Hæstiréttur íslands

Mál nr. 623/2017

Jón Þór Helgason, Emilía Þorsteinsdóttir og Lambhagabúið ehf. (Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Skuldamál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Ógilding samnings
  • Brostnar forsendur
  • Tómlæti
  • Viðtökudráttur

Reifun

L hf. krafðist greiðslu skuldar á grundvelli fjölmyntaláns sem J tók hjá bankanum og óumdeilt var að hefði verið tengt gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá krafðist L hf. jafnframt að honum yrði heimilt að gera fjárnám hjá E og L ehf. fyrir eignarhluta þeirra í tilteknum fasteignum sem settar voru að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins. J, E og L ehf. reistu sýknukröfu sína á því að lánið hefði verið að fullu greitt upp með tiltekinni greiðslu J til L hf. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að J bæri að greiða L hf. hina umkröfðu fjárhæð að frádreginni þeirri greiðslu sem J hafði innt af hendi. Var hvorki talið að óskráðar reglur um réttaráhrif brostinna forsendna né 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að sýkna bæri J af fjárkröfunni. Þá yrði krafan ekki lækkuð með vísan til réttarreglna um viðtökudrátt eða tómlæti eða á þeim grundvelli að J hefði gert L hf. lögmætt greiðslutilboð sem sá síðarnefndi hefði hafnað. Loks var L hf. heimilað að gera fjárnám í fasteignum E og L ehf. fyrir fjárkröfu þeirri sem um ræddi í málinu, en fyrir Hæstarétti afmarkaði L hf. kröfur sínar nánar hvað þetta varðaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Símon Sigvaldason dómstjóri.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. desember 2017. Hann  krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað í héraði, sem hann krefst, og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Aðaláfrýjandinn Jón Þór tók 23. ágúst 2007 fjölmyntalán hjá Landsbanka Íslands hf., forvera gagnáfrýjanda, í þeim tilgangi og með þeim kjörum og veðtryggingum sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Lánið var í japönskum jenum og svissneskum frönkum að jafnvirði 11.000.000 krónur og skyldi greiðast að fullu með einni greiðslu afborgunar og vaxta við lok lánstímans 1. september 2008. Lánið fór í vanskil á umsömdum gjalddaga og nam fjárhæð þess þá 16.409.136 krónum.

Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin samskipti aðaláfrýjandans Jóns Þórs og gagnáfrýjanda allar götur frá því er framangreint lán fór í vanskil og þar til sá síðarnefndi höfðaði mál þetta til endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar og viðurkenningar á rétti sínum til að gera fjárnám í þeim fasteignum, sem settar höfðu verið að veði til tryggingar láninu, en fyrir þeim er nánari grein gerð í héraðsdómi. Framangreind samskipti lutu aðallega að því hvort og með hvaða hætti koma mætti láni aðaláfrýjandans Jóns Þórs í skil án þess að til málshöfðunar kæmi en samskipti þessi leiddu ekki til niðurstöðu svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi.

Ágreiningslaust er með aðilum að lán það sem aðaláfrýjandinn Jón Þór tók umrætt sinn féll í flokk þeirra sem með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 töldust vera lán í íslenskum krónum tengd gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, var lán hans ásamt lánum annarra lánþega hjá stefnda, sem líkt stóð á um, endurreiknað miðað við 1. apríl 2011. Námu eftirstöðvar lánsins 31.327.830 krónum fyrir endurútreikning en 17.020.778 krónum eftir hann. Gagnáfrýjandi beinir fjárkröfu í málinu að aðaláfrýjandanum Jóni Þór sem skuldara umrædds láns en kröfum um viðurkenningu á heimild til fjárnáms beinir hann að eigendum þeirra eigna sem settar voru að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins.

II

Aðaláfrýjendur krefjast eins og áður getur aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara lækkunar. Sýknukrafan er studd þeim rökum að áðurgreint lán sem gagnáfrýjandi veitti aðaláfrýjandanum Jóni Þór hafi að fullu verið gert upp með greiðslu hans til gagnáfrýjanda 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 krónur.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest að hvorki óskráðar réttarreglur um réttaráhrif brostinna forsendna né regla 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga geti leitt til þeirrar niðurstöðu að aðaláfrýjandinn Jón Þór verði sýknaður af endurgreiðslukröfu gagnáfrýjanda. Þá er og með skírskotun til forsendna staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hvorki réttarreglur um viðtökudrátt né tómlæti geti leitt til þess að lækka beri fjárkröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjandanum Jóni Þór. Þá er einnig með skírskotun til forsendna staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjandanum Jóni Þór verði ekki lækkuð á þeim grundvelli að hann hafi gert gagnáfrýjanda lögmætt greiðslutilboð í tölvupósti 21. júní 2010 sem sá síðarnefndi hafi hafnað.

Af framangreindu leiðir að staðfest er niðurstaða héraðsdóms um skyldu aðaláfrýjandans Jóns Þórs til að greiða gagnáfrýjanda 17.095.244 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði og að frádreginni þeirri innborgun sem þar greinir.

Við munnlegan flutnings málsins fyrir Hæstarétti afmarkaði gagnáfrýjandi nánar kröfur sínar um heimild til að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í fasteignunum að Burknavöllum 8 í Hafnarfirði með fastanúmerinu 227-0316 og Lambhaga í Rangárþingi ytra með fastanúmerinu 219-5492. Lýsti gagnáfrýjandi því yfir að með þeim kröfum leitaði hann viðurkenningar á rétti til að gera fjárnám í umræddum eignum á grundvelli tryggingarbréfanna 20. júní 2005 nr. 0111-63-217201 og 27. ágúst 2007 nr. 0106-63-052144 einungis fyrir fjárkröfu sinni samkvæmt lánssamningi þeim sem um ræðir í málinu. Að gættri þessari yfirlýsingu um takmörkun á umfangi krafnanna og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um heimild gagnáfrýjanda til að gera fjárnám í umræddum eignum fyrir fjárkröfu þeirri sem um ræðir í þessu máli.

Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.

Eftir atvikum er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 4. ágúst 2017

Þetta mál, sem var endurflutt og tekið til dóms 20. júlí 2017, er höfðað af Lands­bank­anum hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 14. október 2014 á hendur Jóni Þór Helgasyni, kt. [...], og Emilíu Þor­steins­dóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Burknavöllum 8, Hafnarfirði svo og Lamb­haga­búinu ehf., kt. [...], Lambhaga, Hellu.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjár­hæð 17.095.244 kr., ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr.

Stefnandi krefst þess einnig að honum verði með dómi heimilað að gera fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefndu Emilíu í fast­eign með fasta­núm­erið 227-0316, að Burknavöllum 8, Hafnarfirði, ásamt til­heyr­andi hlutdeild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt tryggingar­bréfi nr. 0106-63-052144, útgefnu 27. ágúst 2007, til tryggingar skuldum stefnda Jóns Þórs fyrir samtals 61.227.692 kr.

Stefnandi krefst þess jafnframt að honum verði með dómi heimilað að gera fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefnda Lambhagabúsins ehf. í fast­eign­inni Lambhaga með landnúmerið 164528 og fastanúmerið 219-5492, Rangár­völlum, ásamt til­heyr­andi hlut­deild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt trygg­ing­ar­bréfi nr. 0111-63-217201, útgefnu 20. júní 2005, til trygg­ingar skuldum stefnda Jóns Þórs fyrir samtals 24.757.113 kr.

Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins, auk virð­is­auka­skatts af mál­flutn­ings­þóknun.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.

Til vara krefjast þau þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.

Stefndu krefjast jafnframt málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda og virð­is­aukaskatts á málskostnað.

Málsatvik

 Í þessu máli er þremur stefnt. Einum lántaka og tveimur veðsölum. Þar eð veð­sal­arnir koma lítið við sögu málavaxta verður lántakinn, Jón Þór, nefndur stefndi án frek­ari tilgreiningar.

 Stefndi starfaði hjá Landsbanka Íslands hf. í sex og hálft ár sem sér­fræðingur í fyrir­tækja­viðskiptum en hætti störfum þar í október 2007. Vitnið Daníel Jakobs­son, gegndi sama starfi og stefndi en í öðru útibúi bankans. Að hans sögn var stefndi, á þessum tíma, í hópi tíu mestu lánasérfræðinga bankans. Eftir starfslok hjá bankanum vann stefndi á öðrum vett­vangi í tæpt ár en fór þá í nám. Hann starfaði hjá annarri banka­stofnun frá október 2009 til des­em­ber 2010 við að endurskipuleggja lán fyrir­tækja.

Stefndi og eigin­kona hans, Emilía Þorsteinsdóttir, seldu hús á Álftanesi og keyptu sér annað að Burkna­völlum 8 í Hafnarfirði árið 2007. Til kaupanna tók stefndi lán hjá Landsbanka Íslands en það lán kemur svo gott sem ekk­ert við sögu þessa máls. Hjónin munu hafa fest sér húsið í Hafnarfirði áður en eignin á Álftanesi seldist. Af þeim sökum stóðust illa á greiðslur sem þau áttu að fá frá þeim sem keypti húsið á Álfta­nesi og þær greiðslur sem þeim bar að inna af hendi fyrir húsið í Hafnarfirði. Þess vegna tók stefndi annað lán, 23. ágúst 2007, það lán sem er orsök þessa máls, og er í gögnum nefnt „brúunarlán“. Sá láns­samn­ingur fékk númerið 0111-36-9067 og er kall­aður fjöl­mynta­lán.

Samningurinn nam upp­haflega jafn­virði 11.000.000 kr., helm­ing­ur­inn í jap­önskum jenum og helm­ing­ur­inn í sviss­neskum frönkum (JPY 50% og CHF 50%). Fjár­hæð höfuðstóls þess var sem sagt tengd gengi þessara tveggja gjaldmiðla á láns­tím­anum sem var eitt ár. Stefndi segir þennan skamma lánstíma skýr­ast af því að aðeins hafi verið þörf á að brúa það sex mánaða bil sem var á milli greiðslna sem hann átti að inna af hendi og þeirra sem hann átti að fá. Lánið skyldi greið­ast að fullu með einni greiðslu afborg­unar og áfall­inna vaxta í lok láns­tím­ans, 1. sept­em­ber 2008. Greiða skyldi LIBOR-vexti af láninu, eins og þeir væru ákveðnir fyrir framangreinda gjald­miðla á alþjóðlegum fjármálamarkaði, ásamt 2,5% vaxtaálagi. Stæði lán­taki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborg­ana á gjalddaga bar honum sam­kvæmt samn­ing­num að greiða dráttar­vexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af gjald­fall­inni fjár­hæð frá gjalddaga til greiðslu­dags.

Greiðsluáætlun vegna lánsins var gefin út á lántökudegi, 23. ágúst 2007. Sam­kvæmt henni stóð til að á gjalddaga þyrfti stefnandi að greiða sem næst 11.550.000 kr. Lánið var strax greitt út og í íslenskum krónum, alls 10.934.000 kr., en þá höfðu lán­töku­gjald og kostnaður verið dregin frá.

Til tryggingar greiðslu lánsins var sett tryggingarbréf nr. 0106-63-052144 sem veitir veð í fasteigninni að Burknavöllum 8, Hafn­ar­firði, sem stefndu Jón Þór og Emilía eiga til helm­inga. Stefndi Jón Þór gaf trygg­ingar­bréfið út 27. ágúst 2007 til trygg­ingar öllum skuldum og fjár­skuld­bind­ingum sínum, upphaflega að fjár­hæð 39.600.000 kr., verð­tryggt sam­kvæmt vísi­tölu neyslu­verðs. Trygg­ing­ar­bréfið var afhent sýslu­mann­inum í Hafn­ar­firði til þinglýsingar 30. ágúst 2007.

Lánssamningur nr. 0111-36-9067 er einnig tryggður með tryggingarbréfi nr. 0111-63-217201 sem veitir veð í jörðinni Lamb­haga, Rang­ár­þingi ytra. Eigandi þeirrar fast­eignar er stefndi Lambhagabúið ehf. Stefndi, Jón Þór, gaf trygg­ing­ar­bréfið út 20. júní 2005, til trygg­ingar öllum skuldum og fjár­skuld­bind­ingum sínum upp­haf­lega að fjár­hæð 14.100.000 kr. verð­tryggt samkvæmt vísi­tölu neysluverðs. Trygg­ing­ar­bréfið veitti upp­haflega veð í hús­inu sem stefndu Jón Þór og Emilía áttu á Álfta­nesi. Við­auki var gerður við trygg­ing­ar­bréfið 5. september 2007. Með honum var bank­anum til við­bótar fyrri trygg­ing­ar­réttindum einnig sett að veði fast­eignin Lamb­hagi, Rang­ár­þingi ytra, með land­núm­erið 164528 og fastanúmer 219-5492. Viðaukinn var afhentur til þing­lýs­ingar 10. sept­em­ber 2007.

Enn á ný var gerður viðauki við tryggingarbréfið 14. sept­em­ber 2007. Með honum var fast­eignin á Álftanesi leyst úr veð­böndum. Við­auki var gerður við trygg­ing­ar­bréfið 8. desember 2010, veð­bands­lausn að hluta þar sem leyst var undan veð­böndum Lambhagi lóð 219768, fastanúmer 219768, Rang­ár­þingi ytra. Eftir þessa veð­bands­lausn stóðu eftir veð­rétt­indi stefnanda í Lamb­haga, Rang­ár­þingi ytra, land­númer 164528 og fastanúmer 219-5492.

Að sögn stefnda var ætlunin að greiða brúunarlánið upp um leið og honum bær­ust kaup­samn­ings­greiðslur fyrir húsið á Álftanesi. Þær bárust, að hans sögn að hluta í lok janúar 2008 og það sem eftir stóð í febrúar sama ár, alls 12.000.000 kr. Þá hafði íslenska krónan veikst nokkuð og fjárhæð lánsins var, vegna gengis­trygg­ing­ar­innar, orðin nokkru hærri en kaup­samningsgreiðslurnar og jafn­framt hærri en kom fram í greiðslu­áætl­un­inni, sem fylgdi láninu. Samkvæmt útreikn­ingi stefnanda hefði upp­greiðslu­virði lánsins í lok janúar 2008 numið tæplega 12.600.000 kr.

Stefndi segist hafa beðið með að greiða lánið upp að ráðleggingum starfs­manna stefnanda þar eð allar líkur hafi verið á því að íslenska krónan myndi styrkjast og á þeim tíma hafi verið jákvæður vaxta­munur lántaka í hag milli útlánsvaxta lánsins og inn­láns­vaxta á reikningi með kaup­samn­ings­greiðslum.

Í samræmi við lánssamninginn féll lánið í gjalddaga 1. september 2008. Láns­fjár­hæðin ásamt vöxtum nam þá um það bil 16.410.000 kr. vegna geng­is­trygg­ing­ar­innar. Að sögn stefnda hafði þáverandi úti­bús­stjóri stefn­anda hug­myndir um að breyta lán­inu í íslenskt lán og ætti stefndi að greiða mis­mun­inn á lán­inu og inn­stæðu sinni að fjár­hæð 12.000.000 kr. Úti­bús­stjór­inn, Daníel Jakobs­son, og stefndi hafi þó á þessum tíma reynt að fá leyfi til þess að framlengja lánið, vegna þess að íslenska krónan hafði fallið mikið. Jákvæður vaxta­munur hafi þá verið á íslensku krón­unni og þeim myntum sem lánið tengdist. Hins vegar hafi verið ákveðið að halda láninu eins og það stóð og sjá hver fram­vindan yrði. Vitnið Daníel Jakobsson rám­aði ekki í að hann hefði komið neitt að því að framlengja lánið eða breyta því, í skýrslu sem hann gaf við aðal­með­ferð. Í málinu eru ekki heldur gögn um það að sótt hafi verið um að framlengja lánið eða gera viðauka við það.

Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október 2008, með heim­ild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjár­mála­fyrir­tæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjár­veit­ingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjár­mála­mark­aði o.fl., að taka yfir vald hlut­hafa­fundar Landsbanka Íslands hf. og skipa félaginu skilanefnd sem tók yfir allt vald banka­stjórnar.

Tveimur dögum síðar, 9. okt­ó­ber 2008, ákvað eftirlitið með heim­ild í áður nefndum lögum að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Lands­banka Íslands hf., kt. 471008-0280, sem heitir nú Lands­bank­inn hf. Þar á meðal því láni sem er orsök þessa máls. Þó mun um nokkurn tíma hafa verið óvissa um hvort stefnandi yfirtæki lán sem þetta. Vegna hins mikla gengisfalls tók einnig við óvissa um hvernig ætti að meðhöndla gengistryggð lán, sem síðar kom í ljós að voru ólög­leg.

Vitnið Arnheiður Klausen Gísladóttir var útibússtjóri hjá Landsbanka Íslands hf. frá því í byrjun árs 2007, á sviði einstaklingsviðskipta, og gegndi eftir „hrun“ sama starfi hjá stefn­anda.

Ekki eru til nein gögn um samskipti stefnanda og starfsmanna Landsbankans hf., sem tók, eins og áður greinir, við kröfu Landsbanka Íslands, vegna þessa láns fyrr en í janúar 2010. Að sögn Arnheiðar kom stefndi, sem þá starfaði í öðrum banka, stundum í heim­sókn og þau ræddu málin yfir kaffibolla. Af þeim sökum séu samskipti þeirra ekki samfelld í tölvu­skeytum. Í upphafi árs 2010 hafi lánið verið í vanskilum í vel ríf­lega ár og því hafi verið þrýst á hana að senda það í lögfræðiinnheimtu. Hún kvaðst því hafa hvatt stefnda til þess að semja við bankann. Í tölvupósti 13. janúar 2010 sendi hann henni fyrstu gögn fyrir greiðslumat. Í þeim tölvupósti segist stefndi reyndar bjart­sýnn á að geta losað sig við lánið með skuldajöfnuði við slitabú gamla bank­ans en óskar engu að síður eftir til­lögu að lausn. Í apríl sama ár sendi Arnheiður honum umsókn um úrræði vegna greiðslu­erfið­leika. Í byrjun maí rekur hún á eftir því að fá gögn til þess að hún geti haldið áfram að koma í veg fyrir að lánið verði sent í lög­fræði­inn­heimtu og aftur í lok maí.

Hæstiréttur kvað upp dóma 16. júní 2010 þar sem komist var að þeirri nið­ur­stöðu að fjölmyntalán, eins og stefndi tók, væri lán í íslenskum krónum tengt gengi erlendra gjaldmiðla á ólögmætan hátt.

Nokkrum dögum síðar, 21. júní 2010, ritaði stefndi Arnheiði tölvupóst og lagði til að brúunarlánið yrði greitt upp miðað við höfuðstól að viðbættum erlendum vöxtum frá lán­töku­degi. Hann tók jafn­framt fram að stefnandi gæti farið í mál við hann teldi stefn­andi sig eiga ríkari rétt en þessu næmi. Stefndi hefði þá komið sínum málum í réttan farveg í bili og hægt væri að losa pen­inga sem lágu á innlánsreikningi. Stefndi fór ekki fram á að neinum trygg­ingum yrði aflétt. Í lok árs 2010 nam húsnæðislán stefnda um 80.087.000 kr. og brúunarlánið um 29.178.000 kr.

Vitnið Arnheiður hringdi í stefnda í lok þessa dags. Að sögn stefnda var það til þess að tilkynna að stefn­andi gæti ekki orðið við til­lögu stefnda, þar eð stefn­andi vissi ekki hvort brúunarlánið væri ólög­legt. Hún hafi sömuleiðis ekki talið sig geta tekið við pen­ingunum því þennan morg­un hafi yfirstjórn bankans til­kynnt að hún teldi sig ekki vita hvaða vexti ætti að reikna á lán sem þessi. Því vildi yfir­stjórnin að beiðnin biði.

Fyrir dómi kvaðst Arnheiður telja að stefndi, sem bankamaður, hafi vitað að það gengi ekki að gera bankanum tilboð sem þetta. Á þessum tíma hafi lánið ekki verið endurreiknað og því óvissa um það hver endurreiknaður höfuð­stóll ætti að vera. Til­lög­unni hafi verið hafnað þar eð ekki hafi verið hægt að vinna út frá henni.

Í lok júní 2010 ritaði stefndi Arnheiði aftur og óskaði eftir því að bankinn tæki lána­mál hans fyrir. Hann benti á að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirrar kröfu sem hann hafi gert við slit gamla bankans. Í öðru lagi hafi Hæstiréttur dæmt lánin ólög­leg. Í þriðja lagi leggi hann áherslu á að losa veðið af Lamb­haga­búinu því hann vilji ekki að skuldir hans falli á ættingja sína.

Bankinn vann mat á greiðslugetu stefnda árið 2010 og í framhaldi af því var honum, að sögn Arnheiðar, kynnt tillaga að lausn málsins sem stefnda hugnaðist ekki.

Um miðjan september 2010 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gengis­tryggð lán sem hefðu verið metin ólögmæt skyldu bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.

Um miðjan desember 2010 voru sett lög nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Eftir breytinguna segir í 1. mgr. 18. gr. þeirra að telj­ist samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti ógild skuli peningakrafan bera vexti skv. 1. málslið 4. gr., enda eigi önnur ákvæði 18. gr. greinar ekki við. Vextir samkvæmt 4. gr. eru vextir sem Seðla­banki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum, óverð­tryggðum útlánum hjá lánastofnunum.

Snemma árs 2011 stofnaði stefndi, ásamt nokkrum öðrum, félag um að fá sænsku varahlutakeðjuna Mekonomen A/S til landsins. Stefndi kvaðst hafa lánað félag­inu, í mars 2011, 11.000.000 kr. í stað þess að hafa þær á lágum vöxtum í bank­anum. Þannig hafi hann getað sparað fyrirtækinu vaxtagreiðslur. Hann var fjár­mála­stjóri félagsins og kvaðst ætíð hafa getað losað þá fjárhæð sem hann lánaði hefði hann þurft á því að halda.

Vegna dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána svo og um hvaða vexti slík lán skyldu bera hóf bankinn að end­ur­reikna lán viðskiptavina sinna í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 151/2010. Það var mat bank­ans, sem stefndi hefur ekki mót­mælt, að brúunarlán stefnda væri gengistryggt. Í sam­ræmi við ákvæði laganna voru eftir­stöðvar lánsins endur­reikn­aðar miðað við lægstu óverð­tryggðu vexti sem Seðla­banki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Eftir­stöðvar láns­samn­ingsins fyrir endur­reikn­ing námu 31.327.830 kr. en eftir endur­reikn­ing námu þær 17.020.778 kr. End­ur­reikn­ingurinn miðaðist við 1. apríl 2011.

Að sögn stefnda mótmælti hann ætíð þessum endurreikningi með vísan til for­sögu máls­ins og þeirrar staðreyndar að hann hafi ætíð haft til reiðu 12.000.000 kr. til þess að greiða upp lánið eins og ávalt stóð til þegar kaupsamningsgreiðslur höfðu verið greiddar í janúar 2008.

Stefnda var send tilkynning um vanskil 3. maí 2011, ítrekun 30. maí 2011 og inn­heimtu­bréf 1. desember 2011.

Á síðustu dögum júnímánaðar 2011 ritaði stefndi Arnheiði og spurði um stöð­una á málunum sínum. Hún svaraði og sagði að mál hans hefði legið óhreyft hjá henni vegna þess að hún biði eftir viðbrögðum frá honum. Í tölvuskeyti hennar kemur fram að 110% aðlögun húsnæðiskaupaláns hafi verið sam­þykkt fyrir stefnda í desember 2010 en hann hafi ekki gengið frá því. Hún hafi nú gefist upp og sent lánið í lög­fræði­inn­heimtu en hafi stefndi áhuga á að gera eitt­hvað í lána­mál­unum sé hægt að ná mál­inu úr lögfræði­inn­heimt­unni. Miðað við hversu lágt fast­eigna­matið á húsinu hans var ætti hann að fara sjálf­krafa í útreikning miðað við 110% af fast­eigna­mati. Hún var þó ekki viss um að brú­un­ar­lánið, með veði í Lamb­haga, félli undir greiðsluúrræðið „Lækkun ann­arra skulda“ en vildi athuga það betur. Hún tók þó fram að hann fengi enga vexti end­ur­greidda því hann hefði ekki greitt neitt inn á lánið.

Stefndi ritaði bankanum greinargerð í lok júní 2011 og gerði grein fyrir sýn sinni á málið. Hann óskaði í fyrsta lagi eftir að fá niðurfellingu á húsnæðisláninu niður í 110% af fasteignamati eins og bankinn hafði boðið honum. Hann krafðist þess að gengið yrði frá brúarláninu honum að skað­lausu þannig að hann greiddi höfuðstólinn, 11 millj­ónir, og eina milljón að auki. Þá yrði trygg­ingar­bréf­inu aflétt af Lambhaga og mál­inu lokið.

Hann gerði einnig grein fyrir því að þegar hann hafi séð að hann tapaði á geng­is­falli krónunnar hafi hann velt fyrir sér leið til að vinna tapið upp og hafi hugmynd hans verið sú að lágmarka tjónið með mun á vöxtum sem honum bæri að greiða af lán­inu og vöxtum sem hann fengi á inneign í íslenskum krónum. Honum finnist skítt að lánið hafi verið dæmt ólögmætt en hefði það verið íslenskt hefði hann að sjálfsögðu greitt það upp en ekki kerfisbundið skaðað sig á neikvæðum vaxtamun. Hann kvaðst einnig vilja koma málum sínum í skikk en ætlaði að gæta hagsmuna sinna eins og starfs­menn bankans gættu hagsmuna bankans.

Viku síðar, 7. júlí 2011, ritaði Arnheiður honum og fagnaði því að hann sýndi samn­ings­vilja og sagðist myndi óska eftir endurupptöku á málum hans.

Að sögn Arnheiðar lagði hún tillögu fyrir fagráð bankans í ágúst 2011. Málinu hafi þá verið frestað því fagráðið vildi fá endanlegan endurútreikning á brúunarláninu.

Síðla í október 2011 ritaði stefndi Arnheiði og kvaðst hafa fengið húsnæðis­lánið endurreiknað en hann myndi aldrei samþykkja endurútreikning á brúarláninu þar eð það hafi verið ólöglegt.

Í tölvupósti til Arnheiðar 2. nóvember 2011 kvaðst stefndi, vegna þess að bank­inn hefði gert við hann ólöglegan lánasamning og brotið gegn lögum um gjald­eyr­is­jöfnuð með því að eiga á þeim tíma ekki erlendu myntina sem var tilgreind í láns­samn­ingnum, hafa tekið ranga ákvörðun með því að halda 12 millj­ónum króna inni á reikn­ingi því hann hefði tapað vaxtamun á því. Hún svaraði því til að hún væri að skoða lausn fyrir hann.

Arnheiður lagði mál stefnda aftur fyrir fagráð bankans í desember 2011 og þá var sam­þykkt, 21. desember, að stefndi greiddi 12 milljónir króna. Það sem eftir stæði af skuld­inni færi í feril sem hét „Lækkun annarra skulda“ og fólst í því að fólk greiddi í þrjú ár 10% af launum sínum, eftir að skattur hafði verið dreginn frá þeim. Að þremur árum liðnum voru eftirstöðvarnar felldar niður. Jafnframt átti að aflétta trygg­ing­ar­bréfinu af Lambhaga.

Arnheiður bar að það hafi ætíð verið forgangsmál hjá stefnda að losa veðið af Lamb­hagabúinu. Hún kvaðst hafa viljað færa honum góðar fréttir fyrir jólin og hafi því hringt í hann á Þorláksmessu og gert honum grein fyrri þessu samþykki fagráðs bank­ans. Hún kvaðst einnig hafa rætt við hann milli jóla og nýárs en þá vegna íbúðar­láns­ins. Þá hafi stefndi ákveðið að greiða upp vanskil þess láns fyrir áramót til þess að hann fengi vaxtabætur.

Arnheiður kunni ekki skýringar á því af hverju stefndi gekk ekki að til­boði bank­ans um uppgjör brúunarlánsins þótt í því fælist að veðinu yrði aflétt af Lamb­haga­búinu.

Stefndi kveðst ekki hafa fengið neinar upplýsingar um þessa samþykkt fag­ráðs, hvorki munnlega né skriflega. Hann kvaðst hafa skilið efni símtalsins við Arn­heiði á Þor­láks­messu 2011 þannig að bank­inn ætlaði að setja hann í gjaldþrot með því að láta hann greiða af láninu vexti samkvæmt 4. gr. vaxtalaga.

Stefndi tekur fram að í árslok 2011, hefði hann getað greitt í samræmi við sam­þykki fagráðsins, þótt hann hafi lánað félaginu Mekonomen lausafé sitt fyrr á árinu.

Að sögn Arnheiðar giltu samþykktir fagráðs í sex mánuði og þar eð ekkert svar barst frá stefnda við samþykktinni frá í desember hafi hún þurft að leggja málið fyrir aftur. Í júlí 2012 fékk hún samþykkt fagráðsins frá 21. desember 2011 end­ur­vakta. Þá var stefnda boðin sama lausn nema hann þurfti að greiða vexti samkvæmt vaxtaflokki bank­ans K0 frá 21. des­em­ber. Arnheiður bar að þá hafi stefndi sagt henni að hann hefði lánað félaginu Mekon­omen 11 milljónir króna. Vegna svika samstarfsmanns síns í félaginu næði hann fénu ekki út úr félaginu og hefði því ekki fjármuni til að taka til­boðinu.

Stefndi bar að hann hefði, af þeim 11 milljónum sem hann lánaði Mekonomen, fengið átta milljónir króna í ágúst 2012 þegar hann sagði skilið við félagið eftir svik sam­starfs­mannsins.

Þar eð stefndi hafði ekki alla fjárhæðina til reiðu kveðst hann hafa leitað leiða með Arn­heiði í september 2012 um hvort ekki væri mögulegt að greiða þegar 8.000.000 kr. en stefnandi myndi lána 4.000.000 kr. og tryggingum yrði ekki aflétt fyrr en við fulla upp­greiðslu í samræmi við það. Þessari munnlegu beiðni hafi ekki verið svarað.

Vitnið Arnheiður bar að stefndi hafi ekki haft greiðslugetu til að taka slíkt lán á þessum tíma.

Að sögn stefnda ítrekaði hann beiðni um 4.000.000 kr. lán á fundi með Arn­heiði 17. janúar 2013 og hafi hún og Þór­halla Bald­urs­dóttir aðstoðarútibústjóri tekið vel í beiðn­ina. Í framhaldi af þeim fundi ritaði hann Arnheiði tölvupóst 17. janúar 2013 þar sem hann mælir svo fyrir að greiða skuli átta milljónir króna af tilteknum reikn­ingi hans í bankanum inn á brú­un­ar­lánið. Fyrir þessari greiðslu setur hann þó þann fyrirvara að hann missi ekki neinn rétt sem hann gæti fengið með því að greiða lánið ekki upp.

Sama dag, 17. janúar 2013, svaraði hún að Fag­ráð fengi afrit af beiðn­inni ásamt skýringum á því sem þeim fór í milli. Gengið yrði frá milli­færsl­unni þegar hún hefði fengið „comment“ á það.

Arnheiður kvaðst hafa sent fagráði bankans þetta boð og hafi óskað eftir því að fag­ráðssamþykktin gilti áfram. Fagráð hafi ekki viljað að samþykktin frá desember 2011 gilti nema stefndi greiddi að fullu 12 milljónir, vexti og „það sem átti að vera til við­bótar“. Hún hafi því ekki tekið átta millj­ónir af reikningi stefnda til þess að greiða inn á lánið.

Hún bar að stefndi hefði hins vegar ætíð getað farið til gjaldkera, alveg frá því að hann tók lánið og óskað eftir að milli­færa hvaða fjárhæð sem var inn á það en það myndi hann þá gera án þess að setja bank­anum einhver skilyrði.

Stefndi kveðst hafa tekið svari Arnheiðar 17. janúar 2013 þannig að komið væri á ein­hvers ­konar sam­komulag og hafi því beðið með að óska eftir að greiða inn á lánið þrátt fyrir nei­kvæðan vaxta­mun milli innláns- og útláns­vaxta. Á reikningum hans í bankanum hafi því legið átta millj­ónir króna sem bank­inn hafi fengið tekjur af á meðan.

Stefnandi sendi stefnda bréf 12. nóvember 2013 þar sem kom fram að með dómum í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 hafi Hæstiréttur meðal annars komist að þeirri nið­ur­stöðu að greiðslu­kvitt­anir hefðu jafn­gilt fullnaðarkvittunum og að endur­útreikn­ingur lána hefði átt að taka mið af því. Þar eð aldrei hafi verið greitt af lán­inu hafi bankinn ekki gefið út neinar fulln­aðar­kvitt­anir. Ekki þyrfti því að leið­rétta lánið frekar.

Stefndi ritaði Arnheiði tölvupóst 23. janúar 2014 og minnti hana á að hann hefði beðið hana að taka átta milljónir króna upp í 12 milljónirnar sem þau hafi samið um. Nú hafi lánið verið hækkað úr 12 milljónum króna í 24 milljónir og þá hækkun geti hann ekki sætt sig við.

Arnheiður kvaðst hvorki minnast þess að stefndi hefði komið eða skrifað henni tölvu­póst um að hún greiddi átta milljónir króna inn á lánið nema þann sem hann sendi henni 17. janúar 2013 þar sem hann setti þann fyrirvara að fagráðssamþykktin myndi engu að síður gilda.

Mánuði síðar, 27. febrúar 2014, ritaði stefndi Arnheiði tölvupóst þar sem stóð að hann liti svo á að tæki hún átta milljónir af reikningi hans og greiddi inn á lánið þá stæði fag­ráðs­sam­þykktin enn. Hann taldi betra að fara með málið í gegnum fagráð fyrst og lagði til að hann kæmi í heimsókn eftir viku og þá yrði málið klárað.

Stefndi bendir á að hann hafi langa reynslu af útlánum og samningum við banka og hafi starf­að sex og hálft ár í sama útibúi og veitti lánið. Hann hafi því vitað vel að að óbreyttu myndi hann ekki hagn­ast á að bíða með pen­inga inni á reikn­ingi. Arn­heiður hafi ekki heldur átt frum­kvæði að því að benda honum á betri lausn.

Í apríl 2014 endurheimti stefndi 4.000.000 kr. og hafði þá fengið að fullu höfuð­stól þess sem hann hafði lánað Mekonomen. Hann hafði þá strax samband við stefn­anda og óskaði eftir að málið yrði tekið upp að nýju.

Vitnið Arnheiður bar að þegar stefndi hefði haft alla peningana til reiðu vorið 2014 hafi þau farið að ræða saman aftur. Stefndi hafi þá á ný þurft að koma með gögn til þess að meta mætti greiðslugetu hans aftur þannig að leggja mætti málið á ný fyrir fag­ráð. Á þessum tíma hafi verið búið að breyta fagráði og komnir aðrir aðilar að mál­inu þar. Hún hafi lagt til að gamla tillagan, upphaflega frá desember 2011, yrði endur­vakin og stefndi fengi að greiða samkvæmt því. Á sama tíma hafi hún verið að færast yfir í fyrir­tækja­útibúið, nýr útibússtjóri verið kominn í einstaklingsútibúið og þar með nýr aðili að mál­inu innan bankans. Auk þess hafi fagráð ekki viljað að hún kæmi meira að mál­inu, sem fyrrum samstarfsmaður stefnda.

Fagráð hafi jafnframt viljað að tekið yrði tillit til þess að myndast hefði eigið fé í húsi stefndu Jóns Þórs og Emilíu með verðhækkun á húsinu sem og í jörðinni Lamb­haga. Ráðið hafi ekki talið fært að ganga fram hjá þeirri vinnureglu að afskrifa ekki skuldir sem tryggingar séu til fyrir. Þegar hún hafi hætt að hafa afskipti af málinu hafi það staðið þannig að kalla hafi átt eftir frekari gögnum, meðal annars um verð­mæti jarðarinnar Lamb­haga og eignar stefnda. Síðan hafi átt að vinna málið áfram í úti­bú­inu. Henni virt­ist að vinna í því hafi dottið niður. Stefndi hefði þó getað ýtt á eftir því, hefði hann viljað. Málið virð­ist því hafa farið fljótlega í lögfræðiinnheimtu.

Í tölvupósti sem Ásgeir H. Jóhannsson útibússtjóri sendi stefnda 12. febrúar 2015 kemur fram að áður en bankinn ákvað að höfða dómsmálið hafi lengi verið beðið eftir gögnum frá stefnda.

Að sögn stefnda var hann ekki krafinn frekari gagna en hann hafði afhent vorið 2014 og hafi hann ekki frétt frekar af málinu, fyrr en með birtingu stefnu í októ­ber 2014, án nokk­urrar undanfarandi viðvörunar.

Í desember 2014 lagði stefnandi til ákveðin greiðslukjör talsvert óhagstæðari en þau sem fólust í sam­þykktum fagráðs frá desember 2011 og júlí 2017. Meðal ann­ars átti ekki að aflétta veð­inu af Lambhaga.

Með tölvupósti 2. janúar 2015 óskaði stefndi eftir því að bankinn millifærði af reikn­ingi hans 12.000.000 kr. en féllst ekki á greiðslukjör stefnanda. Hann kveðst engu að síður hafa leitað leiða til þess að leysa málið.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til þess að stefndi hafi ekki greitt lán sem fyrirrennari stefnanda, Landsbanki Íslands hf., veitti stefnda 23. ágúst 2007 þrátt fyrir margvíslegar tilraunir stefnanda til þess að fá lánið endurgreitt án málshöfðunar.

   Eftirstöðvar lánsins hafi, þegar það var gjaldfellt 1. maí 2011, numið 17.020.778 kr. og áfallnir samningsvextir þann dag verið 74.466 kr. Samtalan, 17.095.244 kr., sé stefnu­fjár­hæðin.

Stefn­andi vísar til þess að honum sé einnig nauðsynlegt að fá dóm þess efnis að honum sé heim­ilað fjárnám í fasteignum stefndu Emilíu og Lamb­haga­bús­ins ehf. að því marki sem veðtryggingin taki til dóm­kröf­unnar sam­kvæmt ákvæðum þeirra trygg­ingarbréfa sem hvíla á eign­ar­hlutum stefndu að Burkna­völlum 8, Hafnar­firði og Lamb­haga, Rang­ár­völlum. Bæði þessi bréf veiti alls­herj­ar­veð og því sé ekki unnt að fara beint í aðför sam­kvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beið­ast nauð­ung­ar­sölu sam­kvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grund­velli þeirra.

Upp­reiknuð staða tryggingarbréfsins sem veiti veð í Burknavöllum 8 hafi, 3. sept­em­ber 2014, numið 61.227.692 kr. Auk þess sé krafist dráttarvaxta eitt ár aftur í tím­ann frá nauðungarsölubeiðni, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, um samn­ings­veð.

Uppreiknuð staða trygg­ing­ar­bréfsins sem veiti veð í jörðinni Lambhaga hafi, 3. sept­em­ber 2014, numið 24.757.113 kr. Auk þess sé krafist dráttar­vaxta eitt ár aftur í tím­ann frá nauðungarsölubeiðni, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, um samn­ings­veð.

Kröfur sínar byggir stefnandi á meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðslu­skyldu fjár­skuld­bindinga. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður hann við reglur III. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr., 5. gr. og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé honum nauð­syn­legt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu. Val á varnarþingi styðjist við 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en í 15. gr. í lánasamningi aðila sé svo samið að ágreiningsmál vegna samningsins skuli reka fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur. Aðild stefndu styðjist við 18. og 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu

Aðalkrafa

Aðalkröfu sína um sýknu af dómkröfum stefnanda byggja stefndu á því að krafa samkvæmt lánssamningi nr. 9067 sé að fullu uppgerð með greiðslu 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr. með vísan til eftirfarandi málsástæðna:

Brostnar forsendur lántaka

Eins og áður sé rakið hafi stefndi, Jón Þór, tekið lán samkvæmt lánssamningi nr. 9067 vegna þess að stefndu, honum og Emilíu, bárust ekki kaup­samn­ings­greiðslur á umsömdum tíma. Greiðsl­urnar hafi verið væntanlegar innan nokkurra mán­aða. Láns­tími og greiðslu­fyrir­komu­lag sýni það. Í raun hafi báðir aðilar gengið út frá því að lánið yrði greitt upp löngu fyrir gjalddaga lánsins. Kaup­samn­ings­greiðslur hafi verið ríf­lega sú fjárhæð sem stefndi tók að láni í brúunarláninu og ljóst að lánið átti að greið­ast upp um leið og greiðslurnar bær­ust.

Lán í íslenskum krónum án ólögmætrar gengistryggingar hefði verið greitt upp um leið og kaupsamningsgreiðslur bárust.

Stefndi hafi lagt fram endurreikning á láninu miðað við að það væri ekki tengt gengi erlendra gjaldmiðla og bæri vexti Seðlabanka Íslands skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sá reikningur sýni að kaup­samn­ings­greiðslur hefðu nægt til þess að greiða upp lánið alveg fram í apríl 2008, þrátt fyrir gríð­ar­lega háa vexti.

Sú forsenda lántaka að kaupsamningsgreiðslur myndu greiða upp lánið innan mjög skamms tíma hafi verið ákvörðunarástæða þeirra fyrir lántökunni. Það hafi lán­veit­andi vitað eða mátt vita um. Ekki verði annað ályktað en að sanngjarnt sé í alla staði að stefndi sé laus undan skuldbindingu sinni gegn þeirri greiðslu sem hann innti af hendi 2. janúar 2015. Greiðsla sem hafi staðið stefnanda til boða allt frá því í janúar 2008.

Hefði lánið ekki verið bundið hinni ólögmætu gengistryggingu, sem stefnandi beri ábyrgð á, hefði stefndi undir öllum kringumstæðum þegar greitt lánið að fullu í janúar 2008.

Ekki geti með neinum rökum talist sanngjarnt að stefnandi geti, með vísan til síð­ari tíma lagasetningar, reiknað upp lán með óverðtryggðum vöxtum, skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þegar horft sé til þess að peningafjárhæð var færð inn á reikning hjá stefnanda sem nægði til uppgreiðslu lánsins og þegar horft er til upp­haf­legra forsendna lántökunnar.

Með því að stefnandi hafi samþykkt árið 2012 að stefndi greiddi lánið upp með 12.000.000 kr. megi segja að stefnandi hafi tekið undir sjónarmið stefndu og í raun við­ur­kennt það sem stefndu hafi ætíð haldið fram.

Þar eð stefnandi hafi haldið uppi hinni ólögmætu gengistryggingu, ekki ein­vörð­ungu á hinum umstefnda lánssamningi nr. 9067, heldur líka á lánssamningi nr. 9229 (sjálfu íbúðakaupaláninu), hafi brostið allar forsendur stefndu til þess að geta haldið lánum í skilum eða greiða þau upp. Eftirstöðvar láns nr. 9229, sem nam upp­haf­lega 33.000.000 kr., hafi sam­kvæmt skatt­fram­tali numið í árs­lok 2008, 75.009.794 kr. og eftir­stöðvar láns nr. 9067 numið 26.879.044 kr., eða samtals 101.888.838 kr. Í árs­lok 2009 voru eftir­stöðvar lán­anna sam­kvæmt skatt­fram­tali 109.265.951 kr.

Forsendur lántaka og allar ákvarðanir hans hafi verið teknar í ljósi þeirrar stöðu sem stefn­andi beindi ranglega að honum. Stefnandi beri ábyrgð á þeirri stöðu. Stefndi, Jón Þór, hafi árið 2008 lagt nægilegt fé inn á reikning til þess að greiða lánið að fullu hefði stefn­andi reiknað það rétt.

Taka verði sérstaklega fram og árétta að stefndi, Jón Þór, hafi undir­ritað greiðslu­áætlun samhliða lánssamningi í samræmi við lög nr. 121/1994, um neyt­enda­lán. Í henni komi fram að á gjalddaga lánsins, 1. september 2008, skyldu greiðast 11.549.786 kr. Þar eð ætíð hafi legið fyrir að lánið myndi greið­ast upp fyrr , hafi verið ljóst að kostnaður við lántökuna yrði mun minni. Í greiðslu­áætl­un­inni sé engin aðvörun um gengisáhættu, einungis að hún byggi á 0% verð­bólgu, núgild­andi vöxtum og gjaldskrá bankans.

Lánssamningi vikið til hliðar – 36. gr. samningalaga nr. 7/1936

Stefndu byggja jafnframt á því að víkja skuli lánssamningnum, og endur­reikn­ingi hans í samræmi við lög nr. 151/2010, til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, því óheiðarlegt sé og ósann­gjarnt af stefn­anda að bera hann fyrir sig. Í 1. mgr. 36. gr. segi að víkja megi samn­ingi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta. Í 2. mgr. 36. gr. segi að við mat sam­kvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samn­ings­gerð­ina og atvika sem síðar komu til.

Ekki verði annað talið en að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að breyta samn­ingi aðila að teknu tillit til allra málsatvika. Það verði talið ósanngjarnt af stefn­anda að bera fyrir sig endurreikning samkvæmt síðar settum lögum þegar hann viti að lán­taki hafi allan tímann getað greitt upp lánið ef stefnandi hefði reiknað lánið á réttan hátt. Stefndi hafi ætíð haft fullan hug á því og leitað allra leiða til þess gagnvart stefn­anda.

Varakrafa

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu af dómkröfum stefnanda, krefjast þau lækk­unar fjárkröfu stefnanda. Fyrir utan það að greiddar hafi verið 12.000.000 kr., 2. janúar 2015, eftir útgáfu stefnu, krefjast stefndu þess að dráttar­vaxta­kröfu og máls­kostn­að­ar­kröfu stefnanda verði hafnað með vísan til eftirfarandi máls­ástæðna:

Viðtökudráttur

Stefndu byggja á sjónarmiðum um viðtökudrátt stefnanda. Stefndi, Jón Þór, hafi 21. júní 2010 boðið fram greiðslu/úrlausn í ljósi þess að fé, sem var ætlað að greiða lánið upp, hafði legið á reikningi hjá stefnanda frá því í janúar 2008. Stefn­andi hafi hafnað þeirri tillögu. Ekki sé hægt að líta á málið á annan hátt en að stefn­andi beri ábyrgð á hinni ólögmætu gengistryggingu og óvissa stefn­anda um með­ferð kröf­unnar sam­kvæmt lánssamningi sé alfarið á hans ábyrgð.

Taka verði tillit til þess ef atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, valda því að greiðsla fer ekki fram. Í slíkum tilvikum skuli, samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ekki reikna dráttarvexti.

Tómlæti

Stefndi bendir á að gjalddagi lánssamnings nr. 9067, sem leggi grunn að fjár­kröfu stefnanda, hafi verið 1. september 2008. Lánið hafi verið endurreiknað 1. apríl 2011 og stefnandi einhliða ákveðið gjalddaga lánsins 1. maí 2011. Þrátt fyrir þetta hafi stefn­andi ekki gert neinn reka að því að innheimta kröfuna fyrr en með útgáfu stefnu í okt­óber 2014.

Hvort sem miðað sé við gjalddaga samkvæmt lánssamningi 1. september 2008 eða þann gjalddaga sem stefnandi tilgreinir eftir endurreikning sinn, 1. maí 2011, sé ljóst að stefndu, Emilíu og Lambhagabúinu ehf., hafi aldrei verið til­kynnt um afdrif láns­ins sem stefnandi haldi þó fram að þau séu í ábyrgð fyrir.

Þótt tryggingarbréfin veiti allsherjarveð geti stefndu, sem veðsalar, ekki sætt því að geta ekki gripið til ráðstafana til varnar frekara tjóni. Það stríði beinlínis gegn eðli­legum og heilbrigðum viðskiptaháttum að stefn­andi hafi aldrei sent veðsölum til­kynn­ingar af neinu tagi.

Um stefndu, Emilíu, gildi lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Í 3. mgr. 7. gr. lag­anna sé sérstaklega tekið fram að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur drátt­ar­vaxta eða innheimtukostnaðar lán­taka sem falli til eftir gjald­daga nema að liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðar­manni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Stefndu, Emilíu, hafi ekki verið birt til­kynn­ing fyrr en með birtingu stefnu 14. október 2014. Hún geti því ekki borið ábyrgð að hærri fjárhæð en sem nemi höfuðstól lánsins og dráttarvextir reikn­ist fyrst frá 28. október 2014.

Með vísan til almennra tóm­lætis­sjónar­miða, gildi það sama fyrir stefnda, Lamb­haga­búið ehf., sem hafi aldrei verið upplýst um afdrif lánssamnings nr. 9067 og aldrei verið gefinn kostur á að greiða lánið vegna ábyrgðar sinnar samkvæmt veð­trygg­ingar­bréfi.

Að síðustu byggja stefndu á því að stefndi, Jón Þór, hafi 21. júní 2010 gert stefn­anda til­boð um uppgjör kröfunnar sem fólst í uppgjöri í samræmi við láns­samn­ing aðila þar sem höfuðstóll yrði greiddur, auk erlendra vaxta. Ekki hafi átt að létta af neinum trygg­ingum samhliða því og áréttað að stefnandi gæti í framhaldi af þessu sótt frek­ari rétt, ef hann teldi sig eiga hann. Stefndi hafi hafnað tilboðinu.

Ekki verði litið á það með öðrum hætti en þeim að stefnandi hafi gert stefnda lög­mætt/­rétt­mætt til­boð í samræmi við lánssamning aðila miðað við þær forsendur sem lágu fyrir á þeim tíma og ekki verði annað séð en að taka verði fullt til­lit til þess við end­ur­reikn­ing lánsins í samræmi við lög nr. 151/2010. Ekki sé sanngjarnt að stefn­andi reikni sér vexti, eftir 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verð­trygg­ingu, eða eftir atvikum dráttavexti, þegar stefnandi reikni ekki vexti á innistæðu að fjár­hæð 12.000.000 kr. með sama hætti frá þeim tíma.

Stefndu hafi lagt fram endurreikning á 12.000.000 kr. miðað við vexti sam­kvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá júní 2010 til 1. mars 2015, þar sem áfallnir vextir á tíma­bilinu eru 4.071.360 kr. eða sam­tals 16.071.360 kr. Þau hafi einnig lagt fram end­ur­reikn­ing sömu fjárhæðar miðað við dráttarvexti frá júní 2010 til 1. mars 2015, þar sem áfallnir vextir eru 9.602.048 kr. eða samtals 21.602.048 kr. Stefndu krefjast þess að litið verði til þessara útreikn­inga til lækkunar á kröfum stefn­anda.

Kröfum sínum til stuðnings vísa stefndu til almennra reglna kröfu- og samn­inga­réttar, til sjónarmiða um brostnar forsendur, viðtökudráttar og tómlætis. Stefndu vísa til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. lag­anna svo og laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þau vísa einnig til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010 og laga nr. 32/2009, um ábyrgð­ar­menn, og enn fremur laga nr. 121/1994, um neytendalán. Vegna kröfu um máls­kostnað vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála, einkum 129. og 130. gr.

 

Niðurstaða

Stefnandi höfðar þetta mál til þess að fá greitt lán sem stefndi, Jón Þór, tók, svo og til þess að fá gefna út aðfararheimild, þ.e. dóm sem veitir honum heimild til að fá gert fjár­nám í fasteignum stefndu, Emilíu og Lambhagabúsins ehf., sem voru settar að veði til trygg­ingar greiðslu lánsins.

Stefndu krefjast sýknu en til vara lækkunar fjárkröfu.

Stefndu byggja kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að forsendur stefnda, Jóns Þórs, fyrir lán­tök­unni hafi brostið. Það hafi verið ákvörð­un­ar­ástæða fyrir lán­tök­unni að kaup­samn­ings­greiðslur myndu greiða lánið upp innan mjög skamms tíma. Það er að fjárhæðin sem þau áttu von á vegna sölu á eign sinni, 12 milljónir króna, myndi nægja til þess að greiða lánið upp jafnvel fyrir gjalddaga.

Í fræðum er sagt að grundvöllur hugtaksins brostin forsenda í samningarétti sé að löggerningsgjafi hefði ekki stofnað til löggerningsins ef hann hefði séð eða mátt sjá fyrir þau atvik eða aðstæður sem hann síðar vill bera fyrir sig. Það er einnig meg­in­regla að menn verða sjálfir að bera áhættuna af því að forsenda þeirra fyrir samn­ings­gerð brestur. Það heyrir því til undantekninga að brostin forsenda sé viðurkennd sem ógild­ing­ar­ástæða eða að víkja megi samningsákvæði til hliðar á grundvelli hennar.

Stefndu hafa lagt fram útreikning á því að 12 milljónir króna hefðu nægt þeim til að greiða vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 af 11 milljóna króna láni allt fram í mars 2008.

Þótt stefndi orði kröfu sína ekki þannig er engu líkara en hann vilji að dóm­ur­inn breyti þeim lánssamn­ingi, sem hann gerði 23. ágúst 2007, í skamm­tíma­láns­samn­ing, með gjalddaga í mars eða apríl 2008, í íslenskum krónum sem beri vexti sam­kvæmt 4. gr. vaxtalaga og láti samninginn steinrenna þá.

Stefndi Jón Þór hefur ekki sýnt fram á að hann hafi átt kost á venjulegu skamm­tímaláni í íslenskum krónum með vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga. Hann bar fyrir dómi að hann hefði gjarnan viljað taka yfirdrátt í íslenskum krónum í stað þess að standa í þessu bulli. Hann bar einnig að ástæða þess að hann gerði það ekki var sú að yfirdráttur bar þá, að hans sögn, margfalt hærri vexti en það lán sem hann tók.

Ákvörðunarástæða stefnda Jóns Þórs fyrir því að taka þetta tiltekna lán voru því vext­irnir sem það bar. Hann vissi þó að venjuleg lán í íslenskum krónum báru ekki svo lága vexti heldur voru þessir lágu vextir ein­vörð­ungu í boði af lánum sem voru tengd gengi erlendra gjaldmiðla.

Hann bar jafnframt að í starfi sínu hjá bankanum, sem fyrir­tækja­ráð­gjafi, hafi hann ráðlagt mörgum fyrirsvarsmönnum fyrir­tækja að taka lán í erlendum myntum. Það hafi hann gert vegna þess að sam­kvæmt öllum greiningum, einnig grein­ingum bank­ans sem hann vann hjá, hafi lán í erlendum myntum verið hag­kvæm­ara til lengri tíma litið fyrir þá sem höfðu greiðslu­getu og þoldu miklar sveiflur á gengi.

Hann vissi því að lánsfjárhæðin gæti hækkað og lækkað verulega eftir sveiflum á gengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir voru í láninu, en þá valdi hann sjálfur, svo og að slík skammtímalán kynnu að vera óhagkvæm fyrir þá sem höfðu ekki mikla greiðslu­getu.

Stefndi byggir á því að í greiðsluáætluninni hafi ekki verið nein aðvörun um geng­is­áhættu. Eins og fram er komið var gengisáhættan stefnda kunn og gat það því ekki haft nein áhrif á ákvörðun hans að hennar var ekki getið í greiðsluáætluninni.

Dómurinn telur því að stefndi hafi fyllilega vitað hvaða áhætta væri bundin láni sem þessu og geti því ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki mátt sjá fyrir að verð­mæti höfuðstóls þess gæti sveiflast eins og það gerði á skömmum tíma. Hann mátti því sjá fyrir að svo gæti farið að 12 milljón­irnar sem hann átti von á að fá greiddar í janúar eða febrúar nægðu ekki til að greiða lánið, hvorki þá né þegar það féll í gjald­daga 1. september 2008.

Þar eð hann mátti því sjá fyrir þau atvik sem hann vill nú bera fyrir sig er ekki unnt að fallast á að forsendur hans fyrir lántökunni hafi brostið.

Það er rétt að fagráð bankans samþykkti tiltekna greiðslulausn í desember 2011. Að sögn stefnda var honum aldrei greint frá því, hvorki munnlega né skrif­lega. Sam­þykktin var endurvakin 11. júlí 2012. Samkvæmt henni bar stefnda að greiða 12 millj­ónir króna, með tilteknum vöxtum frá 21. desember 2011, og það sem ógreitt var af láninu skyldi greiða að svo miklu leyti sem hægt væri með greiðsluúrræði sem hét „Lækkun ann­arra skulda“. Hún fólst í því að fólk greiddi í þrjú ár 10% af launum sínum, eftir að skattur hafði verið dreginn frá þeim. Að þremur árum liðnum voru eftir­stöðvarnar felldar niður. Stefnandi bauð stefnda því aldrei að hann gæti gert lánið upp með því að greiða einvörðungu 12 millj­ónir króna. Jafnframt verður ekki fallist á að stefnandi hafi í orði eða verki fallist á að forsendur stefnda fyrir lántökunni hafi brostið.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að það eigi að víkja láns­samn­ingnum og endur­reikn­ingi hans til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.

Stefndi hafði starfað í sex og hálft ár hjá Landsbanka Íslands þegar hann tók lánið. Þar veitti hann fyrirtækjum fjármálaráðgjöf og kveðst hafa talsverða þekkingu á lánum. Því verður ekki fallist á að á hann hafi hallað þegar hann tók lánið 23. ágúst 2007.

Þegar lánið var tekið seldu stefndu Jón Þór og Emilía fasteign og keyptu aðra og tóku lánið til að brúa bil milli kaupsamningsgreiðslna. Dómurinn telur þessi atvik við samnings­gerð­ina ekki geta haft þýðingu. Hæstiréttur hefur þegar tekið afstöðu til efnis lánssamninga, sem jafnast á við þennan, og vikið til hliðar því ákvæði sem batt láns­fjárhæðina við gengi erlendra gjald­miðla svo og ákvæði þeirra um vexti vegna þess að bein og órjúfanleg tengsl væru milli þessara tveggja samningsákvæða.

Stefndi, Jón Þór, hefur einkum bent á það að hann hafi ætíð átt 12 milljónir króna og hefði því getað greitt lánið upp hefði það verið rétt reiknað út á fyrstu mán­uðum árs­ins 2008, það er eins og höfuðstóll þess væri ekki tengdur gengi erlendra gjald­miðla. Stefndi hafi ætíð haft fullan hug á því og leitað allra leiða til þess gagn­vart stefn­anda. Af þeim sökum sé ósann­gjarnt af stefnanda að krefjast þess að hann greiði sam­kvæmt útreikningi sem hafi verið ákveðinn í lögum nr. 151/2010 sem voru sett á Alþingi 18. desember 2010.

Það er rétt að samkvæmt skattframtölum átti stefndi í lok árs 2008 tæplega 12.400.000 kr. í lausafé. Gjalddagi lánsins var 1. september 2008. Þá bar stefnda að greiða lánið í síðasta lagi en gerði ekki. Hann vissi þó að skuldbinding hans við bank­ann gat aldrei numið lægri fjár­hæð en þeirri sem bankinn hafði afhent honum 23. ágúst 2007, það er 11 millj­ónum króna, og þeim vöxtum sem þá var samið um að höfuð­stóll lánsins bæri. Þessa fjárhæð bauð hann ekki fram á gjalddaga, né aðra fjár­hæð hærri eða lægri og ekki fyrr en sex og hálfu ári síðar.

Dómurinn telur það ekki geta haft þýðingu þótt stefndi hafi átt 12 milljónir króna í lausafé. Stefndi bauð það aldrei fram til greiðslu án fyrirvara eða skilyrða fyrr en eftir að málið var höfðað. Dómurinn fær því ekki séð að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 fyrir því að víkja efni samningsins til hliðar.

Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun fjárkröfu á viðtökudrætti stefnanda. Stefndi hafi, skömmu eftir að Hæstiréttur kvað upp þann dóm að óheimilt væri að tengja lán í íslenskum krónum gengi erlendra gjaldmiðla, í tölvupósti 21. júní 2010, boðið fram greiðslu/úrlausn.

Í tölvupóstinum lagði hann til að brúunarlánið yrði greitt upp miðað við höfuð­stól, auk erlendra vaxta frá lántökudegi. Hann tók jafn­framt fram að stefnandi gæti svo farið í mál við sig ef talið yrði að stefn­andi ætti ríkari rétt. Stefndi hefði þá komið sínum málum í réttan farveg í bili og hægt að losa pen­inga sem lágu á inn­láns­reikn­ingi. Stefndi fór ekki fram á að neinum trygg­ingum yrði aflétt.

Að mati dómsins bauð stefndi ekki fram greiðslu heldur bar tillögu að lausn undir stefnanda. Stefnandi hafnaði því að taka þessari tillögu sem fullnaðargreiðslu fyrir lánið enda var þá óvissa um það hvaða vexti lánið skyldi bera úr því að forsenda hinna lágu vaxta, tenging fjárhæðarinnar við gengi erlenda gjaldmiðla, hafði verið dæmd ólög­mæt.

Úr því að stefndi Jón Þór tengdi þessa greiðslu ekki við það að allsherjar­veð­inu yrði létt af Lambhagabúinu hefði hann getað farið í næsta útibú Landsbankans og óskað eftir því að andvirði þessarar tillögu sinnar yrði millifært af reikningi sínum og greitt inn á lánið, eins og hann gerði 2. janúar 2015 þegar hann óskaði eftir því við þáver­andi úti­bús­stjóra að 12 milljónir yrðu þegar í stað teknar af reikningi hans og greiddar inn á lánið. Þetta gerði hann ekki.

Dómurinn getur því ekki fallist á að það geti talist viðtökudráttur af hálfu stefn­anda þótt hann hafi ekki viljað samþykkja þessa tillögu stefnda Jón Þórs sem fulln­að­ar­greiðslu á láninu.

Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun fjárkröfunnar byggja stefndu einnig á tóm­læti stefnanda. Hann hafi aldrei tilkynnt stefndu Emilíu og Lambhagabúinu um afdrif láns­ins sem þau hafi tryggt með veði í eignum sínum.

Dómurinn fellst ekki á það með stefndu að stefnandi hafi ekki reynt að inn­heimta kröfuna fyrr en stefnan var birt stefndu 14. október 2014. Í málsatvikakafla eru rakin samskipti málsaðila og þar sést að stefnandi leitaði lausna í því skyni að krafan greidd­ist án málshöfðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, er forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað, sem féll til eftir gjald­daga, sú að hann hafi sann­an­lega tilkynnt ábyrgðarmanni vanefndir lántakans með tveggja vikna fyrirvara.

Þótt stefnandi hafi, í þeim tilkynningum sem hann sendi stefndu Emilíu, eigin­konu stefnda, ekki tekið fram að lánið væri fallið í gjalddaga getur dómurinn ekki fall­ist á að ósannað sé að hún hafi vitað af því. Dómurinn telur því að veðið sem stefnda veitti í fasteign sinni tryggi einnig dráttarvexti og vanskilakostnað sem féll til eftir gjald­daga.

Lög um ábyrgðarmenn taka til einstaklinga sem gangast í persónulega ábyrgð eða veita veð en taka ekki til lögaðila sem það gera. Að auki er stefnandi hluthafi í Lamb­hagabúinu og því er ekki trúverðugt að öðrum hluthöfum þess hafi ekki verið kunn­ugt um stöðu lánsins. Því verður það veð sem veitt var í Lambhaga einnig talið tryggja dráttarvexti og vanskilakostnað sem féll til eftir gjalddaga lánsins.

 

Dómurinn telur að skilja beri lokamálsástæða stefndu þannig að þau vilji að fjár­krafa stefnanda sé lækkuð um sem nemur annaðhvort vöxtum eða dráttarvöxtum af 12 milljónum króna frá 1. júní 2010 til 1. mars 2015. Það beri að gera vegna þess að stefndi, Jón Þór, hafi gert stefnanda réttmætt tilboð í tölvupósti 21. júní 2010 og því verði að taka tillit til þess við endurreikning lánsins.

Komið er fram að dómurinn telur það ekki viðtökudrátt að stefnandi vildi ekki fall­ast á þetta tilboð stefnda sem fullnaðaruppgjör. Hefði stefndi, Jón Þór, engu að síður vilja greiða þessa fjárhæð inn á lánið í júní hefði hann getað fært alla fjár­hæð­ina inn á einn þeirra reikninga sem hann átti í bankanum og krafist þess að starfsmaður bank­ans tæki fjárhæðina af reikningnum og legði inn á lánið, eins og hann gerði þegar hann sendi starfsmanni stefnanda tölvupóst 2. janúar 2015, eftir að þetta mál var höfðað, og krafðist þess að 12 milljónir króna yrðu teknar af reikningi hans og greiddar inn á lánið.

Slíka greiðslukröfu sendi stefndi bankanum ekki, hvorki í júní 2010 né síðar. Dóm­ur­inn getur því ekki fallist á að lækka eigi stefnufjárhæðina um fjárhæð sem sam­svarar vöxtum eða dráttarvöxtum af 12 milljónum króna reiknuðum frá júní 2010.

Það er rétt að bankinn á ekki að hagnast á því að lánið reyndist, að ígrunduðu máli, ólögmætt. Stefndi hefur hins vegar ekki sýnt fram á að það væri honum hag­stæð­ara að greiða lánið í samræmi við lánssamninginn, miðað við að höfuðstóll hans væri tengdur gengi japansks jens og svissneskra franka og bæri LIBOR-vexti ásamt vaxta­álagi, það er eins og lánið stóð á gjalddaga 1. sept­em­ber 2008 og með dráttarvöxtum frá 14. október 2010, heldur en stefnukröfuna.

Dómurinn hefur því hafnað öllum þeim málsástæðum sem stefndu færðu fyrir kröfu sinni um sýknu og varakröfu um lækkun fjárkröfu og veðkröfu.

Í dómkröfu krefst stefnandi þess að stefndu öll greiði vangoldna fjárhæð. Stefndi Jón Þór tók þó lánið og stefndu Emilía og Lambhagabúið veittu einvörðungu veð í eignum sínum en gengust ekki í greiðsluábyrgð fyrir láninu. Því verður að skilja kröfu stefnanda svo að hann krefjist þess að einvörðungu stefndi Jón Þór greiði fjár­hæð­ina sem krafist er greiðslu á.

Rétt þykir, eins og þetta mál er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af mál­inu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

Stefndi, Jón Þór Helgason, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 17.095.244 kr., ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 1. maí 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 2. janúar 2015 að fjárhæð 12.000.000 kr.

Stefnanda er heimilt að fá gert fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefndu Emilíu Þorsteinsdóttur, í fast­eign með fasta­núm­erið 227-0316, að Burkna­völlum 8, Hafnarfirði, ásamt til­heyr­andi hlutdeild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt tryggingar­bréfi nr. 0106-63-052144, útgefnu 27. ágúst 2007, til tryggingar skuldum stefnda Jóns Þórs.

Stefnanda er heimilt að fá gert fjár­nám inn í veðrétt sem hann á í eignarhluta stefnda, Lambhagabúsins ehf., í fast­eign­inni Lambhaga með landnúmerið 164528 og fasta­númerið 219-5492, Rangár­völlum, ásamt til­heyr­andi hlut­deild í eign­ar­lóð og öllu því, sem eigninni fylgir og fylgja ber, sam­kvæmt trygg­ing­ar­bréfi nr. 0111-63-217201, útgefnu 20. júní 2005, til trygg­ingar skuldum stefnda Jóns Þórs.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.