Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-337

Ís og ævintýri ehf. (Ólafur Björnsson lögmaður)
gegn
Bjarna Maríusi Jónssyni og Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur (Þórður Bogason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lóðarleigusamningur
  • Forleiguréttur
  • Eignarréttur
  • Dagsektir
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Gréta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 28. nóvember 2019 leitar Ís og ævintýri ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 691/2018: Ís og ævintýri ehf. gegn Bjarna Maríusi Jónssyni og Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bjarni Maríus og Þóra Guðrún leggjast gegn beiðninni.

Gagnaðilar höfðuðu mál þetta á hendur leyfisbeiðanda og kröfðust þess að honum yrði gert að fjarlægja svefnskála af þinglýstri jörð þeirra að viðlögðum dagsektum og greiðslu fyrir vangoldna leigu vegna ársins 2015. Leyfisbeiðandi hafði haft lóðina á leigu frá árinu 2001 en leigutíminn rann út 31. desember 2015. Samkvæmt lóðarleigusamningi átti leyfisbeiðandi forleigurétt að hinni leigðu lóð að leigutíma loknum. Samningurinn var ekki endurnýjaður meðal annars vegna ágreinings um landamerki og leigufjárhæð. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína um sýknu einkum á því að gagnaðilar séu ekki eigendur lóðarinnar. Þá vísar hann til þess að gagnaðilar geti ekki einhliða ákveðið nýja leigufjárhæð en samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús og húsaleigulaga nr. 36/1994 skuli miða við almennt markaðsverð. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur gagnaðila. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um skyldu leyfisbeiðanda til að fjarlægja svefnskála af umræddri lóð en sýknaði hann af kröfu um vangoldna leigu fyrir árið 2015. Vísaði Landsréttur meðal annars til þess að í lóðarleigusamningnum væri ekki kveðið á um að hendur leigusala væru bundnar með þeim hætti sem leyfisbeiðandi hélt fram, auk þess sem fyrrnefnd lög tækju ekki til samningssambands aðila. Gegn þinglýstum eignarheimildum gagnaðila yfir lóðinni hefði leyfisbeiðanda ekki tekist að sýna fram á að þau skorti heimild til að hafa uppi fyrrnefndar kröfur í málinu. Þar sem leyfisbeiðandi hefði kosið að nýta ekki forleigurétt sinn hefði réttur til áframhaldandi leigu fallið niður.

Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu einkum á sviði eignaréttar og réttarfars auk þess sem málið varði sérstaklega mikilsverða hagsmuni sína. Þá telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til þar sem hann byggi á rangri lagatúlkun á meginreglum eignaréttar, reglum um forleigurétt og skilyrði útburðargerðar. Loks hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til allra málsástæðna leyfisbeiðanda og að verulega skorti á rökstuðning dómsins um eignarhald gagnaðila að umræddri landspildu. Af þessum sökum fullnægi dómurinn ekki skilyrðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 og því beri að ómerkja hann.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.