Hæstiréttur íslands

Mál nr. 225/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framlagning skjals
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. júní 2005.

Nr. 225/2005.

Guðrún Agnes Friðþjófsdóttir

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Kærumál. Framlagning skjala. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

G kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu hennar um að Í yrði gert að draga til baka tiltekin gögn, sem Í hafði lagt fram í máli G á hendur sér. Talið var að heimilt skorti til að kæra úrskurðinn og var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2005, þar sem héraðsdómari hafnaði kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að draga til baka sjúkraskrár vegna barnsfæðinga sóknaraðila 1980 og 1985, sem hann hafði lagt fram í máli sóknaraðila á hendur sér. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að draga umrædd gögn út úr málinu. Þá krefst hún kærumálskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Gjafsókn sóknaraðila er bundið við rekstur máls í héraði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru tæmandi taldar heimildir til að kæra til Hæstaréttar úrskurði, sem ganga undir rekstri einkamáls í héraði. Þar er ekki getið heimildar til að kæra úrskurði um það sem mál þetta varðar. Samkvæmt því brestur heimild til kæru í málinu, sem verður þannig vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2005.

         Mál þetta var tekið til úrskurðar 13. maí sl.

         Stefnandi er Guðrún Agnes Friðþjófsdóttir, kt. 070960-3039, Trönuhjalla 9, Kópavogi.

         Stefndi er íslenska ríkið.

         Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.218.899 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt skaðabótalögum, 2% frá 22. mars 1995 til 3. nóvember 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/200 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar ásamt  virðisaukaskatti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Mál þetta er skaðabótamál og höfðað á hendur stefnda vegna skaða sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir er hún fæddi barn sitt á fæðingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss 22. mars 1995.

 Í þinghaldi í málinu 15. apríl sl. var skorað á stefnda að draga til baka sjúkraskrár stefnanda vegna fæðingar 1980 og 1985, sem eru dskj. nr. 39 og 40 í málinu.  Var byggt á því að að framlagning þeirra væri heimildarlaus án samþykkis stefnanda, sem ekki lægi fyrir. Stefndi lýsti því yfir að ekki yrði orðið við þessari áskorun stefnanda og lýsti sig ósammála stefnanda um það að framlagning þeirra væri heimildarlaus.  Ágreiningsatriðið var lagt í úrskurð dómara eftir að lögmenn aðila höfðu tjáð sig þar um.

Í framlögðum gögnum af hálfu stefnanda er að finna umsagnir og álitsgerðir lækna, þar sem vísað er til fæðinga fyrri barna stefnanda árið 1980 og 1985. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á því að orsakatengsl kunni að vera milli skaða stefnanda vegna þeirrar fæðingar, sem málið er sprottið af og fyrri barnsfæðinga hennar.  Samkvæmt því og með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 51/1985 um ríkislögmann verður að telja að stefnda hafi verið heimilt að afla greindra sjúkraskráa án þess að sérstakt samþykkti stefnanda lægi því til grundvallar. Verður því að hafna þeirri kröfu stefnanda að stefnda verði gert að draga til baka sjúkraskrár stefnanda vegna fæðingar 1980 og 1985, sem eru dskj. nr. 39 og 40 í málinu. 

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er þeirri kröfu stefnanda að stefnda verði gert að draga til baka sjúkraskrár stefnanda vegna fæðingar 1980 og 1985, sem eru dskj. nr. 39 og 40 í málinu.