Hæstiréttur íslands

Mál nr. 92/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innstæða


                                     

Þriðjudaginn 17. febrúar 2015.

Nr. 92/2015.

Glitnir hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Innstæða.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu sem T lýsti við slit G hf. var skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningur var milli aðilanna hvort G hf. hefði borið að greiða gjald í innstæðudeild T eigi síðar en 1. mars 2009 sem samsvaraði 0,15% af meðaltali erlendra innstæðna í hans vörslum árið 2008. Talið var að skylda T til að greiða þeim sem áttu innstæður í L hf. hefði stofnast eigi síðar en 27. október 2008, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Vegna mismunar á eigin fé T þá og þeim skuldum sem á hann lögðust á sama tíma hefði fé hans orðið uppurið. Því hefði 27. október 2008 einnig stofnast skylda G hf. til að leggja T til frekara fé, sbr. þágildandi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999. Hins vegar væri í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. sömu laga veittur frestur til þess að inna greiðsluna af hendi en þó aldrei lengri en til 1. mars næsta árs eftir að í ljós kæmi að heildareign innstæðudeildar næði ekki tilskildu lágmarki. Í þessu tilviki hefði G hf. því borið að greiða í innstæðudeild T eigi síðar en 1. mars 2009.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 162.861.750 krónur var viðurkennd við slit sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, 650.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2015.

                Þetta mál, sem barst dóminum, 8. febrúar 2013, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 19. febrúar það ár og tekið til úrskurðar 17. nóvember 2014.

                Sóknaraðili, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, kt. [...], Borg­ar­túni 35, Reykjavík, krefst aðallega viðurkenningar á því að fjárkrafa hans, 162.861.750 kr., auðkennd með númerinu CL20091129-7116 í kröfu­skrá varnaraðila, njóti stöðu forgangskröfu, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., við slit varnaraðila.

                Til vara krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að fjárkrafa hans, 162.861.750 kr., auð­kennd með númerinu CL20091129-7116 í kröfuskrá varnaraðila, njóti stöðu almennrar kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slit varn­ar­aðila.

                Sóknaraðili krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila óháð úrslitum málsins.

                Varnaraðili, Glitnir hf., kt. [...], Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að stað­fest verði sú afstaða slitastjórnar að hafna fjárkröfu sóknaraðila, nr. CL20091129-7116 í kröfuskrá varnaraðila.

                Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að við­bættum virðisaukaskatti.

                Til vara krefst varnaraðili þess að fjárkrafa sóknaraðila verði lækkuð.

                Varnaraðili krefst þess, verði fallist á að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varn­ar­aðila, að hún teljist almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Málavextir

                Sóknaraðili er sjálfseignarstofnun um tryggingarsjóð sem veitir meðal annars inn­stæðueigendum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum aðildarfyrirtækja sjóðs­ins, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjár­festa. Glitnir banki hf. var eitt aðildarfyrirtækja sjóðsins, sbr. 3. gr. lag­anna, áður en hann var tekinn til slitameðferðar.

                Að sögn sóknaraðila bar aðilum sjóðsins, þar á meðal bankanum, samkvæmt þágild­andi 1. mgr. 6. gr. lag­anna, að greiða árlega gjald í innstæðudeild sóknaraðila. Heild­ar­fjárhæð gjaldsins nam 0,15% af meðal­tali tryggðra innstæðna í bank­anum á næst­liðnu ári. Þetta hafi verið fortakslaus skylda við­skipta­banka og sparisjóða sem bygg­ist á þeirri grund­vall­ar­skyldu að greiða iðgjöld til sjóðs­ins.

                Vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði haustið 2008 setti Alþingi lög nr. 125/2008, sem tóku gildi 7. október 2008. Með þeim var meðal annars breytt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til sérstakra ráð­staf­ana teldi það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjár­mála­markaði.

                Í samræmi við þessa nýfengnu heimild skipaði Fjár­mála­eftirlitið Glitni banka skila­nefnd, 7. október 2008. Með ákvörðun eftir­lits­ins, 14. októ­ber 2008, voru til­teknar eignir og skuldir bankans færðar til nýstofnaðs banka sem þá hét Nýi Glitnir banki hf. en heitir nú Íslands­banki hf. Meðal þess sem var ekki fært til nýja bank­ans voru erlendar innstæður svonefnd heildsöluinnlán og peninga­mark­aðs­lán.

                Fjármálaeftirlitið birti, 27. október 2008, það álit sitt að 6. október 2008 hefði LBI hf. (áður Landsbanki Íslands hf.) ekki verið fær um að greiða innstæðueigendum and­virði innstæðna þeirra í bankanum. Með álitinu stofnaðist skylda sóknaraðila til þess að greiða öllum innstæðueigendum LBI hf. úr innstæðu­deild sinni andvirði inn­stæðu þeirra, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Fjármálaeftirlitið gaf út sambærilegt álit, 30. október 2008, vegna Kaup­þings banka hf., og 4. nóvember 2008 vegna varn­ar­aðila. Á grund­velli þessa álits eftir­lits­ins taldi sóknaraðili sér bera að greiða inn­stæðu­eig­endum LBI hf. þá fjár­muni og aðrar eignir sem voru í sjóðnum þann dag sem álitið var gefið út. Sóknaraðili lítur svo á að greiðslu­skylda hans hafi orðið virk síðar í til­viki annarra aðildarfyrir­tækja sinna, þar á meðal varn­ar­aðila, sbr. ákvörðun stjórnar sókn­ar­aðila, 8. sept­ember 2011, um greiðslu úr inn­stæðu­deild í kjöl­far hruns íslensku bank­anna haustið 2008 og síðar.

                Sóknaraðili tiltekur ýmis atvik sem hafi orðið til þess að greiðsla hans til inn­stæðu­eigenda LBI hafi tafist. Í fyrsta lagi framlengdi viðskiptaráðherra þrisvar sinnum frest sóknaraðila til að greiða innstæðueigendum, vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 4. mgr. 7. gr. reglu­gerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjár­festa, með síð­ari breytingum. Í öðru lagi fóru fram viðræður íslenskra, holl­enskra og breskra yfirvalda um svokallaða Icesave-samn­inga sem voru felldir með þjóðar­atkvæða­greiðslu 9. apríl 2011. Í þriðja lagi hafi inn­stæðu­eig­endur LBI ekki viljað taka við greiðslum sóknaraðila vegna ágreinings um aðferðir sókn­ar­aðila við útgreiðslu og þau skil­yrði sem sóknaraðili hafi sett. Viðræður standi enn yfir milli sóknaraðila og kröfu­hafa um framkvæmd við útgreiðslu. Kröfu­hafar hafi hins vegar ekki gefið í skyn að þeir muni falla frá kröfum sínum á hendur sóknar­aðila og því geri sóknaraðili ráð fyrir að hann þurfi að inna greiðsluna af hendi fyrr eða síðar.

                Sóknaraðili bendir á að fyrir liggi það mat slitastjórnar LBI hf. að allar for­gangs­kröfur við slit LBI hf. fáist að fullu greiddar. Jafnframt liggi fyrir að endur­greiðslu forgangskrafna muni ekki ljúka fyrr en á árinu 2017. Mat slitastjórnar sé háð ýmsum óvissu­þáttum og brugðið geti til beggja vona um að fjármunir LBI hf. nægi að end­ingu til að greiða for­gangs­kröfu­höfum að fullu. Jafnframt sé ljóst að tals­verður tími líði þar til loka­greiðsla vegna slita LBI hf. verði innt af hendi. Yfir­gnæf­andi líkur séu þannig á því að sóknaraðili muni þurfa að greiða kröfuhöfum alla þá fjár­muni sem séu í sjóðum sókn­ar­aðila og að þær eignir nægi ekki til að greiða að fullu þær kröfur sem á sóknar­aðila standa. Hvernig sem á málið sé litið hafi sóknar­aðila verið skylt og nauð­syn­legt að krefja aðildarfyrirtæki sín um greiðslu iðgjalda árið 2009 í sam­ræmi við þau lög sem þá giltu og miðað við það að ekkert fé væri í inn­stæðu­deild sókn­ar­aðila.

                Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Glitni banka slitastjórn, 12. maí 2009, á grund­velli laga nr. 161/2002, sbr. og lög nr. 44/2009 um breytingar á lögum um fjár­mála­fyrirtæki. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 26. maí 2009, var lýst eftir kröfum við slit varnaraðila og rann kröfulýsingafrestur út 26. nóvember 2009.

                Sóknaraðili lýsti kröfu við slit varnaraðila, 24. nóvember 2009. Krafan var vegna ógreiddra iðgjalda og ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingar varnaraðila vegna ársins 2008 og nam höfuðstóll hennar samtals 1.085.745.000 kr. að viðbættum vöxtum, kostnaði og inn­heimtu­þókn­un samtals 1.255.093.778 kr. Henni var lýst á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Fjárhæð kröf­unnar byggði á upplýsingum fengnum frá varnar­aðila um meðaltal tryggðra innstæðna í hans vörslu á því tímabili sem iðgjaldið tók til, árið 2008. Útreikn­ingur iðgjalds­ins hafi eingöngu tekið mið af þeim innstæðum sem urðu eftir hjá sóknar­aðila en ekki þeim innstæðum sem færðar voru til Íslandsbanka með ákvörðun Fjár­mála­eftir­litsins, 14. október 2008. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá varnaraðila eru þetta erlendar innstæður, annars vegar vegna heild­sölu­inn­lána og hins vegar vegna pen­inga­mark­aðs­innlána.

                Endurskoðendur sóknaraðila notuðu upplýsingar frá varnaraðila, og öðrum aðild­ar­fyrir­tækjum innstæðudeildar sóknaraðila, til þess að reikna út þá fjárhæð sem sóknar­aðili þyrfti að fá til þess að ná lögboðinni lágmarkseign. Niðurstaðan var að þörf hans fyrir framlag aðildarfyrirtækja næmi samanlagt 16.100.565.000 kr.

                Með bréfi, 2. apríl 2011, hafnaði varnaraðili framangreindri kröfu meðal ann­ars með vísan til þess að gögn vantaði til stuðnings kröfunni auk þess sem hún var ekki talin eiga rétt á sér. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila til kröfunnar með bréfi 14. apríl 2011. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundi 31. janúar 2013, og var því ákveðið að vísa málinu til dóms.

                Sóknaraðili hefur nú fallið frá kröfu um kostnað að fjárhæð 55.804.830 kr. og kröfu um innheimtuþóknun, að fjárhæð 75.000.000 kr. sem krafist var í kröfulýsingu. Við aðalmeðferð málsins féll hann einnig frá kröfu um útgáfu ábyrgðaryfirlýsingar og dráttarvexti af fjárkröfunni.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili telur sig eiga kröfu á hendur varnaraðila vegna ógreidds iðgjalds að fjárhæð 162.861.750 kr. vegna ársins 2008. Þrátt fyrir að Glitni banka hafi verið skipuð skilanefnd, 8. október 2008, og síðar slitastjórn, hafi varnaraðili haldið banka­leyfi sínu allt til 19. júlí 2011. Það hafi því gilt allt árið 2008 sem krafist er iðgjalds vegna, en gjalddagi iðgjalds vegna þess árs hafi verið 1. mars 2009.

                Á varnaraðila hafi, á grund­velli þágild­andi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999, hvílt for­taks­laus lagaskylda til að greiða sóknaraðila iðgjald. Fjár­hæð kröfunnar byggi á upp­lýs­ingum frá varn­ar­aðila sjálfum, enda hafi honum verið skylt, samkvæmt 2. máls­lið 5. mgr. 6. gr. lag­anna, að veita sóknaraðila upplýsingar um inn­stæður.

                Sam­kvæmt 1. mgr. 9. gr. lag­anna hafi skylda sóknaraðila til að greiða þeim sem áttu innstæðu hjá Landsbankanum (LBI hf.) orðið virk þegar Fjár­mála­eftirlitið gaf út álit þess efnis, 27. október 2008, að sá banki væri ófær um að endurgreiða þeim inn­stæður þeirra.

                Eins og komi fram í kröfulýsingu sóknaraðila, með auðkenninu CL2009­1129­-7116 í kröfuskrá varnaraðila, takmarkist krafa sóknaraðila við þær inn­stæður sem hafi ekki flust frá varnaraðila til Íslandsbanka hf. á grundvelli ákvörðunar Fjár­mála­eftir­lits­ins, 14. októ­ber 2008. Iðgjöld af þeim innstæðum, sem færðar voru til Íslandsbanka með ákvörð­un­inni, hafi sá banki greitt. Hins vegar hafi setið eftir þær erlendu inn­stæður sem þessi krafa byggist á og takmarkist við.

                Krafa sóknaraðila byggist á skyldu varnaraðila til greiðslu iðgjalds vegna erlendra innstæðna. Þessar innstæður hafi myndast með heildsöluinnlánum og pen­inga­mark­aðs­innlánum. Málsaðila greini ekki á um að hvort tveggja séu innstæður í skiln­ingi 112. gr. laga nr. 21/1991.

                Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, sbr. 9. gr. laga nr. 125/2008, njóti kröfur sóknaraðila rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með orðalagi ákvæðisins séu ekki settar sérstakar tak­mark­anir við því hvers eðlis þær kröfur eru. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 125/2008 segi að kröfur vegna innstæðna njóti framangreindrar rétthæðar en sú takmörkun komi ekki fram í lagaákvæðinu sjálfu. Þar fyrir utan byggi sóknaraðili á því að þær kröfur sem hann geri í þessu máli séu kröfur vegna innstæðna enda byggist útreikn­ingur iðgjalda innstæðum órjúfanlegum böndum.

                Fallist dómurinn ekki á að krafa sóknaraðila njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 krefst hann þess að hún verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Sóknaraðili vísar til kröfulýsingar og framlagðra gagna til stuðnings kröfu sinni auk rökstuðnings fyrir aðalkröfu eftir því sem við getur átt.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 98/1999 um inn­stæðu­trygg­ingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum ákvæða 6., 9. og 10. gr. laganna, reglu­gerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, með síð­ari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrirtæki, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og almennra reglna eignar-, samninga- og kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Hann mót­mælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að fortakslaus lagaskylda hafi hvílt á honum að greiða iðgjald í sjóð inn­stæðu­deildar sóknaraðila vegna erlendra inn­stæðna sem urðu eftir hjá varnaraðila við upp­skipt­ingu eigna hans með ákvörðun Fjármála­eft­ir­lits­ins, 14. október 2008. Hann hafnar því einnig að fjárkrafan, sé hún yfirhöfuð fyrir hendi, njóti stöðu forgangskröfu í kröfuröð.

                Varnaraðili byggir jafnframt á því að krafa sóknaraðila sé vanreifuð. Allar til­vís­anir til gagna sem sýni fram á grundvöll og réttmæti kröf­unnar, svo sem upp­lýs­ingar um innstæður hjá varnaraðila sem og nánari skýringar og útreikn­inga, vanti. Þetta geri honum nánast ókleift að taka til varna um tilteknar máls­ástæður sóknar­aðila.

                Sóknaraðili krefjist þess að varnaraðili greiði iðgjald til innstæðudeildar sinnar í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar. Kröfuna byggi hann á upplýsingum frá varnaraðila sjálfum um meðaltal tryggðra innstæðna hjá varn­ar­aðila árið 2008 og reikni 0,15% af þeirri fjárhæð. Sókn­ar­aðili fái þannig út kröfu að fjár­hæð 162.861.750. kr.

                Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á það að heildareign innstæðudeildar sjóðsins hafi verið minni en 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og spari­sjóðum árið 2008. Greiðsluskylda varnaraðila geti ein­ungis stofnast sýni sóknaraðili fram á að fjármuni skorti í sjóðinn, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna

                Varnaraðili telji jafnframt að þótt greiðsluskylda hefði verið fyrir hendi hafi hún fallið niður við skipun skilanefndar. Við skipun skilanefndar hafi varnaraðili hætt að telj­ast raunverulegur viðskiptabanki enda hafi Nýi Glitnir banki hf. tekið við allri almennri við­skipta­bankastarfsemi. Varnaraðili hafi ekki tekið við frekari innlánum eftir skipun skila­nefndar þrátt fyrir að hann hefði bankaleyfi allt til ársins 2011. Starf­semi hans hafi þar með hætt að geta talist hefðbundin almenn banka­starf­semi og meðal annars af þeim sökum verði varnaraðili ekki krafinn um greiðslu iðgjalda eftir fall hans.

                Í þágildandi 3. gr. laga nr. 98/1999 hafi komið fram að viðskiptabankar, spari­sjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýttu sér heimildir laga til að stunda við­skipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem höfðu staðfestu hér á landi, skyldu eiga aðild að sjóðnum.

                Varnaraðili byggi á því að hann hafi ekki fullnægt neinu af þessum skilyrðum og því hafi sú greiðsluskylda sem sóknaraðili byggi á ekki getað hvílt á varnaraðila. Hann sé hvorki sparisjóður né hafi starfað í „verðbréfaþjónustu“ eftir skipun skila­nefndar.

                Þá sé varnaraðili ekki „aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti“. Varn­ar­aðili byggi á því að hann hafi ekki nýtt sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verð­bréf frá og með skipun skilanefndar. Í þeim efnum beri meðal annars að líta til þess að engin starfsemi varn­ar­aðila, eftir skipun skilanefndar, hafi getað fallið undir eitt­hvert þeirra atriða sem séu talin upp í 20. gr. laga nr. 108/2007 um verð­bréfa­við­skipti. Varnaraðili hafi ekki heldur fullnægt skilyrðum þess að hafa leyfis­skylda starf­semi, samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 161/2002. Hann hafi ekki veitt neina þjón­ustu eftir skipun skila­nefndar, hafi hvorki tekið við neinum innlánum né starfað á neinn hátt sem fjár­mála­fyrir­tæki skv. lögum nr. 161/2002. Frá skipun skila­nefndar hafi verið hafin slitameðferð sem öllum mátti vera ljós, sér í lagi aðilum með upp­lýsingar um stöðu varnaraðila og íslensku bank­anna eins og sókn­ar­aðili.

                Varnaraðili teljist ekki „viðskiptabanki“ í skilningi 3. gr. laga nr. 98/1999. Sam­kvæmt 1. tölulið 2. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sem voru í gildi til 1. nóvem­ber 2007, og 1. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007 sé hugtakið fjármálafyrirtæki skil­greint sem „fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki“. Sam­kvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, fyrir breytingu sem var gerð með lögum nr. 119/2011, hafi hugtakið fjármálafyrirtæki verið skilgreint í 1. gr. sem fyrir­tæki sem fengið hafi starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr. laganna.

                Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki segi að fjár­mála­fyrir­tæki geti fengið starfsleyfi sem „Viðskiptabanki skv. 1.-6. tl. 1. mgr. 3. gr. Við­skipta­banki skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.“

                Undir 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. falli „Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenn­ingi: a. Innlán. b. Skuldaviðurkenningar“. Í 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. felist „Veit­ing útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi“.

                Varnaraðili hafi ekki fullnægt framangreindum skil­yrðum. Hann hafi hætt að taka við fjármunum frá almenningi frá skipun skila­nefndar og þótt það hefði verið gert hefðu þeir fjármunir ekki verið endur­greið­an­legir í skiln­ingi ákvæðisins. Varnar­aðili hafi hvorki tekið við innlánum né skulda­viður­kenn­ingum né veitt nein lán. Hann hafi því ekki fullnægt skilyrðum skil­greiningar á „viðskiptabanka“. Hann hafi ekki heldur full­nægt skilyrðum 2.-7. töluliðar 1. mgr. 4. gr. eða 1.-6. töluliðar 3. gr.

                Lög nr. 98/1999 hafi verið sett til þess að leiða í íslensk lög efni tilskipunar Evrópu­sam­bands­ins 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til sam­ræmis við EES-samninginn en ýmis ákvæði tilskipunarinnar styðji fram­an­greint, svo sem 1. tölulið 1. gr.

                Varnaraðili bendir á að í ákvörðun stjórnar sóknaraðila, 8. september 2011, sé skýrt tekið fram að allar greiðslur iðgjalda til sóknaraðila frá og með gjalddaganum árið 2009 myndi nýjan sjóð en taki ekki til greiðslna eldri skuldbindinga sem fallið geti á sókn­ar­aðila. Í ljósi þess geti sóknaraðili ekki gert þá kröfu að varnaraðili, sem sé ekki aðili að nýjum trygg­ing­ar­sjóði, greiði iðgjald til sjóðsins fyrir árið 2009 þegar almennri banka­starf­semi varnaraðila var hætt.

                Auk þess hafi varnaraðili greitt allar forgangskröfur vegna innlána, heild­sölu­inn­lána og peninga­mark­aðs­lána. Greiðsla hafi verið innt af hendi til forgangskröfuhafa 16. mars 2012. Greiðsla til þeirra sem áttu ágreiningskröfur hafi verið lögð inn á sér­staka geymslureikninga en samþykktar forgangskröfur hafi verið greiddar kröfuhöfum beint. Viðskiptavinir varnaraðila, sem reynist eiga forgangskröfur við slit hans, fái því fullar efndir krafna sinna og þar með muni varnaraðili greiða allar þær inn­stæður sem urðu eftir hjá honum við ákvörðun FME um að færa innstæður til Nýja Glitnis 14. október 2008.

                Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999 um inn­stæðu­trygg­ingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjárfesta, eins og hún var orðuð þegar sóknar­aðili telji kröfu sína hafa stofn­ast, skyldi heildareign innstæðudeildar sjóðsins nema að lág­marki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næst­liðnu ári. Næði heildar­eignin ekki lágmarkinu skyldu allir við­skipta­bankar og spari­sjóðir greiða, eigi síðar en 1. mars ár hvert, gjald til sjóðsins sem næmi 0,15% af meðal­tali tryggðra innstæðna í hlut­aðeigandi viðskiptabanka á næst­liðnu ári, sbr. þó við­mið­un­ar­mörk skv. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. laganna.

                Eins og segi í greinargerð með frumvarpi til laganna fjalli greinin um inn­greiðslur í innstæðudeild sjóðsins og byggist í öllum efnisatriðum á 79. gr. laga nr. 43/1993 eins og því ákvæði hafði verið breytt með lögum nr. 39/1996. Í frumvarpi til lag­anna hljóðaði ákvæðið svo: Stefnt skal að því að heildareign innstæðudeildar Trygg­ingarsjóðs inn­lánsstofnana nemi a.m.k. 1% af samanlögðum tryggðum inn­stæðum í við­skipta­bönkum og sparisjóðum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki og spari­sjóður greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 1% af þeirri aukningu sem orðið hefur á tryggðum innstæðum í hlutaðeigandi viðskipta­banka eða sparisjóði frá meðal­tali næstliðins árs frá árinu þar á undan. Greiðslur til sjóðsins eru óendur­kræfar.

                Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu sagði: Ákvæði 1. og 2. mgr. um greiðslur í Tryggingarsjóð innlánsstofnana eru í tveimur veigamiklum atriðum frá­brugðin gildandi ákvæðum um greiðslur í Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Trygg­ingar­sjóð sparisjóða. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að greitt skuli 1% gjald af inn­láns­aukningu milli ára. Þótt það sé ekki tekið fram í greininni er augljóst að þetta ákvæði gildir einnig um viðskiptabanka eða sparisjóði sem er að hefja starfsemi. Er þetta eðlilegt í ljósi þess að greiðslu í sjóðinn má líkja við greiðslu iðgjalds. Að sama skapi er eðlilegt að greiðslur í sjóðinn verði óendurkræfar. Í öðru lagi er við útreikn­ing á greiðsluskyldu einstakra viðskiptabanka og sparisjóða miðað við meðal­inn­stæður á árinu fremur en árslokastöðu eins og nú gildir. Með því að nota meðal­inn­stæður er dregið úr sveiflum milli ára sem gætu komið fram ef einungis er litið á stöð­una í lok ársins.

                Í meðförum þingsins hafi ákvæðið tekið breytingum og hljóðað svo þegar lögin tóku gildi: Stefnt skal að því að heildareign innstæðudeildar tryggingarsjóða inn­láns­stofn­ana nemi a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og spari­sjóðum á næstliðnu ári. Hafi heildareign ekki náð lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir við­skipta­bankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi við­skipta­banka eða spari­sjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. málsl. þess­arar máls­greinar. Þar til heildareign deildarinnar hefur náð tilskildu lágmarki skal hver við­skipta­banki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir jafn­háum hlut af þeirri fjárhæð er á vantar til að lágmarkinu hafi verið náð og nemur hlut tryggðra inn­stæðna hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs af samanlögðum tryggðum inn­stæðum. Greiðslur til sjóðsins eru óendurkræfar.

                Orðalag ákvæðisins hafi breyst í meðförum efnahags- og við­skipta­nefndar en ekki finnist skýringar á því hvers vegna orðalag fyrir útreikning á greiðsluskyldu hafi breyst. Í athugasemdum nefndarinnar segi einungis að hún telji að áfram skuli vera tveir sjóðir í stað eins, að inn­stæðu­deildir sjóðanna verði ekki teknar til gjald­þrota­skipta og aðför sé óheimil. Jafnframt segi að loks væri kveðið sérstaklega á um greiðslu­skyldu nýrra viðskiptabanka eða sparisjóða til trygg­ing­ar­sjóðs, en sambærilegt ákvæði væri ekki í gildandi lögum. Í því sambandi væri miðað við að nýr aðili skuli „fyrstu sjö árin greiða árlega 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi stofnun á næstliðnu ári“.

                Í ræðu Vilhjálms Egilssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, þegar hann mælti fyrir breytingartillögum nefndarinnar, hafi ekki verið neinar skýr­ingar á breyttu orðalagi ákvæðisins um sjálfan útreikninginn. Því verði að ætla að ekki hafi verið lögð til breyting í þá veru, sbr. framangreint.

                Lög nr. 43/1993, ásamt þeim breytingum sem voru gerðar með lögum nr. 39/1996, hafi verið endurútgefin með lögum nr. 113/1996. Lög nr. 98/1999 hafi tekið við af framangreindum lögum en með þeim hafi komið inn núgildandi ákvæði 6. gr. og varði greiðsluskyldu og útreikning. Í almennum athugasemdum í greinargerð með lög­unum segi: Samkvæmt gildandi lögum skal stefnt að því að heildar­eign inn­stæðu­deilda tryggingarsjóðanna nemi a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra inn­stæðna í við­skipta­bönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Hafi heildareign ekki náð þessu lág­marki skulu viðskiptabankar og sparisjóðir greiða gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða spari­sjóði.

                Ákvæði 6. gr. hljóðaði svo: Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lág­marki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og spari­sjóðum á næst­liðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir við­skipta­bankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða spari­sjóði á næst­liðnu ári, sbr. þó viðmunarmörk skv. 1. málsl. Nái heildareign deild­ar­innar samt ekki til­skildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðar­yfir­lýs­ingu fyrir sama hlutfalli þeirrar fjárhæðar er vantar á lág­markið og nemur hlutfalli tryggðra innstæðna hlutaðeigandi af samanlögðum tryggðum inn­stæðum.

                Í athugasemdum í greinargerð við 6. gr. sagði: Greinin fjallar um inn­greiðslur í innstæðudeild sjóðsins og byggist í öllum efnisatriðum á 80. gr. laga um við­skipta­banka og sparisjóði, nr. 113/1996. Eins og fram kom í almennum athuga­semdum verður hlutfall eigna í innstæðudeild sjóðsins nokkru hærra en lögbundið 1% lág­mark. Hlutfall eigna Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Tryggingarsjóðs spari­sjóða af tryggðum eignum var 1,27% í lok árs 1998. Ólíklegt er því að komi til inn­borg­unar við­skipta­banka og sparisjóða í innstæðudeildina á næstu missirum. Í grein­inni kemur jafn­framt fram að greiðslur til sjóðsins séu óendurkræfar. Stjórn sjóðsins getur því ekki ráðstafað til baka þeim hluta eigna deildarinnar sem er umfram lág­markið.

                Af framansögðu sé ljóst að regla 1. mgr. 79. gr. laga nr. 39/1996 hafi enn efnis­legt gildi hvað útreikning varðar og útskýringar með greinargerð sem fylgdi frum­varpi til laganna. Varnaraðili telji að viðskipta- og efnahagsnefnd hafi ekki gert neina efnisbreytingu á því hvað útreikninginn varðar þótt orðalag hafi ekki verið nákvæm­lega eins en það birtist meðal annars í orðalaginu „sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. máls. þessar málsgreinar“. Þar sem að því hafi verið stefnt að sjóðurinn skyldi alltaf vera í 1% eftir hvert ár liggi einnig í hlutarins eðli að á næsta ári þyrfti aðeins að greiða hlutfall af aukningunni eins og segi í frumvarpinu til laga nr. 39/1996 og athuga­semdum við greinargerð. Það birtist jafnframt í því að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að aukn­ingin yrði miklu meiri en 0,15% og því til öryggis gert ráð fyrir því að við­kom­andi aðili þyrfti að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu. Það sé eins og segi í greinar­gerð til laga nr. 39/1996 „eðlilegt í ljósi þess að greiðslu í sjóðinn má líkja við greiðslu iðgjalds“. Það eigi því ekki að greiða iðgjald af sömu innstæðunni oftar en einu sinni.

                Sókn­ar­aðili virðist hins vegar telja að varnaraðili eigi að greiða meðaltal af öllum tryggðum innstæðum þar sem hann krefjist þess að varnaraðili greiði gjald sem nemi „0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna“ án þess að taka tillit til aukningarinnar. Varn­ar­aðili telji því að krafa sóknaraðila sé með tilliti til þessa vanreifuð. Verði krafa talin fyrir hendi eigi hún í mesta lagi að taka mið af þeirri aukningu sem varð á árinu 2008 en ekki öllum innstæðum. Því sé líklegt að krafa sóknaraðila sé of há hvað þetta varðar og skuli því lækka sem því samsvarar verði fallist á hana að einhverju leyti.

                Varnaraðili bendir á að við þær sérstöku aðstæður sem tilgreindar voru í 5. gr. laga nr. 125/2008 hafi Fjár­mála­eftirlitið getað tekið yfir vald hluthafafundar, vikið frá stjórn og tekið yfir eignir, rétt­indi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta. Þá hafi Fjár­mála­eftir­litið haft ýmsar fleiri heim­ildir samkvæmt lögunum sem miðuðu allar að því að takmarka tjón á fjár­mála­mark­aði, vegna þess að viðkomandi fjár­mála­fyrir­tæki væri það illa statt að við því blasti gjaldþrot, m.a. með því að skipa skila­nefnd yfir fjár­mála­fyrirtæki. Í lögunum hafi jafn­framt verið kveðið á um að innstæður væru for­gangs­kröfur við gjald­þrota­skipti. Sam­kvæmt lögunum hafi ekki verið hægt að koma fram aðfarargerð á hendur varn­ar­aðila á meðan skilanefnd færi með málefni hans. Þá sagði í 2. og 3. mgr. 1. gr. lag­anna að með sérstökum og óvenjulegum aðstæðum á fjár­mála­markaði væri átt við sér­staka fjár­hags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjár­mála­fyrir­tæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagn­vart við­skipta­vinum og kröfuhöfum, forsendur aftur­köll­unar starfsleyfis séu lík­lega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki upp­fyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjár­málaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjár­mála­markaði. Með sér­stökum aðstæðum væri meðal annars átt við það að fjár­mála­fyrir­tæki hefði óskað eftir eða fengið heim­ild til greiðslu­stöðvunar eða nauða­samn­inga, óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.

                Samkvæmt 5. gr. laganna hafi Fjármálaeftirlitinu verið heimilt, samhliða því að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem færi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hluta­félaga­laga. Skilanefnd skyldi fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri með­ferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess. Skila­nefndin skyldi framkvæma þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem teknar væru á grund­velli ákvæðisins.

                Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 hefði staðið að við stofnun hlutafélags, í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild, skyldi það félag hafa starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. töluliðar 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

                Með ákvörðun 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hlut­hafa­fundar í varn­ar­aðila og vikið stjórn hans frá. Jafnframt hafi Fjármálaeftirlitið skipað skila­nefnd yfir varn­ar­aðila, sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins. Í ákvörð­un­inni segi að ákvæði 64. og 65. gr. laga nr. 21/1991 ættu ekki við meðan skilanefnd færi með mál­efni varnar­aðila. Í þessum ákvæðum komi fram reglur um rétt og skyldu skuld­ara til að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta sjálfur svo og um það hvenær lán­ar­drott­inn geti kraf­ist gjaldþrotaskipta á búi skuldara. Í þessari ákvörðun Fjár­mála­eftir­lits­ins hafi jafn­framt verið tilgreint að engin vanefndarúrræði viðsemjanda varnar­aðila skyldu taka gildi sem afleið­ing af þeirri ákvörðun að skipa bankanum skilanefnd.

                Til þess að tak­marka tjón og hættu af tjóni á fjár­mála­markaði, tryggja hags­muni kröfuhafa varn­ar­aðila sem og ann­arra kröfuhafa í íslenska fjármálakerfinu, hafi varn­ar­aðili ekki strax óskað eftir greiðslustöðvun.

                Varnaraðili hafi á hinn bóginn ekki komið til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002 fyrr en 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 um breytingu á fyrrnefndu lög­unum tóku gildi, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009. Frá sama tíma hafi því gilt um varnaraðila ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem leiði til þess að reglur laga nr. 21/1991 ráði í meginatriðum hvernig fari um rétt­indi annarra á hendur honum.

                Skilanefndin hafi verið skipuð í skjóli opinbers valds og hlotið samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila. Því verði að telja að frá 7. október 2008 hafi varnaraðili verið í þeirri aðstöðu, sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 441/2011.

                Þann 15. nóvember 2008 hafi tekið gildi lög nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Megintilgangur lagabreytingarinnar hafi verið að gera þeim fjár­mála­fyrirtækjum, þar á meðal þeim bönkum sem þá hafði verið skipuð skila­nefnd, kleift að fá greiðslustöðvun og öðlast þannig nauðsynlega réttar­vernd. Varnaraðila hafi, í kjölfar laganna, verið veitt heimild til greiðslustöðvunar, 24. nóv­ember 2011, í því skyni að varðveita fjár­hags­lega stöðu bank­ans og veita svig­rúm til nauðsynlegrar endurskipulagningar.

                Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið að ráðstafa eignum og skuldum varnaraðila til Nýja Glitnis banka hf. 14. október 2008. Í þeirri ákvörðun komi fram að öllum eignum varn­ar­aðila hverju nafni sem þær nefndust væri ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf. þegar í stað fyrir utan þær eignir sem væru tilgreindar í VIÐAUKA. Í ákvörð­un­inni segi einnig í 5. tölulið: Nýi Glitnir banki hf. tekur frá og með 15. október 2008 kl. 9.00 við starfsemi sem Glitnir banki hf. hefur haft með höndum og tengist hinum fram­seldu eignum, þ.m.t. aðild Glitnis banka hf. að hvers konar greiðslu­kerfum. Jafn­framt tekur Nýi Glitnir banki hf. frá og með því tímamarki við réttindum og skyldum sam­kvæmt samn­ingum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Glitnis banka hf. á Íslandi.

                Í 7. tölulið sem bar yfirskriftina SKULDIR OG AÐRAR SKULDBIND­INGAR segi að Nýi Glitnir banki hf. yfirtaki skuldbindingar í útibúum varnar­aðila á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum við­skipta­vinum. Inn­stæður skyldu flytjast yfir miðað við stöðu og áunna vexti þegar framsal átti sér stað skv. 5. tölulið. Ekki væri þörf innköllunar eða auglýsingar vegna þessarar færslu. Í 8. tölu­lið segi að Nýi Glitnir banki yfirtaki skuldbindingar sam­kvæmt inn- og útflutn­­ings­­ábyrgðum, ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstakl­inga er tengist reglu­bund­­inni starf­semi. Kom fram að Nýi Glitnir banki hf. yfirtæki ekki ábyrgðir varn­ar­aðila vegna nánar tilgreindra atriða í a- til e-lið en þar sé ekkert tilgreint sem lúti að deilu­­efni þessa máls.

                Í auglýsingu Fjármálaeftirlitsins, 15. október 2008, komi fram að það hefði tekið framangreinda ákvörðun um að flytja hluta af starfsemi Glitnis banka hf. til nýs banka sem stofnaður hefur verið og er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Með ákvörð­un­inni væri tryggð áframhaldandi bankastarfsemi fyrir heim­ilin og fyrirtækin í land­inu. Í ákvörð­un­inni fælist m.a. að nýi bankinn yfirtekur allar inn­stæðu­skuld­bind­ingar í bank­anum á Íslandi og sömuleiðis stærstan hluta eigna bank­ans sem tengjast íslenskri starf­semi s.s. lán og aðrar kröfur.

                Varnaraðili byggi á því að við skipun skilanefndar hafi hann misst aðildar­hæfi sitt að Tryggingarsjóði innstæðueigenda, sbr. umfjöllun í þessum kafla og í köflum hér að framan um lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjár­festa. Verði varnaraðili ekki talinn hafa misst aðildarhæfi sitt að sjóðnum þá, hafi það í síð­asta lagi gerst 14. október 2008 með ákvörðun Fjár­mála­eftir­lits­ins þar sem meðal ann­ars komi skýrt fram að hinn nýi banki yfir­taki allar inn­stæðu­skuld­bindingar í bank­anum á Íslandi. Í allra síðasta lagi hafi varn­ar­aðili misst hæfi sitt að sjóðnum við það að greiðslu­stöðvun var sam­þykkt 24. nóvember 2008.

                Þótt varnaraðili yrði enn talinn aðili að sjóðnum byggir hann á því að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, hafi allar skuldbindingar vegna inn­lána flust til Íslandsbanka hf. (áður Nýja Glitnis hf.), þar á meðal skuldbinding gagn­vart sókn­ar­aðila, sbr. ofangreint.

                Varnaraðili áréttar að sóknaraðili byggi á því að krafa hans á grundvelli 6. gr. laga nr. 98/1999 eigi að njóta stöðu í réttindaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Sóknaraðili byggi kröfu sína jafnframt á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 en þar segir orðrétt: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðild­ar­fyrirtæki eða þrotabúi. Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í sam­ræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. við gjald­þrota­skipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

                Eins og ákvæðið hljóði eigi það ekki við um kröfur sem byggi á 6. gr. laga um trygg­inga­ráð­stafanir. Skýrt sé kveðið á um það að fái viðskiptavinur, sem átti inn­stæðu hjá viðskiptabanka sem geti ekki endurgreitt hana, greiðslu frá inn­stæðu­deild sókn­ar­aðila eignast sókn­ar­aðili kröfu viðskiptavinarins á hendur viðskipta­bank­anum sem ekki greiddi. Það sé endurkrafa sóknaraðila á hendur viðskiptabankanum sem njóti rétt­hæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þessa skýringu hafi sóknar­aðili stað­fest í ákvörðun stjórnar 8. september 2011.

                Sóknaraðili hafi ekki þurft að greiða viðskiptavinum varnar­aðila neinar kröfur enda, eins og áður sé greint, hafi varnaraðili greitt öllum þeim for­gangs­kröfu­höfum sem áttu innstæður hvort sem þær eru heildsöluinnlán eða peninga­mark­aðs­innlán og þannig staðið við greiðsluskyldu sína að greiða öllum innstæðueigendum fjár­muni sína. Það að LBI ehf. muni ef til vill ekki geta greitt allar innstæður sínar eigi ekki að hafa áhrif á skyldu varnaraðila til greiðslu eins og sóknaraðili haldi fram í greinar­gerð sinni.

                Í ljósi ofangreinds sé ekki hægt að fallast á það með sóknaraðila að krafa hans, með auðkennið CL20091129-7116, njóti rétthæðar sem forgangskrafa við slit varn­ar­aðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

                Verði talið að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna ógreiddra iðgjalda á grundvelli 6. gr. laga nr. 98/1999 geti sú krafa aldrei notið annarrar stöðu í for­gangs­röð krafna við slit varnaraðila en almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga um heimild til fjár­veit­ingar úr ríkissjóði vegna sér­stakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga um gjald­þrota­skipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, til­skip­unar 97/9/EB um trygg­ing­a­kerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði (brott­fallin), laga nr. 39/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði (brott­fallin), laga nr. 113/1996 um við­skipta­banka og sparisjóði (brottfallin), laga um inn­stæðu­trygg­ingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999, laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, laga um með­ferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna gjald­þrota-, kaupa- og kröfu­réttar. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Að auki vísar hann til laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt á máls­kostnað.

Niðurstaða

                Í þessu máli er sú spurning lögð fyrir dóminn, hvort á varnaraðila, Glitni, sem nú sætir slitameðferð, en var áður og hét Glitnir banki hf., hafi hvílt sú skylda að greiða sóknaraðila, Trygg­ingar­sjóði innstæðueigenda og fjárfesta, framlag sam­kvæmt lögum nr. 98/1999 reiknað út frá erlendum innstæðum í vörslu varnaraðila árið 2008.

                Sóknaraðili telur að varnaraðila beri að greiða sér þetta framlag þar sem sjóður inn­stæðu­deildar hans hafi svo gott sem tæmst við það álit Fjármálaeftirlitsins, 27. október 2008, að Lands­banki Íslands hf. hefði, 6. október 2008, ekki verið fær um að endurgreiða þeim sem þá áttu inn­stæðu hjá honum. Þá þegar hafi fallið á sóknar­aðila skylda til að greiða þeim sem áttu inn­stæður hjá Landsbankanum. Í inn­stæðu­deild sjóðs­ins hafi verið margfalt lægri fjár­hæð en þær kröfur sem hvíldu, samkvæmt álit­inu, á sjóð­inum og því hafi sóknar­aðila verið skylt að krefja aðildarfyrirtæki sín um gjald sam­kvæmt 6. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjár­festa.

                Varnaraðili byggir fyrst á því að sóknaraðili hafi ekki sannað að heildareign inn­stæðudeildar sjóðsins hafi verið minni en 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í við­skipta­bönkum og sparisjóðum árið 2008 en það sé frumskilyrði þess að sóknaraðili geti krafið aðildarfyrirtæki um framlag samkvæmt 6. gr. laganna.

                Fjármálaeftirlitið birti, 27. október 2008, það álit sitt að 6. október 2008 hefði LBI hf. (áður Landsbanki Íslands hf.) ekki verið fær um að greiða innstæðueigendum and­virði innstæðna þeirra hjá bankanum. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta stofnaðist, með þessu áliti, skylda sóknar­aðila til þess að greiða öllum innstæðueigendum LBI hf., úr inn­stæðu­deild sókn­ar­aðila, andvirði inn­stæðu þeirra.

                Samkvæmt fram lögðum gögnum námu innstæður í Landsbanka Íslands erlendis 1.423.664.000.000 króna í árslok 2008. Samkvæmt lögum nr. 98/1999 ber sókn­ar­aðila að greiða hverjum innstæðueiganda allt að 20.887 evrur. Hollenski inn­stæðu­trygg­inga­sjóð­ur­inn, DNB, og breski inn­stæðu­trygg­inga­sjóðurinn, FSCS, tóku yfir kröfur holl­enskra og breskra innstæðueigenda vegna innlána á Icesave-reikn­ingum Lands­banka Íslands. Sam­an­lagðar kröfur þessara sjóða á hendur sóknaraðila nema samtals um 556.000.000.000 króna og meira en 1.000.000.000.000 króna að með­töldum vöxtum og kostnaði.

                Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila nam eigið fé innstæðudeildar hans í lok árs 2008, 16.145.000.000 króna. Í lok árs 2008 var eign sóknaraðila því aðeins brot af þeim fjárkröfum sem á honum hvíldu.

                Enda þótt sóknaraðili hafi ekki enn greitt þessar tilteknu kröfur breska inn­stæðu­trygg­inga­sjóðsins og þess holl­enska sýnir þessi munur á eignum og skuldum sókn­ar­aðila að í innstæðudeild hans skorti svo verulega fjár­muni, síðla árs 2008, að hann var í reynd ógjald­fær. Gögn málsins sýna að heildareign inn­stæðu­deildar sóknar­aðila var minni en sam­svar­aði 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í við­skipta­bönkum og sparisjóðum árið 2008.

                Kröfum sóknaraðila verður því ekki hafnað á þeim grunni að hann hafi ekki gert næga grein fyrir því að skilyrði 6. gr. laga nr. 98/1999 fyrir greiðslu aðildar­fyrir­tækja í sjóðinn væru upp­fyllt.

                Varnaraðili ber því næst við að greiðsluskylda hvíli ekki á honum þar sem ekki hafi verið unnt að skilgreina hann sem aðild­ar­fyrirtæki að innstæðutryggingarsjóðnum þótt starfsleyfi hans hafi ekki verið aftur­kallað fyrr en í júlí 2011. Það stafi af því að varn­ar­aðili hafi ekki, þegar greiðslu­skylda stofn­að­ist, stundað þá starfsemi sem er til­greind í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, það er að taka við endur­greið­an­legum fjármunum frá almenn­ingi og veita lán sem fjár­mögnuð eru með endur­greið­an­legum fjármunum frá almenn­ingi.

                Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 stofnaðist skylda sóknaraðila til þess að greiða þeim sem áttu innstæður í Landsbanka Íslands eigi síðar en 27. októ­ber 2008. Vegna þess mismunar á eigin fé sóknaraðila þá og þeim skuldum sem á hann lögð­ust á sama tíma má segja að fé hans hafi verið uppurið. Því stofnaðist einnig 27. októ­ber 2008 skylda aðildarfyrirtækja til að leggja sókn­ar­aðila til frek­ara fé, með gjöldum sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999. Hins vegar er í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. veittur frestur til þess að inna greiðsl­una af hendi en þó aldrei lengri en til 1. mars næsta árs eftir að í ljós kemur að heild­ar­eign inn­stæðu­deildar nær ekki lágmarki 1. máls­liðar 1. mgr. Í þessu tilviki var það til 1. mars 2009.

                Með þessum fresti er sóknaraðila jafnframt veitt svigrúm til þess að láta reikna út rétt framlag hvers aðildarfyrirtækis en það skal miða við meðaltal tryggðra inn­stæðna í aðildarfyrirtækjum sóknaraðila á því ári sem greiðsluskyldan stofnast.

                Fjármálaeftirlitið ákvað, 7. október 2008, að skipa Glitni banka hf. skilanefnd. Sam­kvæmt ákvörðuninni skyldi skilanefndin vinna að því að tryggja áframhaldandi við­skipta­bankastarfsemi Glitnis banka hf. hér á landi.

                Fjármálaeftirlitið ákvað, 14. október 2008, að ráðstafa tilteknum réttindum og skyldum Glitnis banka til nýs banka, Nýja Glitnis banka hf., þar á meðal innstæðum í úti­búum bankans hérlendis. Nýi bankinn tók, frá og með 15. október, við þeirri starf­semi sem Glitnir banki hafði haft með höndum og tengdist hinum framseldu eignum.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 24. nóvember 2008, var Glitni banka hf., veitt heimild til greiðslu­stöðvunar til 13. febrúar 2009 og var hún síðar framlengd allt til 24. nóvember 2010. Þetta var gert til þess að bankanum tækist að endur­skipu­leggja fjárhag sinn.

                Þar sem óvissa ríkti um það hvort nýju bankarnir hefðu yfirtekið skuld­bind­ingar gagn­vart sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 98/1999 innti sóknaraðili Fjár­mála­eftir­litið sér­stak­lega eftir því, 1. apríl 2009. Í svari sínu, 21. apríl, seg­ist Fjár­mála­eftir­litið líta svo á að skylda nýju bankanna til þess að greiða sóknar­aðila gjöld, sam­kvæmt 6. gr. laga nr. 98/1999, taki til iðgjalda af yfirteknum inn­stæðum en þær voru ein­ungis í úti­búum bankanna hér á landi. Skylda til að greiða gjöld vegna innstæðna í útibúum gömlu bankanna erlendis fluttist því ekki yfir til nýju bankanna.

                Með lögum nr. 44/2009 var breytt ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Við þá breyt­ingu, sem tók gildi 22. apríl 2009, var varnaraðili, sem naut enn þá heim­ildar til greiðslu­stöðvunar, tekinn til slita. Með úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur, 12. maí 2009, var bankanum skipuð slitastjórn.

                Fram lögð gögn sýna að strax vorið 2010 hafði Fjármálaeftirlitið hug á að aftur­kalla starfsleyfi Glitnis banka hf. Skilanefndin taldi nauðsynlegt að hafa leyfið vegna ýmissar starfsemi sem bankinn hefði með höndum. Eftir frekari skoðanaskipti aftur­kallaði eftirlitið starfsleyfi bankans, 19. júlí 2011.

                Fallist er á það með varnaraðila að til þess að fjármálafyrirtæki teljist við­skipta­banki þurfi það að hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002.

                Vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði haustið 2008, þegar ríflega ¾ hlutar voru liðnir af árinu, var eignum og skuldum Glitnis banka hf. skipt í tvennt með ákvörðun Fjár­mála­eftir­litsins, 14. október 2008. Annar hlutinn, þar með talið inn­lendar inn­stæður, var færður til nýstofnaðs banka, Nýja Glitnis, en hinn hlutinn, þar á meðal erlendar innstæður, var látinn óhreyfður þar sem hann var.

                Erfitt er að slá því föstu hvenær banki, sem hefur starfsleyfi, hættir að uppfylla skil­yrði þess að teljast viðskiptabanki því það gerist ekki við það eitt að hann veiti hvorki lán né taki við innstæðum í einn eða tvo daga eða jafnvel eina eða tvær vikur.

                Einhvern tíma eftir stofnun hins nýja banka, hvort sem það var síðla árs 2008 eða með skipun slitastjórnar í apríl 2009, verður engu að síður að líta svo á að Glitnir banki hafi ekki lengur veitt þjónustu skv. 1. og 2. tölu­lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 og hafi því ekki réttilega verið nefndur við­skipta­banki. Hann hafi því, eftir þann dag, ekki getað talist aðili að sóknaraðila samkvæmt 3. gr. laga nr. 98/1999.

                Þótt vera kunni, samkvæmt ströngustu túlkun, að varnaraðili hafi ekki uppfyllt þau skilyrði að geta talist viðskiptabanki 13 dögum áður en ljóst var að skilyrði væru til þess að krefja aðildarfyrirtæki sóknaraðila um framlag í innstæðudeild hans þykir það ekki geta leyst varnaraðila undan þeirri skyldu að leggja sóknar­aðila til gjald, sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 98/1999.

                Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er fyrir fram fjár­magn­aður sjóður og allar greiðslur í hann, hvort heldur innstæðudeild eða verðbréfadeild, koma frá aðildarfyrirtækjum hans. Það er hlutverk sjóðsins að veita þeim sem eiga inn­stæður í aðildarfyrirtækjum sjóðsins lág­marks­vernd. Samkvæmt lögum nr. 98/1999 á hver þeirra rétt á til­tek­inni lág­marks­fjár­hæð, verði viðskiptabanki hans ekki fær um að end­ur­greiða honum inn­eign hans, nái hún þeirri fjárhæð. Endurgreiðslugeta sjóðsins þarf að end­ur­spegla hugsan­legar kröfur á hendur honum. Meðal annars þess vegna var sú fjár­hæð sem aðildar­fyrir­tækjum hans bar að leggja í innstæðudeild sjóðsins reiknuð út frá meðaltali tryggðra inn­stæðna á til­teknu ári og samtala fjármuna í inn­stæðu­deild þurfti að sam­svara að minnsta kosti 1% af meðal­tali tryggðra innstæðna í við­skipta­bönkum og spari­sjóðum á næst­liðnu ári.

                Af þessum sökum verður að taka tillit til allra innstæðna sem aðildar­fyrir­tæki sjóðs­ins varð­veittu á hverju ári burtséð frá því hvort einhver þessara fyrirtækja hafi ekki uppfyllt tæknileg skil­yrði þess að teljast aðild­ar­fyrirtæki einhvern hluta ársins. Glitnir banki hf. hafði í vörslum sínum, árið 2008, innstæður fólks og félaga sem einnig nutu verndar tryggingarsjóðsins og hefðu fengið greitt úr honum hefði þess þurft með. Því ber að taka tillit til þeirra við ákvörðun framlags/gjalds til sjóðsins vegna útgjalda hans það ár.

                Til þess er og að líta að Nýi Glitnir banki tók við innstæðum Glitnis banka hér­lendis, 15. október 2008, og greiddi framlag til sóknaraðila af þeim innstæðum þótt nýi bankinn starfaði einungis skemur en ¼ hluta ársins 2008.

                Þar sem Glitnir banki hf., sem varnaraðili leiðir rétt sinn og skyldur frá, var aðili að sóknaraðila á því ári sem greiðsluskyldan stofnaðist og varðveitti innstæður fólks og félaga sem nutu réttinda í innstæðudeild sóknaraðila, er ekki unnt að fallast á það með varn­ar­aðila að leysa beri hann undan greiðslu­skyld­unni þótt hann kunni, sam­kvæmt ströng­ustu skilgreiningu, ekki að hafa upp­fyllt skil­yrði aðildar að sóknar­aðila, 27. októ­ber 2008, þegar komið var fram það skil­yrði að sóknaraðili gæti krafið aðild­ar­fyrir­tæki sín um framlag samkvæmt 6. gr. lag­anna.

                Það er þriðja málsástæða varnaraðila gegn því að honum sé skylt að greiða sókn­ar­aðila gjald samkvæmt 6. gr. laga nr. 98/1999 að það sé iðgjald vegna ársins 2009 en þá hafi hann verið hættur allri bankastarfsemi.

                Dómurinn getur ekki fallist á að þessi rök hafi þýðingu þar sem það gjald sem varn­ar­aðila bar að greiða sjóðnum eigi síðar en 1. mars 2009 er ekki iðgjald fyrir árið 2009, heldur var aðild­ar­fyrirtækjum veittur frestur til þess dags vegna greiðsluskyldu sem stofnaðist við það að heildareign innstæðudeildar náði ekki lögboðinni lág­marks­fjár­hæð árið 2008. Varnaraðili sinnti viðskiptabankastarfsemi að minnsta kosti ¾ hluta þess árs, ef ekki eitthvað lengur, og þykir af þeirri ástæðu skylt að greiða sjóðnum hlut­fall af þeim erlendu innstæðum sem hann varðveitti, og nutu réttar í tryggingar­sjóð­inum, eins og þeim aðildar­fyrir­tækjum sem störfuðu einungis ¼ hluta ársins, eða skemur, en greiddu þó framlag í sjóð­inn vegna allra þeirra tryggðu innlendu innstæðna sem þau tóku við af varnaraðila og öðrum föllnum bönkum í október 2008.

                Þau rök að varnaraðili hafi þegar greitt forgangskröfur vegna þeirra innstæðna sem hann varðveitti geta ekki heldur haft þýðingu þar sem sóknaraðili er fyrir fram fjár­magn­aður sjóður og ber aðild­ar­fyrirtækjum hans að sjá honum fyrir lögboðinni lág­marks­inneign burtséð frá því hvort þeir sem eiga innstæður hjá einhverju tilteknu þeirra muni í framtíðinni þurfa að sækja greiðslu í sjóðinn.

                Varnaraðili færir í fjórða lagi rök að því að greiðsluskylda hans takmarkist við aukn­ingu tryggðra innstæðna hjá honum frá meðaltali næstliðins árs, það er aukningu frá lokum árs 2007 til þess dags árið 2008 sem hann hætti að taka við innlánum.

                Þessi röksemdafærsla byggir öll á því að fyrirrennari 6. gr. laga nr. 98/1999, 79. gr. laga nr. 43/1993 eins og því ákvæði hafði verið breytt með lögum nr. 39/1996, hafi verið orðuð þannig að gjald í sjóðinn taki mið af aukningu innstæðna milli ára. Til þessa orðalags sé vísað í frumvarpi til laga nr. 98/1999 og því beri að túlka 6. gr. þannig að aðildarfyrirtækjum beri einungis að greiða gjald sem taki mið af aukningu inn­lána milli ára en ekki af meðaltali tryggðra innstæðna.

                Ákvæði 6. gr. laga nr. 98/1999 kveður á um lágmark heildareignar innstæðu­deildar sóknaraðila. Þar segir ótvírætt í 1. málslið 1. mgr. að lágmark heildareignar skuli nema 1% af með­al­tali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næst­liðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki samkvæmt 1. málslið skuli allir við­skipta­bankar og sparisjóðir greiða, eigi síðar en 1. mars ár hvert, gjald til sjóðsins sem nemi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða spari­sjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk tilgreind í 1. málslið.

                Ákvæðið er skýrt og þarfnast ekki skýringar. Því þykir hvorki þörf á að velta fyrir sér hvað hafi staðið í lögum sem felld hafa verið úr gildi né tilvitnun í þau í frum­varpi til núgildandi laga.

                Varnaraðili ber því að lokum við að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. októ­ber 2008, hafi allar skuldbindingar vegna inn­lána flust til Íslandsbanka hf. (áður Nýja Glitnis hf.), þar á meðal skuldbinding gagn­vart sókn­ar­aðila á grundvelli laga nr. 98/1999.

                Fjármálaeftirlitið svaraði, 21. apríl 2009, þeirri fyrirspurn sóknaraðila að hvaða marki nýju bank­arnir hefðu tekið yfir skyldur gagnvart honum á grundvelli laga nr. 98/1999 þannig að þeir hefðu aðeins tekið yfir skyldu til þess að greiða gjald sem reiknað væri út frá meðaltali yfirtekinna innstæðna en ekki þeirra sem skildar hefðu verið eftir í gömlu bönk­unum. Með þessu er hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að Íslands­banki hafi yfir­tekið skyldur varnaraðila gagnvart sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 98/1999 vegna erlendra inn­stæðna.

                Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum varnaraðila gegn því að honum hafi borið að greiða gjald í innstæðudeild sóknaraðila eigi síðar en 1. mars 2009 sem samsvaraði 0,15% af meðaltali tryggðra erlendra innstæðna í hans vörslu árið 2008. Varnaraðili hefur ekki vefengt að sú fjárhæð sem sóknaraðili krefst sé rétt og því er viðurkennt að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem nemi 162.861.750 kr.

                Þá þarf að meta stöðu fjárkröfu sóknaraðila í kröfuröð. Að mati dóms­ins er ekki unnt að túlka 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 þannig að hún taki til þess fjár sem við­skipta­bönkum og sparisjóðum ber að leggja sóknaraðila til samkvæmt 6. gr. lag­anna til þess að heildar­eign inn­stæðu­deildar nái lögboðnu lágmarki. Því verður ekki fall­ist á þá kröfu sóknar­aðila að fjár­krafa hans við slit varnaraðila njóti stöðu for­gangs­kröfu sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar er fallist á að hún njóti stöðu almennrar kröfu sam­kvæmt 113. gr. þeirra laga.

                Samkvæmt þessu hefur verið viðurkennt að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varn­ar­aðila sem nemi 162.861.750 kr. svo og að hún njóti stöðu í kröfuröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

                Vegna þessarar niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 1.500.000 kr. í málskostnað.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Við slit varnaraðila, Glitnis hf., skal krafa sóknaraðila, Tryggingarsjóðs inn­stæðu­eigenda og fjárfesta, að fjárhæð 162.861.750 kr., auðkennd með númerinu CL20091129-7116 í kröfu­skrá varnaraðila, njóta stöðu almennrar kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.500.000 kr. í málskostnað.