Hæstiréttur íslands

Mál nr. 11/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 11/2006.

Said Mohamed Salih Hasan

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Gjafsóknarkostnaður.

Niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun gjafsóknarkostnaðar S var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005, þar sem kveðið var á um gjafsóknarkostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem var að öðru leyti fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að gjafsóknarkostnaður, sem sóknaraðila var ákvarðaður í úrskurði héraðsdóms, verði hækkaður til samræmis við framlagðan málskostnaðarreikning. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. október 2005 og tekið til úrskurðar 14. desember sl. Stefnandi er Said Mohamed Salih Hasan, Irbed, Jórdaníu. Stefndi er dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Skuggasundi, Reykjavík.

Í þinghaldi 14. desember sl. féllst stefnandi á kröfu stefnda um niðurfellingu málsins. Af hans hálfu var þó gerð krafa um málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Af hálfu stefnda var gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

Mál þetta höfðaði stefnandi til ógildingar á úrskurði dómsmálaráðherra 21. mars 2005, þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar 15. desember 2004 um að vísa honum úr landi og banna honum endurkomu í þrjú ár. Í greinargerð stefnda kemur fram að 14. nóvember 2005 hafi nefndur úrskurður verið tekinn upp, fyrri niðurstaða felld úr gildi og fallist á kröfu stefnanda um ógildingu úrskurðar Útlendingastofnunar. Stefndi telur að þessar lyktir hafi ekki getað dulist stefnanda með hliðsjón af því að hinn 12. september 2005 hafi dómsmálaráðherra fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja stefnanda um dvalarleyfi. Hafi því frá og með þessum tíma legið skýrt fyrir að hinn umstefndi úrskurður yrði felldur úr gildi ef eftir því yrði leitað. Hafi því málshöfðunin verið að óþörfu.

Af hálfu stefnanda er einkum vísað til þess að þrátt fyrir umræddan úrskurð dómsmálaráðherra 12. september 2005 hafi ráðuneytið ekki haft frumkvæði að því að fella hinn umstefnda úrskurð sinn úr gildi. Ráðuneytinu hafi einnig verið kunnugt um málsókn stefnanda á þessum tíma vegna ýmissa samskipta lögmanns stefnanda við starfsmenn ráðuneytisins.

Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningslaust að stefndi hefur leyst af hendi þá skyldu sem hann var krafinn um í málinu. Með vísan til a. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 og samkomulags aðila um niðurfellingu málsins verður það fellt niður.

Í málinu er jafnframt ágreiningslaust að stefndi leysti ekki af hendi skyldu sína fyrr en eftir að mál þetta var höfðað. Þá liggur fyrir að stefnandi málsins hafði sótt um gjafsókn beinlínis í þeim tilgangi að fá framangreindum úrskurði dómsmálaráðherra hnekkt. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi höfðað mál þetta að þarflausu eða án tilefnis af hálfu stefnda þannig að a. liður 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 eigi við. Verður því hafnað kröfu stefnda um að stefnandi verði úrskurðaður til að greiða honum málskostnað.

Með hliðsjón af því að stefnandi er með gjafsókn í málinu, sbr. gjafsóknarleyfi 22. apríl 2005, er ekki ástæða til þess að fjalla sérstaklega um það hvort dæma beri stefnda sérstaklega til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 225.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mál þetta er fellt niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Said Mohamed Salih Hasan, sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., að fjárhæð 225.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.