Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2003. |
|
Nr. 375/2002. |
Rafey ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) gegn Margréti Dan Þórisdóttur (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.
M slasaðist í bifreiðaárekstri haustið 1998. Í málinu var deilt um hvort gera ætti upp bætur fyrir varanlega örorku hennar á grundvelli 5 -7. gr. eða 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þessar greinar laganna voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 37/1999. Hafði M 21 árs gömul nýlega hafið nám í tannsmíðum þegar hún lenti í slysinu. Með skírskotun til fyrri dóma Hæstaréttar í málum þar sem námsmenn voru ungir að árum og skammt á veg komnir í námi sínu þegar tjónsatvik urðu var niðurstaða Hæstaréttar að við uppgjör á bótum fyrir varanlega örorku M skyldi farið eftir reglu 8. gr. skaðabótalaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2002. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir réttinum.
I.
Stefnda lenti í bifreiðaárekstri 19. september 1998 og slasaðist. Hlaut hún við það varanlegan miska og varanlega örorku, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Er ágreiningslaust í málinu að áfrýjendur bera fébótaábyrgð gagnvart henni vegna slyssins og að leggja beri mat Atla Þórs Ólasonar, bæklunarskurðlæknis, til grundvallar um ákvörðun á miskastigi og örorku stefndu. Var tjón hennar gert upp með samkomulagi aðilanna 25. maí 2000, en stefnda gerði þó fyrirvara um að henni bæri frekari bætur fyrir varanlega örorku, sem með réttu ætti að gera upp á grundvelli þágildandi 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, en ekki 8. gr. sömu laga. Tekið var fram að fyrirvarinn væri einnig „vegna missis skólaárs.“
II.
Áfrýjendur telja að tjón stefndu fyrir varanlega örorku hafi réttilega verið gert upp á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga. Vísa þeir til þess að fordæmi Hæstaréttar í sambærilegum málum taki af allan vafa í þeim efnum.
Í nokkrum dómum Hæstaréttar hefur reynt á skil milli 5.7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga, þegar um námsmenn hefur verið að ræða, eins og þessar greinar laganna voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 37/1999. Eru hinir helstu í dómasafni réttarins 1998 bls. 1976, 2000 bls. 683 og 1658 auk dóma í málum nr. 160/2001, 19/2002 og 51/2002. Í fyrsttalda dóminum var um að ræða mann, sem kominn var langt í námi sínu þegar hann slasaðist. Af þeim sökum og öðrum, sem þar eru raktar, varð niðurstaðan sú að um uppgjör tjónsins skyldi farið eftir 5.7. gr. skaðabótalaga. Í öllum hinum tilvikunum varð niðurstaðan á hinn bóginn sú að 8. gr. laganna var talin eiga við um bótarétt tjónþolanna. Í flestum þessara mála voru námsmennirnir ungir að árum og sammerkt þeim öllum var að þeir voru skammt á veg komnir í námi sínu þegar tjónsatvikin urðu.
Fram er komið að stefnda lauk vorið 2002 námi því í tannsmíði, sem hún hafði nýlega hafið 21 árs gömul þegar hún varð fyrir slysi haustið 1998. Voru aðstæður hennar þannig og að öðru leyti um flest sambærilegar þeim, sem voru fyrir hendi í framangreindum dómsmálum að hinu fyrsttalda undanskildu. Þegar litið er til þessara fordæma verður ekki komist hjá að fallast á með áfrýjendum að við uppgjör á tjóni stefndu skyldi farið eftir reglu 8. gr. skaðabótalaga. Af hálfu stefndu voru gefnar þær skýringar degi fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að á síðasta námsári hennar hafi hún fengið laun í allt að sex mánuði fyrir vinnu á tannsmíðastofu til að uppfylla kröfur Tannsmiðaskóla Íslands um verklegt nám. Þetta atriði fær ekki breytt þeirri niðurstöðu, sem að framan er getið, auk þess sem skýringar stefndu eru of seint fram komnar, sbr. 160. gr. og 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt öllu framanröktu verður sýknukrafa áfrýjenda tekin til greina. Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum. Niðurstaða héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu verður staðfest, en gjafsóknarkostnaður hennar fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Rafey ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknir af kröfu stefndu, Margrétar Dan Þórisdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2002.
Stefnandi málsins er Margrét Dan Þórisdóttir, kt. 230777-6089, Starengi 116, Reykjavík, en stefndu eru Rafey ehf., kt. 470186-2089, Hamrahlíð 33 a, Reykjavík og Sjóvá-Almennar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík. Eftirleiðis verður vísað til Sjóvár-Almennra hf. sem Sjóvá.
Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 7. janúar sl., og áritaðri samdægurs um birtingu af lögmanni Sjóvá. Málið var þingfest hér í dómi 8. janúar sl., en dómtekið 16. maí sl. að aflokinni skýrslugjöf stefnanda og munnlegum málflutningi.
Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 3. september 2001.
Dómkröfur stefnanda:
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.935.072 krónur, en til vara skaðabætur að fjárhæð 540.958 krónur, í báðum tilvikum með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. september 1998 til 21. apríl 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí s.á. en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu:
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði tildæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.
Til vara krefjast stefndu lækkunar á kröfum stefnanda, og að dráttarvextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir, málsástæður og lagarök.
Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist í bifreiðaárekstri þann 19. september 1998. Stefndi Rafey ehf. var eigandi þeirrar bifreiðar, sem stefnandi lenti í árekstri við. Ágreiningslaust er, að ökumaður bifreiðar stefnda Rafeyjar ehf. var einn talinn eiga sök á árekstrinum. Atli Þór Ólason læknir mat varanlega líkamlega og fjárhagslega örorku stefnanda og varanlegan miska hennar af völdum slyssins, hvort tveggja til 8% skerðingar. Mat hans er dagsett 17. mars 2000 og liggur frammi í dóminum. Málsaðilar eru sammála um að leggja mat Atla Þórs til grundvallar bótauppgjöri þeirra í milli.
Stefnandi lauk stúdentsprófi vorið 1997 og hóf í kjölfarið störf á almennum vinnumarkaði. Hún hafði starfað í u.þ.b. hálft annað ár, þegar hún ákvað að hefja nám í Tannsmíðaskóla Íslands haustið 1998. Hún hafði aðeins verið við nám í nokkra daga, þegar hún slasaðist í umræddu umferðarslysi. Málsaðilar sammæltust um bætur aðrar en örorkubætur og greiddi stefndi lögmanni stefnanda hinn 25. maí 2000 1.335.379 krónur, þar af gengu til stefnanda 1.179.250 krónur. Í fjárhæð þeirri, sem stefnandi fékk voru bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 434.838 krónur. Lögmaður stefnanda tók við bótagreiðslum stefnda með fyrirvara, sem laut að því að beita bæri ákvæðum 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (skbl.) við uppgjör á skaðabótum vegna varanlegrar örorku, en ekki reglu 8. gr., eins og uppgjör stefnda miðaðist við. Einnig gerði lögmaður stefnanda fyrirvara vegna missis skólaárs.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína þannig:
2.335.400 x 6%= 140.124 kr.
2.475.524 x 4314/3605=2.962.388
2.962.388 x 10 x 8% tjón samtals 2.369.910 kr.
Inngreitt 25. maí 2000 434.838 kr.
Aðalkrafa 1.935.072 kr.
Varakrafa sundurliðast svo:
961.292 x 6%= 57.677 kr.
1.018.969 x 4314/3605= 1.219.370
1.219.370 x 10 x 8% tjón samtals 975.796 kr.
Inngreitt 25. maí 2000 434.838 kr.
Varakrafa 540.958 kr.
Í báðum tilvikum kveðst stefnandi miða kröfugerð sína við ákvæði 5.-7. gr. skbl. Stefnandi byggir á því, að rangt sé að ákvarða henni bætur á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga, en ákvæðið hljóði svo: ,,Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. "
Fráleitt sé, að halda því fram, að beita skuli reglu 8. gr. skbl. vegna þess eins, að stefnandi hafi sest á skólabekk nokkrum dögum fyrir slysið. Litið sé framhjá þeirri staðreynd, að stefnandi hafði starfað á vinnumarkaði á annað ár og aflað sér tekna, þegar hún slasaðist. Ljóst sé, að uppgjör hefði byggst á reglum 5.-7. gr. hefði stefnandi slasast nokkrum dögum fyrr eða hafið skólagöngu nokkrum dögum síðar. Stefnanda sé refsað fyrir þá ákvörðun að hefja nám að nýju, verði reglu 8. gr. skbl. beitt gagnvart henni, enda takmarki sú viðmiðun verulega örorkubætur hennar.
Stefnandi byggir á því að líta verði á ákvæði 5.-7. gr. sem aðalreglu við ákvörðun örorkubóta. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu, m.a. í máli nr. 317/1997, að 8. gr. skbl. sé undantekningarregla, sem aðeins verði beitt, þegar ekki séu fyrir hendi raunhæfar forsendur með tilliti til reynslu til að ákvarða líklegt tekjutap. Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til skaðabótalaga, sé tekið fram um túlkun 8. gr., að henni verði aðeins beitt um útreikning bóta, þegar ekki sé unnt að beita ákvæðum 6. og 7. gr. laganna, þar sem tekjuöflun hafi verið mjög takmörkuð. Því komi 8. gr. laganna ekki til álita í tilviki stefnanda, þar sem hún hafi haft raunverulegar vinnutekjur fyrir slysið og tekjureynslu árið fyrir slysið. Stefnandi leggur áherslu á það, að allan vafa verði að skýra henni í hag, með vísan til þess, að 8. gr. laganna sé undantekningarákvæði.
Aðalkrafa stefnanda miðist við meðaltekjur iðnaðarmanna, enda verði það að teljast eðlilegt með vísan til ungs aldurs hennar á slysdegi, auk þess sem sú viðmiðun sé nærri almennum meðaltekjum. Sé í því sambandi byggt á 2. mgr. 7. gr. skbl. Ekki sé rétt að miða útreikning bóta við tekjur stefnanda árið fyrir slysið, þar sem tekjusaga hennar hafi verið óráðin og ómótuð og gefi sú viðmiðun ranga mynd af ætluðum framtíðartekjum hennar.
Varakrafan sé á hinn bóginn byggð á rauntekjum stefnanda árið fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7.gr. skbl., og sé sú krafa sett fram, verði aðalkröfu hennar hafnað. Launatekjur stefnanda hafi numið 961.292 síðustu 12 mánuði fyrir slysið. Til frádráttar komi greiðsla stefnda hinn 20. maí 2000.
Stefnandi byggir varakröfu sína sömu rökum og aðalkröfu og telur óeðlilegt að miða við lægri laun en sem svari raunverulegum tekjum hennar fyrir slysið.
Krafist sé 2% ársvaxta frá slysdegi til 21. apríl 2000, en dráttarvaxta frá þeim degi, þ.e. 30 dögum eftir að stefnda hafi verið sent kröfubréf.
Stefnandi vísar til 88., 90., 91. og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 til stuðnings kröfum sínum, svo og til skaðabótalaga og almennra ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar. Stefnandi vísar til 16. gr. skbl. til stuðnings vaxtakröfu sinni, en dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi með vísan til ákvæða III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og 6. gr. laga nr. 31/2001. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr 91/1991, einkum 1. mgr. 130 gr. þeirra.
Málsástæður og lagarök stefndu:
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að túlkun þágildandi 8. gr. skbl. eigi við í tilviki stefnanda, hvort heldur sé eftir laganna hljóðan eða dómvenju. Óumdeilt sé, að stefnandi hafi verið við nám, þegar hún slasaðist. Hún stundi enn nám og ekki verði annað séð, en námsframvinda hennar hafi verið eðlileg. Orðalag 8. gr. sé skýrt. Þar segi, að ákvæðinu skuli beita, þegar námsmenn eigi í hlut, sem ekki þiggi laun í tengslum við námið. Í greinargerð með frumvarpi til skbl. komi sami skilningur fram í umfjöllun um 8. gr. Einu gildi, þótt nemandi hafi áður verið í vinnu eða vinni með námi. Það væri og andstætt jafnræðisreglu og ákvæði 8. gr. skbl. að mismuna nemendum þannig, að þeir sem áður hefðu haft tekjur fengju örorkutjón bætt á grundvelli 5.-7. gr. skbl., meðan þeir, sem engar tekjur hefðu haft, fengju bætur samkvæmt 8. gr. skbl. Í því tilviki kæmi einnig til álita, hversu langur tími mætti líða frá tekjuöflun þar til nám væri hafið. Allt frá setningu skaðabótalaganna og þar til lög nr. 37/1999 tóku gildi, hafi staðið yfir deilur um það, hvort 8. gr. skbl. væri andstæð stjórnarskrárbundnum réttindum tjónþola að því er varðaði það álitaefni, hvor uppgjörsleiðin ætti við, þ.e. 8. gr. eða 5.-7. gr. skbl. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu, að 8. gr. færi ekki gegn stjórnarskrárbundnum réttindum við mat á því, hvort beita skuli 8. gr. eða 5.-7.gr. skbl., og vísað til þess, að í sumum tilvikum leiði beiting 8. gr. til hagstæðari niðurstöðu fyrir tjónþola en uppgjör skv. 5.-7.gr. skbl. Sú hafi verið raunin í Hæstaréttarmáli því, sem stefnandi vísi til.
Tveir dómar Hæstaréttar taki af tvímæli um það að beita skuli 8. gr. í tilviki stefnanda. Annar sé í máli nr. 380/1999 (Hrd. 2000:683) en hinn sé í máli nr. 160/2001 frá 4. október 2001. Í báðum þessum dómum sé atvikum háttað með sambærilegum hætti og í tilviki stefnanda, og í báðum tilvikum hafi 8. gr. skbl. verið beitt.
Stefndu mótmæla tekjuviðmiðunum stefnanda bæði í aðalkröfu og varakröfu, svo og dráttarvaxtakröfum hennar og telja, að dráttarvexti beri einungis að dæma frá dómsuppsögudegi, verði á annað borð fallist á kröfur stefnanda.
Niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, eins og áður er getið. Hún kvaðst hafa hafið nám í Tannsmíðaskóla Íslands 15. september 1998, eða fjórum dögum áður en hún slasaðist. Hún hafi strax eftir stúdentspróf vorið 1997 hafið störf á almennum vinnumarkaði og unnið ýmis vinnu, þar til hún hóf nám við Tannsmíðaskóla Íslands haustið 1998. Hún kvaðst ljúka námi frá Tannsmíðaskólanum þessa daganna.
Álit dómsins.
Ágreiningur málsaðila lýtur að því einu, hvort beita skuli ákvæðum 5.-7. gr. skbl. við uppgjör skaðabóta til handa stefnanda, eins og stefnandi byggir á, eða 8. gr. sömu laga, eins og stefndu halda fram.
Við úrlausn þess sakarefnis, sem hér er til umfjöllunar, ber að hafa í huga þá grundvallarreglu skaðabótaréttarins, að tjónþoli skuli fá fullbætt tjón sitt úr hendi skaðvalds. Skaðabótalögin nr. 50/1993 með síðari breytingum, hafa að geyma bótareglur, sem að mati löggjafans eiga að ná fram þessu markmiði.
Í eftirfarandi umfjöllun verður vísað til tilgreindra greina skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru, þegar stefnandi slasaðist.
Í 6. gr. skbl. segir að bætur skuli meta til fjárhæða, sem nemi 7,5 földum árslaunum tjónþola, sbr. 7. gr., margfölduðum með örorkustigi, en í 1. mgr. 7. gr. eru árslaun skilgreind svo, að þau teljist vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð.
Í greinargerð, sem fylgdi upphaflegu frumvarpi til skaðabótalaganna (eftirleiðis greinargerð skbl.), segir í umfjöllun um 1. mgr. 7. gr., að átt sé við tekjur tjónþola 12 mánuðum fyrir slysdag. Þar kemur einnig fram, að 1. mgr. 7. gr. eigi fyrst og fremst við um launþega. Í 2. mgr. 7. gr. er á hinn bóginn fjallað um þau tilvik, þegar vandkvæðum er bundið að ákveða árslaun. Þegar svo stendur á skal árslaun meta sérstaklega, segir í ákvæðinu. Fram kemur í umfjöllun í greinargerð skbl., að ákvæðinu skuli beitt, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola, s.s. tímabundið atvinnuleysi, hlutastarf húsmæðra, sveiflur í tekjum sjálfstæðra atvinnurekanda. Þegar þannig stendur á skal meta bætur sérstaklega og hafa til hliðsjónar, sé þess kostur, venjuleg árslaun í viðkomandi starfsgrein, eða laun staðgengils tjónþolans, þegar það á við. Einnig segir í umfjöllun greinargerðarinnar um sama lagaákvæði: ,,Stundi tjónþoli nám, þegar líkamstjón ber að höndum, og þiggi laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, verður venjulega að miða árslaun við tekjur sem tjónþoli mundi hafa haft ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi. Um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. framvarpsins. Þar eru sérstakar reglum um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf. "
Í 1. mgr. 8. gr. er fjallað um bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Þegar svo stendur á, skal ákvarða bætur á grundvelli miskastigs, eins og nánar er lýst í lagaákvæðinu.
Hæstiréttur hefur í fjölmörgum dómum, þar sem fjallað hefur verið um lík álitamál og það sem hér er til úrlausnar, komist að þeirri niðurstöðu, að 8. gr. skbl. laga sé undantekningarákvæði, sem beri að skýra þröngt. Að mati dómsins verður reglu 8. gr. skbl. aðeins beitt ef, engra upplýsinga nýtur um tekjusögu tjónþola eða þegar ljóst er af aðstæðum tjónþola, að hann muni ekki eiga þess kost að afla sér vinnutekna í nokkrum teljandi mæli. Í greinargerð skbl. segir m.a. í umfjöllun um 8. gr. ,,Reglum 8. gr. skal beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti.. Bætur til námsmanna, sem þiggja laun í tengslum við nám, svo sem iðnnema eða læknastúdenta skal ákveða eftir 2. mgr. 7. gr. eins og vikið er að í athugasemdum við 7. gr . " ..,,Börn eru nefnd berum orðum í 8. gr.. til þess að taka af öll tvímæli um að ákvæðið eigi við um þau."
Ákvæði 8. gr. skal skýra þröngt, eins og áður er getið. Því verður eftir laganna hljóðan beitt um börn og einnig um ungt námsfólk, sem stundar nám í grunn- og/eða framhaldsskóla. Námsmenn á þessum skólastigum hafa oftast lítt mótaðar hugmyndir um framtíðina og hafa sjaldnast sett sér markmið um framhaldsnám og starfsval. Því var þess þörf, að mati löggjafans, að lögfesta hina sérstöku bótareglu, sem lýst er í 8. gr. Reglan er sett til að eyða óvissu um bótarétt þessara ungmenna, en ekki í því skyni að takmarka bótarétt þeirra, sem undir ákvæðið falla.
Að mati dómsins verður ekki gagnályktað frá þeim orðum í greinargerð frumvarpsins, að þeir námsmenn einir, sem þiggja laun meðan á námi stendur, skuli falla undir ákvæði 2. mgr. 7. gr. skbl. og allir aðrir sæta þeim niðurskurði í bótarétti, sem beiting 8. gr. skbl. oftast hefur í för með sér.
Væri svo, fælist í því hróplegt misræmi, sem telja verður að kunni að fara í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Engin rök hníga að því, að tjónþoli, sem á því láni að fagna að fá laun, meðan á námi stendur, fái skaðabætur með hliðsjón af væntanlegum tekjum að námi loknu, en aðrir námsmenn, sem ekki njóta þessa hagræðis fengju skertar bætur samkvæmt 8. gr. skbl. Þannig fengi iðnnemi eða læknanemi bætur með hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. skbl., en verkfræði- og/eða laganemi bætur samkvæmt 8. gr.
Dómurinn lítur því svo á, með hliðsjón af framansögðu, að 8. gr. skbl. laga taki ekki til þeirra nemanda, sem markað hafa sér framtíðarstefnu um nám og starfsval.
Í máli því, sem hér er til úrlausnar, liggur í fyrsta lagi fyrir, að stefnandi hafði atvinnutekjur í tólf mánuði fyrir slysdag. Í annan stað er upplýst, að hún hóf nám í Tannsmíðaskóla Íslands, sem er sérskóli á háskólastigi, haustið 1998 og lýkur því námi um þessar mundir. Stefnandi hafði þannig valið sér starfsvettvang, þegar hún slasaðist og fylgt eftir þeirri ákvörðun sinni.
Stefnandi verður því fráleitt talin barn í skilningi 8. gr. skbl. Því þykir rétt, að heimfæra tilvik stefnanda undir 2. mgr. 7. gr. skbl. Í því felst, að bætur til hennar skulu byggjast á mati.
Í 2. mgr. 5. gr. skbl. segir, að þegar örorkutjón er metið skuli líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á, til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til, að hann starfi við. Þetta lagaákvæði fjallar að vísu um það, hvernig standa skuli að örorkumati tjónþola. Hins vegar þykir mega draga þá ályktun af orðalagi ákvæðisins, að við mat á afleiðingum slyss, skuli einnig líta fram á við, þegar bætur eru metnar, en ekki aðeins til fortíðar, eins og 7. gr. skbl. virðist gera ráð fyrir.
Örorkubótum er ætlað að bæta tjónþola það tjón, sem skert aflahæfi hans muni eða kunni að hafa á tekjur hans til frambúðar. Því er nauðsynlegt að hafa hliðsjón af líklegum framtíðartekjum tjónþola, þegar honum eru ákvarðaðar skaðabætur, skv. 2. mgr. 7. gr. skbl.
Stefnandi miðar aðalkröfu sína við meðaltekjur iðnaðarmanna árið fyrir slysið og byggir á upplýsingum frá Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðings þar að lútandi
Dómurinn telur rétt að byggja á þessum upplýsingum, enda hefur þeirri viðmiðun áður verið beitt í dómsmálum við svipaðar aðstæður og hér er við að etja. Ástæða þess er sú, að meðaltekjur iðnaðarmanna eru taldar svara til meðaltekna launþega hér á landi.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið er fallist á aðalkröfu stefnanda, hvað fjárhæð varðar, eins og nánar er tilgreint í dómsorði.
Stefndu hafa mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda. Byggja þeir á því, að núverandi lögmaður stefnanda hafi enga formlega kröfu gert á hendur stefndu, fyrr en stefna málsins var birt.
Fyrri lögmaður stefnanda hafi ritað kröfubréf á sínum tíma, en það hafi verið allt annars eðlis og aðrar kröfur settar þar fram.
Rétt þykir að fallast á kröfu stefndu með þeim hætti, að dráttarvextir reiknist ekki af tildæmdri fjárhæð fyrr en við móttöku stefnu hinn 7. janúar 2002.
Eftir atvikum málsins ber að dæma stefndu til að greiða óskipt í ríkissjóð málskostnað, sem er ákveðinn 420.000 krónur, að meðtöldum lögmæltum virðisaukaskatti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar 420.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Mál þetta dæmir Skúli J. Pálmason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Rafey ehf. og Sjóvá-Almennar hf. greiði stefnanda, Margréti Dan Þórisdóttur, 1.935.072 krónur, með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 19. september 1998 til 7. janúar 2002, en með dráttarvöxtum dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt 420.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar 420.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.