Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðflutningsgjald
  • Hald


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. maí 2002.

Nr. 163/2002.

Tollstjórinn í Reykjavík

(Júlíus B. Georgsson lögfræðingur)

gegn

Fönix ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Aðflutningsgjöld. Hald.

T ákvað að leggja hald á tiltekinn fjölda geisladiska úr sendingu til F ehf. og senda lögreglu málið til frekari rannsóknar. Ágreiningslaust var að í aðflutningsskýrslu vegna umræddrar sendingar var aðeins gerð grein fyrir óverulegum hluta geisladiskanna. Varð sú vitneskja T tilefni til að kanna innflutning F ehf. á árunum 2000 og 2001. Gerði T í framhaldi af því margar athugasemdir við aðflutningsskýrslur F ehf. og féllst félagið á flestar þeirra. Með hliðsjón af 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 136. gr. sömu laga, var talið að til þess kynni að koma að hinir haldlögðu geisladiskar yrðu gerðir upptækir. Með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 var hald á þeim því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2002, þar sem aflétt var haldi á 16.032 geisladiskum úr sendingu til varnaraðila, sem barst hingað til lands 6. febrúar sama árs. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði hald á umræddum geisladiskum.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til þess að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði, svo sem hann krefst.

I.

Samkvæmt gögnum málsins pantaði varnaraðili ýmsar vörur frá Danmörku og komu vörurnar hingað til lands í einni sendingu 6. febrúar 2002. Mun hafa verið um að ræða óátekna geisladiska, myndbönd og segulbönd. Að beiðni varnaraðila samdi Jónar Transport hf. aðflutningsskýrslu vegna varningsins og sendi sóknaraðila. Samkvæmt skýrslunni var fjöldi geisladiska 1.168. Með bréfi sóknaraðila 11. mars 2002 var varnaraðila tilkynnt að skoðun á sendingunni hafi leitt í ljós að hún hafði að geyma 1.168 pakka með 17.200 geisladiskum, en ekki þann fjölda sem í aðflutningsskýrslunni greindi. Skoðunin hafi jafnframt leitt í ljós að vörur í sendingunni væru ýmist framleiddar í Indlandi eða Japan, en ekki í Danmörku eins og hermt væri í aðflutningsskýrslu. Þá væri framleiðslulands í sumum tilvikum ekki getið. Hefði varnaraðili komið sér hjá að greiða höfundaréttargjald, sem næmi 17 krónum af hverjum þeirra 16.032 geisladiska sem á vantaði að tilgreindir væru í aðflutningsskýrslunni, auk 24,5% virðisaukaskatts. Tók sóknaraðili fram að háttsemi varnaraðila kynni að brjóta gegn 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með áorðnum breytingum. Hann hafi því ákveðið með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 að leggja hald á umrædda 16.032 geisladiska og senda lögreglu málið til frekari rannsóknar.

Með bréfi, sem lagt var fram í héraðsdómi 5. apríl 2002, krafðist varnaraðili þess að haldi á geisladiskunum yrði aflétt. Kvað varnaraðili starfsmann fyrirtækisins, sem annaðist gerð aðflutningsskýrslunnar, hafa talið fjölda pakka en ekki geisladiska í sendingunni. Um væri að ræða mannleg mistök sem gæfu ekki tilefni til að hald væri lagt á geisladiskana.

Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila með vísan til þess að ekki væru skilyrði til haldlagningarinnar á grundvelli 78. gr. laga nr. 19/1991. Umræddir geisladiskar hafi hvorki sönnunargildi í málinu né hafi þeirra verið aflað á refsiverðan hátt. Þá hafi sóknaraðili ekki fært fram haldbær rök fyrir því að ætlað brot varnaraðila væri þess eðlis að lagaskilyrði væru til upptöku geisladiskanna.

II.

Í gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, kemur fram að hann hafi í framhaldi af athugun á sendingunni, sem áður greinir, ákveðið að kanna innflutning varnaraðila á geisladiskum og myndböndum á árunum 2000 og 2001. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar um niðurstöðu þessarar könnunar er gerð grein fyrir samtals átta sendingum þar sem tilgreindum fjölda geisladiska og myndbanda í aðflutningsskýrslum bar ekki saman við fjölda á vörureikningum með skýrslunum. Telur sóknaraðili að vangreidd aðflutningsgjöld, höfundarréttargjöld og virðisaukaskattur vegna þessa nemi samtals 977.348 krónum. Verði mistökum þess, sem hafi annast gerð skýrslanna, ekki um kennt heldur megi líta svo á að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Að öðrum kosti sé um að ræða röð mistaka sem varnaraðili hafi ekki gert tilraun til að leiðrétta. Sé því fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi um allnokkurt skeið ekki tilgreint rétt magn í aðflutningsskýrslum og þannig komið sér hjá því að greiða lögboðin gjöld. Telur sóknaraðili háttsemina varða við 1. og 2. mgr. 126. gr. tollalaga með áorðnum breytingum og 3. og 4. mgr. 11. gr., sbr. 1. mgr. og 7. tölulið 2. mgr. 54. gr. höfundalaga með áorðnum breytingum, og að krafist yrði upptöku umræddra geisladiska í opinberu máli, sbr. 1. mgr. 136. gr. fyrrnefndu laganna. Hafi sóknaraðila því verið rétt að leggja hald á geisladiskana samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991.

Varnaraðili mótmælir því að skorið verði úr um lögmæti haldlagningarinnar á grundvelli annarra gagna en lágu fyrir við meðferð málsins í héraði, en gerir auk þess athugasemdir við könnun sóknaraðila á innflutningi sínum á árunum 2000 og 2001. Varnaraðili kveður sóknaraðila samtals hafa athugað 41 aðflutningsskýrslu frá þessum tveimur árum og gert athugasemdir við samtals tíu atriði í átta þeirra. Séu sjö aðfinnslur sóknaraðila réttmætar. Starfsmenn fyrirtækisins, sem hafi annast gerð aðflutningsskýrslna fyrir varnaraðila, hafi í sex tilvikum talið fjölda pakka í stað samanlagðs fjölda óátekinna miðla í hverri sendingu, og í einu tilviki hafi starfsmennirnir talið fjölda lína á vörureikningi. Hafi verið óskað eftir því að mistökin yrðu leiðrétt. Í þremur tilvikum eigi aðfinnslur sóknaraðila ekki við rök að styðjast. Þá verði að líta til þess að stærstur hluti af þeim vörum, sem varnaraðili flytji inn, séu seldar til hljóð- og kvikmyndagerðarfyrirtækja og séu höfundaréttargjöld af þeim endurgreidd af Innheimtumiðstöð höfundaréttargjalda.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Kemur til athugunar hvort sá varningur, sem um ræðir í málinu, kunni að verða gerður upptækur í opinberu máli sem höfðað yrði á hendur varnaraðila eða fyrirsvarsmönnum hans vegna þeirrar háttsemi, sem er lýst að framan. Í málinu er ágreiningslaust að í aðflutningsskýrslu vegna þeirrar sendingar, sem hafði að geyma hina haldlögðu geisladiska, var aðeins gerð grein fyrir óverulegum hluta þeirra. Varð sú vitneskja sóknaraðila tilefni til að kanna innflutning varnaraðila á árunum 2000 og 2001. Hefur sóknaraðili í framhaldi af því gert margar athugasemdir við aðflutningsskýrslur varnaraðila og hinn síðarnefndi fallist á flestar þeirra. Hefur sóknaraðili lýst því yfir að málið verði sent lögreglu til frekari rannsóknar. Samkvæmt 1. mgr. 126. gr. tollalaga með áorðnum breytingum skal sá sem af ásetningi, stórfelldu gáleysi eða ítrekað veitir rangar eða villandi upplýsingar um tegund, magn eða verðmæti farms eða vöru eða leggur ekki fram til tollmeðferðar gögn, sem lögin taka til, sæta sektum. Í 1. mgr. 136. gr. sömu laga segir að heimilt sé að gera upptæka vöru sem hefur verið flutt eða reynt að flytja ólöglega inn eða á annan hátt farið með andstætt ákvæðum laganna eða fyrirmæla sem sett eru samkvæmt þeim. Kann því að koma til þess að hinir haldlögðu geisladiskar verði gerðir upptækir. Með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991 verður hald á þeim því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Staðfest er hald sóknaraðila, tollstjórans í Reykjavík, á 16.032 geisladiskum úr sendingu til varnaraðila, Fönix ehf., sem barst hingað til lands 6. febrúar 2002.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2002.

Með ódagsettu bréfi, mótteknu 27. mars síðastliðinn, krafðist Fönix ehf., Hátúni 6a, Reykjavík, hér á eftir nefndur sóknaraðili, að haldlagningu 16.032 geisladiska úr sendingu fyrirtækisins, sem kom til landsins 6. febrúar síðastliðinn, yrði hnekkt og að tollstjóranum í Reykjavík, hér á eftir nefndur varnaraðili, yrði gert að greiða málskostnað.

Málavextir eru þeir, að 8. febrúar síðastliðinn kom til skoðunar hjá tollgæslunni í Reykjavík vörusending frá Emtec Magnetics Nordic A/S, Danmörku, til sóknaraðila. Samkvæmt aðflutningsskýrslu var megininnihald sendingarinnar 3.530 óátekin myndbönd, 1.168 geisladiskar og 20 stykki ,,óáteknir miðlar.” Fram kemur í frumskýrslu tollgæslu, að í aðflutningsskýrslu tilgreini innflytjandi Danmörku sem framleiðsluland allrar vörusendingarinnar. Við skoðun á sendingunni reyndust geisladiskarnir vera 17.200 talsins í 1.168 pökkum eða pakkningum. Jafnframt kom í ljós við skoðunina, að framleiðsluland geisladiskanna var Indland og framleiðsluland snælda var Japan. Önnur vara í sendingunni var ómerkt framleiðslulandi.

Með bréfi varnaraðila 11. mars síðastliðinn var sóknaraðila tilkynnt, að með því að tilgreina gjölda geisladiska 16.032 færri en talning leiddi í ljós, hefði sóknaraðili komist hjá því að greiða höfundarréttargjald, sem nemi 17 krónum af hverjum geisladiski, auk 24,5% virðisaukaskatts. Þá varði við tollalög að gefa ekki upp rétt framleiðsluland (upprunaland) innfluttrar vöru. Með háttseminni kunni sóknaraðili og/eða forráðamaður hans að hafa brotið gegn 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, með síðari breytingum. Með vísan til þess og skírskotun til 78. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var sóknaraðila tilkynnt, að ákveðið hefði verið að leggja halda á umrædda 16.032 geisladiska úr sendingunni, sem sóknaraðili hefði komist hjá að greiða höfundarréttargjald af, hefði sendingin ekki verið skoðuð af hálfu tollgæslu. Að athuguðu máli hafi aftur á móti verið ákveðið að heimila sóknaraðila að tollafgreiða aðra vöru úr sendingunni. Yrði málið sent lögregluyfirvöldum til frekari rannsóknar svo fljótt sem kostur væri.

Málið er lagt fyrir dóminn á grundvelli 1. málsl. 79. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili byggir á því, að hann hafi falið sérhæfðu innflutningsfyrirtæki, Jónum Transport hf., að ganga frá innflutningsskýrslu vegna fyrrgreindrar sendingar. Við gerð skýrslunnar hafi starfsmaður fyrirtækisins gert þau mistök að telja pakkafjölda geisladiskanna sem fjölda geisladiska. Komi þess vegna fram í innflutningsskýrslunni, að geisladiskarnir séu 1.168 í stað 17.200. Augljóst sé, að um mannleg mistök sé að ræða af hálfu innflutningsfyrirtækisins og fráleitt, að tilefni sé til að senda málið lögregluyfirvöldum til rannsóknar. Hafi sóknaraðili ítrekað óskað eftir að senda inn nýja innflutningsskýrslu, en því verið hafnað. Sóknaraðili vísi og til áritunar seljanda á vörureikningunum, þar sem skýrt komi fram, að uppruni vörunnar sé í landi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá hafi sóknaraðili lagt fyrir tollyfirvöld bréf Emtec Magnetics Nordis A/S, Danmörku, þar sem staðfest sé, að allar vörur, sem framleiddar séu annars staðar en í löndum Evrópska efnahagssvæðisins, hafi verið tollafgreiddar inn í Evrópu. Telur sóknaraðili því ekkert tilefni vera til haldlagningar, þar sem hann hafi sannað samkvæmt framansögðu, að hvorki hann né sá, sem fram hafi komið fyrir hans hönd, verði kennt um rangar upplýsingar um vöru þá, sem hér um ræðir.

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1991 skal leggja hald á muni, ef ætla má, að þeir hafi sönnunargildi í opinberu mál, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt, eða ef ætla má, að þeir kunni að verða gerðir upptækir.

Viðurkennt er af hálfu sóknaraðila, að mistök hafi átt sér stað við innflutning umræddra geisladiska hjá fyrirtæki því, sem annaðist gerð aðflutningsskýrslu, en ljóst er af 2. mgr. 16. gr. tollalaga nr. 55/1987, að á þeim ber sóknaraðili ábyrgð. Af því leiðir að mati dómsins, að umræddir geisladiskar hafa ekki sérstakt sönnunargildi í þágu rannsóknarhagsmuna. Þá verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins, að hinna haldlögðu muna hafi verið aflað á refsiverðan hátt í skilningi 78. gr. laga nr. 19/1991. Að lokum þykir varnaraðili ekki hafa fært fram haldbær rök fyrir því, að ætlað brot sóknaraðila sé þess eðlis, að uppfyllt séu lagaskilyrði til upptöku geisladiskanna. Það er því niðurstaða dómsins, að ekki séu uppfyllt skilyrði til haldlagningar þeirra. Ber þar af leiðandi að aflétta henni, en ekki eru efni til að úrskurða sóknaraðila málskostnað úr hendi varnaraðila.

Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Haldi á 16.032 geisladiskum úr sendingu sóknaraðila, Fönix ehf., til Íslands 6. febrúar 2002, sem sóknaraðila var tilkynnt um með bréfi varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, dagsettu 11. mars 2002, er aflétt.