Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/1998


Lykilorð

  • Landamerki
  • Gjafsókn


                                                                                                                 

Föstudaginn 18. júní 1999.

Nr. 219/1998.

Íslenska ríkið

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Halldóri Sigurbirni Halldórssyni og

(Vilhjálmur Árnason hrl.)

Haraldi Guðmundssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

og

Halldór Sigurbjörn Halldórsson

gegn

íslenska ríkinu

Landamerki. Gjafsókn.

Deilt var um landamerki jarðanna S og H, en sátt hafði náðst um mörk þeirra gagnvart jörðinni Sn. Talið var að mikill vafi léki á staðsetningu ýmissa kennileita sem miðað var við í gömlum landamerkjalýsingum. Þótti rétt að draga landamerkin óháð þessum kennileitum, beint milli tveggja merkja, sem ekki var deilt um staðsetningu á, en þó með hliðsjón af landamerkjalýsingunum og staðháttum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 1998. Í endanlegri kröfugerð krefst hann þess í fyrsta lagi að staðfest verði með dómi að landamerki jarðanna Hrófbergs og Staðar séu með eftirfarandi hætti: Hrófbergsmegin ræður landamerkjum: Úr Vatnadalsá eftir svonefndum heybandsgötum, nokkuð fyrir vestan Tjaldhól, sjónhending á svonefndan Stórastein, úr Stórasteini í annan stein nær byggð  í hnitapunkti 102, þaðan sjónhending í Kúgildislæk í hnitapunkt 110, er ráði merkjum af fjalli ofan til reiðgatna  í hnitapunktum 110, 111, 107 og 109, síðan sjónhending yfir þverar eyrarnar í nyrðri bakka Staðarár, þar sem sáttalína Hrófbergs og Stakkaness frá 13. október 1998 sker bakkann. Í öðru lagi krefst hann þess að staðfest verði með dómi skylda gagnáfrýjanda til að fjarlægja girðingu þá, sem hann hefur reist á hinu umdeilda landsvæði, svonefndum Lyngmóum, að viðlögðum dagsektum. Í þriðja lagi krefst hann þess að staðfest verði með dómi að landamerki jarðanna Staðar og Stakkaness á hinu umdeilda svæði verði ákvörðuð í samræmi við dómsátt milli stefnda og gagnáfrýjanda, sem gerð var í Héraðsdómi Reykjaness 13. október 1998, þ.e. að þau liggi frá hnitapunkti 206  í beinni línu í hnitapunkt 401, þaðan bein lína í hnitapunkt 203 og síðan bein lína í stefnu á hnitapunkt 108 að landamerkjum Staðar og Hrófbergs.

Til vara við fyrstu kröfu sína krefst aðaláfrýjandi þess að staðfest verði með dómi að landamerki Hrófbergs og Staðar verði eins og áður er lýst að hnitapunkti 102, þá ráði landamerkjum Kúgildislækur af fjalli ofan til reiðgatna, hnitapunktar 103, 104, 301, 302, 303, 304, 107 og 109, síðan sjónhending yfir þverar eyrarnar í nyrðri bakka Staðarár, þar sem sáttalína Hrófbergs og Stakkaness frá 13. október 1998 sker bakkann.  Loks er krafist málskostnaðar bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málinu var gagnáfrýjað 22. október 1998. Gerir gagnáfrýjandi þær kröfur að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar landamerki á milli Hrófbergs og Staðar og að landamerki Hrófbergs og Stakkaness verði ákvörðuð í samræmi við dómsátt 13. október 1998, þ.e. frá hnitapunkti 206 í beina stefnu að hnitapunkti 401, þaðan í beina stefnu í hnitapunkt 203, þaðan í beina stefnu í hnitapunkt 108 og þaðan til sjávar um hnitapunkt 402. Jarðirnar eigi jafnan veiðirétt í Staðará á því svæði sem merki þeirra liggja saman. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Endanleg kröfugerð stefnda um landamerki Stakkaness gagnvart jörðum aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda er samhljóða kröfum þeirra með vísun til dómsáttar hans og gagnáfrýjanda 13. október 1998. Hann krefst þess að honum verði tildæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjenda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð dómsátt gagnáfrýjanda og stefnda, gerð í Héraðsdómi Reykjaness 13. október 1998 um landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Stakkaness, sem vísað er til í kröfugerð aðila. Aðaláfrýjandi hefur einnig miðað kröfugerð sína um landamerki Staðar og Stakkaness við þessa dómsátt þótt hann hafi ekki verið aðili að henni.

Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang ásamt aðilum og lögmönnum þeirra áður en málið var munnlega flutt.

Samkvæmt framansögðu er ekki lengur ágreiningur milli aðila að því er varðar landamerki milli Stakkaness annars vegar og Staðar eða Hrófbergs hins vegar. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti er því einungis ágreiningur um landamerki Staðar og Hrófbergs frá svokölluðum Neðri-Merkissteini norður í Staðará. Staðsetning steinsins í hnitapunkti 102 er óumdeild, svo og staðsetning Efri-Merkissteins (Stórasteins) í hnitapunkti 101. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ágreiningi aðila og þeim örnefnum, sem tengjast landamerkjum jarðanna á umræddu svæði. Fallist er á þá niðurstöðu dómsins að miðað við lýsingar heimilda sé rétt að líta svo á að Kúgildislækur komi úr lækjarsytrum, sem koma upp skammt frá Neðri-Merkissteini. Verður ekki á það fallist með aðaláfrýjanda að um sé að ræða læk, sem rennur um gil allnokkru austar.

Ljóst verður að telja að farvegur Kúgildislækjar hafi verið allbreytilegur í tímans rás. Á láglendi rennur lækurinn nú að talsverðu leyti um skurð, sem gagnáfrýjandi gróf fyrir allmörgum árum og hefur sá gröftur án efa haft áhrif á vatnsrennsli á svæðinu.

Eins og fram kemur í héraðsdómi lýsti Jón Jóhannsson bóndi á Víðivöllum landamerkjum svo árið 1930 að frá Neðri-Merkissteini sé “sjónhending í Kúgildislæk, þar sem hann rennur í krók niður með hálsinum og sjónhending úr læknum í reiðgötur við Staðará, beint á móti Lækjartúni í Staðarhlíð”.

Út frá þessari lýsingu dró héraðsdómur línu úr Neðri-Merkissteini, hnitapunkti 102, í hnitapunkt 103 í Kúgildislæk og þaðan yfir í Staðará í hnitapunkt 106 A, eins og nánar er lýst í dóminum. Þegar litið er til ljósmynda og uppdrátta, sem fyrir liggja í málinu, sést krókur á lækjarfarveginum upp að hlíðinni nokkru austar við hnitapunkt 103, sem ofangreind lýsing gæti allt eins átt við. Samkvæmt þessu gæti línan hafa átt að koma austar og þykir ekki unnt að fallast á landamerkjalínu héraðsdóms að þessu leyti.

Þá er og mjög óljóst, hvar reiðgötur þær lágu, sem miðað er við í landamerkjalýsingum allt frá 1398. Má ætla að slíkar götur hafi einkum verið nálægt bökkum Staðarár, en þær gætu hafa legið víðar. Víst er og að farvegur árinnar hefur færst talsvert til á umliðnum öldum.

Að lokum er einnig nokkur óvissa um nákvæma staðsetningu, en þó einkum um stærð Lækjatúns á norðurbakka Staðarár. Í örnefnalýsingu Magnúsar Steingrímssonar, bónda að Hólum í Staðardal frá 1929 er meðal annars fjallað um svæðið nálægt landamerkjum Grænaness (nú Stakkaness) og Staðar, norðan Staðarár. Segir þar: „Við Landamerkjalæk er Grásteinsengi, þá Lyngbali og á bakkanum Tjaldholt, þá Harðengi að Neðra-Lækjatúnsgili, þá Lækjatún á bakkanum við eyrarnar sem eru með ánni, þá stykkið milli Lækjatúnsgilja.“ Í lýsingu Magnúsar frá 1953 er lýst svæðinu norðan árinnar frá Stað, þar sem segir meðal annars: „Í hlíðinni fyrir neðan Stekkjarhvolfin er Prestsengi. Er svo nokkur svæði  frá því að Lækjatúnsgili. Er Lækjatún á bakkanum við Staðará. ... Neðan Lækjartúnsgilja, austar í hlíðinni, er Harðengi. Þá Tjaldholt, lyngi- og grasigróin klettaþröm, er liggur að Staðará. Þar neðar Lyngbali og við landamerkjalæk, Grásteinsengi.“

Með hliðsjón af þessum lýsingum verður ekki talið að Lækjatún hafi verið á milli Lækjatúnsgiljanna og takmarkast af þeim, enda ræðir Magnús Steingrímsson sérstaklega um ónafngreint „stykki“ á milli þeirra. Í báðum lýsingunum er beinlínis tekið fram að Lækjatún sé á bakka árinnar. Þykir ekki unnt að leggja til grundvallar að lega þess til austurs hafi takmarkast af Neðra-Lækjatúnsgili. Í lýsingunum koma einungis fram tvö örnefni á svæðinu milli Lækjatúnsgilja og Grásteinsengis, sem sögð eru liggja að ánni, þ.e. Lækjatún og Tjaldholt. Má telja sennilegt að þessi svæði hafi næstum náð saman á árbakkanum. Tjaldholt er skammt frá Grásteinsengi, en eins og fram kemur í lýsingum er það við læk, þar sem eru landamerki Staðar og Stakkaness. Er hnitapunktur 206 í farvegi Staðarár við þennan stað. Frá stað skammt þaðan mun hin óumdeildu merki í Efri- og Neðri-Merkissteinum bera saman samkvæmt gögnum málsins, eins og dómurum var sýnt, er þeir gengu á vettvang.

Af framansögðu er ljóst að örðugt er að staðsetja með vissu þau kennileiti, sem koma til álita, þegar leysa skal úr því, hver eru landamerki Hrófbergs og Staðar norðan við Neðri-Merkisstein. Þegar litið er til þeirra atriða, sem hér hafa verið nefnd, svo og með hliðsjón að öðru leyti af landamerkjalýsingum og staðháttum, þykir rétt að ákveða þau nokkru austar en gert var í héraðsdómi. Verða þau dregin í beinni línu frá Neðri-Merkissteini í hnitapunkti 102 í farveg Staðarár á móts við Grásteinsengi í hnitapunkt 206, eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti. Óumdeild eru merkin suður af Neðri-Merkissteini. Um landamerki Hrófbergs og Stakkaness fer eins og í dómsorði greinir, en þau eru í samræmi við dómsátt frá 13. október 1998.

Samkvæmt þessum úrslitum ber að dæma gagnáfrýjanda til að fjarlægja girðingu er hann hefur sett upp á hinu umdeilda svæði á svonefndum Lyngmóum, að svo miklu leyti sem hún fer út fyrir landareign hans miðað við ofangreind landamerki. Skal hann hafa lokið því verki innan 90 daga frá uppkvaðningu dóms þessa að viðlögðum 5.000 króna dagsektum.

Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað fer eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Staðar í Hólmavíkurhreppi, Strandasýslu, skulu vera  sem hér segir: Frá Vatnadalsá eftir háhrygg Þverholtanna að Efri-Merkissteini í hnitapunkti 101 (X=674812,7; Y=589442,0), þaðan í beina stefnu að Neðri-Merkissteini í hnitapunkti 102 (X=674541,8; Y=589959,5), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt 206 (X=673939,0; Y=591257,0), eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti.

Landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Stakkaness í ofangreindum hreppi skulu vera sem hér segir: Frá hnitapunkti 206 í beina stefnu að hnitapunkti 401 (X=673635,0; Y=591008,0), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt 203 (X=673559,1; Y=590794,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt 108 (X=673272,9; Y=590653,2), og þaðan til sjávar um hnitapunkt 402 (X=672808,0; Y=590633,0), eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti.

Gagnáfrýjandi, Halldór Sigurbjörn Halldórsson, skal fjarlægja girðingu, sem  hann hefur sett upp á svonefndum Lyngmóum, að svo miklu leyti sem hún fer í bága við ofangreind landamerki, innan 90 daga frá uppkvaðningu dóms þessa að viðlögðum 5.000 króna dagsektum.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, Haralds Guðmundssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 26. febrúar 1998.

Ár 1998, fimmtudaginn 26. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða, sem háð er í Dómhúsi Héraðsdóms Reykjaness, Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhanns­syni, héraðs­dómara, sem dómsformanni og Finni Torfa Hjörleifssyni og Ólafi Berki Þor­valds­­syni, héraðs­dómurum, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-79/1997: Halldór Sigur­björn Halldórsson gegn landbúnaðarráðherra, f.h. kirkjujarðarinnar Staðar í Stein­­gríms­firði, og gegn Haraldi Guðmundssyni og gagnsök, sem tekið var til dóms 30. janúar síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi.

Málið höfðaði Halldór Sigurbjörn Halldórsson, eigandi og ábúandi jarðar­innar Hrófbergs í Hólmavíkurhreppi, kt. 230625-4769, á hendur landbúnaðarráð­herra f.h. kirkjujarðarinnar Staðar í Steingrímsfirði, Hólmavíkurhreppi, svo og gegn Haraldi Guð­mundssyni, eiganda og ábúanda jarðarinnar Stakkaness, Hólmavíkur­hreppi, kt. 190359-5499, með stefnu, sem birt var 28. og 30. maí 1997, en málið var þing­­fest 18. júní sama ár. Gagnsök var höfðuð 25. ágúst 1997 og sameinuð aðalsök.

Dómendur gengu á merki 19. september 1997 í fylgd aðila og lögmanna. Þing­­höld til sáttaumleitana og framlagningar sýnilegra sönnunargagna voru háð 6. október og 5. nóvember 1997. Lagðir voru fram vett­­­vangsuppdrættir á dóm­skjölum nr. 61, 68 og 70 og kröfugerð aðila breytt til sam­ræmis við nýja hnita­punkta, sem færðir höfðu verið inn á uppdrættina á grundvelli málflutnings­yfir­lýsinga fyrir dómi.

Aðalmeðferð var háð dagana 4.-5. desember 1997 og málið dómtekið. Þar sem segulbandsupptökur með framburði nokkurra vitna eyðilögðust var málið endur­upp­tekið 30. janúar 1998 og skýrslur teknar að nýju af við­komandi vitnum, en málið því næst flutt öðru sinni og dómtekið sama dag. Málið var endurupptekið að nýju í dag, þar sem brestur var á skýrleika í málflutningsyfirlýsingum aðalstefnanda og gagn­stefnanda landbúnaðarráðherra varðandi ætluð landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Staðar.

Kröfugerð aðila.

A. Eigandi Hrófbergs.

Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær, að staðfest verði eftir­farandi landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Staðar: Frá Vatna­dalsá eftir háhrygg Þver­holtanna að Hærri-Merkissteini (hnitapunktur 101 á dóm­skjali nr. 61), þaðan ráði sjón­­hending að Neðra-Merkissteini (hnitapunktur 102 á dóm­skjali nr. 61), þaðan í Kú­gildis­­læk, sem ráði merkjum af fjalli ofan til láglendis á eyrum (hnita­punktur 103 á dómskjali nr. 61) og þaðan ráði sjón­hending yfir þverar eyrarnar í hnitapunkt 106A, sbr. dómskjal nr. 61, og þaðan í beina stefnu í hnita­punkt 206 á dóm­skjali nr. 61. Þaðan ráði far­vegur Staðarár landamerkjum, einnig milli Hróf­bergs og Stakkaness, út dalinn ofan hjá Stakka­­­nesi í sjó fram, sbr. dómkröfulínu aðal­stefnanda á dómskjali nr. 61 (hnita­punktar 207 og 208 á dómskjali nr. 68) nema sátt hafi tekist um annað, sbr. bókun í þing­haldi 6. október 1997 og drög að dómsátt milli Hrófbergs og Stakka­ness, sbr. sátta­lína á dóm­skjali nr. 61.

Í gagnsök gerir aðalstefnandi þær dómkröfur, að synjað verði um landa­­merkja­­­kröfur gagnstefnenda og aðalstefnandi sýknaður af öllum kröfum þeirra, enda verði landamerkjakröfur stefnanda í aðalsök teknar til greina. Þá er í aðal- og gagn­sök krafist málskostnaðar úr hendi gagn­stefnenda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en aðalstefnandi fékk gjaf­sóknar­leyfi 12. maí 1997.

B. Eigandi Staðar.

Af hálfu gagnstefnanda landbúnaðarráðherra eru gerðar þær dómkröfur í aðalsök, að synjað verði um allar kröfur aðalstefnanda. Í gagn­sök er þess endanlega krafist, að landamerki jarðanna Hrófbergs og Staðar verði ákvörðuð með eftirfarandi hætti: Hrófbergsmegin ráði landamerkjum: Úr Vatnadalsá eftir svo­nefndum heybandsgötum, nokkuð fyrir vestan Tjaldhól, sjón­hending á svo­nefndan Stóra­stein; úr Stórasteini í annan stein nær byggð, þá ráði landa­merkjum Kúgildis­lækur af fjalli ofan til reiðgatna (hnitapunktar 110, 111, 107 og 109 á dómskjali nr. 70), síðan sjón­hending yfir þverar eyrarnar í línu dregna frá hnitapunktum 201 til 203, sbr. dómskjal nr. 61 og dómskjal nr. 70. Þá verði í gagnsök viðurkennd skylda aðal­stefnanda til að fjarlægja girðingu þá, sem hann hafi reist á hinu umdeilda land­svæði, það er á svo­nefndum Lyng­móum, að viðlögðum dagsektum að mati dómsins. Loks er í öllum til­vikum krafist málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda eftir mati dómsins.

C. Eigandi Stakkaness.

Gagnstefnandi Haraldur Guðmundsson gerir þær dóm­­­­kröfur í aðalsök, að öllum kröfum aðalstefnanda verði hrundið. Í gagn­­sök er endan­lega gerð svohljóðandi krafa: Að staðfest verði með dómi landamerki milli Hróf­bergs og Stakkaness, eins og þau eru dregin á dómskjali nr. 61, þ.e. að svonefnd sátta­­lína skipti merkjum milli Hrófbergs og Stakkaness frá hnita­punkti 201 til 205, en ellegar svo langt fram eyrar, sem við getur átt eftir niðurstöðu dóms, að landa­merkjum Hrófbergs og Staðar. Þá er bæði í aðal- og gagnsök krafist máls­kostnaðar úr hendi aðal­stefnanda, eins og málið væri ekki gjaf­sóknar­mál, en gagnstefnandi fékk gjaf­sóknar­leyfi 17. desember 1997.

Forsaga máls og lýsing helstu málsatvika.

Í Staðardal í Steingrímsfirði er kirkjujörðin Staður, sem lýtur forræði land­búnaðar­ráðuneytis. Jörðin var áður prestsetur. Undir hana heyra nú Hof­staðir, sem áður tilheyrðu Víðivöllum, en sú jörð var eitt sinn hjáleiga frá Stað. Land það er áður tilheyrði Hof­stöðum liggur sunnan megin í Staðar­­dal og að landi Hrófbergs.

Seint á fjórtándu öld kvartaði Jón Jónsson, þáverandi eigandi Hrófbergs, undan ofríki prestsins á Stað, Bjarna Þórðarsonar, sem þá mun hafa eignað sér land Hrófbergs á svæði milli Kúgildislækjar og Rauðaskriðu. Spunnust út af því deilur, sem urðu tilefni úrskurðar Þorsteins lögmanns Eyjólfssonar sumarið 1398 um landa­merki milli jarðanna Hrófbergs og Víðivalla. Þar sem prestur gat ekki lagt fram skil­ríki fyrir eignarhaldi Staðar á hinu umþrætta landsvæði en bóndinn á Hrófbergi lagði fram bréf Einars Þorbjarnarsonar, með hans heilu og ósködduðu innsigli, sem átt hafði báðar jarðirnar Hrófberg og Víðivelli, úrskurðaði lögmaðurinn bóndanum á Hróf­bergi í vil og á grundvelli landamerkjalýsingar Einars Þorbjarnarsonar, ,,ad milli fyr­­­skrifadra jarda Hrobergs oc Wijdevalla riedi sa lækur. sem kendur er kugilldis­lækur. landareign af fialli ofan til reidgatna og sijdann sionhending yfir um þverar eyrarnar i Stadaraa j enn forna farveg oc alldrei seigist hann [þ.e. Einar Þorbjarnarson - innskot dómsins] vitad hafa onnur landamerki milli greindra jarda. Þvi i Guds nafne amen. urskurda eg greindur logmann. med fullum lagaurskurde. þesse landamerke j allann máta skialleg og myndug.” Úrskurðurinn er hér tekinn eftir Íslensku fornbréfasafni, III. bindi, bls. 631 (dómskjal nr. 9).

Svo virðist sem enn hafi verið deilt um landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Víði­valla á ofanverðri sautjándu öld og að sú deila hafi orðið tilefni eftirfarandi lög­festu Jóns Björnssonar á Hróf­bergi fyrir þeirri jörð innan tiltekinna landa­merkja: ,,Landamerki milli téðrar jarðar og Víðivalla er á Stóraholti grjót­garður og við grjót­garðs­endann norðan til stór steinn, sem á steinum stendur, svo undir hefur mátt sjá, þaðan frá nær byggð stendur annar steinn og undan því holti, skammt er frá þeim steini, kemur sá lækur sem kúgildislækur hefur kallaður verið og er hann þessara landa á milli merki af fjalli ofan til reiðgatna, þaðan er sjónhending yfir um þverar eyrarnar í Staðará, í þann forna farveg, og síðan ræður hann ofan hjá Stakka­nesi fram í sjó, hinu megin Reiðarsteins.” Lögfestan er hér skráð eftir framlögðu ljósriti úr bréfabók Staðar í Steingrímsfirði, merktri CB1. Lögfesta þessi var lesin í heyranda hljóði á heim­­stefnu­þingi 6. maí 1675 að viðstöddum séra Einari Torfasyni, Staðarpresti. Undir lög­festuna rituðu þrír vottar, sem staðfestu, að ekki aðeins hefði séra Einar látið ómót­mælt þeim landamerkjum, sem tilgreind voru í lögfestunni, heldur hefði hann bein­línis játað merkin rétt.

Á grundvelli lögfestunnar frá 1675 var eftirfarandi lýsing á landamerkjum milli Hrófbergs og Staðarkirkjueigna lesin fyrir manntalsþingrétti að Hrófbergi 26. júní 1890: ,,...frá Vatnadalsá eptir háhrygg Þverholtanna að hærra Merkissteini, þaðan er bein sjón­hending að neðri Merkis-Steini. Skammt frá þeim steini kemur sá lækur, er Kú­gildis­lækur hefur kallaður verið og er hann þessara landa á milli merki af fjalli ofan til láglendis, þaðan er sjónhending yfir þverar eyrarnar í Staðará í þann forna farveg við lækjartún og síðan ræður hann ofan hjá Stakkanesi fram í sjó milli megin­lands og reiðar­steins.” Landamerkjalýsing þessi var færð í landa­merkja­bók Stranda­sýslu undir tölulið nr. 66. Henni til staðfestu rituðu meðal annarra nöfn sín Magnús Magnússon, ábúandi að Hrófbergi og Ísleifur Einarsson, Staðarprestur frá 1883 til 1892. Segir orð­rétt í landa­merkjabók, að séra Ísleifur hafi verið með öllu samþykkur, að ,,farið sé eftir lög­festu þeirri, sem Jón Björnsson gjörði fyrir Hrófbergslandi um landa­merki milli Hróf­bergslands og Staðarkirkjueigna ...”

Fyrir manntalsþingrétti sama dag var lesin og færð í landamerkjabók undir tölu­lið nr. 65 eftirfarandi landamerkjalýsing yfir eignir Staðar­kirkju, þær er lágu að landi Hrófbergs: ,,Hrófbergsmegin ræður landamerkjum úr Vatna­dalsá eptir svo­nefndum heybandsgötum, nokkuð fyrir vestan Tjaldhól, sjón­hending á svo­nefndan Stóra­­­stein, úr Stórasteini í annan stein nær byggð, en þaðan skammt kemur sá lækur sem Kúgildislækur hefur kallaður verið og er hann landa­merki af fjalli ofan til reið­gatna, þaðan er sjónhending yfir þverar eyrarnar í Staðará, í hinn forna farveg og síðan ræður hann ofan hjá Stakkanesi, fram í sjó, í svonefndan ,,Reiðarstein” (eins og hann lá áður en hann fluttist úr stað fyrir nokkrum árum.-” Landa­merkjalýsingunni til stað­festu rituðu meðal annarra nöfn sín séra Ísleifur Einars­son á Stað og Stephán Stepháns­son, eigandi að hálfu Hrófbergslandi.

Samkvæmt sömu landamerkjaskrá voru þinglesin merki milli Staðar og hjá­leigunnar Grænaness svohljóðandi: ,,Landamerkjalækur í Grásteinsengi.”

Með kaup­samningi dagsettum 31. janúar 1938 var nýbýlið Stakkanes byggt úr landi Grænaness og selt Sigurði Gunnlaugssyni innan eftirtalinna landamerkja: ,,Frá Staðará að sunnan að Landa­merkja­læk að vestan að Tíðalæk að austan og að norðan upp á Staðarfjall eins og vötnum hallar.” Hinn 26. júlí 1955 seldi Sigurður barna­barni sínu Guðmundi Björnssyni jörðina, en Guðmundur hafði þá setið hana um nokkurra ára skeið. Guðmundur afsalaði jörðinni til sonar síns, gagnstefnanda Haraldar Guðmunds­sonar, í ágúst 1993.

Árið 1956 tók Steingrímur Loftsson við ábúð á Stað. Varð fljótlega vart ágreinings milli hans og ábúandans á Hrófbergi, Halldórs Sigurbjörns Halldórssonar, hér eftir nefndur aðalstefnandi, um merki milli Hrófbergs og Hof­staða, sem þá voru komnir undir Stað. Héldu þær deilur áfram eftir að sonur Steingríms og núverandi ábúandi á Stað, Magnús Steingrímsson, tók við búi af föður sínum árið 1983. 

Með bréfi dagsettu 20. mars 1971 óskaði aðalstefnandi eftir upplýsingum frá veiði­­­mála­stjóra um hvernig fara skyldi með ágreining um landamerki, annars vegar milli Hrófbergs og Hofstaða og hins vegar milli Staðar og Stakkaness, áður en til stofnunar veiðifélags kæmi um nýtingu Staðarár. Segir í bréfinu, að áin hafi á síðustu tveimur áratugum færst smám saman yfir í Hróf­­bergs­land frá Staðar- og Stakka­­nes­landi, svo nemi tugum metra. Lýsti aðalstefnandi yfir vilja til að útkljá þann ágreining áður en til félagsskaparins yrði stofnað.  

Í júní 1979 leitaði sýslumaður Strandasýslu um sættir með aðalstefnanda og ábúendum á Stað, en án árangurs.

Þá gerðist það 17. ágúst 1984, að Matthías Sævar Lýðsson, héraðs­lögreglu­maður í Stranda­sýslu fór að Hrófbergi að beiðni aðalstefnanda og Magnúsar Stein­gríms­sonar á Stað. Þar var þá einnig staddur fyrr­verandi bóndi í sveitinni, Halldór Jóhann Jóns­son, fæddur 29. október 1908. Segir í skýrslu, sem Matthías ritaði um för sína, að deilu­aðilar hafi viljað fá vott­­fest álit Halldórs Jóhanns á því hvar merki lægju milli jarðanna Hrófbergs og Hofstaða. Í forsendum dóms þessa er nánari grein gerð fyrir skýrslu Matthíasar og landamerkjalýsingu Halldórs Jóhanns, sem gefin var á vett­vangi þann dag.

Með bréfi dagsettu 16. apríl 1986 mótmælti Magnús Steingrímsson girðingar­lögn aðalstefnanda á umþrættu landsvæði, sem Magnús taldi til­heyra Hofstöðum. Tíu árum síðar reyndu deiluaðilar enn að setja niður ágreininginn um merki, meðal annars fyrir mi lli­göngu sýslumanns í maí 1997. Í kjölfar árangurs­lausra sátta­tilrauna var mál þetta höfðað.

Skýrslur aðila og vitna fyrir dómi.

Aðalstefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð máls. Einnig voru leidd eftirtalin vitni: Brynjólfur Sæmundsson, kt. 130134-2039, Guðmundur Björnsson, kt. 180731-2109, Sigríður Björnsdóttir, kt. 091119-4089, Magnús Steingrímsson, kt. 240555-2209, Ásta Bjarnadóttir, kt. 131134-2559, Ágúst Guðmundsson, kt. 150744-4909, Guðrún S. Magnúsdóttir, kt. 080234-3259, Matthías Sævar Lýðsson, kt. 190757-2859, Katrín Jónsdóttir, kt. 160713-2839, Pétur Einar Bergsveinsson, kt. 251013-4979, Guð­björg Rannveig Bergsveinsdóttir, kt. 100905-3299 og Árni Jóhannsson, kt. 300133-2319. Verður nú rakið það helsta, sem fram kom í vætti þeirra og þýðingu getur haft við úrlausn málsins.

Brynjólfur Sæmundsson hefur verið héraðsráðunautur í Strandasýslu frá árinu 1959. Vitnið staðfesti fyrir dómi, að það hafi gengið á merki með deiluaðilum 17. ágúst 1984 í fylgd Halldórs Jóhanns Jónssonar og hlýtt á hann lýsa merkjum milli jarðanna Hrófbergs og Hofstaða. Vitnið kvað ljóst vera að svokölluð Merkissteins­lág samkvæmt lýsingu Haldórs Jóhanns liggi rétt utan við Neðra-Merkisstein og að Merkis­steinslágarlækur rynni úr láginni og réði merkjum niður til láglendis. Vitninu kvaðst vera kunnugt um örnefnið Lækja(r)­tún og lýsti því sem grænum bletti milli tveggja gildraga í Staðarhlíð. Vitnið kvaðst ekki vita nákvæmlega hvaðan það hefði þá vitneskju; hún hefði síast inn á þeim 38 árum, sem vitnið hafi búið í sýslunni. Vitnið benti þó einna helst á Benedikt Sæmundsson frá Aratungu sem heimildamann sinn, en Benedikt þessi hafi verið heimamaður bæði á Víðivöllum og á Stað. Vitnið kvað reiðgötur áður hafa legið víða í Staðardal og gat sérstaklega um reiðgötur á svonefndum Svörtubökkum, fram með eyrum Staðarár og einnig fram með hlíðinni Hrófbergsmegin, niður undan Merkissteinslág.

Guðmundur Björnsson er faðir gagnstefnanda Haraldar Guðmundssonar og fyrrum bóndi á Stakkanesi. Vitnið kvaðst hafa það eftir afa sínum Sigurði Gunn­laugs­syni, áður bónda á Stakkanesi, að Kúgildislækur væri sá lækur, sem merktur er með hnitapunktum 110 og 111 á dómskjali nr. 70 og rynni hann niður að reið­götum á Svörtu­­bökkum og þar út í Staðará. Vitnið kvaðst ekki kannast við örnefnið Lækja(r)­tún og kvaðst raunar aldrei hafa heyrt á það minnst. Aðspurt um örnefnið Neðra-Merkis­stein kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir þeim steini hin seinni ár og væri hann lík­lega horfinn sjónum manna.

Sigríður Björnsdóttir er föðursystir gagnstefnanda Haraldar, fædd á Græna­nesi við Steingrímsfjörð árið 1919. Hún ólst upp á Kleppustöðum í Staðardal og bjó þar fram yfir tvítugt, en flutti þá að Hólum í Staðardal og bjó þar í 14 ár. Þaðan flutti Sigríður suður á land árið 1953, en kom vestur á ný árið 1990. Vitnið kvaðst ekki fróð um örnefni í Staðardal, en kannast þó við Kúgildislæk, sem komi ofan hlíðina og renni niður með girðingu, sem girt er frá Hrófbergi (sbr. lína milli hnitapunkta 110 og 111 á dómskjali nr. 70), fyrir endann á henni, niður á reiðgötur og þar ofan í Staðará. Vitnið kvað reiðgötur hafa legið um Svörtubakka, yfir Kúgildislæk og fram eyrar alla leið fram Staðardal. Vitnið kvaðst ekki vita til um reiðgötur annars staðar í dalnum. Vitnið kvaðst ekki þekkja örnefnin Lækja(r)tún og Neðra-Merkisstein.

Matthías Sævar Lýðsson, er ættaður frá Kirkjubóli í Staðardal, nú bóndi í Kirkjubólshreppi og héraðs­lög­reglu­maður á Hólmavík. Vitnið bar fyrir dómi, að eftir því sem sér hefði skilist á Halldóri Jóhanni Jónssyni, er gengið hafi verið á merki í águst 1984, þá hafi svokölluð Merkisteinslág verið niður undan Neðra-Merkissteini, en í láginni hafi legið Merkisteinslágarlækur. Vitnið kvað Halldór Jóhann hafa bent á Kúgildislæk sem sunnan eða suðvestan við Merkisteinslág og rynni sá lækur niður hlíðina og bugðaðist út á eyrarnar í ótal hlykkjum. Vitnið staðsetti Kúgildislæk milli hnitapunkta 102 og 104 á dómskjali nr. 61. Vitnið kvað Lækja(r)tún hafa samkvæmt lýsingu Halldórs Jóhanns verið milli tveggja lækja eða gilja í Staðarhlíð og staðsetti vitnið örnefnið milli hnitapunkta 105 og 106 á því landabréfi, sem inn á eru færðar kröfu­línur aðila (dómskjal nr. 61).

Katrín Jónsdóttir, er systir Halldórs Jóhanns Jónssonar, fædd á Víðivöllum, og bjó þar til ársins 1948. Vitnið kvað Kúgildislæk eiga upptök sín við hlíðarlögg niður undan Neðra-Merkissteini og myndast þar úr fleiri en einni lækjarsytru. Lækurinn hafi hins vegar ekki verið kallaður Kúgildislækur fyrr en niðri á láglendi á eyrum, en þá hafi hann verið orðinn að vatnsfalli og verið djúpur og mikill, sérstaklega á Svörtu­bökkum. Vitnið kvaðst hafa heyrt um örnefnið Lækja(r)tún, en ekki geta staðsett það nákvæmar en neðarlega í Staðarhlíð, nærri Grásteinsengi. 

Pétur Einar Bergsveinsson er fæddur í Aratungu í Staðardal og bjó þar til 12 ára aldurs er hann flutti að Hrófbergi, þar sem hann var vinnumaður í 10 ár. Vitninu kvaðst ekki vera kunnugt um hvar merki lægju milli jarðanna Hrófbergs og Víðivalla (áður Hofstaða). Vitnið kvaðst ekki þekkja til örnefnisins Lækja(r)túns. Það kvaðst hafa heyrt getið um Kúgidislæk sem unglingur, en ekki geta staðsett hann eða lýst legu hans. Vitnið kvaðst vita til þess að reiðgötur hafi legið um Staðardal, meðal annars á Svörtubökkum og þaðan fram eyrar. Vitnið kvaðst ekki kannast við örnefnið Merkis­stein.

Guðbjörg Rannveig Bergsveinsdóttir er systir Péturs Einars, fædd í Aratungu og bjó þar til 18 ára aldurs. Þaðan flutti hún á næsta bæ, sem er Kirkjuból, og var þar í 4 ár, en flutti síðan úr Staðardal rúmlega þrítug að aldri. Vitnið kvaðst muna eftir reið­götum í Staðardal forðum daga, á leið sinni frá Aratungu til Hólmavíkur. Vitnið kvað þær hafa legið fram hjá Víðivöllum, niður að hól, sem marki Hofstaðarústir og þaðan niður á Hrófbergseyrar, sunnan megin í Staðardal, en Hrófbergseyrar hafi byrjað rétt neðan við Hofstaði.

Helgi Ingimundarson er fæddur að Tröllatungu í Kirkjubólshreppi, en fluttist í Staðardal 10 ára gamall og bjó að Hólum fram yfir fermingu. Þaðan flutti Helgi til Hólmavíkur og hefur búið þar síðan. Vitnið kvað Kúgildislæk vera læk, sem renni niður hlíðina Hrófbergsmegin, gegnt bænum Stakkanesi, og út í Staðará á móts við bæinn. Vitnið kvaðst hafa þessar upplýsingar frá fyrrum hús­bónda sínum, Magnúsi Steingrímssyni á Hólum. Vitnið kvaðst ekki þekkja örnefnið Lækja(r)tún og telja Neðra-Merkisstein ekki vera til lengur.

Ásta Bjarnadóttir er móðir Magnúsar Steingríms­sonar, ábúanda á Stað. Hún er fædd í Unaðsdal í N-Ísafjarðarsýslu, en bjó á Stað í 21 ár, frá 1956 til 1977. Vitnið kvaðst lítið þekkja til örnefna í Staðardal. Það kvaðst þó vita hvar Kúgildislækur rennur og staðsetja hann á milli Hrófbergs og Hofstaða, á þeim stað er aðalstefnandi hafi girt, framan við Kúgildislæk, í landi Hofstaða, að mati vitnisins. Vitnið kvað Efra- og Neðra-Merkissteina vera til í huga aðal­stefnanda en ekki sínum. Vitnið kvaðst ekki þekkja til örnefnisins Lækja(r)tún og telja það raunar ekki vera til. Vitnið kvaðst ekkert vita um reiðgötur í Staðardal.

 Magnús Steingrímsson er alinn upp á Stað og tók þar við búi af föður sínum 1983. Vitnið kvaðst þekkja dável til örnefna í Staðardal. Staðsetti vitnið Kúgildislæk u.þ.b. 300 metra austan við Neðra-Merkisstein (hnitapunkt 102). Lækinn kvað vitnið renna niður á reiðgötur, framan við girðingu, sem aðalstefnandi hafi í óleyfi girt í landi Hofstaða, og þaðan í Staðará. Vitnið kvað Lækja(r)tún vera neðan vegar, skammt framan við Tjaldholt. Vitnið kvað tvo djúpa læki vera í Staðarhlíð, við hnitapunkt 106 á dómskjali nr. 61, sem kallaðir væru Fremra- og Neðra-Lækjartúnsgil. Vitnið kvað reið­götur í Staðardal vera á þeim stað, sem bílvegur var lagður, þ.e. fram Svörtubakka og þaðan fram dalinn. Vitnið kvað Lyngmóa vera neðarlega í Hofstaðalandi og hafi aðalstefnandi girt kringum þá, í landi Staðar.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.

Aðalstefnandi reisir kröfur sínar í aðal- og gagnsök á áðurgreindum landa­merkja­lýsingum í landamerkjaskrám fyrir Hrófberg (nr. 66) og Staðarkirkjueignir (nr. 65) frá 1890, en vísar jafnframt til lögmannsúrskurðar Þorsteins Eyjólfssonar frá 1398. Samkvæmt téðum gögnum sé ljóst, að Kúgildislækur ráði merkjum milli Hróf­­bergs og Staðar (áður Hofstaða) af fjalli ofan til láglendis, eða reiðgatna, en lág­lendi verði að teljast á umræddu landsvæði inn í Staðardal (hnitapunktur 103 á dóm­skjali nr. 61) þótt örlítill halli sé til sjávar. Reiðgötur liggi og hafi í aldanna rás legið við fjallsrætur eftir Staðar­­­dal, en sökum notkunarleysis, vatnagangs og veðrunar greinist þær nú misjafn­lega og hafi víða horfið sjónum manna.

Þaðan sem Kúgildis­lækur komi niður á lág­lendi og reiðgötur (hnitapunktur 103) sé sam­kvæmt lögfestu Jóns Björns­sonar frá 1675 og landamerkjaskrá fyrir Hróf­berg sjón­hending yfir þverar eyrarnar í þann forna farveg Staðarár við Lækja(r)tún (hnita­­­punktur 106 á dómskjali nr. 61). Beri að miða við þá landa­­merkja­lýsingu, enda hvergi getið um ör­nefnið lækja(r)tún í öðrum lýsingum, sem hér skipta máli eða getið þar annarra ör­nefna, sem gefi til kynna aðra viðmiðun eða mæli gegn línu yfir þverar eyrar að Lækja(r)­­túni. Það styðji umrædda lögfestu, að hún hafi verið samþykkt af séra Einari Torfasyni, presti á Stað, og síðar séra Ísleifi Einarssyni á Stað, svo sem gögn málsins beri með sér.

Aðalstefnandi kveður umræddar landamerkjaskrár vera samhljóða um að merki milli Hrófbergs og Staðar liggi frá Lækja(r)túni (hnitapunktur 106) eftir hinum forna far­vegi Staðarár ,,ofan hjá Stakkanesi, fram í sjó”, eins og þar segi. Varðandi túlkun á orðunum ,,fornum farvegi” Staðar­ár vísar aðalstefnandi til mál­flutnings­yfir­lýsinga lög­manns síns og lögmanns gagnstefnanda landbúnaðarráðherra á dómþingi 6. október 1997 um að þeir væru sammála um að miðað skyldi við í dómi, að hluti hins forna far­vegar Staðarár lægi frá hnitapunkti 106 í hnitapunkt 206, sbr. dómskjal nr. 68. Aðal­stefnandi telur að hin tilvitnuðu orð ,,ofan hjá Stakkanesi, fram í sjó” merki niður hinn forna farveg ofan úr dalnum og niður með Stakka­nesi, en vegna ágreinings um túlkun greindra orða sé gagnstefnanda Haraldi Guðmundssyni einnig stefnt til að þola dóm um staðfestingu landa­merkja er að jörðinni Stakkanesi liggja.

Aðalstefnandi kveður ágreiningslaust, að svokallaður Neðri-Merkissteinn liggi í hnitapunkti 102 á dómskjali nr. 61. Hann mótmælir á hinn bóginn sem röngum mála­tilbúnaði gagnstefnanda, land­búnaðar­ráðherra, að því er varðar örnefnin Kúgildislæk, Lækja(r)tún og Staðarár­eyrar og kenni­leitið reið­götur. Þá er mót­­mælt fullyrðingum gagn­stefnanda Haraldar um rennsli Staðar­ár og öllum bolla­leggingum hans um hefðar­rétt.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda landbúnaðarráðherra.

Gagnstefnandi landbúnaðarráðherra reisir kröfur sínar í aðal- og varasök einkum á landamerkjaskrá nr. 65 yfir eignir Staðarkirkju, en í henni sé landa­merkjum Staðar skilmerkilega lýst, þar á meðal gagnvart jörðinni Hrófbergi. Við saman­burð á þeirri lýsingu, sem fyrst hafi verið skjalfest 1886 af séra Ísleifi Einarssyni á Stað, og lýsingu í landamerkjaskrá nr. 66 fyrir Hrófberg frá 1890 komi í ljós, að sú fyrri sé mun ítarlegri og fyllri en sú síðari. Landamerkja­lýsing Staðar eigi sér og beina sam­svörun í úrskurði Þorsteins lögmanns Eyjólfssonar frá 1398, en í úrskurðinum, sem og lög­festunni frá 1675, séu merki miðuð við reiðgötur en ekki láglendi. Ekkert bendi til þess, að ætlunin hafi verið að breyta merkjum milli jarðanna með landa­merkjaskrá nr. 66, en hún sé yngri en landamerkjaskrá nr. 65. Beri því að leggja hina eldri lýsingu til grundvallar í málinu og fallast á kröfur stefnanda í gagn­sök. Af þeim örnefnum og kenni­leitum, sem þar eru nefnd, telur gagnstefnandi að þessi skipti mestu máli: ,,annar steinn nær byggð”, Kúgildislækur, reið­götur og forn far­vegur Staðarár.

Gagnstefnandi segir óumdeilt, að ,,annar steinn nær byggð” sé líka nefndur Neðri-Merkissteinn, einstætt og stórt bjarg, sem standi á Staðardalsbrún. Litlu utar og ofan til í dalnum renni Kúgildislækur í svonefndu Fremra-Stekkjargili (hnita­punktar 110 til 111 á dómskjali nr. 70) og sé hann landamerkjalækur milli Hrófbergs og Staðar af fjalli ofan til reiðgatna. Gagnstefnandi telur ljóst hvar reiðgötur hafi legið til forna og vísar til skrár yfir örnefni fyrir Grænanes og Stakkanes á dómskjali nr. 24. Þar segi orðrétt: ,,Á Svörtubökkum eru reiðgötur sem liggja fram yfir Kú­gildis­­læk.” Þá komi fram í skrá yfir örnefni Hofstaða og Hofstaðaparts á dómskjali nr. 22, að ekki hafi verið venja ,,að nefna Kúgildislæk því nafni fyrr en niðri á Eyrunum.” Þar segi og, að lækurinn sé nokkuð vatnsmikill á eyrunum, ,,lygn með djúpum pyttum og renni í bugðu út Eyrarnar í Staðará.” Af framangreindum tilvitnuðum orðum megi vera ljóst, að Kúgildislækur ráði merkjum milli Staðar og Hróf­bergs, allt þar til lækurinn komi að reiðgötum á Svörtubökkum (hnitapunktur 109 á dómskjali nr. 70). Ágreiningslaust sé hvar Svörtubakkar liggi, en þeir séu ekki við fjallsrætur eða á því láglendi, sem aðal­stefnandi haldi fram, heldur mun neðar í Staðardal eða á eyrum Staðarár. Gagnstætt því sem aðalstefnandi haldi fram, sé ljóst að Kúgildislækur ráði merkjum á þessu svæði, ekki einvörðungu af fjalli ofan heldur einnig á láglendi eða allt þar til að lækurinn komi niður á Svörtubakka, á þeim stað er reiðgötur fram Staðardal liggi yfir lækinn (hnitapunktur 109). Þaðan sé sjónhending yfir þverar eyrarnar í Staðará, í hinn forna farveg hennar, en af hálfu gagnstefnanda sé því haldið fram, að hinn forni far­vegur Staðarár liggi sem næst þeim farvegi er áin renni nú í, á því svæði, sem hér um ræði. Á hitt sé fallist með aðalstefnanda, sbr. bókun í þinghaldi 6. október 1997, að sam­komulag sé milli nefndra málsaðila, að við það skuli miða í dómi, að hluti hins forna far­vegar liggi frá hnitapunkti 106 í hnita­punkt 206, sbr. dómskjal nr. 68. Þaðan ráði hins vegar far­vegur árinnar eins og hún renni í dag, þ.e. eftir hinum forna farvegi, ofan hjá Stakka­nesi og fram í sjó, sbr. hnitapunktur 108 á dómskjölum nr. 61 og 70.

Fallist dómur á framangreindar kröfur stefnanda í gagnsök leiði af sjálfu sér samkvæmt reglum eignaréttar, að aðalstefnanda verði með dómi gert skylt að fjar­lægja girðingu þá er hann reisti á hinu umþrætta landsvæði árið 1985, í óþökk gagn­stefnanda, sbr. meðal annars áður­greind mótmæli ábúandans á Stað í bréfi dagsettu 16. apríl 1986.

Gagnstefnandi mótmælir málatilbúnaði aðalstefnanda að því er varðar stað­setningu Kúgildislækjar og segir hana ranga. Þá er því vísað á bug, að láglendi Staðar­­­dals geti talist á þeim stað er aðalstefnandi haldi fram (hnitapunktur 103 eða 104 á dóm­skjali nr. 61) enda viðurkenni aðalstefnandi sjálfur, að þar halli landi út dalinn til sjávar. Loks er því mótmælt, að ljóst sé hvar Lækja(r)tún sé, en aðal­stefnandi hafi hvorki sýnt fram á tilvist né staðsetningu slíks túns eða örnefnis. Í Árbók Ferða­félags Íslands 1952 (dómskjal nr. 28) sé að finna greinargóða lýsingu á allri hlíðinni norðan megin Staðardals. Athygli veki, að hvergi sé í þeirri lýsingu eða öðrum skrif­legum heimildum minnst á hið ætlaða Lækja(r)tún.

Varðandi lagarök vísar gagnstefnandi til landamerkjalaga nr. 5/1882 og nr. 41/1919, með síðari breytingum, og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landa­merkja­bréfa og túlkun þeirra. Kröfu sína um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda Haraldar Guðmundssonar.

Gagnstefnandi Haraldur Guðmundsson styður kröfugerð sína í málinu einkum við samkomulag, sem gert hafi verið milli sín og aðalstefnanda með málflutningsyfir­lýsingum lögmanna þeirra á dómþingi 6. október 1997. Í þeim hafi greindir aðilar máls lýst því yfir með bindandi hætti, að þeir væru sam­mála um að staðfest verði með dómi, að svonefnd sáttalína á dóm­skjali nr. 61 skyldi ráða merkjum milli Hrófbergs og Stakkaness frá hnitapunkti 201 til 205, en ellegar frá hnitapunkti 201 svo langt fram eyrar, sem við geti átt eftir niðurstöðu dóms. Ágreinings­laust sé gagn­stefnenda í milli, að landamerki milli Stakkaness og Staðar liggi við Grásteins­engi, í hnita­punkti 206 á dómskjali nr. 68, sbr. málflutnings­yfir­lýsingar lögmanna gagn­stefnenda á dómþingi 5. nóvember 1997. Því beri að draga beina línu milli hnita­punkta 205 og 206 og miða merki Stakkaness í vestur, gagn­vart Hrófbergi, við línu þannig dregna.

Komist dómur að annarri niðurstöðu er á því byggt af hálfu gagnstefnanda, að ósannað sé að hinn forni far­vegur Staðarár hafi verið annars staðar en þar sem áin renni í dag. Beri því að miða merki milli Hrófbergs og Stakkaness við núverandi far­veg árinnar, allt frá landamerkjalæk milli Stakkaness og Staðar við Grásteinsengi, niður til sjávar í hnitapunkt 108 á dómskjali nr. 61. Varðandi túlkun á orðunum ,,ofan hjá Stakkanesi” í landamerkja­lýsingu fyrir Staðar­kirkju­eignir telur gagn­stefnandi að þau beri að skýra sem ,,fram­hjá Stakkanesi” í sam­ræmi við almenna mál­venju á þeim tíma er landa­merkja­skráin var gerð. Loks er bent á, að tún frá Stakka­nesi séu á ár­bakkanum Stakka­ness­ megin og hafi það land verið nýtt af Stakka­nesbændum og áður bændum á Grænanesi svo lengi, sem elstu menn muni. Þá hafi veiði í Staðará fyrir öllu því landi einatt verið talin tilheyra Stakkanesi. Vísar hann í þessu sambandi til 3. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Um önnur lagarök er vísað til laga nr. 41/1991 um landa­merki o.fl. með síðari breytingum, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar á meðal XXI. kafla laganna varðandi málskostnað, og almennra reglna íslensks réttar um gildi og túlkun landa­merkjabréfa.

Forsendur og niðurstöður.

Við úrlausn þessa máls er rétt að leggja til grundvallar landamerkjaskrár fyrir eignir Staðarkirkju og fyrir Hrófberg, sem lýst hefur verið hér að framan. Landa­merkja­skám þessum var báðum þinglýst á manntalsþingi á Hrófbergi 26. júní 1890. Undir landamerkjaskrá Staðareigna ritar m.a. nafn sitt til samþykkis Stephán Stephánsson eigandi hálfrar jarðarinnar Hrófbergs. Og Magnús Magnússon, sem þá var ábúandi á Hrófbergi ritar undir skrána með þessari yfirlýsingu:

“Að farið sje eptir lögfestu þeirri, sem Jón Björnsson gjörði fyrir Hrófbergs­landi um landamerki milli Hrófbergslands og Staðarkirkju eigna er eg með öllu sam­þykkur. 9/4-90 Magnús Magnússon (sign.)”

Ísleifur Einarsson prestur á Stað og umráðamaður Staðarkirkju eigna staðfestir landa­merkjaskrá Hrófbergs með nafnritun sinni undir nákvæmlega eins orðaða yfir­lýsingu, en með honum rita undir yfirlýsinguna þrír aðrir menn, bændur á Ósi og Fitjum.

Nafnritanir undir landamerkjaskrárnar benda eindregið til að menn hafi talið að þær væru efnislega samhljóða, þótt nokkur orðalagsmunur væri á þeim, og þær væru þannig báðar í samræmi við lögfestu Jóns Björnssonar frá 1675. Það er og álit dómenda að orðalagsmun landamerkjaskránna megi samræma einni efnisskýringu.

Í máli þessu er ekki deilt um landamerki Hrófbergs og Hofstaða (Hofstaða­parts, sem var og er hluti Staðarkirkjueigna, og var nytjaður frá Víðivöllum, þegar þar var síðast búið) fyrir sunnan og ofan Neðra-Merkisstein, sem í landamerkjaskrá fyrir Staðarkirkju eignir er nefndur “annar steinn nær byggð”. Hér verður því ekki fjallað um þennan hluta merkjanna, heldur þann hluta sem ágreiningur er um, þ.e.a.s. hver merkin eiga að vera frá Neðra-Merkissteini (hnitapunkti 102) niður til láglendis og yfir láglendið og þar með áreyrarnar. Staðsetning Neðra-Merkissteins er ágreiningslaus. Til að leysa úr ágreiningsefninu skiptir þrennt mestu máli, að skera úr um a) hvar Kúgildislækur á upptök sín og hvernig hann fellur, b) hvar eru Lækjatún (eða Lækjar­tún) og Lækjatúnsgil og c) hvar liggja þær reiðgötur sem talað er um í landamerkja­skránum.

a) Kúgildislækur.

Í landamerkjaskránum er þetta orðalag, þegar nefndur hefur verið Neðri-Merkissteinn, eða “annar steinn nær byggð”: Skrá Hrófbergs: “Skammt frá þeim steini kemur sá lækur, er Kúgildislækur hefur kallaður verið og er hann þessara landa á milli merki af fjalli ofan til láglendis, . . .”. Staðarskrá: “. . ., en þaðan skammt kemur sá lækur, sem Kúgildislækur hefur kallaður verið og er hann landamerki af fjalli ofan til reið­gatna, . . .” Báðar segja skrárnar að lækurinn komi skammt frá (“þaðan skammt”) merkissteininum, og báðar segja að hann sé merki af fjalli ofan.

Steinsnar framan og ofan við Neðri-Merkisstein kemur upp lækjarsytra sem fellur í grunna lág neðar í hlíðinni. Neðan við steininn og sumpart utan við hann koma upp fleiri smásytrur er sameinast hinni fyrr nefndu. Má sjá þetta glöggt af korti því sem fram hefur verið lagt og kröfulínur aðilja eru merktar inn á með hnitapunktum (dómskjal nr. 61). Lækur þessi beygir við hlíðarrætur og rennur út með hlíðinni og 500-600 metrum utar sameinast hann öðrum læk, sem af hálfu gagnstefnanda land­búnaðarráðherra er talinn vera Kúgildislækur, en aðalstefnandi kallar þann læk og gilið sem hann fellur í Stekkjargil. Ekki er ágreiningur um að lækurinn heiti Kúgildislækur eftir að þessir tveir koma saman. Frá Neðra-Merkissteini út að þeim læk er gagn­stefnandi landbúnaðarráðherra telur vera Kúgildislæk (Stekkjargili skv. aðalstefnanda) eru í láréttri hæðarlínu samkvæmt mælingu á landabréfi ríflega 520 metrar.

Dómendur telja vafalaust, að lækjarsytrurnar við Neðri-Merkisstein séu til muna líklegri til að vera upptök Kúgildislækjar en hinn ytri lækur, ef tekið er mið af orða­lagi landamerkjaskránna. En fleira þarf þó athugunar við.

Fram hafa verið lagðar í málinu nokkrar örnefnaskrár. Meðal þeirra er stutt skrá fyrir Hofstaði sem Magnús Steingrímsson bóndi og hreppstjóri á Hólum í Staðar­dal skráði 19. mars 1953. Henni fylgir viðbót, sem ber fyrirsögnina Hofstaðapartur Athugasemdir og viðbætur. Guðrún S. Magnúsdóttir kand. mag., starfsmaður Örnefna­stofnunar skráði viðbótina. Segir í upphafi hennar: ,,Farið var yfir örnefna­skrár Hofstaðaparts eða Hofstaða með Halldóri, Katrínu og Laufeyju, börnum Jóns Jóhannssonar sem skráði aðra örnefndskrána [Sjá síðar. Aths. dómenda], að Hæðar­garði 46, Reykjavík, 29. október 1981, og skráðar athugasemdir og viðbætur. Halldór er fæddur á Kálfanesi 29. október 1908 og fluttist að Víðivöllum 1912. Katrín er fædd 16. júlí 1913 og Laufey 20. september 1930, báðar á Víðivöllum. Systkinin fóru frá Víðivöllum 1948. Hofstaðapartur var nytjaður frá Víðivöllum.” Í viðbótinni er m.a. þetta haft eftir systkininum: ,,Ekki var venja að nefna Kúgildislæk því nafni fyrr en niðri á Eyrunum. Þar er hann nokkuð vatnsmikill, lygn með djúpum pyttum, rennur í bugðu út Eyrarnar í Staðará.”

Fyrir dómi var Katrín Jónsdóttir spurð hvort hún vissi hvar Kúgildislækur ætti upptök sín, hvar hann kæmi fyrst upp. Katrín: ,,Hann kemur upp við hlíðar, má segja, lögg, að mér finnst af fleirum en einum læk. Þetta kemur lækjarsytra þarna niður.” Dómari: ,,Já, hvar?” Katrín: ,,Niður þarna svona yfir fyrir, það er svolítið lægra, finnst mér, minnir mig, niður af merkissteininum.” Dómari: ,,Niður af merkissteininum?” Katrín: ,,Já.” Dómari: ,,Hann verður til þar úr svona lækjarsytrum?” Katrín: ,,Já, og einnig sko síkjum, sem eru meðfram hlíðarlögginni. Því varð hann svo vatnsmikill á lág­lendinu.” Framburður Katrínar er því til styrktar að Kúgildislækur eigi upptök sín við Neðri-Merkisstein. Enn kemur þó fleira til, sem síðar verður rakið.

Í þessari samantekt um Kúgildislæk er rétt að geta örnefnaskrár um Hofstaða­part, sem frammi liggur í málinu. Hún er handskrifuð og ber fyrirsögnina Örnefni og sagnir í landi Hofstaðaparts og er sögð eftir handriti Jóns Jóhannssonar bónda á Víði­völlum. Þar segir m.a. eftir að nefndir hafa verið Hærri- og Neðri-Merkissteinn: ,,Niðri á Staðardalseyrunum er lækur einn, sem Kúgildislækur heitir og rennur hann á einum stað í krók upp að hálsinum og eru merkin bein lína þaðan og í reiðgötu við Staðará, beint á móti Lækjatúni í Staðarhlíð. Síðan er sjónhending úr lækjarkrók þessum og upp í Neðri-Merkjastein.”

Nokkur vitni, Guðmundur Björnsson, Sigríður Björnsdóttir, Helgi Ingi­mundar­son og Magnús Steingímsson, töldu að Kúgildislækur kæmi af fjalli ofan í þeim skorningi sem aðalstefnandi kallar Stekkjargil, rúmlega 500 metrum utan við Neðri-Merkisstein. Að mati dómenda voru vitni þessi, að Magnúsi Steingrímssyni undan­skildum, lítt fróð um örnefni á þessu landsvæði. Til að mynda könnuðust þau ekki, nema Magnús, við Lækja(r)tún, og vitnin Guðmundur og Helgi könnuðust ekki við Neðri-Merkisstein á þeim stað, sem aðilar eru sammála um að hann sé.

Niðurstaða dómenda verður sú, að rétt sé að miða við að Kúgildislækur eigi fyrstu upptök sín í lækjarsytrum, sem koma upp framan og ofan við og neðan og utan við Neðra-Merkisstein. Í landamerkjalýsingu Halldórs Jóhanns Jónssonar, sem síðar verður gerð grein fyrir, er lækur þessi neðan við Neðra-Merkisstein kallaður Merkis­steinslágarlækur.

b) Lækjatún og Lækjatúnsgil.

Örnefnastofnun varðveitir nokkrar örnefnaskrár af því landsvæði sem hér er til umfjöllunar. Skal nú gerð grein fyrir hvernig fjallað er um örnefnið Lækja(r)tún og Lækja(r)túnsgil í þeim skrám, sem fram hafa verið lagðar í málinu:

Frammi liggur sem dómskjal skrá sem ber fyrirsögnina Staður. Er þar sagt að Magnús Steingrímsson, sem fyrr er getið hafi skráð hana 1953. Þar segir á einum stað, þar sem lýst er Staðarhlíð, frá örnefninu Stekknum, síðan: ,,Niður með Stekknum kemur Stekkjargil, allstórt. Þar sem það kemur niður, ofan brúnar, heita Stekkjarlágar-neðri. Í þeim, efst og austast, er Skötuormatjörn, þá Haugtjarnir og Haug­tjarnahvolf að Teigabrúnaholtum. Nokkru austar á fjallinu, ofan brúnar, eru Lægri- og Hærri-Lækjatúnslægðir. Í hlíðinni fyrir neðan Stekkjarhvolfin er Prestsengi. Er svo nokkur [svo] svæði frá því að Lækjatúnsgili. Er Lækjatún á bakkanum við Staðará.” Litlu síðar segir: ,,Neðan Lækjartúnsgilja, austar í hlíðinni, er Harðengi. Þá Tjaldholt . . .”

Í örnefnaskrá sem ber fyrirsögnina Staður Athugsemdir og viðbætur segir í upp­hafi: ,,Farið var yfir örnefnaskrár Staðar, sem skráðar voru af Magnúsi Steingríms­syni 1929 og 1953, með Jón[i] Sæmundssyni, Hátúni 4, Reykjavík, í Örnefnastofnun 3. apríl 1978 og skráðar eftir honum athugsemdir og viðbætur. Jón er fæddur 24. desember 1900 á Gilsstöðum, var á ýmsum bæjum í Staðardal og seinast á Stað 1939-43. Þá fluttist hann til Hólmavíkur og var þar 12 ár.” Guðrún S. Magnúsdóttir skráði eftir Jóni. Í þessari skrá segir á einum stað eftir að nefnt hefur verið örnefnið Tjald­holt: ,,Harðengi er harðir balar. Í Lækjatúni fer að verða fjölbreyttari gróður. Það er milli Lækjatúnsgilja. Prestsengi var mesti og bezti slægjublettur í hlíðinni.”

Örnefnaskrá Magnúsar Steingrímssonar 1929, sem drepið er á í inngangi að skrá Jóns Sæmundssonar, birtist í Viljanum, handskrifuðu blaði Ungmennafélagsins Geislans, 7. tbl. VII. árg., sem út kom í apríl 1929. Þar segir m.a.: ,,...og á bakkanum Tjaldholt, þá Harðeyri að Neðra Lækjatúnsgili, þá Lækjatún á bakkanum við eyrarnar sem eru með ánni, þá stykkið milli Lækjatúnsgilja. Frá Fremra Lækjatúnsgili er Prests­engi að Stekkjargili.”

Rétt er að minna hér á tilvitnun í örnefnaskrá Jóns Jóhannssonar, sem skráð er hér að framan, aftast í kaflanum um Kúgildislæk, en þar er nefnt Lækjatún.

Vitnið Brynjólfur Sæmundsson kvaðst fyrir dómi hafa ,,verið hér á svæðinu síðan vorið 1959 samfellt, og hef starfað hér hjá bændum, þannig að ég er orðinn næstum heimamaður.” Hann sagði m.a. þegar borin var undir hann landamerkjalýsing Halldórs Jóhanns Jónssonar, sem síðar verður getið, að ,,Lækjartún, það er grænn blettur sem er í Staðarhlíð milli tveggja gildraga og sem er þannig staðsett að eftir þessu væri merkjalínan þar yfir þverar eyrar.” Vitnið var spurt hvaðan það hefði þetta. Vitnið svaraði: ,,Það get ég ekki fullyrt frekar heldur en að ég veit hvar Hólmavík er. Mér hefur verið sagt það og það síast inn í mann.” Síðar í skýrslu vitnisins kom fram að hann hefði vitneskju um landsvæðið ekki síst frá Benedikt Sæmundssyni. Hann hefði verið frá Aratungu og hefði verið heimamaður bæði á Víðivöllum og Stað.

Matthías Lýðsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi, einkum vegna þess að hann skráði í lögregluskýrslu landamerkjalýsingu Halldórs Jóhanns Jónssonar. Hann benti á þann stað sem hann taldi eftir ábendingu Halldórs Jóns og lýsingu að væri Lækjatún, og var hann milli tveggja gilja í Staðarhlíð, nánar tiltekið milli hnitapunkta 105 og 106 á því landabréfi sem inn á eru færðar kröfulínur aðila (dómskjal nr. 61).

Vitnið Magnús Steingrímsson, bóndi á Stað, er sonur fyrri ábúanda á jörðinni, Steingríms Loftssonar (bóndi á Stað 1956-1983) og konu hans, Ástu Bjarnadóttur, sem einnig bar vitni í málinu. Vitnið Magnús kannaðist við örnefnið Lækja(r)tún, en taldi það vera nokkru utar (neðar, þ.e. austar) en fyrrgreindar heimildir herma, innan við Tjaldhól, liggja þar með ánni. Hann kvaðst muna eftir að þar hefði verið slegið á kalárum eftir 1965. Hann kannaðist einnig við Lækjatúnsgil og benti á ljósmynd á gilin tvö sem hnitapunktarnir 105 og 106 eru við.

Vitnið Guðmundur Björnsson, fyrrum bóndi og eigandi Stakkaness, kvaðst ekki þekkja örnefnið Lækja(r)tún, en kannaðist við Lækjatúnslægðir uppi í fjallinu.

Vitnið Katrín Jónsdóttir kannaðist við örnefnið Lækja(r)tún, en var ekki örugg um staðsetningu þess, taldi það þó vera nærri Grásteinsengi, landamerkjum Staðar og Stakkaness.

Önnur vitni kváðust ekki þekkja örnefnið Lækja(r)tún.

Niðurstaða dómsrannsóknarinnar í þessu efni er sú, að ekki leiki vafi á að Lækja­túnsgil séu þau tvö gil sem hnitapunktarnir 105 og 106 liggja við á því landa­bréfi, sem sýnir kröfulínur aðilja (dómskjal nr. 61). Flest bendir að mati dómenda til þess að Lækjatún sé milli þessara gilja, eins og aðalstefnandi heldur fram, og verður við það miðað við úrlausn málsins. Samræmist þetta því að merkjalínan liggi um þverar eyrar.

c) Reiðgötur.

Um þær er upplýst með vætti vitna að þær hafa legið um eyrarnar út og fram nærri ánni. Flest vitni nefndu fyrst að þær hefðu verið sjáanlegar á bökkunum sunnan árinnar framan við Svörtubakka, en sum vitni gátu þess að þær hefðu legið áfram fram (inn) dalinn sem næst ánni. Kemur þetta heim við merkingar á herforingjaráðskorti, sem fram hefur verið lagt.

Aðalstefnandi hefur haldið því fram að reiðgötur hafi verið í dalnum nærri hlíðinni að sunnanverðu. Eitt vitni, Brynjólfur Sæmundsson, taldi að svo hefði verið. Þegar hann var spurður um reiðgötur, svaraði hann: ,,Það eru fyrst og fremst tveir staðir, sem ég hef heyrt talað um reiðgötur þarna. Það var talað um reiðgötur niðri á svo­kölluðum Svörtubökkum, þarna fram með ánni, og svo sést fyrir greinilegum reið­götum og sem að sjálfsagt gangandi menn hafa myndað að einhverju leyti líka fram eftir eyrunum ... Og í öðru lagi eru svo reiðgötur fram með hlíðinni, upp við hlíð, niður undan Merkissteinslág, og þannig hafa leiðirnar sjálfsagt legið fyrr þarna í dalnum. Þær liggja vitanlega þar sem þurrast er og þægilegast að fara á hesti. En svo aftur á móti þarna á milli, milli bakkanna og svo aftur þar sem verður þurrara upp við hlíðina, þar er svona þúfnakargi sem er ekki þægilegur til þess að fara um.”

Dómendur telja vafalaust að reiðgötur hafi legið um dalinn á eyrunum nærri ánni. Þeir telja ekki útilokað að reiðgötur hafi einnig á fyrri tíð legið undir hlíðinni að sunnanverðu, en um það eru ekki önnur vætti en Brynjólfs Sæmundssonar.

Nánar um forsendur -niðurstöður.

Frammi liggur í málinu örnefnaskrá fyrir Hofstaðapart, sem Jón Jóhannsson skráði 1930. Jón var bóndi á Víðivöllum, faðir Halldórs Jóhanns, Katrínar og Laufeyjar, sem fyrr er getið. Í örnefnaskrá þessari, sem er stutt, eru tilgreind landa­merki Hofstaðaparts og Hrófbergs. Segir þar fyrst að merki milli jarðanna séu tveir stórir steinar, Hærri- og Neðri-Merkissteinn. Sá síðarnefndi er sagður vera á brúninni Staðardals megin. ,,Frá þeim steini er sjónhending í Kúgildislæk, þar sem hann rennur í krók niður með hálsinum og sjónhending úr læknum í reiðgötur við Staðará, beint á móti Lækjartúni í Staðarhlíð.”

Við vettvangsgöngu mátti sjá greinilegan vatnsfarveg frá þeim stað við hlíðar­löggina niður undan Neðri-Merkissteini, þar sem (Kúgildis)lækurinn sveigir út (eða niður) með hlíðinni. Farvegur þessi lá nokkurn spöl fram og niður, þ.e. til norð­vesturs, á láglendið, sveigði síðan út og aftur upp að hlíðinni. Aðalstefnandi hélt því fram að í þessum farvegi hefði Kúgildislækur fallið. Virðist dómendum þetta koma vel heim og saman við landamerkjalýsingu Jóns Jóhannssonar hér næst á undan, sbr. einnig aðra lýsingu hans í handskrifaðri örnefnaskrá, sem getið var hér að framan í kaflanum um Kúgildislæk.

Þá er að geta skýrslu lögreglunnar í Strandasýslu, sem dagsett er 17. ágúst 1984. Matthías Lýðsson lögreglumaður ritaði skýrsluna, sem fyrr er getið. Kom hann fyrir dóminn sem vitni. Í upphafi skýrslunnar skýrir Matthías frá því að hringt hafi verið í hann föstudaginn 17. ágúst kl.15.50 og hann beðinn að koma fram að Hróf­bergi. Fyrir dóminum skýrði vitnið svo frá að þessi ferð hefði verið farin fyrir tilstilli sýslumanns. Síðan segir orðrétt og stafrétt í skýrslunni: ,,Þangað kominn fór undir­ritaður að spyrjast fyrir um tilefni kvaðningarinnar. Reyndist það þá vera að vegna landa­merkjadeilu milli jarðanna Hofstaða og Hrófbergs, var þangað kominn fyrr­verandi bóndi þar í sveit, Halldór Jóhann Jónsson og vildu málsaðilar fá vottfest álit hans á hvar landamerki milli þessara jarða væru. Undirritaður fór því ásamt Halldóri Jóhanni og þeim Halldóri bónda á Hrófbergi og Magnúsi bónda á Stað á lögreglu­bifreiðinni T-500 fram á Hrófbergseyrar á þann stað sem Halldór Jóhann taldi landa­merkin vera. Skömmu eftir að komið var þangað kom þar Brynjólfur Sæmundsson héraðsráðunautur Hólmavík. Hlustuðu framantaldir ásamt undirrituðum á Halldór Jóhann lýsa landamerkjum milli jarðanna Hofstaða og Hrófbergs. Undirritaður vill taka fram [að] hvorki Magnús eða Halldór á Hrófbergi mótmæltu staðsetningu þeirra örnefna sem Halldór Jóhann nefndi í lýsingu sinni. Halldóri Jóhanni sagðist svo frá: ,,Ég átti heima á Víðivöllum frá 1912 til 1948, flutti þá að Stað og átti þar heima til 1956. Öll þau ár sem ég átti heima hér var aldrei neinn ágreiningur um landamerkin. Landamerkin eru: Sjónhending úr Lækjartúni í gegnum Sleifarsíki (sem nú er horfið vegna ágangs Staðarár) og í Merkissteinslág. Þaðan upp með Merkissteinslágarlæk að neðra Merkissteini. Frá honum eftir hryggjum upp að efra Merkissteini. Þegar ég tala um sjónhendingu úr lækjartúni held ég að fremur hafi verið tekin sjónhending frá fremri læknum.”

Er Halldór Jóhann var að lýsa landamerkjunum gengum við ásamt honum um eyrarnar og hann benti okkur á þá staði sem lýst er í landamerkjalýsingunni. Að loknum þessum fundi skildu leiðir og hver hélt heim til sín.”

Undir skýrsluna ritar skrásetjarinn, Matthías Lýðsson; einnig Halldór Jóhann Jónsson á eftir orðunum ,,vottast rétt eftir haft”. Brynjólfur Sæmundsson ritar undir sem vottur. Brynjólfur kannaðist fyrir dóminum við þessa vettvangsgöngu og undir­ritun sína. Vitnið Matthías Lýðsson upplýsti að hann hefði ekkert skráð hjá sér á vett­vangi, en hann hefði skrifað skýrsluna að kvöldi sama dags, og Halldór Jóhann hefði síðar skrifað undir, vottað að rétt væri eftir haft.

Vitnið Matthías benti í réttinum á örnefnastaði á landabréfum, og kvaðst hann hafa vitneskju sína eftir Halldóri Jóhanni Jónssyni, eins og hann hefði bent mönnum til þarna á eyrunum. Vitnið benti á Merkissteinslág niður undan Neðra-Merkissteini, þar sem hnitapunkturinn 103 er. Hann taldi að Kúgildislækur væri lækjarskorningur rétt vestan og neðan við Neðri-Merkisstein. Lækjatún taldi vitnið að væri milli Lækjatúns­giljanna, þ.e. milli hnitapunktanna 105 og 106. Vitnið minntist þess ekki að mótmælt hefði verið örnefna- og landamerkjalýsingu Halldór Jóhanns. Framburður vitnisins var að mati dómenda skýr og greinargóður.

Í vætti vitnisins Katrínar Jónsdóttur kom þetta fram:

Dómari: ,,Þú segir að Merkissteinninn, hann sé, þetta er landamerkjasteinn milli Hofstaða og Hrófbergs. Veistu hvernig merkin eru frá steininum? Niður í dalinn?”

Vitnið: ,,Sko, það er sjónlína, hefur mér verið sagt.”

Dómari: ,,Sjónlína?”

Vitnið: ,,Nú, um þverar eyrar. Halldór bróðir minn gaf . . . nafna sínum þetta upp fyrir mörgum árum. Og ég hef ekki önnur merki betri til að fara eftir en þau.”

Dómari: ,,Já, þú hefur séð þá lýsingu Halldórs bróður þíns?”

Vitnið: ,,Ja, hann hefur margoft sagt mér hana.”

Dómari: ,,Já, og þú heldur að hún sé rétt?”

Vitnið: ,,Ég get ekki vitað annað, því að það er það sem faðir okkar saagði okkur.”

Vitnið Guðbjörg Rannveig Bergsveinsdóttir fæddist árið 1905 í Aratungu í Staðar­dal, var þar til 18 ára aldurs, en fór þá að Kirkjubóli og var þar næstu fjögur ár. Hún kvaðst hafa verið liðlega þrítug þegar hún fluttist burt úr Staðardal. Í framburði hennar kom fram að eyrarnar í dalnum, sem riðið var eftir, þegar farið var út dalinn, hafi verið nefndar Hrófbergseyrar þegar komið var fram hjá eyðibýlinu Hofstöðum. Hrófbergseyrar hafi byrjað ,,svona rétt neðan við Hofstaði”.

Að öllu því virtu, sem hér hefur verið saman dregið, verður það niðurstaða dómenda í máli þessu, að fallast beri á kröfur aðalstefnanda um að landamerkjalína milli jarðanna Hrófbergs og Staðar skuli dregin frá Neðra-Merkissteini (hnitapunktur 102) eftir efstu upptökum Kúgildislækjar í hnitapunkt 103 og þaðan eftir beinni línu milli hnitapunktanna 103 og 106 við ytra Lækjatúnsgil, sbr. dómskjal nr. 61, í hnita­punkt 106A. Samkomulag er með aðalstefnanda og gagnstefnanda landbúnaðarráð­herra, að við úrlausn málsins skuli við það miða að forn farvegur Staðarár sé í þeim farvegi, sem áin rennur nú í, milli hnitapunktanna 106A og 206, sbr. dómskjal nr. 61. Verður því þessi viðmiðun um fornan farveg lögð til grundvallar í málinu. Fallist er á það með gagnstefnanda Haraldi Guðmundssyni, að málflutningsyfirlýsingar af hálfu aðal­stefnanda og gagnstefnanda Haraldar Guðmundssonar á dómþingi 6. október 1997 séu bindandi um að merki milli jarðanna Hrófbergs og Stakkaness skuli dregin eftir hnitapunktum 201 til 202, þaðan til 203, þaðan til 204, þaðan til 205 og þaðan upp (norður) í áðurgreindan hnitapunkt 206, í samræmi við línu sem þessir aðila mörkuðu til sátta, sbr. dómskjöl nr. 68 og nr. 61.

Samkvæmt framanrituðu eru staðfest eftirfarandi landamerki milli Hrófbergs og Staðar: Frá Vatnadalsá eftir háhrygg Þverholtanna að Hærra-Merkissteini í hnita­punkt nr. 101 (X=674812,7; Y=589442,0), þaðan í beina stefnu að Neðra-Merkis­steini í hnita­punkt nr. 102 (X=674541,8; Y=589959,5), þaðan eftir efstu upptökum Kúgildislækjar í hnitapunkt nr. 103 (X=674348,4; Y=590400,3), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 106A (X=674320,1; Y=591281,4) og þaðan í beina stefnu í hnita­punkt nr. 206 (X=673939,0; Y=591257,0), eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti.

Þá verða staðfest eftirfarandi landamerki milli Hrófbergs og Stakkaness: Frá hnitapunkti nr. 206 (X=673939,0; Y=591257,0) í beina stefnu að hnitapunkti nr. 205 (X=673958,3; Y=590867,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 204 (X=673717,2; Y=590882,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 203 (X=673559,1; Y=590794,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 202 (X=673338,0; Y=590807,0) og þaðan til sjávar í beina stefnu í hnitapunkt nr. 201 (X=672987,7; Y=590725,0), eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti.

Eftir þessum úrslitum verður aðalstefnandi sýknaður af öllum kröfum stefnenda í gagnsök.

Rétt þykir með hliðsjón af málavöxtum öllum og kröfugerð aðila, bæði upphaf­legri og endanlegri, að hver aðila beri sinn kostnað af máli þessu. Gjafsóknar­kostnaður aðalstefnanda, 1.746.529 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Vilhjálms Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu aðalstefnanda til að greiða virðisaukaskatt af mál­flutnings­þóknun. Gjafsóknarkostnaður gagnstefnanda Haraldar Guðmundssonar, 676.128 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu gagnstefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Dómsorð:

Landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Staðar í Hólmavíkurhreppi, Stranda­sýslu, ákvarðast svo: Frá Vatnadalsá eftir háhrygg Þverholtanna að Hærra-Merkis­steini í hnitapunkt nr. 101 (X=674812,7; Y=589442,0), þaðan í beina stefnu að Neðra-Merkissteini í hnitapunkt nr. 102 (X=674541,8; Y=589959,5), þaðan eftir efstu upp­tökum Kúgildislækjar í hnitapunkt nr. 103 (X=674348,4; Y=590400,3), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 106A (X=674320,1; Y=591281,4) og þaðan í beina stefnu í hnita­punkt nr. 206 (X=673939,0; Y=591257,0), eins og fram kemur á með­fylgjandi uppdrætti.

Landamerki milli jarðanna Hrófbergs og Stakkaness Hólmavíkurhreppi, Stranda­­­sýslu, ákvarðast svo: Frá hnitapunkti nr. 206 (X=673939,0; Y=591257,0) í beina stefnu að hnitapunkti nr. 205 (X=673958,3; Y=590867,2), þaðan í beina stefnu í hnita­punkt nr. 204 (X=673717,2; Y=590882,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 203 (X=673559,1; Y=590794,2), þaðan í beina stefnu í hnitapunkt nr. 202 (X=673338,0; Y=590807,0) og þaðan til sjávar í beina stefnu í hnitapunkt nr. 201 (X=672987,7; Y=590725,0), eins og fram kemur á meðfylgjandi uppdrætti.

Aðalstefnandi er sýkn af öllum kröfum stefnenda í gagnsök.

Hver aðila beri sinn kostnað af máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda, 1.746.529 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Vilhjálms Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður gagnstefnanda Haraldar Guðmundssonar, 676.128 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.