Hæstiréttur íslands
Mál nr. 243/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Þinghald
- Kæruheimild
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn
18. apríl 2012. |
|
Nr.
243/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda
Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Guðmundur
St. Ragnarsson hdl.) Y (Oddgeir
Einarsson hdl.) Z (Teitur
Björn Einarsson hdl.) Þ og (Björgvin
Halldór Björnsson hdl.) Æ (Arnar
Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál.
Vitni. Þinghald. Kæruheimild.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms um að sakborningunum X, Y, Z, Þ og Æ skyldi gert að
víkja úr þinghaldi á meðan brotaþoli gæfi skýrslu í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta
Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðilinn Æ skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11.
apríl 2012, varnaraðilinn Þ með kæru 12. sama mánaðar og varnaraðilarnir Z, Y
og X með kærum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11.
apríl 2012 þar sem varnaraðilum, auk meðákærða Ö, var gert að víkja úr
þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu í máli ákæruvaldsins á hendur þeim.
Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðilinn X gerir jafnframt þá kröfu með vísan til p. liðar 192. gr. laga
nr. 88/2008 að „úrskurður eða ákvörðun ... um að heimila framlagningu skýrslu Europol á ensku verði felldur úr gildi og framlagningu
gagnsins, án þýðingar, verði synjað.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði er einungis tekin afstaða til þess
hvort varnaraðilar skuli víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu í
málinu. Ekki er í úrskurðinum tekin afstaða til mótmæla við framlagningu
skýrslu Europol á ensku heldur tók héraðsdómari
ákvörðun með bókun í þingbók að ekki væri þörf á að leggja skýrsluna fram í
íslenskri þýðingu. Ekki er í lögum að finna heimild til að kæra þá ákvörðun til
Hæstaréttar. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu varnaraðila X, sem lýtur að
framlagningu skýrslunnar, vísað frá Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann
staðfestur
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður
er staðfestur.
Kröfu varnaraðila, X,
um að felld verði úr gildi ákvörðun um að heimila framlagningu skýrslu Europol á ensku, er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2012.
Við fyrirtöku málsins í dag krafðist réttargæslumaður
brotaþola, Steinbergur Finnbogason hdl., þess að ákærðu verði gert að víkja úr
þinghaldi á meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins með vísan til
1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sækjandi lýsti því yfir að
ákæruvaldið tæki undir framangreinda kröfu réttargæslumanns enda verði séð til
þess að ákærðu geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram, sbr. 3.
mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Jafnframt benti sækjandi á
að fram kæmi í skýrslu [A] sálfræðings, að það myndi verða brotaþola þungbært
að gefa skýrslu að ákærðu viðstöddum og að nærvera þeirra gæti haft áhrif á
vitnisburð brotaþola.
Á meðal
gagna málsins er vottorð [A] sálfræðings, en hún hefur haft brotaþola til
meðferðar frá 23. desember sl. Í vottorðinu segir að atvik málsins hafi haft
víðtæk og alvarleg áhrif á brotaþola og að hún þjáist af alvarlegri
áfallastreituröskun og þunglyndi vegna árásarinnar. Þá segir í vottorðinu að
þurfi brotaþoli að gefa skýrslu í nærveru ætlaðra gerenda séu raunverulegar
líkur á því að hún muni upplifa ofsakvíðakast, sem skerða myndi getu hennar til
að greina frá reynslu sinni.
Með vísan til framangreinds, annarra gagna málsins og rökstuðnings
réttargæslumanns og sækjanda fyrir kröfunni, er fallist á að málið sé þess
eðlis að telja verði að það geti orðið brotaþola sérstaklega þungbært að gefa
skýrslu í málinu að sakborningum viðstöddum. Með vísan til 1. mgr. 123. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á að nærvera ákærðu geti
orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft
áhrif á framburð þess. Krafan er því tekin til greina eins og hún er fram sett,
enda verður séð til þess að ákærðu geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún
fer fram, svo og að ákærðu geti lagt spurningar fyrir brotaþola, sbr. 3. mgr.
123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ragnheiður
Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Ákærðu skulu víkja úr þinghaldi á meðan brotaþoli gefur skýrslu í málinu.