Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2001
Lykilorð
- Börn
- Ættleiðing
- Stjórnsýsla
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2001. |
|
Nr. 67/2001. |
K og M(Helgi Birgisson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) og X og Y (Jóhannes Karl Sveinsson hrl) |
Börn. Ættleiðing. Stjórnsýsla. Gjafsókn.
M og K voru hinn 18. september 1989 svipt forsjá sona sinna, C sem var 15 mánaða og D sem var 6 ára, og var þeim komið í fóstur hjá X og Y í apríl 1990. Árið 1998 fór eldri drengurinn af heimili fósturforeldranna og flutti til kynforeldra sinna og í kjölfarið sóttu X og Y um leyfi til að ættleiða C, en áður höfðu þau óskað eftir að hann fengi að kenna sig við X í stað K. M og K andmæltu þessum beiðnum, en að fengnum meðmælum barnaverndarnefnda G og R gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út ættleiðingarleyfi til X og Y. M og K kröfðust ógildingar ættleiðingarleyfisins og heimildarinnar til að kenna C við X. Töldu þau leyfið ekki vera í samræmi við þágildandi ættleiðingarlög. Hæstiréttur féllst ekki á það með M og K að veiting ættleiðingarleyfisins hefði verið í andstöðu við lög og hafnaði kröfum þeirra með þeirri athugasemd að allir, sem að málinu hefðu komið væru á einu máli um það að ættleiðing fósturforeldra á drengnum væri honum til gagns og þjónaði best hagsmunum hans meðal annars vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem skapast höfðu vegna heilsufars hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 22. febrúar 2001. Þau krefjast þess, að ógilt verði með dómi ættleiðingarleyfi, útgefið 29. mars 2000 af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, til handa stefndu X og Y til að ættleiða C, kt. [...], svo og heimild sama ráðuneytis, sem veitt var samhliða ættleiðingarleyfinu, til að kenna C til stefnda X. Kröfur áfrýjenda á hendur stefndu X og Y eru þær, að þeim verði gert að þola dóm til ógildingar á ættleiðingarleyfinu og heimildinni til að kenna drenginn til stefnda X. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnda íslenska ríkið krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjenda in solidum fyrir Hæstarétti, en til vara er þess krafist, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.
Stefndu X og Y krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi voru áfrýjendur með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 1989, sem staðfestur var af Barnaverndarráði Íslands í janúar 1990, sviptir forsjá sona sinna, D, sem þá var 6 ára, og C, sem var 15 mánaða. Drengirnir fóru í fóstur til reynslu til stefndu X og Y í apríl 1990 en í varanlegt fóstur frá 12. febrúar 1992. Fóstursamningur samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 var gerður 25. janúar 1994, þar sem fram var tekið, að fósturforeldrar færu með forsjá drengjanna og lögráðamaður þeirra væri stefndi X. Í fóstursamningnum var ákvæði um umgengni á þann veg, að áfrýjendur skyldu hitta syni sína tvisvar á ári, tvo tíma í senn. Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 30. júní 1998 var ákveðið, að umgengni D við kynforeldra sína skyldi vera einu sinni til tvisvar í mánuði en umgengni við C félli niður árið 1998, og var það staðfest í meginatriðum með úrskurði Barnaverndarráðs 3. nóvember sama ár. Um sama leyti fór eldri drengurinn af heimili fósturforeldranna og flutti til kynforeldra sinna. Í desember 1998 sóttu stefndu X og Y um leyfi til að ættleiða C, en áður höfðu þau óskað breytingar á kenninafni hans þannig að hann fengi að kenna sig til fósturföður í stað kynföður. Áfrýjendur andmæltu þessum beiðnum, en að fengnum meðmælum barnaverndarnefnda Garðabæjar og Reykjavíkur gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út ættleiðingarleyfi til stefndu X og Y 29. mars 2000.
II.
Áfrýjendur halda því fram, að ættleiðingarleyfi ráðuneytisins til fósturforeldranna hafi ekki verið í samræmi við þágildandi ættleiðingarlög nr. 15/1978, því að samkvæmt 2. og 3. mgr. 12. gr. laganna hefði barnaverndarnefnd Reykjavíkur átt að standa að beiðni um leyfi til ættleiðingar og leyfið hefði ekki mátt veita nema að fengnum meðmælum og með samþykki barnaverndarráðs.
Í 2. og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1978 er fjallað um nauðsyn þess, að barnaverndarráð fjalli um mál, þegar ekki fæst samþykki til ættleiðingar samkvæmt 7. og 10. gr. laganna. Eins og að framan getur var C ekki í umsjá barnaverndarnefndar heldur fóru stefndu X og Y með forsjá drengsins. Áfrýjendur höfðu verið sviptir forsjánni og voru því ekki lögbærir aðilar til að láta uppi samþykki en einungis þurfti að leita umsagnar þeirra samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna. Barnaverndarnefndir Garðabæjar og Reykjavíkur hafa ljáð ættleiðingunni atbeina sinn. Ný ættleiðingarlög nr. 130/1999 gera ekki ráð fyrir meðmælum barnaverndarráðs og hlutverki ráðsins hefur verið breytt. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir ekki þurfa að taka afstöðu til þess, hvort leita átti álits barnaverndarráðs.
Áfrýjendur halda því einnig fram, að brotinn hafi verið andmælaréttur á þeim við meðferð málsins, þar sem barnaverndarnefnd Garðabæjar hafi eingöngu stuðst við gögn frá fósturforeldrunum og ekki gefið áfrýjendum kost á að tjá sig, áður en hún skilaði umsögn í málinu.
Barnaverndarnefnd Garðabæjar var falið að kanna hagi og aðstæður stefndu X og drengsins með tilliti til ættleiðingarbeiðninnar og gefa ráðuneytinu umsögn sína. Nefndinni var kunnugt um andstöðu áfrýjenda við ættleiðingu og að leitað hafði verið til barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en sú nefnd hafði ráðstafað drengnum til fósturs hjá stefndu. Áfrýjendum var þar gefinn kostur á að koma að sínum athugasemdum. Lögmönnum aðila voru síðan sendar umsagnir beggja nefndanna og ljósrit af greinargerðum starfsmanna þeirra, og sendu þeir athugasemdir sínar til ráðuneytisins. Verður ekki annað séð en að áfrýjendur hafi mátt koma að öllum sínum sjónarmiðum og er ekki fallist á, að andmælaréttur hafi verið brotinn á þeim.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir sjúkdómi þeim, sem C á við að stríða, og vottorðum sálfræðinga og félagsráðgjafa svo og umsögnum barnaverndarnefnda Garðabæjar og Reykjavíkur. Allir, sem að málinu hafa komið, eru á einu máli um það, að ættleiðing fósturforeldra á drengnum sé honum til gagns og þjóni best hagsmunum hans, sbr. 2. gr. laga nr. 15/1978, og að augljóst sé, að drengurinn vilji, að ættleiðing nái fram að ganga.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um annað en málskostnað, en rétt þykir að hann falli niður, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður dæmist svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, íslenska ríkið, X og Y, skulu vera sýkn af kröfum áfrýjenda, K og M.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefndu X og Y fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Jóhannesar Karls Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 21. og 22. september 2000 af K, kt. [ ], og M, kt. [ ], bæði til heimilis að [ ], á hendur íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, X, kt. [ ], og Y, kt. [ ], bæði til heimilis að [ ].
Dómkröfur stefnanda eru þær að ættleiðingarleyfi útgefið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 29. mars 2000 til handa stefndu, X og Y, til að ættleiða C, kt. [ ], verði ógilt með dómi og að heimild ráðuneytisins til handa sömu stefndu til að kenna C til stefnda, X, er veitt var samhliða ættleiðingarleyfi, verði einnig ógilt með dómi. Kröfur á hendur stefndu, X og Y, eru þær að þeim verði gert að þola dóm til ógildingar á ættleiðingarleyfinu sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið gaf út til þeirra. Einnig að þeim verði gert að þola dóm til ógildingar heimildar ráðuneytisins til handa þeim til að kenna C til stefnda, X. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu in solidum samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnendur fengu gjafsókn 6. október 2000.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, eru gerðar þær dómkröfur aðallega að það verði sýknað af öllum kröfum stefnenda og því tildæmdur málskostnaður úr hendi þeirra in solidum að mati réttarins. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndu, X og Y, krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda. Einnig krefjast þau málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Í stefnu kemur fram að stefnendur voru sviptir forsjá tveggja sona sinna, þeirra D og C, með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 1989. Drengirnir fóru í fóstur austur á land en voru þar aðeins í skamman tíma. Á árinu 1990 fóru þeir í fóstur til stefndu, X og Y, fyrst til reynslu en voru síðan í varanlegu fóstri hjá þeim frá 12. febrúar 1992.
Í fóstursamningi, sem gerður var samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og dagsettur er 25. janúar 1994, var kveðið á um umgengni drengjanna við stefnendur. Samkvæmt samningnum skyldi umgengni vera tvisvar á ári, í fyrstu viku júnímánaðar og fyrstu viku í desember í húsakynnum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur í allt að tvær klukkustundir í senn. Með bréfi stefnenda 9. desember 1997 til barnaverndarnefndar Reykjavíkur óskuðu stefnendur eftir aukinni umgengni við drengina. Óskað var eftir frjálsri umgengni við D og að umgengni við C yrði þrisvar á ári, alls sex klukkustundir. Af því tilefni fékk barnaverndarnefndin Ingu Stefánsdóttur sálfræðing til að leggja fyrir C fjölskyldutengslapróf. Hún kannaði einnig "almenna líðan hans og tilfinningar varðandi dvalarstað hans og tengsl við bæði fósturforeldra og kynforeldra hans" eins og fram kemur í greinargerð hennar sem dagsett er 20. apríl 1998. Í niðurstöðum hennar kemur fram að drengurinn virki fremur viðkvæmur og taugaveiklaður. Hann þurfi mikið öryggi og virtist lítið þurfa að bera út af til að hann leitaði í ákveðið taugaveiklunarmynstur. Hann þurfi stöðugleika og óskir hans væru skýrar, hann vilji ekki hitta stefnendur oftar. Mikilvægt sé að halda sem mestri ró í kringum hann. Ekki verði séð að ráðlegt sé "að auka umgengni við kynforeldra". Þau virtust "ekki hafa tilfinningalegt vægi í huga barnsins, mun frekar að þau veki honum óróa". Taldi sálfræðingurinn ráðlegt að umgengni yrði haldið í algeru lágmarki. Í greinargerð félgasráðgjafa Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar frá 12. júní 1998 kemur fram að C hefði verið greindur með sjúkdóminn Tourette-syndrom. Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 30. júní 1998 var ákveðið að umgengni D við stefnendur skyldi vera einu sinni til tvisvar í mánuði eftir nánara samkomulagi við stefndu, X og Y, og skyldi endurskoða ákvörðunina í nóvember 1998. Ákveðið var að umgengni C við stefnendur félli niður á árinu 1998 en þá ákvörðun skyldi endurskoða í apríl 1999. Stefnendur skutu úrskurðinum til Barnaverndarráðs. Með úrskurði ráðsins hinn 3. nóvember 1998 var ákveðið að umgengni D við stefnendur væri tvisvar í mánuði í allt að sex klukkustundir í senn. Ákvæði úrskurðar barnaverndarnefndarinnar um að umgengni C við stefnendur félli niður árið 1998 var staðfest. D flutti frá stefndu til stefnenda um mánaðamótin október/nóvember 1998 og hefur hann þar til nýlega búið hjá þeim. Hann hefur samband við stefndu og C, m.a. með heimsóknum á heimili þeirra.
Þann 5. maí 1998 sóttu stefndu, X og Y, um leyfi dómsmálaráðuneytisins fyrir því að C yrði kenndur til stefnda X. Stefnendum var með bréfi ráðuneytisins 14. maí sama ár gefinn kostur á að tjá sig um umsóknina. Í bréfi lögmanns þeirra frá 28. maí það ár kemur fram að stefnendur væru algjörlega mótfallnir því að kenninafni drengsins yrði breytt. Áður en umsóknin um nafnbreytinguna var afgreidd sóttu stefndu um að ættleiða drenginn og er sú umsókn þeirra dagsett 6. desember 1998 en móttekin í ráðuneytinu 16. desember sama ár. Var þeim veitt leyfi til að ættleiða drenginn þann 29. mars 2000 eftir að lögboðinna umsagna hafði verið leitað. Jafnframt var veitt heimild fyrir því að drengurinn kenndi sig til stefnda X og nefndist C [ ] í samræmi við 3. mgr. 15. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 og 7. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.
Stefnendur voru mótfallin því að leyfi til ættleiðingar yrði veitt og lýstu því yfir þegar dómsmálaráðuneytið leitaði álits þeirra á ættleiðingarbeiðninni. Þau hafa höfðað málið í þeim tilgangi að ættleiðingarleyfið verði fellt úr gildi ásamt leyfinu til breytingar á kenninafni C. Þau telja að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð ættleiðingarbeiðninnar og að lagaskilyrði til að gefa ættleiðingarleyfið út hafi ekki verið fyrir hendi. Falli það úr gildi er af þeirra hálfu talið að af því leiði að leyfi til að kenna drenginn til stefnda, X, falli úr gildi þar sem það hafi verið gefið út á grundvelli ættleiðingarleyfisins.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur lýsa málsatvikum þannig að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi að beiðni stefndu, X og Y, veitt þeim leyfi til að ættleiða barn stefnenda, C, með ættleiðingarleyfi sem stefnendum hafi verið tilkynnt um með bréfi ráðuneytisins dagsettu 29. mars 2000. Af sama tilefni hafi verið heimilað að sonur þeirra yrði kenndur til stefnda og fengi nafnið C.
Ættleiðingarleyfið hafi verið gefið út þrátt fyrir hörð mótmæli stefnenda. Þeim hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn, sem lögð hafi verið fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur, og tjá sig um þau en þeim hafi hins vegar ekki verið gefinn kostur á að mæta fyrir barnaverndarnefnd Garðabæjar, kynna sér framlögð gögn eða koma sjónarmiðum sínum þar að. Stefnendur telja greinargerð barnaverndarnefndar Garðabæjar uppfulla af rangtúlkunum auk þess að bera þess greinilega merki að einungis öðrum aðilanum hafi verið gefinn kostur á að tala máli sínu fyrir nefndinni. Þá hafi nefndin leitað umsagnar Andreu Guðmundsdóttur, fyrrum félagsmálaráðgjafa hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, en stefnendur hafi ítrekað kvartað undan því við barnaverndarnefnd Reykjavíkur að hún hafi verið þeim óvilhöll og dregið taum stefndu. Af þeirri ástæðu hafi stefnendur óskað eftir því að nýr starfsmaður barnaverndarnefndarinnar hefði umsjón með máli þeirra. Nýr félagsráðgjafi hafi komið að málinu í byrjun árs 1998 og hafi stefnendur alltaf átt mjög góð samskipti við hann. Ættleiðingu hafi ekki verið synjað þrátt fyrir þá ágalla sem hafi verið á meðferð málsins fyrir barnaverndarnefndinni. Þá kom fram við munnlegan málflutning sú athugasemd að láðst hafi að afla samþykkis barnaverndarráðs samkvæmt 2. mgr. 12. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978.
Af hálfu stefnenda er enn fremur vísað til þess að við ákvörðun um ættleiðingu fléttist saman ýmis sjónarmið, svo sem meginreglan um að hafa beri að leiðarljósi hag barnsins, reglur sifjaréttar, reglur stjórnsýsluréttar, m.a. um andmælarétt og meðalhóf, réttaröryggisreglur um samþykki, mannréttindareglur o.fl. Grundvallarmannréttindi foreldra og barns að fá að umgangast séu m.a. varin af stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Í 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 komi fram að foreldri, sem svipt hafi verið forsjá barns, hafi rétt og skyldu til samneytis við barn sitt og barnið eigi rétt til umgengni við foreldri sitt. Tilgangur 33. gr. barnaverndarlaga sé að stuðla að því að tengsl barns og kynforeldris verði ekki rofin í ríkara mæli en nauðsynlegt sé. Í 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992, segi að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra eftir því sem unnt sé. Í 3. mgr. 9 gr. samningsins sé tekið fram að aðildarríki skuli virða rétt barns, sem skilið hafi verið frá foreldri sínu, til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við það með reglubundnum hætti enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Stefnendur vísa og til 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þrátt fyrir framangreindar grundvallarreglur hafi barnaverndaryfirvöld áður og nú dómsmálaráðuneytið með ættleiðingarleyfinu gengið svo langt að svipta stefnendur rétti til samneytis við barn sitt. Það hafi verið rökstutt með því að umgengni sé drengnum skaðleg og andstæð hagmunum hans. Hafi m. a. verið skírskotað til þess að drengurinn hafi sjálfur verið andsnúinn umgengni við stefnendur. Sú afstaða kunni að hafa komið fram hjá drengnum en hún hljóti óhjákvæmilega að draga dám af andstöðu stefndu, X og Y, gegn umgengni.
Aldrei hafi farið fram fullnægjandi könnun á því hvort drengurinn hafi lýst afstöðu sinni til samvista við stefnendur eða afstöðu stefndu, X og Y. Stefndu hafi frá upphafi verið mjög andsnúnir umgengni stefnenda við drenginn. Þegar umfjöllun um umgengni hafi verið á viðkvæmu stigi og um það rætt á fundum barnaverndarnefndar að sátt þyrfti að vera um umgengnina hafi stefndu sent dómsmálaráðuneytinu beiðni um breytingu á kenninafni C. Umsókn um ættleiðingu hafi síðan fylgt í kjölfarið.
Í umsókn stefndu um ættleiðingu komi fram að ástæða fyrir henni væri margþætt. Þau hafi nefnt að drengurinn væri orðinn hluti af fjölskyldunni og að ættleiðing myndi tryggja honum fjárhagslegt öryggi í framtíðinni og vernda hann gegn því áreiti sem þau hafi talið að umgengni hans við kynforeldra hafi reynst. Eitt meginmarkmið fósturs sé að fósturbarnið tengdist fósturforeldrunum, þ.e. verði eins og einn af fjölskyldunni. Það virtist hafa tekist í tilviki drengsins og því engin þörf á ættleiðingu til að ná því markmiði. Vilji stefndu tryggja fjárhagslegt öryggi hans í framtíðinni sé þeim það í lófa lagið án ættleiðingar. Þau eigi enga skylduerfingja og geti því með erfðaskrá tryggt að drengurinn erfi þau að hluta eða öllu leyti. Öllum þeim markmiðum, sem stefndu hafi sagst stefna að með ættleiðingu, mætti auðveldlega ná með öðru og vægara móti. Í bókunum og greinargerðum barnaverndarnefndanna tveggja sé mælt með ættleiðingu og það rökstutt með nauðsyn þess að umgengni eigi sér ekki stað vegna hagsmuna drengsins án þess að vikið sé einu orði að því hvernig ná megi þeim markmiðum með öðrum hætti en ættleiðingu. Í bréfi stefndu til barnaverndarnefndar Garðabæjar, dagsettu 26. september 1999, komi fram að þeim markmiðum hafi þegar verið náð, sem þau hafi sagst stefna að með ættleiðingu. Þar segi m.a að eftir að eldri drengurinn hafi sjálfur farið af heimilinu 2. nóvember 1998 hafi heimilisaðstæður hjá þeim breyst algjörlega. Álagið á fjölskylduna hafi stórminnkað en öll vandamálin varðandi eldri drenginn og stefnendur væru úr sögunni. Spennan, sem leitt hafi af því að þau hafi togað stöðugt í drenginn, sé horfin. C hafi ekki þurft að hitta stefnendur í langan tíma og hafi hann róast og dafnað í öllum þroska. Heimilis- og fjölskyldulífið hafi blómstrað eftir vissan sorgartíma eftir að eldri drengurinn fór.
Heimild til ættleiðingar sé örlagarík ákvörðun en hún hafi í för með sér gagnger fjölskylduskipti frá lagalegu og persónulegu sjónarmiði. Tengsl barns við kynforeldra, ættingja og jafnvel alsystkini falli niður. Stefnendur eigi því ekki lengur rétt á neinum samskiptum, upplýsingum eða umgengni við barn sitt. Þá sé fráleitt að ættleiðing geti „styrkt samband bræðranna“, eins og haldið sé fram í greinargerð Andreu Guðmundsdóttur. Þvert á móti hafi ættleiðing í för með sér að skorið sé á öll tengsl alsystkina C. Leyfisveitinguna telja stefnendur brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 enda ekki gætt jafnræðis milli þeirra sem lendi í þeirri stöðu sem stefnendur hafi lent í. Það sé nær einsdæmi að barn, sem hafi verið tekið úr forsjá kynforeldra, sé ráðstafað til fósturforeldra með ættleiðingu án samþykkis kynforeldra. Því er mótmælt að aðstæður í máli þessu séu það sérstakar að leyfisveitingin teljist réttlætanleg. Hjá stefnendum búi nú tvö önnur börn þeirra án þess að við því sé amast.
Þegar C nái 18 ára aldri verði það alfarið mál hans og stefndu, X og Y, hvort ættleiðing fari fram. Í dag hafi drengurinn hvorki þroska né forsendur til að láta í ljós vilja sinn í þessum efnum. Fullyrðingar um að drengurinn hafi látið í ljós vilja sinn til ættleiðingar verði að skoða með hliðsjón af því að langlíklegast sé að afstaða hans taki mið af vilja stefndu. Í bréfi Sigtryggs Jónssonar sálfræðings, dagsettu 30. júní 1999, komi skýrt fram að drengurinn geri sér ekki fulla grein fyrir því hvað ættleiðing þýði. Eðlilegt hafi því verið að bíða með ákvörðun um ættleiðingu þar til drengurinn næði 18 ára aldri, enda verði ekki séð að þurft hafi að vinda bráðan bug að ákvörðun um ættleiðingu.
Heimild til ættleiðingar hafi verið veitt þrátt fyrir að samþykki stefnenda lægi ekki fyrir. Í slíkum tilvikum þurfi að gera ítrustu kröfur um nauðsyn ættleiðingar þar sem um frávik sé að ræða frá mikilvægri grunnreglu. Virtist sem ólögmæt sjónarmið hafi ráðið mestu um niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og hafi helst ráðið henni sú ætlun að vernda tilfinningar stefndu sem eigi örðugt með að sætta sig við að vera ekki raunverulegir foreldrar drengsins. Slík sjónarmið eigi ekki að ráða ferðinni þegar metið er hvað barni sé fyrir bestu enda beinlínis um ólögmæt sjónarmið að ræða. Stefnendur telja rangt að veita heimild til ættleiðingar enda sé það ómanneskjulegt og einkar harkaleg ráðstöfun í garð þeirra. Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli ráðuneytið taka tillit til hagmuna stefnenda og ekki fara strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þar sem ljóst sé að til séu fleiri og vægari úrræði til þess að ná því markmiði, sem stefndu stefni að, hafi ekki komið fram nægileg rök fyrir ættleiðingu og hefði því átt að synja beiðninni.
Samkvæmt ofangreindu hafi ekki verið forsendur fyrir heimild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til handa stefndu, X og Y, til ættleiðingar. Stefnendur vísa til ættleiðingarlaga nr. 15/1978, sem hafi verið í gildi er leyfið var veitt, einkum 7., 10. og 13. gr. þeirra, auk laga um mannanöfn nr. 45/1996, einkum 14. gr. þeirra laga. Einnig vísa stefnendur til 10., 11., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, 7., 8., og 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsing nr. 18/1992, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 1. mgr. 71. gr. og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um málskostnað til 21. kafla sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Af hálfu stefnda íslenska ríkisins er málavöxtum lýst þannig að með umsókn meðstefndu, er móttekin hafi verið í ráðuneytinu hinn 16. desember 1998, hafi þau sótt um heimild til að ættleiða fósturson sinn. Áður hafi ráðuneytinu borist umsókn þeirra hinn 5. maí 1998 um að veitt yrði heimild samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn til að drengurinn yrði kenndur til stefnda X. Sú umsókn hafi enn verið til meðferðar í ráðuneytinu er ættleiðingarumsóknin barst og hafi málið verið látið hvíla að beiðni stefndu en það mál hafi verið fellt niður sama dag og ættleiðingarleyfi var gefið út.
Í bréfi meðstefndu til dómsmálaráðuneytisins frá 15. desember 1998, sem fylgt hafi ættleiðingarumsókninni, komi fram að C og bróðir hans, D, hafi komið í fóstur til stefndu, X og Y, á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur í maí 1990. Varanlegt fóstur þeirra hafi síðan byrjað 12. febrúar 1992. C hafi verið greindur í júní 1998 af Pétri Lúðvíkssyni með Tourette-syndrome. Hann hafi verið sendur í nánari athugun til Ólafs Ó. Guðmundssonar, yfirlæknis barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. Hann hafi staðfest sjúkdómsgreiningu Péturs og talið að ekki ætti að leyfa umgengni stefnenda við drenginn nema tryggt væri að líðan hans versnaði ekki við það en á því gæti tekið langan tíma að ráða bót. Stöðugleiki tilfinningatengsla og umhverfis væri einn mikilvægasti þátturinn hvað varðaði horfur drengsins. Hinn 3. nóvember 1998 hefði Barnaverndarráð, að fenginni umsögn Ólafs, staðfest úrskurð barnaverndarnefndar frá 30. júní 1998 um að best væri fyrir drenginn að umgengni félli niður og að sú ákvörðun yrði endurskoðuð í apríl 1999. Í framangreindu bréfi meðstefndu sé tekið fram að öll umgengni við stefnendur hafi valdið drengnum vanlíðan, óöryggi og hræðslu undanfarin ár og hefðu stefndu miklar áhyggjur af að sjúkdómur hans versnaði við það gífurlega tilfinningaálag sem hver umgengni ylli. Afstaða drengsins komi fram í tengslaprófi hjá Ingu Stefánsdóttur sálfræðingi og einnig ítrekað í skýrslu hjá sálfræðingi Barnaverndarráðs, Sigurgísla Skúlasyni, að drengurinn vildi ekki hitta stefnendur. Í bréfi meðstefndu komi fram að drengurinn hafi eindregið óskað eftir því að verða ættleiddur. Ættleiðingin myndi styrkja stöðu hans og gefa honum meira öryggi í framtíðinni. Það öryggi myndi hafa jákvæð áhrif á þróun sjúkdóms hans og á allan hans alhliða þroska. Þegar D hafi flutt fyrirvaralaust til kynforeldra 2. nóvember 1998 hafi C orðið óöruggur um stöðu sína og hafi stefndu talið að best væri fyrir hann að verða ættleiddur af þeim sem fyrst til að hann fengi staðfestingu um stöðu sína í framtíðinni. Ráðuneytið hafi kynnt stefnendum fram komna beiðni um ættleiðingu 4. janúar 1999 og með bréfi 27. janúar 1999 hafi stefnendur lýst sig algjörlega mótfallna ættleiðingu.
Með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 9. mars 1999, til lögmanns meðstefndu hafi andstaða stefnenda til ættleiðingar drengsins verið kynnt. Í bréfinu hafi og verið tekið fram að væri foreldri barns andvígt ættleiðingu þess væri það meginregla í ráðuneytinu að heimila ekki ættleiðingu fyrr en barnið hefði náð sjálfræðisaldri og óskaði sjálft eftir ættleiðingu. Heimilt væri að víkja frá þessu skilyrði ef hagur barns mælti eindregið með því og fyrir hendi væru sérstakar ástæður sem þættu leiða til þess að ættleiðing yrði heimiluð áður en framangreindu tímamarki væri náð. Af því tilefni hafi þess verið farið á leit að gerð yrði grein fyrir því hvort stefndu hygðust halda umsókn sinni um ættleiðingu til streitu gegn vilja stefnenda og, ef svo væri, væri þess óskað að þau rökstyddu hana frekar. Umsóknin hafi verið ítrekuð með bréfi lögmanns meðstefndu dagsettu 6. apríl 1999.
Málið hafi verið sent barnaverndarnefndum Garðabæjar og Reykjavíkur með bréfum ráðuneytisins hinn 21. maí 1999. Þess hafi verið farið á leit að barnaverndarnefnd Garðabæjar kannaði hagi og aðstæður stefndu og barnsins með tilliti til ættleiðingarbeiðninnar og gæfi ráðuneytinu umsögn sína þar að lútandi, sbr. 8. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978. Í bréfi til barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi þess verið farið á leit að nefndin veitti ráðuneytinu upplýsingar um aðdraganda þess að stefndu tóku barnið í fóstur, ásamt upplýsingum um hvernig tekist hafi til með fóstur þess. Einnig hafi verið óskað umsagnar um ættleiðingarumsókn stefndu með hliðsjón af þeim kynnum sem nefndin hafi haft af barninu og stefndu.
Barnaverndarnefnd Garðabæjar hafi falið starfsmanni sínum að kanna hagi umsækjenda, sbr. 2. gr. ættleiðingarlaga, og hafi hún skilað sérstakri greinargerð um málið 27. september 1999. Í niðurlagi greinargerðarinnar komi fram að fyrir liggi að stefnendur væru á móti ættleiðingu. Meginreglan sé sú að stuðla að umgengni barna við kynforeldra sína og það hafi verið reynt eftir fremsta megni í þessu máli. Hins vegar bentu ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að fella niður umgengni í þeim tilgangi að vernda heilsu drengsins og umsagnir sérfræðinga til þess að full ástæða hafi verið til að víkja frá umræddri reglu. Að vel athuguðu máli verði að telja að meginsjónarmið stefndu, X og Y, væru að vernda C og ekkert væri því til fyrirstöðu að hann verði ættleiddur af þeim. Á fundi barnaverndarnefndarinnar hinn 28. september 1999 hafi verið samþykkt að mæla með því við ráðuneytið að meðstefndu yrði heimilað að ættleiða fósturson sinn á grundvelli þeirrar könnunar sem fram hafði farið.
Umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi borist ráðuneytinu hinn 25. október 1999. Vísað er til þess sem fram komi í samantekt og niðurstöðum greinargerðar Racel Eiríksson félagsráðgjafa frá 21. september 1999, er lögð hafi verið fyrir fund barnaverndarnefndarinnar þann 5. október 1999. Þar segi að um sé að ræða 11 ára gamlan dreng sem hð er til þess sem fram komi í samantekt og niðurstöðum greinargerðar Racel Eiríksson félagsráðgjafa frá 21. september 1999, er lögð hafi verið fyrir fund barnaverndarnefndarinnar þann 5. október 1999. Þar segiafi verið í fóstri frá júlí 1990. Drengurinn krefjist mikillar umönnunar og hafi stefndu sinnt þörfum hans mjög vel. Hann hafi ætíð verið mjög óöruggur og hafi stefndu gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til þess að veita honum stöðugleika og öryggi. Stefnendur hafi alla tíð verið ósáttir við fósturráðstöfunina. Hafi reynst erfitt að ná sáttum um umgengni þeirra við drenginn og hafi málið ítrekað verið lagt fyrir fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur vegna þess. Drengurinn hafi ávallt átt í miklum erfiðleikum með að ráða við umgengni við stefnendur og hafi sálfræðiathuganir og viðtöl leitt í ljós að hann vilji ekkert með stefnendur hafa. Hann hafi sýnt mikla vanlíðan í kringum umgengni og verið lengi að ná fyrri ró eftir hana. Drengurinn hafi greinst með Tourette-heilkenni og að mati læknis sé stöðugleiki tilfinningatengsla og umhverfis einn mikilvægasti þáttur hvað varðaði batahorfur drengsins. Drengurinn hafi látið í ljós vilja sinn til ættleiðingar enda væru tengsl hans við stefndu sterk og góð og þau einu foreldrarnir sem hann þekkti. Í ljósi þess að öll samskipti drengsins við kynforeldra væru honum um megn og stofni stöðugleika hans og öryggistilfinningu í hættu var lagt til að barnaverndarnefnd Reykjavíkur mælti með ættleiðingu. Á fundi barnaverndarnefndar þann 5. október hafi Ásta Kristín Benediktsdóttir, talsmaður C, gert grein fyrir viðhorfi drengsins til ættleiðingarinnar. Málinu hafi síðan verið frestað um eina viku að beiðni lögmanns stefnenda til að skila greinargerð og hafi hún legið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 12. október 1999. Í bókun nefndarinnar þann dag sé m.a. tekið fram að drengurinn hafi ætíð verið óöruggur og þarfnist mikillar umönnunar. Hafi stefndu lagt sig fram við að veita honum stöðugleika og öryggi og sinnt umönnun hans afar vel. Umgengni drengsins við stefnendur hafi valdið honum miklum erfiðleikum, hann hafi sýnt mikla vanlíðan í tengslum við hana og verið lengi að ná fyrra jafnvægi eftir umgengni. Sálfræðiathuganir og viðtöl hafi leitt í ljós að drengurinn vilji ekki umgangast stefnendur. Í bréf lögmanns stefnenda, dagsettu 11. október 1999, komi fram að þeir væru andvígir því að umbeðin ættleiðing næði fram að ganga. Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík, hafi rætt við drenginn um afstöðu hans til ættleiðingarbeiðninnar eins og fram komi í bréfi hans frá 30. júní 1999. Að hans mati hafi skýr vilji drengsins komið fram um að ættleiðingin næði fram að ganga. Með hliðsjón af því og með vísan til greinargerðar starfsmanns nefndarinnar ásamt fylgiskjölum hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur mælt með því að drengurinn yrði ættleiddur af stefndu og hafi nefndin talið þá ráðstöfun þjóna hagsmunum hans best þrátt fyrir að ekki fengist samþykki stefnenda.
Umsagnir nefndanna ásamt ljósritum greinargerða starfsmanna þeirra hafi verið sendar lögmönnum aðila með bréfum ráðuneytisins, dagsettum 18. nóvember 1999. Með bréfi lögmanns stefnenda, dagsettu 8. desember 1999, hafi þess verið krafist að synjað yrði um ættleiðingu. Með bréfi lögmanns stefndu, X og Y, dagsettu sama dag, hafi þess verið krafist að ættleiðing næði fram að ganga og gerð hafi verið nánari grein fyrir þeim sjónarmiðum meðstefndu að hagsmunum barnsins yrði betur borgið ef ættleiðing yrði heimiluð. Hinn 29. mars 2000 hafi dómsmálaráðherra ákveðið að veita meðstefndu leyfi til að ættleiða fósturson sinn og heimila að hann yrði kenndur til stefnda X. Ákvörðun ráðuneytisins hafi verið rökstudd í bréfi til stefnenda sama dag og þar rakin sjónarmiðin sem hafi legið til grundvallar úrlausn málsins.
Við úrlausn ráðuneytisins hafi verið farið í hvívetna að lögum og niðurstaða þess hafi ekki verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum. Úrlausnin hafi farið eftir ákvæðum ættleiðingarlaga nr. 15/1978. Samkvæmt l. gr. laganna veiti dómsmálaráðherra leyfi til ættleiðingar og í 2. gr. þeirra sé það skilyrði sett fyrir ættleiðingu að sýnt þyki að ættleiðing verði barninu til gagns. Sérstök áhersla væri lögð á það í lögum að ákvörðun er varði barn sé ávallt tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og að teknu tilliti til vilja og viðhorfa barnsins sem ákvörðunina varðar í samræmi við aldur þess og þroska, sbr. meðal annars 1. mgr. 3. gr. og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Samkvæmt ættleiðingarlögum nr. 15/1978 sé það ekki skilyrði fyrir ættleiðingu að kynforeldri, sem ekki fari með forsjá barns, samþykki hana. Forsjárlausir foreldrar falli ekki undir 7. gr. en ráðuneytinu beri að leita umsagnar þeirra, sbr. 8. gr. Stefnendur hafi báðir verið sviptir forsjá barns síns og í samræmi við 8. gr. hafi ráðuneytið leitað eftir umsögn þeirra beggja.
Ráðuneytið hafi látið fara fram ítarlega könnun á högum og aðstæðum umsækjenda, sbr. 2. gr. laganna, og aflað umsagna barnaverndarnefnda Garðabæjar og Reykjavíkur, sbr. lokamálslið 1. mgr. 8. gr. þeirra. Ítarlegar upplýsingar um hagi stefndu og kjörbarns hafi því legið fyrir er ráðuneytið tók málið til afgreiðslu. Stefndu hafi farið með forsjá barnsins og uppfyllt skilyrði 2. gr. er lutu að högum og hæfni til að takast á við uppeldishlutverk og ættleiðingu. Þau hafi haft barnið í fóstri frá 1990 og það hafi verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá árinu 1992.
Enginn ágalli hafi verið á málsmeðferð hjá barnaverndarnefnd Garðabæjar sem hafi verið kunnugt um andstöðu stefnenda við ættleiðingu. Ekki hafi verið skylt að veita stefnendum, sem umsagnaraðilum um ættleiðingarbeiðnina, kost á að tjá sig við þá könnun á högum stefndu er fram hafi farið þar eða fyrir nefndinni áður en hún veitti ráðuneytinu umsögn. Ráðuneytið hafi kynnt stefnendum umsögn nefndarinnar ásamt greinargerð og gögnum og hafi gefið þeim kost á að koma sjónarmiðum sínum og andmælum að við ráðuneytið sem þau hafi gert. Á engu stigi hafi stefnendur dregið í efa aðstæður og hæfni meðstefndu sem kjörforeldra. Barnaverndarnefndir Garðabæjar og Reykjavíkur hafi mælt með ættleiðingu og hafi meðmælin verið vandlega undirbúin og studd skýrslum sérfræðinga.
Er stefnendur voru sviptir forsjá sona sinna tveggja hinn 18. september 1989 hafi C verið rúmlega eins árs gamall en bróðir hans sjö ára. Hafi C komið í reynslufóstur til stefndu er hann var tveggja ára gamall hinn 6. júlí 1990. Frá því fósturráðstöfun var komið á hafi bræðurnir haft umgengni við stefnendur tvisvar á ári, allt að tvær klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndar. Umgengnin hafi verið erfið frá fyrstu tíð og tilraunir starfsmanna í þá átt að auðvelda tilhögun hennar ekki borið tilætlaðan árangur. Umgengnin hafi alla tíð verið C erfið. Hann hafi sýnt vanlíðunareinkenni á eftir og verið lengi að ná fyrri ró. Í kjölfar óska stefnenda í bréfi 9. desember 1997 um breytta og aukna umgengni hafi Inga Stefánsdóttir sálfræðingur verið fengin til að leggja sálfræðipróf fyrir drenginn. Í prófinu hafi komið fram að drengurinn virkaði fremur viðkvæmur og taugaveiklaður. Óskir hans hafi verið skýrar, hann hafi ekki viljað hitta stefnendur oftar. Sálfræðingurinn hafi talið mikilvægt að halda sem mestri ró í kringum drenginn. Stefnendur virtust ekki hafa tilfinningalegt vægi í huga drengsins, mun frekar að þeir vektu honum óróa. Því hafi sálfræðingurinn talið ráðlegt að umgengni væri haldið í algjöru lágmarki. Í greinargerð sálfræðingsins frá 8. júní 1998 til barnaverndarnefndar varðandi þol drengsins gagnvart samskiptum við stefnendur væru fyrri ábendingar um viðkvæmni drengsins og taugaveiklun áréttaðar. Hann hefði mjög lítið þol gagnvart öllum breytingum og óöryggi. Þau einkenni væru enn til staðar sem hafi sýnt sig ágerast undir álagi. Hann fari mjög auðveldlega úr jafnvægi, hefði lítið þol fyrir óöryggi og utanaðkomandi áreiti og brygðist illa við öllum breytingum. Nú væri komið í ljós að hann væri með Tourette-sjúkdóm. Ljóst væri að drengurinn þyrfti að hafa stöðugleika í kringum sig og reynslan hafi sýnt að þegar hann hafi hitt stefnendur hafi hann farið úr jafnvægi og verið lengi að ná fyrri ró. Þessi óróleiki hafi ágerst eftir því sem drengurinn hafi orðið eldri. Hann hafi sjálfur orðað vanlíðan sína og að hann vildi ekki hitta stefnendur. Hafi sálfræðingurinn talið óráðlegt að ógna frekar öryggi drengsins. Hann þarfnaðist kyrrðar og reglufestu sem hann fái hjá stefndu. Hann sé mjög vel tengdur þeim og treysti á þau í hvívetna.
Í vottorði Ólafs Ó. Guðmundssonar, yfirlæknis á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, frá 5. október 1998 komi fram að erfiðleikar C gerðu það að verkum að hann þyrfti viðvarandi stuðning í skóla og stöðugleika í fjölskylduumhverfi. Hann hafi myndað góð en viðkvæm tengsl við stefndu. Hins vegar væri ljóst að hann hafi átt mjög erfitt með að bregðast við umgengni við stefnendur og verið í miklu uppnámi eftir þau tímabil. Hafi læknirinn talið að ekki ætti að leyfa umgengni stefnenda við drenginn, nema tryggt væri að aðstæður þeirra væru með þeim hætti að líðan hans versnaði ekki sem langan tíma gæti tekið að ráða bóta á. Væri stöðugleiki tilfinningatengsla og umhverfis einn mikilvægasti þátturinn hvað varðaði horfur drengsins.
Síðari viðtöl og rannsóknir sérfræðinga við undirbúning endurskoðunar á umgengnisrétti fyrir árið 1999 hafi staðfest öryggisleysi drengsins og hversu viðkvæmur hann hafi verið fyrir sérhverri röskun á daglegu lífi. Í sálfræðilegri athugun Sigtryggs Jónssonar frá 1. júní 1999 komi fram að eftir að umgengni var felld niður hefði drengnum greinilega farið fram. Stöðugleikinn hafi hjálpað honum en stutt væri í óöryggið þar sem í framhaldi af því að þeir hittust vegna athugunarinnar hafi farið að bera á kækjum og stellingum á ný. Sömu viðbrögð hafi skipaður talsmaður hans orðið var við.
Skýrslur sálfræðinga og læknis hafi eindregið hnigið á þann veg að drengurinn væri mjög tengdur stefndu og að hann hafnaði stefnendum og tengslum við þau. Drengurinn hafi ætíð verið óöruggur og þarfnaðist mikillar umönnunar en stefndu hafi lagt sig fram við að veita honum stöðugleika og öryggi og þau hafi sinnt umönnun hans vel. Umgengni drengsins við stefnendur hafi valdið honum miklum erfiðleikum en hann hafi sýnt mikla vanlíðan í tengslum við hana og verið lengi að ná fyrra jafnvægi eftir umgengni. Sálfræðiathuganir og viðtöl hafi leitt í ljós að drengurinn hafi ekki viljað umgangast stefnendur. Honum hafi staðið ógn af því öryggisleysi, er fylgt hafi því að tilheyra tveimur fjölskyldum, og hann hafi ekki ráðið við aðstæður er því fylgdu en vegna veiklunar hans hafi hann verið sérstaklega viðkvæmur hvað varðaði uppeldisaðstæður og horfur á að ná þroska og bata. Öll samskipti drengsins við stefnendur væru honum um megn og þau stofnuðu stöðugleika hans og öryggistilfinningu í hættu. Af hans hálfu hafi komið fram eindreginn vilji til að ættleiðingin næði fram að ganga sem ekki væri ástæða til að draga í efa enda tengsl hans við stefndu sterk og góð og þau einu foreldrarnir sem hann þekkti.
Sú staðhæfing stefnenda fái ekki staðist að ekki hafi farið fram fullnægjandi könnun á afstöðu drengsins til samvista við stefnendur eða á vilja hans til ættleiðingar. Ítrekað hafi verið gengið úr skugga um afstöðu drengsins með rannsóknum og viðtölum sérfræðinga og er í því sambandi vísað til greinargerða Ingu Stefánsdóttur sálfræðings frá 20. apríl 1998 og 8. júní 1998, skýrslu Sigurgísla Skúlasonar, sálfræðings Barnaverndarráðs, frá 21. september 1998, vottorðs Ólafs Ó. Guðmundssonar yfirlæknis frá 5. október 1998, skýrslu Sigtryggs Jónssonar sálfræðings frá 1. júní 1999, um sálfræðilega athugun á drengnum til að kanna réttmæti umgengni hans við stefnendur, og upplýsinga skipaðs talsmanns hans Ástu Kristínar Benediktsdóttur.
Í skýrslu Sigtryggs Jónssonar sálfræðings, er rætt hafi við drenginn hinn 30. júní 1999 til að leita eftir afstöðu hans til ættleiðingarinnar, komi fram að þótt drengurinn gerði sér ekki fulla grein fyrir því hvað ættleiðing þýddi hafi honum verið ljóst að við ættleiðingu yrðu stefndu einu foreldrar hans, hann þyrfti ekki að velta því fyrir sér hvort hann þyrfti að hitta stefnendur, hann myndi erfa stefndu og að ættleiðing gengi ekki til baka eins og fóstur gæti gert. Taldi sálfræðingurinn augljóst af því hvernig drengurinn talaði að hann vildi að þessi ættleiðing næði fram að ganga og hafi hann svarað spurningum um það mjög ákveðið játandi. Ekki væri ástæða til að efast um vilja drengsins.
Ættleiðingin hafi hvorki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, þótt hún væri í andstöðu við vilja stefnenda, né hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu. Sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi vegna heilsufars barnsins og forsendna um batahorfur er gert hafi að verkum að það barnaverndarúrræði, sem felist í varanlegu fóstri, jafnvel að gættum heimildum barnaverndarnefnda til að takmarka eða banna umgengni kynforeldra, sbr. 3. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, hafi ekki getað veitt drengnum þá tryggingu um stöðugleika tilfinningatengsla og umhverfis sem hafi verið einn mikilvægasti þátturinn varðandi framfarir og batahorfur hans. Þótt heilbrigð börn ráði við bið með ættleiðingu fram að 18 ára aldri þannig að ekki þurfi að koma til ættleiðingar í andstöðu við kynforeldra, hafi það ekki átt við um drenginn.
Ættleiðing og fjölskylduskiptin er henni fylgdu stefndu að því marki að búa barni vandað og traust uppeldisumhverfi og væri mikilvægt úrræði til að efla hag barna og tengja þau traustum böndum við fósturforeldra. Gögn málsins hafi borið skýrlega með sér að drengurinn hafi ráðið illa við að tilheyra tveimur fjölskyldum og sú óvissa er því hafi fylgt fyrir hann hafi ógnað heilsu hans. Stöðugleiki tilfinningatengsla og umhverfis hafi verið einn mikilvægasti þátturinn hvað varðaði batahorfur hans. Hagsmunir hans og þarfir hafi því staðið til þess að fjölskyldubönd hans við stefndu yrðu treyst og horfur hans til framtíðar. Bið með ættleiðingu þar til hann yrði sjálfráða hafi gengið gegn þörfum og högum hans.
Að öllum gögnum málsins vandlega virtum, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, en jafnframt að teknu tilliti til sjónarmiða málsaðila, hafi það verið mat ráðuneytisins að ættleiðing væri barninu fyrir bestu, sbr. 2. gr. ættleiðingarlaga, meðal annars vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hefðu vegna heilsufars barnsins og með hliðsjón af aldri þess og því sem fram hefði komið um eindreginn vilja barnsins sjálfs til að verða ættleitt af fósturforeldrum sínum. Ákvörðun um veitingu ættleiðingarleyfis hafi í hvívetna verið reist á lögmætum sjónarmiðum og engir annmarkar hafi verið á meðferð málsins í ráðuneytinu er leitt geti að lögum til þess að ættleiðingarleyfið verði metið ógilt.
Málsástæður og lagarök stefndu X og Y
Sýknukrafa þeirra er rökstudd þannig að við útgáfu ættleiðingarleyfis hafi í hvívetna verið farið að lögum. Leyfið hafi verið gefið út á grundvelli 1. og 2. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 eftir lögbundna könnun á málefnum þeirra og barnsins, sem leitt hafi til þess að sýnt hafi þótt að ættleiðing yrði barninu til gagns. Áður en ákvörðun um leyfi til ættleiðingar var tekin hafi verið aflað umsagnar stefnenda um ættleiðinguna svo og lögbundinna umsagna hlutaðeigandi barnaverndarnefnda.
Það sé ekki á valdi dómstóla að endurskoða efnislega þá ákvörðun, sem tekin hafi verið, enda byggi hún á frjálsu mati en öllum formreglum hafi verið fylgt við meðferð málsins. Viðkomandi stjórnvöld, ákvörðunaraðili jafnt sem umsagnaraðilar, hafi verið skipuð tilþess hæfum og bærum einstaklingum, sem séu sérfróðir á sviði ættleiðinga.
Stefnendur haldi því fram að þeir hafi ekki fengið að tala máli sínu fyrir barnaverndarnefnd Garðabæjar sem hafi verið umsagnaraðili í þágu meðferðar ættleiðingarmálsins hjá ráðuneytinu. Stefnendur hafi eðli málsins samkvæmt ekki notið eiginlegrar aðilastöðu heldur stöðu umsagnaraðila og eigi því ekki lögvarða kröfu á því að koma fram andmælum sínum hjá öðrum umsagnaraðila.
Verði litið svo á að stefnendur hafi notið aðilastöðu í umræddu ættleiðingarmáli fyrir ráðuneytinu verði að líta til þess að samkvæmt bréfi ráðuneytisins, dagsettu 21. maí 1999, hafi þess verið farið á leit við barnaverndarnefnd Garðabæjar í samræmi við 8. gr., sbr. 2. gr. ættleiðingarlaga, að hún kannaði hagi og aðstæður stefndu og barnsins með tilliti til fyrirliggjandi ættleiðingarbeiðni og gæfi ráðuneytinu umsögn sína þar að lútandi. Stefnendur hafi ekki átt lögvarinn rétt til að koma að sérstökum andmælum vegna umsagnar nefndarinnar, einkum vegna þess að umsögnin hafi lotið að atriðum er hafi varðað hagi og aðstæður stefndu og því engin rök fyrir því að veita stefnendum færi á því að tjá sig um þau atriði.
Rangt sé að brotið hafi verið gegn lögbundnum andmælarétti stefnenda við meðferð ættleiðingarmálsins. Eftir afstöðu þeirra hafi verið leitað og þeim veittur aðgangur að öllum gögnum og umsögnum sem málið snertu. Afstaða stefnenda hafi legið fyrir og hafi hún verið vegin og metin við ákvörðun dómsmálaráðuneytisins.
Tilvísun stefnenda til 33. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sem fjalli um umgengni barns í fóstri við kynforeldra, er mótmælt enda sé óglöggt hvaða erindi hún eigi í þennan málarekstur sem fjalli um ættleiðingu. Ákvæði 7. gr. og 3. mgr. 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992, sæti takmörkun af réttarúrræðinu ættleiðingu sem viðurkennt sé í sáttmálanum. Í 21. gr. hans sé tekið fram að aðildarríki sem leyfi ættleiðingu skuli tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni sé fyrir bestu. Ættleiðingarlög nr. 15/1978 uppfylli efnislegan áskilnað 21. gr. samningsins og verði því að skýra önnur ákvæði hans til samræmis við ættleiðingarlög. Eðli málsins samkvæmt feli ættleiðing það í sér að umönnunar kynforeldra verði ekki notið lengur við og tengslaslit á milli hins ættleidda og kynforeldra séu í sjálfu sér markmið ættleiðingar. Liggi þar að auki fyrir í málinu að engin jákvæð tengsl hafi verið á milli barnsins og stefnenda. Ákvæði sáttmálans eigi því ekki við í málinu.
Þeirri málsástæðu stefnenda er alfarið mótmælt að útgáfa umrædds ættleiðingarleyfis án samþykkis stefnenda brjóti gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og l. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og að með útgáfu leyfisins hafi verið brotinn réttur þeirra til fjölskyldulífs. Líta bæri til þeirra jákvæðu áhrifa, sem ætlað væri að ná fram með ættleiðingunni, og metið væri hvort þau vægju þyngra en hin neikvæðu áhrif ættleiðingar á samband kynforeldris og barns.
Því er einnig mómælt að meðalhófsreglan sem stefnendur vísi til geti staðið í vegi fyrir ættleiðingu eða leiði til þess að ákvörðun ráðuneytisins um veitingu leyfis til ættleiðingar verði ógilt með dómi þegar skilyrði ættleiðingar samkvæmt ættleiðingarlögum séu á annað borð talin vera fyrir hendi. Markmið ættleiðingar sé eðli málsins samkvæmt fjölskylduskipti. Með henni öðlist kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum og ættmennum þeirra eins og það væri skilgetið barn kjörforeldra og lagatengsl milli kjörbarns og kynforeldra þess rofni. Með ættleiðingarlögum sé markaður sá lagarammi, sem um ættleiðingar gildi hér á landi, og þar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir ættleiðingu og hvernig meðferð ættleiðingarmáls skuli háttað. Hið lögmælta markmið í málinu sé ættleiðing ásamt þeim réttaráhrifum sem henni fylgi. Meðalhófsreglan taki ekki til lagareglna sem slíkra heldur taki hún til mats á leiðum sem unnt sé að fara að hinu lögmælta markmiði sem stjórnvald stefni að með tiltekinni ákvörðun. Löggjafinn hafi þegar tekið afstöðu til réttarúrræðisins ættleiðingar og viðurkennt það með setningu laga nr. 15/1978, sbr. nú lög nr. 130/1999. Ættleiðingarlöggjöfin sé í samræmi við þær skuldbindingar íslenska ríkisins að þjóðarrétti sem hér skipti máli, þ.e. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Mannréttindasáttmála Evrópu. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar geti því ekki staðið í vegi fyrir ættleiðingu eða valdið ógildi hennar.
Efnisleg skilyrði ættleiðingar samkvæmt þágildandi ættleiðingarlögum hafi verið þau ein að sýnt þætti eftir könnun á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra er óskuðu ættleiðingar að ættleiðing sé barninu til gagns. Að auki þurfi barn að hafa verið alið upp hjá þeim er óski ættleiðingar eða að ætlun ættleiðenda sé að ala barnið upp. Í þessu máli hafi hið ættleidda barn verið í fóstri hjá stefndu frá 6. júlí 1990, þegar það hafi verið tveggja ára gamalt. Stefndu hafi jafnframt farið með forsjá barnsins. Stefndu hafi þannig alið barnið upp í skilningi 2. gr. þágildandi ættleiðingarlaga og ljóst sé að ætlun stefndu sé að halda því uppeldi áfram. Ráðuneytið hafi lagt mat á það, eftir að lögmæltra umsagna og annarra nauðsynlegra gagna hafi verið aflað, hvort efnisleg skilyrði fyrir ættleiðingu væru fyrir hendi. Í málinu liggi fyrir greinargerð félagsráðgjafa, sem hafi verið lögð fyrir barnaverndarnefnd Garðabæjar 28. september 1999, og hafi nefndin mælt með því að drengurinn yrði ættleiddur af stefndu. Einnig liggi fyrir lögboðin umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sem samþykkt hafi verið samhljóða á fundi nefndarinnar 12. október 1999, en nefndin hafi mælt með því að drengurinn yrði ættleiddur af stefndu. Þá liggi fyrir lögboðin umsögn stefnenda í bréfi dagsettu 27. janúar 1999, þar sem þau lýsi sig mótfallin ættleiðingunni. Umsagnir beggja barnaverndarnefnda hafi verið kynntar stefnendum sem hafi enn á ný mótmælt ættleiðingunni með bréfi dagsettu 8. desember 1999. Í samræmi við meginreglur í barnarétti, sbr. m.a. l. mgr. 3. gr. og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, hafi verið gerð könnun á afstöðu hins ættleidda barns til ættleiðingarinnar, m.a. með skipun sérstaks talsmanns. Sú könnun hafi leitt í ljós að vilji barnsins hafi staðið til þess að stefndu fengju leyfi til ættleiðingar. Könnunin hafi þó farið fram án beinnar lagaskyldu, sbr. 6. gr. eldri ættleiðingarlaga og l. mgr. 6. gr. nýrri laga.
Það sé ráðuneytisins að ákveða hvort vikið sé frá verklagsreglunni um að heimila ekki ættleiðingu í andstöðu við kynforeldra fyrr en barn hafi náð 12 ára aldri og óski sjálft eindregið eftir að ættleiðing fari fram en sú regla gangi framar laganauðsyn. Reglan eigi ekki við mæli hagur barns eindregið með ættleiðingu þrátt fyrir andstöðu kynforeldra. Aðstæður í umræddu ættleiðingarmáli hafi verið sérstaks eðlis. Hið ættleidda barn hafi verið greint með Tourette-heilkenni sem m.a. valdi því að það hafi sérstaklega mikla þörf fyrir öryggi og stöðugleika í umhverfi sínu eins og rækilega sé lýst í sérfræðivottorðum í málinu. Ættleiðing sé meðal annars liður í því að útrýma óöryggi sem því fylgi að tilheyra tveimur fjölskyldum. Tengsl barnsins og stefndu væru afar sterk en á hinn bóginn væru lítil sem engin tengsl milli þess og stefnenda. Aðstæður hafi verið allsérstakar og hagur barnsins hafi mælt eindregið með ættleiðingu.
Því er mótmælt að aldrei hafi farið fram fullnægjandi könnun á því hvort drengurinn hafi lýst eigin afstöðu til samvista við stefnendur eða afstöðu stefndu. Málsgögn beri með sér hver afstaða drengsins hafi verið gagnvart stefnendum annars vegar og stefndu hins vegar. Í vottorðum sérfræðinga komi ótvírætt fram að vilji barnsins hafi staðið til þess að það öðlast þá stöðu sem ættleiðingin hefði í för með sér. Hvort sem drengurinn hafi haft þroska eða forsendur til að láta í ljós vilja sinn í þessum efnum eða ekki hafi það engin áhrif á ákvörðun ráðuneytisins um veitingu leyfis til ættleiðingar enda verði að byggja ákvörðun um það á fyrirliggjandi gögnum og mati á því hvað sé barninu fyrir bestu. Til að tryggja hagsmuni barnsins hafi því verið skipaður sérstakur talsmaður sem lýst hafi viðhorfi þess.
Stefndu mótmæla því og telja fjarstæðu að leyfisveitingin brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísa stefndu til þess að atvik í ættleiðingarmálinu hafi verið allsérstök. Dómsmálaráðuneytið hafi veitt ættleiðingarleyfið á grundvelli ítarlegrar könnunar á öllum fyrirliggjandi gögnum málsins eftir að hafa komist að því að ættleiðing væri barninu fyrir bestu. Ákvörðunin hafi verið byggð á málefnalegu mati á þeim gögnum sem fyrir hafi legið, jafnt lögboðnum gögnum og öðrum gögnum sem nauðsynleg hafi verið til að tryggja ráðuneytinu málefnalega yfirsýn, og hafi lögmæt sjónarmið verið ráðandi í hvívetna við ákvörðunartökuna. Engir ágallar hafi verið á meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Mati ráðuneytisins á að ættleiðing sé barni fyrir bestu verði ekki hnekkt af dómstólum heldur skeri dómstóll úr um það hvort réttra lagareglna hafi verið gætt við meðferð og úrlausn máls og hvort lagaskilyrðum hafi verið fullnægt.
Stefndu vekja athygli á því, að þeir einir geti höfðað mál í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978, til ógildingar á ættleiðingarleyfi, sem bærir væru til að samþykkja ættleiðinguna í samræmi við ákvæði 1. mgr. sömu lagagreinar, sbr. 7. og 10. gr. laganna.
Niðurstöður
Umsókn stefndu, X og Y, um að ættleiða fósturson sinn barst dómsmálaráðuneytinu hinn 16. desember 1998 þegar í gildi voru ættleiðingarlög nr. 15/1978 en þau hafa nú fallið úr gildi samkvæmt 42. gr. núgildandi laga um ættleiðingar nr. 130/1999. Var réttilega leyst úr umsókn stefndu, sem hafði borist ráðuneytinu fyrir gildistöku núgildandi laga, samkvæmt lögum nr. 15/1978 eins og mælt er fyrir um í 43. gr. laga nr. 130/1999. Ákvæði 13. gr. laga nr. 15/1978 um að heimilt sé að bera leyfisveitingu undir dómstól í tilteknum tilvikum stendur ekki í vegi fyrir því að borið sé undir dómstóla hvort réttra málsmeðferðarreglna og lagaskilyrða hafi verið gætt við útgáfu ættleiðingarleyfis enda skera dómstólar úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar.
Eins og hér að framan er rakið leitaði dómsmálaráðuneytið umsagna barnaverndarnefnda Garðabæjar og Reykjavíkur í tilefni af umsókn stefndu um ættleiðinguna í samræmi við 8. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978. Var þess farið á leit að barnaverndarnefnd Garðabæjar kannaði hagi og aðstæður stefndu og barnsins með tilliti til ættleiðingarbeiðninnar og gæfi ráðuneytinu umsögn sína þar að lútandi. Tilgangur umsagna barnaverndarnefnda er meðal annars að fyrir liggi viðeigandi upplýsingar um barnið og væntanlega kjörforeldra þegar metið er hvort ættleiðing verði barni til gagns sem er skilyrði ættleiðingar samkvæmt 2. gr. sömu laga. Lögmanni stefnenda var með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 18. nóvember 1999, sendar umsagnir barnaverndarnefndanna ásamt greinargerðum starfsmanna þeirra. Stefnendum var veittur frestur til 1. desember sama ár til að koma að athugasemdum við þessi gögn sem ljóst var að byggt yrði á við ákvörðun um útgáfu ættleiðingarleyfis. Athugasemdir stefnenda koma fram í bréfi lögmanns þeirra til ráðuneytisins, dagsettu 8. desember sama ár, en þær lágu fyrir við afgreiðslu ráðuneytisins á ættleiðingarbeiðninni. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnenda við meðferð málsins. Umsagnir barnaverndarnefndanna og önnur gögn veittu að mati ráðuneytisins fullnægjandi upplýsingar til að unnt væri að taka ákvörðun um ættleiðingarbeiðnina en stefndu hafa ekki sýnt fram á að könnun barnaverndarnefndanna hafi verið áfátt. Þá verður ekki talið að misbrestur hafi orðið á meðferð málsins vegna þess að ekki var aflað samþykkis barnaverndarráðs samkvæmt 2. mgr. 12. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 en það á aðeins við ef ekki fæst samþykki lögbærs aðila samkvæmt 7. og 10. gr. laganna eins og segir í lagaákvæðinu. Í 2. mgr. 7. gr. kemur fram að ekki þurfi samþykki foreldris, sem ekki fer með forsjá barns, en leita skal umsagnar þess samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga eins og gert var áður en ættleiðingarleyfið var gefið út.
Með ættleiðingu falla niður lagatengsl barns við kynforeldra samkvæmt þágildandi 1. mgr. 15. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978. Þegar skilyrðum ættleiðingar samkvæmt lögum er fullnægt standa hvorki ákvæði barnaverndarlaga um umgengi barns í fóstri við kynforeldra né samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem stefnendur vísa til, í vegi fyrir því að leyfi til ættleiðingar verði veitt. Ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sem stefnendur vísa einnig til, standa heldur ekki í vegi fyrir því að ættleiðingarleyfi verði veitt ef sýnt þykir að ættleiðing verði barni til gagns og öðrum skilyrðum fyrir ættleiðingu er fullnægt. Þetta leiðir einnig af meginreglunni um að þegar hagsmunir foreldra og barns fara ekki saman verði hagsmunir foreldranna að víkja fyrir hagsmunum barnsins.
Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til lögmanns stefnenda, dagsettu 29. mars 2000, kemur fram að það hafi verið mat ráðuneytisins að öllum gögnum málsins vandlega virtum með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, en jafnframt að teknu tilliti til sjónarmiða fósturforeldra og kynforeldra barnsins, að ættleiðing sé barninu fyrir bestu, m.a. vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hafi vegna heilsufars þess og með hliðsjón af aldri barnsins og því sem fram hafi komið um eindreginn vilja þess. Vísað er til þess sem komi skýrt fram í gögnum málsins um afstöðu drengsins til samskipta við kynforeldra og til ættleiðingar, m.a. í vottorðum sálfræðinga og af hálfu talsmanns drengsins, en ósk hans um ættleiðingu verði að teljast eindregin. Þá er vísað til umsagnar barnaverndarnefndar Garðabæjar þar sem fram kemur að á fundi nefndarinnar þann 28. september 1999 hafi nefndin mælt með því að stefndu verði veitt heimild til að ættleiða drenginn á grundvelli þeirrar könnunar sem fram hafði farið á vegum nefndarinnar. Einnig er vísað til umsagnar barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem fram komi í bókun nefndarinnar frá 12. október 1999. Þar segir að drengurinn hafi ætíð verið óöruggur og að hann þarfnaðist mikillar umönnunar en fósturforeldrar hafi lagt sig fram við að veita honum stöðugleika og öryggi og sinnt umönnun hans afar vel. Umgengni drengsins við kynforeldra hafi valdið honum miklum erfiðleikum en hann hafi sýnt mikla vanlíðan í tengslum við hana og verið lengi að ná fyrra jafnvægi eftir hana. Sálfræðiathuganir og viðtöl hafi leitt í ljós að drengurinn vilji ekki umgangast kynforeldra sína. Mat sálfræðings sé að fram hafi komið skýr vilji drengsins til að ættleiðing næði fram að ganga. Mælti nefndin með ættleiðingu drengsins en sú ráðstöfun þjónaði hagsmunum hans best. Umsögn nefndarinnar fylgdi greinargerð starfsmanns hennar sem dagsett er 21. september 1999. Í bréfi ráðuneytisins er vísað til þess að í greinargerðinni komi fram að drengurinn hafi greinst með Tourette-heilkenni. Vísað er einnig til vottorðs Ólafs Ó. Guðmundssonar, yfirlæknis á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, frá 5. október 1998 þar sem rakin er sjúkdómsgreining og að drengurinn þurfi viðvarandi stuðning í skóla og stöðugleika í fjölskylduumhverfi. Sérstaklega skuli varast skyndilegar breytingar á högum hans og vel þurfi að undirbúa nauðsynlegar breytingar. Hann hafi myndað góð en viðkvæm tengsl við kjörforeldra. Hins vegar sé ljóst að hann hafi átt mjög erfitt með að bregðast við umgengni við lífforeldra og hafi hann verið í miklu uppnámi eftir þau tímabil. Í vottorðinu kemur enn fremur fram að ekki eigi að leyfa umgengni lífforeldra við drenginn nema tryggt sé að líðan hans versni ekki. Stöðugleiki tilfinningatengsla og umhverfis sé einn mikilvægasti þátturinn hvað varðaði horfur drengsins.
Samkvæmt þessu hefur dómsmálaráðuneytið metið hvort fyrir hendi væri það skilyrði 2. gr. laga nr. 15/1978 að ættleiðing yrði barninu til gagns. Var niðurstaða ráðuneytsins að svo væri. Þetta var samkvæmt því sem fram hefur komið metið út frá þörfum og hagsmunum drengsins svo og öðrum aðstæðum hans. Sama á við um sambærileg tilvik, þau þarf að meta út frá þörfum og hagsmunum viðkomandi barns en ekki eingöngu eftir þeirri stöðu sem kynforeldrar barnsins eru í. Jafnræðisreglan, sem stefnendur vísa til, á því ekki við hér. Ekki verður fallist á að hagsmunir eða sjónarmið stefndu hafi haft þýðingu þegar ráðuneytið tók ákvörðun um að veita stefndu leyfi til að ættleiða drenginn en staðhæfingar stefnenda í þeim efnum eiga sér enga stoð í gögnum málsins.
Leitað var afstöðu drengsins til ættleiðingarinnar eins og fram kemur í greinargerð Sigtryggs Jónssonar sálfræðings frá 30. júní 1999. Þar segir að drengurinn sé ekki mjög ræðinn og ekki skilningsríkur á að ættleiðinguna þurfi að ræða en honum finnist augljóst að hann vilji verða ættleiddur af stefndu. Þótt hann geri sér ekki fulla grein fyrir þýðingu ættleiðingar þá viti hann að minnsta kosti að stefndu verði hans einu foreldrar, hann þurfi ekki að velta því fyrir sér hvort hann þurfi að hitta kynforeldra sína, hann muni erfa stefndu og að ættleiðing gangi ekki til baka eins og fóstur geti gert. Það sé augljóst af því hvernig drengurinn tali að hann vilji að ættleiðingin nái fram að ganga. Hann hafi svarað spurningum um það mjög ákveðið játandi. Ekki sé ástæða til að efast um vilja hans. Talsmaður drengsins gerði grein fyrir viðhorfi drengsins til ættleiðingar á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 5. október 1999 áður en nefndin veitti ráðuneytinu umsögn um ættleiðingarbeiðnina. Verður að telja að könnun á afstöðu drengsins hafi verið fullnægjandi og í samræmi við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992.
Með vísan til rökstuðnings ráðuneytisins og þeirra sérfræðiskýrslna, sem þar eru lagðar til grundvallar, verður ekki fallist á að önnur úrræði en ættleiðing hafi átt við um aðstæður drengsins og viðbrögð stefndu við þeim enda er það ekki skilyrði ættleiðingar að öðrum úrræðum en ættleiðingu verði ekki beitt til að ná sama markmiði og stefnt væri að í hverju tilviki með ættleiðingu. Ljóst er að tilgangur ættleiðingarinnar var að stuðla að bættum hag drengsins. Niðurstaða dómsmálaráðuneytisins var að ættleiðingin yrði drengnum til gagns. Meðalhófsreglan sem stefnendur vísa til kemur því ekki til álita í þessu sambandi.
Með vísan til alls þessa verður hvorki fallist á að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð og úrlausn málsins né að ólögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun dómsmálaráðuneytisins við útgáfu ættleiðingarleyfisins. Af þessu leiðir að ekki eru skilyrði til að fella ættleiðingarleyfið úr gildi. Ber samkvæmt því að sýkna stefndu af kröfum stefnenda í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu, X og Y, málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 380.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Rétt þykir hins vegar að málskostnaður milli málsaðila falli að öðru leyti niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Helga Birgissonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, íslenska ríkið, X og Y, skulu sýkn vera af kröfum stefnenda, K og M.
Stefnendur greiði stefndu, X og Y, 380.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður milli málsaðila fellur að öðru leyti niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Helga Birgissonar hrl., 400.000 krónur án virðisaukaskatts.