Hæstiréttur íslands

Mál nr. 629/2015

Hildur Eiríksdóttir og Sigurður Guðjónsson (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
gegn
Björk Sigurðardóttur (Hilmar Magnússon hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Uppgjör
  • Gagnkrafa
  • Skuldajöfnuður
  • Fyrning

Reifun

H og S höfðuðu mál til heimtu ætlaðrar skuldar B við þau vegna greiðslna sem þau inntu af hendi á árunum 2006 til 2012 meðan deilt var um eignarhald tiltekinnar fasteignar. Með hliðsjón af tildrögum þess að H og S hefðu verið skráðir eigendur fasteignarinnar umrætt tímabil og að eignarhaldið hefði aðeins verið til málamynda var talið að miða bæri rof fyrningarfrests krafna þeirra við höfðun málsins árið 2014. Þá var talið að gagnkröfur B væru tækar til skuldajafnaðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og að þær næmu hærri fjárhæð en ófyrnd krafa H og S. Var B því sýknuð af kröfu H og S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. september 2015. Þau krefjast þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.962.976 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, aðallega frá 22. mars 2013 til greiðsludags, en til vara frá 25. september 2014 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefjast þau þess að aðilar beri hvor um sig sinn hluta málskostnaðar í héraði en að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 1. desember 2015. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hún verði sýknuð af kröfum aðaláfrýjenda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rót að rekja til áralangra deilna málsaðila um eignarhald fasteignarinnar Neðri-Þverár í Húnaþingi vestra. Í dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2011 í máli nr. 453/2010, sem höfðað var af hálfu gagnáfrýjanda til útgáfu afsals fyrir fasteigninni úr hendi aðaláfrýjenda, kom fram að gagnáfrýjandi hafi gert Íbúðalánasjóði tilboð í eignina 15. september 2003 og samningur um kaupin komist á. Hún hafi hins vegar samþykkt að aðaláfrýjendur, sem eru foreldrar hennar, yrðu skráðir kaupendur eignarinnar í sinn stað, en þau myndu síðar afsala eigninni til hennar. Með kaupsamningi 12. desember 2003 hafi Íbúðalánasjóður selt aðaláfrýjendum eignina. Gagnáfrýjandi hafi annast allar greiðslur vegna kaupanna og kostnað vegna fasteignarinnar fram á haustið 2006. Þá hafi komið upp ósætti milli málsaðila og hafi aðaláfrýjendur greitt eftir það af fasteignaveðláni og gjöld sem fallið hafi til vegna eignarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sannað væri að kaupsamningur um  fasteignina hafi verið gerður í nafni aðaláfrýjenda til málamynda. Aftur á móti væri að líta til þess að í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup fælist að skriflegt form væri gildisskilyrði kaupsamnings um fasteign og jafnvel þótt gagnáfrýjanda tækist að sanna að munnlegt samkomulag hafi verið milli hennar og aðaláfrýjenda um að hún fengi síðar frá þeim afsal til sín fyrir eigninni myndi samkomulagið ekki uppfylla tilgreint formskilyrði. Voru því aðaláfrýjendur sýknuð af kröfu gagnáfrýjanda.

Með dómi Hæstaréttar 19. desember 2012 í máli nr. 308/2012, sem staðfesti dóm héraðsdóms, var gagnáfrýjandi talin hafa fært sönnur á að hún hafi verið hinn raunverulegi kaupandi fasteignarinnar og að aðaláfrýjendur hafi til málamynda verið tilgreindir sem kaupendur í kaupsamningi um eignina í desember 2003. Var því með dóminum viðurkenndur beinn eignarréttur hennar að fasteigninni og aðaláfrýjendur dæmdir til greiðslu 600.000 króna málskostnaðar í Hæstarétti, en í héraði höfðu þau verið dæmd til greiðslu 650.000 króna í málskostnað. Aðaláfrýjendur greiddu ekki málskostnaðinn og krafðist gagnáfrýjandi fjárnáms hjá aðaláfrýjendum fyrir honum. Með dómi Hæstaréttar 2. apríl 2014 í máli nr. 174/2014 var staðfestur úrskurður héraðsdóms 19. febrúar 2014, þar sem fjallað var um gildi aðfarargerðarinnar og aðaláfrýjendum gert að greiða samtals 630.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti vegna málsins. Eins og rakið er í héraðsdómi lýsti gagnáfrýjandi kröfum í bú aðaláfrýjenda vegna dæmds málskostnaðar auk kostnaðar og dráttarvaxta til 15. október 2014, er bú aðaláfrýjenda voru tekin til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt kröfulýsingum 25. nóvember 2014 nam höfuðstóll annarrar kröfunnar ásamt dráttarvöxtum til 15. október 2014, 1.625.786 krónum, en höfuðstóll hinnar kröfunnar nam ásamt dráttarvöxtum til sama dags 676.121 krónu.

II

            Mál þetta hafa aðaláfrýjendur höfðað 19. september 2014 til greiðslu ætlaðrar skuldar gagnáfrýjanda við þau vegna greiðslna sem þau inntu af hendi meðan deilt var um eignarhald fasteignarinnar Neðri-Þverár. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu og óumdeilt er að aðaláfrýjendur hafa innt af hendi greiðslur vegna fasteignarinnar sem nema stefnufjárhæð á árunum 2006 til 2012.

Gagnáfrýjandi hefur krafist frávísunar málsins frá héraðsdómi, en að því frágengnu að dómurinn verði ómerktur. Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms 18. febrúar 2015 er staðfest niðurstaða dómsins um að engin efni séu til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Þá er krafa um ómerkingu héraðsdóms ekki studd haldbærum rökum og verður henni hafnað.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið um tildrög þess að aðaláfrýjendur voru skráðir sem eigendur fasteignarinnar Neðri-Þverár og að það eignarhald var samkvæmt áðurgreindum dómum Hæstaréttar 24. febrúar 2011 og 19. desember 2012 aðeins til málamynda, ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að miða beri rof fyrningarfrests krafna aðaláfrýjenda við höfðun máls þessa 19. september 2014. Nemur því ófyrnd krafa þeirra 994.198 krónum að höfuðstól.

Gagnáfrýjandi hefur í málinu uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar án kröfu til sjálfstæðs dóms fyrir þeim hluta krafna hans sem eftir stæðu að loknum skuldajöfnuði. Námu gagnkröfur þær sem héraðsdómur féllst á til skuldajafnaðar samtals 2.301.907 krónum. Fallist er á með héraðsdómi að kröfur þessar séu tækar til skuldajafnaðar við kröfu aðaláfrýjenda. Þar sem þessar gagnkröfur gagnáfrýjanda eru hærri en ófyrnd krafa aðaláfrýjenda og það jafnvel þótt bætt sé við dráttarvöxtum af ófyrndri kröfu þeirra frá 22. mars 2013 til 11. desember 2014, er kröfur gagnáfrýjanda komu fram í greinargerð hans til héraðsdóms, þarf ekki í ljósi framangreindrar kröfugerðar gagnáfrýjanda að taka afstöðu til annarra gagnkrafna til skuldajafnaðar. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjenda.

Í ljósi atvika málsins er rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2015

I

Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 19. september 2014 af Sigurði Guðjónssyni og Hildi Eiríksdóttur, báðum til heimilis að Háaleitisbraut 103, Reykjavík, á hendur Björk Sigurðardóttur, Hlyngerði 3, Reykjavík.

Af hálfu stefnenda er þess aðallega krafist að stefnda verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.962.976 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. mars 2013 til greiðsludags.         

Til vara er þess krafist að stefnda verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.962.976 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingu máls þessa til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru eftirfarandi:

„Um form: Að máli þessu verði vísað frá dómi. Um efni: Að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins og/eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.“

Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 18. febrúar sl., var aðalkröfu stefndu um frávísun málsins hafnað.

II

Stefnendur höfða mál þetta til greiðslu á ætlaðri skuld stefndu við þau sem þau kveða til komna vegna greiðslna sem þau hafi innt af hendi vegna fasteignarinnar Neðri-Þverár í Húnaþingi vestra en eignin sé í eigu stefndu. Nemi skuldin samtals stefnufjárhæð og er í stefnu að finna nánari sundurliðun á þeim greiðslum sem stefnendur krefja stefndu um endurgreiðslu á. Umræddar greiðslur voru inntar af hendi þegar aðilar þessa máls deildu um eignarhald framangreindrar fasteignar. Dómur um þann ágreining aðila var kveðinn upp 11. apríl 2012 í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-1191/2011 þar sem viðurkenndur var beinn eignarréttur stefndu í máli þessu á umræddri fasteign. Sú niðurstaða var staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 19. desember 2012 í málinu nr. 308/2012.

Óumdeilt er og ljóst af framlögðum gögnum að stefnendur hófu á haustmánuðum 2006 að greiða af fasteigninni svo sem rakið er í stefnu þannig:

 

Afb. láns Íbúðalánasjóðs nr. 410183, okt. 2006-des. 2012     1.095.739 kr.

Brunatrygging v. VÍS                                                                            116.517 kr.

Greiðslur til Rarik og Orkusölunnar                                     335.194 kr.

Greitt jarðarafgjald og lóðarleiga                                                           89.360 kr.

Greidd fasteignagjöld                                                                             318.566 kr.

Greitt vegna losunar rotþróar                                                                     7.300 kr.                                                                                                                                    Samtals   1.962.676 kr.   

 

Stefnendur gera nánari grein fyrir greiðslunum með eftirfarandi hætti:

  1. Greiðslur til Íbúðalánasjóðs vegna afborgana af veðskuldabréfi er hvílir á fasteigninni Neðri-Þverá samtals 1.095.739 krónur:
  1. tímabilið október – desember 2006: kr. 38.602
  2. tímabilið janúar – desember 2007: kr. 157.717
  3. tímabilið janúar – desember 2008: kr. 172.778
  4. tímabilið janúar – desember 2009: kr. 191.014
  5. tímabilið janúar – desember 2010: kr. 170.393
  6. tímabilið janúar – desember 2011: kr. 181.926
  7. tímabilið janúar – desember 2012: kr. 183.309

     

  1. Greiðslur til Vátryggingafélags Íslands hf. vegna brunatryggingar fasteignarinnar að Neðri-Þverá samtals 116.517 krónur: 
  1. tímabilið 2005 - 2006: kr. 30.755
  2. tímabilið 2011 - 2012: kr. 85.762

     

  1. Greiðslur til orkuveitna, Rarik og Orkusölunnar, vegna Neðri-Þverá samtals 335.194 krónur:
  1. fyrir árið 2011: kr. 113.090
  2. fyrir árið 2012: kr. 222.104

     

  1. Greiðslur til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, jarðarafgjalds og lóðarleigu vegna Neðri-Þverár samtals 89.360 krónur:
  1. fyrir árið 2007: kr. 11.659
  2. fyrir árið 2008: kr. 12.065
  3. fyrir árið 2009: kr. 15.595
  4. fyrir árið 2010: kr. 15.994
  5. fyrir árið 2011: kr. 16.118
  6. fyrir árið 2012: kr. 17.929

     

  1. Greiðslur til Húnaþings vestra, fasteignagjöld vegna Neðri-Þverár samtals 318.566 krónur:
  1. fyrir árið 2007: kr. 38.238
  2. fyrir árið 2008: kr. 41.911
  3. fyrir árið 2009: kr. 44.802
  4. fyrir árið 2010: kr. 63.528
  5. fyrir árið 2011: kr. 63.078
  6. fyrir árið 2012: kr. 67.009

     

  1. Yfirlit vegna losunar rotþróar Neðri-Þverá samtals 7.300 krónur.

 

Stefnendur kveða stefndu ekki hafa fengist til að semja um eða greiða umrædda skuld og sé þeim því nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu hennar.

Af hálfu stefndu er því lýst í greinargerð að hún hafi greitt allt kaupverð fasteignarinnar við kaupin 2003 og greitt af lánum og gjöldum vegna hennar frá öndverðu, auk þess sem hún hafi kostað dýrar endurbætur á húsinu. Stefnendur hafi hins vegar, upp á sitt eindæmi og í óþökk stefndu, tekið að greiða af eigninni haustið 2006. Stefnda mótmælir fullyrðingu stefnenda um að í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 308/2012 hafi ekki verið tekin afstaða til þess, hvort kaupverð hefði verið greitt, heldur komi þar fram að stefnda hafi innt af hendi kaupsamningsgreiðslur og öll gjöld og lánaafborganir frá kaupsamningsdegi til hausts 2006. Þá lýsir stefnda því í greinargerð sinni að stefnendur hafi blandað saman við þennan ágreining aðila deilum þeirra um hesthús í eigu stefndu. Stefnda áskilur sér rétt til þess að beita kröfum sínum vegna leigu stefnenda á hesthúsinu og vegna endurkröfu á kaupverði bifreiðarinnar MJ-760, auk kostnaðar, til skuldajafnaðar við kröfur stefnenda. Jafnframt kveðst stefnda munu krefjast skuldajafnaðar vegna innlagnar að fjárhæð 120.000 krónur á reikningi stefnanda Sigurðar.

III

Stefnendur vísa til þess að fasteignin Neðri-Þverá í Húnaþingi vestra sé í eigu stefndu en þegar stefnendur hafi greitt umræddar greiðslur vegna ýmiss kostnaðar í tengslum við fasteignina, hefðu aðilar staðið í deilum um það hver væri eigandi eignarinnar.

Með áðurgreindum dómum, annars vegar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. apríl 2012 í máli nr. 1191/2011 og hins vegar með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 19. desember 2012 í máli nr. 308/2012, hafi verið leyst úr ágreiningi aðila um eignarhaldið og eignarréttur stefndu yfir fasteigninni viðurkenndur. Hafi í dómi Hæstaréttar falist að það hafi verið ætlunin að stefnda yrði kaupandi að jörðinni en ekki stefnendur. Í dóminum hafi hins vegar ekki verið tekin afstaða til þess, hvort kaupverð umræddrar fasteignar hafi verið greitt eða hvort fjárhagslegt uppgjör vegna fasteignarinnar hafi farið fram á milli stefnenda máls þessa og stefndu. Í tengslum við rekstur framangreinds máls fyrir héraðsdómi, hafi stefnda gefið út eftirfarandi yfirlýsingu: „Stefnandi lýsir því yfir að nái dómkrafa fram að ganga muni hann ganga frá uppgjöri við stefndu vegna greiðslna sem þau hafa innt af hendi og tengjast fasteigninni, en stefndu hafa í óþökk stefnanda greitt af áhvílandi láni og gjöld af eigninni.“ Yfirlýsingin sé skilyrt loforð stefndu sem hún sé nú bundin af þar sem dómurinn féllst á  dómkröfur hennar. Samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttarins beri stefndu að efna skuldbindingar sínar á grundvelli umrædds loforðs.

Stefnendur byggja kröfur sínar jafnframt á meginreglu fasteignakauparéttar, sbr. lög nr. 40/2002, um fasteignakaup, um að kostnaðaruppgjör skuli fara fram milli aðila við lögskipti á fasteign. Kostnaðaruppgjör vegna lögskipta á fasteigninni Neðri-Þverá í Húnaþingi vestra, eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 308/2012, hafi ekki farið fram þrátt fyrir ítrekanir stefnenda. Með úrlausn Hæstaréttar hafi stofnast krafa stefnenda á hendur stefndu. Stefnufjárhæð máls þessa nemi útgjöldum vegna fasteignarinnar, sem stefnendur hafi greitt, en stefndu, sem eiganda fasteignarinnar, beri hins vegar að greiða þann kostnað. Stefnda hafi í engu sinnt áskorunum stefnenda um að ganga frá kostnaðaruppgjöri við þau vegna umræddrar skuldar.  

Stefnendur byggja dráttarvaxtakröfu sína í aðalkröfu á því að lýst hafi verið yfir skuldajöfnuði gagnvart stefndu hinn 22. febrúar 2013 en jafnframt á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Krafa stefnenda um málskostnað er byggð á ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum ákvæðum 129. og 130. gr. Um varnarþing vísa stefnendur til 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV

Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnendur séu ekki réttir aðilar að máli þessu. Þau hafi höfðað mál þetta áður en bú þeirra var tekið til gjaldþrotaskipta og þá hafi kröfurnar færst til búsins en skiptastjóri hafi ákveðið að halda ekki uppi hagsmunum sem búið kynni að njóta af málinu. Slíkt geti þrotamaður gert í eigin nafni en samkvæmt framlögðu umboði sé það gert í nafni þrotamanna. Þá geti þrotamenn ekki persónulega haldið uppi umræddum hagsmunum samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 þar sem lagaskilyrði skorti. Leiði hvort tveggja til þess að þau geti ekki verið réttir aðilar að málinu sem samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 leiði til sýknu.

Stefnda byggir í öðru lagi á því að kröfur stefnenda séu fyrndar að öllu leyti eða að hluta. Mál þetta sé höfðað með stefnu birtri 19. september 2014 og séu kröfur eldri en fjögurra ára frá höfðun málsins fyrndar samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 150/2007 og áður gildandi ákvæði 3. gr. laga nr. 14/1905, einkum 1. og 5. tl. Sé í lögunum kveðið á um að kröfur líkt og þær, sem hér séu hafðar uppi, fyrnist á fjórum árum frá því að þær urðu gjaldkræfar en krafa um endurgjald á því, sem maður hafi greitt í rangri ímynd um skuldbindingu, fyrnist á fjórum árum.

Stefnendur byggi á því að þau hafi greitt af eigninni í þeirri trú að þau væru eigendur hennar, sem hafi reynst rangt, en stefnendur hafi ekki gert reka að því að slíta fyrningu þessara krafna fyrr en með stefnu þessari. Fyrri yfirlýsing stefnenda um skuldajöfnuð hafi ekkert gildi í málinu þar sem hún hafi verið sett fram á grundvelli aðfararlaga og ekki náð fram að ganga samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands. Þá sé heldur ekki byggt á henni í málinu. Loks rjúfi slík yfirlýsing ekki fyrningu að lögum.

Stefnda byggir einnig á því að yfirlýsing hennar í stefnu, sem vísað sé til, feli ekki í sér viðurkenningu á kröfum stefnenda, líkt og komist var að í dómi Hæstaréttar nr. 174/2014, enda komi fram í stefnunni að stefnda hafi talið heimilt að höfða viðurkenningarmál, án þess að bjóða fram uppgjör. Geti ekki falist í orðum stefndu neitt greiðsluloforð, líkt og stefnendur haldi fram, og alls ekki varðandi ákveðnar kröfur. Á þeim tíma hefði einnig legið fyrir að stefnda hefði strax með bréfi, dagsettu 12. júlí 2007, lýst því yfir að greiðslur stefnenda væru í óþökk hennar, auk þess sem þar hafi verið áskilinn réttur til að krefjast greiðslu kostnaðar, féllu stefnendur ekki frá kröfum sínum varðandi ágreining um hesthús. Stefnendur hafi haldið fast við kröfur sínar sem stefnda hafi greitt og hafi stefnda frá öndverðu teflt fram kröfum sínum sem gangi á móti kröfum stefnenda að því marki sem þær kunni að verða viðurkenndar.

Þá byggir stefnda á því að stefnendur hafi sýnt af sér stórfellt tómlæti við að innheimta meintar kröfur sínar og leiði tómlætið til sýknu. Tæp tvö ár hafi liðið frá því að dómur Hæstaréttar Íslands um eignarrétt stefndu að Neðri-Þverá gekk þar til stefnendur gerðu reka að því að fá dóm um kröfur sínar. Vegna þess langa tíma sem stefnendur hefðu greitt af eigninni, hefði verið mikilvægt að ekki yrði beðið svo lengi með að höfða málið. Beri stefnendur ábyrgð á því.

Stefnda byggir jafnframt á því að stefnendur geti ekki fengið dóm um greiðslu sínar þar sem þau hafi innt þær af hendi í vondri trú í þeim tilgangi að ná ákveðinni niðurstöðu með ólögmætum hætti. Dómstólum verði ekki gert að veita ólögmætum gjörðum stefnenda lögvernd þannig að kröfur stefnenda verði gerðar aðfararhæfar gagnvart stefndu, sem mótmælt hafi frá upphafi hinum ólögmætu gerðum stefnenda. Beri stefnendur ein alla áhættu af þeim gerðum sínum. Stefnda byggir til vara í þessum lið á því að stefnendur geti ekki krafist greiðslu á þeim kröfum, sem greiddar hafi verið eftir 24. febrúar 2011 er dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 453/2010 var kveðinn upp og til þrautarvara frá 9. mars 2011 er stefnda höfðaði eignarréttarviðurkenningarmál það sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 308/2012.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 453/2010 hafi verið talið sannað að kaupsamningur um Neðri-Þverá hafi verið gerður í nafni stefnenda sem kaupenda í þeim tilgangi að greiða fyrir því að þau fengju greiddar brunabætur. Hins vegar hafi verið talið að formskilyrði laga nr. 40/2002 væru ekki uppfyllt til að geta fallist á kröfu stefndu. Hafi stefnda þá höfðað mál með stefnu birtri 9. mars 2011 og hefði verið fallist á kröfur hennar um að hún teldist eigandi Neðri-Þverár, m.a. með vísan til þess sem teldist sannað um lögskipti aðila í fyrri dómi Hæstaréttar frá febrúar 2011. Hafi stefnendur því verið grandsöm þegar þau héldu áfram að greiða af eigninni, enda hafi þeim ekki tekist að hrekja forsendur dómsins sem kveðinn var upp í febrúar 2011. Hafi stefnendum hlotið að vera ljóst að með áframhaldandi greiðslum af fasteigninni, sem einungis hafi verið inntar af hendi í þeim tilgangi að reyna að sölsa eignina undir sig með ólögmætum hætti, hafi þau ekki jafnframt getað átt endurkröfu á stefndu sem hefði löngu áður lýst því yfir að slíkt væri gert í óþökk hennar. Verði stefnda við svo búið ekki gerð ábyrg fyrir slíkri ólögmætri háttsemi stefnenda eða að minnsta kosti háttsemi, sem stefnendum hafi verið fullljóst að væru ekki með samþykki hennar. Þá áhættu og ábyrgð beri stefnendur ein.

Af framangreindu leiði að stefnendur geti hvorki innheimt fyrndar kröfur og fengið dóm um greiðslu þeirra, sem ná allt fram til 19. september 2010, né kröfum sem sannanlega hafi verið greiddar í vondri trú frá febrúar 2011 og raunar fyrr eða allt frá hausti 2006 þegar stefnendur hafi hafið tilraunir sínar til að svipta stefndu lögmætri eign sinni. Leiði hvort tveggja, saman eða sitt í hvoru lagi, til sýknu af öllum kröfum stefnenda.

Verði talið að framangreindar röksemdir nægi ekki til sýknu á öllum kröfum stefnenda eða hluta þeirra, telji stefnda að hún eigi gagnkröfur á hendur stefnendum sem séu mun hærri en kröfur stefnenda, að því marki sem þær teljist ekki fyrndar eða greiddar í grandsemi og sem séu tækar til skuldajafnaðar við kröfur stefnenda. Séu gagnkröfurnar settar fram í þremur liðum þannig að fyrst reyni á kröfur í A-lið og svo áfram, ef þurfi, þar til greiðslum á kröfum stefnenda sé náð, að því marki sem þær teljist viðurkenndar.

Skilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt hvað varðar aðild, efndatíma og að gagnkröfur séu samkynja aðalkröfu stefnenda. Gagnkröfur stefnda séu tækar til skuldajafnaðar og missi stefnda ekki þann rétt að því marki sem þær annars kynnu að vera fyrndar, enda séu kröfurnar ýmist af sömu rót runnar og kröfur stefnenda eða áskilinn hafi verið réttur til að krefja um greiðslur og skuldajafna þeim við kröfur stefnenda áður en fyrningarfrest þeirra þraut, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905, en þau lög eigi við í kröfuréttarsambandi aðilanna, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007.

Með bréfi, dagsettu 12. júlí 2007, hafi stefnda lýst yfir rétti sínum til að krefja um greiðslur vegna leigu á hesthúsi og kostnaði og láni varðandi bifreiðina MJ-760 áður en fyrningarfrestur þeirra krafna leið. Þá sé krafa vegna innlagnar á 120.000 krónum inn á reikning annars stefnenda í þeirra beggja þágu og kostnaður vegna þess að skipt var um skrár að Neðri-Þverá vegna aðgerða stefnenda, samrættar kröfum stefnenda í skilningi laga nr. 14/1905. Þess utan fyrnist þessar kröfur stefndu á hendur stefnendum á 10 árum.

Kröfum þessum hafi stefnda lýst í þrotabú stefnenda, en kröfur samkvæmt B- og C-liðum byggist á dómum Hæstaréttar og séu efalausar. Kröfur samkvæmt A-lið byggist á gagnkröfum sem stefnda hafi borið fram í málaferlum við stefnendur og áskilið sér rétt til að sækja þær á hendur stefnendum, eftir atvikum með skuldajöfnuði við meintar kröfur stefndu. Byggist þær að mestu á efalausum gögnum um greiðslur stefndu í þágu stefnenda sem ekki hafi fengist greiddar þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þess efnis.

  1. Kröfur samkvæmt kröfulýsingu í innheimtumáli nr. 9217-3

    Stefnda eigi verulegar kröfur á hendur stefnendum sem skuldajafna megi við kröfur þeirra. Í málaferlum þeim, sem staðið hafi á milli aðila, hafi stefnda áréttað kröfur sínar og lagt fram gögn þeim til staðfestingar. Hafi stefnendur hvorki mótmælt kröfunum né fjárhæðum þeirra.

    Bendi stefnda á, að stefnendur fari fram með kröfu sína, án tillits til fyrri yfirlýsingar um skuldajöfnuð sem fram komi í bréfi lögmanns stefnenda frá 22. febrúar 2013, og hafi því fallið frá skuldajöfnuði við kröfu stefndu sem fram komi í eftirfarandi B-lið. Að minnsta kosti sé ekki byggt á því í máli stefnenda og komi hann því ekki til frekari skoðunar gegn mótmælum stefndu. Af þeim sökum geti stefnda í fyrstu beitt kröfum samkvæmt þessum lið gegn kröfum stefnenda, enda hafi hún sjálfdæmi um það hvaða kröfur og í hvaða röð þeim sé beitt sem gagnkröfum gegn kröfum stefnenda þegar um fleiri en eina gagnkröfu sé að ræða.

    Með bréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnenda, dagsettu 25. febrúar 2013, hafi að nokkru verið gerð grein fyrir þeim kröfum, sem stefnda telji sig eiga á hendur stefnendum, auk þess sem áðurnefndum skuldajöfnuði hafi verið hafnað. Þá hafi lögmaður stefndu í fyrri bréfaskiptum og tölvuskeytum reifað umræddar kröfur. Varðandi dráttarvaxtakröfu við einstaka liði, taki stefnda fram að um sé að ræða vexti með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

    Umræddar gagnkröfur stefndu séu eftirtaldar:

  1. Peningar að fjárhæð 120.000 krónur sem stefndu hafi greitt inn á bankareikning stefnanda Sigurðar vegna greiðslumats beggja stefnenda hinn 2. desember 2003 en krafan sé samrætt kröfum stefnenda. Greiðslan hafi verið innt af hendi til þess að stefnendur stæðust greiðslumat svo sem þau hafi staðfest fyrir héraðsdómi ásamt því að hafa ekki endurgreitt þessa fjármuni. Hafi greiðslunnar m.a. verið getið í bréfi lögmanns stefndu frá 12. júlí 2007 og tölvupósti hinn 26. nóvember sama ár. Krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðinni frá 2. desember 2003 fram til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  2. Kostnaður við að skipta um skrár að Neðri-Þverá sem sé samrætt kröfum stefnenda. Með bréfi lögmanns stefnanda hinn 8. október 2008 hafi stefndu verið tilkynnt að skipt hefði verið um skrár og að til stæði að selja fasteignina Neðri-Þverá. Hafi stefnda strax brugðist við og ekið norður, ásamt eiginmanni sínum sem sé iðnaðarmaður að mennt, og skipt um skrár til að koma í veg fyrir að eignin yrði sýnd til sölu og til að komast inn í eignina þar sem voru eigur hennar og persónulegir munir. Hafi þessi tilkynning komið stefndu mjög á óvart, ekki síst fyrir þær sakir að stefnendur hafi stöðugt haldið því fram á þessum tíma að stefnda leigði eignina af stefnendum samkvæmt réttum og löglegum leigusamningi. Stefnda hafi hins vegar talið umræddan leigusamning vera til málamynda og hafi það verið staðfest með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands. Stefnda kveður kostnað við að skipta um skrá nema samtals 153.100 krónum, sem skiptist þannig að akstur nemi 50.600 krónum (440 km x 115), skrá 10.500 krónur og frátafir frá vinnu stefndu og eiginmanns hennar hinn 9. október 2008 nemi samtals 92.000 krónum. Krafist sé dráttarvaxta af 153.100 krónum frá 9. október 2008 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  3. Hestabifreiðin MJ-760. Áskilinn réttur til að krefja um greiðslu.

    Stefnda kveður kostnað samkvæmt þessum lið felast í láni vegna kaupa á bifreiðinni MJ760, gjöldum, sem stefnda hafi greitt af bifreiðinni, viðgerðarkostnaði o.fl., sem stefnda hafi greitt.

    Stefnda kveðst hafa lánað stefnendum 250.000 krónur til kaupa á framangreindri bifreið af Antoni Kjartanssyni en heildarkaupverð hennar hafi numið 500.000 krónum. Lánið hafi verið veitt í tvennu lagi með tveimur greiðslum stefndu til seljandans, annars vegar 100.000 krónum með millifærslu hinn 5. ágúst 2004 og hins vegar 100.000 krónum hinn 2. september 2004. Sama dag hafi stefnda greitt stefnendum 50.000 krónur í reiðufé en stefnendur hafi síðan notað fjárhæðina til að greiða seljanda bifreiðarinnar. Kvittun fyrir síðastnefndri greiðslu hafi ekki fundist. Stefnendur hafi selt bifreiðina og fengið allt söluverðið í sínar hendur. Krafist sé dráttarvaxta af 100.000 krónum frá 5. ágúst 2004 til 2. september 2004 en af 250.000 krónum frá þeim degi til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

    Þá kveðst stefnda hafa greitt ýmsan kostnað sem tengdist bifreið stefnenda, þ.m.t. vegna þungaskatts 16.225 krónur hinn 11. október 2004, 25.821 krónu hinn 8. apríl 2005 og tryggingar að fjárhæð 61.532 krónur hinn 5. september 2005. Greiðslur þessar nemi samtals 103.578 krónum og sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 5. september 2005 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað. Við tímamark dráttarvaxta sé horft til síðasta greidda reiknings.

    Stefnda kveðst hafa greitt fyrir varahluti fyrir stefnendur vegna viðhalds og viðgerða á umræddri bifreið, auk skoðunargjalda og annars smálegs samkvæmt framlögðum reikningum. Nemi greiðslan samtals 197.543 krónum. Hluti reikninganna séu skráðir á Keiluhöllina ehf., sem hafi verið í eigu stefndu, og hafi þeir verið færðir henni til skuldar hjá félaginu, enda hafi bifreiðin ekki verið skráð á félagið. Þá hafi stefnda greitt 200.000 krónur vegna vinnu við viðgerðir á bílnum, sem Elvar, þáverandi starfsmaður Keiluhallarinnar ehf., hefði unnið að en kennitala hans komi fram á sumum reikninganna þar sem hann hafi annast kaup á varahlutum. Samtals nemi greiðslur stefndu í þágu stefnenda samkvæmt þessum kröfulið 397.543 krónum og sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá útgáfudegi síðasta reikningsins 11. maí 2006 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  4. Básaleiga í hesthúsi og básamottur. Áskilinn réttur til að krefja um greiðslu.

    Með bréfi lögmanns stefnenda, dagsettu 12. júní 2007, hafi stefnda verið krafin um endurgreiðslu láns að upphæð 7.000.000 króna ásamt vöxtum vegna  hesthúss sem hún hafi keypt í júní 2005. Hefði stefnda mótmælt því að greiða vexti þar sem stefnendur hefðu haft endurgjaldslaus afnot af hesthúsinu og þá taldi stefnda sig hafa samið um að lánið skyldi endurgreitt án vaxta, sbr. bréf lögmanns stefndu, dagsett 12. júlí 2007. Stefnendur hafi hafnað því og því hefði stefnda greitt lánið með vöxtum svo og endurbætur sem stefnendur hefðu gert á hesthúsinu. Í bréfi lögmanns stefndu hafi verið áskilinn réttur til að krefja stefnendur um leigu á hesthúsinu, héldu stefnendur fast við vaxtakröfu sína, svo sem þau gerðu.

    Stefnendur hafi haft afnot af hesthúsinu frá miðju ári 2005 til ársloka 2006 og hafi haldið þar átta hesta. Leigugjald fyrir umrætt tímabil sé samtals 900.000 krónur en svo sem fram komi í tölvuskeyti lögmanns stefnenda hinn 3. desember 2007 hafi leigugjald á þessum tíma fyrir hverja stíu verið 40.000 krónur á mánuði. Sé krafa stefndu nokkuð lægri en viðmiðunarfjárhæð sú, sem fram komi hjá stefnendum sjálfum fyrir það tímabil sem stefnendur nýttu hesthús stefnda.

    Þá hafi stefnda orðið vör við að þegar stefnendur yfirgáfu hesthúsið í lok árs 2006, hafi þau tekið með sér 12 básamottur í eigu stefndu en andvirði hverrar mottu sé að mati stefndu 15.000 krónur. Tjón stefndu vegna þessara gerða stefnenda nemi samtals 180.000 krónum. Krafist sé dráttarvaxta af 1.080.000 krónum frá 31. desember 2006 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  5. Hjól

    Stefnda kveðst hafa lýst kröfu að fjárhæð 250.000 krónur í þrotabú stefnenda vegna barnafjórhjóls, sem stefnendur hafi haft að láni en hafi neitað að afhenda stefndu til baka, og sé því tjón stefndu jafnhátt andvirði þeirra. Umrætt hjól hafi stefnendur nýtt fyrir barnabörn sín en það sé í eigu stefndu.

    Þá hafi verið tvö reiðhjól af Dewalt-gerð á heimili stefnenda sem þau hafi neitað að afhenda stefndu eftir að ágreiningur milli þeirra kom upp. Börn stefndu hafi átt hjólin og notað þau þegar þau dvöldu hjá afa sínum og ömmu. Telji stefnda að verðmæti hjólanna sé samtals um 120.000 krónur.

    Sé krafist dráttarvaxta af 370.000 krónum frá 15. október 2014 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  6. Lögfræðikostnaður

    Stefnda kveðst einnig hafa lýst í þrotabú stefnenda lögfræðikostnaði, sem hún hafi orðið fyrir vegna gjörða stefnenda, en í gögnum málsins megi vel greina að henni hafi verið nauðsyn að leita sér verulegrar lögfræðiaðstoðar til gæslu hagsmuna sinna. Kostnaður vegna þessa sé hóflega áætlaður 350.000 krónur en kostnaðarreikningar lögmanns hennar séu mun hærri en varði einnig þau málaferli sem aðilar hafi staðið í.

    Af öllum framangreindum kröfum sé svo krafist skuldajafnaðar á innheimtukostnaði lögmanns, sbr. kröfulýsingu og bréf hans, dagsett 25. febrúar 2013, að fjárhæð 551.827 krónur, auk dráttarvaxta frá 15. október 2014 til þess tíma er skuldajöfnuður eigi sér stað.

  1. Kröfur samkvæmt kröfulýsingu í innheimtumáli nr. 9217-1

    Um sé að ræða dæmdan málskostnað í dómi Hæstaréttar og héraðsdóms, samtals að fjárhæð 1.250.000 krónur, auk dráttarvaxta frá gjalddögum dómkrafna og kostnaðar, þ.m.t. vegna töku bús stefnenda til gjaldþrotaskipta, til úrskurðardags þrotamanna hinn 15. október 2014 eða 2.687.340 krónur, sbr. framlagða kröfulýsingu. Stefnda áskilji sér rétt til dráttarvaxta af kröfunni fram til skuldajafnaðardags, auk áfallins kostnaðar, verði hann annar en fram komi í kröfulýsingu, reynist krafa samkvæmt A-lið ekki nægja til að greiða kröfu stefnenda sem standa kunni eftir.

  2. Kröfur samkvæmt kröfulýsingu í innheimtumáli nr. 9217-2

Um sé að ræða dæmdan málskostnað í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 174/2014, uppkveðnum 2. apríl 2014, að fjárhæð 250.000 krónur og samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. Y-10/2013, uppkveðnum 19. febrúar 2014, að fjárhæð 380.000 krónur. Samtals nemi höfuðstólskrafan 630.000 krónum, auk dráttarvaxta frá gjalddögum dómkrafna og kostnaðar til úrskurðardags þrotamanna hinn 15. október 2014, eða 821.055 krónum, sbr. framlagða kröfulýsingu. Áskilji stefnda sér rétt til dráttarvaxta af kröfunni fram til skuldajafnaðardags, auk áfallins kostnaðar, verði hann annar en fram komi í kröfulýsingu, reynist krafa samkvæmt A- og B-liðum ekki nægja til að greiða kröfu stefnenda sem kunni að standa eftir.

Stefnda mómælir dráttarvaxtakröfu stefnenda sérstaklega þar sem hún eigi ekki við rök að styðjast. Kröfurnar hafi verið greiddar í óþökk stefndu og við svo búið geti stefnendur ekki krafist dráttarvaxta af þeim nema frá dómsuppsögudegi, verði á einhvern hluta þeirra fallist, sbr. varakröfu stefnenda.

Stefnda vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um skýrleika loforða og lágmarksskilyrði sem þau þurfi að fullnægja. Þá vísar hún til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 16. gr. um aðildarskort, 28. gr. um gagnkröfur til skuldajafnaðar, 80. gr. um skýran og glöggan málflutning og 130. gr. um málskostnaðarkröfu. Jafnframt vísar stefnda til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 122. gr. og 130. gr., og um fyrningu fjárkrafna til laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

V

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi málsins, Sigurður Kristján Guðjónsson, og stefnda, Björk Sigurðardóttir. Þá gaf Elvar Harðarson, starfsmaður Keiluhallarinnar, vitnaskýrslu. Verða skýrslur þeirra raktar eins og þurfa þykir.

Fyrir liggur að úr ágreiningi málsaðila um eignarhald á fasteigninni Neðri-Þverá í Húnaþingi vestra var leyst með dómi Hæstaréttar Íslands 19. desember 2012 í máli réttarins nr. 308/2012. Var þá staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að viðurkenna beinan eignarrétt stefndu á framangreindri fasteign. Í máli þessu krefjast stefnendur þess að stefnda endurgreiði þeim greiðslur, sem stefnendur hafa innt af hendi vegna fasteignarinnar meðan ágreiningur stóð um eignarhald hennar. Ágreiningslaust er að stefnendur inntu af hendi þær greiðslur, sem þau gera nú kröfu um að stefnda endurgreiði þeim, og þá er ekki tölulegur ágreiningur í málinu.

Stefnendur byggja greiðsluskyldu stefndu m.a. á yfirlýsingu stefndu sem er að finna í stefnu hennar í máli nr. E-1191/2011 á hendur stefnendum, um að nái krafa hennar í málinu fram að ganga „muni [hún]ganga frá uppgjöri við stefndu vegna greiðslna, sem þau hafi innt af hendi og tengist fasteigninni, en stefndu hafi í óþökk stefnanda greitt af áhvílandi láni og gjöld af eigninni“. Um sé að ræða greiðsluloforð stefndu sem hún sé bundin af þar sem dómurinn hafi fallist á kröfu hennar um viðurkenningu á eignarhaldi hennar á umræddri fasteign. Þessu hefur stefnda mótmælt.

Þegar litið er til efnis yfirlýsingarinnar og þess að jafnframt er tiltekið í stefnunni að stefnda telji unnt að fallast á kröfu hennar í málinu, án þess að jafnframt sé boðið fram uppgjör, „enda sé það nokkuð flókið og umfangsmikið“ verður ekki ráðið að stefnda hafi viðurkennt tiltekna kröfu stefnenda. Var enda, á þeim tíma þegar yfirlýsingin var gefin, uppi ágreiningur um kröfur stefndu að þessu leyti. Þá er ljóst að stefnda byggir sýknukröfu sína í máli þessu m.a. á gagnkröfum til skuldajafnaðar. Verður því ekki fallist á það með stefnendum að í framangreindri yfirlýsingu stefndu hafi falist bindandi greiðsluloforð hennar á stefnukröfum máls þessa.

Stefnendur byggja dómkröfur sínar jafnframt á því að stefnufjárhæð máls þessa nemi útgjöldum þeirra vegna framangreindrar fasteignar sem stefndu, sem eiganda fasteignarinnar, beri að greiða. Stefnda hefur ekki mótmælt því að stefnendur hafi innt af hendi umræddar greiðslur og þá er óumdeilt að stefnda hefur ekki endurgreitt stefnendum greiðslurnar. Eins og áður er rakið er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum.

Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti með þeim rökum að stefnendur séu ekki réttir aðilar í máli þessu. Bú stefnenda hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta eftir að mál þetta var höfðað og hafi skiptastjóri búanna ákveðið að halda ekki uppi hagsmunum sem búin kynnu að njóta af málinu. Slíkt geti þrotamenn gert í eigin nafni en samkvæmt framlögðu umboði sé það gert í nafni þrotamanna en ekki af þeim persónulega. Þá geti þrotamenn persónulega ekki haldið uppi umræddum hagmunum samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Geti stefnendur því ekki verið réttir aðilar að málinu og leiði það til sýknu samkvæmt ákvæðum 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Fyrir liggur að mál þetta var höfðað 19. september 2014 en bú beggja stefnenda voru ekki tekin til gjaldþrotaskipta fyrr en með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 15. október sama ár. Í umboði, sem ritað er af skipuðum skiptastjóra í báðum þrotabúunum 17. október 2014, er vísað til þess að í gjaldþrotaskiptalögum komi fram að ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta, geti þrotamaður gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu. Síðan segir: „Í samræmi við framangreint og með vísan til 2. mgr. 130. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, veitir skiptastjóri hér með Sigurði Sigurjónssyni hrl. ... f.h. þrotamannanna Sigurðar Guðjónssonar og Hildar Eiríksdóttur, umboð til þess að reka fyrrgreint dómsmál gegn Björk Sigurðardóttur. Þrotamennirnir skulu sjálfir bera ábyrgð á öllum kostnaði og áhættu af aðgerðum sínum og hafa ekki heimild til að skuldbinda búið til greiðslu nokkurra fjármuna.“

Dómurinn hefur í úrskurði sínum 18. febrúar sl. komist að því að orðalag umboðsins verði ekki skilið öðruvísi en svo að með því hafi stefnendum sjálfum verið gefið umboð til þess að halda áfram málarekstri sínum, enda er þar sérstaklega vísað til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 þar sem er að finna heimild til þrotamannsins sjálfs til þess að halda uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta, ákveði skiptastjóri að gera það ekki. Hér er um að ræða málarekstur sem hafinn var áður en bú stefnenda voru tekin til gjaldþrotaskipta. Í framangreindum úrskurði var það einnig niðurstaða dómsins að ekki yrði fallist á það með stefndu að það væri skilyrði fyrir slíkri aðkomu þrotamanns að fyrst hefði verið auglýst eftir kröfum í búið og gengið úr skugga um hvort lánardrottnar hygðust gæta þeirra hagsmuna, sem um ræðir. Að þessu virtu teljast stefnendur vera réttir aðilar að málinu og er málsástæðu stefndu um aðildarskort því hafnað.

Stefnda byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnendur hafi sýnt af sér stórfellt tómlæti við innheimtu krafna sinna. Ljóst er að tæp tvö ár liðu frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar 19. desember 2012 og þar til mál þetta var höfðað 19. september 2014. Hins vegar liggur einnig fyrir að í upphafi árs 2013 krafðist stefnda aðfarar hjá stefnendum vegna ógreidds og tildæmds málskostnaðar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2012 í máli nr. E-1191/2011 og framangreindum dómi Hæstaréttar 19. desember sama ár í málinu nr. 308/2012. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að lögmaður stefnenda sendi stefndu bréf 22. febrúar 2013 þar sem krafist var greiðslu á 1.962.976 krónum, auk vaxta, dráttarvaxta og innheimtuþóknunar lögmanns. Er það sama fjárhæð og krafist er greiðslu á í þessu máli. Var í bréfinu jafnframt lýst yfir skuldajöfnuði við kröfu stefndu og tekið fram að yrði ekki samkomulag um skuldajöfnuðinn, myndu stefnendur krefjast þess að fá fjallað um skuldajafnaðarkröfuna við umfjöllun um aðfararbeiðni hjá sýslumanni, svo sem gert var. Sýslumaður tók ákvörðun um að stöðva umbeðna gerð og lýsti henni lokið 15. apríl 2013 en stefnda krafðist í kjölfarið úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá ákvörðun 7. júní 2013. Með úrskurði dómsins 2. apríl 2014 var framangreind ákvörðun sýslumanns felld úr gildi.

   Í ljósi þessara atvika er það niðurstaða dómsins að ekki verði fallist á það með stefndu að stefnendur hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við að hafa uppi kröfur sínar í málinu að það varði þau réttindamissi sem leiði til sýknu stefndu. 

Stefnda byggir sýknukröfu sína einnig á því að kröfur stefnenda séu fyrndar, að öllu leyti eða að hluta. Að þessu leyti beri að miða fyrningarfrestinn við höfðun máls þessa 19. september 2014 og séu því allar kröfur stefnenda, sem séu eldri en fjögurra ára frá því tímamarki, fyrndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og áður gildandi ákvæðum 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 1. og 5. tl. lagagreinarinnar. Af hálfu stefnenda er málsástæðu stefndu um fyrningu hafnað og vísað til þess að í raun hafi þau fyrst átt endurkröfu á hendur stefndu við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands um eignarhald stefndu á umræddri fasteign 19. desember 2012. Því eigi sjónarmið um fyrningu ekki við í málinu.

Í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 2012 kemur fram sú niðurstaða réttarins að stefnda í þessu máli hafi verið raunverulegur kaupandi fasteignarinnar að Neðri-Þverá og að stefnendur hafi til málamynda verið tilgreindir sem kaupendur í kaupsamningi um eignina í desember 2003. Svo virðist sem stefnda hafi greitt kaupverð eignarinnar og þær greiðslur og afborganir, sem þurfti að greiða vegna hennar, fram til hausts 2006 þegar til ágreinings kom milli málsaðila. Ekkert er komið fram um að stefnendur hafi gert athugasemdir við greiðslur stefndu að þessu leyti fram til þess tíma. Eins og áður er rakið og staðfest er með framlögðum gögnum, hafa stefnendur frá þeim tíma og fram til ársins 2012 innt af hendi tilgreindar afborganir af Íbúðalánasjóðsláni, fasteignagjöld, greiðslur vegna brunatryggingar, orkukaupa, jarðarafgjalds og lóðarleigu, auk einnar greiðslu vegna losunar rotþróar.

Með vísan bæði til ákvæða 3. gr. núgildandi laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og 3. gr. áðurgildandi laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, telst fyrningarfrestur dómkrafna stefnenda vera fjögur ár. Fallast verður á það með stefndu að miða beri fyrningu við það tímamark, þegar stefnendur höfðuðu mál þetta til endurgreiðslu þeirra greiðslna sem þau inntu af hendi vegna eignar stefndu. Eins og áður er getið var mál þetta höfðað 19. september 2014 og teljast því fyrndar umstefndar greiðslur sem stefnendur inntu af hendi vegna fasteignarinnar að Neðri-Þverá sem gjaldkræfar voru fyrir 19. september 2010. Teljast því ófyrndar dómkröfur stefnenda vegna afborgana af láni Íbúðalánasjóðs nr. 410183 að fjárhæð 409.108 krónur, vegna greiðslu á iðgjöldum vegna brunatryggingar hjá Vátryggingafélagi Íslands að fjárhæð 85.762 krónur, vegna greiðslna orkureikninga frá RARIK og Orkusölunni að fjárhæð 335.194 krónur, vegna greiðslu jarðarafgjalda og lóðarleigu að fjárhæð 34.047 krónur og vegna greiðslu fasteignagjalda að fjárhæð 130.087 krónur. Krafa stefnenda um greiðslu vegna losunar rotþróar frá 2006 telst fyrnd. Nemur ófyrnd dómkrafa stefnenda því að höfuðsól samtals 994.198 krónum.

Dómkrafa stefnenda lýtur að útgjöldum vegna fasteignarinnar sem óumdeilt er að stefnendur hafa greitt svo sem gögn bera með sér. Stefnda er eigandi fasteignarinnar frá upphafi og er óumdeilt að hún hefur ekki endurgreitt stefnendum þær fjárhæðir. Eiga stefnendur því kröfu á hendur stefndu til endurgreiðslu þess hluta dómkröfunnar sem samkvæmt framangreindu telst ófyrndur.  

Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til þess að stefnendur voru, á þeim tíma þegar þau inntu umræddar greiðslur af hendi, afsalshafar umræddrar fasteignar verður ekki fallist á það með stefndu að áðurrakin sjónarmið hennar um vonda trú stefnenda eða ólögmæta háttsemi þeirra leiði til réttindamissis þeirra síðarnefndu í málinu sem leiði til sýknu stefndu af kröfum stefnenda. 

Til stuðnings sýknukröfu sinni teflir stefnda loks fram gagnkröfum sínum til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda. Byggir stefnda á því að gagnkröfurnar séu mun hærri en kröfur stefnenda og uppfylli skilyrði skuldajafnaðar. Við munnlegan málflutning við aðalmeðferð málsins mótmælti lögmaður stefnenda skuldajafnaðarkröfum stefndu sem fyrndum og ódæmdum kröfum, auk þess sem þær hefðu ekkert með mál þetta að gera. Þá vísaði hann til þess að gagnkröfur stefndu samkvæmt B- og C-lið kröfugerðar hennar séu þær sömu og hún hafi þegar lýst í þrotabú stefnenda en skiptastjóri búanna hafi enn ekki tekið afstöðu til. Beri því að taka afstöðu til þeirra krafna á vettvangi þrotabúanna en ekki í þessu máli.

Hér að framan er rakin sú niðurstaða dómsins að orðalag umboðs skiptastjóra í þrotabúum stefnenda til þeirra verði ekki skilið öðruvísi en svo að með því hafi stefnendum sjálfum verið gefið umboð til þess að halda áfram málarekstri sínum, þótt bú þeirra hefðu verið tekin til gjaldþrotaskipta eftir að málið var höfðað. Stefnda teflir í þessu máli fram gagnkröfum sínum til skuldajafnaðar til grundvallar kröfu sinni um sýknu af þeim kröfum sem stefnendur teljast samkvæmt áðurgreindum rökstuðningi hafa verið heimilt að sækja í máli þessu. Verður að fallast á það með stefndu að henni sé heimil slík kröfugerð til að verjast framangreindum kröfum stefnenda.

Þá verður ekki fallist á það með stefnendum að gagnkrafa stefndu sé ekki réttilega gerð í greinargerð hennar, enda er framsetning kröfunnar með tíðkanlegum hætti og verður hún ekki talin brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Loks verður ekki fallist á það með stefnendum að hafna beri gagnkröfum stefndu þegar af þeirri ástæðu að þær séu fyrndar. Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 1. gr. áðurgildandi laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, og 26. gr. núgildandi laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, felur fyrning kröfu ekki í sér að kröfuhafi missi rétt til skuldajafnaðar ef kröfurnar eru af sömu rót runnar og aðalkrafan hefur stofnast áður en gagnkrafan fyrndist. Eru skilyrði ákvæðanna uppfyllt í þessu máli. 

Stefnda gerir í greinargerð sinni grein fyrir gagnkröfum sínum. Rétt þykir að fyrst verði litið til dæmdra krafna hennar um málskostnað sem getið er í kröfuliðum B og C í greinargerð. Í kröfulið B er um að ræða kröfu um málskostnað, sem stefnendur voru dæmd til að greiða stefndu, annars vegar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2012 í málinu nr. E-119/2011 að fjárhæð 650.000 krónur og hins vegar með dómi Hæstaréttar Íslands 19. desember 2012 í máli réttarins nr. 308/2012 að fjárhæð 600.000 krónur. Var með þessum dómum leyst úr ágreiningi aðila máls þessa um eignarhald á fasteigninni Neðri-Þverá. Stefnda krefst dráttarvaxta af framangreindum fjárhæðum frá gjalddögum þeirra til töku búa stefnenda til gjaldþrotaskipta 15. október 2014. Samkvæmt framlagðri kröfulýsingu nam gagnkrafan ásamt dráttarvöxtum á þeim degi 1.625.786 krónum. Í kröfulið C er um að ræða dæmdan málskostnað í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 174/2014, uppkveðnum 2. apríl 2014, að fjárhæð 250.000 krónur og samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. Y-10/2013, uppkveðnum 19. febrúar 2014, að fjárhæð 380.000 krónur. Var í þessum dómsniðurstöðum leyst úr ágreiningi aðila vegna aðfarargerðar í kjölfar kröfu stefndu í máli þessu um aðför hjá stefnendum vegna tildæmds en ógreidds málskostnaðar samkvæmt fyrrgreindum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands er lutu að ágreiningi aðila um eignarhald á fasteigninni Neðri-Þverá. Samkvæmt framlagðri kröfulýsingu nam gagnkrafan ásamt dráttarvöxtum fram til þess að bú stefnenda voru tekin til gjaldþrotaskipta 15. október 2014 samtals 676.121 krónu.

Fallist er á með stefndu að gagnkröfur þessar séu tækar til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda. Nema þær hærri fjárhæð en ófyrndar dómkröfur stefnenda samkvæmt framansögðu ásamt dráttarvöxtum frá því að mánuður var liðinn frá því að kröfur þær, sem síðar urðu stefnukröfur málsins, voru fyrst kynntar stefndu með bréfi lögmanns stefnenda, dagsettu 22. febrúar 2013. Stefnda teflir fram gagnkröfunum til grundvallar sýknukröfu sinni en ekki til sjálfstæðs dóms. Að þessu virtu verður, þegar af þessari ástæðu, að sýkna stefndu af dómkröfum stefnenda. Í ljósi þeirrar niðurstöðu koma aðrar gagnkröfur stefndu því ekki til frekari skoðunar í málinu.

Eftir niðurstöðu málsins og meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnendum gert að greiða óskipt stefndu málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 650.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefnda, Björk Sigurðardóttir, er sýkn af öllum kröfum stefnenda, Sigurðar Guðjónssonar og Hildar Eiríksdóttur, í máli þessu.

Stefnendur greiði óskipt stefndu 650.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.