Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2000
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsagnarfrestur
- Laun
- Aflahlutur
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2001. |
|
Nr. 326/2000. |
Róbert Pálsson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Þormóði ramma-Sæbergi hf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur. Laun. Aflahlutur.
R var yfirvélstjóri á rækjubát sem Þ gerði út. Var ráðning hans ekki bundin við ákveðinn tíma. Honum var sagt upp störfum þar sem ákveðið hafði verið að hætta rekstri skipsins og tekið fram að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. Skömmu eftir uppsögnina var skipinu lagt og ekki krafist frekara vinnuframlags af R, en hann fékk greidda kauptryggingu út uppsagnartímannn. Jafnframt fékk hann greiðslu fyrir þrjá róðra sem hann fór á uppsagnartímanum á öðrum bátum Þ. R taldi Þ hafa rift ráðningu hans með ólögmætum hætti með því að leggja bátnum í stað þess að láta R vinna lögboðinn uppsagnarfrest við fiskveiðar. Krafðist R bóta á grundvelli 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu, enda eru hvorki í sjómannalögum né kjarasamningi ákvæði, sem takmarka rétt útgerðarmanna til uppsagnar að þessu leyti. Hins vegar var fallist á kröfu R um greiðslu meðallauna undanfarandi mánaða í stað kauptryggingar. Talið var andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega væri breytt á uppsagnarfresti svo sem í raun var gert í þessu tilviki. Þ hefði verið í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum með þeim hætti að starfslok R féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Óeðlilegt væri að R þyrfti að þola skerðingu á launum með þessum hætti vegna ráðstafana, sem Þ greip einhliða til sér til hagsbóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2000. Krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 477.410 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. október 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi yfirvélstjóri á rækjubátnum Snæbjörgu ÓF-4, sem stefndi gerði út. Er ágreiningslaust að ráðning áfrýjanda var ekki bundin við ákveðinn tíma. Honum var sagt upp störfum með bréfi 2. október 1998, þar sem fram kom að stjórn stefnda hefði ákveðið að hætta rekstri skipsins. Var tekið fram að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir samkvæmt kjarasamningum og sjómannalögum og því lyki ráðningu áfrýjanda 2. janúar 1999.
Óumdeilt er að Snæbjörg kom úr síðustu veiðiferð sinni 5. október 1998 og var skipinu lagt, en vinnu skipverja við það lauk nokkrum dögum síðar. Ekki mun hafa verið krafist frekara vinnuframlags af áfrýjanda en hann fékk greidda kauptryggingu út uppsagnartímann. Jafnframt fór hann í þrjá róðra á öðrum fiskiskipum stefnda og fékk greiðslu fyrir þá til viðbótar kauptryggingu sinni, sem stefndi telur að hafi verið umfram skyldu. Að öðru leyti stundaði áfrýjandi ekki launaða vinnu á uppsagnartíma.
Krafa áfrýjanda byggist aðallega á því að stefndi hafi rift ráðningu hans með ólögmætum hætti og að um slíka riftun gildi ákvæði 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í stað þess að láta áfrýjanda vinna lögboðinn uppsagnarfrest við fiskveiðar eins og hann hafi verið ráðinn til hafi stefndi ákveðið að leggja bátnum og sagt áfrýjanda upp störfum fimm dögum áður en rekstri bátsins var hætt. Eigi hann því rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, sem séu meðalhófsbætur.
Þótt eðli máls samkvæmt sé á því byggt við ráðningu sjómanns á fiskiskip að því sé haldið til fiskveiða verður ekki séð að útgerðarmanni sé meinað að segja sjómanninum upp störfum vegna þess að skipi eigi að leggja, jafnvel þótt það sé gert samtímis því að skipinu er lagt. Hvorki í sjómannalögum né kjarasamningi, sem gilti milli áfrýjanda og stefnda, eru ákvæði, sem takmarka rétt útgerðarmanna til uppsagnar að þessu leyti. Er ekki unnt að telja að um vanefnd ráðningarsamnings hafi verið að ræða. Ákvæði 3. þáttar II. kafla sjómannalaganna, svo sem 19. gr. og 22. gr., sem áfrýjandi vísar einkum til, þykja ekki geta leitt til annarrar niðurstöðu. Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki komi til álita að dæma áfrýjanda bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.
II.
Á því er byggt af hálfu áfrýjanda að verði ekki talið að ráðningarsamningi hans hafi verið rift eigi hann rétt til launa samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga þar sem segir að skipverji taki kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Heldur áfrýjandi því fram að miða beri laun hans í uppsagnarfresti við þau laun, er hann hafi haft áður en til uppsagnar kom og bátnum var lagt. Standist það ekki að laun hans í uppsagnarfresti séu skert verulega. Hann hafi verið ráðinn upp á aflahlut á skipi, sem haldið hafi verið út til rækjuveiða. Samkvæmt launaseðlum, sem liggja fyrir í málinu, fékk áfrýjandi greiddan aflahlut frá 1. apríl 1998 til þess tíma er skipinu var lagt og honum sagt upp. Miðar hann kröfu sína um laun í uppsagnarfresti við meðallaun á dag þetta tímabil.
Samkvæmt kjarasamningi þeim, sem gilti milli aðila málsins, skyldi útgerðarmaður tryggja yfirvélstjórum hlut úr afla, eins og nánar er þar kveðið á um. Þá átti útgerðarmaður að tryggja þessum skipverjum mánaðarlegar kaupgreiðslur, svokallaða kauptryggingu, upp í hundraðshluta afla frá lögskráningardegi til afskráningardags með tilteknu mánaðarkaupi. Er ekki um það deilt í málinu að áfrýjandi fékk á uppsagnartíma greidda kauptryggingu samkvæmt kjarasamningnum.
Ágreiningslaust er að í kjarasamningi aðila var ekki kveðið sérstaklega á um, hvernig með launagreiðslur skyldi fara þegar skipi var endanlega lagt á uppsagnartíma. Fyrir liggur í málinu að uppsögn áfrýjanda átti rætur að rekja til þess að stefndi taldi nauðsyn hagræðingar í rekstri sínum og munu aflaheimildir, sem fylgdu Snæbjörgu ÓF-4, hafa verið fluttar yfir á önnur skip stefnda. Í uppsagnarbréfi stefnda var byggt á vinnuskyldu áfrýjanda út uppsagnartímann, en þar var sagt að óskaði áfrýjandi eftir því að hefja störf annars staðar, bæri honum að semja um það sérstaklega við stefnda. Af uppsögninni leiddi að áfrýjandi fékk ekki lengur greiddan hlut af afla skipsins, enda ekki lengur um hann að ræða, og laun hans í uppsagnarfresti lækkuðu verulega frá því sem verið hafði allt frá upphafi rækjuvertíðar.
Það verður að telja andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega sé breytt á uppsagnarfresti svo sem hér var gert í raun. Stefnda hefði verið í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum með þeim hætti að starfslok áfrýjanda féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Þykir og óeðlilegt að áfrýjandi þurfi að þola skerðingu á launum með þessum hætti vegna ráðstafana, sem stefndi greip einhliða til sér til hagsbóta. Mátti áfrýjandi vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi. Væntingar hans um aflahlut voru fyllilega raunhæfar miðað við launagreiðslur áður en til uppsagnarinnar kom. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga þykir krafa hans um meðallaun undanfarandi mánaða eiga rétt á sér.
III.
Eins og áður segir miðar áfrýjandi kröfu sína við meðalaflahlut á Snæbjörgu ÓF-4 frá 1. apríl til 30. september 1998. Samkvæmt því séu meðallaun á dag 10.198 krónur og er gerð krafa um þá fjárhæð í 85 daga, eða samtals 866.830 krónur að frádregnum 389.420 krónum, sem hann fékk greitt sem kauptryggingu, og nemur kröfufjárhæðin mismuninum, 477.410 krónum.
Af hálfu stefnda hefur útreikningi áfrýjanda verið mótmælt og bent á að rækjuveiði skipsins hafi hafist 20. júní 1998, en fyrir þann tíma hafi það verið á dragnótaveiðum. Meðallaun áfrýjanda við rækjuveiðarnar hafi að meðaltali numið 8.483 krónum á dag. Auk þess eigi að draga frá allar greiðslur, sem áfrýjandi fékk frá stefnda á uppsagnartímanum, en þær námu samtals 523.958 krónum þegar tekið er tillit til launa, er honum voru greidd vegna þriggja róðra er hann fór á bátum stefnda á tímabilinu.
Rétt þykir að fallast á þau sjónarmið stefnda að miða beri við hlut áfrýjanda á rækjuveiðum frá 20. júní 1998. Útreikningi stefnda á meðallaunum hefur ekki verið mótmælt tölulega. Samkvæmt því átti áfrýjandi að fá í laun á uppsagnartímanum 721.055 krónur. Frá þeirri fjárhæð ber að draga þau laun, er hann fékk á þessu tímabili og er ekki ágreiningur um að þau hafi numið 523.958 krónum. Ber stefnda samkvæmt þessu að greiða áfrýjanda 197.097 krónur. Rétt þykir að dráttarvextir reiknist á fjárhæðina frá ráðningarlokum 2. janúar 1999.
Samkvæmt þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Þormóður rammiSæberg hf., greiði áfrýjanda, Róbert Pálssyni, 197.097 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. janúar 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. maí 2000.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 27. apríl sl., er höfðað af Róbert Pálssyni, kt. 231249-7299, Bylgjubyggð 33, Ólafsfirði með stefnu áritaðri um birtingu 29. nóvember 1999 á hendur Þormóði ramma- Sæbergi hf., kt. 681271-1559, Aðalgötu 10, Siglufirði.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 477.410 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. október 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins og að jafnframt verði tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og þá verði málskostnaður látinn niður falla.
II.
Málavextir.
Stefnandi var yfirvélstjóri á rækjubátnum Snæbjörgu ÓF-15 í eigu stefnda og hafði gengt því starfi allt árið 1998. Með bréfi dagsettu og mótteknu af stefnanda 2. október það ár var honum sagt upp störfum. Í bréfi þessu kom fram að stjórn stefnda hafi, að teknu tilliti til afkomu Snæbjargar ÓF-4, ákveðið að hætta rekstri skipsins. Þá var tekið fram að uppsagnarfrestur væri samkvæmt kjarasamningum og sjómannalögum 3 mánuðir og því lyki ráðningu hans 2. janúar 1999. Einnig er tekið fram í bréfinu að verði skipinu ekki haldið til veiða á uppsagnartímanum beri stefnanda að vinna við skipið innanborðs í 8 klukkustundir á dag, alla virka daga. Hygðist stefnandi nýta sér þennan rétt til vinnu skuli hann setja sig í samband við útgerðina ella væri litið svo á að hann væri í launalausu fríi. Jafnframt er þess getið í bréfinu að vilji stefnandi hætta hjá útgerðinni og hefja störf annars staðar skuli hann semja um það sérstaklega við útgerðina enda falli launagreiðslur niður frá og með þeim tíma.
Snæbjörg ÓF kom til hafnar úr sinni síðustu veiðiferð 5. október 1998. Landað var úr bátnum og gengið frá honum eins og venja er þegar skipi er lagt og rekstri hætt og var því starfi að fullu lokið tveimur dögum síðar. Um frekari vinnu við bátinn var ekki að ræða og fóru skipverjar í vinnu annars staðar. Af hálfu stefnda er upplýst að ekki var farið fram á við stefnanda að hann ynni frekar við bátinn en þess óskað að hann yrði til taks ef á þyrfti að halda. Jafnframt heldur stefndi því fram að stefnanda hafi verið boðið að fara í veiðiferðir á öðrum skipum í hans eigu og hafi stefnandi þegið það í nokkrum tilvikum. Stefnandi hafi hins vegar áskilið sér laun fyrir þá róðra sérstaklega og að þau skertu ekki kauptryggingu hans í uppsagnarfresti.
Stefnandi gegndi ekki annarri vinnu frá 7. til 20. október er hann var ráðinn í lausaróður á annað skip í eigu stefnda, Sigluvík SI-2. Sú veiðiferð stóð í 7 daga. Aftur var stefnandi án vinnu til 17. nóvember er hann réri á Sólbergi ÓF-12 en það skip er einnig í eigu stefnda en þeim róðri lauk 23. nóvember. Loks fór stefnandi annan róður á Sólbergi ÓF-12 dagana 24. til 30. nóvember. Stefnandi vann ekki annað þar til uppsagnarfresti hans hjá stefnda var lokið. Stefnandi var síðan 1. vélstjórastjóri á Sólbergi frá 12. til 26. janúar 1999. Frá þeim degi hefur stefnandi verið vélstjóri eða stýrimaður á skipum í eigu stefnda.
Snæbjörgu ÓF-4 var ekki haldið til veiða frá 5. október 1998 til 14. ágúst 1999. Þann 14. ágúst hófust aftur rækjuveiðar á skipinu en þá var skipið gert út af annarri útgerð, Lómi hf.
Á uppsagnartímanum fékk stefnandi greidda kauptryggingu frá stefnda samtals 389.420 krónur. Jafnframt fékk hann greiddar 134.538 krónur vegna þeirra veiðiferða sem hann fór meðan á uppsagnarfresti stóð. Í tveimur af þremur þessara róðra var einungis greidd kauptrygging vegna lélegra aflabragða.
Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hafi byrjað að vinna hjá stefnda þegar stefnandi keypti Snæbjörgu árið 1997 en hann hafði verið á skipinu frá árinu 1986. Ekki hafi verið gerður við hann sérstakur ráðningarsamningur. Stefnandi bar að hann hafi ráðið sig á bátinn upp á aflahlut og ekki talið þörf á að taka það fram sérstaklega.
Hann kveður að öll þau ár sem hann hafi verið á skipinu hafi verið róið allt árið og alltaf hafi verið nægur kvóti á skipinu. Þegar stefndi tók við var sama form og verið hafði en það breyttist áður en þeim var sagt upp þ.a. þeir voru lengur á rækjuveiðum, sem venjulega byrjuðu í byrjun júní og stóðu fram í september. Eftir það hafi þeir farið á snurvoð, og mest veitt af þorski og kola þar til byrjað var á rækjuveiðum aftur. Botnfiskurinn hafi gefið meiri tekjur af sér en rækjan. Stefnandi segist ekki hafa verið um borð í skipinu í þeirri veiðiferð sem skipverjum var sagt upp. Þeim hafi verið sagt að leggja ætti skipinu og að það yrði auglýst til sölu. Á þessum tíma hafi nægar aflaheimildir verið á skipinu en þær hafi verið færðar annað. Þá segir stefnandi að enginn starfslokasamningur hafi verið boðinn en honum hafi verið greidd kauptrygging. Hann kveðst hafa tjáð útgerðarstjóra stefnda að hann væri ekki sáttur við þau laun og gerði fyrirvara um að hann myndi kanna réttarstöðu sína. Hann ber að hann hafi ekki talið sér skylt að fara þær veiðiferðir sem hann fór á öðrum skipum stefnda. Hann hafi spurt hvort þær veiðiferðir hefðu áhrif á laun vegna Snæbjargar en því svarað að svo væri ekki. Hann segir að þess hafi ekki verið krafist af honum að hann inni við bátinn og honum tjáð að hann þyrfti ekki að inna neina vinnu af hendi. Hann kveðst hafa haft eftirlit með bátnum, athugað hvort hann var vel bundinn og sett í gang til að hlaða geyma o.þ.h. Í þetta hafi farið nokkur tími í hvert sinn en ætla megi að samtals hafi hann unnið við þetta 15-20 tíma á mánuði.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi rift ráðningu stefnanda sem yfirvélstjóra á rækjubátnum Snæbjörgu ÓF-4. Hann hafi verið fastráðinn sem yfirvélstjóri bátsins og hafi því átt rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests skv. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Í stað þess að láta stefnanda vinna lögboðinn uppsagnarfrest við fiskveiðar eins og hann var ráðinn til hafi stefndi ákveðið að leggja bátnum og sagði stefnanda upp störfum 5 dögum áður en rekstri bátsins var hætt. Telur stefnandi að með þessu atferli hafi stefndi rift ráðningunni en um riftun sem þessa gildi ákvæði 1. ml. 1. mgr. 25. gr. nefndra sjómannalaga og þar sé jafnframt nánar tilgreint hver réttur skipverja sé við ólögmæta uppsögn en stefnandi hafi óumdeilanlega verið yfirmaður á bátnum.
Stefnandi reisir kröfur sínar við 25. gr. sjómannalaga og bendir á að norræn dómaframkvæmt og álit fræðimanna leiði til þeirrar niðurstöðu að þessi grein, sem sé í öllu verulegu samhljóða ákvæðum í norsku og dönsku sjómannalögunum, eigi við ef bátur er tekinn úr rekstri, honum lagt varanlega við bryggju eða sendur í meiriháttar breytingar eða viðgerðir, báturinn leigður eða seldur nýjum útgerðaraðila eða útgerð verður gjaldþrota o.s.frv. Riftunarreglan feli í sér fastákveðnar bætur til handa skipverjum hvort sem tjón þeirra verður meira eða minna vegna riftunarinnar en bótunum nemur.
Samkvæmt nefndri 25. gr. sjómannalaga skuli miða útreikning bóta við þau laun sem staða viðkomandi gaf að jafnaði af sé áður en til riftunarinnar kom. Stefnandi kveður að Hæstiréttur hafi ýmist miðað við meðallaun næstu 3 eða 6 mánuði á undan eða jafnvel við sama tímabil árið áður. Í þessu máli miðist kröfur stefnanda við launaseðla stefnanda 1. apríl til 30. september 1998. Á því tímabili hafi heildarlaun hans verið 1.835.708 krónur. Miðað við almanaksmánuði eru þetta 180 dagar og meðallaun á dag því 10.198 krónur. Sú tala er margfölduð með 85 dögum, sem er sá dagafjöldi sem stefnandi var ekki í launalausu fríi á uppsagnartímanum, sem gera samtals 866.830 krónur. Vegna uppsagnartímabilsins greiddi stefndi stefnanda samtals 389.420 krónur. Sú tala dregin frá meðallaunum sem áður er getið, 866.830 krónum, geri samtals 477.410 krónur sem sé stefnufjárhæð máls þessa
Stefnandi byggir á því að í 25. gr. sjómannalaga séu bætur fastákveðnar og skipti ekki máli hvort raunverulegt tjón hans var meira eða minna en leiðir af meðalbótareglunni.
Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að forsendur fyrir gildi munnlegs skipsrúmssamnings aðila hafi brostið þegar bátnum var lagt. Það hafi verið forsenda af hálfu stefnanda að bátnum yrði haldið til rækjuveiða og hann ynni þar sem yfirvélstjóri. Von stefnanda um góðan aflahlut hafi verið það aðdráttarafl sem leiddi til ráðningar hans á bátinn. Við lagningu bátsins til frambúaðar hafi þessar forsendur samningsins brostið enda ekki gert ráð fyrir vinnu stefnanda við bátinn í landi á tímakaupi eða kauptryggingu í uppsagnarfresti. Laun þau sem stefnandi hafði áður hafi verið mun hærri en kauptrygging eða tímakaup því hafi honum hvorki samkvæmt kjarasamningi eða sjómannalögum borið að vinna við bátinn eftir að honum var lagt. Þá hafi stefndi sjálfur litið svo á að um vinnu á uppsagnartímanum væri ekki að ræða enda hafi hann ráðið stefnanda á annan bát í sinni eigu 13 dögum eftir að Snæbjörgu var lagt. Samkvæmt þessu hafi forsendur samningsins brostið vegna atvika sem vörðuðu stefnda og á því byggist skaðabótaskylda hans skv. 25. gr. sjómannalaga.
Stefnandi byggir á því að báðum aðilum hafi borið að efna sinn hluta samningsins á ráðningartíma stefnanda. Þannig hafi stefnanda borið að vinna verk yfirvélstjóra á Snæbjörgu er skipið var á rækjuveiðum og stefnda hafi borið að sjá til þess að bátnum yrði haldið til veiða á meðan á ráðningartíma stefnanda stóð. Þar sem forsendur samningsins hafi brostið vegna atvika er vörðuðu stefnda hafi stefnandi einhliða haft rétt til að slíta ráðingunni. Niðurstaðan leiði af 25. gr sjómannalaga og lögjöfnun frá 2. kafla sjómannalaga sem varðar rétt sjómanna til að krefjast lausnar úr skiprúmi. Í þessu sambandi bendir stefnandi á 19. gr. sjómannalaga er kveði á um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skipsrúmi ef skip verður óhaffært. Í þeirri grein segi að skipverji sem fái lausn með vísan til greinarinnar eigi rétt á bótum, ferðakostnaði og fæðiskostnaði eftir því sem segi í 25. gr. Stefnandi telur að útgerðarmaður sem leggi bát sínum eigi ekki að njóta betri réttar en útgerðarmaður sem verður fyrir því að skip hans er metið óhaffært. Þá telur stefnandi að atvik sem heimila skipverja riftun vegna brostinnar forsendu hans séu ekki tæmandi talin í II. kafla sjómannalaga og því verði að líta svo á að almennar reglur um áhrif þess að forsendur bregðast gildi jafnhliða kaflanum.
Þegar stefnanda var sagt upp starfi sínu varð ljóst að honum var ómögulegt að uppfylla skipsrúmssamning sinn við stefnda og þar með hafi samningurinn fallið sjálfkrafa niður vegna ómöguleika stefnanda á að efna hann.
Stefnandi byggir einnig á því, að ráðning hans hafi verið bundin við Snæbjörgu ÓH-4 en ekki önnur skip í eigu stefnda. Af þessum sökum rifti stefndi ráðningu sinni við stefnanda í síðasta lagi 20. október 1998 þegar hann bauð stefnanda að gegna vélstjórastöðu á öðrum skipum í hans eigu, einn lausaróður eða fleiri. Stefnandi telur ótvírætt að hann hafi einungis verið ráðinn á þetta eina skip og bendir í því sambandi á að norræn dómaframkvæmd hafi byggst á þessum skilningi. Þá bendir hann á að Norðmenn hafi breytt sínum sjómannalögum á þann hátt að skipverjar séu ráðnir á öll skip útgerðar nema annað sé tekið fram. Slík breyting hafi hins vegar ekki verið gerð á íslensku sjómannalögunum. Þar sem stefndi hafi ekki uppfyllt þá skyldu sína að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda verði hann að sanna að ráðningin hafi ekki verið með þessum hætti. Af þessu leiði að ráðning stefnanda á annað skip í eigu stefnda hafi ekkert með bótarétt hans vegna riftunar á skiprúmssamningi varðandi Snæbjörgina að gera. Ráðning stefnanda á annað skip undirstriki því í raun riftun á samningi aðila.
Stefnandi rökstyður kröfur sínar ennfremur með því, verði ekki fallist á að 25. gr. sjómannalaga eigi við í málinu, að þá eigi hann rétt til launa samkvæmt 27. gr. sjómannalaga. Í 2. mgr. nefndrar 27. gr. segi að skipverji taki kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Um vinnu skipverja fari eftir kjarasamningum og sjómannalögum. Engin ákvæði sé að finna í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands um vinnuskyldu vélstjóra eftir að rekstri rækjubáts hefur veri hætt. Ýmis ákvæði séu þó varðandi tímabundnar stöðvanir. Ákvæðum kjarasamnings sem lúta að stöðvun skips og mæla fyrir um vinnuskyldu vélstjóra og skyldu útgerðarmanns til greiðslu launa er ætlað að treysta áframhaldandi vinnusamband aðila. Þannig ber útgerðarmanni til að mynda að tryggja vélstjóra vinnu milli hefðbundinna veiðitímabila gegn greiðslu tímakaups. Launakjör stefnanda í máli þessu fari ekki eftir ákvæðum kjarasamnings um tímakaupsgreiðslur vegna stöðvunar báts enda hér ekki um hefðbundna stöðvun báts að ræða. Því skuli miða við meðallaun sem stefnandi hafði fram að þeim tíma er bátnum var lagt enda voru það ráðningarkjör sem hann réði sig á þ.e. aflahlutur á bát sem haldið væri til rækjuveiða.
Stefnandi bendir ennfremur á afleiðingar þess að sjónarmið hans verði ekki tekin til greina. Það leiði til þess að uppsagnarákvæði 9. gr. sjómannalaga er að engu gert. Hugsunin að baki því ákvæði sé að sjómanni sé gert kleift með ákveðnum fyrirvara að gera sér grein fyrir því að þau kjör sem hann hefur treyst á og eru forsenda ráðningar hans haldist a.m.k. út lögboðinn uppsagnarfrest. Það sé óviðunandi að útgerðarmaður geti hvenær sem er og fyrirvaralaust lækkað laun sjómanna sinna um 80 til 90 af hundraði. Uppsagnarreglur sjómannalaga kveði á um gagnkvæman rétt og verði yfirmaður á skipi og útgerðarmaður að segja samningi upp með 3 mánaða fyrirvara. Verði ekki fallist á sjónarmið stefnanda leiði það til þess að útgerðarmaður geti haldið vélstjóra við vinnu við skip, sem hann hefur lagt, á 10 - 20 af hundraði þeirra launa sem hann hafði ráðið sig á án þess að skipverjinn geti að gert. Gengi hann úr skiprúmi undir þessum kringumstæðum gæti útgerðarmaðurinn hýrudregið hann á grundvelli 60. gr. sjómannalaga. Hefði stefnanda verið skylt að vinna við bát stefnda í þrjá mánuði eftir að búið var að leggja bátnum hefði hann fyrir utan tapaðan aflahlut orðið af ýmsum beinum og óbeinum tekjuliðum. Samningsbundnir fæðispeningar miðast þannig við lögskráningardaga en óheimilt er að hafa skipverja lögskráðan á skip að loknu samningsbundnu hafnarfríi. Þá glatar stefnandi einnig 90 daga sjómannaafslætti. Samkvæmt lögum 113/1984 byggja atvinnuréttindi vélstjórnarmanna að miklu leyti á siglingartíma þeirra en hann er miðaður við lögskráningardaga. Fleira þessu skylt megi nefna og af þessu sé ljóst að eftir að rækjubát stefnda hafði verið lagt brustu forsendur áframhaldandi ráðningarsambands aðila. Stefndi segir staðfest af öllum helstu fræðimönnum Norðurlanda á sviði sjóréttar, að í raun sé um nýjan og gjörólíkan ráðningarsamning að ræða eftir að bátnum hefur verið lagt við bryggju. Þá bendir hann einnig á að útgerðarmanni sé óheimilt að leggja báti sínum hvenær sem er, þ.e. þrátt yfir þá staðreynd að ráðningarsamningi sé ekki sagt upp eða honum rift, svo í bága fari við ákvæði kjarasamnings aðila.
Stefnandi bendir einnig á máli sínu til stuðnings, að fiskveiðiárið 1998-1999 hafi verið nýhafið þegar ráðningu hans var rift. Nægur kvóti hafi verið á bátnum til þess að halda veiðum áfram. Kvóti Snæbjargar þetta ár hafi numið 168.568 þorskígildum. Hins vegar hafi 80.484 þorskígildi verið færð yfir á aðra báta þann stutta tíma sem liðinn var af fiskveiðiárinu þegar bátnum var lagt. Þann 12. janúar 1999 hafi 68.371 þorskígildi enn verið til staðar á bátnum. Því sem næst helmingur af kvóta Snæbjargar hafi verið fluttur yfir á annað skip í eigu stefnda. Stefndi hafi ráðið sig til vinnu hjá stefnanda við rækjuveiðar en ekki til vinnu í landi á lágmarkskjörum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Nægur kvóti hafi verið á bátnum en stefndi hafi ákveðið að færa hann á annað skip í sinni eigu og leggja Snæbjörgu út uppsagnarfrest stefnanda. Kvótatilfærslur sem þessar séu á ábyrgð stefnda og því beri honum að bæta stefnanda tjón hans á þann hátt sem ráð er fyrir gert í 25. gr. sjómannalaga enda nam stefndi á brott fyrirvaralaust forsendur sem lágu að baki ráðningu stefnanda. Þannig hefði stefnandi aldrei ráðið sig til stefnda hefði hann vitað um framtíðaráform hans að snarlækka fyrirvaralaust launagreiðslu til sín á ráðningartímanum.
Hvað varðar lagarök vísar stefnandi einkum til 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 auk almennra riftunarreglna sem taldar eru leiða af ákvæðinu. Þá byggir hann á 5., 6., 9., 19. og 27. sjómannalaga, og lögjöfnun frá II. kafla sjómannalaga. Ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem tók gildi 27. mars 1998. Hvað dráttarvexti varðar er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að segja stefnanda upp starfi sínu af þeirri ástæðu að útgerð Snæbjargar hafi verið hætt. Stefndi fellst á með stefnanda að á meðan á ráðningarsambandi stendur eigi stefnandi að inna af hendi vinnu og stefndi að greiða umsamin laun fyrir hana. Telur stefndi óumdeilt að laun stefnanda skyldu fara eftir kjarasamningi vélstjóra.
Stefndi byggir á því að eftir að bátnum var lagt hafi orðið samkomulag á milli aðila þess efnis að stefnandi ynni við frágang á bátnum með öðrum skipverjum. Þegar frágangi var lokið hafi honum verið boðið að leysa af á öðrum skipum í eigu stefnda. Stefnandi hafi sett fram kröfur um að greiðslur vegna þeirra róðra hefðu ekki áhrif á kauptryggingu hans vegna Snæbjargar. Stefndi kveðst hafa fallist á kröfur stefnanda þrátt fyrir að honum væri ljóst að stefnandi fengi greidd tvöföld laun í uppsagnarfresti. Telur stefndi að aðilar hafi með þessu náð samkomulagi um hvernig launum og vinnu stefnanda yrði háttað í uppsagnarfresti. Telur stefndi að aðilar séu bundnir af þessu samkomulagi og því geti stefnandi ekki sett fram frekari kröfur vegna launa í uppsagnarfrestinum. Þá geti stefnandi ekki nú haldið því fram að stefnda hafi borið að gera bátinn út á því þriggja mánaða tímabili sem uppsagnarfresturinn var.
Stefndi hafnar algerlega þeim fullyrðingum stefnanda að hann hafi rift ráðningu stefnanda þar sem ekki hafi staðið til að gera Snæbjörgu út á uppsagnarfrestinum. Riftun samninga verði ekki gerð nema með ákvöð, þ.e. tilkynningu þess sem vill rifta, meint vanefnd jafngildi ekki riftun eða valdi riftun samnings en vanefnd geti hins vegar leitt til þess að gagnaðila sé heimilt að rifta. Stefndi heldur því fram að aldrei hafi staðið til af hans hálfu að rifta ráðningu stefnanda og það hafi ekki verið gert með ólögmætum hætti. Þvert á móti hafi aldrei staðið annað til en að efna að fullu ráðningarsamning stefnanda.
Þá hafnar stefndi því að honum hafi verið skylt að gera Snæbjörgu út á uppsagnarfresti stefnanda. Verði aftur á móti talið að slík nauðungarútgerð sé til staðar verði að ákveða hversu umfangsmikil slík útgerð á að vera og einnig verði að svara þeirri spurningu hvort vanhöld á slíkri útgerð jafngildi ólögmætri riftun á ráðningarsamningi skv. 25. gr. sjómannalaga. Stefndi byggir á því að nauðungarútgerð sem þessi eigi sér enga stoð í sjómannalögum ennfremur brjóti hún gegn atvinnuréttindum stefnda og rétti hans til þess að ráða útgerð skipa sinna. Það hljóti að vera meðal grundvallarréttinda útgerðarmanns að ákveða hvort skip hans haldi til veiða eða ekki.
Þá byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé reistur á því að forsenda fyrir ráðningu hans hafi brostið. Þar virðist stefnandi byggja á því að hann hafi haft sérstakar forsendur fyrir ráðningu sinni, þrátt fyrir að óumdeilt sé að hann hafi ekki kynnt stefnda slíkar forsendur eða að hann hafi áskilið sér betri rétt til launa en aðrir sjómenn er hann var ráðinn. Stefndi telur að slíkar persónubundnar forsendur falli ekki undir vanefnd af hans hálfu nema hann hafi tekist þá skyldu á herðar að efna þessar forsendur stefnanda.
Stefndi byggir jafnframt á því, verði talið að stefnandi eigi bótakröfu á hendur honum vegna ólögmætrar riftunar eða vegna ógreiddra launa í uppsagnarfresti, að krafa stefnanda sé allt of há. Í þessu sambandi verði að horfa til kjarasamnings aðila auk þeirra dómafordæma sem hér hafa áhrif. Þannig sé krafa stefnanda um svokölluð meðallaun ekki í samræmi við kjarasamning aðila eða sjómannalög. Verði talið að stefnandi eigi rétt til bóta geti þær aldrei verið hærri en nemur kauptryggingu á þeim tíma sem um ræðir enda var skipið ekki gert út og þar með gat stefnandi ekki átt rétt til aflahlutar. Telji dómurinn að stefnda hafi borið að gera bátinn út þurfi hann jafnframt að reikna út hversu ábatasöm sú útgerð var og reikna stefnanda bætur í samræmi við það. Stefndi hafi hins vegar talið að útgerð Snæbjargar stæði ekki undir kostnaði.
Jafnframt mótmælir stefndi útreikningi stefnanda á svonefndum meðallaunum og telur hann rangan. Fyrir dóminum liggi gögn sem sýni að rækjuveiði hófst á Snæbjörgu 20. júní 1998 en fyrir þann tíma hafi báturinn verið á dragnótarveiðum og telur stefndi því að ekki sé unnt að miða meðallaun við rækjuveiðar út frá því tímabili. Sé litið til launa stefnanda við rækjuveiðar frá 20. júní 1998 til 30. september 1998 megi sjá að daglaun hans við þær hafi verið 8.483 krónur að meðaltali.
Þá krefst stefndi þess, komi til þess að fallist verði á kröfur stefnanda að einhverju leyti, að þá verði laun sem stefnandi fékk greidd hjá stefnda á uppsagnarfrestinum dregin frá kröfum stefnanda. Samtals hafi stefnandi fengið greiddar 523.958 krónur á þeim hluta uppsagnarfrestsins sem um er deilt í málinu.
Stefndi mótmælti því að tekið verði tillit til þeirrar vinnu sem stefnandi kvaðst fyrir dóminum hafa innt af hendi með eftirliti og gangsetningu vélar enda væri þessi fullyrðing hans ósönnuð og of seint fram komin.
Að endingu telur stefndi ekki ástæðu til að fjalla um sjónarmið stefnanda sem hann setti fram varðandi afleiðingar þess að sjónarmið stefnanda verði ekki tekin til greina. Þessi sjónarmið eigi ekki stoð í lögum og vísan til norrænna fræðimanna eigi ekki við rök að styðjast.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti og telur að krafan skuli ekki bera dráttarvexti fyrr en við dómsuppsögu verðið einhverjar kröfur stefnanda teknar til greina.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 19/1991.
IV.
Niðurstaða.
Í máli þessu liggja málsatvik ljós fyrir og er í raun einungis deilt um hvaða laun stefnandi átti rétt á að fá greidd í uppsagnarfresti. Þannig er óumdeilt að stefnandi var, þrátt fyrir að ekki hafi verið gerður við hann ráðningarsamningur, yfirvélstjóri á Snæbjörgu ÓF-4 og samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga taldist hann til yfirmanna skipsins. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga átti hann því rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Jafnframt liggur fyrir að báturinn var ekki gerður út af stefnda eftir að honum var lagt.
Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið að útgerðarmanni sé skylt að gera út skip á uppsagnarfresti enda eiga slík sjónarmið sér ekki stoð í sjómannalögum og brjóta gegn atvinnufrelsi útgerðarmanns. Útgerðarmaður verður að meta það sjálfur hvort hann heldur skipi sínu til veiða eða leggur því við bryggju. Verður því ekki fallist á með stefnanda að stefndi hafi með því að ákveða að hætta útgerð Snæbjargar og leggja bátnum við bryggju og í framhaldi af því selja bátinn öðrum aðila rift með ólögmætum hætti ráðningarsamningi í skilningi 25. gr. sjómannalaga. Fallast má á með stefnanda að forsenda fyrir ráðningu hans hafi verið sú að hann fengi greiddan aflahlut á meðan á ráðningu hans stóð. Hins vegar er alkunna að ekki aflast alltaf svo mikið að hlutur sé greiddur, sbr. t.d. tvo róðra sem stefnandi fór á Sigluvík og Sólbergi meðan uppsagnarfrestur hans var að líða, auk þess sem ekki verður hjá því komist að skip stöðvist af ýmsum orsökum. Í málinu liggur ekkert frammi sem bendir til þess að stefnandi hafi gert sérstakan fyrirvara um að hann fengi greiddan aflahlut vegna stöðvunar skipsins eða að hann hefði meiri rétt til launa en aðrir er hann var ráðinn. Það eitt að persónulegar forsendur stefnda fyrir ráðningunni brustu fela ekki í sér vanefnd af hálfu stefnda. Kemur því ekki til álita að dæma stefnanda bætur með vísan til 25. gr. sjómanalaga.
Í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna er ekki að finna ákvæði sem segir hvernig með launagreiðslur skuli fara ef skipi er lagt varanlega þó þar sér tekið á ýmsum öðrum atriðum varðandi stöðvun skips. Fyrir liggur að á meðan báturinn var ekki gerður út var eðli máls samkvæmt ekki um það að ræða að aflahlutur væri greiddur. Þá er því ekki haldið fram sem málsástæðu að stefnandi hafi innt af hendi vinnu við bátinn sem leitt gæti til þess að hann ætti rétt á tímakaupi samkvæmt kjarasamningi. Þar sem því hefur áður verið hafnað að stefnandi eigi rétt til bóta samkvæmt ákvæðum 25. gr. sjómannalaga er það mat dómsins að rétt sé að miða laun stefnanda við kauptryggingu. Óumdeilt er að stefnandi hefur þegar fengið greidda fjárhæð sem nemur kauptryggingu í þrjá mánuði samkvæmt kjarasamningi og að auki fékk hann greitt fyrir þær veiðiferðir sem hann fór á öðrum skipum stefnda í uppsagnarfrestinum. Ber því sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ.
Stefndi, Þormóður rammi- Sæberg hf. er sýknaður af kröfum stefnanda, Róberts Pálssonar í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.