Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2016

Ríkissaksóknari (Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Þorsteinn Einarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að skýrslutaka yfir henni færi fram í Barnahúsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Brotaþoli skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2016, þar sem hafnað var kröfu brotaþola um að skýrslutaka af sér færi fram í Barnahúsi. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli krefst þess að framangreind krafa nái fram að ganga.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili hefur ekki uppi kröfur í málinu.

Í máli þessu eru ekki fyrir hendi þær aðstæður að brotaþoli komist ekki á þingstað vegna veikinda eða svipaðra ástæðna, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Þá á heimildarákvæði 9. gr. sömu laga hér heldur ekki við. Standa lög ekki til annars en að um skýrslutökuna fari eftir 1. mgr. 116. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2016.

Með ákæru útgefinni 22. september 2015, höfðaði ríkissaksóknari sakamál á hendur X, kennitala [...], [...], Kópavogi, „fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni, með því að hafa á tímabilinu frá byrjun árs 2013 til 14. mars 2013, í fjögur skipti, haft samræði og önnur kynferðismök við [A], kennitala [...], og káfað innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum, utandyra í Kópavogi og í bifreið á vegum [...] í Kópavogi sem ákærði ók, og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.“

Kolbrún Garðarsdóttir hdl. var skipaður réttargæslumaður brotaþola þann 21. október 2015. Í fyrirtöku þann 9. desember sl., óskaði réttargæslumaður eftir því að skýrslutaka af brotaþola færi fram í Barnahúsi. Fært var til bókar að sækjandi drægi í efa að lagaheimild stæði til þess en lagði það undir dóminn til ákvörðunar. Aðalmeðferð málsins var ákveðin 8. febrúar sl. Með tölvupósti þann 25. janúar sl. tilkynnti dómurinn að ákvæði 116. gr. laga nr. 88/2008, gætu staðið því í vegi að skýrslutakan færi fram í Barnahúsi. Réttargæslumaður lagði þá fram formlega kröfu um sama efni 8. febrúar sl. og krafðist úrskurðar.

Sækjandi lýsti því yfir að ákæruvaldið gerði ekki neinar kröfur að svo stöddu. Verjandi ákærða krafðist þess að kröfunni yrði hafnað á þeim forsendum að skilyrði skorti í lögum til þess að heimila skýrslutöku í Barnahúsi. Fara yrði að almennum reglum um skýrslutökur fyrir dómi samkvæmt sakamálalögum. Var málið tekið til úrskurðar eftir að réttargæslumanni, sækjanda og verjanda ákærða hafði gefist kostur á því að tjá sig stuttlega um kröfuna.

Í kröfu réttargæslumanns segir að aðstæður í réttarsal séu ekki sniðnar fyrir þarfir fatlaðs fólks og nauðsynlegt sé þegar tekin verði skýrsla af brotaþola að með henni verði manneskja sem hún treysti og þekkir auk þess sem umhverfið ætti að vera rólegt, þægilegt og öruggt. Vísaði réttargæslumaður til ákvæða 9. gr., og 2. og 3. mgr. 116. gr. laga 88/2008, um heimild fyrir dómara til að ákveða að skýrslutakan fari fram með umbeðnum hætti, auk 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fyrir liggur taugasálfræðilegt mat og geðrannsókn B geðlæknis. Í niðurstöðum matsins kemur fram að brotaþoli sé á ýmsan hátt barnaleg og eigi við sértækar minnistruflanir að stríða. Greindarvísitala hennar sé í kringum 70 og sé hún með töluverða skerðingu á minni. Í kröfu réttargæslumanns segir að ummönnunaraðilar brotaþola telji þroska hennar vera á við 6 – 7 ára gamalt barn. Brotaþoli er [...] ára og óumdeilt er að hún á við þroskaskerðingu að stríða.

Ákærði hefur samþykkt að víkja úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu. Þinghald er lokað skv. a. lið 10. gr. sakamálalaga, en fallist hefur verið á að réttindagæslumaður fatlaðra og systir brotaþola, sem jafnframt mun vera kunnáttumaður á sviði fatlaðra, verði brotaþola til halds og trausts í dómsal, án þess þó að hún hafi milligöngu um spurningar og/eða svör brotaþola. Hefur því verið reynt að koma til móts við þarfir brotaþola, um þægilegt og öruggt umhverfi, án þess þó að víkja frá ákvæðum sakamálalaga nr. 88/2008, um fyrirkomulag skýrslutöku af vitnum.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. mars 2013 og var þá með henni Elva Dögg Ásudóttir hdl. Liggur endurrit skýrslunnar fyrir í málinu ásamt mynddiski sem dómari málsins hefur skoðað. Verður ekki séð að í þeirri skýrslutöku hafi brotaþoli átt í erfiðleikum með að tjá sig um málið.

Meginregla sakamálalaga er sú að öllum sem eru orðnir 15 ára er skylt að koma fyrir dóm samkvæmt 1. mgr. 116. gr. sakamálalaga og gefa skýrslu á dómþingi. Samkvæmt 3. mgr. 116. gr. sömu laga er þó heimilt að vitni gefi skýrslu á öðrum stað ef vitni kemst ekki á þingstað vegna veikinda eða svipaðra ástæðna. Jafnframt er í 9. gr. sömu laga heimilað að taka skýrslu af barni yngra en 15 ára í sérútbúnu húsnæði.

Á það má fallast að heppilegra gæti verið að sértæk úrræði væru í sakamálalögum varðandi skýrslugjöf brotaþola fyrir dómi, eins og í tilviki því sem hér um ræðir. Hins vegar er það mat dómsins að allar undantekningar frá meginreglunni um skýrslugjöf vitna fyrir dómi beri að skýra þröngt, sérstaklega þar sem úrslit máls geta ráðist af framburði vitnis. Ekki er að finna heimild í sakamálalögum til þess að haga skýrslutöku af brotaþola með þeim hætti sem réttargæslumaður hefur krafist. Verður því að hafna framkominni kröfu um að skýrslutaka af brotaþola fari fram í Barnahúsi.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu réttargæslumanns brotaþola um að skýrslutaka yfir brotaþola fari fram í Barnahúsi.