Hæstiréttur íslands
Mál nr. 648/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði varð sóknaraðili tvívegis fyrir líkamstjóni við störf sín til sjós í slysum 8. maí 2006 og 23. júní 2009. Sóknaraðili var tryggður slysatryggingu hjá varnaraðila og gerði hann upp bætur til sóknaraðila vegna fyrra slyssins á grundvelli örorkumats 3. júlí 2007 og vegna þess síðara samkvæmt örorkumati 12. júní 2012. Sóknaraðili telur að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu sinni þannig að miskastig og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Af þeim sökum standi heimild til að endurupptaka ákvörðun bóta eftir 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Til stuðnings þessu vísar sóknaraðili meðal annars til örorkumats 7. mars 2016 frá lögfræðingi og tveimur læknum, sem hann aflaði um afleiðingar þessara tveggja slysa.
Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um frávísun málsins þar sem sóknaraðili hefði einhliða aflað örorkumatsins 7. mars 2016. Af þeirri ástæðu yrði matið ekki lagt til grundvallar við úrlausn þess hvort skilyrði væru til að taka upp eldri uppgjör skaðabóta. Var málatilbúnaðurinn að þessu leyti talinn fara í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þótt annmarki geti verið að þessu leyti á málatilbúnaði sóknaraðila er þess að gæta að hann á þess kost að afla frekari gagna undir rekstri málsins. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4. desember 2015 í máli nr. 760/2015. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar bíði efnisdóms en varnaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Tryggingamiðstöðin hf., greiði sóknaraðila, Birgi Haukssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 22. september 2017, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Birgi Hrafnssyni, Fiskakvísl 30, Reykjavík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 4. apríl 2017.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
I. Að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 15.284.206 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 515.250 krónum frá slysadegi, þeim 8.5.2006, til stöðugleikadags, þess 8.11.2006, en af 15.284.206 krónum frá þeim degi til 12.5.2016, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
II. Einnig að hið stefnda félag verið dæmt til að greiða stefnanda 29.413.878 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.061.400, frá slysadegi, þeim 23.6.2009 til stöðugleikadags, þess 23.10.2009, en af 29.413.878 krónum frá þeim degi til 12.5.2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 frá þeim degi til greiðsludags.
Verði ekki fallist á ofangreindar aðalkröfur stefnanda gerir stefnandi neðangreindar varakröfur.
I. Að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 7.308.330 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 515.350 krónum frá slysadegi þeim 8.5.2006 til stöðugleikadags þann 8.11.2006, en af 7.308.330 krónum frá þeim degi til 12.5.2016, en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 frá þeim degi til greiðsludags.
II. Einnig að hið stefnda félag verið dæmt til að greiða stefnanda 14.932.575 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.061.400 krónum frá slysadegi þeim 23.6.2009 til stöðugleikadags 23.10.2009, en af 14.932.575 krónum frá þeim degi til 12.5.2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst stefndi þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefndi krefst þess jafnframt að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Í máli þessu er deilt um fjárkröfu stefnanda vegna afleiðinga tveggja slysa er stefnandi varð fyrir á sjó á árunum 2006 og 2009. Stefnandi aflaði upphaflega, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, tveggja matsgerða þeirra Birgis G. Magnússonar héraðsdómslögmanns og Leifs N. Dungal læknis og eru matsgerðir þeirra dagsettar 3. júlí 2007, vegna fyrra slyssins, og 12. júní 2012, vegna síðari síðara slyssins. Var niðurstaða þeirra sú að stefnandi hefði orðið fyrir 12 stiga miska og 20% varanlegri örorku vegna fyrra slyssins og 10 stiga miska og 15% varanlegri örorku vegna seinna slyssins auk þess að hafa orðið fyrir tímabundnu tjóni. Matsgerðirnar voru lagðar til grundvallar uppgjöri og kemur fram á kvittun vegna greiðslu fyrra tjónsins að hún sé fullnaðargreiðsla vegna þess slyss, en fyrirvari var gerður um varanlegar afleiðingar slyssins o.fl. við uppgjör vegna síðara slyssins.
Stefnandi telur að afleiðingar slysanna hafi bæði verið vanmetnar og farið versnandi, sbr. 11. gr. skaðabótalaga, og með matsbeiðni, dags. 7. desember 2015, óskaði stefnandi einhliða mats Hannesar Inga Guðmundssonar lögfræðings og læknanna Kristins Tómassonar og Garðars Guðmundssonar til að meta á ný afleiðingar þessara tveggja slysa. Í matsgerð Hannesar Inga, Kristins og Sigurjóns Sigurðssonar læknis 7. mars 2016 var niðurstaðan sú að varanlegur miski var metinn 17 stig og varanleg örorka 30%. Vegna slyssins 23. júní 2009 var varanlegur miski metinn 30 stig og varanleg örorka 35%.
Í málinu byggir stefnandi aðalkröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á matsgerð sem Júlíus Valsson læknir hefur unnið fyrir Lífeyrissjóðinn Gildi. Júlíus hefur metið stefnanda 100% óvinnufæran til sjómennsku og almennra starfa frá seinna slysinu 26. júní 2009 en mat þetta er tímabundið og mun endurmat fara fram í september 2017. Varakrafan er byggð á sérfræðimatsgerðinni frá 1. mars 2016.
Því hefur ítrekað verið slegið föstu í dómum Hæstaréttar að þegar fyrir liggi sérfræðilegt álit um örorku- og miskastig tjónþola, eða þá læknisfræðilegu þætti sem meta þurfi til þess að uppgjör bóta samkvæmt skaðabótalögum geti farið fram, geti hvor um sig, tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta, borið álitið undir örorkunefnd, sbr. 10. gr. skaðabótalaga. Þegar mats sé aflaði einhliða og án aðkomu gagnaðila verði sérfræðimat sem aflað sé einhliða ekki lagt til grundvallar ákvörðun um hvort skilyrði séu til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku. Fari málatilbúnaður að þessu leyti í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Má um slíka niðurstöðu vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 359/2015, 639/2014 og 793/2015.
Þrátt fyrir að fyrir hafi legið mat þeirra Birgis G. Magnússonar héraðsdómslögmanns og Leifs N. Dungal læknis óskaði stefnandi hvorki eftir áliti örorkunefndar né aflaði mats dómkvaddra manna, eins og honum stóð til boða að lögum, teldi hann sig eiga frekari kröfur á hendur stefnda en reistar urðu á því mati. Þess í stað aflaði hann einhliða og án aðkomu stefnda mats þriggja manna. Vegna þess aðdraganda og með vísan til skýrra dómafordæma verður síðargreint sérfræðimat ekki lagt til grundvallar ákvörðun um hvort skilyrði séu til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku. Fer málatilbúnaður stefndu að þessu leyti í bága við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Breytir engu í því efni þó svo stefnandi hafi við þingfestingu málsins lagt fram matsbeiðni þar sem málatilbúnaður hans í stefnu er allur miðaður við álit sem aflað var einhliða, sem stefndi hefur miðað við í greinargerð sinni. Er því fallist á kröfu stefnda um frávísun málsins.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, samanber gjafsóknarleyfi dags. 26. apríl 2016, þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns 400.000 krónur.