Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skiptastjóri
  • Vanlýsing


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002.

Nr. 47/2002.

Þrotabú Ísness ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Jóhanni Boga Guðmundssyni

(Tómas Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skiptastjóri. Vanlýsing.

Skiptastjóri í þrotabúi Í ehf. neitaði að taka afstöðu til kröfu J sem hann hafði lýst í búið um það bil fjórtán mánuðum eftir að frestur til þess var á enda. Í kröfulýsingu J var greint frá þeim atvikum að baki kröfunni að tilteknu skipi í eigu Í ehf. hefði verið siglt á skip í eigu J. Á þessum tíma rak J mál á hendur tryggingafélaginu V til greiðslu sömu kröfu í skjóli ábyrgðartryggingar, sem Í ehf. hafði keypt vegna skips síns. Héraðsdómur sýknaði V af kröfunni þar sem ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga stæðu í vegi fyrir að J gæti sótt kröfu sína beint á hendur því. Í kjölfarið óskaði J á nýjan leik eftir því að skiptastjóri tæki afstöðu til kröfunnar, en skiptastjóri ítrekaði fyrri afstöðu sína. Hæstiréttur taldi að skýra yrði heimild skiptastjóra samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að taka ekki afstöðu til kröfu með tilliti til þess að með henni væri vikið frá meginreglu 1. mgr. 119. gr. sömu laga og sýnilega í þeim tilgangi að einfalda skiptastjóra störf þegar engir lögvarðir hagsmunir gætu tengst því að hann legði mat á einstakar kröfur. Þegar hagsmunir J væru virtir yrði ekki fallist á að skiptastjóri mætti neyta fyrrnefndrar heimildar til að víkjast undan því að taka afstöðu til kröfu J. Þá var ekki talið að skiptastjóri gæti neitað að taka afstöðu til kröfunnar án þess að J gæfist áður kostur á að koma henni að við gjaldþrotaskiptin eftir reglu 1. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991. Var því felld niður ákvörðun skiptastjóra í þrotabúi Í ehf. um að taka ekki afstöðu til kröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að hrundið yrði ákvörðun skiptastjóra sóknaraðila frá 23. mars 2001 um að taka ekki afstöðu til kröfu, sem varnaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti sóknaraðila 27. október 2000. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefndri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Engu að síður krefst hann þess að lagt verði fyrir sóknaraðila að taka efnislega afstöðu til kröfunnar, sem varnaraðili lýsti á hendur honum 27. október 2000, svo og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Ísness ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 9. júní 1999. Fresti til að lýsa kröfum í þrotabúið lauk 30. ágúst sama árs. Innan frestsins bárust skiptastjóra í þrotabúinu kröfur að fjárhæð samtals 155.909.906 krónur og virðist sem þeim hafi öllum verið lýst sem almennum kröfum. Í kröfuskrá, sem skiptastjóri gerði 8. september 1999, tók hann ekki afstöðu til þessara krafna, þar sem hann taldi sýnt að ekkert myndi greiðast upp í þær. Kröfuskráin mun hafa verið lögð fram á skiptafundi í þrotabúinu 16. september 1999. Að sögn sóknaraðila var ákveðið þar að fresta því að ljúka skiptum á búinu, þótt engar eignir hefðu komið fram, sem nægja myndu til greiðslu upp í lýstar kröfur, þar sem óskir höfðu komið fram af hendi kröfuhafa um að frekari könnun yrði gerð á ráðstöfunum félagsins fyrir upphaf skipta.

Með bréfi 27. október 2000 lýsti varnaraðili almennri kröfu í þrotabúið að fjárhæð samtals 13.713.735 krónur. Þar var greint frá þeim atvikum að baki kröfunni að tilteknu skipi í eigu Ísness ehf. hafi verið siglt á skip í eigu varnaraðila í höfninni í Sandgerði 10. mars 1994 og hafi tjón á síðarnefnda skipinu numið áðurnefndri fjárhæð, að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Skiptastjóri sóknaraðila neitaði með bréfi 15. nóvember 2000 að taka afstöðu til kröfunnar, þar sem bæði væri sýnt að ekkert myndi greiðast upp í hana og hún hefði borist eftir lok kröfulýsingarfrests. Á þessum tíma rak varnaraðili mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Vélbátaábyrgðarfélaginu Gróttu til greiðslu sömu kröfu í skjóli ábyrgðartryggingar, sem Ísnes ehf. hafði keypt vegna skips síns. Með dómi 26. janúar 2001 var vélbátaábyrgðarfélagið sýknað af kröfu hans, þar sem ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga stæðu í vegi fyrir að hann gæti sótt kröfu sína beint á hendur því. Þessum dómi undi varnaraðili. Með bréfi til skiptastjóra 31. janúar 2001 krafðist varnaraðili þess að hann endurskoðaði áðurnefnda ákvörðun sína frá 15. nóvember 2000 í ljósi niðurstöðu dómsmálsins. Tók skiptastjóri þessa kröfu fyrir á skiptafundi 23. mars 2001, sem aðrir virðast ekki hafa verið boðaðir til en varnaraðili og lögmaður Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu. Skiptastjóri ítrekaði þar fyrri afstöðu sína. Með því að varnaraðili sætti sig ekki við þá afstöðu var ágreiningi um þetta efni vísað til Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2001 og mál þetta þingfest af því tilefni 19. september sama árs.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 gildir sú aðalregla um meðferð skiptastjóra á kröfum, sem lýst er í þrotabú innan kröfulýsingarfrests, að honum beri í kröfuskrá, sem nánari fyrirmæli eru þar um, að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig viðurkenna eigi þær við gjaldþrotaskiptin. Frá þessari aðalreglu er gerð sú undantekning í lokamálslið ákvæðisins að skiptastjóra sé óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja megi fullvíst að ekki getið komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin. Þessa heimild skiptastjóra verður að skýra með tilliti til þess að með henni er vikið frá meginreglu og sýnilega í þeim tilgangi að einfalda honum störf þegar engir lögvarðir hagsmunir gætu tengst því að hann leggi mat á einstakar kröfur. Í máli þessu er svo ástatt að varnaraðili telur sig eiga kröfu á hendur sóknaraðila, sem varnaraðili gæti átt rétt á að fá greidda úr ábyrgðartryggingu ef fullnægt yrði þeim skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 að staðreynt væri að sóknaraðili bæri skaðabótaskyldu gagnvart honum og fjárhæð bóta úr hendi hans væri ákveðin. Vegna gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila hefur varnaraðili ekki aðra leið til að sækja í þessum tilgangi kröfu sína gagnvart honum en eftir þeirri, sem um ræðir í 117. gr. laga nr. 21/1991. Þegar hagsmunir varnaraðila af þessu eru virtir verður ekki fallist á með sóknaraðila að skiptastjóri megi neyta fyrrnefndrar heimildar í lokamálslið 1. mgr. 119. gr. sömu laga til að víkjast undan því að taka afstöðu til kröfu varnaraðila.

Eins og ráðið verður af áðurgreindu lýsti varnaraðili ekki kröfu sinni á hendur sóknaraðila fyrr en nærri 14 mánuðum eftir að fresti til þess var lokið. Af gögnum málsins er einsýnt að krafa varnaraðila fellur af þessum sökum niður gagnvart sóknaraðila nema fullnægt verði skilyrðum 1. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 til að koma henni nú að við gjaldþrotaskiptin. Til þess að svo gæti orðið yrði varnaraðili að afla samþykkis frá ¾ hlutum þeirra almennu kröfuhafa, sem lýstu kröfum í þrotabúið innan kröfulýsingarfrests, talið bæði eftir höfðatölu þeirra og fjárhæðum krafna þeirra, enda verður ekki fallist á með honum að neinu breyti í því sambandi að fyrirsjáanlega fáist ekkert greitt upp í lýstar kröfur. Ekki getur reynt á hvort varnaraðila auðnist þetta nema honum gefist kostur á að fá fram samþykki nauðsynlegs fjölda kröfuhafa á skiptafundi í þrotabúinu, en að því fengnu yrði skiptastjóri að taka efnislega afstöðu til kröfu hans.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að felld sé niður ákvörðun skiptastjóra sóknaraðila 23. mars 2001 um að taka ekki afstöðu til lýstrar kröfu varnaraðila.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður látið standa óraskað, enda kærði varnaraðili það ekki fyrir sitt leyti. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Felld er niður ákvörðun skiptastjóra sóknaraðila, þrotabús Ísness ehf., 23. mars 2001 um að taka ekki afstöðu til kröfu, sem varnaraðili, Jóhann Bogi Guðmundsson, lýsti á hendur þrotabúinu 27. október 2000.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2002.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 4. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, barst dóminum með bréfi skiptastjóra þrotabús Ísness ehf., Kristins Bjarnasonar hrl., sem dagsett er þann 27. apríl 2001.  Með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 krefst skiptastjóri úrlausnar Héraðsdóms Reykjaness um ágreining um það hvort skiptastjóra beri að taka afstöðu til kröfu sem sóknaraðili lýsti í bú varnaraðila.

Sóknaraðili málsins er Jóhann Bogi Guðmundsson, kt. 041241-3819, Sólvallagötu 74, Reyjavík.

Varnaraðili er þrotabú Ísness ehf. Reykjanesbæ, kt. 510189-1839, Lágmúla 7, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess, að ákvörðun skiptastjóra varnaraðila frá 23. mars 2001 um að taka ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila verði hnekkt og að lagt verði fyrir skiptastjóra varnaraðila að taka efnislega afstöðu til kröfu sóknaraðila sem lýst hafi verið í bú varnaraðila þann 27. október 2000.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts. 

Af hálfu varnaraðila er þess krafist, að kröfu sóknaraðila verði hafnað.  Auk þess krefst varnaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts. 

Málsatvik:

Málsatvikum verður nú lýst eins og þau eru rakin í beiðni skiptastjóra um dómsmeðferð og í greinargerð varnaraðila, en sóknaraðili vísaði um málsatvik til fyrrnefnds bréfs skiptastjóra. 

 Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann 9. júní 1999 var bú Ísness ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Kristinn Bjarnason hrl. var skipaður skiptastjóri í búinu.  Innköllun var birt í lögbirtingarblaðinu í fyrra skipti 30. júní 1999 og í síðara skipti 12. júlí 1999.  Rann kröfulýsingarfrestur út þann 30. ágúst 1999.  Sóknaraðili lýsti ekki kröfu í búið innan kröfulýsingarfrests.  Fjallað var um skrá um lýstar kröfur á skiptafundi 16. september 1999.  Ekki var tekin afstaða til lýstra krafna þar sem sýnt þótti að ekkert fengist greitt upp í þær.  Að sögn skiptastjóra var ekki gengið þá þegar frá skiptalokum þar sem skiptabeiðandi fór fram á að framkvæmd yrði athugun á ráðstöfun á hlutabréfaeign hins gjaldþrota félags.  Kveður skiptastjóri þá athugun ekki hafa leitt neinar eignir í ljós.  Kröfu sóknaraðila var lýst þann 27. október 2000.  Var krafan vegna meints tjóns af völdum báts í eigu hins gjaldþrota félags.  Félagið hafði tekið ábyrgðartryggingu vegna bátsins hjá Vélbátaábyrgðarfélaginu Gróttu.  Skiptastjóri tilkynnti sóknaraðila með bréfi þann 15. nóvember 2000 að ekki yrði tekin afstaða til kröfunnar þar sem sýnt þætti að ekkert myndi greiðast upp í hana, auk þess sem að hún hafi borist eftir að kröfulýsingarfresti lauk.  Fyrir hafi legið að sóknaraðili hafi þann 31. mars 2000 stefnt nefndu tryggingafélagi til greiðslu skaðabóta og hafi byggt á því að uppfyllt væru ákvæði 95. gr. vátryggingasamningalaga svo ganga mætti beint að félaginu.  Var nefnt tryggingafélag sýknað af kröfu sóknaraðila með dómi þann 26. janúar 2001 á grundvelli þess að ekki væri uppfyllt það skilyrði 95. gr. laga um vátryggingasamninga að upphæð bótanna væri ákveðin og því ekki hægt að sækja málið á hendur tryggingafélaginu beint.  Í kjölfar dómsins krafðist sóknaraðili þess með bréfi 31. janúar 2001 að skiptastjóri tæki kröfuna  til efnismeðferðar.  Boðaði skiptastjóri til fundar um málið sem haldinn var 23. mars 2001.  Á þeim fundi ítrekaði skiptastjóri þá ákvörðun sína sem hann hafði kunngert sóknaraðila með fyrrnefndu bréfi frá 15. nóvember 2000, að ekki væri tekin afstaða til kröfunnar þar sem sýnt þætti að ekkert fengist greitt upp í hana við skiptin og eins vegna þess að hún hefði borist eftir lok kröfulýsingarfrests.  Ekki tókst að jafna ágreining um þetta og vísaði skiptastjóri málinu til úrlausnar héraðsdóms með bréfi 27. apríl 2001 eins og fyrr segir.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili byggir á því að við gjaldþrotaskipti sé það meginregla að skiptastjórum sé skylt að taka afstöðu til allra framkominna krafna á hendur búinu.  Þessi regla komi fram í fyrri hluta 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.  Undantekningu sé síðan að finna í síðari hluta sömu málsgreinar.  Þar sé kveðið á um að skiptastjóra sé óskylt að taka afstöðu til kröfu ef telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu þeirra við skiptin.  Skiptastjóri virðist styðja mál sitt öðrum þræði við við þessa undantekningarreglu.

Það sé mat sóknaraðila að skýra beri undantekninarákvæðið þröngt og þannig að það geti aðeins átt við þegar engu máli skipti hver afstaða þrotabúsins sé til krafna kröfulýsenda.  Þegar kröfulýsendur geti hins vegar bent á lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega afstöðu þrotabúsins til krafna beri skiptastjórum að taka afstöðu til krafna þeirra.  Það falli undir almennar starfsskyldur skiptastjóra sbr. 1. mgr. 77. gr. og 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991.

Nefnir sóknaraðili í dæmaskyni  forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 sem í mörgum tilvikum fáist greiddar úr ábyrgðarsjóði launa.  Það sé tvímælalaus skylda skiptastjóra að taka afstöðu til slíkra krafna, jafnvel þótt fullvíst megi telja að ekki komi til greiðslu þeirra við skiptin sjálf.  Ástæðu þessu kveður sóknaraðili vera að kröfulýsendur eigi lögvarða hagsmuni af því að þrotabú taki afstöðu til slíkra krafna.

Kveður sóknaraðili sig hafa með sama hætti lögvarða hagsmuni af því að skiptastjóri taki efnislega afstöðu til kröfu hans og hafi skiptastjóra verið bent  á þessa hagsmuni með skírum hætti í bréfi sóknaraðila 31. janúar 2001.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að krafa sóknaraðila eigi ekki að ná fram að ganga vegna þess að henni var ekki lýst  fyrr en eftir að kröfulýsingarfresti var lokið og því sé hún fallin niður. Vísar varnaraðili til 117. gr. og 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 um það hverju það varði ef kröfu er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests.

Til vara byggir varnaraðili á því að skiptastjóra hafi verið óskylt að taka afstöðu til kröfunnar þar sem sýnt var að ekki fengist neitt greitt upp í hana við skiptin sbr. 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Kveður varnaraðili að síðastnefnt lagaákvæði sé skýrt og eigi að túlkast eftir orðanna hljóðan.  Að sögn varnaraðila verði skylda til að taka afstöðu til krafna sem sýnt sé að ekki fáist greiddar við skiptin, ekki leidd af  „almennum starfsskyldum skiptastjóra“ eins og sóknaraðili haldi fram þar sem sá skilningur sé í andstöðu við skýrt orðalag 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotalaganna.  Einnig mótmælir varnaraðili samanburði sóknaraðila á meðferð launakrafna sem fáist greiddar úr ábyrgðarsjóði launa í þessu sambandi.  Skylda skiptastjóra til að taka afstöðu til slíkra krafna komi berlega fram í 11. gr. laga nr. 53/1993 og byggist því ekki á „lögvörðum hagsmunum“ eins og sóknaraðili haldi fram.

Varðandi kröfu sína um málskostnað vísar varnaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða:

Í máli þessu er krafist úrlausnar héraðsdóms um réttmæti þeirrar ákvörðunar skiptastjóra að taka ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila.  Skiptastjóri byggir þessa ákvörðun sína á 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.  Ákvörðun skiptastjóra má sjá í bréfi hans til héraðsdóms frá 27. apríl 2001 og eins í bréfi hans til sóknaraðila 15. nóvember 2000.  Orðar skiptastjóri þessa ákvörðun sína með eftirfarandi hætti í síðastnefndu bréfi:  „Ekki er tekin afstaða til kröfunnar þar sem sýnt þykir að ekkert muni greiðast upp í hana auk þess sem hún barst eftir lok kröfulýsingarfrests.“ 

Eins og máli þessu er háttað er það lagt fyrir dóminn að meta réttmæti tilvitnaðrar ákvörðunar skiptastjóra.  Ákvörðun þessi lýtur að því að taka ekki afstöðu til lýstrar kröfu í búinu.  Verður því í máli þessu aðeins skorið úr því hvort skiptastjóra hafi verið rétt að láta hjá líða að taka afstöðu.  Röksemdir aðila hafa snúist að verulegu leyti um það hvort umþrætt krafa eigi ekki að komast að vegna þess að henni var of seint lýst í búið.  Í 121. gr. gjaldþrotalaganna segir að ef kröfu er lýst eftir að kröfulýsingarfresti er lokið, en ekki er víst að hún sé fallin niður fyrir þær sakir, skuli skiptastjóri svo fljótt sem verða megi taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig hann telji að eigi að viðurkenna hana.  Sóknaraðili hefur vísað til 1. tl . 118. gr. varðandi þá fullyrðingu sína að krafa hans sé ekki fallin niður vegna vanlýsingar.  Telja verður óumdeilt að kröfulýsing sóknaraðila barst innan þeirra tímamarka sem nefnt lagaákvæði tiltekur.  Einnig verður að telja upplýst að þar sem búið er eignalaust að þá færi enginn kröfuhafa á mis við greiðslu kröfu sinnar þó krafa sóknaraðila kæmist að.  Það er því vafi á því hvort krafa sóknaraðila er fallin niður fyrir vanlýsingu.  Að öllu jöfnu hefði þessi aðstaða kallað á skýra afstöðu skiptastjóra til kröfunnar.  Er það því mat dómsins að eins og máli þessu er háttað geti sú forsenda að krafa hafi borist of seint ekki gefið tilefni til þeirrar ákvörðunar skiptastjóra að taka ekki afstöðu til kröfunnar.  Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki hugað frekar að röksemdum sem lúta að því hvenær hinni umdeildu kröfu var lýst í búið.

Í ljósi þess sem að framan greinir má vera ljóst að það er mat dómsins að eins og mál þetta er lagt fyrir verði aðeins dæmt um það hvort skiptastjóra hafi verið rétt á grundvelli 3. ml. 1. mgr. 119. gr. að taka ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila á þeirri forsendu að sýnt þætti að ekkert fengist greitt upp í kröfuna við skiptin.  Í málinu liggur fyrir að hagsmunir sóknaraðila af því að fá afstöðu skiptastjóra til kröfunnar lúta að því að krafan er skaðabótakrafa vegna meints tjóns sem skip í eigu hins gjaldþrota félags á að hafa valdið á bát í eigu sóknaraðila.  Hefur að því er virðist verið samkomulag með sóknaraðila og tryggingarfélagi hins gjaldþrota félags að um bótaskyldu sé að ræða en ágreiningur hefur verið um fjárhæð bóta.  Umrætt tryggingafélag var sýknað af kröfu sóknaraðila þar sem skilyrði 95. gr. laga um vátryggingarsamninga þóttu ekki vera fyrir hendi varðandi það að fjárhæð bóta væri ákveðin.  Skaðabótakrafa sóknaraðila fékk því ekki efnismeðferð í þeim dómi.    Varnaraðili hefur öðrum þræði byggt á því að sóknaraðili hafi enga hagsmuni af því að fá umfjöllun um kröfu sína þar sem res judicata áhrif nefnds dóms séu þannig að tryggingarfélagi því sem um ræðir verði ekki stefnt aftur  til greiðslu sömu kröfunnar.  Er fullyrðing þessi ekki vafalaus, eins og mál þetta er vaxið, án þess að efni séu til að meta þetta atriði við úrlausn þess máls er hér liggur fyrir .

Hvað sem líður res judicata áhrifum fyrrnefnds dóms verður ekki hjá því horft að sóknaraðili í máli þessu krefst þess að skiptastjóri í þrotabúi taki afstöðu til skaðabótakröfu sem hægt er að sækja á hendur tryggingafélagi fáist hún staðfest.  Eina leiðin sem fær er þegar aðstaða er á þennan veg er að lýsa kröfu í þrotabú hins skaðabótaskylda og freista þess að skaðabótakrafan fái þar efnismeðferð svo hægt sé að krefja viðkomandi tryggingafélag bóta.  Að mati dómsins er það augljóst að sú niðurstaða væri ótæk að skiptastjórar í eignalausum búum gætu með því að vísa til 3. ml. 1. mgr. 119. gr. gjaldþrotalaga neitað að taka afstöðu til skaðabótakrafna sem ábyrgðartryggingar sem þrotamaður hefði tekið myndu ná til og komið þannig í veg fyrir að tryggingarfélög þurfi að svara til bóta vegna trygginga sem þau hafi sannanlega veitt og í raun komið í veg fyrir að viðkomandi tjónþoli eigi kost á því að fá efnisumfjöllun um kröfu sína.  Væri slík niðurstaða í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994 sbr. lög nr. 97/1995.  Dómurinn fellst því á þá málsástæðu sóknaraðila að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá afstöðu skiptastjóra til kröfu sinnar.  Eins og ljóst má vera af því sem að framan greinir tekur dómurinn enga afstöðu til þess hvort krafa sóknaraðila er fallin niður vegna vanlýsingar og heldur ekki afstöðu til þess hvort sýknudómur sá sem gerður hefur verið að umtalsefni hefur þau áhrif að krafa sóknaraðila verði ekki sótt á ný á hendur viðkomandi tryggingarfélagi.  Í máli þessu er aðeins skorið úr um það að skiptastjóra var ekki rétt að taka ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila á þann hátt sem hann gerði og lagt er fyrir hann að taka kröfuna til meðferðar og hafna henni eða samþykkja að hluta eða öllu leyti.   Slíka ákvörðun siptastjóra er síðan hægt að bera undir héraðsdóm og getur slíkt mál orðið grundvöllur að efnismeðferð kröfunnar fyrir  dómi.

Það er því niðurstaða dómsins að lagt er fyrir skiptastjóra að taka afstöðu til kröfu þeirrar er sóknaraðili lýsti í þrotabú Ísness ehf. þann 27. október 2000.

Rétt þykir eins og hér stendur á að málskostnaður milli aðila falli niður.

Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari, kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, Jóhanns Boga Guðmundssonar um að ákvörðun varnaraðila, skiptastjóra þrotabús Ísness ehf., frá 23. mars 2001, verði hnekkt, er tekin til greina.

Jafnframt er lagt fyrir skiptastjóra að taka afstöðu til kröfunnar. 

Málskostnaður fellur niður.