Hæstiréttur íslands
Mál nr. 697/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Barnavernd
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
Fimmtudaginn 23. desember 2010. |
|
|
Nr. 697/2010. |
A (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Fjölskylduráði B (Þyrí H. Steingrímsdóttir hdl.) |
Kærumál. Börn. Barnavernd. Gjafsókn. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að barn A yrði vistað utan heimilis á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2010 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila um að vista son sóknaraðila, C, fæddan [...], á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, frá og með 18. nóvember 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður varnaraðila um að vista barnið utan heimilis verði ógiltur og að varnaraðila verði gert að afhenda sér barnið þegar í stað. Þá krefst hún þess að kostnaður vegna skýrslu sálfræðinga 6. desember 2010, sem hún aflaði um heilsufar sitt fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, verði talinn til gjafsóknarkostnaðar í héraði. Loks krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ljóst er af vottorði barnalæknanna D og E og skýrslu þess síðarnefnda fyrir héraðsdómi að sonur sóknaraðila, en hann er fyrirburi sem átt hefur við veikindi að stríða, mun þurfa á mikilli og nákvæmri umönnun að halda næstu vikurnar. Þá er það niðurstaða ítarlegrar sálfræðilegrar matsgerðar F 4. nóvember 2010 að sóknaraðili glími við vanda sem hana sjálfa skorti innsæi í og sé mun alvarlegri og flóknari en þegar um einfalda [...] sé að ræða. Frekari greiningar sé þörf en fyrirliggjandi upplýsingar bendi til ótilgreindrar [...]. F kveðst aðeins geta dregið þær ályktanir að sóknaraðili sé ekki fær um að annast son sinn þannig að velferð hans og þroski séu tryggð. Af læknabréfi G 6. desember 2010 og skýrslu sálfræðinganna H og I sama dag verður ráðið að lyfjameðferð síðustu vikur kunni að hafa skilað einhverjum árangri varðandi andlega hagi sóknaraðila. Þegar til þess er litið hversu óljósar þessar vísbendingar eru fá þær engu breytt um að þær ályktanir um umönnunarþörf drengsins og hæfni móður sem dregnar verða af framangreindum gögnum. Með vísan til þess og þar sem hinar umdeildu ráðstafanir varnaraðila eru til skamms tíma verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en gjafsóknarkostnað. Fallist er á kröfu sóknaraðila um að til gjafsóknarkostnaðar í héraði teljist kostnaður hennar við öflun sálfræðilegrar skýrslu 6. desember 2010.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar í héraði, sem ákveðin var í hinum kærða úrskurði, og þóknun lögmannsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðst 200.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Fyrir liggur að sóknaraðili hóf að læknisráði, eftir að F sálfræðingur skrifaði sálfræðilega matsgerð 4. nóvember 2010, lyfjatöku til að fást við sálræna erfiðleika sem hún hafði átt við að glíma og lýst er í hinum kærða úrskurði. Við meðferð málsins í héraði lá fyrir læknabréf G geðlæknis 6. desember 2010 þar sem meðal annars kemur fram að ástand sóknaraðila hafi breyst til batnaðar „til mikilla muna eftir að hún var sett á [...] - og geðdeyfðarlyf og virkni lyfja hafin.“ Taldi læknirinn að æskilegt væri að endurmeta vanhæfni hennar sem móður í ljósi ofangreindra staðreynda. Ekkert hafi komið fram í viðtali við sóknaraðila sem bendi til þess að hún væri vanhæf móðir. Þá lá einnig fyrir í héraði sálfræðileg skýrsla dagsett sama dag 6. desember 2010, þar sem tveir sálfræðingar gefa að ósk lögmanns sóknaraðila umsögn um sóknaraðila eftir að sálfræðingarnir höfðu átt viðtöl við hana. Í skýrslunni er þess getið að annar þessara sérfræðinga hafi haft sóknaraðila til meðferðar á árinu 2009. Í skýrslunni er að því vikið að sóknaraðili hafi tekið lyf sem sagt er virka bæði á þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Hafi lyfin haft góð áhrif á líðan sóknaraðila. Þá kemur fram í skýrslunni að höfundar hennar draga í efa réttmæti nokkurra ályktana um andlegt ástand sóknaraðila sem dregnar eru í skýrslu F 4. nóvember 2010.
Í forsendum hins kærða úrskurðar, sem kveðinn var upp 13. desember 2010, kemur fram að sýnt þyki „að sóknaraðili hafi náð talsverðum árangri á síðustu dögum.“ Af forsendunum verður síðan ráðið að héraðsdómari taldi sér bera að leggja mat á hvort úrskurður varnaraðila 18. nóvember 2010 hafi verið lögmætur, eins og komist er að orði, þegar hann var kveðinn upp. Verður ekki betur séð en héraðsdómari hafi staðfest úrskurðinn á þessari forsendu og þá ekki tekið tillit til nýrra gagna sem fram voru komin og bentu gátu til þess að heilsufar sóknaraðila hefði batnað eftir að hún hóf lyfjatöku og hæfni hennar til að annast barn sitt hefði breyst til batnaðar.
Telja verður að við úrlausn mála af því tagi sem hér um ræðir fyrir dómi verði að leggja til grundvallar mat á aðstæðum þegar úrskurður eða dómur er upp kveðinn. Leiðir þetta af eðli málsins og hefur að auki stoð í nokkrum ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem kveðið er á um að ráðstafanir barnaverndarnefnda samkvæmt lögunum skuli ekki standa lengur en þörf krefji.
Í 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um úrræði, sem barnaverndarnefnd getur gripið til án samþykkis foreldra, en ganga skemur en 27. gr. laganna um vistun barns utan heimilis. Má nefndin samkvæmt þessari heimild meðal annars kveða á um eftirlit með heimili og gefa fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, meðal annars um læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun þess.
Úrræði 26. gr. barnaverndarlaga hafa ekki verið reynd í máli sóknaraðila og barns hennar eftir að sóknaraðili hóf lyfjatöku með þeim góða árangri sem málsgögnin benda til. Ljóst er að ákvörðun um að skilja drenginn frá sóknaraðila gegn vilja hennar og móður hennar, sem hún býr hjá, er afar íþyngjandi fyrir fjölskylduna. Tel ég að leita beri nú hinna vægari úrræða, svo sem lög heimila, til að bregðast við þeim vanda, sem vissulega er fyrir hendi, meðal annars með því að hafa eftirlit með heimili sóknaraðila og aðbúnaði drengsins. Engan veginn er loku fyrir það skotið, að úrræði samkvæmt 26. gr. barnaverndarlaga kunni að nægja til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með úrskurði varnaraðila 18. nóvember 2010. Er raunar hugsanlegt að þau geti, ef allt gengur vel, verið líklegri til varanlegs árangurs fyrir barnið og sóknaraðila heldur en þau úrræði sem gripið hefur verið til. Ég tel því, eins og hér stendur á, og með vísan til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sem og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 38. gr. barnaverndarlaga, að ekki skuli beita heimildum 27. gr. laga nr. 80/2002 um vistun barns utan heimilis, fyrr en að fullreyndu úrræði samkvæmt 26. gr. laganna.
Niðurstaða mín er því sú, að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi. Ég er sammála meirihluta dómara um kærumálskostnað og gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2010.
Hinn 23. nóvember sl. barst Héraðsdómi Reykjaness krafa sóknaraðila, A, kt. [...], til heimilis að [...], [...], dagsett 21. nóvember, um að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila, B, [...], [...], sem kveðinn var upp í máli sóknaraðila 18. nóvember 2010. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila um að barnið C, kt. [...], verði vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá og með 18. nóvember 2010 að telja, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér drenginn þegar í stað. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
I
Málsatvik eru þau að 4. október sl. fæddi sóknaraðili drenginn C sjö vikum fyrir tímann á Landspítalanum. Var drengurinn strax lagður inn á vökudeild spítalans en sóknaraðili fór heim daginn eftir fæðinguna.
Sóknaraðili kveðst þjást af [...] sem lúti annars vegar að [...] og hins vegar að því að [...]. [...]. Hins vegar hafi verið komið með drenginn í anddyri 1. hæðar þar sem hún hafi getað verið nokkra stund með honum. Móðir sóknaraðila kom með henni á spítalann og dvaldi með henni hjá drengnum. Eftir nokkur skipti var hætt að fara með drenginn niður á 1. hæð vegna smithættu. Eftir 9. nóvember varð það að samkomulagi að sóknaraðili fengi að sjá son sinn í herbergi á 1. hæð í klukkustund á dag.
Aðkoma varnaraðila að málinu hófst 21. september 2010. Barst þá tilkynning frá ljósmæðrum á [...] á [...] í [...] þar sem lýst var þungum áhyggjum af sóknaraðila og ófæddu barni hennar. Að lokinni könnun máls hjá varnaraðila var drengurinn kyrrsettur á vökudeild Landspítala til 30. nóvember 2010. Þann dag var drengurinn vistaður samkvæmt hinum kærða úrskurði hjá D og E. Er ráðgert að drengurinn verði þar til 18. janúar nk. en fyrir þann tíma mun varnaraðili taka mál drengsins fyrir.
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að við könnun málsins hafi verið aflað ítarlegra upplýsinga frá sóknaraðila og fjölskyldu hennar. Farið hafi verið inn á heimili hennar og móður hennar og aðstæður skoðaðar. Eftir fæðingu drengsins og innlögn hans á vökudeild hafi verið fylgst með umönnun hans þar og hvernig sóknaraðili hafi sinnt drengnum og þörfum hans. Reynt hafi verið að tryggja sóknaraðila aðstoð til að hún gæti heimsótt drenginn á vökudeild, sinnt honum þar og myndað við hann tengsl. Þá hafi verið gert ítarlegt mat á forsjárhæfni sóknaraðila af hálfu S sálfræðings. Eftir fæðingu drengsins hafi jafnframt verið aflað gagna frá starfsfólki Barnaspítalans um drenginn og um aðkomu sóknaraðila að umönnun hans.
Að könnun lokinni hafi drengurinn verið kyrrsettur á vökudeild og mál hans og móður hans lagt fyrir varnaraðila af hálfu starfsmanna hans. Tillaga starfsmanna hafi verið að sóknaraðili og sonur hennar færu saman í vistun utan heimilis í þrjá mánuði. Til stuðnings þeirrar tillögu hafi starfsmennirnir vísað til þess að sóknaraðili hefði illa sinnt mæðraeftirliti og hitt drenginn mjög sjaldan eftir fæðingu hans. Þá hafi hún verið erfið í samstarfi og ekki þegið nauðsynlega hjálp fyrir sig né í þágu drengsins. Mat þeirra hafi verið að sóknaraðili væri í mikilli þörf fyrir að geðrænn vandi hennar yrði sem best skilgreindur og að hún fengi meðferð við hæfi. Tillaga starfsmannanna hafi stuðst við gögn málsins sem meðal annars hafi falið í sér umsagnir og bréf heilbrigðisstarfsmanna sem komið hafi að máli sóknaraðila og sonar hennar. Einnig hafi verið stuðst við niðurstöður forsjárhæfnismats S sálfræðings. Úrskurður varnaraðila hafi verið kveðinn upp 18. nóvember sl. en á fundi nefndarinnar hafi lögmaður sóknaraðila lýst yfir afdráttarlausri höfnun á tillögunni.
Frá uppkvaðningu úrskurðarins hafi starfsmenn varnaraðila reynt að koma á ítarlegri meðferðaráætlun varðandi drenginn. Það hafi ekki tekist enda hafi sóknaraðili ekki verið til samvinnu um þau meðferðar- og stuðningsúrræði sem starfsmenn telji nauðsynleg.
Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum ásamt móður sinni G, föður sínum H og systrunum I, J og K. Þá komu fyrir dóminn L talsmaður sóknaraðila, M barnalæknir, N hjúkrunarfræðingur, O félagsráðgjafi og sálfræðingarnir P, R, S og T.
II
Til stuðnings kröfu sinni um að fella úr gildi úrskurð varnaraðila frá 18. nóvember sl. vísar sóknaraðili meðal annars til þess að hún búi heima hjá móður sinni G, sem fari með forsjá hennar. Móðir hennar hafi staðið við hlið hennar á meðgöngunni og eftir fæðingu barnsins. Hún hafi ávallt fylgt henni í mæðraskoðun og verið viðstödd fæðingu barnsins. Þá hafi hún frá fæðingunni komið oft á dag á vökudeildina. Staðfesti N, sérfræðingur í hjúkrun á vökudeild, að G hafi komið daglega á deildina til að sinna drengnum, hún hafi lagt sig fram við að koma á gjafatímum og sinnt drengnum af natni og áhuga.
Þá hafi sóknaraðili fengið að hitta son sinn í herbergi á 1. hæð spítalans daglega í um klukkustund og einu sinni fengið að koma aftur um kvöldið. Hafi samverustundirnar takmarkast vegna mannfæðar á vökudeild. Sóknaraðila hafi fundist þessi tími of stuttur og hún hafi verið ósátt við að fá ekki meiri tíma með syni sínum. Auk þessa hafi hún hringt daglega á vökudeildina til að spyrja um líðan hans. Samvera þeirra hafi takmarkast af nokkrum þáttum; [...] sóknaraðila, sýkingarhættu drengsins og því að ekki hafi verið tiltækur starfsmaður á vökudeild til að sinna þessum sérstöku þörfum meira en einn tíma á dag. Óeðlilegt verði að teljast að ekki megi kosta neinu til á sjúkrahúsi svo unnt sé að taka tillit til [...] í jafn mikilvægu atriði sem samveru ungabarns og móður á fyrstu dögum og vikum barnsins, sem þar að auki sé veikburða fyrirburi og hafi sérstaka þörf fyrir ástúð og hlýju, auk annarra sérþarfa. Með ólíkindum verði að teljast að barnaverndaryfirvöld líti síðan á afleiðinguna, litla samveru móður og barns, sem vanrækslu af hálfu móður sem leiða skuli til þess að hún fái barnið ekki til sín af sjúkrahúsinu. Sóknaraðili hafi beðið óþreyjufull hvern dag eftir samverustund með barninu og átt erfitt með að slíta sig frá barninu í lok hennar. Ekki sé hægt að líta á litla samveru sem vanrækslu af hálfu sóknaraðila.
Mótmælt sé því sem segi í vottorði N, sem fyrr var nefnt, þar sem segi að sóknaraðili hafi ekki sýnt samstarfsvilja til að sinna drengnum. Þá er mótmælt vottorði barnalæknanna U og M þar sem segi að sóknaraðili sé ósamstarfsfús þegar heilbrigðisstarfsfólk eigi í hlut og það sé áhyggjuefni og óvenjulegt hverju lítið móðirin hafi komið á deildina til að vitja drengsins og taka þátt í umönnun hans. Ótrúlegt sé að þessir aðilar geri sér ekki grein fyrir þeim sérstöku aðstæðum hjá sóknaraðila og á spítalanum sem lýst sé hér að framan og hafi takmarkað samverustundir mæðginanna. Þá er á það bent að V yfirlæknir hafi sýnt þessu vandamáli skilning þegar lögmaður sóknaraðila hafi komið að málinu og hafi þá verið fundið herbergi fyrir samveru sóknaraðila og drengsins á 1. hæð sjúkrahússins.
Sóknaraðili mótmælir sálfræðimati S sálfræðings. Telur hún að þar gæti vanþekkingar og skilningsleysis á [...] og sé það ótrúlegt því geðlæknar og sálfræðingar hafi hjálpað mörgum með [...]. Þær séu læknanlegar með lyfjum og viðtölum. Virðist sálfræðingurinn byggja mat sitt að miklu leyti á þeim gögnum sem misskilningurinn komi fram í. Auk þess sé það óásættanlegt að einn sálfræðingur gæti dæmt [...] ára stúlku svo harkalega sem gert sé. Þá er á það bent að sálfræðimatið sé dagsett 4. nóvember sl., en það sé áður en umgengni sóknaraðila og barnsins í herbergi á 1. hæð spítalans hafi verið komið á. Sé því hafnað að hægt sé að leggja matið til grundvallar, eins og varnaraðili virðist gera.
Vakin er athygli á að sóknaraðili hafi orðið fyrir miklu einelti í grunnskóla. Hótað hafi verið að skjóta hana og hella yfir hana bensíni í skólanum. Þetta hafi eðlilega valdið henni mikilli vanlíðan og orðið til þess að hún hafi oft ekki treyst sér í skólann. Af þessari ástæðu hafi mál sóknaraðila komið inn á borð hjá [...]. [...] vegna eineltisins hafi leitt til [...], en [...] geti leitt til [...]. [...] hafi útvegað sóknaraðila tíma á sjálfstyrkingarnámskeiði sem hún hafi sótt. Þá hafi hún sótt sálfræðitíma og farið í þrjú viðtöl á [...].
Sóknaraðili kveðst hafa verið ávísað lyfi á meðgöngunni vegna líðanar sinnar, en þegar hún hafi spurt hvort hætta væri á fósturskaða í lyfjaversluninni hafi hún fengið það svar að ekki væri komin reynsla á lyfið að þessu leyti. Hún hafi því ekki tekið inn lyfið til að skaða ekki fóstrið og á meðan hún hafi mjólkað sig, en þegar mjólkuróþol drengsins hafi komið í ljós hafi hún farið að taka inn lyfið. Það taki hins vegar nokkurn tíma að virka.
[...] sóknaraðila hafi ekki komið fram fyrr en á meðgöngunni, en algengt sé að andleg vanlíðan sem fyrir sé aukist á meðgöngu. Sóknaraðili bíði nú tíma hjá W geðlækni til að leita aðstoðar við að vinna bug á [...] sinni.
Í gögnum málsins komi fram að tannheilsa sóknaraðila sé slæm. Því sé til að svara að tennur hennar hafi skemmst mjög á meðgöngu, en það sé vel þekkt. Þá komi fram í gögnum málsins að sóknaraðili hafi verið [...] og [...] og að hún hafi ekki [...]. Þessu sé alfarið mótmælt. Sóknaraðili fari í [...] og alltaf fyrir mæðraskoðun. Á það sé bent að sóknaraðili hafi starfað í [...] og hafi það gengið vel. Ekki hafi verið kvartað yfir því að hún væri [...].
Af framansögðu megi vera ljóst að sóknaraðili hafi þegið allan þann stuðning sem henni hafi verið boðinn, auk þess sem hún hafi af sjálfsdáðum leitað hjálpar hjá geðlækni til að vinna bug á [...] sinni. Óviðunandi verði að teljast að félagsmálayfirvöld hafi ekki sýnt sóknaraðila og móður hennar meiri skilning og aðstoð vegna veikinda sóknaraðila og væntanlegrar fæðingar barnsins úr því að það hafi verið þeim svo mikið áhyggjuefni að hún gæti ekki sinnt barni sínu. Með ólíkindum sé að sóknaraðila hafi ekki verið boðin samvinna og reynd þau úrræði sem greind séu í 24. gr. barnaverndarlaga, sbr. 23. gr. laganna. Megi sem dæmi nefna að sóknaraðila hafi ekki veið boðið að sækja uppeldisnámskeið og geti ekki talist að henni hafi verið boðinn sá stuðningur sem gert sé ráð fyrir í 24. gr. Fyrst þann 18. nóvember hafi verið samþykkt að hún fengi skipaðan talsmann, en ekki fallist á að hún fengi persónulegan ráðgjafa eins og hún hafi óskað eftir. Sóknaraðili muni þiggja allan stuðning sem í boði sé, en vilji ekki fara í fóstur með drenginn. Hún sé tilbúin til samvinnu við barnaverndaryfirvöld um uppeldi og aðbúnað drengsins og heimili hennar sé opið fyrir óboðuðu eftirliti allan sólarhringinn. Hafi þessi afstaða hennar komið fram á fundi með varnaraðila 18. nóvember.
Í gögnum málsins sé því haldið fram að móðir sóknaraðila, G, hafi vanrækt dóttur sína og hafi ekki né geti sett henni nein mörk. Því sé alfarið mótmælt og því til stuðnings vísað til bréfs Þ sálfræðings hjá [...]. Frásögn hennar sýni að G sé mjög umhugað um velferð dóttur sinnar og setji henni mörk. Sóknaraðili segist ekki vera vanrækt og að móðir hennar hafi alltaf hugsað vel um sig og eldi ávallt mat á kvöldin. Hún sé [...] og því heima allan daginn.
Móðir sóknaraðila hafi ítrekað lýst því yfir við starfsmenn varnaraðila að hún muni aðstoða sóknaraðila með drenginn þegar hann fái að koma heim. Hún hafi reynslu af því að annast fyrirbura, en hún hafi sjálf fætt eitt barn sitt fyrir tímann og önnur dóttir hennar hafi fætt barn tveimur mánuðum fyrir tímann og komið með það beint heim af sjúkrahúsi heim til móður sinnar. Sé því ljóst að hún kunni tökin á fyrirburum og þekki sérþarfir þeirra. Þá sé ljóst að hún hafi sýnt drengnum mikla ástúð og umhyggju frá fæðingu hans. Verði að telja að tengsl hafi myndast á milli ömmunnar og litla drengsins sem ekki megi rjúfa.
Á framangreindum forsendum sé þess krafist að úrskurður varnaraðila verði felldur úr gildi og honum gert að afhenda sóknaraðila barnið þegar í stað og að hún fái að fara með drenginn heim til sín jafnskjótt og læknar telji hann nægilega heilsugóðan til að unnt sé að útskrifa hann af sjúkrahúsinu.
Sóknaraðili byggir á þeirri meginreglu barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem sé skýrlega greind í 7. mgr. 4. gr. að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verið ekki náð með öðru og vægara móti. Jafnframt er byggt á því að skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp þar sem ekki hafi verið reynd önnur og vægari úrræði, svo sem í 24. gr., sbr. 23. gr., laganna. Þá brjóti úrskurður þessi í bága við 8. gr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um friðhelgi fjölskyldu og heimilis og segi að opinberum stjórnvöldum beri að stuðla að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim. Krafa um málskostnað byggir á 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.
III
Varnaraðili telur úrskurð sinn ítarlega rökstuddan. Hann byggi meðal annars á gögnum sérfræðinga um hæfni sóknaraðila til að ala önn fyrir drengnum. Markmið varnaraðila við vinnslu málsins sé að tryggja umönnun drengsins. Hann hafi að mati barnalækna og hjúkrunarfræðinga á vökudeild þörf fyrir mikla, sértæka og ábyrga umönnun.
Varnaraðili vísar sérstaklega til niðurstöðu S sálfræðings sem telji að þær upplýsingar sem fyrir liggi sýni ótvíræða vanrækslu sóknaraðila gagnvart þörfum barnsins fyrir sérhæfða umönnun og að ekki sé óhætt að hún fari með forsjá hans. Sálfræðingurinn telji jafnframt að ekki sé hægt að fullyrða að sóknaraðili skilji ástand drengsins og ekki sé hægt að treysta því að hún setji þarfir hans afdráttarlaust og alltaf fram yfir sínar þarfir á þann hátt sem hann þurfi á að halda. Þá sé einnig tekið fram að ekki sé hægt að treysta því að hún gefi réttar upplýsingar. Sóknaraðili hafi sýnt mikinn vanmátt við að annast allar daglegar þarfir drengsins frá fæðingu og jafnframt við að nýta sér aðstoð sérfræðinga vegna vandamála og veikinda hennar sjálfrar.
Í kæru sé vísað til þess að sóknaraðili sé haldinn einhvers konar [...] sem felist í [...] eða [...], meðal annars gagnvart [...] og því að [...]. Að mati sálfræðingsins, sem varnaraðili taki undir, glími sóknaraðili við mun alvarlegri, margþættari og flóknari vanda en það. Sálfræðingurinn telji að um geti verið að ræða ótilgreinda persónuröskun sem sé langvarandi ástand sem hafi í för með sér varanlegt og skaðlegt hegðunarmunstur. Meðal annars með vísan til þess hafi starfsmenn varnaraðila talið það algerlega nauðsynlegt að sóknaraðili undirgangist þverfaglegt mat á [...] til að fá ítarlega greiningu á vanda sínum og veikindum og í framhaldinu að hún þiggi þá aðstoð og úrræði sem sérfræðingar [...] mæli með að slíku mati loknu. Því hafi sóknaraðili staðfastlega neitað við meðferð málsins hjá varnaraðila.
Þá byggir varnaraðili jafnframt á forsögu sóknaraðila. Hún hafi átt erfitt uppdráttar í grunnskóla og lengi glímt við [...] og [...]. Hún hafi átt mjög erfitt með að sinna mæðraeftirliti á meðgöngunni og hafi ljósmæður á [...] í [...] haft miklar áhyggjur af henni og ófæddu barni hennar og tilkynnt um málið til varnaraðila vegna þess. Gögn málsins sýni að mæðraeftirliti hafi lítið verið sinnt. Sóknaraðili hafi ekki mætt í skoðanir, ekki skilað þvagprufum eða mætt í blóðprufur. Reglulegar rannsóknir á þvagi og blóði séu mikilvægur þáttur í mæðravernd, auk þess sem reglubundið eftirlit með móður og ófæddu barni sé grundvallarþáttur í því að tryggja velferð hins ófædda barns. Því hafi sóknaraðili ekki sinnt.
Þá byggir varnaraðili á því hversu lítið sóknaraðili hafi sinnt drengnum frá fæðingu hans. Er fullyrðingum í kæru um að varnaraðili hafi lagt stein í götu hennar mótmælt. Sóknaraðili hafi ekki getað tekið ábyrgð á umönnun drengsins meðan hann hafi dvalist á vökudeild og ekki sótt sér aðstoð, þekkingu eða kennslu í umönnun hans. Drengurinn hafi gengið í gegnum erfið veikindi auk þess að glíma við hefðbundin fyrirburavandamál. Í umsögnum barnalæknanna U og M og hjúkrunarfræðingsins N sé lýst miklum áhyggjum af færni og getu sóknaraðila til að annast drenginn. Þá sé því lýst hversu óvenjulegt það sé hve lítið sóknaraðili hafi komið á vökudeildina til að vitja drengsins og taka þátt í umönnun hans, þrátt fyrir mikla hvatningu og aðstoð. Einnig komi þar fram að drengurinn þurfi mikla og sértæka aðstoð.
Þá er vísað til þess að sóknaraðili virðist eiga í erfiðleikum með að nýta sér þá aðstoð sem henni bjóðist vegna vanda síns. Er um það vísað til greinargerðar T sálfræðings sem starfi á Landspítala, meðal annars í tengslum við fæðingar- og kvennadeild. Sóknaraðila hafi verið vísað til hennar eftir fæðingu drengsins til að aðstoða hana við að takast á við [...] svo sóknaraðili gæti heimsótt drenginn á vökudeild. Erfiðlega hafi gengið hjá sálfræðingnum að vinna með sóknaraðila, en hún hafi sýnt töluverðan mótþróa. Þá hafi það ítrekað komið fyrir að sóknaraðili hafi ekki mætt í viðtöl. Eftir 13. október hafi sóknaraðili ekki sótt viðtöl eða óskað aðstoðar sálfræðingsins. Þá bendir varnaraðili á að ítrekað komi fram í gögnum málsins að sóknaraðili sinni lítið sem ekki persónulegu [...] sínu eða hirði um að halda [...].
Með vísan til framangreinds og gagna málsins telur varnaraðili að sóknaraðili vanmeti stórkostlega alvarleika veikinda sinna og að umönnun drengsins C verði að svo stöddu ekki tryggð í hennar höndum.
Því er sérstaklega mótmælt að ekki verði byggt á niðurstöðu forsjárhæfnismats S sálfræðings. Hafi engin haldbær rök verið færð fram fyrir því hvers vegna ekki skuli byggt á matinu.
Varnaraðili byggir á því að brýn þörf hafi verið á vistun drengsins utan heimilis, sbr. 27. gr. barnarverndarlaga nr. 80/2002, og að ekki hafi verið beitt óþarflega íþyngjandi úrræði. Ekki hafi verið mögulegt að ná markmiðum varnaraðila með öðru og vægara móti, sbr. 7. mgr. 4. gr. laganna. Sé í þessu sambandi bent á að það sé skýr niðurstaða í forsjárhæfnimati S sálfræðings að ekki sé óhætt að sóknaraðili fari með forsjá drengsins C.
IV
Með úrskurði varnaraðila, [...], 18. nóvember sl. var ákveðið að sonur sóknaraðila, C, skyldi vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði með heimild í b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili hefur krafist þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og varnaraðila verði gert að afhenda sér drenginn þegar í stað.
Sonur sóknaraðila fæddist 4. október sl. sjö vikum fyrir tímann. Afskipti varnaraðila af málinu hófust þegar á meðgöngu með tilkynningu frá ljósmæðrum á [...] [...] í [...]. Lýstu þær áhyggjum af sóknaraðila og barni hennar vegna vanrækslu hennar við að sækja mæðraeftirlit. Eftir fæðingu drengsins dvaldi hann á vökudeild Landspítalans. Þangað kom sóknaraðili sjaldan, að sögn vegna [...]. Var komið til móts við sóknaraðila eins og hægt var með því að koma með drenginn niður á 1. hæð spítalans. Þá var henni boðin aðstoð sálfræðings til þess að hún gæti heimsótt vökudeildina en hún nýtti sér hana illa.
S sálfræðingur var fengin til að meta forsjárhæfni sóknaraðila. Skilaði hún ítarlegri matsgerð 4. nóvember sl. Í niðurstöðum hennar kemur meðal annars fram að sóknaraðili glími við vanda sem hana skorti innsæi í. Vandinn sé mun alvarlegri og flóknari en þegar um einfalda [...] sé að ræða, en frekari greiningar sé þörf. Sálfræðingurinn telur styrkleika sóknaraðila felast í því að hún hafi undirbúið fatnað fyrir drenginn og þvoi föt sem móðir hennar komi með af vökudeildinni. Veikleikar hennar felist hins vegar í þeim mikla vanmætti sem hún hafi sýnt við að annast um allar daglegar þarfir drengsins og nýta sér þá aðstoð sem henni standi til boða á Landspítalanum. Ekki sé hægt að treysta því að hún geti sett þarfir drengsins afdráttarlaust og alltaf fram fyrir sínar þarfir á þann hátt sem hann þurfi á að halda. Dregur sálfræðingurinn þær ályktanir að sóknaraðili sé ekki hæf til að annast um drenginn þannig að velferð og þroski séu tryggð. Þá telur hún móður sóknaraðila vera í sterku meðvirknisambandi við hana og loka augunum fyrir því sem sé að. Niðurstaðan sé því sú að þær upplýsingar sem liggi fyrir sýni ótvíræða vanrækslu sóknaraðila gagnvart þörfum sonar síns fyrir sérhæfða umönnun og að ekki sé óhætt að hún fari með forsjá hans. Sóknaraðili hefur mótmælt matsgerð þessari harðlega. Ekkert er fram komið sem styður það að ekki verði á matsgerðinni byggt, enda er hún vel rökstudd og byggð á viðtölum, prófunum og ítarlegum gögnum.
Sóknaraðili hefur lagt fram sálfræðilega skýrslu sálfræðinganna Þ og R, dags. 6. desember 2010, sem hún aflaði undir rekstri málsins. Kemur þar fram að sóknaraðili hafi undanfarið tekið lyf við [...] og [...]. Hún hafi lýst yfir vilja til að þiggja sálfræðimeðferð og áframhaldandi lyfjameðferð og stuðning móður sinnar til að geta sinnt syni sínum. Telja sálfræðingarnir ýmsar aðrar skýringar mögulegar á hegðun sóknaraðila á meðgöngu og eftir fæðingu en þær sem komi fram í matsgerð S sálfræðings. Vegna þess og þeirra breytinga sem hafi orðið hjá A nýlega, sem megi rekja til árangurs lyfjameðferðar, ætti sóknaraðili að fá að njóta vafans og fá lengri tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum sínum áður en hún sé úrskurðuð vanhæf móðir. Segja megi að greinist móðir með meðgöngu- og fæðingarþunglyndi sé algjörlega ótímabært að hefja foreldrahæfnismat eins og gert hafi verið í þessu tilviki. Eðlilegra væri að veita ungri móður sem ekki sé í neyslu allan þann stuðning og meðferð sem hún þurfi á að halda áður en dregnar séu ótímabærar ályktanir um vanhæfni hennar í móðurhlutverkinu. Ætla megi að slíkt hafi ekki verið fullreynt í tilfelli sóknaraðila. Eins og með aðra sem séu þolendur eineltis telji þær æskilegt að sóknaraðili fái viðeigandi sálfræðimeðferð.
Sóknaraðili hefur einnig lagt fram vottorð W geðlæknis, dags. 6. desember 2010, þar sem fram kemur að í greiningarviðtali við sóknaraðila sem fram hafi farið 3. desember sl. hafi komið í ljós að hún greinist með [...] á sl. tólf mánuðum og [...] einnig á sl. tólf mánuðum. Einnig segir að ekkert við geðgreiningu eða í viðtali gefi til kynna að hún sé vanhæf sem foreldri og við greininguna komi fram tíu einkenni [...] sem sé ekki nægjanlegur fjöldi einkenna til að gefa henni [...]greiningu. Þá kemur fram að takmörkuð aðkoma sóknaraðila að barninu geti skýrst af [...] hennar og því að hún hafi átt erfitt með að [...]. Ástand hennar hafi breyst til mikilla muna eftir að hún hafi verið sett á [...]lyf og virkni lyfja hafin.
Ljóst er að sonur sóknaraðila þarf á mikilli umönnun að halda á næstu vikum. M barnalæknir lýsti því fyrir dóminum að til að byrja með þurfi að vaka yfir börnum sem hafi fengið slíkt áfall á miðtaugakerfið sem sonur sóknaraðila. Útkoman ráðist af því hversu vel sé hugsað um barnið. Öndunarstöðvarnar séu óþroskaðar. Fylgjast þurfi vel með þeim og gæta að næringu þeirra þar sem þau láti oft ekki vita af því að þau séu svöng. Þá lýsti hann því jafnframt hvernig fæðingu barnsins hefði borið að. Sagði hann sóknaraðila ekki hafa fengist inn á spítalann fyrr en á síðustu stundu. Hefði hún komið strax hefði hugsanlega verið hægt að tefja fæðinguna og gefa stera til að auka lungnaþroska barnsins. Þá sagði hann frá því að í ómskoðun hefði komið í ljós blæðing inn á heila hjá barninu. Hefði hugsanlega mátt koma í veg fyrir hana með steragjöf.
Sóknaraðili hefur lítið sinnt syni sínum frá fæðingu þar sem hún treysti sér ekki til að fara til drengsins á vökudeild. Nákvæm greining á andlegu ástandi hennar liggur ekki fyrir. Niðurstaða matsgerðar S sálfræðings er að frekari greiningar sé þörf, en fyrirliggjandi upplýsingar geti bent til ótilgreindrar [...]. Sálfræðingarnir P og R hafa talið um [...] að ræða, en W geðlæknir segir sóknaraðila hafa greinst með [...] og [...]. Hver sem ástæða erfiðleika sóknaraðila er liggur ljóst fyrir að hún hefur hamlað sóknaraðila í að hugsa um barn sitt.
Áður en gripið er til þvingunarúrræða, svo sem gert var með úrskurði varnaraðila, ber að grípa til úrræða eftir því sem við á með samþykki foreldra samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga. Skili slík úrræði ekki árangri að mati barnaverndarnefndar eða nefndin telji þau ófullnægjandi og brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd með úrskurði kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem ráðstöfun þess í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðili bauð sóknaraðila margvíslegan stuðning, meðal annars aðstoð sálfræðings til að vinna bug á [...] sinni. Hún nýtti þá aðstoð hins vegar ekki nema að mjög litlu leyti. Á vökudeild Landspítalans var reynt að koma til móts við hana með því að fara með barnið í anddyri spítalans í þeirri von að [...]. Þá hefur hún ekki viljað þiggja það að fara í fóstur ásamt syni sínum. Mat varnaraðila eftir þetta var að nauðsynlegt væri að grípa til þess að vista drenginn á vegum varnaraðila, enda myndu vægari úrræði vera ófullnægjandi. Dómurinn fellst á mat varnaraðila, enda var úrræðinu beitt til að tryggja öryggi, hagsmuni og velferð drengsins sem þarf á sérstaklega mikilli og ábyrgri umönnun að halda á fyrstu vikum ævi sinnar. Komið hefur fram að sóknaraðili hefur ríflega umgengni við son sinn þannig að hún fái tækifæri til að mynda tengsl við hann og læra að annast hann. Þá hefur hún þess kost að taka móður sína eða föður með sér til drengsins tvisvar í viku.
Af framlögðum gögnum og skýrslum fyrir dómi þykir sýnt að sóknaraðili hafi náð talsverðum árangri á síðustu dögum. Virðist líðan hennar vera mun betri og hún hefur treyst sér til [...] og kom til drengsins undir lok dvalar hans á vökudeild. Hins vegar verður talið, með vísan til þess sem rakið hefur verið um forsögu málsins og niðurstöðu sálfræðilegrar matsgerðar, að við uppkvaðningu úrskurðarins 18. nóvember sl. hafi sóknaraðili ekki verið í stakk búin til að fara með forsjá drengsins. Verður það ráðið af gögnum málsins að brýnir hagsmunir drengsins hafi mælt með því að vista hann utan heimilis á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Verður úrskurðurinn því talinn lögmætur.
Er það niðurstaða dómsins að staðfesta beri úrskurð varnaraðila 18. nóvember 2010 um að barnið C, kt. [...], sonur sóknaraðila skuli vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, frá og með 18. nóvember 2010.
Af hálfu sóknaraðila er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en með bréfi dóms- og mannréttindaráðuneytisins, dags. 6. desember 2010, var sóknaraðila veitt gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Engin málskostnaðarkrafa er gerð af hálfu varnaraðila.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Undir rekstri málsins fyrir dómi aflaði sóknaraðili skýrslu sálfræðinganna P og R. Hefur sóknaraðili krafist þess að kostnaður vegna skýrslunnar, 399.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga verður matsgerðar ekki aflað í málum sem þessum. Ekki er hægt að líta á þetta skjal sem slíkt, enda kom fram í máli annars sálfræðingsins fyrir dómi að með skýrslunni væru þær að tala máli sóknaraðila. Verður þó ekki talið að tilefni hafi verið til öflunar svo umfangsmikillar skýrslu í málinu. Er því ekki unnt að fallast á að kostnaður vegna þessa verði greiddur úr ríkissjóði. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem felst í þóknun lögmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur hdl., og þykir hæfilega ákveðin 369.600 krónur án þess að tekið hafi verið tillit til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfestur er úrskurður varnaraðila, [...], 18. nóvember 2010 um að barnið C, kt. [...], sonur sóknaraðila, A, skuli vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, frá og með 18. nóvember 2010.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þóknun lögmanns hennar, Þuríðar Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 369.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.