Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-96

Fríða Einarsdóttir og Georg Hilmarsson (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
Kópavogsbæ (Ívar Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Deiliskipulag
  • Byggingarleyfi
  • Grennd
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. apríl 2021 leita Fríða Einarsdóttir og Georg Hilmarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars 2021 í málinu nr. 65/2020: Heilbrigð hús ehf. og Kópavogsbær gegn Fríðu Einarsdóttur og Georg Hilmarssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta höfðuðu leyfisbeiðendur 31. janúar 2019 á hendur gagnaðila og kröfðust þess annars vegar að felld yrði úr gildi breyting á deiliskipulagi 28. mars 2017 sem fól í sér að tilgreindri lóð var skipt upp í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og 20a, og nýr byggingarreitur afmarkaður á síðargreindu lóðinni. Hins vegar að fellt yrði úr gildi byggingarleyfi sem gefið var út af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar vegna Brekkuhvarfs 20a sem liggur að lóð leyfisbeiðenda. Heilbrigðum húsum ehf., eiganda síðastgreindu lóðarinnar, var stefnt til réttargæslu. Með sakaukastefnu 14. mars 2019 á hendur Heilbrigðum húsum ehf. kröfðust leyfisbeiðendur jafnframt staðfestingar á lögbanni sem sýslumaður lagði á 23. febrúar 2018 við áframhaldandi framkvæmdum á umræddri lóð, ásamt því að sakaukastefnda yrði gert að þola dóm um fyrrnefndar kröfur. Áður hafði Landsréttur með dómi 8. mars 2019 í máli nr. 633/2018 vísað frá héraðsdómi máli leyfisbeiðenda gegn Heilbrigðum húsum ehf. sem höfðað var til staðfestingar umræddu lögbanni þar sem kröfugerðin var talin of víðtæk og óákveðin til þess að taka mætti hana til greina.

4. Í máli þessu reisa leyfisbeiðendur kröfur sínar einkum á því að slíkir annmarkar hafi verið á breytingu á deiliskipulagi sem umrætt byggingarleyfi byggði á að ógildingu varði. Við breytinguna hafi verið byggt á gögnum sem ekki hafi sýnt rétta afstöðu húsa á lóðunum sem leitt hafi til þess að fjarlægð milli húsa á umræddum lóðum verði ekki nægileg með tilliti til brunavarna og skipulags. Héraðsdómur féllst á kröfur leyfisbeiðenda. Með dómi Landsréttar var kröfum leyfisbeiðenda hins vegar vísað frá héraðsdómi að undanskilinni kröfu á hendur gagnaðila um ógildingu umræddrar breytingar á deiliskipulagi sem sýknað var af. Leyfisbeiðendur afmarka beiðni sína um áfrýjunarleyfi við síðastnefnda kröfu. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að ekkert væri fram komið í málinu um að hin umdeilda breyting á deiliskipulagi væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag eða að nýtingarhlutfall og aðrar skipulagsforsendur sem ákvarðaðar væru fyrir umrædda lóð viki svo frá því sem gilti um aðrar lóðir í götunni að ógildingu varðaði. Þá var hvorki fallist á að gagnaðili hefði brugðist rannsóknarskyldu sinni né að með deiliskipulaginu væri gengið gegn eignarréttarlegum hagsmunum leyfisbeiðenda. Loks voru ekki taldar forsendur til ógildingar deiliskipulagsins með vísan til brunaöryggis og ekki talið að reglur nábýlisréttar leiddu til þess að fella bæri það úr gildi.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem almenningur verði að geta treyst gildandi skipulagi og að reglur nábýlisréttar séu virtar við gerð þess. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra sem felist í því að fullnægjandi fjarlægð sé milli húsa á umræddum lóðum. Loks sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng að formi og efni til og beri þess merki að skort hafi sérfræðiþekkingu á sviði skipulagsmála við úrlausn málsins. Hafi Landsréttur einungis verið skipaður þremur embættisdómurum en ekki sérfróðum meðdómsmanni eins og í héraði.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.