Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. október 2009.

Nr. 90/2009.

K

(Hilmar Ingimundarson hrl.

Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.

Margrét Gunnlaugsdóttir hdl.)

 

Börn. Forsjá.Umgengni.

M og K deildu um forsjá dóttur sinnar. Barnaverndarnefnd hafði fjarlægt telpuna af heimili K vegna vímuefnaneyslu og óreglu hennar og hafði M verið falin bráðabirgðaforsjá með telpunni. Niðurstaða héraðsdóms var byggð á ítarlegri skýrslu sálfræðings, þar sem fram kom að K þyrfti á langvarandi meðferð að halda til að vinna bug á fíkniefnaneyslu sinni. Var talið að þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að aðstæður K hefðu breyst til batnaðar frá því að úrskurður um bráðabirgðaforsjá var kveðinn upp yrði að telja barninu fyrir bestu að M fengi forsjá hennar til frambúðar. Var því fallist á kröfu hans í málinu um að honum yrði falin forsjá telpunnar. Var héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2009 og krefst þess að sér verði dæmd forsjá dóttur aðila, A, og stefnda gert að greiða frá uppsögu dóms í málinu einfalt meðlag með henni til fullnaðs 18 ára aldurs. Hver sem úrslit málsins verða krefst áfrýjandi þess að ákveðið verði hvernig umgengni við barnið verði háttað. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt í héraði.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. desember sl., er höfðað 24. október 2006 af M, [...],[...] gegn K, [...], Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði falin forsjá dóttur hans og stefndu, A, kt. [...].  Jafnframt að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með stúlkunni frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hennar.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefnda krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og að henni verði dæmd forsjá barnsins.  Þá er gerð krafa um greiðslu meðlags og að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar.  Loks er krafist málskostnaðar.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 15. júní 2007, var stefnanda falin forsjá A til bráðabirgða. Hafnað var kröfu um að kveða á um inntak umgengnisréttar.

Málavextir og málsástæður

Málavextir eru þeir að samband málsaðila stóð yfir, með hléum, frá ársbyrjun 2001 til ágústmánaðar 2003. Voru þau í sambúð á þessu tímabili en sambúðin var ekki skráð. Hinn 16. maí 2003 eignuðust þau dótturina A. Fór stefnda með forsjá barnsins. Í upphafi sambands þeirra áttu bæði við vandamál að stríða vegna neyslu áfengis og kannabisefna. Liggur fyrir að stefnandi hlaut nokkra dóma vegna slagsmála og meðferðar fíkniefna.  Stefnandi kveðst hafa snúið við blaðinu eftir að hann eignaðist dótturina og sé nú reglusamur og eigi ekki við fíkniefnavandamál að stríða.

Í byrjun júlí árið 2005 leitaði stefnandi til barnaverndaryfirvalda þar sem hann hafði áhyggjur af velferð dóttur sinnar í umsjá stefndu, sem var í vímuefnaneyslu. Í apríl 2007 fékk stefnandi barnið til sín eftir að Barnaverndarnefnd hafði fjarlægt barnið af heimili stefndu vegna vímuefnaneyslu og óreglu hennar. Í júní 2007 var stefnanda falin forsjá A til bráðabirgða með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Báðir aðilar telja barninu betur borgið í sinni umsjá og krefjast forsjár þess.

Niðurstaða

Að beiðni stefndu var dómkvaddur matsmaður til þess að meta forsjárhæfni aðila o.fl. Var Ása Guðmundsdóttir sálfræðingur dómkvödd sem matsmaður og var matsgerðin lögð fram í málinu 30. október sl.

Matsgerð Ásu er mjög ítarleg. Er þar rakin saga málsaðila hvors um sig, sameiginleg saga þeirra og gerð grein fyrir aðstæðum þeirra eftir að þau skildu að skiptum. Þá er gerð grein fyrir viðhorfum þeirra til forsjár og umgengni við barnið og heimsókn matsmanns á heimili þeirra. Gerð er grein fyrir þeim sálfræðilegu prófum sem lögð voru fyrir málsaðila og niðurstöðum þeirra o.fl.

Í samantekt um stefndu segir m.a í matsgerð að stefnda sé 26 ára gömul með lága meðalgreind. Í orði hafi hún getu til að nota rökhugsun við úrlausnir vandamála og verkefna en á borði gæti hún átt erfitt með að skilja orsakasamhengi hluta og meta félagslegar aðstæður. Hún eigi nokkuð auðvelt með að tjá sig en sé fljót að fara í vörn og afneiti jafnvel minnstu yfirsjónum. Hún sýni tilhneigingu til viðkvæmni gagnvart hegðun annarra, tortryggni og ásakana en réttlætinga og afneitunar á eigin hegðun. Því gæti mikils ósamræmis í frásögnum hennar annars vegar og því sem komi fram í gögnum málsins hins vegar. Sökum lítils sjálfsstyrks virðist stefnda hafa takmörkuð úrræði til að takast á við vandamál og kröfur daglegs lífs og höndla félagslegar aðstæður. Vinnusaga hennar sé stopul og hún hafi ekki verið félagslega virk.

Stefnda upplifi sterka þörf fyrir að vera samvistum við dóttur sína og þyki tilefnislaust og óskiljanlegt að hún hafi verið tekin frá sér. Hún taki ekki ábyrgð á aðstæðum þeim er leitt hafa til afskipta lögreglu og Barnaverndarnefndar af henni og barni hennar en skrifar það á stefnanda, sem hún telur að vilji gera sér erfitt fyrir. Hún virðist nokkuð meðvituð um ýmsa þætti er skipta máli varðandi uppeldi og aðbúnað barna, einkum hvað varðar tilfinningalegar og líkamlegar þarfir. Henni hafi hins vegar ekki tekist að tryggja öryggi telpunnar og stöðugleika í umhverfi hennar. Samkvæmt málsgögnum hafi hún glímt við vímuefnafíkn frá unglingsárum og margoft lent á bráðaþjónustu vegna ofskammts lyfja og fíkniefnaneyslu, sjálfsvígshótana og tengdra vandamála en ekki auðnast að nýta sér meðferð, þrátt fyrir endurteknar tilraunir og eindregnar ráðleggingar vegna lifrarbólgu og vegna afskipta Barnaverndarnefndar. Leiða megi líkur að því að hvatvísi og tortryggni sem séu birtingarmynd persónuleikaröskunar torveldi meðferð. Hún virðist föst í vítahring vanlíðunar vegna þróunar mála varðandi barnið og tregðu gagnvart því að taka leiðsögn og snúa málum í betra horf.

Í samantekt um föður segir að hann sé 32 ára, mjög vel gefinn, með góða dómgreind og ágæta hæfni til rökhugsunar. Hann sé laus við alvarlegt þunglyndi og kvíða og ekkert í svörum og úrlausnum hans bendi til geðrænna eða vefrænna truflana. Hann sýni væga tilhneigingu til að afneita óþægilegum hugsunum, réttlæta sig og gera lítið úr vandamálum. Góður sjálfsstyrkur og góð rökhæfni bendi til að hann hafi raunhæft sjálfsmat og eigi að hafa getu til að mæta kröfum dagslegs lífs. Hann mælist með mjög góða foreldrahæfni en flutningur vegna vinnu og skóla hafi valdið óstöðugleika í ytri aðbúnaði telpunnar. Hann hyggist setjast að á [...] þar sem hann sinni ábyrgðarstöðu í fyrirtæki fjölskyldunnar og eins vilji hann skapa stöðugleika í kringum barnið.

Í umfjöllun sinni um það hvort það samrýmist betur hagsmunum barnsins að forsjá hennar verði hjá föður eða móður segir svo: „Telpan var tekin frá móður sinni fyrir hálfu öðru ári og henni komið fyrir í umsjá föður. Ástæðurnar voru vímuefnaneysla móður og óregla í kringum hana. Hún hefur verið hjá föður síðan og var honum dæmd bráðabirgðaforsjá þann 15. júní sama ár. Eins og kemur fram í gögnum málsins virðist móðirin að einhverju leyti gera sér grein fyrir því hvar vandinn liggur og hefur leitað meðferðar við vímuefnavanda sínum, en ekki tekist að komast af stað í þá vinnu sem það krefst að ná bata. Að losna frá vímuefnavanda og afleiðingum hans sé langt ferli og ef um persónuleikaröskun er einnig að ræða krefst það fagmannlegrar langtímameðferðar. Móðirin þráir að fá barnið til sín aftur og virðist föst í vítahring vanlíðunar vegna þeirra stefnu sem mál þetta hefur tekið, en á sama tíma virðist hún treg til að taka leiðsögn til að snúa málum í betra horf og óraunsæ varðandi það sem hún þarf að gera til að það takist. Óraunsæ varðandi það hvað hún þarf að gera  til þess og föst í vítahring vanlíðunar vegna þróunar mála varðandi barnið og tregðu gagnvart því að taka leiðsögn til að snúa málum í betra horf. Að svo stöddu verður því ekki séð að forsendur séu fyrir að breyta forsjánni.“

Um aðstæður sínar í dag bar stefnandi fyrir dómi að hann búi á [...] þar sem hann stundi atvinnu, en hann er framkvæmdastjóri í [...]verksmiðju sem er fjölskyldufyrirtæki. Hann kveðst vera í námi í viðskiptafræðum í Háskólanum í Reykjavík og eiga fjóra áfanga eftir áður en hann lýkur því. Hann sé að fara að flytja inn í raðhús á [...] sem sé í nágrenni við leikskóla A og einnig í nágrenni grunnskóla sem hún komi til með að sækja.  Hann hyggur á sambúð með unnustu sinni sem á tveggja ára gamlan son. Samband hennar við telpuna sé mjög gott. Hann kvaðst hafa gott og mikið samband við fjölskyldu sína sem býr á [...]. Þá hafi hann algerlega hætt fíkniefnaneyslu eftir að dóttir hans fæddist. Umgengni stefndu við telpuna sé hagað í samráði við föður stefndu og sé umgengni oftast á hálfsmánaðar fresti. Sé barnið aldrei yfir nótt hjá móður í umgengni. Telur stefnandi það ekki hægt eins og er. Telur hann ástand stefndu í dag ekki gott og sé hún í slagtogi við óæskilegt fólk sem barnið hafi ekki gott af að vera nálægt.

Stefnda bar fyrir dómi að hún væri ekki í neyslu og væri að taka sig á. Hún væri búin að vera edrú í tvo mánuði. Hún hafi verið í meðferð í Hlaðgerðarkoti í haust í um það bil viku. Kveðst hún stunda fundi og samkomur.

Stefnda kvaðst hafa farið í sína fyrstu meðferð vegna fíkniefnaneyslu þegar hún var 17 ára og hafi farið mörgum sinnum síðan. Lengsti tími án fíkniefna hafi verið þegar hún gekk með barnið. 

Telur hún umgengni sína við barnið ekki vera nógu oft og fari hún algerlega eftir höfði stefnanda. Stuðningsaðilar hennar séu faðir hennar og móðir. Kveðst hún algerlega hafa farið í rúst eftir að A fór frá henni.

Aðspurð um dóm sem nýlega hefði fallið vegna atvika er áttu sér stað í Litlu kaffistofunni og stefnda tengdist, kvaðst hún hafa hlotið 16 mánaða dóm en honum hefði verið áfrýjað. Bar hún að þegar þetta gerðist hafi hún farið með manni þangað og hefði hún verið í annarlegu ástandi.

Fram hefur komið að meðan málsaðilar voru í sambúð neytti stefnandi vímuefna. Hann kveðst hafa hætt neyslu á árinu 2003. Ekkert í gögnum málsins eða því sem fram hefur komið fyrir dómi bendir til annars en þessi fullyrðing stefnanda eigi við rök að styðjast. Stefnandi hefur farið með forsjá A til bráðabirgða frá 15. júní 2007. Samkvæmt matsgerð og gögnum máls liggur ekki annað fyrir en að honum hafi farist vel úr hendi að annast dóttur sína og sjá fyrir öllum hennar þörfum. Hefur ekki annað komið fram en að barninu líði vel hjá föður sínum.

Stefnda á við illvígan sjúkdóm að etja sem er fíkniefnaneysla. Hefur hún neytt fíkniefna frá 17 ára aldri. Samkvæmt gögnum málsins höfðu barnaverndaryfirvöld ítrekuð afskipti af henni og barni hennar, þegar hún hafði forsjá þess.  Hefur þessi neysla stefndu og haft í för með sér afbrot. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. október sl. var stefnda dæmd til 16 mánaða fangavistar vegna þátttöku í ráni. Kveðst hún hafa áfrýjað þeim dómi.

Að áliti matsmanns þarf stefnda á langvarandi meðferð að halda til þess að vinna bug á sjúkdómi sínum. Samkvæmt því sem fram hefur komið hefur henni ekki enn sem komið er auðnast að nýta sér þær meðferðir sem standa til boða. Liggur ekki fyrir að stefnda sé í meðferð eða hyggi á slíkt.

Ekki hefur verið sýnt fram á að aðstæður stefndu hafi breyst til batnaðar frá því að úrskurður um bráðabirgðaforsjá var kveðinn upp. Verður að telja að það sé barninu fyrir bestu fái stefnandi forsjá hennar til frambúðar. Er því fallist á kröfu hans í málinu um að honum verði falin forsjá A.

Stefnda krefst þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnsins. Fram er komið að stefnandi og faðir stefndu hafa haft samráð um umgengni stefndu við barn sitt. Hefur stefnda hitt dóttur sína um það bil hálfsmánaðarlega hjá föður stefndu. Hefur þetta fyrirkomulag virkað vel eftir því sem best verður séð. Með hliðsjón af aðstæðum stefndu, eins og þær hafa birst í máli þessu, þykir ekki sýnt fram á hún geti fullkomlega tryggt öryggi telpunnar fái hún fasta umgengni við hana. Verður því að hafna kröfu stefndu um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar við telpuna í dómi þessum.

Í ljósi framfærsluskyldu foreldris gagnvart barni sínu ber að fallast á kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til fullnaðs 18 ára aldurs þess.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefnandi, M, skal fara með forsjá A, kt. [...].

Stefnda, K, greiði einfalt meðlag með telpunni frá 2. febrúar 2009 til 18 ára aldurs hennar.

Hafnað er kröfu stefndu, K, um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.