Hæstiréttur íslands
Mál nr. 460/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 23. ágúst 2006. |
|
Nr. 460/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (enginn) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X sætti nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er til 21. febrúar 2007 bannað að koma á eða í námunda við heimili A og B að [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Einnig er lagt bann við því að X komi á sama tíma á eða í námunda við vinnustað A að [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið, mælt frá miðju þess. Þá er lagt bann við því að X veiti A og B eftirför eða setji sig á annan hátt í samband við þau.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. ágúst 2006.
Ár 2006, mánudaginn 21. ágúst , er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Allan V.Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess 11. ágúst sl. að X, [kt. og heimilsfang], verði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94, 2000, í 12 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [kt.] og B, [kt.], [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Einnig er þess krafist að lagt verði bann við því að X komi á eða í námunda við vinnustað A að [...], á sama tíma, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Enn fremur er þess krafist að lagt verði bann við því á sama tíma að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri sem nemur 200 metrum, sendi tölvupóst, bréf, böggla eða aðrar sendingar á heimili þeirra, vinnustað og skóla eða hringi í heima- vinnu- og farsíma þeirra, þar með talið að senda símaskilaboð og skilaboð á talhólf eða símsvara, eða setji sig á annan hátt í samband við þau.
Varnaraðili, X, krefst þess að synjað verði um kröfuna.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 26. apríl sl. hafi X verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart A og B í 3 mánuði. Í úrskurðinum komi fram að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaðaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A og B. Úrskurðurinn hafi verið birtur X þann 28. apríl sl.
Ekki liggi annað fyrir en að X hafi virt nálgungarbannið sem úrskurðað var 26. apríl sl., að frátöldu einu tilviki, sem kært hafi verið til lögreglu og muni hafa átt sér stað 6. júlí sl. X virðist hins vegar ekki hafa beðið boðanna þegar nálgunarbannið hafi runnið sitt skeið og hafi haft uppi sams konar framkomu og fyrir tíma nálgunarbannsins við heimili þeirra A og B að [...] og vinnustað A að [...].
Þann 3. ágúst sl. hafi lögregla handtekið X í verslun að [...] eftir að óskað hefði verið eftir aðstoð lögreglu vegna framkomu hans fyrir utan [...] og [...]. Lögð hafi verið fram kæra á hendur X vegna þessa tilviks og lýsi kærandi, A, atburðum með þeim hætti að kærði hafi komið að [...] rétt fyrir hádegi þann 3. ágúst. Þar hafi hann staðið öskrandi og mjög ógnandi og látið ófriðlega. Hann hafi síðan komið inn á lóðina og sveiflað þar barefli. Kærði hafi síðan gengið frá húsinu og í áttina að heimili [...], þar sem hann hafi farið inn á lóðina og barið allt húsið að utan og einnig útidyrahurðina. Lögregla hafi komið á vettvang og haft afskipti af kærða. Um klukkustund síðar hafi kærði birst aftur fyrir utan heimilið og þá verið öskrandi og með mjög ögrandi framkomu en gengið í burtu eftir skamma sund. Skömmu fyrir miðnætti hafi kærði birst á ný og látið öllum illum látum. Þá hafi verið hringt eftir aðstoð lögreglu en kærði hafi verið farinn af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn. Auk þess hafi A greint frá því að kærði hefði hringt fjölda símatala í hann á þessum tíma og að einnig hefði B orðið fyrir ónæði um síma. Kærandi hafi lagt fram mynddiska með upptökum úr öryggigsmyndavélum sem staðsettar séu við heimili hans og vinnustað. Sýni upptökurnar X koma að húsunum og hafa þar ógnandi framkomu.
Að mati lögreglu sé rökstudd ástæða til að ætla að X muni brjóta frekar af sér gagnvart Aog B verði ekkert að gert nú og því sé nauðsynlegt að hann sæti nálgunarbanni á ný. Nálgunarbann það sem kærði hafi verið úrskurðaður til að sæta þann 26. apríl sl. virtist bera árangur og svo virðist sem X hafi haldið sig frá þeim svæðum, sem honum hafi verið gert að halda sig frá í úrskurðinum. Framkoma hans eftir að nálgunarbanninu lauk bendi hins vegar sterklega til að hann muni halda þeim upptekna hætti sem hann viðhafði áður en hann var úrskurðaður í nálgunarbann. Því telji lögregla að á sama hátt og í apríl sl. sé nú rökstudd ástæða til að ætla að X muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A og B og af þeim sökum sé nauðsynlegt að hann verði úrskurðaður í nálgunarbann á ný og það í 12 mánuði.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 110. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94, 2000, sé þess krafist að framagreind krafa nái fram að ganga.
Kærði hefur mótmælt fram kominni kröfu. Hann gefur þær skýringar að hann hafi áhyggjur af velferð sonar síns sem sé hjá móður sinni B og af þeim sökum hafi hann talið sig eiga erindi við hana og heimilismenn hennar.
Er það því krafa varnaraðila að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um nálgunarbann verði hafnað.
Með vísan til rannsóknargagna, og þess sem fram er komið í málinu, þykir vera rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði A og B. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík með heimild í 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000 þó þannig að nálgunarbannið standi í 6 mánuði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðila, X, er í 6 mánuði frá birtingu úrskurðar þessa bannað að koma á eða í námunda við heimili A, [...] og B, [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Einnig er lagt bann við því að X komi á eða í námunda við vinnustað A að [...], á sama tíma, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Enn fremur er lagt bann við því á sama tíma að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri sem nemur 200 metrum, sendi tölvupóst, bréf, böggla eða aðrar sendingar á heimili þeirra, vinnustað og skóla eða hringi í heima- vinnu- og farsíma þeirra, þar með talið að senda símaskilaboð og skilaboð á talhólf eða símsvara, eða setji sig á annan hátt í samband við þau.