Hæstiréttur íslands
Mál nr. 333/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Mánudaginn 19. maí 2014. |
|
Nr. 333/2014
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Guðmundur Jónsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Litháen var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2014, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 28. febrúar sama ár um að framselja varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti komu fram athugasemdir um þá fjárhæð þóknunar sem réttargæslumanni varnaraðila var ákvörðuð í hinum kærða úrskurði og var að mati sóknaraðila of há. Í greinargerðinni var á hinn bóginn ekki gerð sérstök krafa um endurskoðun réttarins á ákvörðun þóknunar svo sem heimilt er samkvæmt 4. mgr. 195. gr., sbr. 4. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 30. apríl 2010 í máli nr. 259/2010 og 2. febrúar 2014 í máli nr. 135/2014. Þegar af þeirri ástæðu getur sá hluti hins kærða úrskurðar ekki komið til endurskoðunar hér fyrir rétti.
Í framsalsbeiðni litháískra dómsmálayfirvalda 29. nóvember 2013 kemur glögglega fram hvers eðlis brot það er sem varnaraðili er grunaður um og með henni fylgdi endurrit þeirra lagaákvæða sem háttsemin er talin varða við, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Guðmundar Jónssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2014.
Mál þetta var þingfest 14. mars sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. apríl sl. Sóknaraðili er ríkissaksóknari, en varnaraðili er [...] kt. [...], Litháískur ríkisborgari.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 28. febrúar sl. um að framselja varnaraðila til Litháen. Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað og að þóknun skipaðs réttargæslumanns verði greidd úr ríkissjóði.
I.
Með bréfi 29. nóvember 2013 óskuðu litháísk dómsmálayfirvöld eftir því við innanríkisráðuneytið að varnaraðili, sem er litháískur ríkisborgari, yrði framseldur til Litháen, Í framsalsbeiðninni og gögnum sem fylgdu henni kemur fram að sóknaraðili sætir rannsókn lögreglu í Litháen vegna meðferðar sakamáls þar í landi. Kröfunni til stuðnings var vísað til samnings Evrópuráðsins um framsal sakamanna frá 1957.
Í greinargerð sóknaraðila, dagsettri 7. mars 2014, segir meðal annars svo:
„Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 28. febrúar 2014 varðar beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er litháískur ríkisborgari. Í beiðninni, dags. 29. nóvember sl., útgefinni af ríkissaksóknara Litháen, er óskað eftir framsali varnaraðila, með vísan til Evrópuráðssamingsins um framsal sakamanna, vegna gruns um refsiverðan verknað, sem er til rannsóknar hjá héraðssaksóknaraembætti í [...]. Er hann grunaður um manndráp, með því að hafa ásamt hópi annarra manna að kvöldi 5. janúar 2009 ráðist með vopnum og ofbeldi að þolanda, [...], sem þeir töldu sig eiga sökótt við, en varnaraðili og samverkamenn hans eltu [...] uppi, einn samverkamaður greip um fót hans þegar hann reyndi að klifra yfir girðingu, með þeim afleiðingum að hann féll, varnaraðili sló hann í fótlegg með trélurk þar sem hann lá, tveir samverkamenn slógu hann með málmstöngum í handleggi og höfuð og þrír samverkamenn skutu hann a.m.k. fjórum sinnum í höfuð og líkama með loftbyssum og skammbyssu, með þeim afleiðingum að [...] hlaut alvarlega áverka og lést þann 12. janúar 2009. Er háttsemin er heimfærð undir 2. mgr. 129. gr., 1. mgr. 284. gr. og 6. mgr. 24. gr. litháísku hegningarlaganna, þ.e. manndráp, röskun á almannafriði og hlutdeildarverknað. Fram kemur í beiðninni að varnaraðili hafi brotið gegn þvingunarráðstöfunum sem hann sætti vegna málsins, þ.e. farbanni og tilkynningarskyldu, og leynst yfirvöldum. Þann 20. júlí 2010 hafi dómari gefið út handtökuskipun á hendur honum. Er handtökuskipunin meðfylgjandi framsalsbeiðninni.
Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin þann 20. desember sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður kvað varnaraðili framsalsbeiðnina eiga við sig en mótmælti framsali. Kannaðist varnaraðili við að hafa verið með öðrum mönnum í för umrætt kvöld og að þeir hafi veitt þolanda eftirför en hins vegar kvaðst hann ekki hafa veist að manninum. Kannaðist hann við að hafa rofið farbann og komið hingað til lands en kvað ástæðuna hafa verið ótta við meðlimi glæpahóps. Einnig var tekin lögregluskýrsla af varnaraðila áður en framsalsbeiðnin barst eða þann 18. nóvember 2013, vegna eftirlýsingar litháískra yfirvalda.
Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 10. janúar 2014. Voru skilyrði laga nr. 13/1984 talin uppfyllt, sbr. einkum 1. mgr., 2. mgr. og 5. mgr. 3. gr., 8. 10. gr. og 12. gr. laganna.
Sem fyrr greinir tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í máli þessu þann 28. febrúar 2014, að fenginni greinargerð varnaraðila, dags. 4. febrúar 2014. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að ráðuneytið endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals, en tekur þó undir með ríkissaksóknara um að skilyrði 5. mgr. 3. gr. framsalslaganna séu uppfyllt. Þá kemur þar fram að heildstætt mat hafi verið lagt á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984. Mat ráðuneytið aðstæður hans svo, að virtum málsatvikum, að ekki þóttu nægilegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli 7. gr. framsalslaganna. Þá taldi ráðuneytið engin rök hníga að því að framsal hans til Litháen bryti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 eða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 3. mars 2014 við fyrirtöku kröfu um áframhaldandi farbann hans vegna máls þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál dómsins nr. R-55/2014. Í þinghaldinu lýsti varnaraðili því yfir að hann krefðist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984, og var það fært til bókar í þingbókina að beiðni verjanda varnaraðila.
Engin ólokin mál eru til meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi á hendur varnaraðila.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 10. janúar 2014 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 28. febrúar 2014. “
II.
Krafa varnaraðila, um að dómurinn hafni ákvörðun innanríkisráðuneytisins um framsal hans, byggir annars vegar á því að hann telur að skilyrði 5. mgr. 3. gr. framsalslaga nr. 13/1984 séu uppfyllt og hins vegar því að aðstæður hans séu þannig að ákvæði 7. gr. sömu laga eigi við í málinu.
5. mgr. 3. gr. framsalslaganna kveður á um að ef ástæða sé til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi sem óskað er framsals vegna, þyki eigi fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun um refsiverða háttsemi, sé framsal óheimilt. Varnaraðili vísar til þess að hann hafi alfarið neitað sök og í skýrslutökum hjá lögreglu haldið því fram að hann hafi aldrei verið þátttakandi í þeirri árás sem leiddi til dauða árásarþola. Jafnframt bendir hann á að hann sé undir grun um morð en í framsalsbeiðninni komi fram að aðrir séu grunaðir um morðið, hann sé þannig grunaður um samverknað. Þannig sé framsalskrafan óljós um þetta atriði og þannig sé skilyrði 5. mgr. 3. gr. framsalslaganna uppfyllt.
Í 7.gr. framsalslaganna kemur fram að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður. Heldur varnaraðili því fram að full ástæða sé til að óttast um heilsu hans og líf, verði hann framseldur og þurfi að dveljast í litháísku fangelsi. Bendir varnaraðili á í greinagerð sinni að þeir aðilar sem komu að umræddri árás séu meðlimir í hættulegu glæpagengi og óttist hann ofsóknir og barsmíðar af þeirra hálfu verði hann sendur til Litháen. Hafi varnaraðili nú þegar orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum í tvígang vegna framburðar síns í málinu í heimalandinu og hefði hann þess vegna rofið farbann og flust til Íslands. Varnaraðili lýsir því að foreldrar hans og systir hafi einnig flust til Íslands af ótta við menn sem voru að fylgja systur hans eftir til að reyna að finna varnaraðila. Jafnframt bendir varnaraðili á að aðstæður í litháískum fangelsum séu ófullnægjandi og væri verið að brjóta gegn hans réttindum samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu ef hann yrði framseldur. Að öllu þessu virtu telur varnaraðili að skilyrði framsals séu ekki uppfyllt og fer fram á að kröfu um framsal verði hafnað.
III.
Samkvæmt 1. gr. Evrópuráðssamningsins um framsal sakamanna frá 1957, sem Ísland hefur fullgilt, eru aðilar hans skuldbundnir til framsals að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í 1. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, segir að framselja megi þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna að 1. gr. og aðrar greinar frumvarpsins leggi ekki skyldu á íslensk stjórnvöld til framsals. Hins vegar geti verið skylt að framselja mann samkvæmt gagnkvæmum framsalssamningum, og er í dæmaskyni tilgreindur áðurnefndur Evrópuráðssamningur frá 1957. Þar sem bæði Ísland og Litháen hafa fullgilt þann samning verður að líta svo á að meginreglan sé sú að íslenskum stjórnvöldum beri að verða við kröfu litháískra yfirvalda um framsal, enda séu þá uppfyllt önnur skilyrði laga nr. 13/1984.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Sú háttsemi sem varnaraðili er meðal annars sakaður um í heimalandi sínu, og gerð er grein fyrir hér að framan, myndi varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem refsing við því broti getur varðað allt að ævilöngu fangelsi eru uppfyllt skilyrði þessa ákvæðis til framsals varnaraðila.
5. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga getur ekki átt við í máli þessu, en samkvæmt því ákvæði er framsal óheimilt ef rökstudd ástæða er til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar. Er staðfest í gögnum að varnaraðili er grunaður um manndráp og aðild að manndrápi, grunur þessi er staðfestur af litháískum yfirvöldum og er ekki á valdi íslenskra dómstóla að dæma um sök eða sakleysi varnaraðila.
Eins og áður greinir byggir varnaraðili aðallega á því að 7. gr. framsalslaga eigi að koma í veg fyrir að fallist verði á kröfu sóknaraðila. Vísar hann í því sambandi til að honum stafi hætta af glæpasamtökum sem vilji þagga niður í honum. Í fyrrnefndri ákvörðun innanríkisráðuneytisins 28. febrúar sl. er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Mat ráðuneytisins er að ekki séu nægar ástæður fyrir hendi til að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Þetta mat ráðuneytisins verður ekki endurskoðað, enda hafa hvorki verið leiddar að því líkur að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti, né að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Niðurstaða dómsins er því sú að hafna beri kröfum varnaraðila, en staðfesta þess í stað ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 28. febrúar sl. um að framselja varnaraðila til Litháen.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun réttargæslumanns og annar sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun réttargæslumanns varnaraðila hæfilega ákveðin 627.500 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá greiði ríkissjóður skipuðum réttagæslumanni 12.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar.
Guðfinnur Stefánsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 28. febrúar 2014 um að framselja varnaraðila, [...], til Litháen.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Guðmundar Jónssonar hdl., 627.500 krónur. Þá greiði ríkissjóður skipuðum réttagæslumanni 12.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar.