Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


í hæstaréttarmálinu nr

 

Föstudaginn 26. október 2001.

Nr. 403/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Rannsókn. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Y, sem kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi X, gaf sig fram við lögreglu 23. september 1999, lagði fram kæru gegn X og gaf skýrslu um sakarefnið. Aftur mætti Y til lögreglu 8. nóvember 1999 og dró kæru sína til baka í nýrri skýrslu. Með bréfi lögreglustjóra 15. sama mánaðar felldi lögreglustjóri málið niður með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991. Enn kom Y fyrir lögreglu 15. desember 2000 og óskaði eftir að ,,fá að taka upp kæru sína” á hendur X. Bar Y þessa ósk sína einnig fram við ríkissaksóknara í janúar 2001. Með bréfi lögreglustjóra til Y 4. maí 2001 var henni tilkynnt að ákveðið hefði verið að halda áfram rannsókn málsins. Krafðist X þess að sú ákvörðun yrði úr gildi felld. Talið var að þótt lögreglan hefði hætt rannsókn málsins með stoð í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, hafi sú forsenda fyrir ákvörðun hennar ekki staðið því í vegi að beita mætti ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar til að taka rannsóknina upp á ný. Þegar Y lét í ljós að henni hefði snúist hugur og hún héldi fram kæru sinni á ný hefðu verið komin til ný sakargögn í skilningi 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 sem gáfu lögreglu nægilegt tilefni til að taka málið aftur til rannsóknar. Samkvæmt þessu og með því að frestur er ekki settur í 3. mgr. 76. gr. laganna til slíkrar ákvörðunar, sem þar um ræðir, var kröfu X hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sýslumaðurinn í Kópavogi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2001, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 25. september sama árs um að halda áfram rannsókn á kæru Y á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ríkissaksóknari, sem tekið hefur við sókn þessa kærumáls fyrir Hæstarétti, krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

I.

Samkvæmt gögnum málsins kom áðurnefnd Y fyrir varðstjóra á lögreglustöðina í Reykjavík aðfaranótt 19. september 1999 og greindi frá því að hún hefði þá skömmu áður orðið fyrir líkamsárás af hendi varnaraðila, sem væri fyrrum sambúðarmaður hennar. Varðstjórinn mun hafa vísað henni á slysadeild og beint því til hennar að koma við annað tækifæri á lögreglustöðina til að bera fram kæru, stæði hugur hennar til þess, en Y mun hafa verið undir áhrifum áfengis við þetta tækifæri. Hún gaf sig fram við lögregluna 23. sama mánaðar, þar sem hún bar fram kæru gegn varnaraðila og gaf skýrslu um sakarefnið. Hún gaf nánari skýrslu fyrir lögreglunni 11. október 1999. Á tímabilinu frá 10. til 27. þess mánaðar voru jafnframt teknar skýrslur af fimm vitnum, en ekkert þeirra hafði þó orðið sjónarvottur að þeim atvikum, sem Y kvað hafa gerst. Varnaraðili mun síðan hafa verið boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglunni, en áður en til þess kom mætti Y til lögreglunnar 8. nóvember 1999 og dró til baka kæru sína í nýrri skýrslu. Var þar haft eftir henni að hún gerði þetta af persónulegum ástæðum, en henni væri ljóst að „málinu sé þar með lokið.“ Lögreglustjórinn ritaði Y bréf 15. sama mánaðar, þar sem sagði meðal annars: „Þar sem þér óskið ekki frekari aðgerða lögreglu í málinu og með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála tilkynnist yður hér með að meðferð málsins hjá lögreglu hefur verið hætt þar sem ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Er málið því fellt niður að svo komnu máli.“ Í bréfinu var Y jafnframt leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara.

Fyrir liggur að Y kom á lögreglustöðina í Reykjavík 15. desember 2000 og gaf þá skýrslu, þar sem hún óskaði eftir að „fá að taka upp kæru sína“ á hendur varnaraðila. Var haft þar eftir Y að hún hefði ekki verið í andlegu jafnvægi þegar hún dró kæru sína til baka 8. nóvember 1999. Benti lögreglufulltrúi, sem tók skýrsluna af Y, henni á að hún yrði að bera fyrrgreinda ósk sína upp við ríkissaksóknara. Var það gert með bréfi lögmanns Y 8. janúar 2001. Hinn 17. sama mánaðar framsendi ríkissaksóknari þetta erindi til lögreglustjórans í Reykjavík með því að litið væri svo á að Y væri þar að leita eftir því að hafin yrði á ný rannsókn, sem hætt hafi verið 15. nóvember 1999, en um það vísaði ríkissaksóknari til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991. Lögreglustjórinn í Reykjavík vék sæti í málinu 12. mars 2001 og var sýslumaðurinn í Kópavogi settur 27. sama mánaðar til að fara með það. Tilkynnti sá síðastnefndi varnaraðila með bréfi 4. maí 2001 að hann hefði ákveðið að rannsókn málsins yrði fram haldið. Því mun varnaraðili hafa mótmælt þegar hann kom fyrir lögregluna í Kópavogi 25. júní 2001, en sýslumaður ítrekaði ákvörðun sína um þetta efni í bréfi til varnaraðila 25. september sama árs, jafnframt því að boða hann til skýrslugjafar. Varð þetta til þess að varnaraðili bar 1. október 2001 ákvörðun sýslumanns um þetta undir Héraðsdóm Reykjavíkur, sbr. 75. gr. laga nr. 19/1991. Með hinum kærða úrskurði var ákvörðun sýslumanns um að halda áfram rannsókn málsins felld úr gildi.

II.

Í áðurnefndu bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til Y 15. nóvember 1999 var tekið svo til orða að með því að hún óskaði ekki eftir frekari aðgerðum í máli vegna kæru sinnar á hendur varnaraðila hefði meðferð þess verið hætt fyrir lögreglunni þar sem ekki þætti grundvöllur til að halda henni áfram. Var vísað um þetta til ákvæðis 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, þar sem kemur meðal annars fram að lögreglan geti hætt rannsókn, sem byrjað hefur verið á, ef ekki þyki grundvöllur til að halda henni áfram eða í ljós komi að kæra hafi ekki verið á rökum reist. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um það að ef rannsókn hefur verið hætt vegna þess að sakargögn hafi ekki þótt nægileg til ákæru, verði hún ekki tekin upp að nýju nema ný gögn komi fram eða líklegt sé að þau muni gera það.

Fallist verður á það með sóknaraðila að þegar Y hafði 8. nóvember 1999 dregið til baka kæru sína og lét með því í ljós að hún vildi ekki eiga frekari atbeina að sókn opinbers máls gegn varnaraðila hafi verið svo komið fyrir rannsókninni, sem beindist að honum, að fyrirliggjandi sakargögn gátu ekki þótt nægileg til ákæru og grundvöllur væri þá ekki til að halda henni áfram. Þótt lögreglan hafi hætt rannsókn málsins með stoð í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, stóð sú forsenda fyrir ákvörðun hennar því ekki í vegi að beita mætti ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar til að taka rannsóknina upp á ný. Þegar Y lét í ljós 15. desember 2000 að henni hefði snúist hugur og hún héldi kæru sinni á ný fram voru komin til ný sakargögn í skilningi 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, sem gáfu lögreglunni nægilegt tilefni til að taka málið aftur til rannsóknar.

Samkvæmt framansögðu og með því að frestur er ekki settur í 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 til slíkrar ákvörðunar, sem þar um ræðir, eru ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að halda áfram rannsókn vegna kæru Y á hendur varnaraðila.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, X, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að halda áfram rannsókn á máli vegna kæru Y á hendur honum.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2001.

Mál þetta er borið undir dóminn á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 hér á eftir skammstafað oml.  Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður krefst þess fyrir hönd X að ógilt verði ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá  25. september sl. um að halda áfram rannsókn á kæru Y þrátt fyrir það að málið hefði verið fellt niður á grundvelli 1. mgr. 76. oml. með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík dags. 5. nóvember 1999.

Byggt er á því að ríkissaksóknari hefði átt að taka ákvörðun um framhald málsins á grundvelli 2. mgr. 76. gr. oml. og að ríkissaksóknari geti ekki framselt það vald lögreglustjóranum í Reykjavík og falið honum að taka ákvörðun á þessum forsendum eins og hann gerði og síðar verður rakið. Telur kærandi að ákvörðun   lögreglustjórans í Reykjavík um niðurfellingu málsins hefði átt að bera undir ríkissaksóknara innan 4 vikna, sbr. 2. mgr. 114. gr. oml., eða að minnsta kosta innan 3 mánaða, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993. 

Sýslumaðurinn í Kópavogi sem settur er til þess að fara með málið fyrir hönd lögreglustjórans í Reykjavík mótmælir fram kominni kröfu.  Hann telur ríkissaksóknara hafa verið rétt að láta lögreglustjóranum í Reykjavík eftir að taka afstöðu til kröfunnar um framhald rannsóknar málsins og að tímamarka, til að bera undir ríkissaksóknara ákvörðun sem tekin sé á grundvelli 1. mgr. 76. gr. oml. sé ekki getið í 114. gr. sömu laga og því sé krafan ekki of seint fram komin.

Málavextir eru þeir að hinn 23. september 1999 kærði Y þáverandi sambýlismann sinn, X, fyrir líkamsárás til lögreglustjórans í Reykjavík.  Hinn 8. nóvember 1999 dró Y kæru sína á hendur X til baka í lögregluskýrslu. Í niðurlagi skýrslunnar segir að hún geri sér þar með grein fyrir að málinu sé lokið. 

Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til Y dags. 15. nóvember 1999 segir, að þar sem hún óski ekki eftir frekari aðgerð lögreglu sé málið fellt niður á grundvelli 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991.  Í niðurlagi bréfsins segir að samkvæmt 2. mgr. 76. gr. sömu laga geti Y borið ákvörðun lögreglustjórans undir ríkissaksóknara sem taki fullnaðarákvörðun um hvort frekari rannsókn skuli fara fram í málinu eða ekki. 

Með bréfi lögmanns Y til ríkissaksóknara dags. 8. janúar sl. er þess óskað að rannsókn á kæru Y 23. september 1999 verði haldið áfram.  Í niðurlagi bréfs lögmannsins segir að vegna aðstæðna sem raktar eru í bréfinu sé þess farið á leit við ríkissaksóknara að hann endurskoði ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík, sem fram kom í bréfi hans til Y 15. nóvember 1999 og rakið var að framan. 

Með bréfi ríkissaksóknara til lögreglustjórans í Reykjavík dags. 17. janúar sl. segir að af hálfu ríkissaksóknara sé litið svo á að bréf lögmanns Y sé beiðni um að hafin verði á ný rannsókn málsins sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 76. gr. oml.  Í niðurlagi bréfsins segir:  ,,Ber yður að taka efnislega afstöðu til þeirrar beiðni.” 

Lögreglustjórinn í Reykjavík vék sæti í málinu en með bréfi dómsmálaráðuneytisins frá 26. mars sl. var sýslumaðurinn í Kópavogi settur til að fara með málið.

Með bréfi sýslumannsins í Kópavogi til X dags. 4. maí sl. segir að sýslumaðurinn í Kópavogi hafi ,,ákveðið að rannsókn málsins skuli fram haldið.” 

Sýslumaðurinn í Kópavogi ritaði X bréf 25. september sl., þar sem segir meðal annars:  ,,Vegna mótmæla yðar skal tekið fram að rannsókn málsins var hætt þann 15 nóvember 1999, vegna afturköllunar kæranda á kæru sinni, og taldi lögreglustjórinn í Reykjavík að þá væri ekki lengur skilyrði til að halda rannsókn málsins áfram.  Með bréfi dómsmálaráðuneytis dags. 27. mars sl. var Sýslumanninum í Kópavogi falið að fara með ofangreint mál.  Með bréfi dags. 4. maí sl. var yður tilkynnt um að rannsókn málsins yrði fram haldið, en þá hafi kærandi óskað eftir því að rannsókn yrði hafin á ný og lýsti þá ástæðu sinni fyrir afturköllun kærunnar, auk þess sem hún tilgreindi vitni að meintri árás sem ekki hafði verið bent á áður.  Með vísan til ofangreindra atriða og 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19, 1991, er því rannsókn málsins fram haldið.”

Niðurstaða

Lögmaður Y sendi ríkissaksóknara beiðni um að endurskoða ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík, sem felldi málið niður á grundvelli 1. mgr. 76. gr. oml.  Í beiðninni er ekki vísað til 3. mgr. 76. sömu laga eins og gert er í bréfi ríkissaksóknara frá 17. janúar sl. til lögreglustjórans í Reykjavík.  Samkvæmt 2. mgr. 76. gr. oml. er unnt að bera ákvörðun lögreglustjóra eins og hér stendur á undir ríkissaksóknara. Skýra ber ofangreint lagaákvæði svo að ríkissaksóknari geti ekki falið lögreglustjóra að taka ákvörðun um framhald málsins eins og hér stendur á, enda ákvað hann með bréfi sínu 15. nóvember 1999 að fella málið niður.  Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til Y frá 15. nóvember 1999 var henni bent á rétt sinn til þess að bera ákvörðunina undir ríkissaksóknara samkvæmt 2. mgr. 76. gr. oml. 

Í lögum 1991 er ekki að finna ákvæði um frest til að bera undir ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjóra um að fella mál niður á grundvelli 1. mgr. 76. gr. oml.  Í 2. mgr. 114. gr. sömu laga eru hins vegar ákvæði um 30 daga frest til að bera tilteknar ákvarðanir lögreglustjóra undir ríkissaksóknara. Eðli málsins samkvæmt eru kærufrestir almennt skammir. Frestur til að bera ákvörðun eins og þá sem hér um ræðir undir ríkissaksóknara á grundvelli 2. mgr. 76. gr. oml. takmarkast eðli máls samkvæmt við það sem telst hæfilegur tími. Ber við mat á tímanum, sem ekki er beinlínis kveðið á um í lögum, að taka mið af   hagsmunum beggja aðila máls, þ.e. þess sem kærir og þess sem kæran beinist gegn og rétti hans til þess að máli hans sé lokið innan hæfilegs tíma. Það tilvik sem hér er til úrlausnar er áþekkt þeim tilvikum sem kveðið er á um í 2. mgr. 114. gr. oml. og þykir því tækt að beita þeirri lagagrein með lögjöfnum og taka mið af 30 daga frestinum sem þar er kveðið á um.

Frestur Y til að bera ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík um niðurfellingu málsins undir ríkissasksóknara var því liðinn er erindi hennar barst ríkissaksóknara.

Frestir samkvæmt ofanrituðu eiga ekki við er mál er tekið upp á grundvelli 3. mgr. 76. gr. oml.  en vísað er til þess lágaákvæðis í bréfi sýslumannsins í Kópavogi til X frá 25. september sl.,  3. mgr. 76. oml. hjóðar svo:  ,,Nú hefur rannsókn á hendur sökuðum manni verið hætt vegna þess að sakargögn hafa ekki þótt nægileg til ákæru og á þá ekki að taka rannsókn upp á ný gegn þeim manni nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt að þau komi fram.”

Samkvæmt öllu því sem rakið var að ofan var rannsókn gegn X ekki hætt af þeim sökum sem tiltekið er í 3. mgr. 76. gr. oml., heldur vegna þess að Y afturkallaði kæru sína eins og rakið var.  Samkvæmt þessu er ekki unnt að ákveða framhald rannsóknar eins og hér stendur á á grundvelli 3. mgr. 76. gr. oml. eins og vísað er til í bréfi sýslumannsins í Kópavogi til kæranda frá 25. september sl.

Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn að fella beri úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá 25. september sl. um að halda beri áfram rannsókn á kæru Y í málinu nr. 010-1999-22840.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi frá 25. september 2001 um að halda áfram rannsókn á kæru Y í málinu nr. 010-1999-22840.