Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2007


Lykilorð

  • Eftirlaun
  • Res Judicata


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. nóvember 2007.

Nr. 7/2007.

Jón Halldór Jónsson

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Atafli hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

og gagnsök

 

Eftirlaun. Res Judicata áhrif

 

J starfaði sem forstjóri hjá verktakafyrirtæki um árabil. Árið 1986 var gerður eftirlaunasamningur milli J og fyrirtækisins en J lét af störfum fyrir aldurssakir í árslok 1999. Sama ár sameinaðist fyrirtækið þremur öðrum hlutafélögum er tók að starfa undir sameiginlegu heiti, A. Samningurinn kvað á um að eftirlaun skyldu vera hundraðshluti af launum forstjóra fyrirtækisins eins og þau væru á hverjum tíma og skyldu þau nema 5% fyrir hvert starfsár þar til náð væri eftirlaunum sem næmu 90% af mánaðarlaunum. Samkvæmt leiðbeiningum sem endurskoðandi A gaf launafulltrúa skyldi við útreikning á eftirlaunagreiðslum J taka tillit til verðlagshækkana sem hann hefði fengið ef hann hefði verið í starfi. Fram á árið 2003 voru eftirlaunin framreiknuð með launavísitölu, en að auki fékk J þrjú fyrstu árin greidda launauppbót í desember, svokallaðan þrettánda mánuð. Um vor 2003 var vísitölubindingu eftirlauna J hætt og í desember sama ár var greiðsla vegna þrettánda mánaðar skert vegna greiðslna úr lífeyrissjóði þrátt fyrir að J fengi ekkert greitt þaðan vegna hans. Þá tilkynnti A J að nýr forstjóri hefði tekið við störfum hjá félaginu og bæri því samkvæmt eftirlaunasamningi hans við félagið að endurreikna eftirlaun hans. Í framhaldinu höfðaði J mál á hendur A þar sem hann krafði félagið um full eftirlaun ásamt óskertri greiðslu fyrir þrettánda mánuðinn. Í dómi héraðsdóms í fyrra máli aðilanna, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 2005, var A gert að standa skil á eftirlaunum ásamt greiðslu fyrir þrettánda mánuð árin 2003 og 2004 án þess að hún væri skert um fjárhæð sem svaraði til mánaðarlegra tekna J úr lífeyrissjóði. Að gengnum þeim dóm stóð áfram ágreiningur um rétt J til verðbóta á eftirlaun sín, auk þess sem A skerti á árinu 2005 greiðslu vegna þrettánda mánaðar á sama hátt og áður. Í dómi Hæstaréttar í þessu máli þóttu ekki efni til að telja réttindi J varðandi greiðslu fyrir þrettánda mánuð önnur í þessu máli en í því fyrra. Hvað varðaði aðrar kröfur J segir í niðurstöðu Hæstaréttar, að þó að eftirlaunasamningurinn hefði kveðið á um annað, hefði í raun orðið samkomulag milli A og J um að víkja frá orðalagi samningsins á þann hátt að eftirlaun hans yrðu 90% af laununum, sem hann hefði tekið í starfi, í stað sama hlutfalls af launum eftirmanns hans, og að tekið skyldi tillit til verðlagshækkana. Yrði að leggja til grundvallar að sú skipan sem fylgt var athugasemdalaust af hendi beggja aðila á fjórða ár, hefði komið í stað þeirrar, sem gert var ráð fyrir í eftirlaunasamningnum, að því leyti sem munur var þar á. Þar sem A hefði staðhæft í málatilbúnaði sínum að laun starfsmanna hans hefðu fram til vorsins 2001 verið verðbætt með launavísitölu á fjögurra mánaða fresti, þótti verða leggja til grundvallar að miða hafi átt við þá reglu gagngert og til frambúðar, þótt vikið hefði verið nokkuð frá henni í reynd. Ekki var fallist á að J hefði glatað rétti sínum með ráðstöfun sakarefnis í fyrra dómsmáli aðila.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2007. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.990.967 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2005 til greiðsludags. Verði þá einnig viðurkennt að fjárhæð eftirlauna aðaláfrýjanda frá gagnáfrýjanda eigi frá 1. apríl 2006 að taka mánaðarlegum breytingum í samræmi við launavísitölu, sem Hagstofa Íslands birti, miðað við grunnvísitölu 1. mars sama ár, 285,4 stig. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.908.676 krónur með sömu dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2005 til greiðsludags og verði þá jafnframt viðurkennt að fjárhæð eftirlauna aðaláfrýjanda eigi frá 1. apríl 2006 að taka breytingum á fjögurra mánaða fresti eftir launavísitölu, í fyrsta sinn 1. maí 2006 miðað við grunnvísitölu janúar sama ár, 282,8 stig. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. mars 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi þess að málskostnaður í héraði falli niður, en sér verði dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi, sem gegndi starfi forstjóra Byggingaverktaka Keflavíkur hf., gerði samning 9. apríl 1986 við stjórn félagsins um eftirlaun. Í a. lið samningsins var meðal annars kveðið á um að aðaláfrýjandi ætti „rétt á að láta af störfum með eftirlaunum í lok þess mánaðar, er hann nær 65 ára aldri. Eftirlaun skulu vera hundraðshluti af launum forstjóra B.V.K. hf., eins og þau eru á hverjum tíma. Skulu þau nema 5% fyrir hvert starfsár, þar til náð er eftirlaunum sem nema 90% af mánaðarlaunum.“ Í e. lið samningsins var mælt fyrir um að greiðslur til aðaláfrýjanda úr lífeyrissjóðum ættu að koma til frádráttar þessum eftirlaunum. Í október 1999 sameinuðust Byggingaverktakar Keflavíkur hf. þremur öðrum hlutafélögum undir heitinu Keflavíkurverktakar hf., en því heiti var síðar breytt í Atafl hf., sem er gagnáfrýjandi í málinu. Sökum aldurs lét aðaláfrýjandi í árslok 1999 af störfum, en þeim mun hann þá hafa gegnt það lengi að hann öðlaðist rétt til hámarks eftirlauna, sem mælt var fyrir um í áðurgreindu samningsákvæði. Óumdeilt er að skyldur samkvæmt þeim samningi hafi fallið á gagnáfrýjanda.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði launafulltrúi gagnáfrýjanda eftir leiðbeiningum frá endurskoðanda félagsins um hvernig reikna ætti eftirlaun aðaláfrýjanda þegar hann lét af störfum. Endurskoðandinn svaraði fyrirspurn um þetta 3. janúar 2000 með svohljóðandi orðsendingu: „Í samráði við stjórnarformann félagsins var eftirfarandi ákveðið: Jón H. Jónsson fær 90% af þeim launum sem hann hafði áður. Taka skal tillit til verðlagshækkana sem hann hefði fengið ef hann væri í starfi. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í síma frá Lífeyrissjóðnum Framsýn eru mánaðarlaun Jóns úr lífeyrissjóðnum Framsýn kr. 121.215 sem dragast frá. Þessi laun taka breytingum mánaðarlega skv. upplýsingum frá sjóðnum og fylgjast þarf með því. (amk þegar hann fær hækkanir) ... Nú á eftir að taka ákvörðun um jólabónusinn á árinu 2000. Ég hef samband við Jón H. út af því.“ Í samræmi við þetta fékk aðaláfrýjandi mánaðarlega allar götur til nóvember 2003 greidd eftirlaun, sem munu hafa verið reiknuð sem 90% af launum hans við starfslok að frádregnum greiðslum úr lífeyrissjóði, en árlega mun gagnáfrýjandi hafa fengið upplýsingar um fjárhæð þeirra og leiðrétt útreikning eftirlaunanna með tilliti til hækkana sem orðið hafi á þeim. Þá liggur fyrir að grunnfjárhæð eftirlaunanna hafi verið framreiknuð með launavísitölu á þessu tímabili, síðast í maí 2003, en samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda áttu slíkar hækkanir að koma til á fjögurra mánaða fresti. Auk þessa fékk aðaláfrýjandi í desember 2000, 2001 og 2002 aukagreiðslu, sem svaraði sem næst einum mánaðarlegum eftirlaunum hverju sinni eins og þau höfðu síðast komið til útborgunar.

Fram er komið í málinu að breytingar hafi verið gerðar í samræmi við launavísitölu á launum ýmissa starfsmanna Byggingaverktaka Keflavíkur hf. og síðar gagnáfrýjanda, meðal annars á meðan aðaláfrýjandi var þar við störf. Þessu mun hafa verið hætt vorið 2001, en þó ekki við útreikning eftirlauna aðaláfrýjanda. Áðurnefndur launafulltrúi gagnáfrýjanda greindi frá því í skýrslu fyrir héraðsdómi að eigandi fyrirtækisins, sem hún kallaði svo, og endurskoðandi þess hafi vorið 2003 gefið henni fyrirmæli um að hætta þessum vísitölureikningi eftirlauna aðaláfrýjanda og hafi hún farið að því. Aðaláfrýjanda mun ekki hafa verið tilkynnt þetta.

Í bréfi gagnáfrýjanda 1. desember 2003 til aðaláfrýjanda var greint frá því að nýr forstjóri hefði tekið til starfa hjá félaginu og næmu mánaðarlaun hans 550.000 krónum. Samkvæmt samningi um eftirlaun aðaláfrýjanda bæri að endurreikna þau með tilliti til þessa. Aðaláfrýjandi fékk sama dag greidd eftirlaun, sem fyrir frádrátt vegna staðgreiðslu opinberra gjalda voru að fjárhæð 339.270 krónur, en mánuðinn á undan höfðu eftirlaunin numið 766.976 krónum fyrir þann frádrátt. Aðaláfrýjandi höfðaði af þessum sökum mál á hendur gagnáfrýjanda 8. mars 2004 og krafðist aðallega greiðslu á 96.282.190 krónum, sem hann kvað vera útreiknuð eingreiðsla fullra eftirlauna til frambúðar, en til vara 57.600.000 krónum, sem hafi svarað til framtíðarlækkunar eftirlaunanna vegna þeirra breytinga, sem gagnáfrýjandi hafi gert í desember 2003. Til þrautavara krafðist aðaláfrýjandi greiðslu á 7.405.590 krónum, sem væri sú fjárhæð, sem greiðslur til hans hefðu verið skertar um frá desember 2003 til ársloka 2004, auk eftirlauna bæði árin fyrir þrettánda mánuð, sem svo var kallaður, en við útreikning kröfunnar var tekið mið af eftirlaunum í nóvember 2003 án verðtryggingar. Auk þessa krafðist aðaláfrýjandi að viðurkenndur yrði réttur hans til eftirlaunagreiðslna úr hendi gagnáfrýjanda „sem reiknuð verði eftir sömu viðmiðunum og giltu við útreikning þeirra í nóvember 2003.“ Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2005 var gagnáfrýjandi sýknaður af tveimur fyrstnefndu kröfum aðaláfrýjanda, en þrautavarakrafa hans var á hinn bóginn tekin til greina. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar, sem með dómi 27. október 2005 í máli nr. 139/2005 staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu hans við aðaláfrýjanda, en vísaði viðurkenningarkröfu þess síðastnefnda frá héraðsdómi. Ekki liggur annað fyrir en að gagnáfrýjandi hafi fullnægt skyldu sinni við aðaláfrýjanda samkvæmt þessum dómi.

Á þeim tíma, sem fyrrgreint mál var til meðferðar fyrir dómstólum, hélt gagnáfrýjandi áfram að greiða aðaláfrýjanda eftirlaun, sem virðast hafa verið reiknuð með sama hætti og áðurnefnd greiðsla til hans í desember 2003. Eftir að dómur var genginn í því máli ákvað gagnáfrýjandi í desember 2005 eftirlaun aðaláfrýjanda á nýjan leik, en fjárhæð þeirra virðist hafa tekið mið af útreikningi, sem stuðst var við í nóvember 2003, án verðtryggingar. Auk þessa greiddi gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda eftirlaun fyrir svokallaðan þrettánda mánuð í desember 2005 að frádreginni þeirri fjárhæð, sem aðaláfrýjandi hafði fengið mánaðarlega úr lífeyrissjóði. Aðaláfrýjandi mun síðan hafa fengið greiðslur eftir þessari tilhögun fram í mars 2006, þó með frádrætti, sem ekki hefur að öllu leyti verið skýrður af gagnáfrýjanda, en eftirlaun fyrir tímabilið frá janúar til nóvember 2005 voru ekki endurreiknuð. Við þetta felldi aðaláfrýjandi sig ekki og höfðaði hann mál þetta gegn gagnáfrýjanda 14. mars 2006 til greiðslu á 7.465.108 krónum, svo og til viðurkenningar á því að eftirlaun sín skyldu frá 1. apríl 2006 taka mánaðarlegum breytingum eftir launavísitölu miðað við grunntölu hennar 1. mars sama ár. Fjárhæðin, sem aðaláfrýjandi krafðist að fá greidda, var vegna eftirlauna fyrir tímabilið frá janúar 2005 til mars 2006, sem verðbætt höfðu verið samkvæmt breytingum á launavísitölu frá nóvember 2003 til hvers mánaðar á þessu tímabili, en dregnar voru frá greiðslur, sem aðaláfrýjandi hafði notið úr lífeyrissjóði, ásamt því, sem gagnáfrýjandi hafði greitt honum í hverjum mánuði. Að auki krafðist aðaláfrýjandi greiðslu fyrir svokallaðan þrettánda mánuð í desember 2005 án skerðingar vegna greiðslu úr lífeyrissjóði, en fjárhæðin, sem hann fékk þaðan í þeim mánuði, var í útreikningi hans dregin frá reglulegum eftirlaunum þess mánaðar.

Undir rekstri málsins í héraði innti gagnáfrýjandi af hendi greiðslur upp í dómkröfu aðaláfrýjanda 30. júní og 4. október 2006 að fjárhæð samtals 5.707.089 krónur að meðtöldum vöxtum, en með þessu telur sá fyrrnefndi sig hafa gert full skil við þann síðarnefnda. Vegna þessara greiðslna hefur aðaláfrýjandi nú lækkað kröfu sína í 1.990.967 krónur. Óumdeilt er að í þeirri fjárhæð séu réttilega reiknuð eftirlaun hans með launavísitölu miðað við heildarfjárhæð eftirlaunanna í nóvember 2003 uppfærð til einstakra mánaða á tímabilinu frá janúar 2005 til mars 2006, sem að frádregnum greiðslum frá gagnáfrýjanda og lífeyrissjóði nema samtals 1.822.317 krónum, auk 168.650 króna, sem gagnáfrýjandi dró frá eftirlaunum aðaláfrýjanda fyrir svokallaðan þrettánda mánuð í desember 2005 með tilliti til lífeyrisréttinda hans. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi að auki gert nýja varakröfu um greiðslu á 1.908.676 krónum. Sú fjárhæð er reiknuð á sama hátt og aðalkrafan að því frágengnu að verðbætur samkvæmt launavísitölu eru reiknaðar á fjárhæð eftirlauna á fjögurra mánaða fresti og stendur hún síðan óbreytt þess á milli. Samhliða þessu hefur aðaláfrýjandi uppi viðurkenningarkröfu varðandi útreikning eftirlauna sinna í framtíðinni eftir sömu aðferð. Þessar varakröfur er aðaláfrýjanda heimilt að hafa uppi nú, enda rúmast þær innan aðalkrafna hans, en allar eru kröfurnar reistar að því leyti, sem máli skiptir, á samsvarandi röksemdum og gögnum.

II.

Aðaláfrýjandi krefst sem fyrr segir að gagnáfrýjanda verði meðal annars gert að greiða sér 168.650 krónur, sem hann telur þann síðarnefnda ranglega hafa dregið af eftirlaunum hans fyrir svonefndan þrettánda mánuð í desember 2005. Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda taldi hann sér rétt að gera þetta með því að óumdeilt væri að mánaðarlegar eftirlaunagreiðslur til aðaláfrýjanda ættu að skerðast vegna greiðslna til hans úr lífeyrissjóði og væru ekki efni til annars en að beita sömu reglu um þrettánda mánuðinn, þótt aðaláfrýjandi fengi ekkert greitt úr lífeyrissjóði vegna hans. Hafi þessari aðferð jafnframt verið beitt við aukagreiðslu eftirlauna til aðaláfrýjanda í desember 2001 og 2002 án athugasemda af hans hendi. Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2005 í fyrra máli aðilanna, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 27. október sama ár að því er varðar kröfur, sem aðaláfrýjandi gerði þar um greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda, var þeim síðastnefnda gert að standa aðaláfrýjanda skil á eftirlaunum vegna svonefnds þrettánda mánaðar árin 2003 og 2004 án þess að þau væru skert um fjárhæð, sem svaraði til mánaðarlegra tekna aðaláfrýjanda úr lífeyrissjóði. Ekki eru efni til að telja réttindi aðaláfrýjanda varðandi þessa árlegu aukagreiðslu eftirlauna önnur í þessu máli en í fyrra máli aðilanna, sbr. meginreglu 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda fjárhæðina, sem hér um ræðir.

Að öðru leyti en að framan greinir lýtur ágreiningur í máli þessu að því hvort aðaláfrýjandi eigi rétt á að fjárhæð eftirlauna hans úr hendi gagnáfrýjanda taki breytingum í samræmi við launavísitölu, annars vegar á tímabilinu frá janúar 2005 til mars 2006, sem kröfur aðaláfrýjanda um greiðslu taka til, og hins vegar til frambúðar eftir lok þess tímabils, en að því snúa viðurkenningarkröfur hans. Um þetta ágreiningsefni aðilanna er til þess að líta að í samningi aðaláfrýjanda við Byggingaverktaka Keflavíkur hf. 9. apríl 1986 var ekki kveðið á um slíka vísitölubindingu eftirlaunanna, en samkvæmt samningnum skyldu þau á hinn bóginn fylgja launum eftirmanns hans í starfi. Þegar eftirlaunaréttur hans samkvæmt þessum samningi varð virkur við starfslok í desember 1999 ákvað gagnáfrýjandi, að virðist með samkomulagi við aðaláfrýjanda, að víkja frá orðalagi samningsins á þann hátt að eftirlaun hans yrðu 90% af laununum, sem hann hafði tekið í starfi, í stað sama hlutfalls af launum eftirmanns hans. Skyldi þá jafnframt tekið „tillit til verðlagshækkana sem hann hefði fengið ef hann væri í starfi“, svo sem fram kom í fyrrgreindri orðsendingu endurskoðanda gagnáfrýjanda 3. janúar 2000. Líta verður svo á að með þessu hafi í raun aðeins verið tekinn upp annar háttur á verðtryggingu eftirlauna aðaláfrýjanda en upphaflega var ætlunin. Eins og í áðurnefndum dómi í fyrra máli aðilanna verður að leggja til grundvallar að sú skipan á eftirlaunarétti aðaláfrýjanda, sem var lýst í þessari orðsendingu og fylgt athugasemdalaust af hendi beggja aðila á fjórða ár, hafi komið í stað þeirrar, sem gert var ráð fyrir í samningnum 9. apríl 1986, að því leyti sem munur var þar á. Ekki er ágreiningur um að laun aðaláfrýjanda og ýmissa annarra starfsmanna Byggingaverktaka Keflavíkur hf. höfðu tekið breytingum eftir launavísitölu um nokkurn tíma þegar sú ákvörðun var tekin um eftirlaun hans, sem lýst var í orðsendingunni 3. janúar 2000, og verður því að leggja til grundvallar að ummæli þar um verðlagshækkanir hafi vísað til þess. Fram er komið að gagnáfrýjandi hafi vorið 2001 samið við starfsmenn sína um afnám vísitölubindingar launa þeirra, en ekkert liggur fyrir í málinu um hvernig staðið hafi verið eftir það að launahækkunum þeim til handa vegna verðlagsbreytinga eða af öðrum sökum. Á því tímamarki voru engar ráðstafanir gerðar varðandi eftirlaun aðaláfrýjanda, heldur fylgdu þau á sama hátt og áður launavísitölu um tveggja ára skeið, enda var þá ekki við annað að styðjast um hvernig laun hans kynnu að hafa þróast ef hann hefði enn verið við störf. Á réttarstöðu aðilanna hefur að þessu leyti engin breyting orðið, hvorki á árinu 2003 né síðar, sem gat gefið gagnáfrýjanda réttmætt tilefni til að fella niður þá verðtryggingu eftirlauna með launavísitölu, sem aðaláfrýjanda hafði notið frá ársbyrjun 2000. Aðaláfrýjandi á því rétt á að fjárhæð eftirlauna hans verði háð breytingum á launavísitölu á því tímabili, sem mál þetta tekur til, en ekki verður fallist á með gagnáfrýjanda að hann hafi glatað þeim rétti með ráðstöfun sakarefnisins í fyrra dómsmáli þeirra.

Í orðsendingu endurskoðanda gagnáfrýjanda 3. janúar 2000 var sem fyrr greinir meðal annars vísað til þess að greiðslur til aðaláfrýjanda úr lífeyrissjóði tækju mánaðarlegum breytingum og þyrfti að fylgjast með þeim, að minnsta kosti þegar hann fengi hækkun á eftirlaunum. Af þessu verður ráðið að ekki hafi verið ráðgert að fjárhæð eftirlaunanna tæki mánaðarlegum breytingum í samræmi við launavísitölu. Á tímabilinu frá janúar 2000 til maí 2003, þegar gagnáfrýjandi reiknaði enn út eftirlaunin með tilliti til vísitölubreytinga, virðast þau eftir gögnum málsins hafa staðið óbreytt í eitt skipti í tvo mánuði, fjögur skipti í þrjá mánuði, jafn oft í fjóra mánuði, en tvisvar í fimm mánuði. Gagnáfrýjandi hefur sem fyrr segir staðhæft í málatilbúnaði sínum að laun starfsmanna hans hafi fram til vorsins 2001 verið verðbætt með launavísitölu á fjögurra mánaða fresti. Eins og háttað var framkvæmd við útreikning eftirlauna aðaláfrýjanda verður að leggja til grundvallar að miða hafi átt við þessa reglu, þótt vikið hafi verið nokkuð frá henni í reynd.

Samkvæmt framansögðu verður varakrafa aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti tekin til greina á þann hátt, sem nánar segir í dómsorði. Gagnáfrýjanda verður gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

 

 

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Atafl hf., greiði aðaláfrýjanda, Jóni Halldóri Jónssyni, 1.908.676 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 77.807 krónum frá 1. janúar 2005 til 1. febrúar sama ár, af 155.614 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 233.421 krónu frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 311.228 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 407.342 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 503.456 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 599.570 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 695.684 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 806.673 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 917.662 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 1.028.651 krónu frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 1.139.640 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 1.428.799 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, af 1.588.758 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 1.748.717 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, en af 1.908.676 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Viðurkennt er að mánaðarlegar eftirlaunagreiðslur gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda skuli frá 1. apríl 2006 taka breytingum í samræmi við launavísitölu, sem Hagstofa Íslands birtir, á fjögurra mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí sama ár miðað við grunnvísitölu 282,8 stig.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                                                                 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2006.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Halldóri Jónssyni, Heiðargili 8, Reykjanesbæ, á hendur Atafli hf., byggingu 551, Kefla-víkurflugvelli, með stefnu birtri 14. mars 2006.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi.

Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.997.082 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 77.807 frá 1.1. til 1.2.2005, en af 158.800 kr. frá 1.2. til 1.3.2005, en af 243.812 kr.  frá 1.3. til 1.4.2005, en af 334.666 kr. frá 1.4. til 1.5.2005, en af 431.121 kr. frá 1.5. til 1.6.2005, en af 530.546 kr. frá 1.6. til 1.7.2005, en af 635.826 kr. frá 1.7. til 1.8.2005, en af 743.585 kr.  frá 1.8. til 1.9.2005, en af 854.914 kr. frá 1.9. til 1.10.2005, en af 971.472 kr. frá 1.10. til 1.11.2005, en af 1.092.742 kr. frá 1.11. til 1.12.2005, en af 1.212.979 kr. frá 1.12. til 15.12.2005, en af 1.502.137 kr. frá 15.12.2005 til 1.1.2006, en af 1.662.096 kr. frá 1.1. til 1.2.2006, en af 1.827.614 kr. frá 1.2. til 1.3.2006, en af 1.997.082 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Að viðurkennt verði að mánaðarlegar eftirlaunagreiðslur stefnda til stefnanda frá og með 1. apríl 2006 skuli taka breytingum samkvæmt mánaðarlegum breytingum sem verða á launavísitölu Hagstofu Íslands frá og með 1. mars 2006.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að viðbættu álagi á málskostnað, skv. mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru eftirfarandi:

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, þar með talið kröfu um málskostnað og kröfu um álag á málskostnað.

 

Málavextir.

Ágreiningur málsins lýtur að eftirlaunagreiðslum stefnda til stefnanda frá og með janúarmánuði 2005. Stefnandi starfaði sem forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. um árabil. Það fyrirtæki ásamt þremur öðrum fyrirtækjum sameinuðust í október 1999 og mynduðu Keflavíkurverktaka hf., sem er fyrirrennari stefnda. Stefnandi lét af störfum fyrir aldurs sakir í árslok 1999.

Stefnandi gerði eftirlaunasamning við Byggingaverktaka Keflavíkur hf. árið 1986.  Í a-lið eftirlaunasamningsins segir: „Forstjóri á rétt á að láta af störfum með eftirlaunum í lok þess mánaðar sem hann nær 65 ára aldri.  Eftirlaun skulu vera hundraðshluti af launum forstjóra B.V.K. hf., eins og þau eru á hverjum tíma.  Skulu þau nema 5% fyrir hvert srafsár (sic), þar til náð er eftirlaunum sem nema 90% af mánaðarlaunum.  Starfsár skulu miðast við þann tíma er forstjóri hóf starf hjá B.V.K hf.“ 

Í janúar 2000 hóf stefnandi töku eftirlauna sem námu 90% af mánaðarlaunum forstjóra stefnda. Voru launin miðuð við laun stefnanda eins og þau voru hjá Keflavíkurverktökum hf. áður en hann lét af störfum. Í viðbót við föst mánaðarleg eftirlaun fékk stefnandi einnig greidda uppbót í desember. Þá voru dregnar frá hverri greiðslu þær greiðslur sem stefnandi fékk úr lífeyrissjóðnum Framsýn. Framkvæmdin var sú að sama fjárhæð var dregin frá í hverjum mánuði allt árið, en síðan var það gert upp í janúar árið eftir. Hinn 3. janúar 2000 sendi endurskoðandi Keflavíkurverktaka hf. eftirfarandi tölvupóst til Maríu Þorgrímsdóttur, launafulltrúa stefnda:  „Jón H. Jónsson fær 90% af þeim launum sem hann hafði áður.  Taka skal tillit til verðlagshækkana sem hann hefði fengið ef hann væri í starfi.“  Inn á afrit tölvuskeytisins eru færðar handskrifaðar athugasemdir Maríu, frá 14. apríl 2004, þar sem segir að hún hafi farið eftir þessu og reiknað launin þannig fram á mitt ár 2003, er henni var tilkynnt að „vísitöluhækkun væri ekki framvegis“.  Stefnanda mun ekki hafa verið kynnt það sérstaklega.

Í árslok 2003 fékk stefnandi bréf frá stefnda, þar sem tilkynnt var að Bjarni Pálsson, fyrirsvarsmaður stefnda, hefði tekið við sem forstjóri stefnda frá og með 1. desember 2003 og bæri að endurreikna eftirlaun stefnanda skv. því, en laun Bjarna væru 550.000 kr. á mánuði. Afleiðing þess varð sú að eftirlaun stefnanda lækkuðu úr 766.976 kr. í nóvembermánuði 2003 í 339.270 kr. í desembermánuði s.á. Einnig var um leið felld niður greiðsla fyrir uppbótina í desember sem innt hafði verið af hendi árin 2000-2002. Þáverandi lögmaður stefnanda mótmælti þessu í bréfi, dags. 9. des. 2003, og skoraði á stefnda að leiðrétta greiðsluna, að viðlagðri málsókn. Stefndi varð ekki við því. Stefnandi höfðaði því mál á hendur Keflavíkurverktökum hf., sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 139/2005. Til þrautavara í því máli var krafa um eftirlaun fyrir tímabilið desember 2003 til desember 2004 að frádregnum þeim greiðslum sem borist höfðu stefnanda, að viðbættum dráttarvöxtum. Jafnframt var gerð krafa um viðurkenningu á rétti stefnanda til eftirlaunagreiðslna sem reiknaðar yrðu eftir sömu viðmiðunum og giltu um útreikning þeirra í nóvember 2003. Hæstiréttur staðfesti þann hluta héraðsdóms í málinu, að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda skv. nefndri þrautavarakröfu stefnanda. Hins vegar vísaði Hæstiréttur frá héraðsdómi viðurkenningarkröfu stefnanda skv. þrautavarakröfunni, á þeim grundvelli að ágreiningur væri milli aðila um forsendur fyrir útreikningi eftirlauna fyrir nóvember 2003, m.a. hvort þá hafi verið byggt á því að fjárhæð eftirlauna væri verðtryggð og hvernig slík verðtrygging kunni að hafa verið. Þessi dómkrafa var talin svo óákveðin, að óhjákvæmilegt væri að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. 

Nefndur dómur Hæstaréttar tók til tímabilsins fram til desember 2004. Á árinu 2005 fékk stefnandi greiddar mánaðarlega frá stefnda 332.468 kr. að undanskildum tveimur greiðslum í desember, þ.e. launagreiðslu og greiðslu fyrir 13. mánuðinn/bónusinn, sem námu hvor um sig 755.510 kr. Eftirlaunagreiðslur stefnda til stefnanda fyrir janúar-mars 2006 voru 749.392 kr. Eftir dóm Hæstaréttar sendi stefnandi stefnda innheimtubréf, dags. 18. nóv. 2005, þar sem með fylgdi sundurliðun á útreikningi. Lögmaður stefnanda og forstjóri stefnda, sem nú er stjórnarformaður félagsins, áttu fund um málið hinn 5. des. 2005, þar sem kröfum stefnanda var hafnað. Af þessum sökum sér stefnandi sig knúinn til að höfða mál þetta, sbr. bréf lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 28. des. 2005.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Um kröfu um greiðslu vangoldinna eftirlauna:

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnda beri að inna af hendi til stefnanda vangoldnar eftirlaunagreiðslur á tímabilinu janúar 2005 til mars 2006, í samræmi við samkomulag þar að lútandi og fyrri tilhögun eftirlaunagreiðslna. 

Í fyrsta lagi tekur stefnandi fram að eftirlaun hans voru reiknuð þannig að þau námu 90% af þeim launum sem stefnandi fékk greidd við starfslok, framreiknuð samkvæmt launavísitölu, en frá þeim launum drógust lífeyrissjóðsgreiðslur sem stefnandi naut frá Gildingu lífeyrissjóði (áður Framsýn) vegna mánaðarins á undan hverri launagreiðslu, sbr. samning um eftirlaunarétt og tölvuskeyti stefnda þar sem grundvöllur útreiknings kom fram.

Eins og fram kemur í tölvuskeyti endurskoðanda stefnda, þar sem upplýst er um ákvörðun stjórnarformanns stefnda, skyldu eftirlaun stefnanda taka „vísitöluhækkunum“. Stefnandi telur upplýst að eftirlaun hans hafi verið vísitölureiknuð fram til miðs árs 2003 en þá hafi því verið hætt að skipun fyrirsvarsmanna stefndu. Stefnandi mun einnig hafa verið upplýstur af stefnda á hverjum tíma um það að eftirlaunin tækju hækkunum skv. launavísitölu, en stefnanda var hins vegar ekki kunnugt um, fyrr en undir rekstri hins fyrra dómsmáls, að „vísitöluhækkun væri ekki framvegis“, þ.e. að þeim hefði verið hætt um mitt ár 2003. Stefnandi telur ljóst að launin hafi hækkað skv. vísitölu, ef tekið er mið af þeim hækkunum sem eftirlaun stefnanda tóku á tímabilinu desember 1999 til nóvember 2003, er laun stefnanda voru lækkuð með ólögmætum hætti. Stefnandi vekur athygli á að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær um „mitt ár 2003“ hafi verið hætt af hálfu stefnda að vísitölureikna launin.

Stefnandi tekur fram að ef einhver vafi þykir leika á því við hvaða viðmið stefndi studdist við vísitöluútreikning, byggi stefnandi á því að allan slíkan óskýrleika beri að túlka stefnanda í hag, og þar með fallast á stefnukröfur í samræmi við útreikning þann sem stefnandi leggur til grundvallar kröfugerð. Stefnandi tekur fram að ekki sé ágreiningur milli aðila um að eftirlaunin tóku vísitöluhækkunum fram til ársins 2003, sbr. málatilbúnað í fyrra dómsmáli. Stefndi upplýsti stefnanda um að launavísitölu væri beitt til hækkunar og stefndi bjó jafnframt yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði, enda annaðist hann allan útreikning launanna. Treysti stefnandi því að stefndi færi rétt að við vísitöluútreikning eftirlaunanna. Samanburður á útreikningi hækkananna á launum stefnanda milli launavísitölu og annarra viðmiða leiðir einnig í ljós að hækkanir skv. þeirri vísitölu komast næst því að vera í samræmi við það sem stefnandi fékk greitt í eftirlaun á árunum 2000-2003. Hvað sem öðru líður, telur stefnandi að miða beri vísitöluútreikning eftirlauna við launavísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar út og birtir lögum samkvæmt. Mælir launavísitala mánaðarlegar breytingar heildarlauna allra launþega hér á landi, hún er unnin af hinu opinbera, þ.e. Hagstofu Íslands, og er lögformlegt viðmið um launabreytingar, sbr. lög nr. 89/1989. Er við þetta miðað í útreikningi stefnukrafna, þ.e. að vísitölureiknuð launagreiðsla í nóvember 2003 er framreiknuð skv. launavísitölu fram til ársins 2005-6. Til vara er á því byggt, að slík vísitöluviðmiðun leiði af eðli máls, enda er það hvort tveggja eðlilegasta og sanngjarnasta viðmiðið til þess að mæla launaþróun á milli tímabila.

Stefnandi telur afar óeðlilegt að honum verði gert að þola að eftirlaun hans skuli vera án verðlagsviðmiðana og því óverðtryggð. Stefndi hafði greitt stefnanda laun í samræmi við launaþróun og að teknu tilliti til vísitöluhækkana í hátt í fjögur ár, þ.e. frá árinu 2000 til 2003. Samningsbundin venja hafði því myndast um þessa greiðslutilhögun, sem stefndi getur ekki svipt stefnanda einhliða. Skerðing á eftirlaunarétti fæli í sér brot á eignarrétti stefnanda, sbr. ákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Bent er á, að stefnandi hefur í réttarsambandi aðila enga kjarasamningsaðild og getur ekki neytt réttar á grundvelli reglna um stéttarfélög og vinnudeilur til að knýja á um breytingar á eftirlaunum sínum með tilliti til almennra verðlagsbreytinga. Ber í því ljósi, að túlka fyrirkomulag á eftirlaunagreiðslum stefnda til stefnanda frá árinu 2000 til 2003, er einhliða breyting var gerð á verðtryggingu eftirlaunanna.

Stefnandi tekur fram að ekki verði með nokkru móti litið svo á, að kröfugerð hans í fyrra dómsmáli á hendur stefnda vegna eftirlauna, geti falið í sér að stefnandi hafi fallist á að eftirlaun sín yrðu ekki bundin vísitölu. Þó að eftirlaun stefnanda skv. endanlegri kröfugerð í því máli, þ.e. vegna tímabilsins desember 2003 til desember 2004, hafi ekki verið reiknuð skv. vísitölu, var sérstaklega tekið fram í skýringum með kröfugerð, að þrátt fyrir þessa framsetningu kröfugerðar sé til framtíðar krafist viðurkenningar á rétti stefnanda til eftirlauna sem reiknaður verði eftir sömu viðmiðunum og giltu í nóvember 2003. Í því felist að mánaðarlegar greiðslur til stefnanda frá og með næstu greiðslu jafngildi því sem verið hefði, ef engar breytingar hefðu verið gerðar á útreikningsaðferðum eða viðmiðunum á sínum tíma. Í þessum skýringum fólst því, að viðurkenningarkrafa stefnanda byggði á því að eftirlaun stefnanda yrðu vísitölureiknuð til framtíðar. Það athugast enn fremur að afrit tölvuskeytis frá janúar 2000 var ekki lagt fram af hálfu stefnda í fyrra dómsmálinu fyrr en að lokinni framlagningu greinargerðar af hans hálfu. Fram að þeirri framlagningu hafði stefnandi ekki haft vitneskju um tilvist umrædds tölvuskeytis og því að vísitölubindingu hefði verið hætt.

Í öðru lagi tekur stefnandi fram að hinn  15. desember 2005 greiddi stefndi stefnanda fyrir 13. mánuðinn, 755.510 kr., þ.e. sömu greiðslu og innt var að hendi hinn 1. des. s.á. Við greiðslu þessa hefur stefndi augljóslega dregið frá launum ígildi lífeyrisgreiðslna til stefnanda fyrir desembermánuð 2005, þrátt fyrir að hafa þegar við greiðsluna 1. desember dregið þá greiðslu frá, en stefnandi naut engra greiðslna frá lífeyrissjóði vegna svokallaðs 13. mánaðar. Er því launagreiðsla fyrir 13. mánuðinn of lág.

Um viðurkenningarkröfu, sbr. kröfulið nr. 2:

Stefnandi krefst einnig viðurkenningardóms um að eftirlaunagreiðslur stefnda til stefnanda frá og með 1. apríl 2006 skuli taka mið af reglubundnum breytingum sem verða á launavísitölu Hagstofu Íslands frá og með 1. mars 2006. Er krafa þessi bundin við tímann frá því tímamarki sem kröfuliður nr. 1 nær til, þ.e. til 1. mars 2006, og til framtíðar litið, en gerð er m.a. krafa um að eftirlaunagreiðsla hinn 1. apríl 2006 taki mið af breytingum sem orðið hafa á launavísitölu frá 1. mars s.á. Stefnandi vísar kröfu þessari til stuðnings til sjónarmiða hér að framan, varðandi beitingu launavísitölu og viðmiðanir sem beitt hefur verið við útreikning eftirlauna til stefnanda. Hefur stefnandi ríka og lögvarða hagsmuni að fá viðurkennt að stefnda beri að vísitölureikna eftirlaunin til framtíðar, enda hefur stefndi virt að vettugi kröfur stefnanda þar að lútandi.

Um útreikning stefnukrafna:

Undir meðferð málsins lækkaði stefnandi kröfugerð sína. Kom það til af því að stefndi hefur greitt hana að hluta.

Líkt og greinir í stefnu gerir stefnandi kröfu um að eftirlaun fyrir árið 2005-6 verði reiknuð í samræmi við breytingar launavísitölu. Fyrir liggur að stefndi vísitölureiknaði laun stefnanda fram til ársins 2003, er því var hætt. Síðasta greiðsla stefnda skv. þessu fyrirkomulagi fór fram 1. nóv. 2003, 766.976 kr. Fram hefur komið af hálfu stefnda að hann hafi miðað frádrátt lífeyrisgreiðslna á árinu 2003 við 151.066 kr. Hafa aðilar málsins orðið sammála um að því viðmiði verði beitt, til einföldunar, en í því felst á engan hátt viðurkenning af hálfu stefnanda á sjónarmiðum stefnda um vísitölutengingu o.fl.        

Að viðbættri frádreginni viðmiðaðri lífeyrissjóðsgreiðslu, 151.066 kr., nemur því brúttó greiðsla 918.042 kr., þ.e. 90% launa framreiknuð. Reiknuð skv. launavísitölu frá 1. nóv. 2003 (240,7 stig) til 1. jan. 2005 nemur fjárhæð þessi 995.849 kr. Á neðangreindu yfirliti má sjá nánari sundurliðun á því hvernig höfuðstóll stefnukrafna er fundinn, framreiknaður skv. launavísitölu mánaðarlega, en frá eftirlaunum dragast lífeyrisgreiðslur frá Gildi-lífeyrissjóði og það sem stefnandi hafði þegar fengið greitt frá stefnda, og greiðslur sem borist hafa frá stefnanda til stefnda frá því að dómsmálið var höfðað.

Það athugast, svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir í stefnu, að stefndi dró ranglega frá greiðslu á 13. mánuðinum, hinn 15. des. 2005, sem stefndi taldi samsvara lífeyrisgreiðslu sem stefnandi hefði notið í þeim mánuði. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 139/2005 staðfestir að stefnda bar að bæta lífeyrisframlagi við greiðslu fyrir 13. mánuðinn.

Greiðsludagar

Launvt.

90% laun frameiknuð

Frádráttur lífeyrisgr.

Samtals

Þegar greitt

  Mismunur

1.1.2005

261,1

995.849

162.531

833.318

755.511

77.807

1.2.2005

261,9

998.900

162.666

836.369

755.376

80.993

1.3.2005

262,9

1.002.714

163.007

840.048

755.035

85.013

1.4.2005

264,2

1.007.672

164.230

844.665

753.812

90.853

1.5.2005

265,9

1.014.156

164.571

849.926

753.471

96.455

1.6.2005

267

1.018.352

163.687

853.781

754.355

99.426

1.7.2005

268

1.022.166

164.843

858.479

753.199

105.280

1.8.2005

268,9

1.025.598

165.046

860.755

752.996

107.759

1.9.2005

269,8

1.029.031

165.386

863.985

752.656

111.329

1.10.2005

270,6

1.032.082

167.904

866.696

750.138

116.558

1.11.2005

272,3

1.038.566

168.922

870.662

749.392

121.270

1.12.2005

273,9

1.044.668

168.650

875.746

755.510

120.236

15.12.2005 (13.m.)

273,9

1.044.668

0

1.044.668

755.510

289.158

1.1.2006

282,8

1.078.614

169.263

909.351

749.392

159.959

1.2.2006

284,4

1.084.716

169.806

914.910

749.392

165.518

1.3.2006

285,4

1.088.530

169.670

918.860

749.392

169.468

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

samtals

1.997.082

Dráttarvaxta er krafist af hverri og einni fjárhæð frá greiðsludegi/gjalddaga hverrar launagreiðslu og fram til greiðsludags, í samræmi við endanlega kröfugerð. 

Um málskostnaðarkröfu:

Stefnandi telur að stefndi hafi með vísvitandi hætti gerst sekur um að vanefna greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda. Vísast einnig til þess að þetta er annað málið sem stefnandi höfðar til þess að fá stefnda til þess að virða eftirlaunaskuldbindingar stefnanda, sbr. hrd. í máli nr. 139/2005. Hluti krafna þessara er vegna vanefnda stefnda, sem ekki lúta að ágreiningi um grundvöll vísitöluútreiknings. Komast hefði því mátt hjá málsókn þessari að hluta eða öllu leyti, hefði stefndi sinnt skyldum sínum. Af þeim sökum er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, þ.m.t. álag á málskostnað, í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Um lagarök vísar stefnandi, auk framangreindra lagatilvísana, til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, sem og vinnuréttar. Varðandi dráttarvexti er vísað til ákvæða 1. mgr. 6. gr., sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 og varðandi málskostnaðarkröfuna til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-130. gr. og 1. og 2. mgr. 131. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt er honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Í upphafi vill stefndi leiðrétta þá lýsingu í stefnu að stefnandi hafi fengið 13. mánuð greiddan í desember ár hvert eftir að hann hóf töku eftirlauna.   Hið rétta er að í upphafi tímabilsins fékk stefnandi greiddan bónus eins og aðrir starfsmenn samkvæmt ákvörðun fyrirtækisins en hann nam 8% af heildarárslaunum.   Bónus þessi var síðast greiddur fyrir hálft árið 2001 en var felldur niður frá og með 1. júní 2001. Á sama tíma var vísitölutenging launa starfsmanna stefnda á skrifstofu einnig felld niður. Fram að þeim tíma höfðu laun skrifstofufólks stefnda verið verðbætt á 4 mánaða fresti með launavísitölu. Eftir þetta tímamark naut enginn starfsmanna stefnda bónusgreiðslna eða verðtrygginga, hvorki almennir starfsmenn á skrifstofu né forstjóri. Meðan Róbert Trausti Árnason var í starfi sem forstjóri fékk hann greiddan 13. mánuð samkvæmt ráðningarsamningi sínum. Laun hans, 950.000 kr. á mánuði, voru ekki verðtryggð en þau breyttust ekki meðan hann var í starfi.

Í árslok 2005 lét Bjarni Pálsson af störfum sem forstjóri stefnda og Kári Arngrímsson tók við því starfi.  Laun hans eru 950.000 kr. á mánuði eins og þau hafa verið um árabil og hann fær ekki greiddan svokallaðan 13. mánuð frekar en aðrir starfsmenn stefnda.

Þrátt fyrir ofangreindar breytingar voru eftirlaun stefnanda verðbætt áfram til miðs árs 2003 og tóku ekki mið af launum starfandi forstjóra nema að því leyti sem það var stefnanda til hagsbóta, þ.e. að hann fékk 13. mánuð eins og starfandi forstjóri stefnda á þeim tíma.

Stefndi tekur í upphafi fram, að eftirlaunaréttur stefnanda byggi að stofni til á samningi Byggingaverktaka Keflavíkur hf. og stefnanda, dags. 9. apríl 1986.  Samkvæmt a) lið þess samnings skyldu eftirlaun vera hundraðshluti af launum forstjóra Byggingaverktaka Keflavíkur hf. eins og þau væru á hverjum tíma.  Skuldbinding samkvæmt samningi þessum féll til stefnda við sameiningu Byggingaverktaka Keflavíkur hf. og fleiri félaga á Keflavíkurflugvelli undir nafni Keflavíkurverktaka hf. á árinu 1999.

Stefnda byggir á því að greiðsluskylda hans byggi á framangreindum samningi og því verði að túlka réttarstöðu og efnisinnihald samningssambands aðila út frá honum.

Meginágreiningur aðila nú eftir uppsögu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 139/2005 hinn 27. október 2005 lýtur að því hvort stefnandi eigi rétt til þess að eftirlaun sem hann nýtur frá stefnda frá og með 1. janúar 2005 séu verðtryggð með launavísitölu miðað við grunnvísitölu nóvembermánaðar 2003.

          Stefndi telur að fyrir liggi samkvæmt tilgreindum Hæstaréttardómi að stefndi hætti að verðbæta eftirlaun stefnanda um mitt ár 2003.  Nánar tiltekið voru eftirlaun síðast verðbætt við útborgun fyrirframgreiddra eftirlauna fyrir maí 2003 en eftir það tímamark voru þau óbreytt 766.976 kr. á mánuði til loka nóvember 2003 án þess að séð verði að stefnandi hafi gert við það athugasemdir en stefnandi fékk mánaðarlega senda launaseðla frá stefnda.    Þeirri fullyrðingu í stefnu, að ekki liggi fyrir hvenær um mitt ár 2003 verðbótaútreikningi hafi verið hætt, er mótmælt enda bera gögn sem stefnandi sjálfur hafði og hefur lagt fram að eftirlaunafjárhæð var síðast hækkuð í maí 2003. Miðað við þá framkvæmd sem verið hafði eftir töku eftirlaunanna hefðu þau átt að verðbætast við greiðslu eftirlauna í ágúst 2003.

Af hálfu stefnanda var í fyrra málinu ekki gerð krafa um verðbætur á eftirlaun frá maí 2003 til og með desember 2004.  Í þessu máli hefur ekki heldur verið höfð uppi slík krafa fyrir tilgreint tímabil en á því byggt að nú sé hægt að endurreikna og verðbæta eftirlaunafjárhæðina frá og með 1. janúar 2005 miðað við grunnvísitölu launavísitölu nóvembermánaðar 2003. 

Stefndi telur kröfugerð í máli þessu byggða á því að stefnandi eigi rétt á því að eftirlaun hans séu verðbætt mánaðarlega með launavísitölu, bæði hvað varðar fjárkröfu og viðurkenningarkröfu. Af framlögðum launaseðlum megi ráða að framkvæmdin hafi aldrei verið með þeim hætti, að eftirlaun væru verðbætt mánaðarlega en eins og áður greinir voru laun hjá stefnda á sínum tíma verðbætt á fjögurra mánaða fresti.

Af hálfu stefnda er því haldið fram, að kröfugerð um að eftirlaun séu verðbætt frá nóvember 2003 eigi sér hvorki stoð í samningi aðila né í lögum.     

Stefndi staðhæfir að hæstaréttardómur í málinu nr. 139/2005 feli ekki í sér neina viðurkenningu á slíkum rétti, enda var viðurkenningarkröfu stefnanda er laut að verðbótum til framtíðar vísað frá dómi og þá var eins og áður greinir ekki gerð krafa um verðbætur á eftirlaun eftir að stefnda hætti að reikna verðbætur á árinu 2003.

Samkvæmt forsendum Héraðsdóms í því máli sem staðfestar voru í Hæstarétti þótti eftir atvikum rétt að greiðslur samkvæmt eftirlaunasamningi færu eftir þeirri tilhögun sem var á útfærslu hans og framkvæmd á tímabilinu frá janúar 2000 til og með nóvember 2003.   Í þessu felst ekki að dómurinn hafi fallist á að stefnda sé skylt að verðbæta eftirlaun stefnanda  með launavísitölu meðan greiðsluskylda væri fyrir hendi.

Ekki verður raunar séð að stefnandi hafi byggt á að slík skylda væri fyrir hendi í stefnu í fyrra dómsmáli, enda hvergi vikið að því í stefnunni í því máli.  Bókun sú er stefnandi gerði 21. desember 2004 breytir að mati stefnda engu.   Skýringar þær sem þar komu fram er lutu að viðurkenningarkröfunni voru ekki í samræmi við það sem fram kom í stefnu þeirri sem var grundvöllur málsins.   Þá verður ekki séð að stefnandi hafi sjálfur talið að hann ætti rétt til þess að eftirlaun hans væru verðbætt með launavísitölu umfram það sem stefndai hafði þegar gert fyrr en eftir að stefndi hafði lagt fram greinargerð sína.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að stefnandi eigi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að eftirlaun hans séu verðtryggð eftir almennri launavísitölu.

Stefndi heldur því fram að á þeim tíma sem stefnandi hóf töku eftirlauna í ársbyrjun 2000 hafi launakjör starfsmanna á skrifstofu verið þannig að þau hækkuðu miðað við launavísitölu.  Verðtrygging þessi var felld niður 1. júní 2001 og frá þeim tíma hafa laun skrifstofufólks hjá stefnda ekki hækkað. Þrátt fyrir þetta var haldið áfram að reikna verðbætur á eftirlaun stefnanda fram á mitt ár 2003 en þá ákvað stefndi að hætta.

Stefndi heldur því fram að stefnandi geti ekki átt betri rétt að þessu leyti en starfsmenn fyrirtækisins.  Fráleitt sé að til allrar framtíðar fái stefnandi verðhækkun á laun miðað við almenna launavísitölu án nokkurrar tengingar við afkomu stefnda eða kjör þeirra sem þar starfa.

Af hálfu stefnda er því haldið fram, að almennt þurfi framkvæmdastjórar að una því að launakjör þeirra ráðist af afkomu fyrirtækis þess sem þeir stýra. Stefnandi heldur því fram að það hafi þýðingu fyrir réttarstöðu hans að hann geti ekki neytt réttar á grundvelli aðildar að kjarasamningi eða á grundvelli reglna um stéttarfélög.  Af þessu tilefni telur stefndi rétt að benda á að það hljóti að hafa þýðingu við túlkun samningssambands aðila að stefndi getur ekki sagt samningssambandinu upp eins og hann geti sagt starfsmönnum upp.

Þá er því mótmælt að eitthvað óeðlilegt sé við að stefnandi eigi ekki sjálfkrafa rétt til hækkunar eftirlauna sinna óháð afkomu stefnda og launakjörum framkvæmdastjóra félagsins.  Hafa verður í huga að sú viðmiðun sem stefnandi nýtur við útreikning eftirlauna er ekki í neinu samræmi við kjör starfsmanna stefnda eins og rakið hefur verið. Ekkert sé því óeðlilegt við það að eftirlaun hans hækki ekki sjálfkrafa án nokkurrar tengingar við samning þann sem eftirlaunagreiðslurnar grundvallast á.  Meðan stefndi hefur farið í gegnum erfið umskipti og breytingar þar sem starfsmenn hafa þurft að sæta skerðingu á sínum kjörum hafi eftirlaun stefnanda vaxið á sama tíma.    

Með hliðsjón af upphaflegum eftirlaunasamningi frá 1986 og framangreindum sjónarmiðum beri að fallast á að stefnda hafi verið heimilt á árinu 2003 að hætta að verðbæta eftirlaun stefnanda með launavísitölu. 

Samkvæmt þessu telur stefndi sig hafa efnt skyldur sínar að fullu frá og með desember 2005 en þá voru stefnanda greiddar 755.510 kr. auk sömu fjárhæðar sem 13 mánuður.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að fyrst stefnandi hefur fengið viðurkenndan rétt til 13. mánaðar án tengingar við upphaflegan samning aðila að þá verði hann að una því að eftirlaun fyrir þann mánuð séu þau sömu og fyrir aðra mánuði. Á árinu 2006 hefur stefnandi fengið greiddar 749.392 kr. á mánuði. 

Stefndi tekur fram að sú launaviðmiðun sem eftirlaun stefnanda miðast við sé um 1,1 milljón á mánuði og er þá 13. mánuðurinn reiknaður með.  Eins og áður greinir hefur núverandi forstjóri stefnda 950.000  kr. í laun á mánuði.  Launaviðmiðun stefnanda í lok þess tíma sem kröfugerð hans nær til er hins vegar tæpar 1,3 milljónir á mánuði með 13. mánuði.  

Stefndi byggir á því að eftir atvikum beri að miða upphafstíma dráttarvaxta við þingfestingardag þar sem kröfugerð stefnanda sé á röngum grunni.

Um sýknukröfu á viðurkenningarkröfu í stefnu byggir stefnda á því að stefnandi eigi ekki þann rétt sem viðurkenningarkrafan lýtur að og hann hafi sönnunarbyrði fyrir því að hann eigi þennan rétt á hendur stefnda.  Að öðru leyti vísar stefndi til þess sem áður hefur verið rakið.

Af hálfu stefnda er þess krafist að málskostnaðarkrafa stefnanda falli niður svo og krafa hans um álag á málskostnað.  Verði fallist á kröfugerð stefnda í málinu hafa kröfur stefnanda ekki náð fram nema að hluta.  Á þeim grunni beri að fella niður málskostnað þrátt fyrir að viðurkennt sé að stefndi standi í skuld við stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki komi til álita að beita hér álagi, enda fjarri að uppfyllt séu skilyrði til þess. Á það er sérstaklega að benda að það er ekki grundvöllur fyrir álagi á málskostnað að aðili greiði ekki skuld þannig að hana þurfi að innheimta með málssókn. Engar þær kröfur, staðhæfingar eða mótbárur hafa verið hafðar uppi af hálfu stefnda sem hann vissi eða mátti vita að væru rangar og haldlausar og því síður að sakir gætu talist miklar í þeim efnum svo sem áskilið er til beitingar álags.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samninga og réttar efndir.  Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstaða.

Frá því að mál þetta var höfðað í mars 2006 og fram að dómtöku þess hefur stefndi greitt og gert upp við stefnanda fjárhæðir þær er honum bar samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 139/2005.  Ágreiningur málsins er því tvíþættur. Annars vegar hvort stefnandi eigi rétt til þess, að eftirlaun þau sem hann fékk frá stefnda frá og með 1. janúar 2005 séu verðtryggð með launavísitölu miðað við grunnvísitölu í nóvember 2003.  Hins vegar hvort greiðslu 13. mánaðar í desembermánuði eigi að skerða eða ekki um 168.650 kr. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Er stefnandi var forstjóri Byggingaverktaka Keflavíkur hf. gerði hann samning, hinn 9. apríl 1986, við stjórn þess félags um eftirlaun sín.  Þar kemur fram að eftirlaunin skuli vera hundraðshluti „af launum forstjóra B.V.K. hf. eins og þau eru á hverjum tíma“ og geta þau hæst orðið 90% af mánaðarlaunum.  Í samningnum er ekki kveðið á um að launin séu verðtryggð.  Byggingaverktakar Keflavíkur hf. var eitt þeirra félaga sem mynduðu á árinu 1999 Keflavíkurverktaka hf.  Stefnandi lét af störfum um svipað leyti og var aldrei forstjóri Keflavíkurverktaka hf. Ágreiningslaust er að við sameiningu fyrirtækjanna yfirtóku Keflavíkurverktakar hf. samninginn um eftirlaunin en það félag er fyrirrennari stefnda. Þegar stefnandi var að fara á eftirlaun í ársbyrjun 2000 var tekin sú ákvörðun að hann fengi 90% af þeim launum sem hann hafði áður og taka ætti tillit til „verðlagshækkana sem hann hefði fengið ef hann væri í starfi“. Á þessum tíma nutu starfsmenn fyrirtækisins verðlagshækkunar á laun sín þrisvar á ári.  Að mati dómsins er hér um breytingu að ræða stefnanda í hag, því að í hinum upphaflega samningi um eftirlaun er hvergi minnst á verðtryggingu þeirra.  Ákvörðunin um vísitöluhækkunina er einnig, samkvæmt tölvuskeytinu frá 3. janúar 2000, bundin því skilyrði að stefnandi hefði fengið hana, ef hann væri í starfi.  Með því að það liggur fyrir að Keflavíkurverktakar hf. hættu að vísitölutryggja laun starfsmanna sinna 1. júní 2001 þá telur dómurinn einsýnt, að stefnandi eigi ekki frekari rétt til vísitöluhækkunar á laun sín en aðrir starfsmenn.  Þótt farist hafi fyrir að hætta vístöluhækkunum fyrr en í maí 2003, þá skapar það að mati dómsins ekki venju. Um mistök var að ræða hjá stefnda sem leiðrétt voru strax og þau komu í ljós. Þá er því hafnað að stefnandi geti byggt einhvern rétt á því gagnvart stefnda, að ójafnræði hafi verið með stefnanda og stefnda í málinu eða því að stefndi hafi búið yfir sérfræðiþekkingu og stefnandi ekki notið kjarasamningsaðildar, þar sem málið varðar túlkun á samningi um eftirlaun sem gerður var milli aðila.  Þá verður ekki heldur fram hjá því litið, að stefnandi hefur sjálfur ekki túlkað eftirlaunasamning sinn þannig, að hann ætti rétt til verðlagshækkunar á laun sín og er þá horft til þess hvernig málsgrundvöllurinn var lagður í málinu nr. 139/2005.  Stefnandi hefur vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar án þess að rökstyðja frekar á hvaða hátt sú lagagrein ætti hér við og er því hafnað að stefnandi geti byggt einhvern rétt á þeirri lagagrein.

Því er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af fjárkröfu stefnanda um greiðslu vísitöluhækkunar á eftirlaun stefnanda.  Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi einnig sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda um mánaðarlegar hækkanir á eftirlaunum hans miðað við launavísitölu Hagstofu Íslands.

Hitt atriðið sem ágreiningur er um er greiðsla uppbótar í desember. Ágreiningslaust er með aðilum að stefnandi eigi rétt til þessarar greiðslu, sbr. og dóm í málinu nr. 139/2005.    Ágreiningur málsaðila lýtur hins vegar að því, hvort greiðslan eigi að sæta frádrætti sem jafngildi greiðslu úr lífeyrissjóði fyrir desembermánuð eða ekki. Varðandi desembermánuð 2005 er ágreiningslaust að fjárhæð frádráttarins sé 168.650 kr.  Það er álit dómsins að með hliðsjón af forsendum þeirra dóma sem gengið hafa milli aðila, hafi stefndi ekki heimild til að skerða greiðslu vegna uppbótarinnar í desember um nefnda fjárhæð. 

                Með vísan til framanritaðs er niðurstaða málsins því sú, að stefndi greiði stefnanda 168.650 kr. með vöxtum frá 15. desember 2005.  Þá þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 600.000 kr. og er litið til þess að stefndi gerði ekki upp dóm Hæstaréttar í málinu nr. 139/2005 fyrr en eftir að stefnandi höfðaði mál þetta.  Kröfu  stefnanda um álag á málskostnað er hafnað, þar sem lagaheimild skortir fyrir þeirri kröfu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Sigurðsson hdl.

          Af hálfu stefnda flutti málið Kristinn Bjarnason hrl.

          Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi er sýknaður af kröfu stefnanda um viðurkenningu á því, að mánaðarlegar eftirlaunagreiðslur stefnda til stefnanda frá og með 1. apríl 2006 taki breytingum samkvæmt mánaðarlegum breytingum sem verða á launavísitölu Hagstofu Íslands frá og með 1. mars 2006.

Stefndi, Atafl hf., greiði stefnanda, Jóni Halldóri Jónssyni, 168.650 kr. auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. desember 2005 til greiðsludags og 600.000 kr. í málskostnað.