Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2011


Lykilorð

  • Frelsissvipting
  • Rán
  • Sakartæming
  • Umferðarlagabrot
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Svipting ökuréttar
  • Einkaréttarkrafa


Fimmtudaginn 29. mars 2012.

Nr. 540/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Kristmundi Sigurðssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Frelsissvipting. Rán. Sakartæming. Umferðarlagabrot. Líkamsmeiðing af gáleysi. Fíkniefnalagabrot. Svipting ökuréttar. Einkaréttarkrafa.

K var sakfelldur fyrir frelsissviptingu, rán, þjófnað, fíkniefnalagabrot, brot gegn umferðarlögum og fyrir að valda líkamstjóni af gáleysi. Var K einnig sviptur ökurétti ævilangt, gert að sæta upptöku fíkniefna og til greiðslu miskabóta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gerði hann einnig kröfu um að ökuréttarsvipting verði stytt og markaður ákveðinn tími. Þá krefst hann „endurskoðunar á niðurstöðum dóms um skaðabætur til A að fjárhæð 450.000 krónur og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi.“

Fyrir héraðsdómi gerði A einkaréttarkröfu, sem fallist var á með þeim hætti, sem fram kemur í dómsorði hins áfrýjaða dóms. A er nú látinn.  Af hálfu dánarbúsins hefur ekki verið óskað endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um kröfuna.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var málið höfðað með tveimur ákærum. Þá fyrri gaf ríkissaksóknari út 15. apríl 2011. Þar eru ákærða gefin að sök ráns- og frelsissviptingarbrot og fíkniefnalagabrot. Hin síðari var gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. júní 2011. Hún varðar þrjú tilvik, þar sem ákærði er sakaður um akstur án ökuréttar og undir áhrifum fíkniefna, eitt þjófnaðarbrot, eitt fíkniefnalagabrot og loks brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem jafnframt er talið varða við nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987. Felst síðastnefnda brotið í því að hafa valdið árekstri sem olli ökumanni annarrar bifreiðar líkamstjóni. Er þessum sakargiftum nánar lýst í héraðsdómi.

Ákærði kom fyrir dóm 14. júní 2011. Þá játaði hann sök samkvæmt öllum ákæruliðum beggja ákæruskjala en tók fram að hann myndi ekki atvik að ráns- og frelsissviptingarbrotinu í ákæru ríkissaksóknara. Þar næst var bókað að skilyrði væru til að fara með málið í samræmi við 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að því búnu tjáðu fulltrúi ákæruvaldsins og skipaður verjandi ákærða sig um ákvörðun viðurlaga auk þess sem réttargæslumaður bótakrefjanda lagði bótakröfuna í dóm. Hinn áfrýjaði dómur var síðan kveðinn upp 16. júní 2011.

Við málflutning fyrir Hæstarétti voru af hálfu ákærða gerðar ýmsar athugasemdir sem bæði lúta að lagaatriðum í ákærunum og afgreiðslu héraðsdóms á þeim.

Í fyrsta lagi var því haldið fram að brotið í I. kafla ákæru ríkissaksóknara eigi einungis að heimfærast undir 252. gr. almennra hegningarlaga en ekki jafnframt undir 2. mgr. 226. gr. laganna, þar sem 252. gr. tæmi sökina. Samkvæmt gögnum málsins stóð frelsissvipting A yfir í um sex klukkustundir umrætt sinn. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að brotið varði við bæði hin tilgreindu refsiákvæði.

Í öðru lagi var af hálfu ákærða færð fram sú vörn að akstursbrot hans samkvæmt 1. og 5. töluliðum í ákæru lögreglustjórans í Reykjavík hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað. Svo sé einnig um akstursþátt 6. ákæruliðar í sömu ákæru. Brotið í 1. tölulið var framið 28. apríl 2009. Gögn málsins sýna að skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu strax þann dag. Brotið í 5. tölulið var framið 13. nóvember 2008 og var lögregluskýrsla tekin af ákærða vegna brotsins sama dag. Fyrningarfrestur telst frá þeim degi, er refsiverðum verknaði lauk, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 82. gr. laganna rofnar fyrningarfrestur þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Er af þessu ljóst að fyrningarfrestur þeirra tveggja brota sem hér voru nefnd var rofinn strax á brotadegi. Samkvæmt 2. málslið 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga rýfur rannsókn samkvæmt 4. mgr. ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir henni eða hún stöðvast um óákveðinn tíma með þeim fyrirvara að sakborningur hafi ekki komið sér undan rannsókninni. Af hálfu ákærða hefur því ekki verið haldið fram að rannsókn brotanna á hendur honum hafi stöðvast þannig að rof fyrningar nefndra brota hafi fallið niður af þeim sökum og hann hefur þá heldur ekki sýnt fram á að svo sé. Verður samkvæmt þessu lagt til grundvallar, svo sem gert var í héraðsdómi, að ákærði hafi gerst sekur um nefnd brot og að honum verði gerð refsing og önnur viðurlög vegna þeirra. Að því er snertir sjónarmið ákærða um fyrningu á akstursþætti brotsins í 6. ákærulið þessarar ákæru er þess að gæta að brotið er í ákærunni talið varða við 219. gr. almennra hegningarlaga auk þeirra ákvæða umferðarlaga sem þar eru tilgreind. Brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga geta varðað fangelsi allt að fjórum árum. Þau fyrnast því á fimm árum samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Engin efni eru til að greina brotið í sundur á þann hátt sem ákærði heldur fram og telja að í því sé falinn akstursþáttur sem sæti fyrningu á skemmri tíma en þetta, sbr. 4. mgr. 81. gr. laganna. Brotið var framið 24. júlí 2008 og kemur því fyrning þess ekki til álita í málinu.

Í þriðja lagi voru færð fram mótmæli við því að dómur sá sem ákærði hlaut fyrir líkamsárás 20. febrúar 2006 hefði ítrekunaráhrif nú, þar sem fangelsisrefsing í þeim dómi hefði verið bundin skilorði. Með vísan til 61. gr. almennra hegningarlaga er fallist á þetta.

Þá var af hálfu ákærða lagt fram vottorð frá meðferðarstofnun í Svíþjóð um meðferð sem ákærði hefur notið vegna neyslu vímugjafa. Taldi ákærði að vottorðið sýndi að hann hefði náð marktækum árangri í þessu efni og ætti það að valda því að dómur yfir honum yrði bundinn skilorði.

Af hálfu ákærða voru loks gerðar frekari athugasemdir um atriði sem áhrif eigi að hafa á ákvörðun refsingar sem og um miskabótakröfu A, þar sem talið var að ekki væri samræmi milli forsendna og dómsorðs um úrlausn á henni.

Ráns- og frelsissviptingarbrot það sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli er mjög ófyrirleitið og alvarlegt. Háttsemi ákærða 24. júlí 2008 er hann ók bifreið undir sterkum áhrifum fíkniefna og olli alvarlegu líkamstjóni hjá öðrum vegfaranda var stórhættuleg og með öllu óforsvaranleg. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar og að teknu tilliti til athugasemda ákærða fyrir Hæstarétti verður staðfest refsing ákærða sem þar er ákveðin. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna. Í málinu er ákærði sakfelldur fyrir endurtekinn akstur án ökuréttar og undir mjög miklum fíkniefnaáhrifum. Enda þótt ekki sé um ítrekun öðru sinni að ræða eru sakir miklar og verður með vísan til 101. gr. umferðarlaga ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar staðfest.

Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur um fjárhæð miskabóta til handa A. A er látinn og tekur dánarbú hans við aðild að miskabótakröfunni samkvæmt lögjöfnun frá 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem fram kemur í forsendum héraðsdóms hafa samverkamenn ákærða að ráns- og frelsissviptingarbrotinu 20. desember 2009 verið dæmdir hvor í sínu lagi til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 450.000 krónur. Ber að dæma ákærða til sameiginlegrar ábyrgðar með þeim á greiðslu bótanna. Verður það gert með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur um upptöku fíkniefna og sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, sviptingu ökuréttar hans, upptöku fíkniefna og sakarkostnað.

Ákærði, Kristmundur Sigurðsson, greiði dánarbúi A 450.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2009 til 14. júlí 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Greiðsluskylda ákærða er sameiginleg með greiðsluskyldu Y og Z við brotaþola samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí og 10. júní 2011 á þann hátt að greiði annar þeirra eða báðir kröfuna eða hluta hennar lækkar greiðsluskylda ákærða að sama skapi.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 260.603 krónur, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar, hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 14. júní 2011, er höfðað með tveimur ákærum útgefnum af ríkissaksóknara 15. apríl 2011 og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. júní 2011, á hendur Kristmundi Sigurðssyni, kt. [...], búsettum í Svíþjóð.

Með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 15. apríl 2011 var höfðað mál á hendur ákærðu Kristmundi Sigurðssyni, Y og Z, fyrir eftirfarandi brot framin á árinu 2009:

I.

Gegn ákærðu öllum fyrir frelsissviptingu og rán með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 20. desember, í sameiningu svipt A, kennitala [...], frelsi á heimili sínu að [...] í Reykjavík og beitt hann ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum, en ákærðu slógu A í andlit, tóku hann hálstaki, fjötruðu hendur hans og tróðu tusku upp í munn hans og kefluðu hann. Ákærðu neyddu A til að millifæra af reikningi sínum 110.000 krónur yfir á reikning ákærða Z auk þess sem þeir söfnuðu verðmætum í íbúð A, m.a. 80.000 krónum í peningaseðlum, og flutti Kristmundur hluta verðmætanna af vettvangi. Við atlöguna hlaut A roða og mar á úlnliðum og framhandleggjum, roðarákir í munnvikum, mar undir og aftan við eyru, bólgu á vinstri kinn og áfallastreituröskun.

Telst háttsemi ákærðu varða við 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

[…]

III.

Gegn ákærða Kristmundi Sigurðssyni fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa mánudaginn 21. desember haft í vörslum sínum 5,74 g af amfetamíni og 4,82 g af marihúana sem lögregla fann við leit á ákærða á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113, Reykjavík.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni, með áorðnum breytingum, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 5,74 g af amfetamíni og 4,82 g af marihúana sem hald var lagt á, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmdir til að greiða miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 20. desember 2009, til þess dags þegar liðinn var mánuður frá því að ákærðu var birt skaðabótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða málskostnað við að halda fram kröfu þessari samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 14. júní 2011 er höfðað mál á hendur ákærða Kristmundi Sigurðssyni fyrir eftirgreind umferðar-, fíkniefna- og hegningarlagabrot

  1. Með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 28. apríl 2009, ekið bifreiðinni [...], af stað við hús nr. [...] við [...] á Seltjarnarnesi, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 1480 ng/ml), þar sem lögregla hafði afskipti af honum.
  2. Með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 22. júní 2009, ekið bifreiðinni [...], vestur Sæbraut í Reykjavík, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 330 ng/ml), uns lögregla stöðvaði akstur hans við Seðlabanka Íslands
  3. Með því að hafa, þriðjudaginn 10. nóvember 2009, ekið bifreiðinni [...], um [...] í Kópavogi, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 550 ng/ml), uns lögregla stöðvaði akstur hans við [...].
  4. Með því að hafa, mánudaginn 9. nóvember 2009, í bensínafgreiðslu [...], [...] í Reykjavík, stolið 80,26 lítrum af eldsneyti, að verðmæti 15.145 krónur, með því að dæla eldsneytinu á bifreiðina [...] og yfirgefið afgreiðsluna án þess að greiða fyrir.
  5. Með því að hafa, fimmtudaginn 13. nóvember 2008, haft í vörslum sínum, móts við [...] í Reykjavík, 30,62 g af amfetamíni, er lögregla hafði afskipti af honum.
  6. Með því að hafa, fimmtudaginn 24. júlí 2008, ekið bifreiðinni [...], án nægjanlegrar aðgæslu og tillitssemi, of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, 60 km á klst. austur Breiðholtsbraut í Reykjavík, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 2000 ng/ml, kókaín 75 ng/ml og MDMA 140 ng/ml), gegn rauðu ljósi við gatnamót [...], með þeim afleiðingum að árekstur varð við bifreiðina [...], sem ekið var inn á gatnamótin og ökumaður hennar, B, hlaut beinbrot á fyrsta rifi, miðju viðbeini, tveimur stöðum á vinstra herðablaði, vinstri upphandlegg, á utanverðum hægri sköflungi og á hægri fibula.

Telst ofangreind háttsemi samkvæmt ákæruliðum 1-3 varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, samkvæmt ákærulið 4 við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákæruliður 5 varðar við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og ákæruliður 6 við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. og a- og c-liði 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 37. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.  Þá er þess krafist að 30,62 grömm af amfetamíni, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Verjandi ákærða krefst vægustur refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Mál meðákærðu Y og Z voru skilin frá máli ákærða og kveðnir upp dómar í málum þeirra hinn 27. maí og 10. júní sl.

Ákærði játar sök. Farið var með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1958 og nær sakaferill hans allt aftur til ársins 1976. Hann hefur verið dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, brennu, hylmingu, umferðarlagabrot, nytjastuld, skjalafals og ávana- og fíkniefnalagabrot. Hann hlaut 12 ára fangelsisdóm með dómi Hæstaréttar í mars 1978 fyrir manndráp. Með dómi frá 23. maí 1990 hlaut hann 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi frá 20. febrúar 2006 hlaut hann 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hann var dæmdur 24. mars 2009 í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í 2 ár og 6 mánuði. Þá hlaut ákærði á ný dóm 8. apríl 2009 fyrir akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, en var ekki gerð sérstök refsing þar sem um hegningarauka var að ræða. Með brotum þeim sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru ríkissaksóknara og samkvæmt 1.-4. liðum ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, hefur hann rofið skilorð refsidómsins frá 24. mars 2009. Verður skilorðsdómurinn tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin. Brot ákærða sem hann hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru ríkissaksóknara var ófyrirleitið og unnið í félagi við aðra og verður það virt ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. Jafnframt hefur dómur sem ákærði hlaut fyrir líkamsárás 20. febrúar 2006 ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 71. gr. og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða verður tiltekin eftir reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Það horfir ákærða til málsbóta að hann hefur gengist greiðlega við brotum sínum. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Við flutning málsins kom fram hjá verjanda að ákærði hefði fyrir rúmu ári síðan gengist undir áfengis- og fíknimeðferð erlendis og hefði honum vegnað vel síðan. Ekki hafa verið lögð fram sérfræðivottorð vegna þeirrar meðferðar. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og alvarleika þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir í málinu þykir ekki unnt að binda fangelsisrefsingu hans skilorði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Upptæk eru gerð 36,36 g af amfetamíni og 4,82 g af marihúana samkvæmt lagaákvæðum sem í ákærum greinir.

Réttargæslumaður A hefur krafist  greiðslu miskabóta in solidum, úr hendi ákærðu Y, Z og Kristmundar Sigurðssonar, að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta. Um lagarök vísar réttargæslumaður til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 450.000 krónur, auk vaxta sem í dómsorði greinir, sem ákærði greiði óskipt með ákærðu Y og Z.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 87.850 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 50.200 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 827.230 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Kristmundur Sigurðsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði A 450.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. desember 2009 til 14. júlí 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Upptæk eru gerð 36,36 g af amfetamíni og 4,82 g af marihúana.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 87.850 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 50.200 krónur. Ákærði greiði 827.230 krónur í annan sakarkostnað.