Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2003
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Brottrekstur úr starfi
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2003. |
|
Nr. 40/2003. |
Otislyftur ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Ingvari Unnsteini Skúlasyni (Örn Clausen hrl.) |
Vinnusamningur. Brottvikning. Skaðabætur.
I, sem vikið hafði verið úr starfi framkvæmdastjóra O án undangenginnar áminningar, krafðist greiðslu launa í uppsagnarfresti. O krafðist sýknu á þeim grundvelli að I hefði gefið villandi upplýsingar um starfsferil sinn við ráðninguna og frammistaða hans í starfi verið óviðunandi og valdið O stórtjóni. Talið var, að gegn andmælum I hefði O ekki tekist að sanna að I mætti kenna um hve illa tókst til vegna þeirra samninga sem um ræddi í málinu. Kröfum O um skaðabætur úr hendi I var og hafnað þar sem O tókst eigi sönnun þess að tjón sem félagið varð fyrir mætti rekja til saknæmrar háttsemi I. Launakrafa I, sem studdist við skýrt ákvæði í ráðningarsamningi aðila, var samkvæmt þessu tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediksdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi var ráðinn sem framkvæmdastjóri áfrýjanda og hóf störf 18. september 2000. Hann gegndi starfinu til 25. maí 2001, en þá var honum vikið úr starfi án undangenginnar áminningar. Í málinu krefur hann áfrýjanda um greiðslu launa í 6 mánaða uppsagnarfresti, sem hann telur sig eiga rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Áfrýjandi telur sér óskylt að greiða stefnda laun eftir starfslok hans. Ber hann fyrir sig að stefndi hafi gefið villandi upplýsingar um starfsferil sinn við ráðninguna og frammistaða hans í starfi hafi verið óviðunandi og valdið áfrýjanda stórtjóni. Teljist réttur til launa engu að síður vera fyrir hendi eigi áfrýjandi rétt á að skuldajafna skaðabótakröfu sinni á hendur stefnda við launakröfu hans. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði einungis dæmd laun í þrjá mánuði. Málavextir eru nánar raktir í héraðsdómi, en þar er meðal annars tekinn upp í heild sinni áðurnefndur ráðningarsamningur og uppsagnarbréf.
II.
Starfsemi áfrýjanda fólst einkum í að selja og setja upp nýjar lyftur og annast viðgerðir og viðhald á lyftum fjölmargra fasteignareigenda. Samkvæmt málatilbúnaði hans stóð starfsemi félagsins að ýmsu leyti á tímamótum um mitt ár 2000. Viðskipti um kaup á nýjum lyftum hafi þá verið flutt frá framleiðanda í Frakklandi til umboðsskrifstofu OTIS í Danmörku og „það hafði tekist“ svo sem fram kom í skýrslu Aðalsteins Árnasonar, stjórnarformanns áfrýjanda, fyrir dómi. Hafi hann átt fund með forstjóra OTIS í Danmörku og þeir ákveðið að halda annan fund þar sem endanlega yrði gengið frá málinu. Hafi ein lyfta þegar verið keypt frá danska umboðinu. Með því að ná þessum viðskiptum hafi verð á nýjum lyftum lækkað um 30%, sem hafi gefið færi á að auka verulega markaðshlutdeild áfrýjanda við sölu á lyftum. Kvaðst Aðalsteinn, sem fram til þessa annaðist rekstur félagsins, hafa ákveðið að láta af því og ráða framkvæmdastjóra til starfans. Hafi stefndi orðið fyrir valinu. Eftir það sagðist Aðalsteinn hvorki hafa skipt sér af daglegum rekstri áfrýjanda né verið með í ráðum um gerð einstakra sölusamninga um lyftur, en verið „jöfnum höndum hér og erlendis“. Hafi hann ekki gert sér grein fyrir því fyrr en í apríl 2001 að stefndi hefði gert samninga við verktaka um sölu og uppsetningu á lyftum, sem augljóslega gátu ekki staðist, hvorki um verð né afhendingartíma. Hafi hann falið stefnda að rifta nokkrum slíkum samningum og sagt honum upp í kjölfarið. Hafi stórfelld mistök stefnda í starfi leitt til þess að áfrýjandi þurfti að semja um greiðslu hárra skaðabóta, en tjónið þó orðið mun meira ef ekki hefði verið brugðist við með þessum hætti.
Í skýrslu stefnda fyrir dómi kom fram að hann hafi fljótlega eftir að hann hóf störf orðið þess áskynja að rekstur áfrýjanda væri þungur og fjármálin ekki í lagi. Markaðshlutdeild félagsins hafi minnkað og starfsmannamál verið í ólagi. Tveir reyndustu starfsmennirnir hafi hætt um líkt leyti og hafið eigin starfsemi í samkeppni við áfrýjanda. Ennfremur hafi komið í ljós að viðskiptasamband við dönsku umboðsskrifstofuna var ekki svo fast í hendi sem hann hafi talið. Þann 4. október 2000 hafi danska félagið tilkynnt áfrýjanda með tölvupósti að ekki væri áhugi á frekara samstarfi við hann, meðal annars vegna bágrar fjárhagsstöðu áfrýjanda. Það bréf er ekki meðal gagna málsins, en svar áfrýjanda 6. október 2000, ritað af stefnda en undirritað af stjórnarformanninum, hefur verið lagt fram. Er þar meðal annars skorað á danska félagið að endurskoða ákvörðun sína og standa við fyrri áform um viðskipti við áfrýjanda. Var jafnframt boðað til fundar 8. nóvember 2000 til að ljúka við samningsgerð. Bréfi áfrýjanda var ekki svarað og kveðst stefndi því hafa farið til Danmerkur til að ná sambandi við forráðamenn umboðsskrifstofunnar þar. Hafi hann rætt málið við sölustjóra félagsins, sem gekk næstur forstjóranum við stjórnun þess, og talið eftir þann fund að viðskiptin yrðu eins og áður hafi verið gengið út frá. Það hafi síðan ekki verið fyrr en í lok janúar 2001 sem danska félagið tilkynnti að ekki yrði af viðskiptum og benti áfrýjanda á að snúa sér aftur að franska framleiðandanum. Hafði stefndi þá þegar gert samningana fyrir hönd áfrýjanda um sölu og uppsetningu á lyftum, sem um er getið í héraðsdómi, í trausti þess að viðskiptin væru tryggð við danska félagið og að um mun lægra verð yrði að ræða fyrir hverja lyftu en áður hafði verið greitt í Frakklandi. Er svo var komið kvað stefndi áfrýjanda ekki hafa átt annarra kosta völ en að reyna að endurvekja viðskipti við framleiðandann í Frakklandi. Hafi hann því farið þangað í byrjun febrúar 2001 og tekist að koma á viðskiptasambandi að nýju. Hafi hann þá skynjað að mikið hafi áður gengið á í samskiptum framleiðandans við áfrýjanda og að óvild ríkti milli franskra sölustjórans og stjórnarformanns áfrýjanda. Kveðst stefndi jafnframt hafa gert upp eldri skuld áfrýjanda við framleiðandann.
Stefndi kvaðst hafa leitað ráða hjá stjórnarformanninum við gerð tilboða um sölu og uppsetningu á lyftum og að sá síðarnefndi „lagði línurnar“ við tilboðsgerðina. Um hafi verið að ræða sérhæft verk, sem stefndi hafi ekki haft reynslu af, en stjórnarformaðurinn þekkti vel til. Hafi stefndi borið tilboð undir stjórnarformanninn og látið hann fylgjast vel með rekstri félagsins. Þessu neitaði Aðalsteinn Árnason svo sem áður var getið. Þá gat stefndi þess að sérstakir erfiðleikar hafi orðið vegna kröfu franska seljandans um verkábyrgð áður en hafist yrði handa við að framleiða hverja lyftu fyrir áfrýjanda. Almennt dygði að ábyrgð væri sett meðan á framleiðslu stæði, en vegna lítils trausts á áfrýjanda hafi framleiðandinn neitað að hefja smíðina fyrr en ábyrgð lægi fyrir. Að auki hafi af sömu ástæðu ekki tekist að fá lyftur afhentar fyrir sumarfrí starfsmanna framleiðandans, sem enn hafi tafið afhendingu til viðsemjenda áfrýjanda á Íslandi. Kvað stefndi það ekki hafa verið á sínu verksviði að setja ábyrgðir, heldur hafi stjórnarformaðurinn annast það að öllu leyti, enda hafi hann verið persónulega ábyrgur gagnvart banka í slíkum tilvikum. Af ástæðum, sem vörðuðu Aðalstein, hafi gjarnan tafist að ganga frá ábyrgðum og afhendingartíminn frá framleiðanda því lengst. Með því að setja verkábyrgð strax hefði umsaminn afhendingartími við kaupendur hér heima hins vegar staðist. Þessu mótmælti stjórnarformaðurinn og kvað það hafa verið hlutverk stefnda sem framkvæmdastjóra að ganga frá setningu verkábyrgða. Hann hafi hins vegar vanefnt að greiða af lánum áfrýjanda í viðskiptabanka hans, sem þá hafi kippt að sér hendinni við að veita ábyrgðir þar til stjórnarformaðurinn hafi sjálfur gengið í að koma lánum í skil. Engum öðrum en stefnda verði því kennt um þá erfiðleika, sem af þessu leiddi.
Stefndi heldur fram að hann hafi unnið fyrir áfrýjanda af heilindum og ekki dregið af sér í starfi. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf sín. Fyrri erfiðleikum félagsins í rekstri, erfiðum fjárhag þess og ástæðum, sem hann beri ekki ábyrgð á, megi um kenna að tilteknir verksamningar gengu ekki upp. Loks hafi það verið röng ákvörðun að rifta samningum um sölu og uppsetningu á lyftum í maí 2001. Kaupandi að þremur lyftum hafi sjálfur verið kominn í þá stöðu að byggingarframkvæmdum hans hafði seinkað og því örugglega verið unnt að efna samninga við hann með samkomulagi um breyttan afhendingartíma. Ákvörðun um riftun, sem engin skilyrði voru fyrir, hafi því ekki verið skynsamleg eða þjónað hagsmunum áfrýjanda. Um málavexti er nánar fjallað í héraðsdómi.
III.
Á þeim tíma, sem atvik málsins urðu, keppti áfrýjandi á tilboðsmarkaði við aðra um sölu á lyftum og uppsetningu þeirra. Tap varð af nokkrum verkum, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi. Samkvæmt því, sem greinir í II. kafla að framan, ber mikið á milli stefnda og stjórnarformanns áfrýjanda um sitthvað, sem laut að rekstri áfrýjanda. Stendur þar orð gegn orði, en málsástæða áfrýjanda fyrir sýknukröfu vegna ætlaðra mistaka stefnda í starfi er fyrst og fremst studd við staðhæfingar stjórnarformannsins. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjanda ekki tekist að sanna að hinum fyrrnefnda megi kenna um hve illa tókst til vegna þeirra samninga, sem um ræðir. Verður þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á kröfu áfrýjanda um sýknu, sem á þessu er reist, en launakrafa stefnda styðst við skýrt ákvæði í ráðningarsamningi aðilanna. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans vegna annarra málsástæðna, sem áfrýjandi reisir aðal- og varakröfu sína á.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, en ekki er ágreiningur um tölulega hlið málsins. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Otislyftur ehf., greiði stefnda, Ingvari Unnsteini Skúlasyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. nóvember 2002.
Mál þetta var þingfest 16. janúar 2002 og tekið til dóms 31. október síðastliðinn. Stefnandi er Ingvar Unnsteinn Skúlason, kt. 080556-4549, Hlunnavogi 10, Reykjavík en stefndi er Otislyftur ehf., kt. 550365-0229, Gilsbúð 7, Garðabæ. Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða 3.042.687 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 73.761 krónu frá 1. júní 2001 til 6. júní 2001, af 373.761 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 754.861 krónu frá þeim degi til 1. ágúst 2001, af 1.135.961 krónu frá þeim degi til 1. september 2001, af 1.517.061 krónu frá þeim degi til 1. október 2001, af 1.898.161 krónu frá þeim degi til 1. nóvember 2001, af 2.279.261 krónu frá þeim degi til 1. desember 2001 en af 3.042.687 krónum frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði látinn falla niður.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stjórnarformaður stefnda aðilaskýrslur, en vitni voru ekki leidd.
I.
Málavöxtum verður nú lýst eins stuttlega og unnt er á grundvelli aðilaskýrslna og fyrirliggjandi gagna. Stefndi mun hafa verið umboðs- og þjónustuaðili fyrir lyftur af Otis gerð þegar stefnandi var ráðinn til starfa hjá honum í september 2000. Fram að ráðningu stefnanda mun stjórnarformaður stefnda, Aðalsteinn Árnason, hafa farið með framkvæmdastjórn um árabil. Aðalsteinn mun eiga 75% hlut í stefnda á móti 25% hlut dánarbús Júlíusar Friðrikssonar. Kvaðst Aðalsteinn í aðilaskýrslu sinni hafa ætlað að hverfa til annarra starfa og draga sig út úr rekstri stefnda. Hafi hann starfað erlendis og hér heima jöfnum höndum eftir að stefnandi hóf störf og kvaðst Aðalsteinn ekki hafa haft afskipti af rekstri stefnda lengst af starfstíma stefnanda. Markmið stefnda með ráðningu stefnanda mun hafa verið að fá til starfa hæfan einstakling til að stuðla að aukinni markaðshlutdeild stefnda á íslenskum lyftumarkaði og að taka á starfsmannamálum. Áður en stefnandi var ráðinn til starfa lagði hann fram „Náms og starfsferilsskrá“ og meðmæli frá fyrrum atvinnurekanda. Kemur fram í þessu skjali eftirfarandi texti, undir liðnum starfsreynsla: „1985-1996 Stofna Málmsmiðjuna hf. ásamt Óla S. Ólafssyni og starfa þar sem framkvæmdastjóri, þar til Stálsmiðjan hf. kaupir starfsemina 1996. Stálsmiðjan hf. hefur síðan rekið þar ábatasama nýsmíðadeild.“
Í meðmælabréfi frá fyrrum atvinnurekanda stefnanda segir:
„Ingvar Skúlason hóf störf hjá Stálsmiðjunni (síðar Stáltaki) við samruna Málmsmiðjunnar Afls og Stálsmiðjunnar árið 1996.
Hann hefur starfað hér síðan við tilboðsgerð, verkefnisstjórnun og uppgjör, ásamt þáttöku í almennri stefnumörkun og stjórnun.
Hann hefur leyst sín verk vel af hendi og hefur ávallt haft hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi. Hann fær okkar bestu meðmæli nú er hann hefur ákveðið að hætta störfum hjá Stáltaki hf.“
Meðmælabréfið er undirritað af framkvæmdastjóra Stáltaks hf.
Aðilar gerðu með sér ráðningarsamning sem ber heitið „Launasamkomulag“ og segir m.a. í því:
„1. Laun skulu vera 330.000 kr. á mánuði og fela í sér alla þóknun vegna yfirvinnu sem eðlilega fylgir starfssviðinu. Laun skulu hækka í samræmi við hækkun launa VR í kjarasamningum. Við fastráðningu sem ákvörðuð er 1. janúar 2000 [ritvilla, á að vera 2001] skulu laun hækka í 370.000 kr.
2. Orlof skal vera 28 dagar á ári.
3. Starfsmaður greiðir 4% í lífeyrissjóð á móti 10% mótframlagi Otislyftna í Frjálsa lífeyrissjóð.
4. Um sérstakt umbunarkerfi sem veitir starfsmanni að fá 10% af hagnaði eftir skatta.
5. Miðað er við að starfsmaður stefni að starfi hjá Otislyftum í a.m.k. 3 ár. Gert er ráð fyrir 6 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.“
Stefnandi kveður að við ráðningu hafi verið tekið fram að fjármál félagsins væru í góðu lagi en síðar hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið auk þess sem samskipti við erlenda birgja hafi verið erfið. Stefnandi kveðst hafa farið strax að vinna að bættum samskiptum við erlenda aðila til að tryggja vörur.
Þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda stóðu yfir viðræður við byggingafélagið Eykt ehf. vegna meintra vanefnda stefnda á verksamningum við félagið. Lauk þeim viðræðum með því að stefndi greiddi félaginu nokkrar bætur. Mun ástæðan hafa verið að afhending dróst hjá framleiðanda og að lyfta sú sem loks kom til landsins hafi ekki passað og þurft hafi að framkvæma breytingar vegna þess.
Eins og að framan er rakið mun ein af forsendum þess að stefndi ákvað að ráða til sín framkvæmdastjóra hafa verið sú að nýr maður myndi taka á starfsmannamálum og vinna að aukinni markaðssókn. Við ráðningu stefnanda hafi starfsemi stefnda verið á tímamótum. Hafi það meðal annars stafað af því að þá hafi verið komið á samstarf við Otis a/s í Danmörku en fram að því hafi stefndi einungis geta keypt lyftubúnað frá verksmiðjum Otis í Frakklandi. Kveður stefndi að þetta hafi leitt til þess að verð hafi lækkað um 30%. Meðal gagna málsins er bréf sem stjórnarformaður stefnda ritar forstjóra Otis a/s í Danmörku 6. nóvember 2000. Af efni bréfsins má ráða að um er að ræða svar við bréfi frá 4. sama mánaðar þar sem hinn danski forstjóri virðist hafna frekara samstarfi við stefnda. Lýsir stefnandi því svo í aðilaskýrslu sinni að þetta hafi leitt til þess að stefnandi hafi tekið sér ferð á hendur til Danmerkur til að freista þess að ná samstarfi við Otis a/s að nýju. Hafi hann náð fundi sölustjóra fyrirtækisins og hafi niðurstaða þess fundar verið jákvæð en tekið fram að endanleg ákvörðun væri í höndum forstjóra Otis a/s. Síðari hluta janúar 2001 hafi svo borist endanlegt afsvar frá hinum danska forstjóra og jafnframt hafi þar verið sagt að stefndi gæti snúið sér til Frakklands að nýju varðandi vörukaup. Kveður stefnandi að þá hafi staðið ágreiningur milli stefnda og hins franska framleiðanda vegna fyrri viðskipta og hafi það komið í hlut stefnanda að fara til Parísar og leysa þann ágreining. Þetta hafi tekist á fundi 7. febrúar 2001. Kemur og fram í aðilaskýrslu stefnanda að á meðan þessi óvissa hafi verið uppi um afhendingu vöru frá Otis samsteypunni hafi verið hægt að kaupa lyftur frá IGV sem sé ítalskur framleiðandi. Stefnandi skýrði og frá því í aðilaskýrslu sinni að á þessum tíma hafi tveir reyndustu starfsmenn stefnda í lyftuuppsetningum hætt störfum og stofnað í framhaldi af því Íslandslyftur ehf. og hafið samkeppni við stefnda. Kemur þetta að nokkru heim við aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnda þar sem hann hélt því fram að í maí 2001 hafi einungis tveir starfsmenn verið eftir í fyrirtækinu í lyftuuppsetningum og þeir hafi báðir verið óvanir, auk nýs starfsmanns sem stefnandi hafi ráðið til starfa.
Fyrirsvarsmaður stefnda kveður í aðilaskýrslu sinni að hann hafi lítið verið viðloðandi starfsemi stefnda á þeim tíma sem stefnandi var þar að störfum. Hafi hann litið þar við og leitað frétta af starfseminni og hafi hann ávallt fengið þau svör hjá stefnanda að bjart væri framundan í rekstrinum. Einnig hafi hann fengið þær upplýsingar hjá þeim starfsmanni sem hafi séð um að greiða reikninga að minna væri af ógreiddum smáreikningum og því liti allt vel út. Kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda hafa komist að því síðar að þetta hafi stafað af því að ekki hafi verið greitt af lánum á réttum tíma og einnig hafi húsaleiga verið í vanskilum. Kom fram hjá honum að hann hafi talið að reksturinn væri þungur, vegna þess að hann væri það gjarnan í lyftuuppsetningum. Kostnaður við hverja lyftu væri hátt hlutfall af rekstrarinnkomu hvers mánaðar og greiðslur bærust ekki jafnt og þétt og því erfitt að halda jöfnu greiðsluflæði í rekstrinum.
Í aðilaskýrslu sinni kvað fyrirsvarsmaður stefnda að honum hafi fyrst orðið það ljóst að ekki var allt með felldu þegar starfsmaður á skrifstofu stefnda hringdi í hann í aprílmánuði 2001 og tjáði honum að loka ætti bankareikningi félagsins vegna vanskila. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa orðið að mæta í viðskiptabanka félagsins með 3.000.000 króna þann dag til að forða þessu.
Hér er nauðsynlegt að lýsa í nokkrum orðum því hvernig framkvæmd verksamninga um lyftur gengur fyrir sig og er þá byggt á skýrslum aðila og gögnum málsins. Hver lyfta er sérsmíðuð hjá framleiðanda og er framleiðslutími 14-16 vikur. Mun fyrst send inn pöntun til framleiðanda og hann svarar með því að upplýsa um verð og afgreiðslutíma. Þá er útveguð bankaábyrgð fyrir framleiðslukostnaði og þegar hún hefur verið lögð fram hefst framleiðsla lyftunnar.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi gert fyrir hönd stefnda verksamninga um samtals fimm lyftur sem ekki hafi verið möguleiki á að standa við. Hafi stefnandi annars vegar lagt til grundvallar of lágt verð fyrir lyftuna sjálfa og uppsetningu hennar og hins vegar samið um afhendingartíma sem ekki hafi verið hægt að standa við.
Stefnandi byggir á því að fyrirsvarsmaður stefnda hafi átt að sjá um að bankaábyrgðir væru í lagi og unnt hefði verið að standa við alla þá samninga sem hann hefði gert ef svo hefði verið og að tafir á afhendingu megi rekja til þessa. Fyrirsvarsmaður stefnda hélt því hins vegar fram í aðilaskýrslu að tafir á verkábyrgðum hafi eingöngu mátt rekja til stjórnunar stefnanda á fyrirtækinu og einkum þeirra vanskila sem fyrr er minnst á. Þá hafi verið fleiri lyftur í pöntun en bankinn hafi viljað ábyrgjast á grundvelli fyrirliggjandi trygginga og því hafi fyrirsvarsmaðurinn neyðst til að leggja fram frekari tryggingar gagnvart bankanum og að það hafi tekið tíma að útvega þær. Fyrirsvarsmaður stefnda kvað stefnanda hafa lagt það til þegar hér var komið sögu að leita eftir samningum við annað lyftufyrirtæki um kaup eða samruna þar sem nauðsynlegt væri fyrir stefnda að stækka ef ná ætti markmiðum um aukna markaðshlutdeild. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa hafið könnunarviðræður við Bræðurna Ormson hf. um kaup eða samruna á lyftudeild þess fyrirtækis. Í þeim viðræðum hafi hann lagt fram yfirlit, útbúið af stefnanda, um verk sem stefndi hefði í vinnslu eða teldi sig geta náð samningum um. Á því blaði hafi verið ein lyfta sem fulltrúar Bræðranna Ormson hf. hafi sagt að þeir væru að setja upp og verkið langt komið og því væri listinn ekki alls kostar réttur. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa í kjölfar þessa farið á skrifstofur stefnda og farið yfir öll tilboð sem gerð hafi verið eða í vinnslu og þá hafi hann fyrst komist að því hvernig komið var í rekstri félagsins. Kvað hann tilboð þessi hafa öll verið þannig að hann hafi talið útilokað að stefndi gæti staðið við þau, bæði að því er varðar verð og skilatíma verks. Hafi fyrirsjáanlegt tap af þessum verkum verið svo mikið að hann hafi gefið stefnanda fyrirmæli um að rifta samningunum. Kvaðst hann hafa talið á þeim tíma að fyrirtækið væri gjaldþrota. Sendi stefndi í kjölfar þess bréf annars vegar til Trésmiðjunnar Akurs ehf. og hins vegar til Eyktar ehf. og tilkynnti að stefndi hyggðist ekki standa við samninga um lyftuuppsetningu fyrir félögin. Í gögnum málsins kemur fram að eftir starfslok stefnanda, greiddi stefndi nefndum félögum bætur vegna vanefnda; Eykt ehf., 1.200.000 krónur og Trésmiðjunni Akri ehf., 1.000.000 krónur. Samkomulag náðist um endurskoðun samnings vegna lyftu fyrir Kólus að Tunguhálsi 5. Stefnandi kom ekki að umræddum samningum um bætur þar sem hann hafði þá þegar látið af störfum hjá stefnda.
Í gögnum málsins liggur fyrir óundirritað uppkast að starfslokasamningi sem aðilar eru sammála um að stefnandi hafi lagt fyrir fyrirsvarsmann stefnda. Er uppkast þetta dagsett 17. maí 2001 og kemur þar fram að stefnandi hafi óskað þess að láta af störfum frá og með 25. sama mánaðar og að honum skuli greiða laun í þrjá mánuði, eða til 30. september 2001. Kveður stefnandi að þessi tillaga að starfslokum hafi komið til vegna þess að fyrirsvarsmaður stefnda hafi haft áform um að draga saman í rekstri félagsins og hafi þetta verið hugsað til að liðka fyrir gagnavart fyrirsvarsmanni stefnda og eins að miðað við áform um samdrátt hafi ekki verið þörf starfskrafta stefnanda lengur. Fyrirsvarsmaður stefnda kvað starfslokasamninginn hins vegar til kominn vegna þess að fjárhagur stefnda hafi verið orðinn svo bágur vegna starfa stefnanda að ekki hafi verið grundvöllur fyrir frekara starfi hans fyrir félagið.
Þann 25. maí 2001 afhenti fyrirsvarsmaður stefnda stefnanda uppsagnarbréf og kvittaði stefnandi fyrir móttöku þess. Uppsagnarbréfið er svohljóðandi:
„Í ljós hefur komið að samningar sem þú hefur gert fyrir hönd félagsins hafa valdið félaginu verulegu tjóni og álitsspjöllum. Af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að segja þér upp störfum frá og með deginum í dag að telja, og er þess óskað að þú hættir störfum þegar í stað.
Félagið telur að frammistaða þín í starfi hafi verið með þeim hætti að félaginu sé óskylt að greiða þér laun á uppsagnarfresti. Þú verður þess vegna tekinn af launaskrá félagsins frá og með deginum í dag. Laun fyrir maí og áunnið orlof verða gerð upp um næstu mánaðamót.
Félagið áskilur sér rétt til að krefja þig um bætur vegna tjóns sem félagið hefur orðið fyrir og kann að verða fyrir vegna samninga sem þú hefur gert fyrir þess hönd. Stjórnendur félagsins munu leitast við að draga úr því með samningum við viðkomandi aðila, og þess vegna er á þessu stigi ekki ljóst hver endanleg niðurstaða verður í þeim efnum.“
Hætti stefnandi störfum þann dag og tókst honum að eigin sögn ekki að útvega sér aðra vinnu á því sex mánaða tímabili sem hann krefur stefnda um laun fyrir.
Fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst hafa þurft að leggja út um 10.000.000 króna í rekstur stefnda eftir að stefnandi hafi hætt þar störfum. Hafi honum tekist að reka félagið um eins árs skeið en í ágúst á þessu ári hafi hann selt reksturinn. Kvað hann félagið enn til og að enginn hefði farið fram á gjaldþrotaskipti á því.
Nauðsynlegt er að gera frekari grein fyrir þeim ávirðingum sem stefndi ber á stefnanda vegna starfa hans í þágu félagsins. Er hér einkum um að ræða verksamninga sem stefnandi gerði við þrjá aðila um samtals fimm lyftur sem stefndi kveður hafa valdið félaginu tjóni. Verður hér einkum stuðst við greinargerð stefnda.
1. Gerð samnings við Trésmiðjuna Akur ehf.
Stefndi kveður stefnanda hafa gert Trésmiðjunni Akri ehf. tilboð í lyftur fyrir fjölbýlishús á Akranesi 12. janúar 2001. Tilboðsfjárhæð sé 3.681.000 fyrir allt verkið, þ.e. 2.696.000 krónur fyrir lyftuna og 985.000 krónur fyrir uppsetninguna. Virðisaukaskattur sé meðtalinn í fjárhæðinni. Stefndi vekur athygli á því að meðal framlagðra skjala sé símbréf sem Aðalsteinn Árnason hafi sent Trésmiðjunni Akri ehf. 1. desember 1999 en þar sé kostnaður vegna lyftu áætlaður 4.840.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Verksamningur hafi verið undirritaður 19. janúar 2001 og sé samningsfjárhæðin sú sama og í áðurnefndu tilboði. Erlendur hluti miðist við gengi á frönskum franka sem sé 12,2536. Kveðið hafi verið á um verklok 19. júní 2001.
Í yfirlitsskjali frá stefnanda reikni hann með 3% framlegð af þessu verki eða 100.000 krónum sem sé í sjálfu sér óviðunandi útkoma. Stefndi kveðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvernig stefnandi hafi fundið út þessa fjárhæð. Ljóst sé hins vegar að stefnandi hafi ekki haft neitt fast í hendi þegar hann hafi gengið frá umræddum samningi. Innkaupsverð frá framleiðanda hafi þá ekki legið fyrir eða hvenær afhendingartími gæti orðið. Þetta sé afar ámælisvert að mati stefnda. Af gögnum málsins megi sjá að stefnandi hafi áætlað söluverð út frá verði í frönskum frönkum sem hann hafi gefið sér en eigi ekki stoð í raunveruleikanum. Auk gefinna verða veki athygli að flutningskostnaður sé áætlaður 100.000 krónur sem sé allt of lág fjárhæð. Auk þess hafi stefnandi ekki gert ráð fyrir ýmsum kostnaðarliðum t.d. vegna bankaábyrgðar og verkábyrgðar. Í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnda kom fram að nafngreindur starfsmaður á skrifstofu stefnda hafi haft þann starfa um árabil að reikna út verð á lyftum. Stefnandi hafi hins vegar kosið að reikna verðið út á eigin forsendum án samráðs við nefndan starfsmann.
Komið hafi í ljós síðar að verð lyftunnar var franskir frankar 198.850 sem sé verulega hærra en það sem stefnandi hafi gefið sér í umræddum útreikningum. Þá hafi komið í ljós að afgreiðslutími hafi verið 16 vikur að viðbættum ágústmánuði þar sem verksmiðjan væri lokuð þann mánuðinn. Þetta hafi þýtt að afhending lyftunnar hefði í fyrsta lagi getað farið fram í septemberbyrjun 2001. Þá hafi verið eftir að flytja hana til landsins og koma henni á verkstað og setja hana upp.
Í ljós hafi komið að fobverð lyftunnar hafi verið 2.436.628 krónur. Þegar gert hafi verið ráð fyrir 10% álagningu og virðisaukaskatti hafi lyftan átt að kosta 3.712.445 krónur. Uppsetning hafi átt að kosta 1.189.598 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Fyrirsjáanlegt tap á samningnum hafi því verið 1.319.000 krónur. Þá eigi eftir að líta til þess að verklok hafi aldrei getað tekist fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann í október 2001 og stefndi því orðið skaðabótaskyldur vegna afhendingardráttar í u.þ.b. fjóra mánuði.
Stefndi kveður að stefnandi hafi sjálfur séð að í óefni hafi stefnt með efndir samningsins og því tekið það til bragðs að lýsa sjálfur yfir riftun 17. maí 2001. Í kjölfar þess hafi lögmanni stefnda verið falið að freista þess að ná samningum við verkkaupa um bætur vegna samningsrofanna. Samkomulag hafi tekist um skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur til verkkaupans. Telur stefndi sig hafa sloppið vel eftir atvikum fjárhagslega frá þessum samningi. Þessi samningsrof hafi þó haft í för með sér verulegan álitshnekki fyrir stefnda.
2. Gerð samnings við Kólus.
Stefndi kveður stefnanda hafa gert tilboð í lyftu fyrir Tunguháls 5 í Reykjavík þann 14. nóvember 2000. Tilboðsfjárhæð hafi verið 3.250.000 krónur fyrir lyftuna, 777.000 fyrir uppsetningu eða samtals 4.027.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Í tilboðinu hafi verið tekið fram að verðið miðaðist við gengi í ítalskrar líru á tilboðsdegi og verð á uppsetningu miðaðist við byggingavísitölu á tilboðsdegi. Afhending lyftunnar hafi átt að vera 14 vikum eftir pöntun og uppsetning og prófanir hafi átt að taka 3 vikur til viðbótar. Stefnanda hafi hins vegar mátt vera ljóst er hann hafi gert tilboðið að útilokað hafi verið að standa við þennan afhendingartíma vegna afgreiðslufrests hjá framleiðanda. Stefnandi hafi auk þess ekki beðið um verðtilboð í lyftuna frá hinum erlenda framleiðanda áður en hann hafi gert tilboðið. Þetta tilboð hafi verið samþykkt af hálfu húseigandans. Í yfirliti sem stefnandi hafi lagt fyrir stjórnendur stefnda komi fram að hann geri ráð fyrir framlegð að fjárhæð 600.000 krónur vegna þessa verkefnis.
Skemmst sé frá því að segja að stefnt hafi í verulegt tap á þessum viðskiptum. Rétt verð fyrir lyftuna hafi átt að vera 4.270.437 krónur og sé þá gert ráð fyrir 15% álagningu sem hljóti að teljast hóflegt. Uppsetning miðað við útselda vinnu starfsmanna stefnda sé 1.522.685 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Heildarverð fyrir lyftuna og uppsetningu hennar hafi því þurft að vera 5.793.122 krónur til þess að stefndi fengi lágmarks framlegð út úr verkinu. Eftirmaður stefnanda hafi því tekið upp viðræður við kaupanda og tekist að fá hann til að endursemja um lyftukaupin. Hafi þannig með naumindum verið komið í veg fyrir verulegt tap af viðskiptunum. Tapinu hafi einungis verið afstýrt vegna þess að stefnandi hafi ekki lengur verið við störf hjá stefnda.
3. Þrjár lyftur fyrir Eykt ehf.
Stefndi kveður stefnanda hafa gert Eykt ehf. tilboð 4. desember 2000 í lyftur fyrir húseignir sem Eykt ehf. hafi verið með í byggingu að Borgartúni 19, Borgartúni 21a og Lynghálsi 4, Reykjavík. Í ljósi þess að stefnandi hafi komið til starfa hjá stefnda við þær aðstæður að félagið hafi þurft að semja við Eykt ehf. um verklokauppgjör vegna dagsekta og fleira, hafi mátt ætla að stefnandi stæði þannig að verki við samningsgerð við Eykt ehf. að ekki þyrfti að óttast slík eftirmál. Reyndin hafi hins vegar orðið önnur. Stefnandi hafi bundið stefnda við verksamninga um þessar lyftur sem gjörsamlega hafi verið útilokað að standa við. Í framlögðum gögnum eru þessi atriði nánar reifuð af stefnda. Er stjórnendur stefnda hafi orðið þess áskynja í hvað stefndi hafi þeir lagt fyrir stefnanda að freista þess að fá stefnda leystan frá þessum verksamningi. Stefnandi hafi ekki andmælt því að í óefni væri komið og hefði hann ritað verkkaupum bréf 18. maí 2001 þar sem hann hafi lýst yfir riftun á verksamningum. Í framhaldi af því hafi stefndi falið lögmanni sínum að freista þess að semja um hæfilegar bætur fyrir samningsrofin enda hafi komið fram bótakrafa frá verkkaupa 9. október 2001 að fjárhæð 1.566.942 krónur. Samkomulag hafi tekist um að stefndi greiddi Eykt ehf. 1.200.000 krónur í bætur.
4. Önnur tilvik.
Auk þeirra tilvika sem að framan greinir hafi stjórnendur stefnda komist að raun um að stefnandi hafi lagt drög að samningum um að minnsta kosti 10 lyftur til viðbótar. Þeir samningar hafi verið á svipuðum nótum og hér að framan sé lýst. Hafi stefnandi samið um að lyfturnar kæmu til landsins á svipuðum tíma og yrðu settar upp á u.þ.b. 4 vikum. Stjórnendur stefnda hafi brugðist ókvæða við þessum samningum enda ljóst að fyrirtækið myndi ekki geta staðið við neina þessara samninga, hvorki um afgreiðslutíma frá framleiðanda né uppsetningartíma hér á landi. Með því að bregðast fljótt við hafi stjórnendum stefnda tekist að losna frá samningaviðræðum við þessa aðila en tæpara hafi ekki mátt standa.
II.
Stefnandi byggir á því að hann hafi haft 6 mánaða uppsagnarfrest. Á starfstímanum hafi hann starfað af heilindum og gert sitt besta til að auka viðskipti fyrirtækisins m.a. með því að koma erlendum viðskiptasamböndum í eðlilegt horf svo og að auka markaðshlutdeild stefnda. Samkvæmt meginreglum vinnuréttar beri að gefa aðvörun áður en komi til fyrirvaralausrar uppsagnar vegna brots í starfi. Stefnandi hafi ekki fengið neina slíka aðvörun og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hans. Ávirðingar um lélega samninga komi honum á óvart, einkum í ljósi þess að forsvarsmönnum stefnda hafi verið fullkunnugt um starf stefnanda og þá samninga sem hann hafi gert fyrir hönd stefnda.
Stefnandi hafi gert ráð fyrir að starfa í a.m.k. 3 ár hjá stefnda eins og fram komi í starfssamningi þeirra. Fyrirvaralaus uppsögn með þeim ávirðingum sem fram komi í uppsagnarbréfinu hafi valdið stefnanda álitshnekki á vinnumarkaði og sé þess vegna krafist miskabóta samkvæmt 26 gr. skaðabótalaga. Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
Laun vegna 1.-25. maí 2001, kr. 381.100,-/21,67x19 dagar kr. 334.144,-
Greidd laun vegna 1.-25. maí 2001 kr. -307.339,-
Laun í uppsagnarfresi 28.-31. maí 2001 (kr. 381.100,334.144,-) kr. 46.956,-
Laun í uppsagnarfresti, júní 2001 kr. 381.100,-
Laun í uppsagnarfresti, júlí 2001 kr. 381.100,-
Laun í uppsagnarfresti, ágúst 2001 kr. 381.100,-
Laun í uppsagnarfresti, september 2001 kr. 381.100,-
Laun í uppsagnarfresti, október 2001 kr. 381.100,-
Laun í uppsagnarfresti, nóvember 2001 kr. 381.100,-
kr. 2.360.361,-
Orlof sept.-apríl 2001, 7,5 mán. x 12.07% kr. 344.991,-
Greitt orlof 5. júní 2001 kr. -285.793,-
Orlof maí-nóvember 2001, 7 mán. x 12,07% kr. 284.896,-
Desemberuppbót 2001 (40.000,-/45x43) kr. 38.222,-
kr. 2.742.687,-
Miskabætur kr. 300.000,-
Samtals kr. 3.042.687,-
Við munnlegan málflutning mótmælti stefnandi þeim fullyrðingum stefnda að hann hafi leynt stefnanda upplýsingum við ráðningu sína. Ennfremur var því mótmælt að samningar þeir sem stefnandi gerði fyrir hönd stefnda hafi verið á einhvern hátt óeðlilegir. Gæta þurfi að því að stefndi starfi í samkeppni við aðra aðila á lyftumarkaði og þurfi að vera samkeppnisfær í verði. Þegar bornar séu saman tölur í tilboðum stefnanda fyrir hönd stefnda og tilboð samkeppnisaðila sjáist að verð þau sem stefnandi miði við séu sambærileg. Byggði stefnandi einkum á því að meginástæða fyrir því að dróst að panta lyfturnar frá framleiðanda hafi verið sú að bankaábyrgðir hafi ekki legið fyrir, en útvegun þeirra hafi verið á ábyrgð fyrirsvarsmanns stefnda en ekki stefnanda. Einnig bar stefnandi brigður á útreikning stefnda á endanlegu verði umræddra lyftna, sem komi fram í gögnum málsins. Benti stefnandi einkum á það að stefndi miðaði við mun fleiri vinnustundir við uppsetningu en framleiðandi gæfi upp og hefði ekki gefið skýringar á þessum mun.
III.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er á því byggð að stefnandi hafi reynst ófær um að gegna starfi sínu hjá stefnda með þeim hætti sem ætlast hafi verið til af honum. Þess vegna hafi stefnda verið heimilt að segja honum upp starfi fyrirvaralaust með þeim hætti sem gert hafi verið. Í ljósi frammistöðu stefnanda, sem lýst hafi verið hér að framan, sé ekki hægt að ætlast til þess að stefndi greiði honum laun í uppsagnarfresti.
Byggt er á því að stefnandi hafi gefið stefnda rangar upplýsingar um fyrri störf sín við rekstur atvinnustarfsemi og um leið leynt stefnda upplýsingum sem hafi haft verulega þýðingu þegar tekin hafi verið ákvörðun um ráðningu stefnanda til félagsins. Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að stefnandi hafi gefið stjórnendum alranga mynd af rekstrarafkomu félagsins og þannig leynt því hver árangur af störfum hans hafi í raun verið. Með þessu hafi stefnandi brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart félaginu og stjórnendum þess og stofnað hagsmunum félagsins og hagsmunum eigenda þess í verulega hættu. Í því sambandi vekur stefndi sérstaka athygli á því að stjórnendur félagsins hafi verið í persónulegum verkábyrgðum í tengslum við verksamninga þá sem að framan er getið.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að stefnandi eigi rétt til 6 mánaða launa eins og krafa sé gerð um í stefnunni. Telur stefndi augljóst að 6 mánaða uppsagnarfrestur geti ekki talist áunninn réttindi samkvæmt þessum samningi þar sem starfstími stefnanda hafi verið svo skammur sem raun beri vitni. Sé því augljóst að forsenda sé brostin fyrir þessu ákvæði enda hafi stefnandi ekki verið fastráðinn í 6 mánuði þegar honum hafi verið sagt upp. Sé auk þess ljóst að stefnandi hafi sjálfur ekki gert ráð fyrir 6 mánaða uppsagnarfresti þegar hann hafi lagt fyrir stefnda drög að starfslokasamningi en þar hafi hann gert ráð fyrir launum í 3 mánuð frá starfslokum.
Stefndi mótmælir því að uppsögnin hafi verið framkvæmd með þeim hætti að til álita komi að dæma stefnanda miskabætur eins og krafa sé gerð um í málinu. Þá mótmælir stefndi því einnig að hann hafi valdið stefnanda álitshnekki eins og fram sé haldið.
Verði krafa stefnanda að einhverju leyti tekin til greina krefst stefndi skuldajafnaðar. Skuldajafnaðarkröfu sína sundurliðar stefndi með eftirfarandi hætti:
Bætur greiddar til Akurs ehf. 1.000.000 krónur.
Bætur til Eyktar ehf. 1.200.000 krónur
Lögmannskostnaður vegna samningsgerðar 300.000 krónur
Bætur vegna ófjárhagslegs tjóns 3.000.000 krónur
Samtals 5.500.000 krónur.
Stefndi tekur fram að óhægt sé um vik að sanna ófjárhagslegt tjón í þessu tilfelli. Ljóst megi þó vera að fyrirtækið hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki og misst tiltrú á markaði. Stjórnendur þess hafi ítrekað þurft að ganga til viðræðna um slit á verksamningum vegna þess að félagið hafi ekki getað uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi er það hafi gert. Gerir stefndi þá kröfu að bætur verði ákveðnar að álitum að mati dómsins.
Dráttarvaxtakröfur stefnanda er mótmælt sérstaklega. Eins og stefnan sé úr garði gerð telur stefndi að dráttarvextir verði ekki dæmdir lengur en til 1. júlí 2001.
IV.
Í máli þessu liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur stefnda við stefnanda. Af orðum þess samnings og skýrslum aðila er ljóst að stefnandi hóf störf í septembermánuði árið 2000 og gerði við stefnda samning um starfskjör. Kemur fram í samningnum að stefnt væri að fastráðning miðaðist við 1. janúar 2001, starfstími var áætlaður að minnsta kosti þrjú ár og að samningnum mætti segja upp með sex mánaða fyrirvara. Þegar stefndi sagði upp samningi við stefnanda 25. maí 2001 hafði stefnandi verið fastráðinn frá áramótum. Sá reynslutími sem samningurinn gerði ráð fyrir var þá liðinn og fastráðningartímabil hafið. Ákvæðið um sex mánaða uppsagnarfrest er afdráttarlaust og án fyrirvara og verður ekki skilið öðruvísi en að stefnanda beri samkvæmt samningnum sex mánaða uppsagnarfrestur og skiptir þá ekki máli þó starfstími hans hafi orðið styttri en áform voru uppi um.
Að þessu sögðu stendur eftir að ákvarða hvort stefnda hafi verið rétt eins og hér stóð á að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi eins og hann gerði. Byggir stefndi einkum á því að frammistaða stefnanda í starfi hafi verið með þeim hætti að heimilað hafi fyrirvaralausa uppsögn og eins byggir stefndi á því að stefnandi hafi leynt stefnda mikilvægum upplýsingum varðandi starfsferil sinn þegar hann lagði fram starfsferilsskrá sína ásamt meðmælabréfi frá fyrrum atvinnurekanda. Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að hann hefði verið stjórnandi Málmsmiðjunnar Afls ehf. þegar það fyrirtæki varð gjaldþrota. Stálsmiðjan hf. hafi keypt reksturinn af þrotabúi fyrrnefnds félags og í kjölfar þess ráðið stefnanda til starfa. Þessa er ekki getið í gögnum þeim sem stefnandi lagði fyrir stefnda með starfsumsókn sinni og í meðmælabréfi frá Stálsmiðjunni hf. er talað um að stefnandi hafi hafið störf hjá félaginu í kjölfar samruna nefndra tveggja félaga. Fallast má á það með stefnda að gögn þessi séu villandi varðandi starfsferil stefnanda. Hafa verður þó í huga að stefndi gat leitað nánari upplýsinga um fyrri störf stefnanda og árangur hans í starfi hefði hann talið þess þörf. Upplýsingar um gjaldþrot félaga eru skráð opinberri skráningu og öllum aðgengileg sem eftir leita. Einnig er rétt að líta til þess að í meðmælabréfi því sem um er rætt er farið lofsamlegum orðum um störf stefnanda í þágu Stáltaks hf. en þar virðist stefnandi hafa starfað frá árinu 1996 til ársins 2000. Er ennfremur ekkert komið fram í máli þessu varðandi ástæður fyrrnefnds gjaldþrots og verður því ekki fullyrt að það megi rekja til vanhæfni stefnanda, eins og stefndi hefur látið liggja að. Þegar þetta er virt verður ekki fallist á það með stefnda að hin villandi lýsing stefnanda á starfsferli sínum geti rennt stoðum undir heimild stefnda til fyrirvaralausrar riftunar ráðningarsamnings við stefnanda.
Eins og að framan greinir byggir stefndi að meginstefnu á því að honum hafi verið heimilt að víkja stefnanda úr starfi eins og hann gerði þar sem stefnandi hafi reynst ófær um að gegna starfi sínu hjá stefnda með þeim hætti sem ætlast hafi verið til af honum. Er af hálfu stefnda byggt á því að stefnandi hafi bakað stefnda tjón með óforsvaranlegri samningsgerð. Til stuðnings þessu hefur stefndi gert grein fyrir að rifta hafi þurft nokkrum samningum um lyftuuppsetningar og greiða bætur vegna vanefnda. Stefndi byggir á því að ástæður þessa megi fyrst og fremst rekja til stjórnunar stefnanda. Stefnandi heldur því aftur á móti fram að ástæður megi einkum rekja til þess að bankaábyrgðir hafi ekki legið fyrir í tæka tíð og því hafi staðfesting á pöntunum dregist úr hófi, en öflun bankaábyrgða hafi ekki verið í höndum stefnanda heldur hafi stjórnarformaður stefnda og aðaleigandi séð um þá hlið mála.
Stefndi byggir ekki á því að stefnandi hafi verið fjarvistum frá vinnu sinni eða að hann hafi rofið trúnað við fyrirtækið á einhvern hátt t.d. með samráði við samkeppnisaðila. Verður málatilbúnaður stefnda ekki skilinn öðruvísi en að hann telji að þar sem stefnandi hafi bakað félaginu tjón og ekki reynst starfi sínu vaxinn hafi verið heimilt að segja honum upp störfum án fyrirvara. Ekki verður fallist á það að starfsmanni verði sagt upp störfum með þessum hætti vegna tjóns sem hann kann að hafa bakað vinnuveitanda sínum. Breytir það hér engu að viðkomandi starfsmaður var ráðinn til að stjórna hinu stefnda félagi. Í vinnuréttarsambandi á vinnuveitandi ávallt þann kost að segja starfsmanni upp störfum ef vinnubrögðin eru honum ekki að skapi, en kemst ekki hjá því að greiða viðkomandi laun í uppsagnarfresti, enda á vinnuveitandi kröfu á vinnuframlagi starfsanns á því tímabili. Meira þarf til að koma en hér liggur fyrir til að fallast hefði mátt á það með stefnda að fyirvaralaus uppsögn ráðningarsamningsins hefði verið heimil.
Skal þá vikið að skaðabótakröfu stefnda gagnvart stefnanda. Sönnunarbyrðin fyrir því að stefnandi hafi bakað stefnda tjón við framkvæmd starfa sinna hvílir á stefnda. Ekki er nægilegt að sýna fram á að tjón hafi orðið heldur ber tjónþola að sanna að tjónið megi rekja til athafna eða athafnaleysis tjónvalds, að orsakasamengi sé á milli athafnarinnar og tjónsins og ennfremur að tjónið sé sennileg afleiðing af sömu athöfn. Í máli þessu liggur fyrir að stefndi tók ákvörðun um að uppfylla ekki tiltekna samninga sem stefnandi hafði gert fyrir hönd stefnda og samdi í kjölfarið um bætur til verkkaupa vegna vanefndanna. Telur stefndi sig hafa verið nauðbeygðan til þessa þar sem verð það sem stefnandi hafi samið um hafi verið allt of lágt og eins að fyrirsjánlegar hafi verið margra mánaða tafir þar sem vara fengist ekki afhent frá framleiðanda í tæka tíð. Ennfremur að stefndi hefði ekki á þeim tíma haft á að skipa nægilegum mannafla til verkanna. Þetta allt saman hefði leitt til stórtaps af samningunum. Þau tilboð sem stefnandi gerði fyrir hönd stefnda og stefndi telur að hafi valdið sér tjóni eru annars vegar tilboð til Trésmiðjunnar Akurs ehf. sem dagsett er 12. janúar 2001 og hins vegar tilboð í þrjár lyftur fyrir Eykt ehf. sem dagsett eru 4. desember 2000. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi gert þessi tilboð án þess að hafa leitað eftir upplýsingum um verð frá framleiðanda og án þess að hafa fullvissu fyrir því að varan fengist afhent í tæka tíð. Í máli þessu liggur fyrir að markmið með ráðningu stefnanda til stefnda hafi verið að hefja markaðssókn í kjölfar þess að samningar hafi náðst við nýjan dreifingaraðila í Danmörku sem gat boðið vöruna á lægra verði en áður hafði boðist. Einnig liggur fyrir að þetta gekk ekki eftir og að stefndi neyddist til að snúa sér aftur til fyrri dreifingaraðila í Frakklandi. Leiddi þetta óhjákvæmilega til tafa og væntanlega til þess að varan varð dýrari að nýju. Þegar fyrrgreind tilboð eru gerð var uppi þessi óvissa um hvar vara fengist afgreidd. Virðist stefnandi hafa byggt á því að honum tækist að fá umræddar lyftur afgreiddar frá Danmörku. Þetta gekk ekki eftir og þegar tilboð lágu fyrir frá franska framleiðandanum reyndust verð á lyftum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tilboðunum. Í þessu samhengi er rétt að huga að því að þegar viðskiptaákvarðanir stjórnenda fyrirtækja eru metnar verður að líta til þess að um er að ræða ákvarðanir sem oftar en ekki fela í sér vissa áhættu og ekki er alltaf einsýnt um hvort forsendur allar standist þegar upp er staðið. Er það því mat dómsins að stefnandi hafi ekki í ákvörðunum sínum fyrir félagið tekið meiri áhættu en honum var heimilt að taka miðað við þær forsendur sem virðast hafa legið fyrir. Ekki verður heldur horft fram hjá því að ein af ástæðum þess að það dróst að panta umræddar lyftur frá framleiðanda virðist hafa verið greiðsluerfiðleikar félagsins. Hefur stefndi ekki rennt neinum stoðum undir að ástand fjármála félagsins hafi verið stefnanda að kenna. Ekki hafa verið lögð fram gögn um fjárhagsstöðu stefnda áður en stefnandi hóf þar störf eða meðan hann gengdi þar störfum. Telst því ósannað í málinu að tafir á útvegun verkábygða, sem stefndi hefur byggt á að hafi verið vegna vanskila við viðskiptabanka stefnda, hafi verið af ástæðum sem stefnanda verði um kennt. Það er því niðurstaða dómsins að stefnda hafi ekki tekist sönnun þess í máli þessu að tjón það er hann varð fyrir vegna þess að hann sagði upp umræddum verksamningum megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnanda og er því kröfum stefnda um skaðabætur úr hendi stefnanda hafnað.
Fullyrðingar sem fram koma í uppsagnarbréfi stefnda um frammistöðu stefnanda í starfi eru ekki þess eðlis, hvorki að framsetningu né innihaldi, að það geti varðað stefnda miskabótum. Uppsagnarbréf þetta var afhent stefnanda og ekki er fram komið að stefndi hafi upplýst aðra um efni þess. Er því hafnað kröfu stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda.
Það er því niðurstaða dómsins að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti í sex mánuði, en stefndi hefur ekki mótmælt útreikningi launakröfunnar. Verða kröfur stefnanda því teknar til greina með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndi skal sýkn af kröfu stefnanda um miskabætur.
Í ljósi þessarar niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndi Otislyftur ehf. greiði stefnanda, Ingvari Unnsteini Skúlasyni, 2.742.687 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 73.761 krónu frá 1. júní 2001 til 1. júlí 2001, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 454.861 krónu frá þeim degi til 1. ágúst 2001, af 835.961 krónu frá þeim degi til 1. september 2001, af 1.217.061 krónu frá þeim degi til 1. október 2001, af 1.598.161 krónu frá þeim degi til 1. nóvember 2001, af 1.979.261 krónu frá þeim degi til 1. desember 2001, af 2.360.361 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002 en af 2.742.687 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 í málskostnað.