Hæstiréttur íslands
Mál nr. 348/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Rannsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2017, þar sem sóknaraðila var heimiluð leit á heimili varnaraðila að [...] og í bifreiðinni [...]. Þá var sóknaraðila heimiluð rannsókn á efnisinnihaldi nánar tilgreinds snjallsíma í eigu varnaraðila. Kæruheimild er í g. og h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst frávísunar málsins hvað varðar leit á heimili varnaraðila og í fyrrgreindri bifreið, en að öðru leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Að gengnum hinum kærða úrskurði fór fram leit í umræddri bifreið og á heimili varnaraðila. Samkvæmt því er ljóst að athöfn að þessu leyti hefur þegar farið fram. Verður þeim þætti málsins því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.
Að því er varðar kröfu sóknaraðila um rannsókn á snjallsímanum eru aðstæður sambærilegar þeim er ákvæði 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim verður krafa sóknaraðila um rannsókn á efnisinnihaldi símans tekin til greina, enda varðar hún brot sem fangelsisrefsing liggur við.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Suðurnesjum, um leit í bifreiðinni [...] og á heimili varnaraðila, X, að [...].
Lögreglu er heimilt að rannsaka efnisinnihald [...] snjallsíma varnaraðila með raðnúmerinu [...].
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 2. júní 2017
Með beiðni, dags. 2. júní 2017, hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness veiti lögreglustjóranum á Suðurnesjum heimild til húsleitar á heimili X, kt. [...],[...], í því skyni að hafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Heimildin nái til leitar í læstum hirslum svo og í raftækjum, svo sem tölvum, símum og öðrum rafrænum gagnavörslumunum, sem þar er að finna. Þá er þess krafist að lögreglu verði heimiluð leit í bifreiðinni [...] sem haldlögð hefur verið og X, kt. [...] er skráður eigandi að. Enn fremur er þess krafist að lögreglu verði heimiluð rannsókn á efnisinnihaldi [...] snjallsíma raðnúmerið [...].
Varnaraðili krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.
I
Í greinargerð lögreglustjórans segir að síðastliðna nótt hafi lögregla ætlað að hafa afskipti af kærða X er hann hafi ekið bifreiðinni [...] austur Reykjanesbraut. Hafi kærða verið gefið merki um að stöðva bifreiðina og hann þá verið á vinstri akrein. Bifreiðinni hafi svo verið ekið yfir á hægri akrein og í sama mund hafi lögreglumenn séð að kærði hafi teygt sig yfir í framhurð farþegamegin, skrúfar niður rúðu og hent út þremur pakkningum. Hafi kærði stöðvað bifreiðina skömmu síðar við Grindavíkurveg þar sem hann hafi verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, og um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Á vettvangi hafi lögregla fundið eina pakkningu af þeim þremur sem kærði hafi sést henda úr bifreiðinni og hafi verið um að ræða zip-lock poka með 3-4 minni slíkum pokum sem hafi innihaldið hvítt efni sem lögregla ætli að séu ávana- og fíkniefni. Síðar sömu nótt hafi lögreglan farið aftur á vettvang og þá fundist önnur eins pakkning.
Kærði hafi verið fluttur á lögreglustöð þar sem hann hafi gefið þvagsýni sem hafi sýnt jákvæða svörun um notkun á Metamfetamín og amfetamin (MET og AMP). Bifreiðin hafi jafnframt verið haldlögð og flutt á lögreglustöð. Telji lögregla að í henni sé að finna meira magn af fíkniefnum en mikla kannabislykt hafi verið að finna í bifreiðinni. Jafnframt hafi lögregla haldlagt farsíma þann er kærði hafði meðferðis auk 90 þúsund króna í reiðufé sem lögregla ætlar að séu ávinningur af ólögmætri starfsemi.
Kærði hafi verið í annarlegu ástandi og sökum ástands hafi ekki verið unnt að taka af honum framburðarskýrslu. Vegna þess og áframhaldandi rannsóknar málsins hafi verið tekin ákvörðun um að hann skyldi vistaður í fangageymslu. Kærði hafi verið inntur eftir afstöðu til leitar í bifreiðinni svo og á heimili sínu að [...] og hafi hann ekki samþykkt það. Þá hafi hann neitað að veita lögreglu heimild til að afrita og rannsaka efnisinnihald á þeim farsíma sem hann hafði meðferðis.
II
Um lagarök vísar lögreglustjóri til þess að til rannsóknar séu ætluð brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og telji lögregla fram kominn rökstuddan grun um að kærði standi að sölu- og dreifingu ávana og fíkniefna.
Krafan beinist í fyrsta lagi að því að fengin sé heimild til leitar í bifreið kærða, [...]. Í öðru lagi á lögheimili kærða, [...] þar sem hann dveljist að jafnaði, aukinheldur sem heimiluð verði leit í læstum hirslum tilheyrandi íbúðinni svo og í raftækjum, svo sem tölvum og öðrum rafrænna gagnavörslumuna, sem þar kunnu að finnast. Í þriðja lagi beinist krafan að því að fengin verði heimild til leitar í snjallsíma af gerðinni [...] með raðnúmerið [...].
Lögreglustjóri telur augljósa rannsóknarhagsmuni í húfi til að framkvæma þær ráðstafanir sem krafist sé heimildar til svo unnt sé að afla sönnunargagna um ætluð brot kærða og stöðva frekari dreifingu á ávana- og fíkniefnum. Þannig skipti miklu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fallist verði á kröfuna og að lögreglu gefist færi á að haldleggja ávana- og fíkniefni sem þar kunna að finnast auk þess sem lögregla telji málið þess eðlis að nauðsynlegt sé að sama skapi að leggja hald á og rannsaka raftæki, þ.á.m. tölvur og snjallsíma, sem þar er að finna. Þá telji lögreglustjóri að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist og örðugt sé að beita vægari úrræðum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 svo og 70. gr. laga nr. 88/2008 og 84. gr. sömu laga, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. [...] og [...], er þess krafist að fallist verði á hina umbeðnu kröfu.
III
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið, og að gögnum málsins virtum, þykir vera fyrir hendi rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sekur um brot sem sætt getur ákæru og varðað fangelsisrefsingu að lögum.
Í gögnum málsins kemur fram að bifreiðin [...] er skráð eign annars en sakbornings. Sakborningur var á bifreiðinni í umrætt sinn þegar meint brot var framið og hefur hann neitað lögreglu um að leita í þeirri bifreið. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að bifreiðinni sé að finna muni sem hald skal leggja á. Er því fullnægt skilyrðum 2. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður leit því heimiluð í samræmi við kröfu lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 75. gr. sömu laga.
Af gögnum málsins þykir einnig sýnt fram á að rökstuddur grunur sé um að á heimili sakbornings sé að finna muni sem hald skal leggja á. Er því fullnægt skilyrðum 1. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður leit því heimiluð í samræmi við kröfu lögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 75. gr. sömu laga.
Þá verður jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um heimild til að opna og rannsaka efni og innihald tölva og farsíma sem lagt verður hald á við húsleitina, þ.m.t. tölvupósta og önnur samskipta- og geymsluforrit, og að rannsaka efnisinnihald [...] snjallsíma með raðnúmerið [...], skv. lögjöfnun frá 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Lögreglustjóranum á Suðurnesjum er heimiluð húsleit á heimili X, kt. [...]. Heimildin nær til leitar í læstum hirslum svo og í raftækjum, svo sem tölvum, símum og öðrum rafrænum gagnavörslumunum, sem þar er að finna. Þá er lögreglu heimiluð leit í bifreiðinni [...] og rannsókn á efnisinnihaldi [...].