Hæstiréttur íslands
Mál nr. 335/2001
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsagnarfrestur
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2002. |
|
Nr. 335/2001. |
Þór Friðriksson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Jökli ehf. (Árni Pálsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur.
Þ skrifaði undir ráðningarsamning við J í apríl 1999. Í samningnum sagði m.a. að uppsagnarfrestur væri 12 mánuðir og miðaðist við mánaðarmót. Með bréfi, dags. 25. júlí 1999, sagði J þessum samningi upp frá og með 1. ágúst 1999 og átti uppsögnin að taka gildi 1. ágúst 2000 í samræmi við uppsagnarákvæði samningsins. Nýr samningur var gerður þann sama dag og uppsögnin fór fram, þ.e. 25. júlí 1999. Var sá samningur efnislega samhljóða fyrri samningi að öðru leyti en því að uppsagnarfrestur var styttur úr 12 í 6 mánuði. Í samningnum var ákvæði um að hann skyldi taka gildi „frá og með 1.8.2000“. Þ taldi uppsögnina ólögmæta, þar sem J hefði ekki getað sagt Þ upp með 6 mánaða uppsagnarfresti fyrr en eftir að síðari samningurinn tók gildi, og sótti J til greiðslu launa. Var talið að líta yrði svo á að síðari samningurinn hefði tekið formlega gildi við undirritun hans, þrátt fyrir að í honum væri tilgreint að hann tæki gildi „frá og með 1.8.2000“, eða ári eftir undirritun. Með gerð hins nýja samnings hefði því verið kominn á nýr uppsagnarfrestur milli aðila. Var J sýknaður af kröfum Þ í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2001 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.039.080 krónur, en til vara 1.004.310 krónur, með dráttarvöxtum frá 1. desember 2000 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem greint er í héraðsdómi gerðu aðilar með sér nýjan ráðningarsamning 25. júlí 1999, um leið og hinum fyrra samningi var sagt upp. Uppsagnarákvæði fyrra samningsins var þar breytt úr 12 mánuðum í 6 mánuði. Verður að líta svo á að síðari samningurinn hafi tekið formlega gildi við undirritun hans, þrátt fyrir það að í honum sé tilgreint að hann taki gildi „frá og með 1. 8. 2000“, eða ári síðar. Með gerð hins nýja samnings var því kominn á nýr uppsagnarfrestur milli aðila. Með þessari athugasemd ber að staðfesta héraðsdóm, með vísan til forsendna hans að öðru leyti.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þór Friðriksson, greiði stefnda, Jökli ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. júlí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. júní s.l., hefur Þór Friðriksson, kt. 240664-2169, Tjarnarholti 1, Raufarhöfn, höfðað hér fyrir dómi gegn Jökli ehf., kt. 521297-2639, Aðalbraut 4-6, Raufarhöfn, með stefnu birtri 29. desember 2000.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi Jökull ehf. greiði stefnanda kr. 1.322.040,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 1. desember 2000 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu og að tillit verði tekið til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Við aðalflutning málsins breytti stefnandi kröfugerð sinni á þann hátt að þess er aðallega krafist að stefndi greiði stefnanda kr. 1.039.080,- en til vara að stefndi greiði stefnanda kr. 1.004.310,-
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæðin verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefnandi kveður málavexti þá að hann hafi skrifað undir ráðningarsamning við stefnda Jökul hf. þann 15. apríl 1999. Í ráðningarsamningnum segi m.a. að hann taki gildi 1. maí 1999 og uppsagnarfrestur sé 12 mánuðir og miðist við mánaðamót. Með bréfi dags. 25. júlí 1999 hafi stefndi sagt þessum samningi upp frá og með 1. ágúst 1999. Í því uppsagnarbréfi segi m.a.: ,,Réttindi og skyldur samningsins falla þar af leiðandi niður frá og með 1. ágúst árið 2000.” Þann sama dag, 25. júlí 1999, hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur milli stefnanda og stefnda. Í þeim ráðningarsamningi sé tekið fram að hann taki gildi þann 1. ágúst 2000 og uppsagnarfrestur sé 6 mánuðir og miðist við mánaðamót. Með bréfi dags. 27. apríl 2000 hafi framkvæmdastjóri stefnda tilkynnt stefnanda að honum væri sagt upp störfum af þar til greindum ástæðum með 6 mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfi þessu segi að endingu eftirfarandi: ,,Réttindi og skyldur þínar fallar þar af leiðandi niður frá og með 1. nóvember 2000.” Þann sama dag hafi stefnandi látið af störfum í samræmi við ákvæði uppsagnarbréfsins og einarðan vilja stefnda, enda hafi stefnandi álitið á þeim tíma að uppsögnin væri lögmæt. Stefnandi hafi verið mjög ósáttur við að vera látinn hætta störfum og leitaði til lögmanns varðandi réttarstöðu sína. Lögmaður hans hafi skrifað bréf til stefnda þann 16. nóvember 2000 sem lögmaður stefnda hafi svarað með bréfi dags. 1. desember 2000. Stefnandi hafi engan veginn verið sáttur við þau svör sem þar komi fram og telji rétt á sér brotinn og því sé mál þetta höfðað.
Stefndi lýsir málavöxtum svo að á árinu 1998 hafi viðræður milli Útgerðarfélags Akureyringa hf. og hreppsnefndar Raufarhafnarhrepps um hugsanleg kaup Útgerðarfélags Akureyringa hf. og Burðaráss hf. á hlutabréfum Raufarhafnarhrepps í Jökli hf. hafist. Stefnandi hafi verið í stjórn Jökuls hf. og í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps á þessum tíma og tekið þátt í viðræðunum um sölu á hlutabréfunum. Viðræður þessar hafi staðið með hléum þar til að tilboð var gert í hlutabréf Raufarhafnarhrepps í byrjun apríl 1999 og hreppsnefnd muni hafa samþykkt á fundi 12. apríl 1999 að ganga til viðræðna við fyrrgreinda aðila um sölu á hlutabréfum hreppsins í Jökli hf. Þessum viðræðum hafi lokið með því að gert var formlegt tilboð 25. maí 1999 sem undirritað var fimm hreppsnefndarmönnum með fyrirvara um samþykki hreppsnefndar sem virðist síðan hafa samþykkt tilboðið 2. júní 1999.
Stefndi bendir á að gerðir hafi verið ráðningarsamningar við nokkra starfsmenn Jökuls hf. sem voru fastráðnir hjá félaginu í september og við stefnanda í október 1996. Einungis hafi einum ráðningarsamningi verið breytt og það hafi verið samningur stefnanda. Við hann hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur sem var mjög ólíkur þeim fyrri. Samið hafi verið um föst laun sem stefnandi hafi ekki haft áður og uppsagnarfrestur 12 mánuðir í stað þriggja áður. Ráðningarsamningurinn hafi átt að taka gildi 1. maí 1999. Þeim samningi hafi síðan verið sagt upp 25. júlí 1999 og nýr samningur gerður sama dag og eina breytingin sú að uppsagnarfrestur var 6 mánuðir. Við árshlutauppgjör sem gert hafi verið vegna sölu á hlutabréfunum hafi þessi breytti ráðningarsamningur ekki verið kynntur löggiltum endurskoðanda Jökuls hf. og ekki verið meðal þeirra samninga sem lágu fyrir í apríl 1999 þegar endurskoðandinn kynnti sér þá ráðningarsamninga sem þá voru til hjá félaginu.
Stefndi segir Jökull hf. hafa verið sameinað Útgerðarfélagi Akureyringa hf. frá 1. september 1999 og stefndi hafi tekið við réttindum og skyldum Jökuls hf. frá þeim tíma.
Stefnandi kveðst byggja mál sitt á því að stefndi hafi rift ráðningu við sig með ótímabærri uppsögn. Beri sér þar af leiðandi a.m.k. réttur til launa þann tíma sem eftir var af lögmætum uppsagnarfresti.
Stefnandi áréttar það að í uppsagnarbréfi stefnda frá 25. júlí 1999 komi fram að gildistími ráðningarsamnings stefnanda sé til 1. ágúst 2000. Hinn nýi ráðningarsamningur aðila hafi eðlilega tekið gildi frá og með þeim tíma að fyrri ráðningarsamningurinn var á enda, en hann innihélt 6 mánaða uppsagnarfrest. Hafi stefndi viljað segja stefnanda upp störfum hafi stefndi fyrst geta gert það 6 mánuðum eftir að hinn nýi ráðningarsamingur tók gildi. Þeim ráðningarsamning varð ekki sagt upp fyrr en hann tók gildi, sem var þann 1. ágúst 2000 eða um leið og eldri ráðningarsamingurinn rann út. Stefndandi segir stefnda á hinn bóginn hafa legið slíkt á að segja stefnanda upp, að hann hafi greinilega ekki mátt vera að því bíða þess að hinn nýi ráðningarsamningur tæki gildi, sem mælti fyrir um styttri uppsagnarfrest, áður en stefnanda var sagt upp. Uppsögn stefnanda hafi því verið ólögmæt.
Stefnandi bendir á að þar sem gamla ráðningarsamningnum hafi þurft að segja upp fyrir mánaðamót, hafi uppsögnin í raun ekki tekið gildi fyrr en þann 1. september 2000 og hafi talist í 6 mánuði þaðan í frá, þannig að ráðning stefnanda hefði lokið síðasta dag febrúarmánaðar.
Stefnandi hafi bent á það í bréfi dags. 16. nóvember 2000 að í raun væri hægt að halda því fram með fullum rökum, að þar sem stefnandi hafi verið látinn hætta störfum þann 1. nóvember 2000, hafi ráðningu hans verið rift þann dag af hálfu fyrirtækisins með ólögmætum hætti, sem leiði til þess að hann eigi laun í uppsagnarfresti í 6 mánuði vegna riftunarinnar, eins og þar sé rökstutt nánar. Ekki sé þó gerð krafa um laun í 6 mánaða uppsagnarfrest, heldur eingöngu fjóra mánuði.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á almennum reglum samningaréttar um að samningar skuli standa, ,,pacta sunt servanda”, og réttaráhrifum riftunar að lögum. Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 15. gr. Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísist til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Stefndi byggir á því að ráðningarsamningurinn hafi aldrei haft gildi að lögum. Hann sé ólögmætur frá upphafi og því telji stefndi að stefnandi geti ekki byggt kröfur sínar á þeim samningi. Lögð hafa verið fram ljósrit úr fundargerðabók Jökuls hf. Samkvæmt þeim virðist það aldrei hafa verið rætt í stjórn félagsins að breyta ráðningarsamningi við stefnanda, hvað þá að það hafi legið fyrir samþykki stjórnar til að gera þær breytingar á ráðningarsamningnum sem gerðar voru. Það liggi því í augum uppi að framkvæmdastjóri Jökuls hafi ekki haft heimild til að breyta ráðningarsamningnum. Í bréfi fyrrverandi stjórnarformanns Jökuls hf. segi að stefnandi hafa verið sá síðasti af þeim starfsmönnum Jökuls hf., sem verið hafi á tímalaunum og ekki undir eftirliti annarra um þessa tímaskráningu, sem gerður var við fastlaunasamningur. Einnig komi þar fram að stefnandi hafi hvort sem er verið með tæplega kr. 300.000 á mánuði í laun fyrstu þrjá mánuði ársins 1999. Stefndi segir báðar þessar fullyrðingar rangar. Því liggi ekki fyrir nein haldbær skýring á því hvers vegna gerð var grundvallarbreyting á starfskjörum stefnanda, að því er ætla má í apríl 1999.
Stefndi bendir á, eins og áður hefur verið rakið, að stefnandi hafi verið í stjórn Jökuls hf. og í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps þegar ráðningarsamningurinn var gerður. Þrátt fyrir bréf fyrrverandi stjórnarformanns Jökuls verði ekki séð að framkvæmdastjóri félagsins hafi getað gert þann samning sem gerður var án samþykkis stjórnar félagsins. Stjórnarformaðurinn virðist hafa haft nokkur afskipti af gerð samningsins við stefnda, sem sé mjög óeðlilegt þegar um er að ræða stjórnarmann í félaginu og samherja hans í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps. Þetta breyti því ekki að samningur sem þessi geti ekki fallið undir þær heimildir sem framkvæmdastjóri hafi samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Hér hafi ekki verið um að ræða venjulegan ráðningarsamning heldur samning sem hafi tryggt stjórnarmanni í Jökli hf. launakjör sem voru langt umfram það sem kjarasamningar geri ráð fyrir. Ráðningarsamningurinn sé dagsettur 15. apríl 1999, en hafi átt að gilda frá 1. maí eða eftir að stefndi sem hreppsnefndarmaður hafði samþykkt að selja hlutabréf Raufarhafnarhrepps í Jökli hf. Stefndi kveður framkvæmd samningsins einnig með þeim hætti að það bendi til þess að hann hafi verið gerður síðar en dagsetning hans segi til um. Þegar litið sé til þeirrar aðstöðu sem stefnandi hafi verið í þegar samningurinn á að hafa verið gerður sýnist eðlilegt að líta svo á að samningurinn hafi verið ógildur frá upphafi, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi tekur fram að í 72. gr. laga nr. 2/1995 sé regla sem kveði á um það að stjórnarmanni í félagi sé óheimilt að taka þátt í meðferð máls ef það varðar samning við hann sjálfan. Í lokamálsgrein þessa ákvæðis segi að stjórnarmanni og framkvæmdastjóra sé skylt að upplýsa um slíkt atvik. Það liggi fyrir að það hafi ekki verið gert í þessu tilviki því ráðningarsamningurinn hafi ekki verið kynntur fyrir endurskoðanda félagsins þegar hann endurskoðaði reikninga þess vegna árshlutauppgjörs og ekkert sé að finna í fundargerðarbók stjórnar Jökuls hf. um að þessi samningur hafi verið kynntur eða samþykktur í stjórn félagsins. Stefndi líti því svo á að ráðningarsamningurinn hafi verið ógildur frá upphafi og því geti stefnandi ekki borið hann fyrir sig.
Stefndi kveður forsvarsmönnum Útgerðarfélags Akureyringa hf. hafa orðið kunnugt um ráðningarsamninginn við stefnanda í júlí 1999 eftir að fulltrúar félagsins höfðu tekið sæti í stjórn Jökuls hf. Þegar í stað hafi framkvæmdastjóra Jökuls hf. verið falið að gera nýjan ráðningarsamning við stefnanda þar sem uppsagnarákvæði samningsins væri í samræmi við réttindi stefnanda samkvæmt kjarasamningi og í samræmi við það sem almennt gilti hjá félaginu. Framkvæmdastjórinn hafi gert nýjan ráðningarsamning með 6 mánaða uppsagnarfresti en gildistaka samningsins sé miðuð við 1. ágúst 2000. Þetta virðist hafa verið byggt á því að samkvæmt fyrri ráðningarsamningnum hafi verið 12 mánaða uppsagnarfrestur. Áður hefur verið gerð grein fyrir því að þetta ákvæði samningsins hafi ekkert gildi að lögum og því líti stefndi svo á að ráðningarsamningurinn hefði tekið gildi frá og með undirritun hans og hafi tryggt stefnanda sex mánaða uppsagnarfrest. Þeim samningi hafi síðan verið sagt upp þar sem stefndi hafði skömmu áður hætt allri útgerð og því ekki talin þörf á því að hafa sérstakan mann sem viðhaldsstjóra.
Stefndi segir stefnandi ekki hafa mótmælt uppsögninni og hann hafi hætt störfum 1. nóvember 2000. Fyrirsvarsmenn stefnda hafi því talið að stefnandi hefði ekkert við uppsögnina að athuga. Lögmaður stefnanda hafi síðan skrifað stefnda bréf og gert kröfu um laun í fjóra mánuði sem byggði á því að ráðningarsamningurinn hafi verið í gildi. Því bréfi hafi verið svarað með bréfi dagsettu 1. desember og kröfu stefnanda mótmælt en honum boðið að vinna hjá stefnda þann tíma sem hann taldi sig eiga eftir af uppsagnarfresti sínum. Því boði hafi ekki verið tekið. Stefndi kveður þá reglu hafa verið talda gilda í vinnurétti að þótt ráðningarsamningi sé sagt upp þá breytist ekki efni samningsins á uppsagnarfrestinum og báðum aðilum samningsins beri að efna hann samkvæmt efni sínu. Stefndi hafi boðið þegar fram efndir af sinni hálfu með því að bjóða stefnanda að gegna starfi sínu þar til að uppsagnarfrestur hans væri liðinn að hans mati. Með því að hafna því að vinna út uppsagnarfrestinn sem stefnandi hafi talið sig eiga þá hafi hann fyrirgert hugsanlegum rétti sínum til launa og því beri að sýkna stefnda.
Stefndi krefst þess til vara að krafa stefnanda verði lækkuð. Hann kveðst byggja það á því að krafist sé launa í fjóra mánuði. Þó svo að skilningur stefnanda á gildi ráðningarsamninga stefnanda við stefnda verði lagður til grundvallar þá virðist stefnandi ekki eiga kröfu til að fá laun í fjóra mánuði í viðbót við þá sem hann hefur unnið á uppsagnarfrestinum og fengið greidda. Ágreiningslaust sé að stefnanda hafi verið sagt upp störfum með bréfi dagsettu 27. apríl 2000. Miðað við skilning stefnanda hafi uppsagnarfresturinn aldrei getað hafist síðar en 1. ágúst 2000. Samkvæmt því beri stefnda ekki að greiða laun lengur en í þrjá mánuði því að ekki virðist ágreiningur um það að stefnandi hafi haft sex mánaða uppsagnarfrest. Samkvæmt þessu beri að lækka kröfu stefnanda sem nemur einum mánaðarlaunum auk orlofs á þau.
Stefndi tekur fram að ef ekki verði fallist á að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna þess að hann neitaði að vinna á þeim uppsagnarfresti sem hann taldi sig eiga þá er þess krafist að þau laun sem stefnandi hafði hugsanlega hjá öðrum komi til frádráttar kröfu hans á hendur stefnda.
Skýrslur fyrir dómi gáfu, auk stefnanda, Reynir Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður Jökuls hf., Ásbjörn Ólafur Ásbjörnsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Jökuls hf., Björn Steindór Haraldsson, endurskoðandi, Jóhann Magnús Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Jökuls hf., Gunnlaugur Þór Júlíusson, fyrrverandi sveitarstjóri á Raufarhöfn, Guðrún Margrét Vilhelmsdóttir, framkvæmdastjóri Jökuls ehf. og Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa.
Óumdeilt er í málinu að fyrri ráðningarsamningi stefnanda við stefnda var sagt upp 25. júlí 1999 og átti uppsögnin að taka gildi 1. ágúst 2000 í samræmi við uppsagnarákvæði samningsins. Sá samningur var að fullu efndur af báðum aðilum og því eigi þörf á að fjalla um gildi hans í máli þessu þar sem ágreiningurinn snýst um uppsögn síðari samningsins sem gerður var sama dag og uppsögn hins fyrri fór fram, þ.e. 25. júlí 1999. Af gögnum málsins má ráða að tilgangur síðari ráðningarsamningsins hafi verið að stytta uppsagnarfrest fyrri ráðningarsamningsins úr 12 mánuðum í 6 mánuði.
Samningur sá sem aðilar undirrituðu 25. júlí 1999 var efnislega samhljóða fyrri samningi að öðru leyti en því að uppsagnarfrestur var styttur úr 12 í 6 mánuði. Í samningnum er ákvæði um að hann skuli taka gildi við lok fyrri samnings. Þykir eðlilegt að túlka það ákvæði svo að átt sé við hvenær efndir samningsins skyldu hefjast, en samkvæmt almennum reglum samningsréttar tók samningurinn gildi við undirritun hans. Ákvæði samningsins um 6 mánaða uppsagnarfrest er eigi tímasett þannig að uppsögn samkvæmt samningnum gat farið fram hvenær sem var samkvæmt efni hans og bar aðilum eigi að bíða með uppsögn þar til efndir samningsins skyldu hefjast. Óumdeilt er að samningnum var sagt upp þann 27. apríl 2000 með 6 mánaða fyrirvara og lauk samningssambandinu samkvæmt því hinn 31. október 2000. Óumdeilt er að aðilar samningsins efndu báðir samninginn að fullu til þess tíma og verða því frekari kröfur eigi á honum reistar. Verður stefndi samkvæmt framansögðu sýknað af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Jökull ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Þórs Friðrikssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.