Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 2. júní 2004. |
|
Nr. 225/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili eigi aðild að brotum þriggja erlendra manna, sem handteknir voru 25. maí síðastliðinn að [...], og grunaðir eru um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og II. og III. kafla nr. 96/2002 um útlendinga og að hann hafi skipulagt í hagnaðarskyni ólöglega komu þeirra hingað til lands. Brot þau, sem hann er grunaður um, geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og f. lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2004.
Í greinargerð lögreglunnar segir að embætti ríkislögreglustjórans hafi gefið út beiðni til lögregluyfirvalda um handtöku 3 manna [...] sem komið hafi til [...] hinn 6. maí sl. og framvísað vegabréfum við eftirlit og hafi verið hleypt inn í landið. Ástæða hafi þótt til að kanna nánar um ferðir mannanna. Við eftirgrennslan lögreglu þann 25. þ.m. hafi þremenningarnir verið handteknir í húsnæði að [...] þar sem þeir hafi leigt sér herbergi. Þeir hafi framvísð þeir vegabréfum sem gefið hafi til kynna að þeir væru hinir eftirlýstu. Eftir að lögreglan hafi handtekið þremenningana og flutt þá á lögreglustöðina við Hverfisgötu hafi þeir óskað eftir hæli. Við nánari skoðun á vegabréfum hafi komið fram að þau séu talin fölsuð [...].
[...]
Að mati lögreglu þyki vera kominn fram rökstuddur grunur um aðild kærða að meintum brotum þremenningana eða hugsanlegu sjálfstæðu hagnaðarbroti hans sem lúti að aðstoð eða skipulagningu ólöglegrar komu þremenningana hingað til lands eða til annars ríkis, sbr. f-liður 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96,2002.
[...]
Meint brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga geti varðað fangelsi allt að 8 árum. Meint brot gegn f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga geta varðað fangelsi allt að 6 mánuðum eða 6 árum ef um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.
Verið sé að rannsaka meint brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og meint brot gegn lögum um útlendinga nr. 96,2002, einkum f-lið 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laganna. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Dómarinn fellst á það að fram sé kominn rökstuddur grunur um það að kærði eigi hlut að því að hingað til lands komu þrír menn, sem framvísuðu fölsuðum vegabréfum,og þannig gerst sekur um brot gegn útlendingalögum og almennum hegingarlögum. Þá fellst dómarinn á rök lögreglustjórans fyrir því að nauðsynlegt sé á þessu stigi rannsóknarinnar að hefta frelsi kærða um stuttan tíma.
Dómarinn ákveður með heimild í a-lið 1. mgr. 103. gr. oml. að kærði sæti gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til föstudagsins 4. júní 2004, kl. 16.00.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
X skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. júní 2004, kl. 16.00.