Hæstiréttur íslands

Mál nr. 578/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám


                                     

Miðvikudaginn 12. september 2012.

Nr. 578/2012.

 

VBS eignasafn hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Vingþóri ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám.

Felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að fjárnám yrði tekið í innstæðu á nánar tilgreindum fjárvörslureikningi, þar sem óvíst þótti að gerðarbeiðandi ætti þau réttindi sem hann krafðist fullnægt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. ágúst 2012, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 14. júní 2011 um að taka fjárnámi að kröfu sóknaraðila innstæðu á fjárvörslureikningi nr. 515-29-500099 að fjárhæð 2.678.598,3 sterlingspund. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess „að hinum kærða úrskurði verði hrundið, hann sýknaður af öllum kröfum varnaraðila og að staðfest verði“ framangreind ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Gerðarþoli Kcaj LLP  hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Nafni sóknaraðila hefur verið breytt úr VBS fjárfestingarbanka hf. í VBS eignasafn hf.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, VBS eignasafn hf., greiði varnaraðila, Vingþóri ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. ágúst 2012.

Með tilkynningu, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júlí 2011, var þessu máli skotið til dómsins. Sóknaraðili, Vingþór ehf., kt. 420709-0480, Aust­ur­stræti 16, Reykjavík, krefst þess að felld verði úr gildi fjárnámsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2011-05273, sem fór fram, 14. júní 2011, að kröfu varnaraðila í innstæðu á fjár­vörslu­reikn­ingi nr. 515-29-500099 að fjárhæð 2.678.598,3 bresk pund.

Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila um ógildingu þessarar fjárnámsgerðar, krefst hann þess að frekari fullnustuaðgerðum verði frestað þar til endanlegur dómur Hæsta­réttar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili, VBS fjárfestingarbanki, sem sætir nú slitameðferð, kt. 621096-3039, Suður­lands­braut 22, Reykja­vík, krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og að stað­fest verði sú ákvörðun sýslu­manns að fallast á kröfu varnaraðila um aðför hjá réttar­gæslu­aðila.

Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðis­aukaskatts á málflutningsþóknun.

Réttargæsluaðili, Kcaj LLP, breskt félags­númer OC 317991, 42 New Broad Street, London, Bretlandi, lætur málið ekki til sín taka að öðru leyti en því að hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málsatvik

Málavextir eru þeir að enska félagið Ghost Ltd. tók 5.000.000 breskra punda að láni hjá varnaraðila, 2. ágúst 2007. Að lánssamningnum voru tveir ábyrgðarmenn, annars vegar Kevin Stanford og hins vegar Kcaj LLP, sem hefur réttargæsluaðild að þessu dóms­máli en var gerðar­þoli hinnar umdeildu fjárnámsgerðar hjá sýslumanni.

Að sögn varnaraðila var fyrsta afborgun lánsins, á gjald­daga 30. september 2008, ekki greidd og gjald­felldi hann því allt lánið, 21. októ­ber 2008, og krafðist greiðslu. Þar sem greiðslan var ekki innt af hendi krafði varn­ar­aðili ábyrgðarmenn láns­ins um greiðslu þess 12. nóvember 2008, en bú lán­tak­ans, Ghost Ltd., hafði verið tekið til skipta 31. október 2008. Ábyrgðarmennirnir höfnuðu því að þeir hefðu tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins. Því höfðaði varnaraðili mál á hendur þeim fyrir Héraðs­dómi Reykjavíkur, 6. janúar 2009. Með dómi héraðsdóms, 2. október 2009, voru Kevin Stanford og réttar­gæslu­aðili sýknaðir. Varn­ar­aðili áfrýjaði þeim dómi og með dómi Hæstaréttar, 25. nóvember 2010, í máli nr. 715/2009, var hvor ábyrgð­ar­maður um sig dæmdur til að greiða varn­ar­aðila 2.500.000 bresk pund, ásamt 10,45% dráttar­vöxtum á ári frá 12. desember 2008 til greiðslu­dags, og 3.000.000 króna í máls­kostnað.

Á meðan málið var rekið fyrir dómi gerði varnaraðili tvo samninga sem varða sjálf­skuldar­ábyrgð réttargæsluaðila, Kcaj LLP, og dómur Hæstaréttar fjallar meðal annars um. Annars vegar gerðu kröfuhafar réttar­gæslu­aðila, þar á meðal varnaraðili, sér­stakt kröfu­hafa­sam­komulag (e. Creditors Agree­ment), 29. janúar 2009, um greiðslur réttar­gæslu­aðila á kröfum þeirra kröfu­hafa sem áttu aðild að samningnum. Hins vegar gerði varn­ar­aðili kaup­samn­ing við sókn­ar­aðila, 31. ágúst 2009, þar sem hann keypti af honum hluti í sókn­ar­aðila fyrir 4.344.773.656 krónur og greiddi fyrir þá með ýmsum kröfum.

Að sögn sóknaraðila seldi varnaraðili honum, með kaup­samningnum, 31. ágúst 2009, nánar til­teknar eignir, þeirra á meðal fjárkröfur varnaraðila á hendur réttar­gæslu­aðila, þar með talið fjár­kröfu sem sé skilgreind þannig í samningnum, í gr. 1.7.:

Fjárkrafa, í erlendum myntum, skv. ábyrgð sem Kcaj LLP., [...], tókst á hendur sem ábyrgð­ar­aðili (e. guarantor) á lánssamningi dags. 02.08.2007, milli VBS [varn­ar­aðila], sem lánveitanda, og Ghost Ltd., sem lántaka, um lán að fjár­hæð upphaflega GBP 5.000.000.

Ábyrgð Kcaj LLP., skv. framagreindum lánssamningi takmarkast við GBP 2.500.000 auk áfallinna vaxta, en VBS hefur stefnt Kcaj til greiðslu ábyrgðar­kröfunnar, og nemur dóm­krafa skv. stefnu dags. 4. desember 2008 með drátt­ar­vöxtum GBP 2.618.238,93. Kcaj LLP. gekkst undir skuldbindingu sem ábyrgð­ar­aðili (e. guarantor) með undirritun á lánssamninginn, en ekki var gerð sérstök yfir­lýsing milli VBS og Kcaj vegna ábyrgð­ar­innar. Kcaj LLP. hefur hafnað greiðslu­skyldu skv. ábyrgðinni og hefur tekið til varna í áður­nefndu dómsmáli.

VBS skuldbindur sig til þess að standa straum af öllum kostnaði sem hlýst af mála­rekstri Lex lögmannsstofu, í ofangreindu máli VBS gegn Kcaj og Kevin Stan­ford, sem einnig er stefnt sem ábyrgðaraðila, vegna hinnar seldu ábyrgð­ar­kröfu, sbr. grein 1.7., sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og eftir atvikum, Hæstarétti Íslands.

Kaupverð framangreindrar fjárkröfu og annarra fjárkrafna á hendur réttar­gæslu­aðila sem varnaraðili hafi selt sóknaraðila samkvæmt gr. 1.5 og 1.6 í kaup­samn­ingum, hafi numið 1.772.929.319 krónum, sbr. gr. 2.1 í kaup­samn­ingnum. Sókn­ar­aðili hafi að fullu greitt fyrir þær eignir sem hann keypti með samn­ingnum, þar með talda marg­nefnda fjárkröfu samkvæmt gr. 1.7. Með kaup­samn­ingnum hafi varnaraðili einnig fram­selt sóknaraðila öll rétt­indi og skyldur samkvæmt framangreindu sam­komu­lagi kröfu­hafa réttargæsluaðila, Kcaj LLP, sbr. gr. 1.5 í samn­ingnum. Rétt­ar­gæslu­aðila hafi verið tilkynnt um þetta framsal með sér­stakri til­kynn­ingu, dags. 27. október 2009, og einnig um fram­sal annarra seldra fjárkrafna.

Frá því að dómur Hæsta­réttar í framangreindu máli, nr. 715/2009, gekk, 25. nóvember 2010, hafi sóknar- og varnaraðili deilt um hvor þeirra eigi rétt til greiðslu á grund­velli sjálfskuldarábyrgðar réttargæsluaðila og hafi báðir gert til­kall til hennar, sbr. D-lið 1. gr. samkomulags um geymslu­greiðslu (e. Escrow Agreement). Í því skyni að skil­greina ágreininginn milli sóknar- og varnar­aðila og jafnframt að gera rétt­ar­gæslu­aðila kleift að fullnægja greiðsluskyldu sam­kvæmt dóm­inum hafi sóknar-, varnar- og réttar­gæslu­aðili, ásamt Logos slf., sem umsjónaraðila geymslu­reiknings (e. Escrow Agent), og Logos Legal Services Limited, gert með sér, 6. maí 2011, sérstakt sam­komu­lag um geymslu­greiðslu. Réttargæsluaðili hafi greitt geymslu­fjárhæðina (e. Escrow Amount), 10. maí 2011, samtals 2.676.918 bresk pund, inn á geymslu­reikn­ing­inn í samræmi við 6. gr. samkomulagsins. Í samkomulaginu lýsi sóknar- og varn­ar­aðili yfir að með því að greiða geymslu­fjár­hæðina hafi réttar­gæslu­aðili fullnægt greiðslu­skyldu sinni samkvæmt dóminum. Bæði sóknar- og varn­ar­aðili hafi þannig sam­þykkt að með framangreindri greiðslu full­nægði réttar­gæslu­aðili greiðslu­skyldu sinni í peningum.

Hinn 9. apríl 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili kveðst ekki hafa lýst kröfu í búið þar sem honum hafi, á þeim fresti sem hafi verið veittur til að lýsa kröfum í bú varnar­aðila, ekki verið kunnugt um afstöðu varnaraðila til þeirrar kröfu sem sóknar­aðili telur sig eiga samkvæmt kaupsamningi þeirra, gerðum 31. ágúst 2009. Hann hafi því ekki haft hug­mynd um að ástæða væri til að lýsa kröf­unni.

Hinn 13. maí 2011 hafi varnaraðili lagt fram aðfararbeiðni hjá Sýslumanninum í Reykjavík, þar sem hann hafi krafist þess að fjárnám yrði gert í nánar tilteknum reikn­ingi Logos slf., vegna kröfu sinnar á hendur réttargæsluaðila á grundvelli fram­an­greinds dóms. Með heimild í 28. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 27. gr. laganna, hafi sóknar­aðili verið viðstaddur þegar aðfararbeiðni varnaraðila var tekin fyrir hjá sýslu­manni, 6. júní sl. Hann hafi mótmælt framgangi gerðar­innar og krafist þess að aðfarar­beiðni varnaraðila yrði hafnað. Sýslumaður hafi ákveðið að fresta aðfarar­gerð­inni til 14. júní 2011. Þann dag hafi sýslu­maður ákveðið að aðfarar­gerðin skyldi ná fram að ganga og hafi tekið fjárnámi innstæðu á fjár­vörslu­reikn­ingi nr. 515-29-500099 að fjár­hæð 2.678.598,3 bresk pund eftir ábend­ingu varnaraðila. Sókn­ar­aðili hafi mót­mælt því að fjár­nám yrði gert og hafi farið fram á að aðfarargerð yrði frestað þar til leyst yrði úr ágreiningi um hana fyrir héraðs­dómi. Logos, sem umsjónar­aðili geymslu­reikn­ings hins fjárnumda, hafi mót­mælt því að hið fjárnumda yrði tekið úr sínum vörslum. Varnaraðili hafi mót­mælt því að aðfarar­gerð yrði frestað og hafi sýslu­maður ákveðið að aðfarar­gerð yrði fram haldið að kröfu varnaraðila. Þeirri ákvörðun sýslu­manns skaut sóknar­aðili til héraðs­dóms, 13. júlí 2011, með kröfu um ógild­ingu hennar.

Þetta ágreiningsmál um ákvörðun sýslumanns var þingfest 15. ágúst sl. Á dóm­þingi 25. nóvember krafðist sóknaraðili þess að dómurinn heimilaði vitna­leiðslur í mál­inu en vitnaleiðslur eru einungis heimilar í sérstökum undantekningartilvikum í málum sem eru rekin samkvæmt lögum nr. 90/1989 um aðför. Með úrskurði 25. janúar 2012 hafnaði héraðsdómur því að sóknaraðila væri heimilt að leiða vitni. Hæsti­réttur féllst hins vegar á kröfu hans með dómi 23. mars sl.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir aðallega á því að það sé hann, en ekki varnaraðili, sem sé réttur og löglegur eigandi þeirra réttinda sem aðfararbeiðni varnaraðila grundvallist á. Teljist sóknaraðili ekki hafa fært nægar sönnur fyrir fyrstu málsástæðu sinni byggir hann á því að í öllu falli sé óljóst að varnaraðili eigi þau réttindi sem hann krefjist full­nægt, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Varnaraðili hafi selt sóknaraðila fjárkröfu sína á hendur réttargæsluaðila með kaup­samn­ingi, dags. 31. ágúst 2009. Sóknaraðili skyldi greiða kaup­verð þeirra eigna, sem varnaraðili seldi honum með kaupsamningnum, með hækkun hluta­fjár og skyldi varnar­aðili eignast allt hlutafé í sóknaraðila, sbr. gr. 2.2 í kaup­samn­ingnum. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi að fullu greitt fyrir þær eignir sem varnar­aðili seldi honum með kaup­samn­ingnum, þar með talið fjárkröfu á grundvelli sjálf­skuld­ar­ábyrgðar, sbr. gr. 1.7 í samn­ingnum.

Varnaraðili hafi framselt sóknaraðila rétt sinn til greiðslu úr hendi réttar­gæslu­aðila þegar fjár­krafa á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar réttargæsluaðila á skuld­bind­ingum Ghost var seld sókn­ar­aðila með kaupsamningi, dags. 31. ágúst 2009. Með fram­sali á fjár­kröf­unni hafi varn­ar­aðili fyrir­gert rétti sínum til greiðslu fjárkröfunnar úr hendi réttar­gæslu­aðila, og þar af leiðandi rétti til fullnustuaðgerða gegn réttar­gæslu­aðila. Varnaraðila hafi því skort eign­ar­réttindi yfir fjárkröfunni til þess að hann gæti krafist aðfarar á grund­velli hennar hjá rétt­ar­gæslu­aðila. Í öllu falli sé óvíst að varnar­aðili eigi þau réttindi, sem hann krefst full­nægt, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um aðför.

Kaupsamningurinn sem sóknar- og varnaraðili gerðu, 31. ágúst 2009, standi óhagg­aður. Varnaraðili hafi hvorki rift samningnum né gert til þess nokkra tilraun og samn­ingur­inn hafi ekki verið ógiltur með dómi, hvorki í heild né að hluta. Því sé ekki hægt að líta fram hjá honum í lögskiptum sóknar- og varnaraðila. Varnaraðili hafi selt þá fjár­kröfu sem sé grundvöllur aðfararbeiðni hans og óumdeilt sé að greitt hafi verið fyrir hana fullt verð sem ákveðið var í kaupsamningnum. Þar með sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að varnaraðili eigi ekki lengur þá fjárkröfu sem var grund­völlur fjárnáms hans.

Varnaraðili hafi með kaupsamningnum selt sóknaraðila allar fjárkröfur sínar á hendur réttargæsluaðila, þar með talda fjárkröfu vegna sjálfskuldarábyrgðar réttar­gæslu­aðila á skuld­bind­ingum Ghost. Samanlagt kaupverð þessara fjárkrafna hafi numið 1.772.929.319 krónum, sbr. gr. 2.1 í kaupsamningnum, sem sókn­ar­aðili hafi að fullu greitt. Varnaraðili hafi staðfest að sóknaraðili hafi að fullu greitt honum fjár­kröfur á grundvelli lánasamninga, sbr. gr. 1.5 og 1.6 í kaup­samn­ingnum, í fram lögðum tölvupósti frá 28. mars 2011, sbr. einnig til hlið­sjónar eftir­far­andi úr B-lið 1. gr. samkomulags um geymslugreiðslu, þar sem segi:

VBS framseldi réttindi sín samkvæmt kröfuhafasamkomulaginu til Vingþórs þann 27. október 2009 og framseldi undirliggjandi lán VBS til Kcaj í ágúst 2009, eins og Kcaj var tilkynnt um 27. október 2009.

Sóknaraðili hafi því greitt fyrir allar kröfur sem varnaraðili átti á hendur réttar­gæslu­aðila og fengið þær framseldar sér. Fjárkröfur varnaraðila á hendur réttar­gæslu­aðila, lánasamningar skv. gr. 1.5 og gr. 1.6, og krafa á grundvelli sjálf­skuldar­ábyrgðar skv. gr. 1.7, í kaupsamningnum, hafi verið seldar sóknaraðila og hann greitt fyrir allar kröfur­nar á sama tíma með sama hætti, það er með útgáfu nýs hlutafjár. Af þessu sé ljóst að varnaraðili hafi framselt sóknaraðila rétt sinn til greiðslu á fjár­kröfu sem aðfar­ar­beiðni hans grundvallast á. Varnaraðili eigi þannig ekki þau rétt­indi sem hann krefst fullnægt og geti þar af leiðandi ekki gert fjárnám á grundvelli þeirra. Í öllu falli liggi fyrir að óljóst sé hvort varnaraðili eigi þau réttindi sem hann krefst fullnægt, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Varnaraðili hafi undirritað, 29. janúar 2009, sérstakt kröfuhafasamkomulag. Það taki meðal annars til allra framangreindra fjárkrafna (lána­samninga og sjálf­skuld­ar­ábyrgðar). Í því séu ítarleg ákvæði um fjár­kröfu varnar­aðila á grundvelli sjálf­skuld­ar­ábyrgðar réttargæsluaðila. Sam­komu­lagið kveði meðal annars á um með­höndlun þeirrar kröfu og skilyrði fyrir greiðslu á grund­velli hennar, sbr. nánar 10. gr. þess. Í sam­komulaginu séu lán kröfu­hafa skilgreind sem „lánin sem veitt hafa verið Kcaj af kröfu­höfum (þ.m.t. ábyrgð VBS) en upplýsingar um þau séu í fylgi­skjali nr. 1“. Þá séu lán kröfu­hafa skil­greind á meðal krafna, sbr. eftirfarandi skil­grein­ingu á kröfum í sam­komu­laginu: „[K]röfur kröfu­hafa á hendur Kcaj vegna allra fjár­hæða sem gjaldfallnar eru skv. lánum kröfu­hafa, að meðtöldum öllum áföllnum vöxtum.“ Í 8. gr. sam­komu­lags­ins sé mælt fyrir um með hvaða hætti kröfur kröfuhafa skuli endurgreiðast. Þar komi eftir­far­andi fram í gr. 8.3:

Ef greiða á kröfuhöfunum áður en úrskurður er fenginn um gildi ábyrgðar VBS, sbr. grein 10, skal eftirlitsstjórnin tryggja að fjárhæð sem svarar til fjárhæðar sem VBS bæri vegna ábyrgðar VBS verði lögð inn á geymslureikning og greidd út samkvæmt skil­málum greinar 10.

Í gr. 10.3 í samkomulaginu komi eftirfarandi fram:

Ef niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur (eða Hæstaréttar Íslands, ef málinu verður áfrýjað) verður sú að ábyrgð VBS sé gild skulu réttindi VBS samkvæmt ábyrgð­inni fá stöðu kröfu í skilningi samnings þessa og VBS skal fá það greitt sem því ber sam­kvæmt grein 8, þ.m.t. það sem hefur verið lagt inn á geymslureikninginn vegna ábyrgðar VBS.

Af framangreindu, sem og efni kröfuhafasamkomulagsins í heild, sé ljóst að greiðsla krafna kröfuhafa réttargæsluaðila, þar með talið greiðsla fjárkröfu á grund­velli sjálf­skuld­ar­ábyrgðar, réðist af ákvæðum kröfuhafasamkomulagsins. Af þeim sökum hafi öll réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt kröfu­hafa­sam­komu­lag­inu, þar með talið réttur til greiðslu á grundvelli framseldrar fjárkröfu vegna sjálf­skuld­ar­ábyrgðar, verið sér­stak­lega framseldar sóknaraðila með yfirlýsingu. Því hafi skuldara fjár­kröfu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar, réttar­gæslu­aðila, verið til­kynnt um framsal ábyrgðar­kröfunnar með fullnægjandi hætti. Þetta fái og stoð í fund­ar­gerð eftirlits­stjórnar réttargæsluaðila (e. Supervisory Board), 6. nóvem­ber 2009, en þar komi meðal annars eftir­far­andi fram:

FRAMSAL AF HÁLFU VBS

4.1. Fram kom að félagið hefði móttekið afrit af bréfi frá VBS til allra aðila kröfu­hafa­sam­komulagsins þann 13. október þar sem fram kom að VBS hefði framselt rétt­indi sín samkvæmt kröfuhafasamkomulaginu milli félagsins, Aska, Straums og Fold­ungs dags. 29. janúar 2009 (kröfuhafasamkomulagið) til Vingþórs ehf. Fram­kvæmda­stjóri félags­ins, Rupinder Cheema, hafi í kjölfarið rætt við fulltrúa VBS, Bryn­jólf Bjarna­son, sem hafi staðfest að Vingþór ehf, væri félag undir stjórn Landsbanka Íslands hf. (Lands­bank­inn) og að fulltrúi Vingþórs yrði Sigfús Oddsson frá Lands­bank­anum en að Brynj­ólfur Bjarnason myndi áfram koma að málum þar til breytingin væri form­lega frá­gengin.

4.2. Í kjölfar þessa bréfs hafi tilkynningar verið mótteknar af Rupinder Cheema þar sem félaginu var skýrt frá framsalinu og óskað var eftir því að félagið greiddi það sem VBS ætti tilkall til samkvæmt kröfuhafasamkomulaginu eða láns­samn­ing­unum sem vísað er til að ofan, inn á reikning Vingþórs ehf.

Af framangreindri fundargerð sé ljóst að réttargæsluaðili hafi, sem skuldari, tekið við tilkynningu um framsal og að honum var ljóst að greiðsla á grundvelli kröfu­hafa­samkomulagsins, þar með talið greiðsla fjárkröfu á grundvelli sjálf­skuldar­ábyrgðar hans eftir ákvæðum gr. 8.3 og 10.3, ætti að berast sóknaraðila, þar sem réttur til greiðsl­unnar hefði verið framseldur. Byggir sóknaraðili á því, að til viðbótar því að fjár­krafa á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar réttargæsluaðila hafi verið framseld sóknar­aðila með fullgildum og skuldbindandi hætti, hafi skuldara fjárkröfunnar, réttar­gæslu­aðila, verið tilkynnt um framsal með fullnægjandi hætti, með framangreindri til­kynn­ingu, og fundargerð eftirlitsstjórnar réttargæsluaðila. Réttar­gæslu­aðila hafi að fullu verið kunnugt um framsal fjárkröfunnar. Til frekari stuðn­ings þeirri staðhæfingu leggi sókn­ar­aðili fram tölvupóstsamskipti. Í dæma­skyni megi nefna að í tölvu­pósti Ann Grewar, lögmanns réttar­gæslu­aðila hjá Logos Legal Service í Bret­landi, til Dag­marar Þórðardóttur, lögfræð­ings hjá varnar­aðila, dags. 13. október 2009, segi:

Kæra Dagmar Þakka þér fyrir tilkynninguna. Gætir þú vinsamlegast staðfest hvort þetta þýði að VBS hafi einnig framselt réttindi sín í tengslum við lánið sem veitt var til Kcaj LLP? Ég geri ráð fyrir að svo sé en yrði þakklát ef þú gætir staðfest það.

Þá hafi Rupinder Cheema, framkvæmdastjóri (e. Investment Director) réttar­gæslu­aðila, sent Sigfúsi Odds­syni, full­trúa sóknaraðila í kröfuhafaráði réttar­gæslu­aðila, Sverri Berg­steins­syni og Arn­ljóti Ástvaldssyni, auk Ólafs Haralds­sonar hrl., lög­manns varnar­aðila, og áður­nefndri Ann Grewar, hjá Logos í Bret­landi, tölvupóst, 30. nóvember 2010. Þar komi fram að Kcaj hafi tapað framan­greindu dóms­máli, nr. 715/2009, í Hæstarétti. Af tölvupóstinum sé ljóst að fram­kvæmda­stjóri réttar­gæslu­aðila beini honum til fulltrúa sóknaraðila, sem eiganda þeirrar fjár­kröfu sem réttar­gæslu­aðili var dæmdur til að greiða samkvæmt dóminum, og að skuld­ari fjár­kröf­unnar, réttargæsluaðili, ætlaði sér að greiða sóknar­aðila vegna fjár­kröf­unnar. Í öllu falli hafi ábyrgðarmaðurinn vitað af og þekkt framsal fjárkröfunnar og það því full­nægj­andi. Í tölvupóstinum komi meðal annars eftirfarandi fram:

Í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar í síðustu viku um ábyrgð á lánveitingu til Ghost vildi ég heyra í þér varðandi kröfuna ykkar, sérstaklega þar sem Ólafur Haralds­son hefur haft samband við Ann hjá Logos varðandi greiðslu.

Eins og fram hafi komið hafi varnaraðili stefnt réttargæsluaðila áður en kaup­samn­ingur um fjárkröfu var gerður. Varnaraðili hafi því verið sóknaraðili að því máli frá upphafi. Aðildinni til sóknar hafi ekki verið breytt undir rekstri málsins. Réttar­gæslu­aðili hafi tekið við tilkynningu um framsal á fjárkröfunni áður en rekstri máls­ins lauk en mótmælti ekki aðild til sóknar enda hafi deila máls­aðila snúist um hvort ábyrgðin væri gild sjálfskuldaábyrgð, en ekki hver væri eigandi kröf­unnar. Dóms­orðið geti því ekki breytt gildum kaupsamningi milli sóknar- og varn­ar­aðila og ekki sé til­efni til að líta á dómsorðið sem endanlega niðurstöðu um hver sé hinn eigin­legi kröfu­eig­andi þar sem umræddur kaupsamningur hafi ekki verið umfjöll­unar­efni dóms­ins og ekki hafi verið tekist á um það hver ætti fjárkröfuna á hendur réttar­gæslu­aðila. Til að mynda hafi kaupsamningurinn ekki verið lagður fram í málinu. Með aðild­inni hafi rétt­indum málsaðila ekki verið ráðstafað enda hafi öllum aðilum máls­ins, bæði til sóknar og varnar, verið ljóst að varnaraðili hefði þá þegar fram­selt sóknar­aðila kröf­una.

Þá bendir sóknaraðili á 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem segi að framselji sóknaraðili í máli þau réttindi sem dómkrafa hans varðar eftir að mál er höfðað en áður en það er tekið til dóms taki nýi eigandinn í hans stað við aðild að mál­inu í því horfi sem það er. Af lagaákvæðinu sé ljóst að sóknaraðili sé hinn rétti dóm­hafi, en hvergi í ákvæðinu sé krafist tilkynningar til skuldarans eða annarra aðila. Í versta falli gæti dómur Hæstaréttar í máli nr. 715/2009 hafa fallið á grundvelli rangra forsendna, það er þeirra að varnaraðili væri eigandi kröfunnar, en ekki sé, undir neinum kringumstæðum, hægt að líta svo á að sá aðili sem haldi uppi dóms­máli vegna kröfu sem hann hafi framselt sé réttmætur eigandi kröfunnar þrátt fyrir fram­salið. Þá sé 22. gr. laga nr. 91/1991 skýr um réttaráhrif framsals undir rekstri dóms­máls, þ.e. framsalið sé gilt og hinn nýi eigandi taki við málinu.

Sóknaraðili bendir jafnframt á að tilkynning til skuldara sé ekki skilyrði fyrir því að framsal taki gildi, heldur sé það hið eiginlega framsal frá framseljanda til fram­sals­hafa sem ráði úrslitum um hvort sóknaraðili sé eigandi kröfunnar, sem í þessu til­viki sé kaupsamningur aðila, auk fram­sals­til­kynn­ingar. Tilkynning til skuldara kunni að varða réttarvernd framsalshafa gegn því að skuld­ar­inn geti ekki lokið greiðslu­skyldu sinni með greiðslu til fram­selj­anda kröf­unnar, en í því tilfelli sem hér sé til skoð­unar hafi skuldarinn ætlað að greiða sókn­ar­aðila, ekki varnar­aðila, en með sam­komu­lagi um geymslugreiðslu hafi skuldarinn greitt Logos sem skyldi greiða rétt­mætum eiganda kröfunnar eftir að dómstóll hefði úrskurðað um hvor væri réttur eig­andi kröfunnar.

Sóknaraðili telur allt framangreint sýna, að ógilda beri aðfarar­gerðina. Varn­ar­aðili eigi ekki fjárkröfuna á grundvelli sjálf­skuldar­ábyrgðar réttargæsluaðila, heldur sókn­ar­aðili. Varnaraðili hafi fengið greitt fyrir fjár­kröfuna fullt verð og geri nú  til­raun til þess að fá hana að auki greidda frá skuldara hennar, réttar­gæslu­aðila. Þá kröfu byggi varnaraðili eingöngu á því að hann sé dómhafi samkvæmt fram­an­greindum dómi Hæstaréttar, og virðist sú staðreynd, að hann hafi þegar selt fjár­kröf­una og fengið greitt fyrir hana, ekki skipta hann máli. Fyrir slíkum málatilbúnaði séu ekki neinar rök­semdir og því ekki tækt að varnaraðili komist upp með slíka til­burði.

Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að lokið sé þeim kröfuréttindum sem voru grund­völlur aðfarar að því marki sem varnaraðili krafðist aðfarar. Sóknar-, varnar- og réttar­gæslu­aðili hafi bundist samkomulagi um geymslugreiðslu, þar sem réttar­gæslu­aðila hafi verið gert kleift að inna af hendi greiðslur sem aðilar mátu sem fullnaðar­greiðslu. Hvorki varnar- né sóknaraðili geti gert kröfu um frekari peningagreiðslu á hendur réttargæsluaðila heldur eigi aðeins rétt á því fé sem hafi verið geymslugreitt. Því beri, þegar af þeirri ástæðu, að ógilda aðfarargerðina enda ljóst að ekki sé heimilt að krefjast aðfarar á grundvelli kröfuréttinda sem séu ekki lengur til.

Í samkomulagi málsaðila um geymslugreiðslu sé ákvæði í gr. 4.2, sem stað­festi ofan­greint það er að bæði sóknar- og varnaraðili samþykki greiðslu, á grundvelli sam­komu­lags um geymslugreiðslu, sem fullnaðargreiðslu burt séð frá því hvort það dóms­orð, sem aðförin byggist á, veiti ríkari rétt til greiðslu. Jafnframt sé það staðfest að greiðsla á grundvelli samkomulagsins sé fullnaðargreiðsla á kröfunni. Umrædd gr. 4.2 hljóði svo í löggiltri þýðingu:

VBS og Vingþór lýsa því hér með yfir, ábyrgjast og lofa Kcaj að kröfur þeirra á hendur Kcaj á grundvelli Ghost-dómsins takmarkist við fjárhæð umdeildu kröfunnar og að engar aðrar kröfur en umdeilda krafan verði gerðar á hendur Kcaj á grundvelli Ghost-dómsins. Enn fremur lýsa Vingþór og VBS því yfir að greiðsla til annað hvort VBS eða Vingþórs (með fyrirvara um gr. 7.1 samnings þessa) jafngildi fullu og endan­legu uppgjör af hálfu Kcaj samkvæmt Ghostdómnum.

Með því að greiða geymslufjárhæðina (e. Escrow Amount), samtals 2.676.918 bresk pund, inn á geymslureikninginn í samræmi við 6. gr. sam­komu­lags­ins, hafi réttar­gæsluaðili fullnægt þeim hluta greiðsluskyldu sinnar sem greiða átti í peningum. Frá þeim tíma teljist þeim kröfuréttindum, sem voru grund­völlur kröfu um aðför, lokið gagn­vart réttargæsluaðila. Eftir standi deila sóknar- og varnar­aðila um hvor þeirra sé rétt­mætur eigandi kröfunnar. Aðilar hafi samið um að úrlausn dóm­stóla eða stjórn­valds á Íslandi veitti öðrum aðilanum rétt til greiðslunnar. Í þessu sam­bandi vísar sókn­ar­aðili til lokamálsgreinar liðar ii, í gr. 7.1 í samkomulagi um geymslu­greiðslu. Efnis­leg úrlausn ágreinings sóknar- og varnaraðila hafi ekki komið til og ljóst að núver­andi málsmeðferð sé ekki til þess fallin að dæma um rétt­indi og skyldur aðila samkvæmt kaup­samningi sóknar- og varnaraðila.

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að hið fjárnumda sé ekki eign réttar­gæslu­aðila. Byggir sóknaraðili á því að hið fjárnumda sé geymslugreiðsla sem réttar­gæslu­aðili hafi innt af hendi til lúkningar kröfuréttindunum sem fjárnámið byggist á. Af því leiði, sem og af samkomulagi málsaðila um geymslugreiðsluna, að réttar­gæslu­aðili hafi misst allan eignarrétt yfir hinu fjárnumda. Hann hafi ekkert tilkall til þeirra fjár­muna sem varnaraðili gerði fjárnám í enda séu þeir samkvæmt áðurnefndu sam­komu­lagi eign sóknar­aðila, eða að minnsta kosti sóknar- eða varnaraðila. Það ráðist af end­an­legri úrlausn dómstóla hvort sóknar- eða varnaraðili eigi rétt til að fá geymslu­fjár­hæð­ina greidda frá umsjónaraðila geymslureiknings. Ítreka beri í þessu sam­hengi að ekki komi til álita að geymslufjárhæðin sé eign réttargæsluaðila, enda hafi hann full­nægt greiðslu­skyldu sinni með greiðslu fjárhæðarinnar sem sé óaftur­kallan­leg.

Sóknaraðili bendir á gr. 3.2 í samkomulagi um geymslugreiðslu þar sem fram komi að greiðslan sé geymd fyrir hönd sóknar- og varnaraðila. Ekki séu nein skil­yrði í lögum eða heimildir fyrir því að varnaraðili geri fjárnám í eignum sóknaraðila, hvað þá í eigin eignum, sé sú raunin.

Óumdeilt sé að réttargæsluaðili hafi fullnægt þessari greiðsluskyldu sinni, 10. maí 2011, áður en varnaraðili lagði fram aðfararbeiðni sína. Réttargæsluaðili hafi þar af leiðandi ekki verið eigandi andlags fjárnáms, hvorki á þeim tíma er varnaraðili lagði fram aðfararbeiðni til sýslumanns, 13. maí 2011, né þegar sýslu­maður tók ákvörðun um að aðfaragerð skyldi ná fram að ganga 14. júní sl. Af framangreindri gr. 3.2 í sam­komu­lagi um geymslugreiðslu megi enn fremur skýrt sjá að sam­komu­lagið geri ráð fyrir því, að fullnægðri greiðsluskyldu réttargæsluaðila inn á geymslu­reikn­ing­inn, að umsjón­ar­aðili geymslugreiðslu, Logos, haldi á greiðsl­unni fyrir hönd sóknar- og varn­ar­aðila þessa máls, sem skilyrtra eigenda fjár­mun­anna. Sóknar- og varn­ar­aðili hafi þá þegar verið orðnir skilyrtir eigendur að þeirri fjár­hæð sem var á geymslu­reikn­ingnum.

Allt framangreint sýni að varnaraðili uppfylli ekki nein skilyrði aðfarar. Hann eigi ekki þá kröfu sem var grundvöllur aðfarar hans, kröfu­rétt­ind­unum sé lokið að því marki sem aðför hafi farið fram og þeir fjármunir sem teknir hafi verið fjár­námi séu ekki eign réttargæsluaðila. Í öllu falli séu réttindi varnaraðila ekki nægi­lega ljós til þess að þau uppfylli skilyrði laga um aðför til þess að aðför geti farið fram. Því standi ekki rök til annars en að ógilda aðfarargerðina.

Sóknaraðili byggir í þriðja lagi á því að ógilda eigi fjárnámið á grundvelli þess að að minnsta kosti sé óljóst eða óvíst hvort varnaraðili eigi þau kröfu­rétt­indi sem fjár­námið hafi byggst á. Sóknaraðili vísar til þess að ein af ástæðum þess að sam­komu­lag um geymslugreiðslu hafi verið gert hafi verið að óljóst var hvort sóknar- eða varnar­aðili væri rétt­mætur eigandi greiðslunnar, þótt sóknaraðili hafi haldið fram rétti sínum frá upp­hafi og í engu fallist á málatilbúnað varnaraðila.

Þá vísar sóknaraðili til þeirrar umfjöllunar hér að ofan að umræddur dómur Hæsta­réttar fjalli ekki um kröfuhafaskiptin og verði því að telja dóminn óhæfan sem grund­völl aðfarar. Skilyrði aðfarar sé að aðfarar­heimildin sé skýr og hafin yfir allan vafa. Bendir sóknaraðili þessu til stuðnings á ákvæði laga nr. 90/1989 um aðför, sér­stak­lega 1. gr., þar sem aðfararheimildir séu mjög tak­mark­aðar. Þá bendir sóknaraðili jafn­framt á 2. mgr. 27. gr. laganna sem mæli fyrir um skyldu sýslumanns til að stöðva gerðina telji hann „óvíst“ að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefst fullnægt. Þótt varnaraðili sé tilgreindur sem dómhafi í niður­stöðu Hæstaréttar hafi sóknaraðili lagt gögn fyrir sýslumann sem geri það að minnsta kosti „óvíst“ að varnaraðili sé rétt­mætur eigandi þeirrar kröfu sem dómur Hæsta­réttar fjallaði um. Þessari óvissu um eignar­hald á kröfunni verði ekki eytt með full­nægjandi hætti undir núverandi máls­með­ferð þar sem ákveðnar takmarkanir séu í lögum um máls­með­ferð ágreiningsmála vegna aðfarar, sem grundvallist á því að aðfar­ar­heimildir verði að vera svo skýrar og yfir allan vafa hafnar að sé þörf á úrlausn, til að mynda um hver teljist réttmætur eig­andi kröfunnar, verði gerðarbeiðandi að afla sér nýrrar aðfar­ar­heimildar sem ekki sé háð sömu óvissu.

Þá vísar sóknaraðili til þeirrar umfjöllunar hér að framan að í samkomulagi um geymslu­greiðslu komi fram að ágreining aðila um hver sé réttmætur eigandi hinnar umþrættu kröfu skuli leggja til úrlausnar dómstóla. Núverandi málsmeðferð, sem sé háð lögboðnum takmörkunum, geti ekki leitt til þess að endanlega verði skorið úr um það hver hinn réttmæti eigandi kröfunnar sé. Dómur Hæstaréttar muni áfram vera end­an­leg niðurstaða um gildi kröfunnar og kaupsamningurinn muni áfram vera heimild sóknar­aðila til kröfunnar. Kaupsamningnum hafi ekki verið vikið til hliðar og þar sem hann hafi ekki komið til umfjöllunar Hæstaréttar geti niðurstaða hans ekki haft áhrif á kaup­samn­inginn. Kaupsamningi verði einungis vikið til hliðar með dómi, en hvorki með fram­kvæmd aðfarar né úrskurði dómstóla um það hvort aðför hafi átt að fara fram eða ekki.

Sóknaraðili krefst þess, komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að aðfarar­gerðin verði ekki ógilt, að frekari fullnustu í hinu fjárnumda verði frestað. Sóknaraðili byggir þá kröfu sína á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili telur að það muni skerða full­nustu­möguleika hans verulega verði krafa hans um frestun frekari full­nustu ekki tekin til greina. Eins og áður greini hafi verið gert sam­komu­lag við rétt­ar­gæslu­aðila þess efnis að greiðsla hans inn á geymslu­reikn­ing­inn teljist full­naðar­greiðsla þeirrar kröfu sem varnaraðili fram­seldi sóknar­aðila. Sókn­ar­aðili sé bundinn af því samkomulagi. Sóknaraðili bendir jafnframt á að varnar­aðili sé í slitameðferð og séu möguleikar sóknaraðila á því að gera kröfu á hendur varn­ar­aðila takmarkaðir, og þá séu líkur á endurheimtu kröfu sóknar­aðila tak­mark­aðar. Sóknaraðili geti því orðið fyrir stórkostlegum skaða verði frekari fullnustu ekki frestað þar til endanlegur úrskurður liggi fyrir.

Mál sitt byggir sóknaraðili á lögum nr. 90/1989 um aðför, sérstaklega 2. mgr. 27. gr., 28. gr., 92. gr., 2. mgr. 95. gr., svo og almennum meginreglum samn­inga- og kröfu­réttar. Málskostnaðarkrafa hans er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að sú krafa hans að fjárnám verði gert hjá réttar­gæslu­aðila styðjist við dóm Hæstaréttar í máli nr. 915/2009. Þegar krafa um fjárnám byggist á dómi samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga um aðför beri sýslumanni að fullnusta dóm­inn á grundvelli dómsorðs viðkomandi dóms án frekari skýringa, sé dómsorðið nægi­lega skýrt. Réttur aðili að slíkri aðfar­ar­gerð sé sá sem eigi kröfu sam­kvæmt dóms­orðinu og sé þannig rétt­hafi kröf­unnar í skilningi 2. gr. laga um aðför. Annar aðili geti ekki krafist aðfarar á grund­velli þess dóms nema að dómur­inn hafi í milli­tíð­inni sannanlega verið fram­seldur með skýrum og ótvíræðum hætti, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í málum nr. 131/2000 og 86/2001. Í þeim dómi Hæsta­réttar, sem sé aðfar­ar­heimild varnaraðila, komi skýrt fram að varnaraðili sé rétt­hafi kröfu á hendur rétt­ar­gæslu­aðila. Í dóm­inum komi ekkert fram um að sóknar­aðili eigi rétt til dóm­kröf­unnar. Hvorki dómurinn sjálfur né réttindi samkvæmt honum hafi verið fram­seld sókn­ar­aðila eftir að dómur gekk.

Varnaraðili mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að sú krafa sem dómurinn fjalli um hafi einhvern tíma verið framseld sóknaraðila. Ekkert hafi verið lagt fram í málinu því til stuðnings og því verði að hafna þeirri máls­ástæðu. Gera verði greinarmun á þeim ágreiningi annars vegar hvort krafa hafi þegar verið framseld og hins vegar hvort til staðar sé skylda til þess að framselja kröfuna. Varn­ar­aðili telji hvorki fyrir hendi framsal né skyldu til framsals. Sýslu­manni og þá um leið héraðsdómi, sem endurskoði ákvörðun sýslumanns, væri rétt að huga að því hvort krafa hefði verið framseld og hvort gerðarþoli í viðkomandi máli væri þannig réttur kröfu­hafi að viðkomandi kröfu. Sýslumaður hafi hins vegar ekki vald til, og það sé ekki í hans verkahring, að leggja mat á það hvort til staðar sé skylda til framsals kröfu. Það sama ætti við um héraðsdóm þegar hann tæki ákvarðanir sýslu­manns í slíku máli endur­skoðunar. Slíkur ágreiningur eigi undir öllum kringum­stæðum heima í sér­stöku dóms­máli. Það sé þannig hvorki sýslumanns né héraðsdóms að leysa úr ágrein­ingi aðila þessa máls um það hvort skylda hvíli á varnaraðila að framselja hina umdeildu kröfu. Í þessu tilviki hafi krafan verið dæmd af Hæstarétti og í dómsorði komi skýrt fram hver sé rétt­hafi kröfunnar. Sýslumaður geti ekki endur­skoðað þá niður­stöðu Hæstaréttar og beri honum að byggja á dómsorði þess dóms. Í þessu máli sé ein­ungis fjallað um það hvort ákvörðun sýslumanns hafi verið rétt og beri héraðs­dómi að byggja á dómsorði dóms Hæstaréttar í máli nr. 715/2009 með sama hætti og sýslu­manni. Gera verði þá kröfu til þriðja manns, sem mótmæli aðför á grundvelli 28. gr. laga um aðför, að hann geti gert grein fyrir réttindum sínum með skýrum og ótví­ræðum hætti enda sé megin­reglan sú að mótmæli gerðarþola, eða eftir atvikum þriðja manns, stöðvi ekki gerðina, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um aðför.

Með vísan til þessa beri að hafna fram komnum málsástæðum og kröfum sókn­ar­aðila og fallast á kröfur varnaraðila enda liggi ekkert fyrir um að við­kom­andi krafa hafi verið framseld eftir að dómur Hæstaréttar féll.

Að öðru leyti mótmælir varnaraðili málsástæðum sóknaraðila með þessum rökum:

Varnaraðili mótmælir því að sú krafa sem aðfararheimild lúti að hafi verið fram­seld sókn­ar­aðila með þeim kaupsamningi sem lagður hafi verið fram í málinu. Ekkert komi fram í gögnum málsins, hvorki í kaupsamningi Ving­þórs og VBS fjár­fest­ing­ar­banka hf. né öðrum, að krafan hafi verið fram­seld. Skýrt komi fram að fram lögð skjöl, tilkynning um framsal dagsett 27. október 2009, fjalli aðeins um fram­sal krafna samkvæmt liðum 1.5 og 1.6 í kaup­samn­ingi. Að því marki sem tölvu­póst­sam­skipti starfs­manna VBS hf., Ving­þórs og Kcaj LLP, frá 13. október 2009 til 3. desem­ber 2010 fjalli um meint framsal á umræddri kröfu hafi þessi skjöl ekkert sönn­unar­gildi enda séu á þeim tölvu­póst­sam­skipti einstakra aðila sem skapi ekki á neinn hátt skuld­bind­ingar fyrir varnaraðila og hafi því ekki nein sjálfstæð réttaráhrif, hvorki fyrir varnar­aðila né aðra en þá sem undir þau skjöl riti.

Það sé óumdeilt að kröfur á hendur réttar­gæslu­aðila samkvæmt liðum 1.5 og 1.6 í samningi Vingþórs og VBS fjárfestingarbanka hafi verið framseldar sóknaraðila á grund­velli samningsins en krafa sam­kvæmt lið 1.7 hafi hins vegar aldrei verið fram­seld. Ástæða þess sé sú að ekki sé unnt að aðskilja kröfur á grundvelli sjálf­skuld­ar­ábyrgðar frá þeirri aðalkröfu sem sjálf­skuld­ar­ábyrgðin varði, en í lið 1.7 komi skýrt fram að þar sé aðeins fjallað um 2.500.000 punda ábyrgðarkröfu réttar­gæslu­aðila á efndum á aðalkröfunni sem nemi 5.000.000 breskra punda. Eðli málsins samkvæmt verði ábyrgðarkrafan aldrei fram­seld ein og sér heldur hljóti hún að fylgja aðal­kröf­unni nema að krafan sé klofin upp með sérstöku samkomulagi aðila og með sam­þykki ábyrgð­ar­manns. Framsal ábyrgð­ar­kröfunnar sem slíkrar hafi því verið ómögu­legt frá upp­hafi. Því verði að leiða líkur að því að af þeirri ástæðu hafi aðilar orðið ásáttir um að umrædd krafa yrði ekki notuð sem greiðsla fyrir þá hluti sem Vingþór seldi sam­kvæmt umræd­dum kaupsamningi. Það styðji þessa niður­stöðu að hinir seldu hlutir séu afhentir án þess að umrædd krafa hafi verið fram­seld og engin tilraun hafi síðan verið gerð til þess að fá hana fram­selda.

Við úrlausn þessa máls verði að gera skýran greinarmun á milli þess að eigin­legt framsal hafi átt sér stað og þess að fyrir hendi sé ágreiningur um skyldu til fram­sals. Þetta sé grundvallaratriði sem líta verði til við úrlausn málsins enda skapi 28. gr. laga um aðför þriðja manni aðeins rétt til þess að stöðva gerðina á grundvelli 27. gr. lag­anna að hann eigi þá þegar þau réttindi sem krafist sé aðfarar fyrir. Því verði að krefjast þess af sóknaraðila, sem þriðja manni, að hann sanni það á ótvíræðan hátt að hann eigi þau réttindi sem fjárnámið byggist á. Ágreiningur þessa máls snúist í raun um það hvort varnaraðila sé skylt að framselja umrædda kröfu til sókn­ar­aðila. Sýslu­maður geti ekki tekið afstöðu til slíkrar kröfu þegar fyrir liggi skýr dómur Hæsta­réttar um það hver sé kröfuhafi. Þessi krafa hafi aldrei verið framseld sóknar­aðila eins og áður segi og ekkert í fram­lögðum gögnum gefi tilefni til að ætla það. Það eina sem liggi fyrir í málinu sé sú krafa sókn­ar­aðila að krafan verði framseld honum og höfnun varn­ar­aðila á því. Slíkur ágreiningur eigi hins vegar ekki að fresta gerðinni eða að stöðva hana, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um aðför.

Eins og áður segi megi leiða líkur að því að sóknaraðili og varnaraðili sem aðilar að kaupsamningi, 31. ágúst 2009, hafi fallið frá því að krafa samkvæmt lið 1.7 yrði notuð sem greiðsla samkvæmt kaup­samn­ingnum, hugsanlega vegna þess að vafi léki á því hvort hún fengist viður­kennd. Verði hins vegar ekki fallist á þá túlkun, verði umræddur kaupsamningur ekki túlk­aður á annan hátt en að með lið 1.7 í samningum hafi aðilar samið um að ef og þegar greiðsla fengist á grundvelli umræddrar ábyrgðar rétt­ar­gæslu­aðila ætti varn­ar­aðili að greiða sókn­ar­aðila sam­svar­andi fjárhæð. Varnar­aðili yrði hins vegar áfram eig­andi kröfunnar, ræki mál hennar vegna, innheimti hana og greiddi sóknaraðila síðan umrædda fjárhæð þegar og ef umrædd krafa fengist greidd.

Framlagt skjal, tilkynning VBS fjárfestingarbanka hf., 2. október 2009, til Lex lög­manns­stofu staðfesti þá túlkun varnaraðila að ekki hafi átt að fram­selja umrædda kröfu í eiginlegum skilningi heldur hafi átt að inn­heimta kröfuna hjá réttargæsluaðila og síðan, eftir að greiðsla fengist, að greiða sóknaraðila þá fjár­hæð sem kveðið er á um í 1.7 gr. kaupsamnings. Þetta komi skýrt fram í umræddu skjali þar sem jafnframt séu tilgreindir þeir reikningar sóknaraðila sem átt hefði að leggja greiðslur inn á. Þetta stað­festi þá túlkun á samningnum að í honum hafi ekki falist fram­sal heldur loforð um greiðslu þegar greiðsla á grundvelli ábyrgðarinnar fengist, enda hafi, eins og áður hafi komið fram, verið ómögu­legt að fram­selja umrædda ábyrgð með sjálfstæðum hætti. Þetta skipti miklu við úrlausn málsins enda felist í þessu að varn­ar­aðili eigi kröfuna, sjái um inn­heimtu hennar og skuld­bindi sig síðan til þess að greiða sóknaraðila það sem kunni að greiðast.

Það að í kaup­samn­ing­num felist ekki fram­sal heldur greiðslu­loforð skipti jafn­framt miklu varðandi efndir á umræddri skyldu samkvæmt samn­ingnum nú eftir að varn­ar­aðili hafi verið tekinn til slita­með­ferðar. Þar sem samningur­inn sé aðeins greiðslu­loforð hafi sóknaraðila borið að lýsa þeirri kröfu í slitabú varnar­aðila á grund­velli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti. Það hafi ekki verið gert og sé krafan því fallin niður fyrir vanlýsingu, sbr. 118. gr. laganna. Sókn­ar­aðili eigi sam­kvæmt þessu hvorki rétt til greiðslunnar, hvorki á hendur varnar­aðila né öðrum, né til þess að fá umrædda ábyrgð­ar­kröfu fram­selda. Þótt sóknar­aðili hefði lýst kröfunni í bú varn­ar­aðila á réttan hátt á grund­velli 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti hefði hann ein­ungis átt hlut­falls­legan rétt til greiðsl­unnar til jafns við aðra kröfu­hafa sem eigi almennar kröfur á hendur búi varnaraðila. Taka verði tillit til þessa við úrlausn málsins enda væri það í and­stöðu við ákvæði laga um gjald­þrota­skipti og fæli í sér mis­munun á milli kröfuhafa væri þessari greiðslu ráð­stafað óskertri til sóknar­aðila. Með vísan til þessara máls­ástæðna sé ljóst að lögmætur og eðlilegur fram­gangur á inn­heimtu þeirrar kröfu sem um ræðir og dæmd hafi verið varn­ar­aðila af Hæstarétti sé að varnaraðili inn­heimti hana eins og hann gerði með kröfu um aðför hjá réttar­gæslu­aðila og að and­virði greiðsl­unnar verði síðan ráðstafað í sam­ræmi við ákvæði laga um gjald­þrota­skipti.

Varnaraðili áréttar að ómögulegt hafi verið að framselja ábyrgðarkröfuna eina og sér. Slík ábyrgðarkrafa fylgi, eðli málsins samkvæmt, alltaf aðal­kröfu og sé greiðsla innt af hendi á grundvelli ábyrgðarinnar sé hún greidd kröfu­hafa aðal­kröf­unnar enda losni ábyrgðarmaður ekki undan skuld­bind­ingum sínum gagnvart aðal­kröfu­hafa nema að það sé gert. Óumdeilt sé að aðal­krafan, það er krafa varnar­aðila á hendur Ghost Ltd., upphaflega að fjárhæð 5.000.000 breskra punda, hafi aldrei verið fram­seld sókn­ar­aðila enda haldi hann því ekki fram og leggi ekki fram nein gögn því til stuðn­ings. Það sama eigi við um hina sjálfskuldarábyrgðina sem staðfest hafi verið af Hæsta­rétti í mál­inu nr. 715/2009 á hendur Kevin Stanford að fjárhæð 2.500.000 bresk pund. Eðli máls­ins samkvæmt og samkvæmt meginreglum kröfuréttar fylgi sjálf­skuld­ar­ábyrgðir alltaf aðalkröfunni. Þar sem varnaraðili sé óumdeilan­lega kröfu­hafi aðal­kröf­unnar sé hann jafnframt kröfuhafi gagnvart sjálf­skuldar­ábyrgð­ar­aðilum enda hafi hvorki aðal­krafan né kröfur á hendur ábyrgðar­mönnum verið fram­seldar, hvorki til sóknaraðila né annarra. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til þess að vegna kröfu 1.5, sem óum­deilan­lega hafi verið fram­seld sóknar­aðila samkvæmt kaup­samningnum, hafi öll frumskjöl verið afhent sóknar­aðila eftir gerð kaup­samnings, það er láns­samningur, Creditor Agree­ment, Notice of default in pay­ment, auk stefnu á hendur réttar­gæslu­aðila. Jafnframt hafi réttargæsluaðila verið til­kynnt sérstaklega um það fram­sal og hafi hann stað­fest mót­töku þeirrar tilkynningar.

Ekkert af þessu hafi hins vegar verið gert vegna þeirrar kröfu sem deilt sé um í þessu máli og liggi til grund­vallar fjár­náms­kröfu varnaraðila. Frumrit láns­samnings eða ábyrgðar hafi ekki verið afhent og hvorki send tilkynning til réttar­gæslu­aðila né annarra vegna fram­sals. Enn síður liggi fyrir að réttar­gæslu­aðili eða annar hafi tekið við slíkri til­kynn­ingu. Hefði það verið ætlun aðila kaup­samn­ings­ins að framselja sókn­ar­aðila umrædda kröfu með þeim hætti sem hann stað­hæfi hefðu öll frumrit skulda­skjala verið afhent árituð um fram­sal, tilkynning send skuldara því til stað­fest­ingar og sókn­ar­aðili hefði þá jafnframt tekið við rekstri málsins fyrir dóm­stólum enda hefði ekkert verið því til fyrirstöðu. Ekkert af þessu hafi hins vegar gerst.

Þegar krafa sé framseld verði framsalið að vera sannanlegt og ótví­rætt og jafn­framt tilkynnt skuldara eða eftir atvikum ábyrgðarmanni. Það hafi ekki verið gert heldur sé krafan áfram eign varnaraðila sem hafi rekið mál vegna hennar sem kröfu­hafi fyrir héraðs­dómi og Hæstarétti án nokkurra fyrirvara um framsal kröfun­nar, hvorki inn­heimtu­framsals né annars framsals og án athugasemda af hálfu sóknaraðila. Skýrt komi fram í kaup­samningi að gert sé ráð fyrir því að framsal kröfunnar skuli ekki eiga sér stað, sbr. ákvæði 1.7 í kaupsamningnum, þar sem það sé þvert á móti tekið skýrt fram að varnar­aðili muni reka mál vegna hennar fyrir dómstólum.

Í 3. gr. kaupsamningsins sé sérstaklega áskilið að framselja skuli hverja kröfu fyrir sig á sjálfstæðan hátt með sérstakri yfirlýsingu. Sú krafa sem deilt sé um hafi aldrei verið framseld með slíkum hætti enda sé það óframkvæmanlegt eins og áður hafi verið lýst.

Framsal hafi ekki heldur átt sér stað í samræmi við gr. 4.5.4 í samningnum með til­kynningu til Lex lögmannsstofu. Því er mótmælt að tilkynning VBS hf. 27. október 2009 hafi eitt­hvert sönn­unar­gildi í þessu sambandi enda komi ekkert fram á því skjali að Lex hafi tekið við þeirri tilkynningu. Jafnframt hafi Lex upp­lýst að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins hjá stofunni um að slík tilkynning hafi borist. 

Að öllu þessu virtu sé ljóst að varnaraðili sé kröfuhafi umræddrar kröfu og eigi þannig einn rétt til þess að krefjast fjárnáms fyrir henni. Hvort sóknaraðili eigi rétt til að fá greiðslu frá varnaraðila í framhaldi af því að krafan fáist greidd muni síðar verða leitt í ljós en það breyti ekki neinu um það að kröfurétturinn og þar með rétturinn til þess að krefjast fjárnáms sé í höndum varnaraðila og engra annarra. Fyrir liggi ótví­ræður dómur Hæstaréttar því til stuðnings og þau réttindi hafi ekki verið framseld enda séu þau ekki framseljanleg. Skylda varnaraðila til framsals sé ekki heldur til staðar enda réttindin, eins og margoft hafi komið fram, óframseljanleg auk þess sem aðilar hafi með skýrum hætti samið um að varnaraðili greiði þá greiðslu sem um ræðir þegar innheimtu sé lokið.

Varnaraðili mótmælir kröfum og rökstuðningi sóknaraðila í greinargerð hans til héraðsdóms, bókun hans fyrir sýslu­manni og í kæru til héraðsdóms að því leyti sem hann fer í bága við málatilbúnað varnaraðila. Í greinargerð tilgreinir varnaraðili mót­mæli sín allnákvæmlega og endurtekur margt sem áður var komið fram og því þykir ekki þörf á að taka öll mótmæli hans upp í dóminn.

Varnaraðili mótmælir því að nokkur viðurkenning á réttindum sóknaraðila felist í samn­ingi sóknar-, varnar- og réttargæsluaðila frá 6. maí sl., hvorki í C-lið né öðrum liðum sam­komu­lagsins. Í B-lið sé aðeins vikið að kröfum sem féllu undir gr. 1.5 og 1.6 í kaup­samn­ingi aðila og ekki sé á neinn hátt hægt að draga þá ályktun, sem sóknar­aðili geri, að það sama eigi við um kröfu skv. gr. 1.7, sbr. það sem rakið hefur verið.

Ekkert komi fram í kröfuhafsamkomulagi frá 29. janúar 2009 sem styðji full­yrð­ingar sóknaraðila. Þar sé fyrst og fremst fjallað um kröfur skv. liðum 1.5 og 1.6 í kaup­samningi. Eina umfjöllunin í þeim samningi um þá kröfu, sem krafan um fjárnám snúi að, komi fram í gr. 10 en þar sé þvert á móti alltaf fjallað um þá kröfu sem kröfu „VBS“ og þar sé átt við varnaraðila. Samkvæmt því verði að líta á kröfu­hafa­sam­komu­lagið sem staðfestingu á kröfum og röksemdum varnaraðila enda sé það undir­ritað af sóknaraðila til staðfestingar á efni þess.

Því er mótmælt að framsal kröfunnar hafi verið staðfest af skuldara á fundi stjórnar réttargæsluaðila. Þar sé ótvírætt fjallað um kröfur skv. liðum 1.5 og 1.6 í kaup­samn­ingi enda sé aðeins móttaka framsalstilkynninga vegna þeirra krafna árituð á grund­velli ákvarð­ana sem teknar voru á þessum fundi.

Því er mótmælt að þeim lögmanni sem rak mál vegna kröfunnar fyrir varnar­aðila hafi verið tilkynnt um framsal kröfunnar. Ekkert liggi fyrir í málinu sem styðji það og ekkert hafi fundist um slíka tilkynningu í gögnum lögmannsins, sbr. það sem áður hafi komið fram. Einungis varnaraðili hafi átt samskipti við hann en sókn­ar­aðila hafi verið gefinn kostur á að fylgjast með framgangi málsins þar sem félagið gæti átt hags­muni af niðurstöðu þess enda hafi átt að greiða sóknaraðila samkvæmt kaup­samn­ingi fengist greiðsla á grundvelli umræddrar ábyrgðar.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um óeðlilega auðgun varnar­aðila yrði fallist á kröfu hans um fjárnám. Varnaraðili gæti réttar síns lögum sam­kvæmt og muni ráðstafa þeirri greiðslu sem fáist á grundvelli fjár­náms­ins í sam­ræmi við það sem lög bjóði. Slíkt geti aldrei flokkast undir ólögmæta auðgun. Jafnframt liggi ekkert fyrir um endanlegt verðmæti þeirra hluta í Vingþóri sem varnaraðili keypti og því sé enn síður hægt að fullyrða nokkuð í þessum efnum. Hvað sem þessu líði sé það hvorki hlut­verk sýslumanns né héraðsdóms að leysa úr flóknum ágreinings­efnum sem varði ágrein­ing um ólögmæta auðgun og því komi það álitamál ekki til úrlausnar hér enda hafi það engin áhrif á rétt varnaraðila til að krefjast fullnustu á grund­velli dóms Hæsta­réttar í máli nr. 715/2009.

Því er sérstaklega mótmælt að sóknaraðili eigi þá peninga sem liggja á þeim fjár­vörslu­reikningi sem vísað er til í aðfararbeiðni. Fjármunirnir séu greiðsla frá réttar­gæslu­aðila sem lögð hafi verið inn á fjárvörslureikning hjá LOGOS slf. skv. gr. 2.1 í umræddum samningi og eigi inn­stæða reikningsins að standa til fullnustu kröfu þeirri sem krafa um aðför byggist á. Fjár­munir­nir séu því ótvírætt eign réttar­gæslu­aðila sem eigi að ráðstafa þeim til að greiða umræddra kröfu þeim aðila sem eigi rétt á greiðslu hennar. Með vísan til þess sem fram komi hér að framan þá sé varnaraðili rétt­hafi þeirrar greiðslu en ekki sóknar­aðili.

Varnaraðili mómælir því að sú krafa sem fjárnám lúti að hafi verið greidd að fullu með greiðslu réttargæsluaðila inn á fjárvörslureikning hjá Logos og að réttar­gæslu­aðili hafi þannig fullnægt greiðsluskyldu sinni. Þetta sé tryggingar­ráð­stöfun á grund­velli samnings sem tryggði það að umræddir fjármunir stæðu til full­nustu kröf­unnar og að ekki yrði gengið frekar að réttargæsluaðila vegna sjálf­skuld­ar­ábyrgðar hans. Ekki sé um greiðslu að ræða enda hafi hún ekki borist kröfuhafa eða umboðs­manns hans. Eiginleg greiðsla hafi ekki farið fram fyrr en hún hafi verið greidd kröfu­hafa og því sé umrædd krafa enn ógreidd. Því sé heimilt að leita fullnustu hennar enda sé sérstaklega gert ráð fyrir því að það sé gert í 7. gr. samkomulags aðila (Escrow Agree­ment). Hvað varði tilvísun til gr. 4.2 í samkomulaginu þá stað­festi sú grein enn frekar það sem segi hér að framan enda kveði hún á um að engar frekari kröfur verði gerðar á hendur réttargæsluaðila og að um sé að ræða full­nað­ar­greiðslu þegar greiðsla hafi verið greidd annaðhvort til sóknar- eða varnar­aðila.

Öllum fullyrðingum um að dómur Hæstaréttar hafi verið byggður á röngum forsendum eða að hann sé rangur að öðru leyti er mótmælt. Það sé í fyrsta lagi rangt og allar fullyrðingar um slíkt órökstuddar en því til viðbótar sé það hvorki í verka­hring sýslu­manns né dómstóla að endurskoða þá niðurstöðu Hæstaréttar.

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um að frekari fullnustugerðum verði frestað þar til endanlegur dómur Hæsta­réttar liggi fyrir, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um aðför. Ekkert liggi fyrir um að það muni skerða rétt sókn­ar­aðila þótt fullnustugerð yrði haldið áfram á grundvelli dóms héraðsdóms, fallist hann á kröfur varnaraðila. Varnar­aðili sé slitabú sem sé stýrt af slitastjórn skipaðri af héraðsdómi og fari stjórnin með stjórn bús­ins sem opinberir sýslunar­menn. Ekkert gefi nokkra ástæðu til þess að ætla að slitastjórn varnar­aðila kunni að brjóta gegn rétti sóknaraðila verði niður­stöðu héraðs­dóms í málinu snúið af Hæstarétti og því beri að hafna þessari kröfu sóknar­aðila.

Krafan um virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað byggist á skað­leysis­sjónar­miðum. Þar sem varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og fái því ekki endur­greiddan virðisaukaskatt af málskostnaði verði að taka tillit til skattsins við ákvörðun máls­kostnaðar svo að varnaraðili verði skaðlaus af málssókninni.

Með vísan til framanritaðs beri að hafna kröfum sóknaraðila í þessu máli.

Afstaða réttargæsluaðila

Réttargæsluaðili áréttar að hann taki ekki afstöðu til þessarar þrætu enda hafi hvorugur málsaðila beint kröfu að honum.

Kröfu sína um málskostnað úr hendi sóknaraðila styður hann við 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Sóknaraðili höfðar þetta mál með heimild í 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem hann sættir sig ekki við þá ákvörðun sýslu­manns að fallast á kröfu varn­ar­aðila, og gera fjárnám í fjármunum sem réttargæsluaðili, Kcaj LLP, hafði greitt inn á fjár­vörslu­reikn­ing nr. 515-29-500099.

Í þessu máli þarf einungis að taka afstöðu til þess hvort varnaraðili hafi nægi­lega skýra aðfarar­heimild til þess að fallast megi á kröfu hans um fjárnám í fjármunum á fjár­vörslu­reikn­ingnum.

Ekki er ágreiningur um það að málsaðilar gerðu með sér kaupsamning 31. ágúst 2009. Hann var liður í uppgjöri á milli VBS fjárfestingarbanka og Lands­banka Íslands. VBS fjárfestingarbanki keypti hlutafélag með 500.000 kr. hlutafé, Vingþór. Samkvæmt samningnum skyldi Vingþór hækka hlutafé sitt í 4.345.276.656. kr. Varn­ar­aðili skyldi eignast allt nýja hlutaféð og greiða fyrir með tilteknum kröfum og réttindum. Hann afsalaði síðan félaginu til Landsbankans, 13 nóvember 2009, og greiddi með því niður skuld sína við Landsbankann.

Varnaraðili styður aðfararbeiðni sína við dóm Hæstaréttar, 25. nóvember 2010, í máli nr. 715/2009, og 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í dómsorði segir að Kevin Stanford og Kcaj LLP skuli hvor fyrir sig greiða VBS fjár­fest­ingar­banka hf. 2.500.000 sterlingspund ásamt dráttarvöxtum, svo og máls­kostnað.

Að mati varnaraðila er það hvorki verkefni sýslumanns né héraðsdóms að endur­skoða þessa dómsniðurstöðu enda sé dómur bindandi niðurstaða um sakarefni fyrir málsaðilana sjálfa, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, svo og dómarann. Dómur Hæstaréttar sé endanleg niðurstaða um eignarhald á ábyrgðarkröfunni á hendur Kcaj LLP og eftir honum beri sýslu­manni og héraðsdómi að fara. Það sé hvorki hlut­verk sýslumanns né dómara að leysa úr ágreiningi um atvik sem séu þegar að baki þegar beiðni um aðför sé tekin fyrir.

Þrátt fyrir þessi meginsjónarmið ber sýslumanni af sjálfsdáðum að hafna beiðni um aðför séu sterkar líkur fyrir því að með aðförinni verði brotið gegn rétti þriðja manns. Enda þótt varnaraðili framvísi dómi til sönn­unar rétti sínum ber héraðs­dómi því að kanna hvort líkur séu til þess að það fjárnám, sem varnar­aðili krefst, skaði rétt þess þriðja manns sem hélt uppi mótmælum gegn fjár­náms­gerð­inni, færði fram gögn til stuðnings þeim og skaut ákvörðun sýslu­manns til dómsins.

Sóknaraðili styður þá málsástæðu sína, að varn­ar­aðili eigi ekki kröfu til þeirra fjár­muna sem Kcaj var dæmdur til að greiða honum heldur sóknaraðili, við það að áður en dómur Hæstaréttar var kveð­inn upp hafi varnaraðili framselt honum þá ábyrgð­ar­kröfu sem varnaraðili átti á hendur Kcaj og dómurinn snerist um. Með kaup­samn­ingnum, 31. ágúst 2009, hafi eignarréttur að ábyrgðarkröfunni flust frá varnar­aðila til sóknaraðila enda hafi sóknaraðili að fullu efnt sínar skyldur sam­kvæmt samn­ingum með hækkun hluta­fjár.

Gegn þessu byggir varnaraðili fyrst á því að ómögulegt hafi verið að framselja ábyrgðarkröfuna á hendur Kcaj LLP án þess að fram­selja jafnframt kröfu varnaraðila á hendur aðal­skuld­ar­anum, Ghost Ltd., og hefur í greinargerð en þó einkum mál­flutn­ingi tilgreint fjöldamarga meinbugi á slíku framsali. Í öðru lagi hafi umsamin form­skil­yrði fyrir framsali ekki verið frágengin. Í kaup­samn­ingnum felist því ekki annað og meira en loforð um greiðslu kröfunnar. Þar sem varnaraðili hafi verið tekinn til slita­með­ferðar hafi sóknaraðila borið að lýsa þessari kröfu í bú hans en það hafi sóknaraðili ekki gert. Réttur hans á hendur varnaraðila sé því fallinn niður.

Sú ábyrgð sem Kevin Stanford og Kcaj LLP tóku á sig fyrir Ghost var ekki óskipt og sameiginleg milli þeirra heldur hlutfallsleg. Hvor um sig bar einungis ábyrgð á greiðslu 50% af höfuðstól láns Ghost hjá VBS fjárfestingarbanka. Kevin Stan­ford bar því ekki að greiða ábyrgð Kcaj LLP, hefði það félag ekki greitt sína ábyrgð. Hann gat því ekki átt neina endurkröfu á Kcaj LLP og því þurfti varnaraðili ekki að afla samþykkis hans fyrir ráðstöfun ábyrgðar Kcaj LLP.

Þeir höfðu hins vegar tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins. Hvor um sig bar því óskipta ábyrgð með aðalskuldara, Ghost Ltd., á greiðslu helmings höf­uð­stólsins. Þar sem aðal­skuldari hafði vanefnt skyldu sína var greiðslu­skylda ábyrgð­ar­mann­anna orðin virk, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 715/2009. Varnaraðili krafði þá um greiðslu lánsins, 12. nóvember 2008. Þar sem þeir vefengdu ábyrgð sína höfðaði varnaraðili mál á hendur þeim 6. janúar 2009 og krafðist af hvorum um sig 2.500.000 breskra punda ásamt dráttarvöxtum. Þessi ábyrgðarkrafa er tilgreind í kröfu­hafa­sam­komu­laginu 29. janúar 2009. Þar segir í grein 10.3 að verði gildi ábyrgðar­innar samþykkt af dómstólum skuli hún fá stöðu kröfu samkvæmt sam­komu­laginu.

Allmörgum mánuðum síðar, 31. ágúst 2009, gerðu málsaðilar þann samning sem sóknaraðili byggir kröfu sína á. Í honum er tekið fram að ábyrgð Kcaj takmarkist við 2.500.000 bresk pund og áfallna vexti. Því verður ekki séð að skylda ábyrgðar­manns­ins aukist við framsalið. Ábyrgðar­maður­inn, réttargæsluaðili, hefur ekki heldur borið því við að skyldur hans gagnvart sóknaraðila yrðu meiri eftir fram­sal en þær voru gagnvart varnaraðila fyrir það.

Ekkert hefur komið fram um það hvort varnaraðili lýsti kröfu í bú Ghost Ltd. innan lögboðins kröfulýsingarfrests. Hann hefur að minnsta kosti ekki haldið því fram að aðalkrafa hans væri fallin niður vegna vanlýsingar, þrátt fyrir tilvísun til dóms Hæsta­réttar nr. 119/1985. Ekkert er heldur komið fram um það að hluti kröfunnar hafi fengist greiddur úr þrotabúi Ghost. Þykir verða að ganga út frá því að varn­ar­aðili hafi fengið fullnægjandi sönnur þess að hann fengi ekki neina greiðslu úr búinu upp í þá kröfu sem ábyrgðum Kevins Stanfords og Kcaj LLP var ætlað að tryggja.

Ekki þykir þörf á að fara frekar yfir þá meinbugi sem varnaraðili telur á því að aðskilja aðalkröfu og sjálfskuldarábyrgð á greiðslu hennar en varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á að nokkuð hafi staðið því í vegi að sú krafa, sem varnaraðili átti á hendur Kcaj LLP vegna sjálfskuldarábyrgðar félagsins, yrði framseld sókn­ar­aðila með kaup­samn­ingi 31. ágúst 2009, enda var hún þá enn gild og sannarlega orðin virk og gjald­kræf og naut stöðu kröfu samkvæmt kröfuhafasamkomulaginu.

Varnaraðili byggir einnig á því að kaupsamningurinn, 31. ágúst 2009, sé ekki full­gilt framsal kröfunnar heldur kveði hann ein­göngu á um skyldu til þess að fram­selja vissa gerninga. Eftir gerð samningsins hafi máls­aðilar þurft að efna þær skyldur sem hann kveði nánar á um. Varnaraðila hafi borið að afhenda öll frumskjöl árituð um fram­sal og skilmálabreytingar sbr. 3. og 4. gr. kaupsamningsins. Að þessum forms­atriðum gerðum hafi sókn­ar­aðili átt að verða réttur eigandi krafnanna. Formskilyrðin hafi verið uppfyllt vegna lánanna tveggja samkvæmt gr. 1.5 og 1.6 en ekki vegna kröfu samkvæmt grein 1.7 og þetta ágreinings­mál sé sprottið af.

Hinn 8. mars 2011 vísaði slitastjórn Landsbanka Íslands til héraðsdóms ágrein­ingi sem risið hafði vegna kröfu varnaraðila í slitabú Landsbankans. Varnaraðili krafðist greiðslu kröfu að fjárhæð 4.345.273.656 kr. og byggði á því að hann hefði skrif­lega, 24. ágúst 2010, rift greiðslu á skuld sinni við Landsbankann sem farið hefði fram með afsali á 100% hlutafjár í Vingþóri, þá dótturfélagi varnaraðila, til Lands­bank­ans. Slitastjórn Landsbankans hafnaði kröfunni þar sem hún taldi skilyrði riftunar ekki uppfyllt. Þar sem ekki tókst að sætta ágreininginn var honum skotið til héraðs­dóms. Málið fékk númerið X-80/2011 og varð varnaraðili þessa máls, VBS fjár­fest­ingar­banki, sóknaraðili í því riftunar­máli. Á dómþingi 13. júlí 2011 lagði hann fram greinargerð sína til sóknar.

Málsástæður hans í greinargerðinni verða ekki skildar á annan hátt en þann að Vingþór hafi að fullu efnt skyldu sína samkvæmt samningnum og að VBS fjár­fest­ingar­banki hafi sjálfur fram­selt Vingþóri það sem um var samið því hann telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem sam­svarar öllu kaupverði fjárkrafna samkvæmt kaup­samn­ingnum, 31. ágúst 2009, það er 4.345.273.656 krónum, þegar hann afsalaði Vingþóri til Lands­bank­ans.

Sama dag og varnaraðili lagði fram í dómi greinargerð sína til sóknar í máli nr. X-80/2011 skaut sóknaraðili, Vingþór, þessu ágreiningsmáli til dómsins. VBS fjár­fest­ing­ar­banki, varnaraðili í þessu ágreiningsmáli um fjárnámið, lagði fram greinargerð sína til varnar 21. október 2011. Málsástæður sem hann heldur fram í þessu máli stang­ast á við þær máls­ástæður sem hann heldur fram í áðurnefndu riftunarmáli nr. X-80/2011. Þar á meðal stangast sú málsástæða, að VBS fjárfestingarbanki hafi að fullu efnt kaup­samn­ing­inn með fullu framsali kröfunnar á hendur Kcaj LLP, á við þá máls­ástæðu í þessu máli að formlegt framsal þeirrar kröfu hafi átt eftir að fara fram.

Fyrir dóminum gáfu skýrslur Rupinder Cheema, áður framkvæmdastjóri Kcaj LLP, og Högni Friðþjófsson, fyrrum starfsmaður varnaraðila.

Rupinder Cheema kvaðst hafa unnið fyrir réttargæsluaðila, Kcaj LLP, frá því að kröfu­hafasamkomulagið var gert, 1. febrúar 2009, til apríl 2011. Á þeim tíma hafi VBS fjár­fest­ingar­banki verið aðili að kröfuhafasamkomulaginu og þar með verið einn af fjórum kröfuhöfum sem höfðu yfirráð yfir Kcaj. Að sögn vitnisins voru allar þær kröfur sem varn­ar­aðili átti á hendur Kcaj hluti af því samkomulagi.

Í október 2009 hafi VBS fjárfestingarbanki tilkynnt Kcaj að hann hefði fram­selt Vingþóri allar kröfur sínar samkvæmt kröfu­hafa­sam­komu­laginu. Af þessum sökum hefði fulltrúi varnaraðila vikið úr kröfu­hafa­ráðinu og í hans stað komið fulltrúi Ving­þórs. Hafi vitnið borið ábyrgð gagnvart kröfuhafaráðinu.

Þrátt fyrir að vitnið hafi ekki tekið þátt í samningi varnar- og sóknaraðila hafi þessi við­skipti, eins og þau horfðu við Kcaj, falist í því að Vingþór hefði einfaldlega leyst VBS fjár­fest­ingar­banka af hólmi að öllu leyti sem kröfuhafi.

Í nóvember 2010 hafi vitninu skilist á lögmönnum VBS fjárfestingarbanka að þeir vefengdu framsal ábyrgðarkröfunnar. Þetta hafi verið um það leyti sem Kcaj tapaði í Hæstarétti máli um ábyrgðina á Ghost láninu. Kcaj hafi gert VBS og Ving­þóri grein fyrir því að ágreiningur um eignarhald á kröfunni á hendur Kcaj væri þeirra í milli. Frá þessum tíma hafi Kcaj tryggt að fulltrúar bæði VBS fjárfestingarbanka og Ving­þórs væru upplýstir um lykilákvarðanir Kcaj.

Vitnið kvaðst halda að hann hafi séð afrit af skriflegum framsölum lána­samn­ing­anna enda hafi Kcaj borið að ganga úr skugga um að framsölin færu fram á réttan hátt. Honum hafi einnig borist tilkynning VBS fjárfestingarbanka, 27. október 2009, til gagn­aðila sinna að kröfuhafasamkomulaginu þar sem komi fram að bankinn hafi fram­selt öll rétt­indi sín og skyldur til Vingþórs í samræmi við 18. gr. samkomulagsins. Til að komast að því hvaða kröfur sé þarna átt við sé nauðsynlegt að lesa kröfu­hafa­sam­komu­lagið en að mati vitnisins tók yfirlýsingin til allra þriggja krafnanna.

Vitnið taldi að yfirlýsing um framsal ábyrgðarkröfunnar hefði ekki verið birt honum eins og mælt sé fyrir um í 3. gr. kaupsamningsins.

Að sögn vitnisins voru allar þær kröfur sem hver kröfuhafi um sig átti á hendur Kcaj hluti af kröfuhafsamkomulaginu. Þannig hafi allar kröfur VBS fjárfestingarbanka á hendur Kcaj verið hluti af þessu samkomulagi. Kcaj skuldaði hverjum kröfuhafa ákveðna fjárhæð samkvæmt samkomulaginu. Þar sem það hafi leyst kröfurnar af hólmi, eða staðið þeim framar, hafi vitnið ekki kynnt sér einstök atriði hverrar kröfu í sam­komu­laginu enda hafi starf hans falist í að stýra eignasafni Kcaj, en eins og málin horfðu við Kcaj hafi Vingþór, í október 2009, tekið þá stöðu sem VBS fjár­fest­ingar­banki hafði samkvæmt kröfuhafasamkomulaginu.

Frá og með 31. ágúst 2009 hafi allar ákvarðanir verið teknar af eftirlitsstjórn (super­visory board) Kcaj, sem hafi fylgt ákvörðunum kröfuhafaráðsins, eins og skýrt sé tekið fram í kröfuhafasamkomulagi Kcaj. Vitnið kvaðst ekki hafa undirritað, og taldi engan annan hafa undirritað, fyrir hönd Kcaj, skilmálabreytingu vegna ábyrgðar­innar gagn­vart VBS fjár­fest­ingar­banka, eftir 31. ágúst 2009, enda hafi ágreiningsmál um kröfuna þá verið rekið fyrir dómstólum.

Högni Friðþjófsson, starfaði hjá VBS fjárfestingarbanka sumarið 2009 og fram til ársins 2010. Á þessu tímabili hafi starfsmenn VBS fjárfestingarbanka unnið að upp­gjöri á skuldum bankans við Landsbankann í samstarfi við starfsmenn þess síðar­nefnda. Hluti af því uppgjöri hafi verið að setja eignir inn í félag, Vingþór, og afhenda félagið Lands­bankanum síðan sem greiðslu fyrir skuldunum. Á meðal þeirra eigna, sem hafi verið lagðar inn í félagið, hafi verið kröfur á hendur Kcaj LLP. Kaup­samn­ingur um kröf­urnar hafi orðið til á löngum tíma, á mörgum fundum, og hafi vitnið komið að gerð ein­hvers hluta hans enda hafi margir starfsmenn hvors banka um sig komið að gerð hans. Uppgjörið í heild hafi verið tekið fyrir í stjórn VBS fjár­fest­ingar­banka, í tvígang.

Í kaupsamningum sé tilgreind fjárkrafa sem byggi á ábyrgð sem Kcaj hafði tekist á hendur vegna láns Ghost hjá bankanum. Kcaj og Kevin Stanford, hafi verið í sjálf­skuldarábyrgð vegna lánsins en hafi hafnað þeirri ábyrgð. Þessi ágreiningur hafi verið fyrir dómi þegar kaupsamningurinn, 31. ágúst 2009, var gerður. Eftir að þessi samn­ingur var gerður hafi héraðsdómur fallið á þann veg að ábyrgðin væri ekki gild. Þá hafi starfsmenn VBS fjárfestingarbanka, lög­maður­inn sem flutti málið fyrir hann svo og starfsmenn Landsbankans farið yfir niðurstöðu dóms­ins. Hafi þeir strax ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Ljóst hafi verið að VBS ætti að reka málið áfram en jafn ljóst að greiðslurnar ættu að berast Lands­bank­anum.

Vitnið kvaðst ekki muna hvort framsal ábyrgðarkröfunnar hefði verið rætt á fund­inum. Hins vegar hafi þeim öllum verið kunnugt um kaupsamninginn enda flestir komið að gerð hans og jafnframt ljóst að fengist krafan greidd ætti að greiða Lands­bank­anum hana.

Vitnið kvaðst ekki muna til þess að rætt hefði verið um að kaupsamningurinn fæli einungis í sér greiðsluloforð en ekki fullt framsal ábyrgðarkröfunnar. Vitnið kvaðst ekki heldur minnast þess að kaupsamningnum hefði síðar verið breytt.

Að sögn vitnisins var tilkynning VBS fjárfestingarbanka til Lex lög­manns­stofu, 2. október 2009, unnin af starfsmanni þess banka og starfsmanni Landsbankans. Hafi vitnið undirritað skjalið þar sem hann hafi haft heimildir til þess samkvæmt undir­skrift­ar­reglum VBS fjárfestingarbanka. Hann kvaðst ekki muna hvort tilkynn­ingin var send af stað til lögmannsstofunnar enda hafi aðrir starfsmenn bankans haft þann hluta máls­ins á sínum snærum.   Vitnið kvaðst ekki heldur geta fullyrt að hafa afhent Ólafi Haraldssyni tilkynninguna.

Þegar litið er til þess að sóknaraðili hafði sannarlega uppfyllt skyldu sína sam­kvæmt kaupsamningnum 31. ágúst 2009, þess að varnaraðili byggir á því í öðru dóms­máli, sem er rekið hér fyrir dóminum, að báðir aðilar hafi að fullu efnt skyldur sínar sam­kvæmt þeim samningi og þess sem kom fram hjá vitnum fyrir dómi, einkum Rupinder Cheema, þykir sýnt að hvort sem formskilyrði fyrir framsali kröfunnar, til­greind í samningnum, höfðu verið frágengin eða ekki hafi báðir samn­ings­aðilar hagað athöfnum sínum eins og þau væru frágengin.

Sóknaraðili þykir því hafa fært nægilega sterkar líkur fyrir því að eignarréttur varnaraðila að ábyrgðarkröfu á hendur réttargæsluaðila, Kcaj LLP, sé ekki svo skýr og ótvíræður sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 715/2009 gefur tilefni til að ætla. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför þykir því verða að fella úr gildi þá ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 14. júní 2011, að taka fjárnámi innstæðu á fjár­vörslu­reikningi nr. 515-29-500099.

Vegna þessarar niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, verður varnar­aðili dæmdur til að greiða sóknaraðila máls­kostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 kr.

Réttargæsluaðili hefur frá upphafi málsins haldið uppi réttargæslu í málinu og bæði lagt fram greinargerð og flutt málið munnlega. Með vísan til 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga um aðför, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða réttargæsluaðila máls­kostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 kr.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð

Felld er úr gildi sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 14. júní 2011, að taka fjárnámi innstæðu á fjár­vörslu­reikningi nr. 515-29-500099.

Varnaraðili, VBS fjárfestingarbanki, greiði sóknaraðila, Vingþóri ehf., 700.000 kr. í málskostnað.

Sóknaraðili greiði réttargæsluaðila, Kcaj LLP, 150.000 kr. í málskostnað.