Hæstiréttur íslands
Mál nr. 547/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. júlí 2016, þar sem meðal annars var hafnað kröfu sóknaraðila um fjárnám hjá varnaraðila fyrir nánar tilgreindri skuld. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem í raun er um að ræða ágreining sem reis við framkvæmd aðfarargerðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms ,,verði felldur úr gildi að öllu leyti“ og að tekin verði til greina krafa sín um að fjárnám verði gert í tilgreindum ökutækjum auk þess sem sér verði „veitt heimild til vörslusviptingar á tækjunum í kjölfar fjárnámsins“. Þá krefst hann „málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnaðila með álagi og Ólafur Karl Ólafsson hdl. umboðsmaður hans verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar in solidum með umbjóðanda sínum, sbr. m.a. 4. mgr. 131. gr. eml. nr. 91/1991, sbr. einnig 1.-3. mgr. sömu greinar“.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eftir að máli þessu var skotið til Hæstaréttar lést Sigurður Jónsson og tók dánarbú hans við aðild málsins.
Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði, en þar greinir að aðfararheimild hafi ekki verið lögð fram í héraði. Aðfararheimild í máli þessu er héraðsdómur 5. október 2015, sem er meðal málsgagna fyrir Hæstarétti. Með dóminum var varnaraðili dæmdur til að greiða Sigurði Jónssyni 3.500.000 krónur auk vaxta og málskostnaðar og mátti sóknaraðili því krefjast aðfarar hjá honum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989. Í endurriti úr gerðabók sýslumannsins á Suðurlandi 9. febrúar 2016 kom fram að sóknaraðili hafi krafist þess að gert yrði fjárnám í tilgreindum ökutækjum sem hann taldi vera í eigu varnaraðila.
Fjárnám verður að meginreglu aðeins gert í eignum gerðarþola, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er skráning eignarhalds að bifreiðum og öðrum skráningarskyldum ökutækjum í ökutækjaskrá í reynd ígildi þinglýstrar eignarheimildar. Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili, sem krafist var fjárnáms hjá, ekki skráður eigandi ofangreindra ökutækja þegar beiðni sóknaraðila um aðför var tekin fyrir hjá sýslumanni og hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi sönnur á að raunverulegt eignarhald tækjanna sé hjá varnaraðila. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfum sóknaraðila því staðfest.
Ekki eru efni til þess að verða við kröfu sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila á grundvelli 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en eftir atvikum verður málskostnaður í héraði felldur niður.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að málskostnaður í héraði fellur niður.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. júlí 2016
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. júní 2016, barst dóminum 18. febrúar 2016 og var málið þingfest 16. mars 2016.
Gerðarbeiðandi er Sigurður Jónsson, kt. [...], Hólavangi 9e, Hellu, en gerðarþoli er Gottlieb G. Konráðsson, kt. [...], Burstabrekku, Hellu.
Kröfur gerðarbeiðanda eru að ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að hafna fjárnámi í YM-670 hengivagni og dráttarvélinni MY-493 Landini Legent verði felld úr gildi og sýslumanni verði gert að samþykkja að fjárnám verði gert í framangreindum tækjum. Jafnframt verði gerðarbeiðanda veitt heimild til vörslusviptingar á tækjunum í kjölfar fjárnámsins, auk þess að gerðarþola verði gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað að skaðlausu.
Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og að gerðarbeiðanda verði gert að greiða gerðarþola málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krefst gerðarþoli þess að verði ekki fallist á kröfur hans þá verði kveðið á um það að málskot fresti frekari fullnustuaðgerðum.
Málavextir
Þann 9. febrúar 2016 var tekið fyrir hjá Sýslumanninum á Suðurlandi aðfarargerð nr. 2015-001686, þar sem aðilar þessa dómsmáls voru gerðarbeiðandi og gerðarþoli. Lögð var fram aðfararbeiðni og dómur, en dómurinn hefur ekki verið lagður fram í dómsmáli þessu.
Í endurriti úr gerðabók sýslumanns kemur fram að gerðarbeiðandi krefjist fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð kr. 4.552.219, sem nánar er sundurliðuð í endurritinu og í aðfararbeiðninni, en endurrit hennar hefur verið lagt fram í málinu. Þá kemur fram í endurritinu úr gerðabók að gerðarþoli hafi ekki verið mættur en af hálfu gerðarbeiðanda hafi verið farið fram á að fjárnám yrði gert í lausafénu „YM-670, HENGIVAGN ökutækinu MY-493, LANDINI LEGEND“. Jafnframt er bókað að gerðarbeiðandi óski þess að sýslumaður veiti heimild til vörslusviptingar í kjölfar fjárnámsins.
Þá er bókað í endurritinu úr gerðabók að ekki verði séð að gerðarþoli, Gottlieb, sé skráður eigandi umræddra ökutækja heldur sé skráður eigandi Karl Rúnar Ólafsson, kt. 060157-5889. Gerðarbeiðandi vísi til þess að Karl Rúnar sé í raun leppur fyrir Gottlieb og það komi m.a. fram í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 5. október 2015 þar sem þeir Karl Rúnar og Bjarni Jón Matthíasson lýsi því yfir að þeir hafi verið skráðir eigendur umræddra ökutækja að beiðni gerðarþola, Gottliebs. Þá vísi gerðarbeiðandi jafnframt til þess sem fram komi í bréfi til sýslumanns 13. janúar 2016.
Þá segir í endurritinu að sýslumaður hafni beiðni gerðarbeiðanda um fjárnám hjá gerðarþola m.a. með vísan til þess að gerðarþoli sé ekki skráður eigandi þeirra eigna sem gerðarbeiðandi bendi á og skilyrði 3. gr. aðfararlaga því ekki uppfyllt. Er í lokin vakin athygli á heimild gerðarbeiðanda til að bera afgreiðsluna undir héraðsdóm.
Fram hefur verið lögð útprentun úr ökutækjaskrá þar sem fram kemur að gerðarþoli hafi keypt hengivagninn YM670 þann 10. október 2013, en Bjarni Jón Matthíasson hafi keypt hann 14. október 2013 og svo hafi Karl Rúnar Ólafsson keypt hann 25. október 2013. Er Karl Rúnar sagður eigandi en umráðandi gerðarþoli.
Þá hefur verið lagt fram afrit af reikningi gerðarþola til Fjallasýnar Rúnars Óskarssonar ehf., dags. 19. janúar og að því er virðist 2016, fyrir Landini MY493, að fjárhæð kr. 5.952.000 með virðisaukaskatti, ásamt afriti af tilkynningu um eigendaskipti, dags. 19. janúar 2016, þar sem gerðarþoli er tilgreindur seljandi og Fjallasyn Rúnars Óskarssonar ehf. tilgreint kaupandi. Jafnframt fylgir afrit af kaupsamningi og afsali, dags. 19. janúar 2016, þar sem gerðarþoli selur og afsalar Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. dráttarvélina Landini MY-493 fyrir kr. 5.952.000.
Þá hefur verið lagður fram kaupsamningur og afsal Landini dráttarvélarinnar MY-493, dags. 15. desember 2015, þar sem gerðarþoli selur og afsalar Karli R. Ólafssyni dráttarvélina fyrir skipti á bifreiðinni LND-91 og kr. 600.000 í peningum.
Einnig hefur verið lagt fram afrit af kaupsamningi og afsali, dags. 10.18.[sic.].2013, þar sem gerðarbeiðandi selur og afsalar gerðarþola bæði þau tæki sem aðfararbeiðni beinist að, fyrir kr. 3.500.000 sem greiðast skuli eigi síðar en 1. ágúst 2015.
Ennfremur hafa verið lögð fram 3 afrit af tilkynningum um eigendaskipti á tækinu YM670, sem ýmist er titlað sturtuvagn eða hengivagn, fyrst þar sem gerðarbeiðandi selur gerðarþola tækið 10. október 2013 og næst þar sem gerðarþoli selur Bjarna Matthíassyni tækið 14. október 2013 og loks þar sem Bjarni Matthíasson selur Karli R. Ólafssyni tækið þann 25. október 2013.
Gerðarbeiðandi kveður að umrædd tæki séu í raun og veru eign gerðarþola, en aðrir menn séu skráðir eigendur þeirra til málamynda. Um þetta hefur gerðarbeiðandi einkum vísað til dóms Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-191/2014, auk þess að hafa við munnlegan flutning málsins vísað til ýmissa atriði sem hann kveður hafa komið fram í þeim dómi og aðalmeðferð þess máls. Gerðarbeiðandi kveður að í umræddu dómsmáli hafi komið fram hjá Karli Rúnari og Bjarna Jóni að þeir væru aðeins skráðir fyrir tækjunum til málamynda, en þeir ættu þau ekki og raunverulegur eigandi væri gerðarþoli. Dómur þessi hefur ekki verið lagður fram í málinu.
Í greinargerð gerðarþola segir að gerðarbeiðandi hafi selt gerðarþola umrædd tæki, sem hafi svo selt þau til Bjarna Matthíassonar sem hafi svo selt þau til Karls Rúnars Ólafssonar. Hafi gerðarbeiðandi höfðað umrætt dómsmál nr. E-191/2014 til ógildingar á tilkynningum um eigendaskipti og krafist viðurkenningar á því að hann væri enn eigandi tækjanna. Hafi hann krafist þess að fá tækin afhent og að fá viðurkennt tjón sem hann hafi orðið fyrir. Hafi Bjarni Jón og Karl Rúnar verið sýknaðir af kröfum gerðarbeiðanda og talið að ekkert hafi komið fram í málinu sem benti til þess að viðskiptin með tækin hafi verið með óeðlilegum hætti.
Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda
Gerðarbeiðandi kveður að umþrætt tæki séu eign gerðarþola og kveðst vísa um það m.a. til 36. og 37. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Kveður að það liggi fyrir með vafalausum hætti að tækin séu til málamynda skráð á Karl Rúnar Ólafsson, en gerðarþoli sé hinn raunverulegi eigandi.
Þetta hafi sýslumaður fallist á að vita, en samt hafnað því að gera fjárnám í tækjunum og hafi ekki viljað boða Karl Rúnar til gerðarinnar.
Liggi skýrt fyrir að ógjaldfær gerðarþoli hafi sagst hafa keypt tæki YM-670 og MY-493 af gerðarbeiðanda þann 10. ágúst 2013 en hafi ekki enn greitt neitt til gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi sé að reyna að innheimta andvirði tækjanna en gerðarþoli ekki viljað greiða og sé ekki skráður fyrir neinum eignum og sé ógjaldfær, en sé samt eigandi tækjanna.
Málið sé í eðli sínu mjög einfalt. Fyrir liggi að gerðarþoli eigi tækin, en Karl Rúnar sé skráður fyrir þeim sem leppur til málamynda fyrir gerðarþola sem sé eignalaus og hafi ekki viljað hafa tækin á sínu nafni og skrái þau á vini sína án þess að nein viðskipti hafi farið fram.
Aðfararheimildin sé dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-191/2014 þar sem fram hafi komið að Karl Rúnar og Bjarni Jón væru ekki eigendur tækjanna, heldur væri gerðarþoli eigandinn og vísar gerðarbeiðandi til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að dómur hafi fullt sönnunargildi um málsatvik, sbr. einnig 1. – 3. mgr. 116. gr. sömu laga.
Þegar aðfararbeiðnin hafi verið send til sýslumanns þann 22. október 2015 hafi gerðarbeiðandi farið fram á það að Karl Rúnar Ólafsson yrði jafnframt boðaður til gerðarinnar sem málamyndaaðili, en sýslumaður ekki orði við því og hafi gerðarbeiðandi því sent Karli Rúnari boðun um þetta og hefur verið lögð fram áskorun gerðarbeiðanda í símskeyti til Karls Rúnars um að mæta við gerðina.
Ákvörðun sýslumanns geti ekki verið rétt og sé ófært að héraðsdómur fallist á hana og aðstoði þannig ógjaldfæran gerðarþola við að komast upp með að greiða ekki skuld sína með ólögmætum málamyndagerningum og komast upp með það þótt allir viðurkenni að gerðarþoli eigi tækin. Þá sé rétt að hafa í huga að þetta séu virðisaukaskattskyld tæki og beri því að gefa út reikninga við raunveruleg eigendaskipti og það sé Sýslumaðurinn á Suðurlandi sem sé eftirlitsaðili fyrir hönd ríkisins um þetta. Þrátt fyrir alla vitneskju embættismannsins í málinu sé embættið aðgerðarlaust og bregðist hlutverki sínu.
Þá vísar gerðarbeiðandi til 92. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 14. kafla laganna.
Málsástæður og lagarök gerðarþola
Gerðarþoli vísar til þess að hann hafi selt umrædd tæki til Bjarna Matthíassonar sem hafi selt þau til Karls Rúnars Ólafssonar eins og að ofan hefur verið rakið. Ekkert hafi komið fram um að viðskipti þessi hafi verið með óeðlilegum hætti og hafi því gerðarþoli, sem og Bjarni og Karl verið sýknaðir af kröfum gerðarbeiðanda í framangreindu dómsmáli.
Kveður gerðarþoli að umræddur dómur hafi ekkert sönnunargildi um að eignarhald á tækjunum sé á annan veg en opinber gögn beri með sér og sé öllum slíkum málatilbúnaði hafnað sem ósönnum og órökstuddum.
Gerðarþoli bendir á að hann njóti samningsfrelsis og hafi stjórnarskrárvarinn rétt til atvinnu og sé því heimilt að ráðstafa eigum sínum eftir sinni hentisemi. Hvernig gerðarþoli ráðstafi eigum sínum sé hans einkamál og komi gerðarbeiðanda ekki við.
Gerðarþoli vísar til þess að í endurriti sýslumanns komi fram að fjárnámsbeiðni gerðarbeiðanda uppfylli ekki skilyrði 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og kveður gerðarþoli að í þeirri lagagrein komi fram meginregla um að aðfarar megi krefjast hjá þeim sem skylda hvíli á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Þetta nái einnig til þeirra sem hafi tekið á sig sjálfsskuldarábyrgð á efndum skuldbindinga og þeirra sem eigi verðmæti til tryggingar kröfu. Kveður gerðarþoli að ekkert af þessum skilyrðum séu fyrir hendi í málinu, enda hafi sýslumaður hafnað kröfu gerðarbeiðanda með vísun til skilyrða 3. gr. laganna. Fjárnámsbeiðninni sé beint að gerðarþola, þó þannig að krafist sé fjárnáms í eigum annars ótengds aðila, í tækjum sem ekki séu í eigu gerðarþola. Telji gerðarbeiðandi sig eiga kröfu til fjárnáms í umræddum tækjum þá verið hann að beina slíkri kröfu til Karls Rúnars, en Karl Rúnar sé lögmætur eigandi tækjanna og hafi hvorki tekið á sig sjálfsskuldarábyrgð gagnvart gerðarþola né gerðarbeiðanda, né lagt þessi tæki til tryggingar á nokkurri kröfu gerðarbeiðanda. Málarekstur gerðarbeiðanda sé þannig algerlega þarflaus og án tilefnis og geti engum árangri skilað. Gerðarþoli vísar til opinberra skráninga á tækjunum sem hafi verið lögð fram í málinu og þar komi fram að tækin séu skráð á Karl Rúnar og það sé sú skráning sem ráði því hvort fjárnám verði gert í þeim eða ekki. Öll framlögð gögn um eigendaskipti tækjanna séu lögleg og rétt útfyllt og hafi þar af leiðandi full réttaráhrif um það hver sé lögmætur eigandi tækjanna og vísar jafnframt til dóms Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-191/2014 um þetta, en eins og áður segir hafa aðilar málsins ekki lagt fram nefndan dóm.
Um lagarök vísar gerðarþoli til aðfararlaga nr. 90/1989, en um málsmeðferðina einkum til 15. kafla laganna. Um frestun frekari fullnustugerðar meðan málskot stendur vísar gerðarþoli til 2. mgr. 95. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Forsendur og niðurstaða
Í 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segir að aðfarar megi krefjast hjá þeim, sem skylda hvíli á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Þetta nái einnig til þeirra, sem hafa tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldbindingar skv. skuldabréfum, víxlum og tékkum eins og nánar er lýst í 7. og 8. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, sem og til þeirra sem eiga verðmæti, sem standa að veði til tryggingar kröfu skv. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. skuldabréfum, ef áskilnaði þessara ákvæða gagnvart aðalskuldara er einnig fullnægt gagnvart þeim.
Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir að aðfarar megi einnig krefjast hjá öðrum en þeim, sem skylda hvílir á skv. 1. mgr., ef hann hefur tekið á sig ábyrgð á efndum aðfararhæfrar skuldbindingar samkvæmt fyrirmælum laga eða slík ábyrgð hvílir sjálfkrafa á honum lögum samkvæmt.
Í máli þessu hagar svo til að aðfararheimildin sjálf hefur ekki verið lögð fram, þ.e. dómur Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-191/2014, en lög standa ekki til þess að dómurinn afli gagna til framlagningar í málinu og byggi niðurstöðu á þeim, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar í málinu nr. 158/2010.
Í málinu er óumdeilt að umrædd tæki, sem gerðarbeiðandi hefur krafist fjárnáms í, eru ekki skráð eign gerðarþola. Liggur þvert á móti fyrir að tækin eru bæði skráð eign annars manns í opinberri skráningu og hafa verið lögð fram gögn um eigendaskipti og yfirfærslu eignarréttar að tækjunum.
Gerðarbeiðandi byggir mál sitt á því að hin opinbera skráning á umræddum tækjum sé einungis málamyndagerningur og efnislega röng og sé gerðarþoli hinn raunverulegi eigandi tækjanna. Þessu hefur gerðarþoli mótmælt sem ósönnuðu og órökstuddu. Verður að fallast á það með gerðarþola, en ekkert liggur fyrir um þetta í málinu annað en fullyrðingar gerðarbeiðanda.
Samkvæmt framansögðu er ekki unnt að byggja á því við úrlausn málsins að gerðarþoli sé eigandi umræddra tækja eða að eignarhald á tækjunum sé annað en það sem fram kemur í opinberri skráningu og þeim gögnum sem fram hafa verið lögð um yfirfærslu eignarréttar að tækjunum. Verður því fjárnám ekki heimilað á þeim grundvelli að gerðarþoli sé eigandi tækjanna.
Að ofan eru rakin þau skilyrði 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 sem þarf að uppfylla til að unnt sé að gera aðför hjá öðrum en þeim sem skylda hvílir á samkvæmt hljóðan aðfararheimildar. Ekki liggur fyrir að neitt þessara skilyrða sé uppfyllt í málinu, en þess er jafnframt að geta að ekki hefur verið gerð krafa í málinu um að fjárnám verði gert hjá skráðum eiganda umræddra tækja. Verður því ekki fjárnám heimilað á þeim grundvelli að skráður eigandi tækjanna beri ábyrgð gagnvart gerðarbeiðanda á þann hátt sem lýst er í 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Verður því öllum kröfum gerðarbeiðanda hafnað í málinu.
Rétt er að gerðarbeiðandi greiði gerðarþola málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn kr. 500.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfum gerðarbeiðanda, Sigurðar Jónssonar, er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola, Gottlieb G. Konráðssyni, kr. 500.000 í málskostnað.