Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skilorð


         

Fimmtudaginn 1. nóvember 2007.

Nr. 287/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

Herði Steinari Tómassyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skilorð.

 

H var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa berað kynfæri sín fyrir börnum og fróað sér að þeim viðstöddum. Taldist brot hans varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. H var sakfelldur um refsiverða meingerð við öll börnin sem í hlut áttu og kröfðust miskabóta, einnig þau sem ekki sáu allt athæfi hans. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur og þótti refsing hans hæfilega ákveðin 8 mánuðir og þar af 5 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár frá dómsuppsögu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af lið 3 í ákæru en að dæmd verði vægasta refsing er lög leyfa varðandi liði 1 og 2 í ákæru.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að ákærði hefur greitt brotaþolum bætur í samræmi við dómsorð hins áfrýjaða dóms. Þá hefur verið lagt fram vottorð sálfræðings um að ákærði hafi leitað aðstoðar hans í því skyni að fá lausn á vanda sínum, sem sálfræðingurinn telur flokkast undir sýnihneigð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hörður Steinar Tómasson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 408.929 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2007.

                Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 8. janúar sl. á hendur ákærða, Herði Steinari Tómassyni, kt. 270471-3239, Sporðagrunni 4, Reykjavík, “fyrir kynferðisbrot framin í Reykjavík að kvöldi laugardagsins 12. ágúst 2006 sem hér greinir:

                1.  Í bifreið sinni KG-615 sem ákærði hafði lagt á bifreiðastæði við Breiðholtsskóla við Arnarbakka 1-3, berað kynfæri sín fyrir stúlkunum A og B, og fróað sér að þeim viðstöddum en ákærði hafði kallað stúlkurnar að bifreiðinni undir því yfirskyni að spyrja þær til vegar.

                2.  Í stigagangi fjölbýlishússins að Y, ráðist að C, 12 ára, káfað á báðum brjóstum hennar utan klæða og ýtt henni í gólfið.

                3.  Í ofangreindri bifreið sinni sem ákærði hafði lagt nálægt akbrautinni við Skeiðarvog til móts við Sólheima, berað kynfæri sín fyrir börnunum D, E og F, og fróað sér að þeim viðstöddum en ákærði hafði kallað börnin að bifreiðinni undir því yfirskyni að spyrja þau til vegar.

                Brot ákærða samkvæmt 1. og 3. tölulið telst varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 82,1998 og 40,1992 en samkvæmt 2. tölulið við 2. mgr. 202. gr. sömu laga sbr. lög nr. 40,2003.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkröfur:

                Af hálfu G vegna ófjárráða sonar hennar, D, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2006 til þess dags er mánuðir er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar fyrir réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.

                Af hálfu G vegna ófjárráða dóttur hennar, F, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2006 til þess dags er mánuðir er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar fyrir réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.

                Af hálfu H vegna ófjárráða dóttur hennar, E, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2006 til þess dags er mánuðir er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar fyrir réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.

                Af hálfu I vegna ófjárráða dóttur hans, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2006 til þess dags er mánuðir er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar fyrir réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.

                Af hálfu J vegna ófjárráða dóttur hans, B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. ágúst 2006 til þess dags er mánuðir er liðinn frá því bótakrafa var kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er krafist þóknunar fyrir réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.”

 Málavextir

1.

                Fyrir liggur að laugardagskvöldið 12. ágúst sl. var ákærði í bíl sínum á stæði við Breiðholtsskóla.  Sá hann þá til ferða tveggja ungra stúlkna, þeirra A, f. [...] 1999, og B, f.[...] 1997.  Kallaði hann stúlkurnar að bílnum undir því yfirskyni að spyrja þær til vegar.  Þegar þær komu að bílnum hóf hann að fróa sér þar sem hann sat undir stýri. 

Ákærði segir bíldyrnar hafa verið lokaðar en gluggann opinn.  Geti stúlkurnar því ekki hafa séð getnaðarliminn á honum þegar hann var að fróa sér þótt þær kunni að hafa séð hann hreyfa sig við það.  Annars segist hann ekki vita “nákvæmlega hvað þær sáu”.  Stúlkurnar hafa borið fyrir dómi að dyrnar á bílnum hafi verið opnar og að þær hafi séð kynfærin á ákærða þegar hann fróaði sér.  Feður stúlknanna hafa komið fyrir dóm og lýst því er þær komu heim grátandi eftir þetta og sögðu frá þessu á sama veg.  Þá hefur vitni sem átti leið hjá þegar þetta gerðist sagt að dyrnar hafi verið opnar þegar stúlkurnar voru þar hjá bílnum.  Verður að telja upplýst með játningu ákærða, svo langt sem hún nær, og með því sem vitnin bera að atburðurinn hafi orðið með þessum hætti, að ákærði hafi fróað sér þarna í augsýn stúlknanna.  Ákærði hefur með þessu athæfi sínu orðið sannur að broti gegn 209. gr. almennra hegningarlaga.

2.

        Fyrir liggur að þetta sama kvöld fór ákærði inn í stigagang í fjölbýlishúsinu Y á eftir stúlkunni C, f. [...] 1994, sem þar á heima.  Kom hann aftan að stúlkunni og tók utan um hana þannig að hann hélt um brjóstin á henni utan klæða. 

                Stúlkan hefur sagt fyrir dómi að ákærði hafi því næst ýtt henni í gólfið og faðir hennar, sem hitti hana strax á eftir, hefur sagt hana hafa sagt manninn hafa ýtt henni í gólfið.  Ákærði neitar því hins vegar að hafa ýtt stúlkunni í gólfið og segir að hún hafi látið sig síga niður, eins og til þess að sleppa úr taki hans.  Ekki er óhætt að telja sannað gegn neitun ákærða að hann hafi ýtt stúlkunni í gólfið og ber að sýkna hann af því ákæruatriði.  Að öðru leyti telst ákærði með athæfi sínu gagnvart stúlkunni vera sannur að broti gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

        Fram er komið að stúlkunni muni ekki hafa orðið meint af þessu og því hafi ekki verið gerð bótakrafa af hennar hálfu.

3.

        Þá liggur fyrir að þetta sama kvöld lagði ákærði bíl sínum við Skeiðarvog á móts við Sólheima.  Kallaði hann til barna sem áttu leið hjá, þeirra D, f. [...] 1997, E, f. [...] 1994, og F, f. [...] 1993.  Bað hann þau vísa sér til vegar en þegar börnin nálguðust bílinn hóf hann að fróa sér þar sem hann sat undir stýri á bílnum. 

        Ákærði segist hafa haft bílgluggann opinn en dyrnar lokaðar.  Hafi börnin staðið á gangstéttinni og virtist ákærða eins og þau gætu ekki séð kynfærin á honum þegar hann fróaði sér.  Hafi þau virst róleg, reynt að segja honum til vegar og gengið sína leið að því búnu.  E hefur hins vegar borið í dómi að hún hafi séð manninn vera að eiga við liminn á sér þar sem hann sat í bílnum.  F hefur sagt fyrir dómi að hún hafi ekki séð manninn eiga við sig en E hafi sagt henni það.  Upptaka af skýrslu D er ekki fyrir hendi en hún mun hafa mistekist.  Móðir þeirra F hefur sagt fyrir dómi að E, systurdóttir þeirra, sé sú eina af börnunum sem hafi séð hvað maðurinn aðhafðist og á sama veg hefur frænka barnanna borið fyrir dómi, en hún var heima að gæta heimilisins þegar börnin komu heim eftir atvikið.  Segir hún börnin hafa verið í miklu uppnámi yfir því þegar þau komu heim.  Ekki þykja vera efni til þess að draga í efa framburð E um það að hún hafi séð ákærða eiga við kynfæri sín, enda er það í samræmi við það sem hann hefur játað að hafa aðhafst og það sem E sagði frændsystkinum sínum.  Verður að telja upplýst með játningu ákærða, svo langt sem hún nær, og með því sem vitnið E ber að atburðurinn hafi orðið með þessum hætti, að ákærði hafi fróað sér þarna í augsýn hennar.  Ákærði hefur með þessu athæfi sínu orðið sannur að broti gegn 209. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

           Ákærði kveðst hafa kynhneigð til barna, einkum til þeirra sem komin eru “rétt um kynþroska”.  Hann kveðst hafa í hyggju að leita sér hjálpar sérfræðings til þess að vinna gegn þessari hneigð.  Ákærði hefur ekki gerst sekur um refsilagabrot áður.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Rétt er að fresta því að framkvæma 5 mánuði af refsingu þessari og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

                Ákærði telst hafa gerst sekur um refsiverða meingerð við öll börnin sem í hlut áttu og krafist hafa miskabóta, einnig þau tvö sem ekki sáu allt athæfi hans.  Dæma ber ákærða til þess að greiða þeim miskabætur að álitum ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 12. ágúst 2006 til 29. desember 2006, en eftir það með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags, sem hér segir:

                D, kt. [...], 75.000 krónur,

                F, kt. [...], 75.000 krónur,

                E, kt. [...], 150.000 krónur,

                A, kt [...], 200.000 krónur og

                B. kt. [...], 150.000 krónur.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða 400.000 krónur í málsvarnarlaun til Valgeirs Kristinssonar hrl., 200.000 krónur í réttargæslulaun til Helgu Leifsdóttur hdl. og 55.000 krónur í réttargæslulaun til Margrétar Gunnlaugsdóttur hdl.  Málsvarnar- og réttargæslulaunin dæmast með virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað mun ekki hafa leitt af málinu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Hörður Steinar Tómasson, sæti fangelsi í 8 mánuði.  Frestað er því að framkvæma 5 mánuði af refsingu þessari og fellur sá hluti niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.

                Ákærði greiði miskabætur, ásamt almennum vöxtum frá 12. ágúst til 29. desember 2006, en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags, sem hér segir:

                D, kt. [...], 75.000 krónur,

                F, kt. [...], 75.000 krónur,

                E, kt. [...], 150.000 krónur,

                A, kt. [...], 200.000 krónur og

                B,  kt. [...], 150.000 krónur.

                Ákærði greiði 400.000 krónur í málsvarnarlaun til Valgeirs Kristinssonar hrl., 200.000 krónur í réttargæslulaun til Helgu Leifsdóttur hdl. og 55.000 krónur í réttargæslulaun til Margrétar Gunnlaugsdóttur hdl.