Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2010


Lykilorð

  • Ákæra
  • Bókun
  • Refsiheimild
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 27. janúar 2011.

Nr. 407/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Ákæra. Bókanir. Refsiheimildir. Ómerking héraðsdóms.

X var með ákæru ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 170. gr. sbr. 1. mgr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005 með því að hafa flutt inn til landsins og eigi framvísað nánar tilgreindum varningi með tilskildum hætti við tollgæsluna. Í héraði var X fundinn sekur um brot gegn 170. gr. tollalaga, sbr. 6. gr. og 3. mgr. 27. gr. sömu laga og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Fyrir Hæstarétti byggði ákærði á því að vörn hans hafi orðið áfátt vegna meðferðar málsins í héraði. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að skýra verði 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála svo að veita skuli ákærða tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína miðað við breyttan lagagrundvöll málsins. Var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og upptöku haldlagðra muna, en þess að refsing hans verði þyngd. 

Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og þess að málinu verði vísað heim í hérað. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins og þess að upptöku muna verði hafnað, en að því frágengnu að refsing verði felld niður eða hún milduð og að upptöku muna verði hafnað. 

 Ákærði reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun málsins á því að ákærði hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 6. gr. og 3. mgr. 27. gr. sömu laga og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Ákærði hafi hins vegar aðeins verið ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 170. gr., sbr. 1. mgr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005. Hann byggir á því að þetta hafi komið niður á vörnum sínum fyrir dómi þar sem ekki hafi verið byggt á öðrum ákvæðum við aðalmeðferð málsins en komu fram í ákæru og honum hafi því ekki gefist færi á að undirbúa vörn sína á þessum grundvelli.

Í 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um efni ákæru. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. á að greina hver sú háttsemi er sem ákært er fyrir, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í 1. mgr. 180. gr. laganna segir að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó megi sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Dómari geti gefið aðilum færi á að tjá sig um atriði að þessu leyti, ef þurfa þyki. Með sömu skilyrðum sé dómara og rétt að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en fram komi í ákæru, þó aldrei aðrar kröfur en þar greini.

Við meðferð máls geta sjónarmið og kröfur um heimfærslu brota undir önnur refsiákvæði en í ákæru greinir, bæði komið frá dómara og sakflytjendum. Heimilt er þannig að breyta heimfærslu þeirrar háttsemi sem ákært er fyrir til laga með bókun í þingbók, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2008. Haga verður þó meðferð máls með þeim hætti að vörn ákærða verði ekki áfátt af þessum sökum og getur dómari gefið aðilum færi á að tjá sig um það, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Verður að skýra ákvæðið svo að veita skuli ákærða tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína miðað við breyttar forsendur, eftir atvikum með því að ákærði og vitni gefi á nýjan leik skýrslur fyrir dómi um atriði sem máli kunna að skipta, meðal annars með tilliti til þess hvort lýsing ætlaðs brots í ákæru eigi við það refsiákvæði sem vísað er til eftir breytinguna.

Fyrir Hæstarétti hefur ákærði haldið því fram að vörn hans hafi orðið áfátt af framangreindum ástæðum. Ákvæði 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005 hefur hvorki að geyma skýra háttsemislýsingu né millitilvísun til þess ákvæðis laganna þar sem hún kemur fram. Var því þörf á að bæta úr þessum ágalla ákærunnar með bókun í þingbók, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 20. febrúar 1997 í máli nr. 233/1996 sem birtur er á blaðsíðu 712 í dómasafni réttarins 1997. Þess er á hinn bóginn ekki getið í bókunum þinghalda í héraðsdómi að framangreinds ákvæðis 180. gr. hafi verið gætt. Gegn mótmælum ákærða er það ósannað. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði niðurstöðu héraðsdóms en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 13. október 2009 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir tollalagabrot, með því að hafa föstudaginn 16. janúar 2009, við komu til Keflavíkurflugvallar frá Danmörku, flutt inn til landsins Rolex Oyster armbandsúr að verðmæti 619.164 krónur, 5 silkihálsbindi samtals að verðmæti 63.060 krónur, 21 silkihálsklút samtals að verðmæti 264.852 krónur og leðurhandtösku að verðmæti 56.642 krónur, en ákærði framvísaði tilgreindum varningi eigi með tilskildum hætti við tollgæsluna, heldur gekk með eitt silkihálsbindi, einn silkihálsklút og leðurhandtösku um tollhlið merkt skilti með áletruninni „Enginn tollskyldur varningur“, en samferðamaður hans gekk með annan framangreindan varning, sem tilheyrði farangri ákærða, um sama tollhlið, og fannst sá hluti varningsins sem ákærði hafði meðferðis við leit tollgæslunnar í farangri hans sama dag, en ákærði skilaði öðrum framangreindum varningi til tollgæslu morguninn eftir, þann 17. janúar.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 1. mgr. 169. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á Rolex Oyster armbandsúri, 5 silkihálsbindum, 21 silkihálsklút og leðurhandtösku, sem lagt var hald á, samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Jafnframt er upptökukröfu mótmælt. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfi og að upptökukröfu verði hafnað. Loks er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins.

Ákærði játar að hafa viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru og gerir ekki athugasemd við þá málavaxtalýsingu sem þar kemur fram. Telst því fram komin sönnun um að hann hafi viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru.

Ákærði byggir málsvörn sína á því að honum verði ekki refsað fyrir háttsemina því í ákæru sé eingöngu vísað til ákvæðis 170. gr., sbr. 169. gr., tollalaga nr. 88/2005. Fullnægi þessi lagaákvæði ekki þeim kröfum sem gera verði til refsiákvæða. Ákvæðin hafi ekki að geyma hátternisreglu heldur feli þau einungis í sér refsireglu. Háttsemi ákærða sé því ekki rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er dómara rétt að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en fram koma í ákæru, enda telji hann að vörn ákærða hafi ekki verið áfátt þess vegna. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tollalaga er hver sá sem flytur vöru til landsins til eigin nota tollskyldur og skal hann greiða toll af hinni innfluttu vöru. Þá segir í b-lið 2. tl. 6. gr. laganna að ferðamenn, búsettir hér á landi, megi hafa varning meðferðis hingað til lands að verðmæti allt að 65.000 króna, miðað við smásöluverð á innkaupsstað, en verðmæti einstaks hlutar skuli þó að hámarki vera 32.500 krónur. Í 2. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 er samhljóða ákvæði. Loks segir í 1. mgr. 27. gr. laganna að ferðamenn, sem koma til landsins frá útlöndum, skuli ótilkvaddir gera tollstjóra grein fyrir tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis. Í 3. mgr. 27. gr. laganna segir jafnframt að þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fari fram sé tollstjóra heimilt að hafa aðskilin tollafgreiðsluhlið, annars vegar fyrir þá sem hafi meðferðis tollskyldan varning eða varning sem háður sé sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt sé að flytja til landsins og hins vegar fyrir þá sem hafi engan slíkan varning meðferðis. Farþegar skuli þá sjálfir velja sér tollafgreiðsluhlið og teljist þeir með vali sínu gefa til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þeim ber að gera tollgæslu grein fyrir. Fyrir liggur að málið var ítarlega reifað af hálfu ákærða með tilliti til framangreindra sjónarmiða og þykir því rétt að byggja á framangreindum lagaákvæðum við úrlausn málsins. Verður framangreindri málsvörn ákærða því hafnað.

Þegar horft er til þess varnings sem ákærði flutti inn til landsins í greint sinn verður að virða ákærða það til sakar að hafa ekki framvísað honum með tilskildum hætti við tollgæsluna í samræmi við framangreindar reglur. Hefur ákærði með tilgreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 6. gr. og 3. mgr. 27. gr. sömu laga og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði gekkst ákærði undir að greiða sekt fyrir  umferðarlagabrot á árinu 2006, en það brot hefur engin áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Með hliðsjón af þeim varningi sem um ræðir þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 400.000 króna sekt til ríkissjóðs. Greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins sæti ákærði vararefsingu sem ákveðst fangelsi í 24 daga.

Samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga er gert upptækt Rolex Oyster armbandsúr, 5 silkihálsbindi, 21 silkihálsklútur og leðurhandtaska.

Ákærði greiði réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Þórs Ólasonar hdl., 180.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, greiði 400.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæti ella fangelsi í 24 daga.

Upptæk eru gerð Rolex Oyster armbandsúr, 5 silkihálsbindi, 21 silkihálsklútur og leðurhandtaska.

Ákærði greiði réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Þórs Ólasonar hdl., 180.000 krónur.