Hæstiréttur íslands

Mál nr. 807/2016

Friðrik Auðunn Jónsson og Rakel Jónasdóttir (Jóhann H. Hafstein hrl.)
gegn
Pétri Péturssyni og Bergi ehf. (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfestar voru ákvarðanir sýslumanns um að stöðva aðfarargerðir í málum F og R gegn P og B ehf. Við fyrirtöku málanna lét fyrirsvarsmaður F og R bóka eftir sér að hann mótmælti ákvörðunum sýslumanns og áskildi sér rétt til að bera þær undir héraðsdóm. Var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem F og R höfðu ekki haft fyrirvaralausa kröfu uppi við sýslumann þegar við fyrirtöku málanna að leitað yrði úrlausnar héraðsdóms og tilgreint hverjar dómkröfur þau myndu gera samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 85. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016, þar sem staðfestar voru ákvarðanir sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 30. júní 2016 um að stöðva aðfarargerðir í málum sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindar ákvarðanir sýslumanns verði felldar úr gildi og lagt fyrir hann að halda gerðunum áfram í samræmi við aðfararbeiðni. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.

Með aðfararbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 13. maí 2016 kröfðust sóknaraðilar fjárnáms hjá varnaraðilum til fullnustu kröfu að fjárhæð 6.039.800 krónur. Var beiðnin tekin fyrir í tveimur aðskildum málum hjá sýslumanni 30. júní sama ár. Ákvað hann að stöðva gerðirnar með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 þar sem gögn varnaraðila bæru með sér að þeir hefðu fullnægt skyldu sinni til greiðslu. Létu sóknaraðilar af því tilefni bóka eftir sér við fyrirtöku beggja málanna að fyrirsvarsmaður sóknaraðila mótmælti ákvörðunum sýslumanns og áskildi sér rétt til að bera þær undir héraðsdóm. Í kjölfarið leituðu sóknaraðilar úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 1. júlí 2016 til dómsins.

Samkvæmt 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989 er gerðarbeiðanda heimilt, meðan aðfarargerð er ólokið, að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir, sem sýslumaður tekur um framkvæmd hennar, ef gerðarbeiðandi hefur þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina. Í 1. mgr. 86. gr. sömu laga segir að gerðin frestist að því leyti sem hún er háð viðkomandi ákvörðun, ef málsaðili krefst úrlausnar héraðsdómara með þeim hætti sem segir í 1. til 3. mgr. 85 gr. laganna. Skuli sýslumaður bóka nákvæmlega hver sú ákvörðun er, sem krafist er úrlausnar héraðsdómara um, og hverjar kröfur aðilar gera.  Skulu jafnframt bókaðar í stuttu máli röksemdir sem þeir færa fyrir kröfum sínum. Samkvæmt skýrum fyrirmælum framangreindra ákvæða bar sóknaraðilum að hafa þá kröfu uppi við sýslumann að leitað yrði úrlausnar héraðsdómara þegar við fyrirtöku málsins 30. júní 2016 er ákvarðanir sýslumanns lágu fyrir og tilgreina hverjar dómkröfur þeir myndu gera. Áskilnaður um rétt til að leita úrlausnar héraðsdóms nægir ekki. Málið var því ekki réttilega lagt fyrir héraðsdóm með áðurnefndu bréfi sóknaraðila 1. júlí 2016. Ber því að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 25. október 2016. 

Sóknaraðilar eru Friðrik Auðunn Jónsson og Rakel Jónsdóttir, bæði til heimilis að Asparteig 1, Mosfellsbæ.

Varnaraðilar eru Pétur Pétursson, Lindarbyggð 5, Mosfellsbæ og Berg ehf., Háholti 14, Mosfellsbæ.

                Sóknaraðilar krefjast þess að „felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuð­borgarsvæðinu frá 30. júní 2016, í aðfararmálum nr. 2016-016407 og nr. 2016-016408, um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila á hendur varnaraðilum og að gerðinni verði fram haldið“. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist að sóknaraðilar greiði varnaraðilum óskipt (in solidum) málskostnað. Verði fallist á kröfu sóknaraðila er þess krafist að kveðið verði á um það í úrskurði héraðs­dóms að frekari fullnustuaðgerðum í aðfararmálinu verði frestað meðan skorið sé úr ágreiningi málsaðila fyrir Hæstarétti og að málskostnaður falli niður.

II

Málavextir

                Með aðfararbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, 13. maí 2016, kröfð­ust sóknaraðilar fjárnáms hjá varnaraðilum. Um aðfararheimild var vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3157/2014, frá 24. júní 2015. Með dóm­inum var fallist á að varnaraðilinn Pétur, sem starfar hjá varnaraðilanum, fast­eigna­sölunni Bergi ehf., bæri skaðabótaábyrgð á grundvelli 27. gr. laga nr. 99/2004, um fast­eignir, fyrirtæki og skip, vegna saknæmrar vanrækslu varnaraðilans Péturs sem fast­eignasala eignarinnar. Verði tryggingum hf. var stefnt til réttargæslu í málinu en varnaraðilar voru með starfsábyrgðartryggingu hjá félaginu. Í málinu var einnig til úr­lausnar bótakrafa sóknaraðila á hendur Magnúsi Má Ólafssyni, en hann seldi varnar­aðilum fasteign þá sem reyndist gölluð. Dómsorðið er eftirfarandi:

                Stefndi, Magnús Már Ólafsson, greiði stefnendum, Friðrik Auðunni Jónssyni og Rakel Jónasdóttur, 9.277.235 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.217.235 krónum frá 18. september 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 166.806 krónum. Stefndu, Pétur Pétursson og Berg ehf., greiði óskipt með stefnda Magnúsi 4.088.235 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.217.235 krónum frá 18. September 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 149.129 krónum. Til frádráttar þessum greiðslum á greiðsludegi koma að auki 4.800.000 krónur.  

Stefndi Magnús skal gefa út afsal til stefnenda fyrir fasteigninni að Asparteig nr. 1 í Mosfellsbæ sem hefur fastanúmerið 208-2812.

Stefndi, Magnús Már Ólafsson, greiði stefnendum 2.500.000 krónur í máls­kostnað, en þar af greiði stefndu, Pétur og Berg ehf., stefnendum óskipt með stefnda Magnúsi 750.000 krónur í málskostnað.

                Málskostnaður milli stefnenda og réttargæslustefnda, Varðar tryggingar hf., fellur niður.

Í kjölfar dómsniðurstöðunnar sendi Vörður tryggingar hf., sóknaraðilum út­reikn­­inga um uppgjör þar sem fram kom að félagið taldi sig skulda þeim 424.362 kr. Var þá tekið tillit til dráttarvaxta, sem og frádráttar 149.129 kr. og 4.800.000 kr. Sókn­ar­aðilar höfnuðu útreikningum félagsins og kröfðust greiðslu að fjárhæð 5.224.362 krónur. Félagið greiddi lögmanni sóknaraðila 424.362 kr. hinn 16. júlí 2015.

Með aðfararbeiðni, 20. október 2015, kröfðust sóknaraðilar fjárnáms hjá varn­ar­aðilum til lúkningar kröfu að fjárhæð 4.838.235 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Um að­fararheimild var vísað til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3157/2014. Fjárnáminu lauk með því að fulltrúi sýslumanns ákvað að stöðva gerðina samkvæmt 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 þar sem gögn varnaraðila báru með sér að þeir hefðu fullnægt greiðsluskyldu sinni í samræmi við dómsorð með greiðslu til lögmanns sóknar­aðila 16. júlí 2015. Sóknaraðilar skutu ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms, með bréfi 22. desember 2015. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 5. apríl 2016 á þeim grundvelli að sóknaraðilar hefðu ekki kært ákvörðun sýslumanns þegar í stað og áður en fyrirtökunni hjá sýslumanni var slitið, eins og áskilið væri í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Það höfðu sóknaraðilar fyrst gert tíu dögum eftir að ákvörðun sýslumanns um að stöðva gerðina lá fyrir. Þótti málskotið því of seint fram komið og var málinu vísað frá dómi.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu kröfðust sóknaraðilar, eins og í upphafi var rakið, að nýju aðfarar varnaraðilum til fullnustu kröfu að fjárhæð 6.039.800 kr. Um aðfarar­heimild var vísað til sama dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3157/2014. Sýslumaður ákvað, við fyrirtöku aðfararbeiðninnar, sem tekin var fyrir í tveimur að­skild­um málum hjá sýslumanni, að stöðva gerðina með vísan til 2. mgr. 27. gr. að­farar­laga nr. 90/1989. Vísaði sýslumaður til þess að gögn gerðarþola bæru með sér að þeir hefðu fullnægt skyldu sinni til greiðslu til samræmis við dómsorð í máli nr. E-3157/2014. Sóknaraðilar létu bóka eftir sér við fyrirtöku að þeir mótmæltu ákvörðun sýslumanns og áskildu sér rétt til að bera hana undir dóm.

III

Málsástæður sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að varnaraðilum sé óheimilt að draga frá greiðslum sínum lokagreiðslu, skv. dómsorði, 4.800.000 krónur. Lokagreiðslan hafi verið hluti kaupverðs eignarinnar þegar hún var seld og því réttmæt eign seljanda. Sökum þess að eignin hafi reynst gölluð, hafi sóknaraðilar haldið eftir greiðslunni, sem þeim var heimilt, sbr. 44. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002. Af þessu leiði að frádráttur á dómkröfunni, að framangreindri fjárhæð, sé í raun eign seljanda eign­ar­innar og honum sé því einum heimilt að nýta þann frádrátt. Á sama hátt sé varn­ar­aðilum ólögmætt að draga hann frá sinni kröfu, enda fælist í slíkum frádrætti ólögmæt nýtingu á eign annarra. 

                Sóknaraðilar vísa til þess að umrædd lokagreiðsla hafi verið sú fjárhæð sem sókn­araðilar hafi neitað að greiða. Hafi lokagreiðsla því aldrei farið fram af hálfu kaup­enda. Sé augljóst að við uppkvaðningu dómsins hafi á þeim tíma þegar verið búið að draga umdeilda lokagreiðslu frá samkvæmt því sem kveðið er á um í umræddum dómi. Ljóst sé að frádrátturinn hafi þegar verið framkvæmdur við uppkvaðningu dóms­ins og því hafi varnaraðila verið ómögulegt að draga hann frá aftur.

                Sóknaraðilar benda á að samhliða máli nr. E-3157/2015 hafi verið rekið málið nr. E-736/2014, sem hafi verið innheimtumál eiganda hinnar gölluðu fasteignar á hendur þeim, um lokagreiðsluna. Í ljósi þess að málin hafi verið rekin samhliða og bæði fjallað um þessa greiðslu, sé unnt að túlka enn betur orðalag og frádrátt niður­stöðu dóms í síðargreindu máli. Af henni megi draga þá ályktun að lokagreiðslan hafi þegar verið dregin frá kröfum sóknaraðila við uppkvaðningu dómsins en verði ekki seinna dregin frá við uppgjör skv. dómsorði. 

Málsástæður varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafa sóknaraðila sé að fullu greidd. Sókn­araðilar eigi því ekki lengur lögvarða og aðfararhæfa kröfu á hendur varnar­aðilum. Af lestri dómsorðs blasi við frádráttur að fjárhæð 4.800.000 krónur komi til frá­dráttar öllum fjárkröfum samkvæmt dómsorði í máli nr. E-3157/2014           

                Varnaraðilar telja ótvírætt að sá hluti kaupverðsins sem sóknaraðilar hafi haldið eftir, 4.800.000 kr., hafi samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila sjálfra í héraðs­dóms­málinu átt að koma til frádráttar þeim hluta bótafjárhæðarinnar sem allir stefndu í málinu voru dæmdir óskipt til að greiða, 4.088.235 krónur ásamt dráttarvöxtum og hluta málskostnaðar. Þá komi fram í forsendum dómsins að stefnendur (sóknaraðilar máls þessa) miði við að sú greiðsla eigi að koma til frádráttar dómkröfum. Niðurstaða dóms í máli nr. E-736/2014 breyti engu þar um, enda sé sérstaklega fjallað um dóminn í niðurstöðu máls nr. E-3157/2014 og þær réttarfylgjur sem af honum leiddu. Með greiðslu tryggingafélagsins í júlí 2015 hafi þar af leiðandi verið gerð upp að fullu krafa sóknaraðila á hendur varnaraðilum.

                Varnaraðilar vísa til þess að samkvæmt málsforræðisreglu einkamálaréttarfars hafi sóknaraðilar hagað kröfugerð sinni í dómsmálinu eins og að framan sé lýst. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé héraðsdómara óheimilt að fara út fyrir kröfugerð sóknaraðila. Sóknaraðilar verði að bera hallann af því hvernig dómkrafa þeirra var úr garði gerð í stefnu. Málsaðilar í máli nr. E-3157/2014 séu bundnir við dómsniðurstöðuna og þar með talið dómsorð og forsendur hennar. Sóknaraðilar hafi ekki áfrýjað dóminum þrátt fyrir að áfrýjunarfrestur hafi ekki verið liðinn þegar deila um túlkun á dómsorðinu kom upp og tryggingafélag varn­araðila greiddi kröfuna í samræmi við orðanna hljóðan samkvæmt dómsorðinu. 

IV

                Niðurstaða

Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um að „felld verði úr gildi ákvörðun sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 30. júní 2016, í aðfararmálum nr. 2016-016407 og nr. 2016-016408, um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila á hendur varnaraðilum og að gerðinni verði fram haldið“.

Fyrir liggur að um tvær aðfarargerðir er að ræða, þótt ein aðfararbeiðni hafi verið send sýslumanni vegna kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Sóknaraðilar báru þær þó í einu lagi undir dóminn og voru ekki gerðar athugasemdir við þann mála­til­búnað af hálfu varnaraðila. Þar sem varnaraðilar bera í málinu óskipta skyldu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3157/2014, eiga þeir þá óskipta aðild. Með hlið­sjón af 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 91. gr. laga nr. 89/1990, um aðför, verður því ágreiningur um gildi beggja aðfarargerðanna tekinn til úr­lausnar í þessu máli. Verður að skilja kröfugerð sóknaraðila þannig að þess sé krafist að sýslumaður haldi áfram aðfarargerðum í báðum málunum.

Sóknaraðilar höfðuðu í september 2014 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Magnúsi Má Ólafssyni og varnaraðilum máls þessa. Þá var Verði tryggingum hf. stefnt til réttargæslu. Var málið skráð nr. E-3157/2014 í dóminum. Tilefni málsins var að sóknaraðilar töldu fasteign sem þau höfðu keypt af Magnúsi Má væri gölluð. Kröfðust þau skaðabóta úr hans hendi vegna þess. Þá kröfðust þeir skaðabóta úr hendi varn­araðila á þeim grunni að varnaraðilinn Pétur, sem starfar hjá varnaraðilanum Fast­eigna­sölunni Bergi ehf., hefði sýnt af sér gáleysi í störfum sínum sem fasteignasali en hann hafði milligöngu um kaupin. Varnaraðilar voru með starfsábyrgðartryggingu hjá Verði tryggingum hf. Í dómi í málinu nr. E-3157/2014 frá 24. júní 2015 eru dóm­kröf­urnar raktar á eftirfarandi hátt: Stefnendur krefjast þess að stefndu greiði þeim óskipt (in solidum) 10.017.235 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.217.235 krónum frá 18. september 2013 til greiðslu­dags. Til frádráttar kröfunni komi lokagreiðsla stefnenda að fjárhæð 4.800.000 krónur og endurgreiðsla á virðisaukaskatti samkvæmt vinnulið 278.153 krónur. Þá er þess krafist af hálfu stefnenda að stefndi, Magnús Már Ólafsson, verði dæmdur til þess að gefa út afsal til stefnenda fyrir fasteigninni að Asparteigi nr. 1, Mos­fellsbæ, fastanr. 208-2812. Stefnendur gera einnig þá kröfu að stefndu verði dæmdir til þess að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virð­is­auka­skatts. Ekki er gerð nein krafa á hendur réttargæslustefnda.

         Voru dómkröfur sóknaraðila þannig ekki nánar sundurgreindar, þannig að sérstök fjár­krafa væri gerð á hendur seljanda fasteignarinnar en önnur á hendur varnaraðilum. Réttar­gæslustefndi gerði athugasemd við dómkröfu stefnenda. Taldi hann á það skorta að stefnufjárhæðin væri sundurliðuð þannig að greina mætti þann hluta hennar sem leiddi af ætlaðri saknæmri háttsemi fasteignasalans og það sem kynni að leiða af hlut­lægri ábyrgð seljandans og væri krafan vanreifuð að þessu leyti. Þá vísaði rétt­ar­gæslustefndi til þess að hin óskipta (solidariska) krafa virtist fela í sér kröfu um afslátt samkvæmt lögum nr. 40/2002 án þess að útskýrt væri hvernig beina megi slíkri kröfu að fasteignasala.

Með dómi í málinu nr. E-3157/2014 voru seljandi fasteignarinnar og varn­ar­aðilar dæmdir til að greiða sóknaraðilum skaðabætur. Varnaraðilar voru þó ekki taldir bera ábyrgð á öllu tjóni sóknaraðila og því voru þeir dæmdir til að greiða þeim tölu­vert lægri bætur en seljandinn. Þannig var tekið fram að fasteignasalinn, varnaraðilinn Pétur, bæri ábyrgð á því tjóni sem hlotist hefði af saknæmri vanrækslu hans. Hann gæti því ekki borið ábyrgð á greiðslu afsláttar af kaupverði fasteignarinnar sem ætti einungis við í lögskiptum seljanda og kaupanda.

Dómsorðið er, hvað varnaraðila varðar, svohljóðandi: Stefndu, Pétur Pétursson og Berg ehf., greiði óskipt með stefnda Magnúsi 4.088.235 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.217.235 krónum frá 18. september 2013 til greiðsludags, allt að frádregnum 149.129 krónum. Til frádráttar þessum greiðslum á greiðsludegi koma að auki 4.800.000 krónur.

Í forsendum fyrir niðurstöðu dómsins kemur eftirfarandi fram: Stefnendur héldu eftir lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi sem nemur 4.800.000 krónum, en þau áttu að inna þá greiðslu af hendi 10. desember 2012. Stefnendur miða við að sú greiðsla eigi að koma til frádráttar dómkröfum stefnenda á hendur öllum stefndu á greiðslu­degi. Sú krafa er einnig til umfjöllunar sem varakrafa í málinu nr. E-736/2014, en dómur í því er kveðinn upp samhliða þessum dómi. Þessi krafa er með öllu ágreiningslaus enda samið um hana með skýrum hætti í kaupsamningi. Þar sem fyrir liggur að stefnendur eiga réttmæta kröfu vegna galla á eigninni var þeim hins vegar heimilt á grundvelli 44. gr. laga nr. 40/2002 að halda þessari greiðslu eftir, eins og fjallað er um í dómi í málinu nr. E-736/2014. Rétt þykir að hún komi til frádráttar dóm­kröfum stefnanda í því máli sem hér er til úrlausnar, eins og stefnendur fara fram á.

Af hinum tilvitnuðu orðum dóms í máli Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3157/2014 er því ótvírætt að umrædd lokagreiðsla kemur, samkvæmt dómkröfum sókn­araðila, til frádráttar skaðabótum sem varnaraðilar voru dæmdir til að greiða þeim. Ekki er unnt að fallast á það með sóknaraðilum að dómur í máli nr. E-736/2014 breyti nokkru þar um, enda tekur dómur í hinu fyrrgreinda máli afstöðu til þess. Dómi í máli nr. E-3157/2014 var ekki áfrýjað til Hæstaréttar og er hann því bindandi fyrir úrslit sakarefnis sem þar var til umfjöllunar, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um með­ferð einkamála. Þannig getur hliðsettur dómari í þessu ágreiningsmáli ekki tekið til umfjöllunar málsástæðu sóknaraðila, þess efnis að lokagreiðslan hafi verið réttmæt eign seljanda og því eigi ekki að draga hana frá greiðslum um skaðabætur eða að loka­greiðsla hafi aldrei farið fram, enda varðar hún beinlínis sakarefni máls nr. E-3157/2014.

Með vísan til framangreinds telur dómurinn að sýnt sé að sóknaraðilar eigi ekki frekari kröfu á hendur varnaraðilum á grundvelli dóms í máli nr. E-3157. Er því kröfu um að felldar verði úr gildi ákvarðanir sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu ber að dæma sóknaraðila til að greiða varn­ar­aðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                               Hafnað er kröfu sóknaraðila, Friðriks Auðuns Jónssonar og Rakelar Jónas­dóttur, um að felldar verði úr gildi ákvarðanir sýslumannsins á höfuð­borgar­svæðinu frá 30. júní 2016, í aðfararmálum nr. 2016-016407 og nr. 2016-016408, um að stöðva aðfarargerðir sóknaraðila á hendur varnaraðilum, Pétri Péturssyni og Bergi ehf.,  og að gerðunum verði fram haldið.             

                               Sóknaraðilar greiði varnaraðilum óskipt 200.000 krónur í málskostnað.