Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað um ótiltekinn tíma. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „lagt fyrir héraðsdómara að ljúka aðalmeðferð í málinu.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Málsaðilar, sem stofnuðu til hjúskapar 31. desember 2011, mættu hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra 29. janúar 2015 og kröfðust lögskilnaðar. Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók var samkomulag með þeim um fjárskipti, þar á meðal um að sóknaraðili fengi í sinn hlut fasteignina [...] á Akureyri, en aðilarnir voru þinglýstir eigendur hennar að helmingi hvort. Daginn eftir gaf sýslumaður út leyfi til lögskilnaðar fyrir aðila. Í því var tekið fram að samkomulag væri um fjárskiptin í samræmi við samning hjónanna sem færður hefði verið í hjónaskilnaðarbók.
Með bréfi 23. ágúst 2016 fór sóknaraðili þess á leit við varnaraðila að hann gæfi út afsal fyrir helmingshlut sínum í fyrrgreindri fasteign. Við þeim tilmælum varð varnaraðili ekki og höfðaði sóknaraðili því mál 14. desember sama ár á hendur honum þar sem þess var krafist að honum yrði gert að gefa út afsalið. Varnaraðili krafðist sýknu af þeirri kröfu og reisti málatilbúnað sinn á því að skilnaðurinn hefði verið til málamynda í því skyni að hækka örorkubætur til sóknaraðila. Þrátt fyrir skilnaðinn hefðu þau haldið sambúð sinni áfram allt fram á sumarið 2016 þegar henni var slitið.
Aðalmeðferð málsins í héraði hófst 6. mars 2017. Eftir að báðir aðilar höfðu gefið skýrslu gerði dómari grein fyrir því að hann hygðist kynna lögreglu staðhæfingar varnaraðila um tilgang skilnaðarins með tilliti til þess hvort um væri að ræða refsiverða háttsemi og fresta málinu meðan það væri til meðferðar á þeim vettvangi. Þessu mótmælti sóknaraðili og í kjölfarið gekk hinn kærði úrskurður.
II
Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 er dómara heimilt að fresta máli af sjálfsdáðum ef hann fær vitneskju um að sakamál hafi verið höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis og telja megi að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu um úrslit einkamálsins. Verður máli frestað á þessum grunni þar til séð er fyrir enda sakamálsins eða rannsóknarinnar.
Svo sem áður er rakið frestaði dómari málinu til að tilkynna lögreglu um ætlaða refsiverða háttsemi. Þetta var reist á þeim vörnum sem varnaraðili hefur teflt fram gegn málatilbúnaði sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu að ekki liggur fyrir að lögregla hafi tekið til rannsóknar ætlaðar sakargiftir verður málinu ekki frestað eftir 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. mars 2017.
Mál þetta er höfðað til að knýja fram efndir á skilnaðarsamningi.
Stefndi fullyrðir í greinargerð sinni að sá samningur hafi verið gerður til málamynda, í því skyni að stefnandi fengi hærri bætur en ella. Ekki kemur fram hver hafi greitt þær bætur.
Aðilar hafa nú gefið skýrslur. Segir stefnandi að þau hafi skilið vegna trúnaðarbrots.
Stefndi segir að skilnaðurinn hafi verið til málamynda og gerður til að stefnandi fengi hærri bætur.
Að svo komnu máli er ljóst að orð stendur gegn orði um þetta atriði. Með því að stefndi heldur því fram að hann hafi með gerð skilnaðarsamningsins átt þátt í verknaði sem fljótt á litið kann að varða refsingu, þykir rétt að fresta meðferð málsins og senda það lögreglustjóra til athugunar og þóknanlegrar meðferðar. Um heimild til frestunar vísast til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, enda skiptir verulegu máli fyrir úrslit þessa máls til hvaða niðurstöðu athugun lögreglustjóra leiðir, sbr. t.d. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ályktunarorð:
Máli þessu er frestað ótiltekið.