Hæstiréttur íslands
Mál nr. 495/2011
Lykilorð
- Kyrrsetning
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 1. mars 2012. |
|
Nr. 495/2011. |
Skarphéðinn
Berg Steinarsson (Þórður Bogason hrl.) gegn íslenska
ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.) |
Kyrrsetning. Skaðabætur.
S höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til
heimtu skaða- og miskabóta vegna kyrrsetningar sem fram hafði farið á eignum
hans. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 372/2010 hafði kyrrsetningin verið felld
úr gildi á þeim forsendum að ekki hafi staðið lagaheimild til kyrrsetningar
eigna vegna ætlaðra brota á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Hæstiréttur
taldi að S hefði ekki, ef frá væri talin aðilaskýrsla hans fyrir héraðsdómi,
fært nein gögn fram til stuðnings því að hann hafi beðið fjártjón vegna
kyrrsetningarinnar en um málskostnað hafi þegar verið dæmt í fyrrgreindu máli
sem væri bindandi um úrslit þess sakarefnis. Á hinn bóginn taldi rétturinn að
fullnægt væri skilyrðum laga til greiðslu miskabóta.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2011. Hann krefst þess að
stefndi verði dæmdur til að greiða sér
1.500.000 krónur, eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins, með dráttarvöxtum
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17.
september 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir
Hæstarétti, en til vara að niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verði staðfest
og málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar
fyrir Hæstarétti en til vara að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð og
málskostnaður felldur niður.
I
Í nóvember 2008 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á bókhaldi og
skattskilum FL Group hf.,
sem síðar varð Stoðir hf., vegna rekstraráranna 2005 til 2007. Áfrýjandi var
stjórnarformaður félagsins á þessum tíma. Taldi skattrannsóknarstjóri að
áfrýjandi hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr.
laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 262. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940 og óskaði eftir því með bréfi 15. apríl 2010 að tollstjóri hlutaðist
til um að eignir áfrýjanda yrðu kyrrsettar til tryggingar sekt sem við því
broti lægi er að lágmarki næmi 90.000.000 krónum. Tollstjóri óskaði
kyrrsetningar hjá áfrýjanda á grundvelli 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr.
90/2003 um tekjuskatt, en þessum ákvæðum var bætt í lögin með 1. gr. laga nr.
23/2010. Sýslumaður féllst á beiðni tollstjóra og fór kyrrsetning á eignum
áfrýjanda fram 30. apríl 2010. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010
var kyrrsetningin felld úr gildi og var sá úrskurður staðfestur með dómi
Hæstaréttar 21. júní 2010 í máli nr. 372/2010 á þeim forsendum að með
framangreindri lagabreytingu hefði verið veitt heimild til kyrrsetningar vegna
ætlaðra brota á lögum nr. 90/2003, en sú heimild næði ekki til að kyrrsetja
eignir vegna ætlaðra brota á lögum nr. 50/1988. Bótakrafa áfrýjanda fyrir
Hæstarétti er sundurliðuð þannig að helmingur hennar er vegna fjártjóns og
helmingur vegna miska.
II
Áfrýjandi beindi kröfu sinni í áfrýjunarstefnu og greinargerð til
Hæstaréttar að íslenska ríkinu og tollstjóra. Í þessu máli beinir áfrýjandi
bótakröfu að íslenska ríkinu og verður ekki séð að tollstjóri eigi aðild að því
við hlið íslenska ríkisins.
Samkvæmt 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 fer um framkvæmd og gildi
kyrrsetningarinnar sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim
undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til
staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skal ekki greiða fyrir ráðstafanirnar.
Samkvæmt því fer um skaðabætur vegna kyrrsetningar á grundvelli ákvæðisins
eftir VII. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. eftir því
sem við á. Í 4. mgr. 42. gr. síðastnefndu laganna segir að ef synjað sé um
staðfestingu kyrrsetningar eða lögbanns vegna annmarka á gerðinni sjálfri skuli
gerðarbeiðandi bæta tjón með þeim hætti sem í 1. mgr. greinarinnar segi ef
talið verður að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar. Í máli því sem hér er
til úrlausnar var gerðin felld úr gildi með dómi Hæstaréttar vegna annmarka á
gerðinni sjálfri í máli sem borið var undir dómstóla að frumkvæði gerðarþola,
áfrýjanda þessa máls. Verður að telja að ákvæði 4. mgr. 42. gr. laganna eigi
við þegar svo háttar. Þar sem ekki reyndist samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli
nr. 372/2010 vera lagaheimild til að krefjast kyrrsetningar í eigum áfrýjanda
verður að telja að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar í skilningi 4. mgr.
42. gr. laga nr. 31/1990 og fer því um bótaskyldu áfrýjanda eftir 1. mgr. greinarinnar.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um bætur vegna fjártjóns á því að reikningur
lögmanns hans vegna fyrrgreinds dómsmáls, sem varðaði ógildi
kyrrsetningargerðarinnar 30. apríl 2010, hafi verið hærri en tildæmdur
málskostnaður á báðum dómstigum og að áfrýjandi hafi auk þess sjálfur innt af
hendi vinnu í tengslum við dómsmálið. Samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála telst meðal annars til málskostnaðar kostnaður af flutningi
máls og annar kostnaður sem stafar beinlínis af máli. Með dómi Hæstaréttar í
máli nr. 372/2010 var kveðið á um hvað teldist hæfilegur málskostnaður úr hendi
stefnda til áfrýjanda vegna þess máls. Er sá dómur bindandi um úrslit þess
sakarefnis samkvæmt 116. gr. nefndra laga og á áfrýjandi ekki frekari
fjárkröfur á stefnda vegna þess, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 1. febrúar 1996 í
máli nr. 291/1994, sem birtist á bls. 284 í dómasafni 1996. Ef frá er talin
aðilaskýrsla áfrýjanda fyrir héraðsdómi hefur hann ekki fært fram gögn til
stuðnings því að hann hafi að öðru leyti beðið fjártjón vegna
kyrrsetningarinnar og verður stefndi því sýknaður af þeim þætti kröfu hans.
Skilyrðum 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 til greiðslu miskabóta er á hinn
bóginn fullnægt og eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Verður stefndi
dæmdur til að greiða þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá því að málið var höfðað
eins og í dómsorði greinir.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir
Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Skarphéðni Berg Steinarssyni, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. september 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2011.
Mál þetta, sem dómtekið
var 16. maí 2011, er höfðað 17. september 2010.
Stefnandi
er Skarphéðinn Berg
Steinarsson, Melhaga 1, Reykjavík.
Stefndu eru fjármálaráðherra
f.h. íslenska ríkisins, Tollstjóri, Tryggvagötu 19, Reykjavík, og
Skattrannsóknarstjóri ríkisins, Borgartúni 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir þær kröfur aðallega að stefndu verði allir, in solidum, dæmdir til að greiða
stefnanda:
1. Skaðabætur að fjárhæð 5.000.000
króna, eða lægri fjárhæð að mati dómsins, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr., sbr. 9. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 30. apríl
2010 til greiðsludags.
2. Miskabætur að fjárhæð 5.000.000
króna, eða lægri fjárhæð að mati dómsins, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr., sbr. 9. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 30. apríl
2010 til greiðsludags.
3. Málskostnað að skaðlausu samkvæmt
mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til
virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.
Til vara gerir stefnandi sömu dómkröfur og gerðar eru í aðalkröfu,
sbr. lið 1-3 hér að framan, in soldium á
hendur stefndu íslenska ríkinu og Tollstjóra.
Dómkröfur stefnda
Stefndu
krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur
til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins.
Til
vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að
málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Stefnandi kveðst hafa
verið stjórnarformaður FL Group
hf., nú Stoða hf., frá því síðla árs 2005 til 8. júní 2007 og gengið endanlega
úr stjórn félagsins í desember 2007. Á þeim tíma sem hann var stjórnarformaður FLG hafi verið um stórfyrirtæki að ræða sem velti tugum
milljarða króna á ári. Stefnandi kveðst ekki hafa komið að daglegum rekstri FLG, t.d. hafi hann ekki verið starfandi stjórnarformaður
eins og það sé nefnt. Stefnandi telur engin rök til að ætla annað en hann hafi
fullkomlega sinnt sinni rannsóknar- og eftirlitsskyldu í störfum fyrir FLG. Félagið hafi haft í þjónustu sinni færustu sérfræðinga
á sviði fjármála, uppgjörs og skattskila sem völ var á og hafi ráðið KPMG endurskoðunarfyrirtækið til að annast endurskoðun.
Með bréfi Skattrannsóknarstjóra
ríkisins, dags. 10. júní 2009, var stefnandi boðaður til skýrslugjafar hjá
embættinu. Í bréfinu kom fram að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns við
skýrslutökuna. Hinn 22. júní 2009 mætti stefnandi ásamt lögmanni sínum til
skýrslutökunnar. Tilefni hennar var rannsókn á bókhaldi og skattskilum FL Group hf., nú Stoða hf., vegna
rekstrartímabilsins janúar 2005 til og með desember 2007. Var stefndi upplýstur
um að hann hefði stöðu sakbornings við skýrslutökuna. Stefnanda var kynnt
sakarefni, sem væri ætluð brot gegn lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr.
50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra
gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 145/1994, um bókhald
og lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Ætluð brot voru talin felast í því að
skilað hefði verið röngum skattframtölum, ársreikningum og
staðgreiðsluskilagreinum vegna rekstrar FL Group hf. Ætluð brot voru einnig talin felast í því að hafa
oftalið rekstrargjöld og vanrækt að gera grein að fullu fyrir hlunnindum og
persónulegum úttektum starfsmanna og halda eftir staðgreiðslu af þeim.
Framangreind brot vörðuðu rekstrarárin 2005 til og með 2007. Þá voru ætluð brot einnig talin felast í því
að vanrækt hefði verið að standa skil á eyðublaði RSK
nr. 10.24, sem er skýrsla um virðisaukaskattskyld kaup á þjónustu frá útlöndum,
vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2006 og 2007 og standa skil á
virðisaukaskatti vegna hennar.
Í þessu sambandi kveður
stefnandi mikilvægt að líta til þess að það sé félagið sem sé sá skattaðili sem
rannsóknin beinist að en að hún beinist ekki að persónulegum skattskilum
stefnanda. Þá sé einnig vert að hafa í huga að félagið sé gjaldfært og hafi
sett tryggingar fyrir hugsanlegum vangreiddum sköttum.
Stefnandi var kallaður í
yfirheyrslu hjá stefnda, Skattrannsóknarstjóra ríkisins, hinn 22. júní 2009.
Stefnandi kveður þá yfirheyrslu ekki hafa gefið honum ástæðu til að ætla að
hann hefði með störfum sínum sem stjórnarformaður FLG
gerst sekur um að hafa með ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn
ákvæðum skattalaga, öðru nær. Það hafi því komið stefnanda í opna skjöldu þegar
fjölmiðlar hafi birt fréttir af því hinn síðasta vetrardag, 21. apríl 2010, að
til stæði að kyrrsetja eignir hans sökum gruns um stórfelld skattalagabrot. Í
símtali sem stefnandi hafi átt við Skattrannsóknarstjóra ríkisins, að morgni
23. apríl sl., hafi sá síðarnefndi viðurkennt að leki til fjölmiðla stafaði frá
embætti hans og sá leki yrði rannsakaður, sbr. dskj.
6. Leki þessi til fjölmiðla sé refsing fyrir brot sem engin sönnun liggi fyrir
um að hafi verið framið og virðist brotið helst rakið til almennrar þátttöku
stefnanda í íslensku atvinnulífi. Þetta atvik, eitt og sér, hafi valdið
stefnanda miklu tjóni og miska.
Í ljósi frétta fjölmiðla
hafi stefnandi gert tilraun til að vekja athygli stefndu, Skattrannsóknarstjóra
ríkisins og Tollstjóra, á því að ekki væru lagaskilyrði til þess að beina
kyrrsetningarbeiðni að honum. Hafi hann sent embættunum bréf hinn 25. apríl sl.
til að skýra sjónarmið sín en án árangurs. Ekki hafi verið haft samband við
hann né gerð nein könnun á því hverjar hans eigur væru eða aðstæður hans að
öðru leyti.
Með kyrrsetningarbeiðni,
dags. 27. apríl 2010, setti stefndi, Tollstjóri, fram kröfu um kyrrsetningu á
eignum stefnanda á grundvelli 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um
tekjuskatt, sbr. ákvæði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Í
beiðninni kemur fram að Skattrannsóknarstjóri taldi rökstuddan grun vera fyrir
hendi um að stefnandi hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr.
40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Ætluð brot voru talin felast í því að staðin hefðu
verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum, fyrir hönd skattaðila,
með því að vanframtelja virðisaukaskatt af aðkeyptri
þjónustu erlendis frá. Taldi Skattrannsóknarstjóri ríkisins að refsing
stefnanda yrði að lágmarki 90.000.000 króna. Þá segir að reynsla skattyfirvalda
hafi leitt í ljós að við rannsókn mála af þessu tagi sé veruleg hætta á að
eignum skattaðila verði skotið undan, þær glatist eða rýrni að mun.
Kyrrsetningargerðin fór
fram 30. apríl 2010 að kröfu stefnda Tollstjóra. Stefnandi kveðst hafa mótmælt
gerðinni í ítarlegri greinargerð sinni. Stefnandi kveður kyrrsetninguna hafi
verið árangurslausa að hluta og hefði hún því getað orðið grundvöllur
gjaldþrotaskipta. Stefnandi kveðst vera viðskiptafræðingur frá HÍ með
framhaldsnám í stefnumótun og stjórnun fyrirtækja frá Bandaríkjunum. Honum sé því
sérstaklega mikilvægt að hafa forræði á búi sínu þar sem þau störf sem hann
hafi haft á hendi, og sinni enn, geri kröfu til þess að hann hafi forræði á búi
sínu.
Með beiðni til Héraðsdóms
Reykjavíkur hinn 4. maí 2010 var gerð krafa af hálfu stefnanda um að
kyrrsetningargerðin yrði felld úr gildi. Með úrskurði sínum 2. júní 2010 féllst
Héraðsdómur á kröfu stefnanda þar sem í lögum væri ekki að finna heimild til
kyrrsetningar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr.
laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og hafi því skort lagaskilyrði fyrir því
að hin umdeilda gerð færi fram. Með dómi Hæstaréttar hinn 21. júní 2010 var
þessi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur staðfestur.
Kyrrsetningunni var
aflýst úr veðmálabókum þann 22. júní 2010. Þann 24. júní 2010 var
kyrrsetningargerðin endurupptekin og öll réttindi samkvæmt henni felld niður.
Málskostnaður, samtals að fjárhæð 500.000 krónur, sem stefndi var dæmdur til að
greiða stefnanda með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar, var greiddur
2. júlí 2010.
Hinn 20. ágúst 2010 sendi
stefnandi embætti ríkislögmanns kröfubréf. Krafðist hann bóta, annars vegar
vegna áfallins málskostnaðar og innheimtu launa að fjárhæð 1.597.367 krónur og
hins vegar miskabóta að fjárhæð 3.900.000 krónur.
Stefndu kveða rannsókn á
skattskilum Stoða hf., áður FL Group
hf., á lokastigi og liggi fyrir skýrsla um rannsóknina, sem félaginu hafi verið
send, stefnanda og öðrum sakborningum í málinu, til andmæla hinn 28. júní 2010.
Andmæli stefnanda hafi borist Skattrannsóknarstjóra hinn 12. júlí 2010. Til
standi að senda lokaskýrslu málsins út innan fárra daga að teknu tilliti til
andmæla eftir því sem ástæða þyki til. Réttarstaða stefnanda hafi ekki breyst
undir rannsókn málsins. Hann hafi enn réttarstöðu sakbornings.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Dómkröfu sína byggir
stefnandi á því að kyrrsetningargerð sú sem stefndi, Tollstjórinn, krafðist að
gerð yrði á eignum stefnanda hafi byggst á 6. og 7. mgr. 113. gr. laga um
tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. lög nr. 23/2010 (tsl.),
en hér hafi í fyrsta sinn reynt á nýmæli í lögum sem gangi mjög nærri
meginreglum réttarríkisins. Við setningu laga nr. 23/2010 hafi viðkomandi
yfirvöld, þ.e.a.s. stefndu Tollstjóri og Skattrannsóknarstjóri, sérstaklega
verið vöruð við því af löggjafanum að beita ákvæðinu af meðalhófi og skynsemi
þar sem misbeiting þess hefði mjög alvarleg áhrif á hag þess sem
kyrrsetningunni væri beint að auk annarra sem óbeint yrðu fyrir tjóni af henni.
Í nefndaráliti efnahags-
og skattanefndar Alþingis, sbr. þskj. 868 á 138.
löggjafarþingi, sé hnykkt á því að stefndi, Tollstjórinn, meti sjálfstætt hvort tilefni sé til að fara
með kyrrsetningarbeiðni fyrir sýslumann. Nefndin hafi, auk annars, lagt áherslu
á að kyrrsetning stæði ekki lengur yfir en brýna nauðsyn bæri til. Þá hafi
nefndin tekið eftirfarandi fram í nefndaráliti sínu : „Innan nefndarinnar hafa
að teknu tilliti til sjónarmiða um réttláta málsmeðferð sakborninga og
friðhelgi eignarréttarins komið fram skiptar skoðanir um hversu víðtækar
heimildir opinberir valdhafar eigi að hafa til að tryggja endurheimt verðmæta
sem grunur leikur á að skattgreiðendur hafi tileinkað sér með ólögmætum hætti,
sérstaklega gagnvart hinum smærri sem standa oft höllum fæti. Kyrrsetning eigna
getur haft mjög alvarleg áhrif á rekstur þeirra. Viðmælendum nefndarinnar bar
saman um að kyrrsetning eigna er íþyngjandi þvingunarúrræði sem beita ber af
sérstakri varúð, ekki síst þegar hún beinist að aðila sem ber ábyrgð á
skattgreiðslum en er sjálfur ekki til rannsóknar.“
Fyrir liggi að stefndu,
Skattrannsóknarstjóri og Tollstjóri, hafi gert óvenju róttæka aðför að
stefnanda og fjárhagslegri afkomu fjölskyldu hans sem sé ólögmæt. Þessi aðför
hafi vakið mikla athygli og fjölmiðlaumræðu um ein viðkvæmustu einkamál hvers
manns, þ.e.a.s. fjárhagslega stöðu hans. Til að auka á ólögmætið hafi frétt um
kyrrsetninguna verið lekið til fjölmiðla af hálfu stefndu,
Skattrannsóknarstjóra eða Tollstjóra, því hafi stefnanda fyrst borist fréttir
af þessu frá fjölmiðlum. Slík vinnubrögð séu ámælisverð að mati stefnanda. Beri
stefndu sönnunarbyrði fyrir því að þessi leki sé ekki frá þeim kominn því engum
öðrum aðila sé til að dreifa sem vitneskju hafði um að kyrrsetning væri í
bígerð.
Þessu til viðbótar hafi
fjölmiðlar fjallað mikið um þetta mál, oft þannig að sneitt sé að fjárhagslegri
stöðu stefnanda.
Stefnandi telur engum
vafa undirorpið að stefndu hafi bakað sér bótaskyldu með framangreindum
aðgerðum og afleiðingum þeirra enda ólögmætar með öllu eins og staðfest sé með
fyrrgreindum hæstaréttardómi. Aðgerðir stefndu hafi einnig verið saknæmar.
Stefndi, Tollstjóri, hafi gerst sekur um ásetning eða stórfellt gáleysi, með
því að leggja fram ólögmæta kyrrsetningarbeiðni og hið sama gildir um stefnda,
Skattrannsóknarstjóra. Sá síðarnefndi beri einnig húsbóndaábyrgð á
upplýsingaleka. Stefndi, íslenska ríkið, beri einnig ábyrgð á ólögmætum gerðum
þessara tveggja embætta, sem og Sýslumannsins í Reykjavík.
Ekki verði betur séð en
að stefnandi hafi verið gerður að blóraböggli í máli þar sem ætlun stefndu,
Skattrannsóknarstjóri, og Tollstjóri, virðist hafa verið að svara kalli í
opinberri umræðu um kyrrsetningu á eignum auðmanna, en þar sé vísað til þeirrar
umræðu sem uppi sé í þjóðfélaginu eftir bankahrunið haustið 2008. Á þeirri
vegferð hafi öllum réttarreglum verið vikið til hliðar, bæði stjórnsýslulögum
en ekki síður skattalögunum sjálfum. Þessu til stuðnings megi benda á viðtal
við Skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem hann segi m.a. „Bryndís segir lögin
ekki ná markmiði sínu, sem var að kyrrsetja eignir þeirra sem komu að
bankahruninu.“ Hér verði að gera alvarlegar athugasemdir við málflutning
stjórnvalda. Stefnandi mótmæli því að vera samsamað við óskilgreindan hóp
þeirra „sem komu að bankahruninu“ eða að vera talinn í hópi auðmanna. Nánar
vísist um þetta til framlagðra gagna í málinu.
Fyrirliggjandi sé ótvíræð
sönnun um ólögmæti kyrrsetningargerðar þeirrar sem stefndi, Tollstjóri,
krafðist að gerð yrði á öllum eignum stefnanda og fram fór hinn 30. apríl 2010.
Af þessu hafi hlotist mikið tjón fyrir stefnanda, bæði vegna lögmannskostnaðar,
sem hann hafi einvörðungu að litlu leyti fengið bættan, og af öðru beinu
fjárhagstjóni hans. Skaðabótakrafa þessi sé byggð á 42. gr. laga nr. 31/1990,
um kyrrsetningu, lögbann ofl., sbr. sérstaklega 1.
sbr. 4. mgr. Sökum þess að erfitt sé að sanna fjárhæð hins fjárhagslega tjóns,
annars en lögmannskostnaðar, sé gerð krafa um að skaðabætur verði dæmdar að
álitum, eins og greinin heimili. Um frekari rökstuðning bótakröfu sé vísað til
framlagðra greinargerða og annarra gagna sem stefnandi leggi fram í máli þessu.
Öll skilyrði þess að fella skaðabótagreiðslu á stefndu séu fyrir hendi.
Þá er einnig ljóst að hin
ólögmæta kyrrsetningargerð hafi valdið stefnanda miklum miska, m.a. hugarangri
og verið fjölskyldu hans þungbær. Í 42. gr. laga nr. 31/1990 sé mælt fyrir um
að gerðarþola, sem sé stefnandi í þessu tilviki, skuli bættur sá miski sem
telja má að gerðin hafi valdið.
Vegna umfjöllunar í
fjölmiðlum í aðdraganda kyrrsetningargerðar sem getið sé hér að framan byggir
stefnandi á því að stefndu hafi brotið gegn almennum skaðabótareglum og þar með
valdið honum beinu fjárhagstjóni. Hann krefst þess því til viðbótar að honum
verð verði greiddar miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn persónu sinni,
sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði b-liðar 1. mgr. þessarar
greinar skaðabótalaga séu þau að heimilt sé að láta þann sem ber ábyrgð á
ólögmætri meingerð greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Stefndu hafi
brotið lög og í því felist ólögmæti og meingerð gagnvart stefnanda. Því séu
skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga uppfyllt, sem og skilyrði
skaðabótaskyldu stefndu.
Stefndi, íslenska ríkið,
beri ábyrgð á gerðum stefndu, Tollstjóra og Skattrannsóknarstjóra ríkisins, auk
gerða Sýslumannsins í Reykjavík. Þannig byggi kröfugerð stefnanda um skaða- og
miskabætur bæði á 42. gr. laga nr. 31/1990 og hinni almennu skaðabótareglu,
sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk reglunnar um húsbóndaábyrgð,
varðandi allar málsástæður stefnanda.
Varakrafa sé gerð ex tuto og byggi að öllu leyti á
sömu málsástæðum og aðalkrafa að því undanskildu að henni sé ekki beint að
Skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Vísað sé til meginreglna
skaðabótaréttar og hinnar almennu skaðabótareglu auk húsbóndaábyrgðar, laga um
kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, laga um
tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. lög nr. 23/2010, og skaðabótalaga, nr. 50/1993. Dráttarvaxtakrafa
stefnanda styðjist við ákvæði laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr.
sérstaklega 1. mgr. 6. gr. svo og 9. gr. Málskostnaðarkrafa stefnanda styðjist
við 1. mgr. 130. gr., sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála.
Málsástæður stefndu og lagarök
Í greinargerð sinni benda
stefndu á að málatilbúnaður stefnanda samrýmist varla d- og e- liðum 1. mgr.
80. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í þessum efnum.
Stefndu hafi átt í erfiðleikum með að rekja saman dómkröfur stefnanda um bætur
og miska og framsetningu þeirra í meginmáli stefnu, en þar ægir öllu saman,
málavöxtum, málsástæðum og lagarökum. Þá sé í stefnu vísað til framlagðra
skjala varðandi sundurliðun bótakröfu, en stefndi hafi ekki fundið slíka
sundurliðun, þrátt fyrir ítarlegan lestur þeirra skjala sem stefnandi leggi
fram. Þá sé dómkrafa stefnanda um skaðabætur vegna málskostnaðar að hluta til
dæmd og komi því ekki til frekari úrlausnar vegna res
judicata áhrifa, samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga um
meðferð einkamála.
Stefndu færa eftirfarandi
rök fyrir sýknukröfu sinni:
Í máli þessu liggi fyrir
dómur Hæstaréttar Íslands, uppkveðinn þann 21. júní 2010, í máli nr. 372/2010,
Tollstjórinn í Reykjavík gegn stefnanda, þar sem staðfestur hafi verið
úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um að krafa
Tollstjórans í Reykjavík um kyrrsetningu á eignum stefnanda næði fram að ganga.
Aðilar málsins séu stefnandi og Tollstjórinn í Reykjavík. Stefnandi hafi stefnt íslenska ríkinu,
Tollstjóranum í Reykjavík og Skattrannsóknarstjóra ríkisins til greiðslu
skaðabóta vegna gerðarinnar.
Stefndi Skattrannsóknarstjóri
ríkisins hafi ekki verið aðili að kyrrsetningargerð þeirri sem stefnandi byggi
bótakröfur sínar á. Beri því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda, sökum
aðildarskorts, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði ekki fallist á
sýknukröfu stefnda, Skattrannsóknarstjóra ríkisins, vegna aðildarskorts, byggi
hann sýknukröfu sína á því að hann hafi farið að lögum og gætt meðalhófs í
störfum sínum. Kyrrsetningarkrafan hafi verið sett fram að gættum lagaskilyrðum
og áralangri lagatúlkun skattyfirvalda. Skattrannsóknarstjóri hafi lagt fram beiðni um að Tollstjórinn í Reykjavík
framkvæmdi kyrrsetninguna með vísan til ákvæða 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr.
90/2003, sbr. lög 23/2010 um tekjuskatt, enda hafi hann litið svo á að þau ákvæði
tækju einnig til ætlaðra brota á virðisaukaskattslögum, sbr. m.a. tilvísun 5.
mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til laga nr. 90/2003 um
tekjuskatt. Í framkvæmd hafi og verið litið svo á að málsmeðferðarreglur
skattsýslunnar væri fyrst og fremst að finna í þeim lögum. Tilgangurinn með
slíkri tilvísun sé m.a. sá að koma á samræmdum reglum að þessu leyti á sviði
skattaréttar, enda til einföldunar og hagræðis.
Yfirskattanefnd hafi í
úrskurði nr. 9/2004 túlkað almenna tilvísun til laga um tekjuskatt (og
eignaskatt) í 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt þannig að ef
ekki séu sérstök ákvæði í lögum nr. 50/1988 fari um þau samkvæmt lögum um
tekjuskatt, eftir því sem við á. Úrskurðurinn sé birtur á heimasíðu
nefndarinnar.
Í nefndaráliti efnahags-
og skattanefndar, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003 um
tekjuskatt, með síðari breytingum (kyrrsetning eigna) komi fram að í
frumvarpinu sé lagt til að Skattrannsóknarstjóra verði veittar sams konar
heimildir og lögregla hefur samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála til að óska kyrrsetningar eigna við rannsókn skattsvika eða annarra
refsiverðra skattalagabrota í þeim tilgangi að tryggja greiðslu skattkrafna og
fésektarkrafna sem sennilegt sé að rannsókn leiði í ljós. Frumvarpið hafi verið
lagt fram vegna hættu á að aðilar sem eiga yfir höfði sér skattkröfur og
fésektir vegna gruns um refsiverð skattalagabrot skjóti undan eignum sínum á
meðan á rannsókn mála þeirra stendur.
Stefndi fái ekki séð að
vilji löggjafans hafi takmarkast við skattalagabrot vegna laga um tekjuskatt
einvörðungu, heldur til skattalagabrota almennt. Með vísan til þess sem að
framan greini telji stefndi, Skattrannsóknarstjóri ríkisins, að hann hafi í
störfum sínum ekki farið út fyrir gildandi lagaramma, þ.e. að þar sem
löggjafinn hafi ekki séð ástæðu til að setja kyrrsetningarheimildir í önnur
skattalög en tekjuskattslögin, hafi hann réttilega mátt ætla að fyrri túlkun
skattyfirvalda á efnisákvæði 5. mgr. 49. gr. laga 50/1988 væri í fullu gildi og
kyrrsetningin því heimil á þeim grunni. Stefndi, Skattrannsóknarstjóri
ríkisins, hafi því ekki sýnt af sér neina saknæma háttsemi, heldur þvert á móti
vandað til málsmeðferðarinnar.
Stefndi vilji vekja
athygli á því að í stefnu er því slegið fram að stefndi, íslenska ríkið, beri
ábyrgð á ólögmætum gerðum Sýslumannsins í Reykjavík, án þess að þar sé að finna
neina útlistun á því í hverju sú háttsemi sé fólgin. Sýslumanninum í Reykjavík
hafi ekki verið stefnt til að þola dóm í máli þessu. Mótmæli stefndi því sem
röngu, órökstuddu og ósönnuðu að Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi valdið
stefnanda bótaskyldu tjóni.
Stefndu,
Skattrannsóknarstjóri ríkisins og Tollstjórinn í Reykjavík, mótmæla þeim
ávirðingum sem stefnandi skenkir þeim í stefnu, s.s. að þeir hafi gert óvenju
róttæka aðför að stefnanda og fjárhagslegri afkomu hans, sem og því að
stefnandi hafi verið gerður að blóraböggli í máli þar sem ætlun stefndu virðist
hafa verið að svara kalli í opinberri umræðu um kyrrsetningu á eignum auðmanna.
Þessum ummælum í stefnu sé mótmælt sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum. Þá sé
því mótmælt sem segir í stefnu að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr.
372/2010 liggi fyrir að um ólögmæta meingerð af hálfu stefndu gagnvart
stefnanda hafi verið að ræða. Í dómi réttarins sé enga slíka tilvísun að finna.
Stefndu mótmæli
skaðbótakröfu og miskabótakröfu stefnanda sem órökstuddum og ósönnuðum.
Af stefnu megi ráða að
stefnandi byggi bótakröfu sína á þríþættum grunni. Í fyrsta lagi á grundvelli
42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Í öðru lagi á
grundvelli almennu sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð. Í þriðja lagi
krefst hann miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993
vegna umfjöllunar fjölmiðla í aðdraganda kyrrsetningargerðarinnar.
Stefnandi skilgreini
fjárhagslegt tjón sitt á bls. 4 í stefnu og sé bótakrafa hans grundvölluð á 42.
gr. laga nr. 31/1990. Megi ráða að tjónið samanstandi annars vegar af
lögmannskostnaði sem stefnandi hafi þurft að greiða umfram þann málskostnað sem
hann hafi fengið úrskurðaðan í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 2. júní 2010 og
fyrir Hæstarétti þann 21. júní 2010 og hins vegar af öðru beinu fjárhagstjóni
hans, óskilgreindu, sem sé ósannað. Þá sé ekki gerð grein fyrir því í hverju
meint tjón hans sé fólgið, né hver tengsl þess séu við atvik málsins.
Sönnunarbyrðin um bótaskilyrðin hvíli á stefnanda.
Stefndu mótmæli kröfu um
lögmannskostnað með vísan til 116. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar
sem afstaða til hennar hafi verið tekin af æðri dómstól og þar ákveðið hver
hæfilegur málskostnaður úr hendi stefndu ætti að vera. Stefndu hafi greitt
stefnanda tildæmdan málskostnað. Sýkna beri stefndu af greiðslu frekari bóta
til stefnanda vegna lögmannskostnaðar hans þar sem þeirri kröfu, um greiðslu
málskostnaðar, hafi endanlega verið ráðið til lykta með dómi.
Kröfu stefnanda um
greiðslu bóta vegna annars beins fjárhagstjóns, sem stefnandi virðist styðja
við 1. sbr. 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990, sé mótmælt sem órökstuddu og
ósönnuðu. Þessi krafa sé með öllu ósönnuð og hafi stefnandi ekki lagt fram nein
gögn henni til stuðnings og sé stefnda ógerlegt að átta sig á forsendum hennar.
Af lagaákvæðinu sjálfu megi ráða að sönnun um fjárhagslegt tjón sé forsenda
þess að heimilt sé að dæma bætur að álitum. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á
neitt fjárhagslegt tjón, umfram fyrrgreindan málskostnað, né reifað í hverju
það sé fólgið, hvað þá stutt meint tjón sitt gögnum. Stefnandi hafi ekki sannað
fjártjón sitt og beri því að sýkna stefndu af öllum slíkum kröfum.
Verði ekki fallist á
sýknukröfu stefndu á framangreindum grundvelli byggja stefndu sýknukröfu sína á
4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, en þar komi fram að
gerðarbeiðandi skuli bæta tjón með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. ef talið
verður að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar. Stefndu telja að fullt
tilefni hafi verið til gerðarinnar hjá stefnanda. Skattrannsóknarstjóri
ríkisins hafi rökstuddan grun um að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða
háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 1.
mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ætluð brot hans felist m.a. í
að staðin hafi verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir
hönd FL Group hf., nú Stoða
hf., með því að vanframtelja virðisaukaskatt af
aðkeypti þjónustu erlendis frá. Telji Skattrannsóknarstjóri ríkisins að refsing
stefnanda vegna brotanna verði sekt að lágmarki 90 milljónum króna.
Skattrannsóknarstjóri hafi farið þess á leit við Tollstjóra að kyrrsetningin
yrði framkvæmd til tryggingar væntanlegri sekt. Fullt tilefni hafi því verið
til gerðarinnar, enda fyrirliggjandi rökstuddur grunur um skattalagabrot.
Kyrrsetningarbeiðni Skattrannsóknarstjóra hafi einungis falið í sér einn anga
umfangsmikillar rannsóknar og refsivörslu vegna ætlaðra skattalagabrota
stefnanda.
Stefndi, Tollstjórinn í
Reykjavík, byggi sýknukröfu sína á því að honum sé ekki ætlað að meta réttmæti
væntanlegrar skattkröfu, eins og berlega komi fram í framlögðu nefndaráliti
efnahags- og skattanefndar Alþingis. Skattrannsóknarstjóri ríkisins annist
rannsókn á ætluðum brotum skattaðila og þeirra sem ábyrgð bera á skattskilum
þeirra. Fyrir liggur að Skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi rökstuddan grun um
að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr.
laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt,
sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tollstjóra
sé ætlað að meta hvort krefjast eigi kyrrsetningar með hliðsjón af eignastöðu
þess sem krafan beinist gegn og á hvaða eignum krefjast eigi kyrrsetningar, en
honum sé ekki ætlað að taka efnislega afstöðu til réttmæti væntanlegar
skattkröfu. Endanleg ákvörðun um það hvort farið er fram á kyrrsetningu eigna
sé því í höndum Tollstjóra en frumkvæðið komi frá Skattrannsóknarstjóra.
Stefndi, Tollstjórinn í Reykjavík, hafi farið að lögum og gætt meðalhólfs og
vandaðra stjórnsýsluhátta við framkvæmd kyrrsetningarinnar og beri því að sýkna
hann af öllum kröfum stefnanda.
Ekki verði séð að
stefnandi hafi mátt þola andlega þjáningu og miska vegna lögmætra aðgerða
Skattrannsóknarstjóra ríkisins í því skyni að upplýsa stórfelld skattalagabrot,
eða aðgerða Tollstjórans í Reykjavík við að framkvæma kyrrsetningu til að
tryggja greiðslu væntanlegrar sektar vegna meintra skattalagabrota. Aðgerðir
stefndu hafi verið innan ramma þeirra laga og reglna sem þeir starfi samkvæmt
og hafi meðalhófs verið gætt. Stefndi telji engin skilyrði miskabóta uppfyllt,
hvorki samkvæmt 42. gr. laga nr. 31/1990 né samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr.
skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi sæti rannsókn
Skattrannsóknarstjóra, vegna meintara skattsvika Stoða hf., áður FL Group hf., sem hafi verið
almenningshlutafélag undir stjórnarformennsku stefnanda. Þær ávirðingar sem
stefnanda eru gefnar að sök séu tíundaðar í skýrslu Skattrannsóknarstjóra vegna
yfirheyrslu yfir stefnanda 22. júní 2009. Stefnandi hafi enn réttarstöðu
sakbornings og sé rannsóknin á lokastigi. Kyrrsetningargerðin hafi verið þáttur
í refsivörslu Skattrannsóknarstjóra. Refsimálið sé enn óútkljáð og því ekki forsendur
til að beita b-lið 26. gr. skaðabótalaga, þar sem í dómaframkvæmd hafi verið
miðað við að máli hafi verið lokið með niðurfellingu rannsóknar, saksóknar eða
með sýknudómi.
Stefndu
telja koma til greina að sýkna stefndu að svo stöddu, þar sem skattrannsókn á
hendur stefnanda sé ekki lokið.
Stefndu mótmæli því sem
röngu og ósönnuðu að starfsmenn stefndu eigi einhvern þátt í því að frétt um
kyrrsetninguna hafi borist til fjölmiðla í aðdraganda hennar. Þessi fullyrðing
stefnanda sé úr lausu lofti gripin og eigi sér enga stoð. Af stefnu megi ráða
að stefnandi telji ólögmæta meingerð gegn persónu sinni aðallega felast í
þeirri athygli sem fjölmiðlar hafi sýnt máli hans. Hafi þeir oft sneitt að
fjárhagslegri stöðu stefnanda og haft hann að háði. Stefndu byggi sýknukröfu
sína á því að þeir séu ekki réttir aðilar að bótakröfu stefnanda vegna ummæla
fjölmiðla. Stefndu beri ekki ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla og sé hún ekki á
ábyrgð ríkissjóðs. Þá vilji stefndu taka það fram að upplýsingar um bága
fjárhagsstöðu stefnanda eru ekki frá stefndu komnar, heldur frá stefnanda
sjálfum, sbr. endurrit úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík, þar sem haft sé
eftir stefnanda að fjárhagsstaða hans sé mjög slæm, hann sé án atvinnu og með
miklar veðskuldir.
Að virtu öllu
framangreindu telji stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á
sýknukröfu stefndu mótmæla stefndu fjárhæð skaðabóta og miskabótakröfu
stefnanda sem of háum. Stefndu telji að lækka beri stefnukröfur verulega með
vísan til dómaframkvæmdar, þar sem bætur hafi verið ákvarðaðar miklum mun lægri
en kröfur stefnanda hljóða um.
Dráttarvaxtakröfu
stefnanda sé mótmælt. Stefnandi hafi boðað ýmiss konar kröfur um bætur frá
uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í kyrrsetningarmálinu. Kröfugerð í stefnu hafi ekki
verið kynnt fyrir stefndu áður og telji stefndu því að miða beri dráttarvexti
við dómsuppsögu. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem styðji
bótakröfu hans og sé því skilyrðum 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu ekki fullnægt.
Stefndu vísi til
áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130.
gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða
Hinn 11. nóvember 2008
hóf Skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs Group hf., nú Stoða hf., vegna rekstrartímabilsins 2005 til
og með desember 2007. Stefnandi var stjórnarformaður félagsins á þessum tíma.
Vegna rannsóknarinnar var stefnandi boðaður til skýrslutöku hjá
Skattrannsóknarstjóra ríkisins. Við skýrslutökuna var hann upplýstur um að hann
hefði stöðu sakbornings. Með bréfi, dags. 15. apríl 2010, til Tollstjóra
upplýsti Skattrannsóknarstjóri um yfirstandandi rannsókn og óskaði eftir því að
Tollstjóri hlutaðist til um að eignir stefnanda yrðu kyrrsettar. Taldi
Skattrannsóknarstjóri rökstuddan grun vera fyrir hendi um að stefnandi hefði
gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um
virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Töldust ætluð
brot m.a. felast í því að stefnandi hefði staðið skil á efnislega röngum
virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd Stoða hf. Taldi Skattrannsóknarstjóri
refsingu við slíku broti vera sekt er næmi að
lágmarki 90.000.000 króna. Var kyrrsetningunni ætlað að tryggja greiðslu
sektar og koma í veg fyrir undanskot eigna.
Með kyrrsetningarbeiðni,
dags. 27. apríl 201, setti stefndi, Tollstjóri, fram hjá Sýslumanninum í
Reykjavík kröfu um kyrrsetningu á eignum stefnanda á grundvelli 6. og 7. mgr.
113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. ákvæði laga nr. 31/1990 um
kyrrsetningu, lögbann o.fl. Sýslumaður féllst á beiðni Tollstjóra og fór
kyrrsetningargerðin fram 30. apríl 2010.
Með beiðni til Héraðsdóms
Reykjavíkur hinn 4. maí 2010 var gerð krafa af hálfu stefnanda um að
kyrrsetningargerðin yrði felld úr gildi. Með úrskurði sínum 2. júní 2010 féllst
Héraðsdómur á kröfu stefnanda þar sem talið var að kyrrsetningarheimild í 6.
mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt væri ekki fullnægjandi heimild til
kyrrsetningar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi samkvæmt 1. mgr. 40. gr.
laga 50/1988 um virðisaukaskatt. Með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 21.
júní 2010 var niðurstaða héraðsdóms staðfest og felld úr gildi ákvörðun
Sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu á eignum stefnanda.
Í máli þessu beinir
stefnandi kröfum sínum að íslenska ríkinu, Tollstjóra og Skattrannsóknarstjóra
ríkisins. Krefst hann skaðabóta og miskabóta vegna ólögmætrar kyrrsetningar á
eignum sínum og byggir kröfurnar á 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 og 26. gr.
skaðabótalaga nr. 50/1993.
Eins og rakið hefur verið
var Skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki aðili að kyrrsetningargerð þeirri sem
stefnandi byggir bótakröfur sínar á. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna hann
af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr.
91/1991.
Í 1. mgr. 42. gr. laga
nr. 31/1990 segir að falli kyrrsetning, löggeymsla eða lögbann niður vegna
sýknu af þeirri kröfu, sem gerðinni var ætlað að tryggja, þá skal
gerðarbeiðandi bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti
og viðskiptahagsmunum, sem telja má að gerðin hafi valdið. Heimilt er að dæma skaðabætur eftir álitum ef
ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið, en ekki er unnt að sanna fjárhæð
þess.
Fyrir liggur að ákvörðun
Sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningu á eignum stefnanda var felld úr gildi
vegna ófullnægjandi lagaheimildar. Ljóst er, sbr. það sem áður er rakið, að
stefnandi sætir rannsókn Skattrannsóknarstjóra vegna meintra skattsvika Stoða
hf. þar sem stefnandi sat sem stjórnarformaður. Telja verður að
kyrrsetningargerðin hafi verið þáttur í refsivörslu Skattrannsóknarstjóra en
ekki tilefnislaus aðför að stefnanda eða ólögmæt meingerð í hans garð eins og
haldið er fram í stefnu. Ekkert í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar gefur slíkt
til kynna.
Stefnandi krefst
skaðabóta að fjárhæð 5.000.000 króna vegna meints fjártjóns. Stefnandi hefur
sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem leiða megi af
umræddri kyrrsetningargerð. Í stefnu segir að stefnandi hafi orðið fyrir
fjártjóni vegna lögmannskostnaðar sem hann hafi aðeins að litlu leyti fengið
bættan. Að öðru leyti gerir stefnandi ekki grein fyrir meintu fjártjóni sínu í
stefnu.
Gögn sem stefnandi hefur
lagt fram á dskj. 34-35, vegna lögmannskostnaðar,
bera með sér að þau eru til komin vegna kyrrsetningarmálsins. Fyrir liggur að í
kyrrsetningarmálinu var stefnanda tildæmdur málskostnaður í héraði og fyrir
Hæstarétti sem samtals nam 500.000 krónum. Hefur stefnandi þegar fengið þann
kostnað greiddan og eru því ekki efni til að fallast á frekari kostnað vegna
málsins. Reikningur, dags. 16. maí 2011, virðist lúta að málskostnaði vegna
þessa máls og tekur því ekki til kostnaðar vegna kyrrsetningarmálsins sem hér
er til umfjöllunar.
Samkvæmt framansögðu
hefur stefnandi ekki getað sýnt fram á það í málinu að hann hafi orðið fyrir
fjártjóni vegna kyrrsetningargerðarinnar og ber því að sýkna stefndu af kröfu
hans um skaðabætur vegna þess.
Rökstuðningur stefnanda
fyrir miskabótakröfu er nokkuð óljós. Byggir stefnandi bæði á 1. mgr. 42. gr.
laga nr. 31/1990 og 26. gr. skaðabótalaga. Misbætur á grundvelli 1. mgr. 42.
gr. laga nr. 31/1990 virðast byggjast á því að kyrrsetningargerðin hafi valdið
stefnanda hugarangri og mikið álag hafi verið á fjölskyldu hans vegna málsins. Þá hefur stefnandi bent á að kyrrsetningin
var árangurslaus að hluta og gat því verið grundvöllur gjaldþrotaskipta. Hann
sé viðskiptafræðingur frá HÍ með framhaldsnám í stefnumótun og stjórnun
fyrirtækja frá Bandaríkjunum. Honum sé því sérstaklega mikilvægt að hafa
forræði á búi sínu þar sem þau störf sem hann hafi haft á hendi og sinni enn
geri kröfu til þess að hann hafi forræði á búi sínu.
Bætur á grundvelli 26.
gr. skaðabótalaga virðast byggjast á því að stefnandi hafi orðið fyrir
ólögmætri meingerð af hálfu stefndu vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum sem
stefnandi telur stefndu bera ábyrgð á.
Eins og áður er rakið
sætir stefnandi rannsókn Skattrannsóknarstjóra vegna meintra skattsvika Stoða
hf. þar sem stefnandi sat sem stjórnarformaður. Ekki er fallist á að í beiðni
um kyrrsetningu á eignum stefnanda hafi falist brot á skaðabótareglum eða í því
hafi falist ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda heldur hafi, þrátt fyrir
niðurstöðu kyrrsetningarmálsins, verið um að ræða eðlilegan þátt í þeirri
rannsókn sem enn stendur yfir og er ekki lokið. Með öllu er ósannað að
starfsmenn stefndu hafi lekið upplýsingum til fjölmiðla eða átt þátt í því að
frétt um kyrrsetninguna hafi borist til fjölmiðla í aðdraganda hennar. Eins og
atvikum háttar í máli þessu þykja ekki efni til þess að fallast á kröfu
stefnanda um miskabætur, hvorki samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 né
samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.
Samkvæmt framansögðu ber
því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt
að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir
héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, íslenska ríkið,
Tollstjóri og Skattrannsóknarstjóri ríkisins, skulu vera sýknir af kröfum
stefnanda, Skarphéðins Berg Steinarssonar.
Málskostnaður fellur
niður.