkaermi Arons sem ýtti B frá en B hélt fast í ermina svo þeir skullu saman. Hann kvað Aron hafa orðið blóðugan á enninu eftir þetta og blætt hafi úr munni B. Hann staðfesti að ljósmynd meðal ganga málsins væri af Aroni og sýni klæðnað hans þetta kvöld og áverka á þeim stað á enni Arons sem vitnið lýsti. Einhver átök urðu eftir þetta en engin högg hefðu átt sér stað. Hvorugur ákærðu hefðu veitt högg.

                Vitnið E kvaðst hafa verið á gangi um Lækjargötuna á þessum tíma ásamt ákærðu og D er þeir mættu strákum, meðal annars B. B kallaði að ákærða Aroni „hvað heldurðu að þú sért“ eða álíka. Aron hefði gengið að B og upphófst rifrildi eftir þetta. Þeir stóðu andspænis hvor öðrum er Aron ýtti B frá sér en þá greip B í jakkaermi Arons. Aron ýtti þá aftur við B með þeim afleiðingum að Aron fylgdi á eftir svo höfuð þeirra skullu saman. Hann kvað hafa blætt mikið úr munni B eftir þetta og þá hafi blætt úr enni Arons uppi við hársvörðinn. Hann kvaðst ekki hafa séð Aron slá B hnefahögg. Hann kvaðst ekki hafa neytt áfengis þetta kvöld og hafa séð það sem gerðist vel og muna atburði vel. Hann staðfesti að áverkar á enni Arons, sem sjást á ljósmynd meðal ganga málsins, séu hinir sömu og hann hlaut í samskiptunum við B og lýst var. Eftir samskipti Arons og B byrjaði rifrildi milli B og X og kvaðst hann hafa séð X slá B eitt högg og lauk samskiptum þeirra eftir þetta.

                Vitnið F kvaðst hafa verið í för með G og H á þessum tíma. Er þeir komu að B í Lækjargötu hafi hann verið blóðugur í framan en hann kvaðst ekki hafa séð hvernig B hlaut munnáverkann. B hefði haldið um munninn og sagst ætla að kæra það sem gerðist. Hann kvað ákærðu hafa slegist við B en hann viti ekki deili á þeim. F kvaðst hafa séð B kýldan eitt eða tvö högg í andlitið en árásarmennirnir hefðu þá hlaupið í burtu. Hann kvað annan árásarmannanna hafa slegið B en hann gat ekki sagt nánari deili á þeim manni.

Vitnið G kvaðst hafa verið í för með F og H á þessum tíma. Hann hefði séð B í Lækjargötu og var hann alblóðugur í framan og búið að skekkja í honum tennur en hann hefði verið að rífast við menn. Greinilegt var að eitthvað var búið að ganga á áður en G kom þarna að. Hann kvaðst hafa séð ákærða X slá B harkalega í andlitið en hann kvaðst ekki hafa séð Aron gera neitt. Hann kvað sér ekki hafa virst B líklegur til að gera neitt eða slá til baka eins og vitnið bar. Lögreglan hafi síðan komið og ákærðu þá hlaupið í burtu.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð B, dagsett 7. september 2013. Í vottorðinu segir að B hafi komið á slysadeild klukkan 1.31 hinn 25. ágúst 2013 eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás um einni klukkustund áður. Þá segir að ráðist hafi verið á B úti á götu og hann kýldur í andlitið. Því er lýst í vottorðinu að greinst hafi opið sár á vör og í munnholi, tannbrot og tannarliðhlaup. Honum var ráðlagt að leita til tannlæknis.

I, sérfræðilæknir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi ritaði vottorðið og staðfesti það fyrir dóminum og skýrði. Hann kvað áverka B geta samrýmst því að hann hefði verið kýldur hnefahögg í andlitið.

Fyrir liggur áverkavottorð B sem J tannlæknir ritar. Vottorðið er dagsett 15. nóvember 2013. Þar segir meðal annars að atburðurinn sem um ræðir hafi átt sérstað 25. ágúst 2013 og skoðaði tannlæknirinn B sama dag. Síðan segir í vottorðinu: „Tennur #11 og #21 kýldar inn í munn og hafa gengið einnig mikið niður þannig að bit hefur skekkst. (lateral luxation). Beingarður (alveolar bone) fyrir ofan þessar tennur brotinn út. Tönn #22 hefur glerungs-tannbeinsbrot“.

J tannlæknir skýrði og staðfesti vottorðið fyrir dóminum og gerði hann nánari grein fyrir áverkunum á tönnum B. Hann kvað áverkana geta samrýmst því að B hefði fengið hnefahögg í andlitið. Hann skýrði að töluvert þungt högg hefði þurft til að hljóta áverka eins og þá sem B hlaut. Hann kvað áverka nú hafa orðið eins og raun var, óháð tannáverkum sem hann hlaut í íþróttaslysi á árinu 2005. Hann skýrði áætlaðan kostnað sem líklega fellur til í framtíðinni til tannviðgerða vegna áverka sem B hlaut nú.

      Niðurstaða

                Ákærðu neita báðir sök. Gegn eindreginni neitun ákærðu, og með vísan til vitnisburðar B, er ósannað að ákærðu hafi veist að B í félagi og eru báðir ákærðu sýknaðir af þeim hluta ákærunnar.

                Ákærði Aron Leó kvaðst telja B hafa hlotið tannáverkann og áverkann á munnsvæði er höfuð þeirra skullu saman eins og hann lýsti. Þetta hafi gerst fyrir slysni og ekki verið ásetningur sinn. Vitnið B taldi ólíklegt að höfuð þeirra Arons hefðu skollið saman. Hann lýsti því að Aron Leó hefði slegið sig hnefahöggi í andlitið svo tennur hans losnuðu eins og lýst er í ákærunni. Vitnið C sá ákærða Aron Leó slá B hnefahöggi í andlitið. Meðal gagna málsins er ljósmynd af ákærða Aroni Leó sem hann og vitni hafa borið að hafi verið tekin þetta kvöld. Þar sjást áverkar ofarlega á enni ákærða Arons Leós og hefur hann sagt að áverkinn hafi hlotist er höfuð þeirra B skullu saman. Vitni styðja framburð ákærða Arons Leós um að höfuð þeirra B hafi skollið saman. Verður að ganga út frá því að það hafi gerst. Hins vegar er sannað með trúverðugum vitnisburði B og C, en gegn neitun ákærða Arons Leós, að hann sló B hnefahögg í andlitið. Með vitnisburði B er sannað að hann hlaut munnáverkann á varir og tennur við þetta högg. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í vitnisburði J tannlæknis og I sérfræðilæknis og er vísað til læknisfræðilegra gagna sem þessi vitni skýrðu og staðfestu fyrir dóminum.

Brot ákærða Arons er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Ákærði X hefur játað að hafa slegið B eitt hnefahögg. Vitnið B bar á sama veg um það, svo og vitnið G. Vitnið B kvað hnefahögg ákærða X ekki hafa verið fast og hann hefði enga áverka hlotið við það. Framburður ákærða X, um að honum hafi staðið ógn af B, fær enga stoð í vitnisburði eða gögnum málsins og er honum hafnað. Er þannig sannað með framburði ákærða X og með vitnisburði B og G að ákærði X sló B eitt hnefahögg í andlitið. Eins og vitnisburði B er háttað, sem kvaðst viss um að ákærði Aron Leó hefði veitt honum alla áverkana, ber að að heimfæra brot ákærða X undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningalaga.

                Ákærði Aron Leó hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann framdi brotið. Með vísan til þessa þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingar skilorðsbundið eins og lýst er í dómsorði.

                Ákærði X hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningalög og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 80.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

      Fram er komið að við samningu ákæru í málinu voru gerð mistök og bótakrafan var ekki öll tekin upp í ákæruna eins og hún barst ákæruvaldinu heldur aðeins sá hluti hennar er varðar miskabætur á grunvelli 26. gr. skaðabótalaga. Ákærðu hafa báðir samþykkt að bótakrafan sem lögmaður bótakrefjanda sendi ákæruvaldinu og dagsett er 7. febrúar 2014, verði tekin til efnismeðferðar í málinu. Sá hluti kröfugerðarinnar sem ekki var tekinn upp í ákæruna er svofelldur :

„Krafist er að brotaþola verði greiddur sá sjúkrakostnaður sem hann þurfti að bera í kjölfar árásarinnar. Þá er þess einnig krafist að brotaþola verði greiddur sá kostnaður sem öruggt þykir að hann þurfi að bera vegna tannviðgerða. Sundurliðast þessir kostnaðarliðir þannig, samkvæmt meðfylgjandi kvittunum og kostnaðarmati:

1.       Sjúkrabíll                                                                                          kr.        5.900

2.       Nýkomugjald og röntgen, 25. ágúst 2013                                  kr.      18.136

3.       Tannviðgerðir, 25. ágúst 2013                                                      kr.    121.159

4.       Fyrirhuguð vinn við að skipta út tönn númer 11                       kr.    523.110

5.       Fyrirhugaðar tannviðgerðir samkv. tannlækni                          kr. 2.051.740

Samtals               kr. 2.720.045

Þess er krafist að bótakrafa þessi verði tekin upp í ákæru og hún verði dæmd í væntanlegu refsimáli á hendur sakborningum í ofangreindu máli.“            

Vitnið B bar að hann hefði enga áverka hlotið af höggi því sem ákærði X veitti honum. Því var áður lýst að ákærðu eru sýknaðir af að hafa veist í félagi að B og bera þeir því ekki óskipta bótaábyrgð. Með vísan til þessa ber að sýkna ákærða X af öðrum hlutum bótakröfunnar en er varðar miskabætur á grunvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur B vegna háttsemi ákærða X hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 19. apríl 2014 er mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfunnar fyrir ákærða við þingfestingu málsins.

Þá greiði ákærði X 70.280 krónur í málskostnað við að halda bótakröfunni fram.

B á rétt á miskabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi ákærða Arons Leós. Þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 400.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 19. apríl 2014 er mánuðir var liðinn frá því að ákærða var birt bótakrafan við þingfestingu málsins.

Fyrstu þrír kröfuliðirnir í þeim hluta kröfugerðarinnar, sem féll út við ritun ákæru  en er rakinn hér að ofan, er útlagður kostnaður og eru þeir kröfuliðir að fjárhæð 145.195 krónur teknir til greina og ákærði Aron Leó dæmdur til greiðslu. Ekki er krafist vaxta á þessa kröfuliði. Kröfuliðir númer 4 og 5 byggjast á áætluðum kostnaði í framtíðinni. Kröfuliðunum hefur verið andmælt og eru þeir ódómtækir og ber að vísa þeim frá dómi.

      Auk þessa greiði ákærði Aron Leó 70.280 krónur í málskostnað við að halda bótakröfu fram.

Ákærðu greiði óskipt 40.700 krónur vegna útlagðs sakakostnaðar ákæruvaldsins.

      Ákærði Aron Leó greiði  401.110 króna málsvarnarlaun Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

      Ákærði X greiði 491.960 króna málsvarnarlaun Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Hildur Sunna Pálmadóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Aron Leó Jóhannsson, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, X, greiði 80.000 króna sekt og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði Aron Leó greiði B, kt. [...], 400.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001 frá 25. ágúst 2013 til 19. apríl 2014 en frá þeim tíma með dráttavöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði Aron Leó greiði B enn fremur 145.185 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

Ákærði Aron Leó greiði B 70.280 krónur í málskostnað.

Ákærði X greiði B, kt. [...], 100.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001 frá 25. ágúst 2013 til 19. apríl 2014 en frá þeim tíma með dráttavöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði X greiði B 70.280 krónur í málskostnað

Ákærðu greiði óskipt 40.700 krónur vegna útlagðs sakakostnaðar ákæruvaldsins.

      Ákærði Aron Leó greiði  404.110 króna málsvarnarlaun Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

      Ákærði X greiði 491.960 króna málsvarnarlaun Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.