Hæstiréttur íslands

Mál nr. 754/2009


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur


                                                        

Fimmtudaginn 25. mars 2010.

Nr. 754/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson

 settur saksóknari)

gegn

Rannveigu Björgu Jónsdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Umferðarlagabrot. Ökuréttarsvipting. Ölvunarakstur.

R var sakfelld fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og svipt ökuréttindum. Hún hafði tvívegis verið svipt ökurétti tímabundið vegna ölvunaraksturs og í báðum tilvikum hafði vínandamang í blóði hennar mælst meira en 2.50‰. Var R því svipt ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 50/1987. R var einnig dæmd til fangelsisrefsingar í 45 daga samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga, en ekki voru lagaskilyrði til að dæma hana jafnframt til greiðslu sektar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd og  svipting ökuréttar staðfest.

Ákærða krefst þess að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð og að sviptingu ökuréttar verði markaður skemmri tími.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var meðal annars gerð sú krafa í ákæru að ,,ákærða verði dæmd til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar“ samkvæmt tilgreindum lagaákvæðum. Við þingfestingu málsins var bókað að ákæruvald óskaði eftir ,,breytingu á ákæru þannig að ökuréttarsvipting taki gildi 2. janúar 2014.“ Breyting þessi hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Ákærða játaði brot sitt. Sakaferli hennar er nægilega lýst í héraðsdómi. Samkvæmt því hefur hún tvívegis verið svipt ökurétti tímabundið vegna ölvunaraksturs, í seinna skiptið í fjögur ár frá 2. janúar 2010. Í báðum tilvikum mældist vínandamagn í blóði hennar meira en 2.50‰. Verður hún því svipt ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærða verður einnig dæmd samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga til fangelsisrefsingar, 45 daga, en ekki eru lagaskilyrði til að dæma hana jafnframt til greiðslu sektar.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærða, Rannveig Björg Jónsdóttir, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærða er svipt ökurétti ævilangt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað í héraði skal vera óraskað.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.894 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2009.

Mál þetta, sem þingfest var 22. október 2009 og dómtekið sama dag er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Hvolsvelli dagsettri 14. september 2009 á hendur Rannveigu Björgu Jónsdóttur, kt.[...], Bólstaðahlíð 3, 105  Reykjavík,

fyrir umferðarlagabrot

með því hafa, hinn 24. júlí 2009, ekið bifreiðinni TV-930, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,54 ‰) og svipt ökuréttindum, frá sumarbústað við Hagabraut við Gíslholtsvatn í Rangárvallasýslu, uns hún missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum bifreiðin lenti á hvolfi ofan í skurði meðfram Landvegi.

Telst brot ákærðu varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Þess er krafist ákærða verði dæmd til refsingar og til sæta sviptingu ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Við þingfestingu málsins óskaði sækjandi breytingar á ákæru þannig ökuréttarsviptin yrði dæmd frá 2. janúar 2014.

Ákærða komi fyrir dóminn og játaði brot sín fyrir dóminum. Er játning hennar í samræmi við önnur gögn málsins og verður hún sakfelld fyrir brot sín en þau eru í ákæru réttilega færð til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða, sem óskaði ekki eftir skipun verjanda, hafði verið gefinn kostur á tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærða krafðist þess ökuréttarsvipting hennar yrði dæmd frá og með þingfestingardegi.

Um málavexti vísast til ákæruskjals.

Samkvæmt sakarvottorði sem liggur frammi í málinu var ákærða dæmd þann 15. október 2007 fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og gert að greiða 160.000 krónur í sekt auk þess að vera svipt ökurétti í tvö ár frá 2. janúar 2008 og þann 8. október 2008 var ákærða dæmd til að greiða 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess að vera svipt ökurétti í fjögur ár frá 2. janúar 2010 fyrir brot gegn 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Með vísan til dómaframkvæmdar er refsing ákærðu nú ákveðin fangelsi í þrjátíu daga. Auk þess ber að dæma ákærðu til að greiða 60.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í sex daga. Þá ber að svipta ákærðu ökurétti ævilangt frá 2. janúar 2014 að telja.

Samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað er hann samtals 91.097 krónur vegna töku blóðsýna og blóðrannsóknar. Ber dæma ákærðu til greiða þann kostnað með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærða, Rannveig Björg Jónsdóttir sæti fangelsi í þrjátíu daga.

Ákærða greiði 60.000 krónur í sekt til ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í sex daga.

Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá 2. janúar 2014 telja.

Ákærða greiði sakarkostnað 91.097 krónur.